Þrettándablaðið 2022

Page 1

ÞRETTÁNDABLAÐIÐ 2022


ÞRETTÁNDAFÁNI Þrettándafáninn er til sölu á skrifstofu félagsins í Týsheimilinu, hann kostar 8.800 kr.

ÞRETTÁNDAGLEÐI ÍBV 2022 Þrettándagleði ÍBV verður með sama sniði og í fyrra en sökum veðurspár þá færum við hana til laugardagsins 8. janúar. Kveikt verður á kertunum á Molda kl. 19:00, í framhaldinu munu Jólasveinarnir horfa til byggða ofan af Há, til að geta veifað til barnanna og svo verður skotið upp flugeldum af Há, Helgafelli og Heimakletti. Við hvetjum ykkur til að virða fjöldatakmarkanir og sóttvarnir, og vinsamlegast safnist ekki saman í hópum til að fylgjast með. Það myndi gleðja okkur ef þeir sem eiga Þrettándafána myndu flagga þeim þennan dag, ef ykkur vantar einn slíkan þá eigum við nokkra til sölu á skrifstofu félagsins í Týsheimilinu.

Þrettándablaðið 2022 Útgefandi: ÍBV Íþróttafélag - knattspyrnudeild Ábyrgðarmaður: Guðmundur Tómas Sigfússon Ritstjóri: Guðmundur Tómas Sigfússon Auglýsingar: Guðmundur Tómas Sigfússon Forsíðumynd: Addi í London Ljósmyndir: Addi í London // Sigfús Gunnar Guðmundsson 2

Njótum í garðinum heima og höldum Þrettándakaffi með jólakúlunni okkar! Þrettándakveðja ÍBV Íþróttafélag


NÝTT ÁR FELUR Í SÉR TÆKIFÆRI Guðmundur Örn Jónsson sóknarprestur í Landakirkju: Enn er komið nýtt ártal sem við þurfum að læra að skrifa, æfa okkur í staðreyndinni að árið er liðið í tímasafnið, þetta sem kallað er aldanna skaut í sálminum góða, og kemur aldrei til baka. Það er vottur af hryllingi í þeim upplýsingum, aldrei til baka, ávallt og ævinlega farið, ekki hægt að bæta með beinum hætti það sem mistókst og fór aflaga. Beygur fer um huga, líka sorg vegna þeirra sem voru teknir frá okkur og vegna hins, sem við gátum ekki eða gerðum ekki. Svo eru líklega mörg okkar sem erum full af kvíða yfir komandi framtíð í covid faraldri. En ég vil trúa því að nýtt ár feli í sér tækifæri fyrir okkur á svo margan hátt. Stundum erum við reyndar óviðbúin nýjungum og viljum ekki opna. En nýtt ár er nánast eins og lítið barn, lítið vonarbarn, sem skellt er í fang okkar. Það er ómótað með sín spyrjandi barnsaugu. Hvað viltu gera með mig? Hvað viltu verða á árinu? Hvað viltu upplifa? Við erum flest seigt íhald þegar öllu er á botninn hvolt, án þess að ég ætli mér að skipa fólk í pólitískar fylkingar. En okkur er gjarnt að halda fast í hefðir, viljum ógjarnan verða eitthvað nýtt og óvænt, alls ekki missa heilsu, vinnu, forréttindi, hárið eða lífsmynstrið. Bara kíló og sorgir mega fara. En svo kemur hið nýja ár, sem knippi hins mögulega.

Við göngum sjálfsagt mörg inn í nýja árið með örlítinn kvíðahnút í maganum. Verðhækkanir, atvinnumissir, lokanir, tilslakanir, reiði og ásakanir eru meðal þess sem einkennt hafa umræðu ársins sem var að líða og margir óttast að varla taki betra við. En munum að við höfum flest haldið taktinn saman í gegnum covid-skaflana og við ættum að geta lært af fortíðinni og horft til framtíðar. Við höfum risið upp úr verri aðstæðum en þessum með Guðs hjálp. Hungursneyð, mannfellir, plágur og mun verri farsóttir hafa gengið yfir þjóðina í gegnum aldirnar, og ástandið hefur svo marg oft verið margfalt verra, nánast óyfirstíganlegt. En við höfum risið upp aftur. Þess vegna þurfum við að leggja áhyggjurnar í Guðs hendur og horfa fram á veginn. Hann mun vel fyrir sjá. Ég treysti því og trúi.

Sr. Guðmundur Örn Jónsson prestur í Landakirkju.

