Hátíðarrit Orators 2020

Page 10

Hátíðarkveðja frá forseta Lagadeildar Dr. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor Ágætu laganemar. Hátíðisdagur laganema við Lagadeild Háskóla Íslands 16. febrúar á sér langa sögu, en sama dag fyrir réttum 100 árum fór fyrsta þinghaldið fram í Hæstirétti Íslands sem tók til starfa í ársbyrjun 1920. Í ár sem endranær gera laganemar hlé á námi sínu í febrúar til þess að taka þátt í fjölbreyttum og glæsilegum viðburðum í tengslum við afmæli réttarins. Ber þar vafalítið hæst glæsileg árshátíð laganema, móttaka erlendra laganema, fyrirlestrar og málþing. Þótt laganámið hafi gjörbreyst á síðustu árum er ljóst að gott og uppbyggilegt samtal nemenda og kennara um áframhaldandi þróun námsins er mikilvægt til að útskrifaðir lögfræðingar hafi þá þekkingu og færni sem að er stefnt með laganáminu. Einnig er rétt að hafa í huga að áskoranir samtímans eru sumar hverjar þess eðlis að þær kunna að hafa áhrif á inntak laganámsins. Samhliða þarf að tryggja að útskrifaðir lögfræðingar Lagadeildar hafi þá fræðilegu undirstöðu og færni sem geri þá í stakk búna til þess að stunda doktorsnám í lögfræði, hér á landi eða í útlöndum. 10

Á komandi árum mun eftirspurn eftir lögfræðingum sem lokið hafa doktorsprófi í lögum vafalítið aukast. Ef tekið er mið af þróuninni í nágrannalöndunum verður hún ekki bundin við akademísk störf því líklegt er að sóst verði eftir lögfræðingum með doktorspróf til þess að manna ákveðin embætti, þar með talin dómaraembætti við Hæstarétt Íslands. Jafnvel þótt deildin hafi boðið upp á skipulagt doktorsnám í meira en fimmtán ár er, enn sem komið er, takmarkaður áhugi meðal útskrifaðra lögfræðinga á doktorsnámi við deildina og það sama á við um doktorsnámið sem rekið er í samvinnu við lagadeild Kaupmannahafnarháskóla. Þetta kemur í raun ekki á óvart, meðal annars þar sem það getur verið vandkvæðum bundið fyrir nýútskrifaða lögfræðinga að fjármagna doktorsnám. Svo gera megi doktorsnám við deildina meira aðlaðandi er það stefna deildarinnar að á hverjum tíma verði einn doktorsnemi fjármagnaður af deildinni og hefur sú stefnumörkun gengið eftir. Kæru laganemar, ykkar bíður björt framtíð í námi og starfi og ég óska ykkur innilega til hamingju með árshátíðardaginn 16. febrúar.


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.