3



ANNÁLL ÁRIÐ 2022 Haraldur Pálsson framkvæmdastjóri ÍBV Íþróttafélags: Viðburðaríkt ár að baki sem verður minnst sem ár gleði og svekkelsis hjá félaginu. Aðeins munaði 6 dögum að haldin yrði Þjóðhátíð og aðeins munaði einu marki fyrir bæði handboltalið karla og kvenna að þau kæmust í úrslitarimmuna. Ríkjandi Íslandsmeistarar höfðu betur í báðum undanúrslitaviðureignum, það má því gera sér í hugarlund hvernig það hefði geta endað. Það var mikil gleði þegar ljóst var að kvennalið ÍBV í knattspyrnu væri öruggt í deild þeirra bestu og ekki síður þegar ÍBV tryggði sér endurkomuna heim í úrvalsdeild karla þann 11. september. Það er ljóst að mikill efniviður er í félaginu, yngri flokkarnir eiga iðkendur í flestum yngri landsliðum Íslands bæði í handknattleik og knattspyrnu. Það er því bjart yfir framtíð félagsins ef fram heldur sem horfir. Janúar Á lokametrunum var línumaðurinn knái, Kári Kristján Kristjánsson valinn í lokahóp Íslands fyrir HM í Egyptalandi. Vegna samkomutakmarkana gat Þréttándahátíð ÍBV og Íslandsbanka ekki farið fram með hefðbundnu sniði í upphafi ársins, líkt og venja er fyrir. Sigurður Arnar Magnússon framlengdi samning sinn við meistaraflokk karla í knattspyrnu. HSÍ tilkynnti hópana fyrir verkefni sumarsins í yngri landsliðum, ÍBV átti þar 19 iðkendur í U-21, U-19 og U-17 landsliðum Íslands.

KSÍ valdi í útrakshópa sem fóru fram í janúar. ÍBV átti fulltrúa í U-16, U-17 og U19 landsliðum kvenna. U-16 kvenna, Berta Sigursteinsdóttir, U-17 kvenna, Helena Jónsdóttir og U-19 kvenna: Þóra Björg Stefánsdóttir, Clara Sigurðardóttir og Ragna Sara Magnúsdóttir. Þeir Adam Smári Sigfússon, Dagur Einarsson, Einar Þór Jónsson, Haukur Helgason og Karl Jóhann Örlygsson skrifuðu undir 2ja ára samninga við knattspyrnudeild ÍBV. Haraldur Pálsson var ráðinn framkvæmdastjóri ÍBV Íþróttafélags. Febrúar Íva Brá Guðmundsdóttir, Margrét Helgadóttir, Rakel Perla Gústafsdóttir voru valdar í æfingahóp U-15 KSÍ. Eyþór Orri Ómarsson var valinn í U-18 æfingahóp KSÍ og Tómas Bent Magnússon var valinn í æfingahóp U-19 landsliðs Íslands. Knattspyrna kvenna samdi við tvo landsliðsmenn Lettlands fyrir átök sumarsins í Pepsi deild kvenna, þær Viktorija Zaičikova og Lana Osinina. Auður Scheving framlengdi einnig lánssamning sinn við liðið ásamt því sem Díana Helga Guðjónsdóttir endurnýjaði leikmannasamning sinn til eins árs þar að auki gekk varnarmaðurinn Liana Hinds til liðs við félagið. Rúnar Kárason samdi við ÍBV í handbolta til 3 ára en hann hafði áður verið á mála hjá Fusche Berlin, Bergischer HC, Grosswalstadt, Rhein Neckar Löwen, TSV Hannover-Burgdorf og síðast RiseEsbjerg HH

5


Mars Fleiri komu inn í æfingahópa yngri landsliða hjá knattspyrnusambandi Íslands. Þau Tómas Bent Magnússon (U-19), Clara Sigurðardóttir (U-19), Ragna Sara Magnúsdóttir (U-19), Helena Jónsdóttir (U-17) og Þóra Björg Stefánsdóttir (U-17). Í handboltanum voru 12 iðkendur félagsins fæddir 2007 kallaðir inn í hæfileikamótun HSÍ, þau Andri Erlingsson, Andri Magnússon, Elís Þór Aðalsteinsson, Filip Ambroz, Kristján Logi Jónsson, Alexandra Ósk Viktorsdóttir, Anna Sif Sigurjónsdóttir, Ásdís Halla Pálsdóttir, Bernódía Sif Sigurðardóttir, Birna Dís Sigurðardóttir, Birna María Unnarsdóttir og Sara Margrét Örlygsdóttir. Sóknarmaðurinn Delaney Baie Pridham gekk til liðs við ÍBV í knattspyrnu, hún átti heldur betur eftir að reynast liðinu vel og var að lokum seld út til Svíþjóðar á tímabilinu. Halldór Páll Geirsson markvörður ÍBV í knattspyrnu framlengdi samning sinn til 3 ára. Bakslag kom í mótahald í handknattleik þar sem sóttvarnaraðgerðir voru stórhertar. Dánjal Ragnarsson skrifaði undir 3 ára samning við handknattleikslið ÍBV og Theodór Sigurbjörnsson framlengdi til næstu tveggja ára. Apríl Harpa Valey Gylfadóttir, Róbert Sigurðsson og Friðrik Hólm framlengdu samninga sína við handknattleiksdeild. ÍBV hélt áfram að styrkja sig fyrir átök sumarsins. Guðjón Pétur Lýðsson gekk til liðs við félagið og var síðar valinn ÍBVari ársins á lokahófi knattspyrnudeildar. Annie Williams gekk til liðs við félagið, þá komu Kristjana Kristjánsdóttir Sigurz og Stefán Ingi Sigurðarsson á láni frá Breiðabliki. Olís deildin fór loks aftur af stað eftir rúmlega mánaðar langt hlé og þurfti að endurskipuleggja úrslitakeppnina. Maí Atli Hrafn Andrason og Seku Conneh gengu til liðs við knattspyrnulið karla, þá komu Hrafnhildur Hjaltalín og Kristina Erman til liðs við ÍBV í knattspyrnu kvenna. 6

Sveinn Jose Rivera framlengdi samning sinn við handknattleiksdeild og Hákon Daði Styrmisson gerði tveggja ára samning við Gummersbach í Þýskalandi. Markvörðurinn Björn Viðar Björnsson framlengdi samning sinn við handknattleiksdeildina. Meistaraflokkur kvenna vann Stjörnuna í 6-liða úrslitum úrslitakeppninnar og mætti svo verðandi Íslandsmeisturum KA/Þórs í æsispennandi viðureign. ÍBV vann fyrstu viðureigina fyrir norðan, en stuðningsmenn fylltu 76 sæta vél sem flaug beint norður úr Eyjum, þá tapaðist heimaviðureignin og var spenna fram í lokin. Stuðningsmenn félagsins létu sitt ekki eftir liggja og fylltu aðra 76 sæta flugvél norður. Svo fór að aðeins munaði einu marki í lokaleiknum að ÍBV hefði komist í úrslitin gegn Val. En KA/Þór sló ÍBV út 28-27 í oddaleiknum. Sala á Þjóðhátíð í Eyjum fór gríðarlega vel af stað og hefur aldrei verið eins mikil eftirspurn eftir miðum á hátíðina á fyrsta degi í forsölu. Júní Aðalfundur félagsins fór fram miðvikudaginn 2. júní og voru venjuleg aðalfundarstörf á dagskrá, en honum hafði þurft að fresta vegna samkomutakmarkana. Formaður félagsins fór yfir skýrslu stjórnar og Hörður fráfarandi framkvæmdastjóri fór yfir ársreikning vegna ársins 2020. Framkvæmdastjóri félagsins fór yfir fjárhagsáætlun ársins 2021. Þær breytingar urðu á stjórn félagsins að Stefán Örn Jónsson, Snjólaug Elín Árnadóttir og Guðbjörg Erla Ríkharðsdóttir sögðu skilið við stjórnarsetu í félaginu. Inn komu Örvar Omrí Ólafsson, Magnús Stefánsson og Jónas Guðbjörn Jónsson Stjórn félagsins er skipuð: Þór Í. Vilhjálmsson Formaður Guðmunda Bjarnadóttir Örvar Omrí Ólafsson Katrín Harðardóttir Björgvin Eyjólfsson Magnús Stefánsson Varamaður Jónas Guðbjörn Jónsson Varamaður Einnig eiga deildir félagsins tvo áheyrnarfulltrúa í stjórn félagsins. Stelpurnar í 5. flokki kvenna eldri urðu Íslandsmeistarar í handbolta undir leiðsögn Hrafnhildar Óskar Skúladóttur og Hákons Daða Styrmissonar.


Aníta Björk Valgeirsdóttir gerði tveggja ára samning við meistaraflokk kvenna í handboltanum, hún var ein af lykilmönnum í árangri 3. flokks sem urðu Íslandsmeistarar í sama mánuði. Liðið samdi einnig við margfaldan Serbíumeistara í handknattleik kvenna en Maria Jagodica Jovanic samdi til 2 ára við félagið. Meistaraflokkur karla í handboltanum sló FH út í 8-liða úrslitum á fleiri mörkum skoruðum á útivelli. Við tók æsispennandi undanúrslitarimma gegn Val, ÍBV tapaði fyrri leiknum með 3 mörkum eða 25-28 í Vestmannaeyjum en vann 27-29 á Hlíðarenda og áttu möguleika á því að skora sigurmarkið í lokasókninni sem því miður misfórst. Frábær árangur og voru einni klippingu frá því að komast í úrslitin, en Valur hafði betur gegn Haukum í úrslitunum. Ótrúlegt handboltavor þar sem bæði karla og kvennaliðin voru hársbreidd frá því að keppa til úrslita um Íslandsmeistaratitlana. Í fótboltanum voru Ragna Sara Magnúsdóttir og Helena Jónsdóttir valdar í æfingahóp U19 landsliðs kvenna. Þjálfararnir Andri Ólafsson og Birkir Hlynsson létu af störfum sem þjálfarar knattspyrnuliðs kvenna þegar 8 leikir voru liðnir af Íslandsmótinu, í kjölfarið tók Ian Jeffs við sem þjálfari liðsins og stýrði því út tímabilið ásamt Birki sem snéri aftur til starfa sem aðstoðarþjálfari. TM-mótið og Orkumótið fóru fram með örlítið breyttu sniði en áður vegna samkomutakmarkana. Í fyrsta skipti var TM-mótið fjölmennara en Orkumótið, 1078 stelpur tóku þátt í mótinu í ár sem er fjölmennasta pæjumót frá upphafi og ljóst er að kvennaknattspyrna er í miklum vexti hér á landi. Lokahóf handknattleiksdeildar fór fram með hefbundnu sniði. Verðlaunahafar voru: Meistaraflokkur karla: Besti leikmaður: Hákon Daði Styrmisson Fréttabikarinn: Ívar Logi Styrmisson ÍBV-ari: Fannar Þór Friðgeirsson Mestu framfarir: Sæþór Páll Jónsson Meistaraflokkur kvenna: Besti leikmaður: Marta Wawrzynkowska Fréttabikarinn: Elísa Elíasdóttir ÍBV-ari: Erika Ýr Ómarsdóttir Mestu framfarir: Harpa Valey Gylfadóttir

3. flokkur kvenna: Besti leikmaður: Þóra Björg Stefánsdóttir Efnilegasti leikmaður: Amelía Einarsdóttir

ÍBV-ari: Aníta Björk Valgeirsdóttir Mestu framfarir: Tara Sól Úranusdóttir 3. flokkur karla: Besti leikmaður: Gauti Gunnarsson Efnilegasti leikmaður: Elmar Erlingsson ÍBV-ari: Breki Þór Óðinsson Mestu framfarir: Adam Smári Sigfússon Júlí Mikil vinna fór fram hjá sjálfboðaliðum félagsins við að undirbúa Herjólfsdal fyrir Þjóðhátíð, enda voru stjórnvöld búin að aflétta öllum sóttvarnarráðstöfunum á landamærum og innanlands. Aðeins einni viku fyrir Þjóðhátíð hittist ríkisstjórn Íslands á fundi á Hótel Valaskjálf, þann 23. júlí og voru samkomutakmarkanir settar á aftur, þrátt fyrir fögur loforð um annað fram að því. 75 einstaklingar höfðu greinst smitaðir í landinu 22. júlí með COVID-19. Þjóðhátíðarnefnd ákvað að fresta hátíðinni til næsta mánaðar, en hún var að lokum slegin af þegar stjórnvöld framlengdu aðgerðum enn frekar. Ég vil senda sérstakar þakkir til allra þeirra sem leggja hönd á plóg við að gera þessa hátíð mögulega ár frá ári, ekki síst nú þegar fólk fékk ekki uppskeruna að launum, sjálfa Þjóðhátíðina. Lina Cardell framlengdi samning sinn við félagið um 2 ár í handboltanum og Ísak Andri Sigurgeirsson kom til ÍBV á láni frá Stjörnunni í fótboltanum, Skuldarinn reyndist félaginu vel á sínum heimaslóðum og komst að lokum í lokahóp U-19 landsliðsins. En hann er barnabarnabarn Sigurgeirs í Skuld. Ágúst Amelía Einarsdóttir, Elísa Elíasdóttir, Sara Dröfn Richardsdóttir og Þóra Björg Stefánsdóttir, kepptu fyrir Íslandshönd í B-deild Evrópumóts 17 ára landsliða í handbolta. Gauti Gunnarsson og Arnór Viðarsson fóru á EM í Króatíu með U19 ára landsliði HSÍ. Ráðstafanir vegna samkomutakmarkana voru framlengdar enn frekar og Þjóðhátíð slegin af eins og áður sagði.

7



September Ragna Sara Magnúsdóttir og Þóra Björg Stefánsdóttir voru kallaðar í U-19 ára landsliðshóp KSÍ sem hélt til Serbíu í undankeppni fyrir aðgöngu að EM 2022. Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu endaði sumarið í 7. sæti í Pepsi Max deild kvenna. Helgi Sigurðsson sem hafði verið þjálfari ÍBV undanfarin tvö tímabil sagði starfi sínu lausu og Ian David Jeffs gerði það einnig, en hann hafði starfað sem bæði þjálfari og aðstoðarmaður í meistaraflokki karla og sem aðalþjálfari meistaraflokks kvenna 2015-2018 og aftur seinni hluta tímabils 2021. Grímur Hergeirsson kom inn í þjálfarateymi í handbolta karla sem aðstoðarmaður Erlings Richardssonar. Ingibjørg Olsen gekk til liðs við félagið sem vinstri hornamaður og Ólöf Maren Bjarnadóttir kom til félagsins á láni frá Íslandsmeisturum KA/Þórs. Meistaraflokkur karla í knattspyrnu tryggði endurkomu sína í efstu deild í 20. umferð með 3-2 sigri á Þrótti Reykjavík þann 11. september. Brennugengið kveikti í brennunni á Fjósakletti þann 11. september kl 21:00, fólk dreifði sér vel um dalinn og virti fjarlægðarmörk milli manna, enda voru samkomutakmarkanir enn við lýði. Lokahóf knattspyrnudeildar fór fram með hefbundnum hætti í lok mánaðarsins. Verðlaun fengu: Meistaraflokkur kvenna: Besti leikmaðurinn: Olga Sevcova ÍBV-ari: Clara Sigurðardóttir

Markahæsti leikmaðurinn: Viktorija Zaicikova

Fréttabikarinn / efnilegasti leikmaðurinn: Þóra Björg Stefánsdóttir

Meistaraflokkur karla: Besti leikmaðurinn: Eiður Aron Sigurbjörnsson ÍBV-ari: Guðjón Pétur Lýðsson Markahæsti leikmaðurinn: Sito Fréttabikarinn / efnilegasti leikmaðurinn: Guðjón Ernir Hrafnkellsson 2. flokkur kvenna: Besti leikmaðurinn: Helena Jónsdóttir ÍBV-ari: Thelma Sól Óðinsdóttir Efnilegasti leikmaðurinn: Ragna Sara Magnúsdóttir Markahæsti leikmaðurinn: Selma Björt Sigursveinsdóttir 2. flokkur karla: Besti leikmaðurinn: Björgvin Geir Björgvinsson ÍBV-ari: Dagur Einarsson Efnilegasti leikmaðurinn: Haukur Helgason Markahæsti leikmaðurinn: Andrés Marel Sigurðsson Félagsfundur var haldinn í lok september þar sem félagsfundur ályktaði um breytingar á skipulagi á svæðinu og framtíðarsýn félagsins í mannvirkjamálum. Félagsfundurinn ályktaði meðal annars að leggja skyldi gervigras á Hásteinsvöll og setja upp flóðljós við völlinn, byggt yrði félagsheimili við Hásteinsvöll og ný handknattleikshöll suður af því. Þá yrði Herjólfshöll stækkuð til vesturs líkt og getið er um í gildandi deiliskipulagi Vestmannaeyjabæjar. Október Hermann Hreiðarson var ráðinn aðalþjálfari ÍBV í knattspyrnu karla en hann flutti með fjölskyldu sína til Vestmannaeyja í lok ársins. Hann kemur reynslunni ríkari heim, en hann þjálfaði liðið síðast árið 2013.

Hanna Kallmaier framlengdi samning sinn við knattspyrnudeild kvenna, en hún hefur verið mikilvægur hlekkur í liðinu undanfarin tvö tímabil. Íva Brá Guðmundsdóttir og Inga Kristjánsdóttir Sigurz komu inn í æfingahóp KSÍ í U-16 lið kvenna. Þær Harpa Valey Gylfadóttir, Elísa Elísdóttir og Sunna Jónsdóttir voru í leikmannahóp A-landsliðs kvenna í handknattleik sem lék í undankeppni fyrir EM 2022. Nóvember Andri Magnússon og Elís Þór Aðalsteinsson voru valdir í verkefni hjá U-15 ára landsliði HSÍ, Andrés Marel Sigurðsson og Elmar Erlingsson fóru til Frakklands og kepptu þar með U-18 ára landsliði HSÍ. Arnór Viðarsson og Gauti Gunnarsson fóru til Danmerkur með U-20 landsliði HSÍ. Amelía Dís Einarsdóttir, Elísa Elíasdóttir, Sara Dröfn Richardsdóttir og Þóra Björg Stefánsdóttir kepptu með U-18 ára landsliði Íslands í handknattleik kvenna í undankeppni fyrir EM sem fram fór í Serbíu. Birna María Unnarsdóttir og Elísabet Rut Sigurjónsdóttir voru valdar í æfingahóp KSÍ hjá U-15 kvenna. Alex Freyr Hilmarsson gekk til liðs við ÍBV frá KR, hann gerði 3 ára samning og flytur til Vestmannaeyja með fjölskyldu sína. Jonathan Glenn tók við sem aðalþjálfari meistaraflokks kvenna. Helena Jónsdóttir, Ragna Sara Magnúsdóttir og Þóra Björg Stefánsdóttir voru kallaðar inn í leikmannahóp U-19 kvenna hjá KSÍ.

9



Desember Knattspyrnudeildin framlengdi samninga sína við Olgu Sevcovu, Viktoriju Zaicikovu, Júlíönu Sveinsdóttur og Guðnýju Geirsdóttur. Þá gerði deildin samninga við bandaríska sóknarmanninn Sydney Carr en hún var markahæsti leikmaður WAC deildarinnar tímabilið 2020-21 fyrir lið sitt Seattle University. Halldór Jón Sigurður Þórðarson kom til ÍBV frá Víkingi en þessi kraftmikli leikmaður lék 11 leiki á síðasta timabili með tvöföldum meisturum Víkings. Andri Rúnar Bjarnason gerði 3 ára samning við félagið, en hann hafði verið á mála hjá Esbjerg og Helsingborg þar sem hann varð markahæsti leikmaður í 1. deildinni í Svíþjóð árið 2018, hann jafnaði auk þess markametið í efstu deild árið 2017 með Grindavík. Andri flytur til Vestmannaeyja með fjölskyldu sína. Þá kom Dave Bell inní þjálfarateymi meistaraflokks karla sem aðstoðarþjálfari auk þess sem Daninn Mikkel Hasling skrifaði undir samning sem markmannsþjálfari hjá félaginu. Mig langar að lokum þakka öllum starfs-, stjórnar, nefndar, ráðsmönnum og öðrum sjálfboðaliðum hjá ÍBV íþróttafélagi fyrir samstarfið á árinu sem leið. Félagið er mjög lánsamt að njóta ykkar starfskrafta. ÍBV er áfram í fremstu röð í fótbolta og handbolta karla og kvenna, það er gott ungmennastarf sem fer fram hjá félaginu eins og sjá má í samtekt þessa annáls fyrir árið 2021. Við tökum fagnandi á móti nýju ári með von um betri tíð, svo halda megi Þjóðhátíð. Áfram ÍBV Haraldur Pálsson Framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags.

11


12

Sendum bæjarbúum bestu nýársóskir

Sendum bæjarbúum bestu nýársóskir

Sendum bæjarbúum bestu nýársóskir

Sendum bæjarbúum bestu nýársóskir

Sendum bæjarbúum bestu nýársóskir

Sendum bæjarbúum bestu nýársóskir


SKEMMTILEGAR MYNDIR FRÁ ÞRETTÁNDANUM Addi í London tók myndirnar

13


Eftirtaldir aðilar senda bæjarbúum bestu nýársóskir

NARFI ehf.

14

FRÁR VE 78


SPURT & SVARAÐ Hvað var það besta sem þú fékkst í skóinn? Mér fannst alltaf gaman að fá dót eða nammi. Ertu hrædd við Grýlu og Leppalúða? Já, mjög. Hvað er skemmtilegast við jólin? Vera með fjölskyldunni og borða góðan mat. Hvað er í matinn hjá ykkur á jólunum? Við erum alltaf með hamborgarhrygg á aðfangadag. Heldur þú að Grýla og Leppalúði séu góð í fótbolta? Nei það held ég nú ekki. Hver er uppáhalds liðsfélaginn þinn hjá ÍBV? Rakel Perla og Ragna Sara. Hefur eitthvað tröll náð þér á þrettándanum? Nei.

KRISTJÁN INGI KJARTANSSON

Hverjir eru uppáhalds leikmennirnir þínir í ÍBV? Í handboltanum er það hún Katla Arnarsdóttir og í fótboltanum var það hún DB þegar hún var að spila með ÍBV og auðvitað Jonni bróðir minn.

INGA DAN INGADÓTTIR

Hver er uppáhalds jólasveinninn þinn? Kertasníkir.

Hver er uppáhalds jólasveinninn þinn? Bjúgnakrækir. Hvað var það besta sem þú fékkst í skóinn? Fékk einu sinni Happaþrennu og vann 100kr. Ertu hræddur við Grýlu og Leppalúða? Skíthræddur. Hvað er skemmtilegast við jólin? Maturinn, pakkarnir og Die Hard maraþonið. Hvað er í matinn hjá ykkur á jólunum? Ávallt hamborgarhryggur. Heldur þú að Grýla og Leppalúði séu góð í fótbolta? Já bæði ung og efnileg. Hver er uppáhalds liðsfélaginn þinn hjá ÍBV? Þeir eru allir frábærir. Hefur eitthvað tröll náð þér á Þrettándanum? Já þau ná mér alltaf. Hverjir eru uppáhalds leikmennirnir þínir í ÍBV í handbolta og fótbolta? Í handboltanum er það vinur minn Einar Þór og í fótboltanum er það Eyþór bróðir minn.

15


ÍBV UNDIRBJÓ MIG VEL FYRIR ATVINNUMENNSKUNA Hákon Daði Styrmisson leikmaður Gummersbach í Þýskalandi Við spjölluðum við Hákon Daða Styrmisson, handknattleiksmann, sem leikur með Gummersbach í Þýskalandi. Liðið hans stefnir beinustu leið upp í efstu deild en Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson er einnig hjá liðinu sem er þjálfað af Guðjóni Vali Sigurðssyni. Grátlegar lokasekúndur ÍBV var í mikilli baráttu í úrslitakeppni Íslandsmótsins snemma á árinu og var liðið grátlega nálægt því að slá Valsmenn úr leik í undanúrslitum en þeir unnu síðan Hauka í úrslitum. ÍBV var með boltann og þurfti eitt mark til að slá út Valsmenn á síðustu sekúndunum. Allt kom fyrir ekki og leiktíminn kláraðist, hvernig leið mönnum eftir þann leik? „Við vorum á ótrúlega flottu róli í úrslitakeppninni, hvernig við tökum FHingana og hvernig við erum með Valsmennina í greipum okkar. Við ösnuðumst til þess að klúðra því og það var ekki meant to be. Ég var ógeðslega svekktur og leiður að ná ekki að komast lengra, mér fannst við hafa hópinn og chemestry-ið sem þurfti til að fara alla leið. Það var mikið af tilfinningum eftir leik.“ „Við komumst áfram í bikarnum og gekk allt í lagi í deildinni. Úrslitakeppnin var mjög góð, við vorum massífir þó að það megi alltaf eitthvað betur fara. Tímabilið var allt í lagi sem slíkt en það er leikurinn á móti Val og þetta augnablik sem fór með þetta,“ sagði Hákon en stuðningsmenn liðsins geta verið stoltir af framgöngu ÍBV í úrslitakeppninni þar sem liðið er alltaf framarlega. Gummersbach sýndi Hákoni áhuga 16

snemma á árinu en í byrjun maí var tilkynnt að hann myndi ganga til liðs við félagið. „Ég var farinn að heyra af einhverjum áhuga eftir landsleikinn sem ég spilaði á móti Litháen. Það gerðist ekkert fyrr en í apríl, þegar þetta með Gummersbach kemur upp, Guðjón Valur hringdi í mig og spurði hvort ég væri ekki til í að taka slaginn með þeim á nýju tímabili. Þetta var engin spurning eftir það, ég fann að ég myndi fá tækifæri þarna til að sýna hvað ég get. Sem hornamaður er erfitt að komast út og halda sér úti, en þetta fannst mér vera gott tækifæri fyrir mig til að sýna að ég gæti það,“ sagði Hákon en hann ræddi málin við Erling Richardsson og Kára Kristján Kristjánsson, þeir komust að því saman að þetta væri það réttasta í stöðunni. Frábær undirbúningur hjá ÍBV fyrir atvinnumennskuna Hákon segist hafa fljótlega tengst liðsfélögum sínum vel í vikuferð sem farin var til Austurríkis. „Þegar ég kom út þá fórum við í hlaupaog lyftingatest sem mér gekk vel í. Eftir það fórum við í viku til Austurríkis þar sem ég var með Raul Santos, sem er líka vinstri hornamaður, það hjálpaði helling að þjappa hópnum saman. Við æfðum tvisvar á dag alla dagana, mér gekk síðan vel í byrjun að spila í leikjunum, það hjálpaði mér mikið til að tengjast öllum leikmönnunum.“ Hákon segir það hafa hjálpað honum mikið að Guðjón Valur og Elliði séu þarna úti með honum. „Það hjálpaði mér mikið að vera með Íslendingum hérna, það er gríðarlega gott að vera með Elliða hérna og eins


Guðjón. Það hjálpaði mér líka mikið að taka ákvörðunina að fara út að vera með Íslending í liðinu og algjör plús að vera með Íslending að þjálfa líka. Hvað þá að vera með Guðjón Val sem þjálfara, allir íþróttaunnendur bera mikla virðingu fyrir honum og það sést hvert sem við förum.“ Hákon segir undirbúninginn sem hann fékk í Vestmannaeyjum og hjá ÍBV fyrir atvinnumennskuna hafa verið frábæran. „Það er enginn staður finnst mér betri en Vestmannaeyjar á Íslandi sem undirbýr þig jafnvel undir atvinnumennsku. Hvernig er æft, undirbúningur fyrir leiki, styrkur, endurheimt, fólkið sem heldur utan um klúbbinn og handknattleiksdeildina gerir þetta virkilega pro. Það er geggjað fyrir unga leikmenn að koma til Vestmannaeyja og prófa að vera hér. Donni hafði mjög gott af þessu til dæmis og þetta mótaði hann til að fara út í atvinnumennsku myndi ég segja. Hann kom hingað, lyfti almennilega og æfði almennilega, það eru líka minni freistingar að vera að fara hingað eða þangað með vinunum. Aðalatriðið er að fókusinn er alltaf á því sem þú ert að stefna á. Þetta er svona umhverfi sem sjálfboðaliðar og fólkið í kringum klúbbinn býr til. Erlingur, Addi P, Gunni Magg, Siggi Braga og fleiri sem hafa unnið markvisst að því að gera þetta að besta umhverfinu sem hægt er að hafa og mér finnst það sannarlega vera þannig.“

Draumur fyrir klúbbinn að komast í efstu deild á ný Hákon fór frábærlega af stað á tímabilinu með Gummersbach áður en hann meiddist hræðilega og verður ekki meira með á leiktíðinni. Hann var á topp 20 yfir markahæstu leikmenn þýsku 2. deildarinnar og stefnir liðið á að komast upp um deild í vor. Var markaskorun eitthvað sem Hákon var að spá í?

Gummersbach er á toppnum í deildinni, staðan er því góð fyrir liðið og þeir á réttri leið til að ná markmiði sínu. „Við erum með átta mínus punkta, það eru alveg fjórir punktar sem hefðu ekki átt að tapast. Við erum með liðið og liðsheildina til að geta komist upp, við ætlum okkur upp. Það væri frábært að vera í efstu deild þegar ég kem til baka, á stóra sviðinu. Það er draumurinn fyrir klúbbinn og markmiðin skýr með því sem klúbburinn hefur sett í þetta verkefni.“

Mikið af góðum leikmönnum sem ýta við manni Hákon segir erfitt að útskýra hver sé mesti munurinn á ÍBV og Gummersbach. „Ég hef oft velt þessu fyrir mér og það er erfitt að útskýra þetta, gæðin eru auðvitað meiri hérna úti. Ég held að það séu fleiri leikmenn með meiri gæði inni á æfingunum, ég hef þó verið frekar stutt úti og erfitt fyrir mig að segja mikið. Maður hefur samt upplifað það sjálfur hérna að það er rosalega mikið af góðum leikmönnum sem ýta við manni og hjálpa manni áfram.

„Ég pældi ekkert mikið í því, ég var miklu meira fókuseraður á það að spila vel og að liðinu gengi vel. Fókusinn var að koma liðinu upp um deild, það gerist samt oft að þegar liðinu gengur vel að þá spilar maður sjálfur vel. Eitt af því sem ég get gefið liðinu er að skora og það skilaði mér ofarlega á markalistann í deildinni, það hefði verið draumur í dós að geta endað ofarlega á þeim lista.“

17


Eftirtaldir aðilar senda bæjarbúum bestu nýársóskir Þórunn Sveins

Bíla og vélaverkstæði

HARÐAR OG MATTA

HELLUGERÐ AGNARS

Bylgja VE 75

18


SKEMMTILEGAR MYNDIR FRÁ ÞRETTÁNDANUM Addi í London tók myndirnar

19


ALLTAF MARKMIÐ AÐ KOMAST Í A-LANDSLIÐIÐ Harpa Valey Gylfadóttir leikmaður ÍBV og íslenska landsliðsins Landsliðið hjálpaði mér að þroskast

Harpa Valey Gylfadóttir hefur átt frábært ár en hún fékk tækifæri með Alandsliði kvenna hjá Eyjamanninum Arnari Péturssyni og hefur heldur betur fest sig í sessi í liðinu. Harpa var einnig einn af máttarstólpum ÍBV er liðið fór alla leið í undanúrslitaeinvígið gegn KA/ Þór, sem endaði á því að verða Íslandsmeistari. Stelpurnar í ÍBV voru grátlega nálægt því að tryggja sér sæti í úrslitaeinvíginu en umdeildur dómur á lokasekúndum leiks 3 kom í veg fyrir það. Við spjölluðum við Hörpu um árið og hennar framtíðarplön.

20

Harpa segir að árið í ár hafi verið frábrugðið öðrum. „Ég myndi segja að þetta ár hafi verið frábrugðið síðustu árum hjá mér vegna þess að þrátt fyrir allt þetta covid ástand hef ég aldrei farið jafn oft til útlanda á einu ári og voru allar þessar ferðir tengdar handboltanum hjá mér, sem var geggjuð tilbreyting á þessum tímum.“ Það er margt sem hefur staðið upp úr á árinu hjá Hörpu. „Eitt af því sem mér finnst standa upp úr á þessu ári er auðvitað að vera valin í A landsliðið, einnig útskrifaðist ég úr framhaldskólanum í vor og að lokum finnst mér öll ferðalögin standa mikið uppúr. Þetta voru ótrúlega skemmtileg ferðalög og mér finnst alltaf jafn gaman að ferðast og sjá nýja staði,“ sagði Harpa

sem fór víða með ÍBV og landsliðinu á árinu. Harpa var spurð hvort að markmiðið hafi verið að komast í A-landsliðið og var hún ekki í nokkrum vafa um það. „Já að sjálfsögðu, ég stefndi alltaf þangað, ég man eftir því þegar ég var að byrja í yngri landsliðum að ég hafði alltaf það markmið að komast í A landsliðið.“ Finnst Hörpu hún hafa þroskast mikið með auknu hlutverki hjá ÍBV og landsliðinu? „Ég myndi segja að landsliðið hafi hjálpað mér mjög mikið að vaxa sem leikmaður, mér finnst ég hafa þroskast meira. Auðvitað er það geggjað að fá að æfa og keppa með öllum þessum frábæru leikmönnum og læri ég einnig mikið af þeim.“


FÆR MIKINN STUÐNING FRÁ LIÐSFÉLÖGUM OG ÞJÁLFURUM Hefur fulla trú á að liðið stígi upp eftir áramót ÍBV missti tvo af bestu leikmönnum liðsins í meiðsli rétt fyrir og í byrjun tímabilsins og voru það mikil vonbrigði fyrir þá sem að liðinu koma. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Birna Berg Haraldsdóttir áttu að vera lykilleikmenn í liðinu á leiktíðinni en þær verða eflaust að bíða eftir næstu leiktíð og stefna á endurkomu þá. Harpa segir byrjunina hafa verið erfiða. „Ég myndi segja að byrjunin á þessu tímabili hafi verið frekar krefjandi fyrir okkur, það er alltaf erfitt að missa út leikmenn en ég hef fulla trú á okkur að stíga upp.“ Liðið er nú í 7. sæti deildarinnar með einungis 4 stig eftir sjö leiki en liðið á þó þrjá leiki inni á liðin fyrir ofan sig. Ef spá Hörpu gengur eftir og liðið stígur upp þá ætti það að vera leikur einn að komast úr baráttunni um umspilssæti og í baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Í liðinu er blanda af reyndum leikmönnum og yngri. Marta Wawrzynkowska og Sunna Jónsdóttir eru reynsluboltarnir í liðinu en síðan eru mjög margir leikmenn sem hafa spilað fyrir yngri landslið á árinu og verið í stórum hlutverkum þar. „Mér finnst hópurinn vera að blandast mjög vel saman hjá okkur og hann gerði það líka á síðasta tímabili. Mér finnst þetta geggjaður hópur hjá okkur og mér líður mjög vel í þessu liði, með öllum stelpunum og þjálfurunum.“

Hefði verið geggjað að koma með bikar til Eyja ÍBV var grátlega nálægt því að komast í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins er liðið atti kappi við KA/Þór í vor. Stelpurnar léku frábærlega í fyrsta leik einvígisins fyrir norðan og innbyrtu 26:27 sigur. Liðið gat því tryggt sér sæti i úrslitum með sigri á heimavelli en þar var 21:24 tap niðurstaðan. Leikur 3 fór síðan fram fyrir norðan en þar var umdeildur dómur á lokaandartökum leiksins liðinu dýr. KA/Þór vann leikinn að lokum í framlengingu og verðskuldaður Íslandsmeistari að loknu einvígi við Valskonur. Harpa segir það hafa verið mikil vonbrigði fyrir liðið að falla úr leik. „Það voru gríðarleg vonbrigði, við vorum svo ótrúlega nálægt þessu og höfðum alveg getað tekið þetta. Það hefði verið svo geggjað að taka einn titil og koma heim til Eyja með bikar.“ Hverju þakkar Harpa því að hún sé komin á þann stað sem hún er í handboltanum í dag? „Mér finnst ég sjálf hafað unnið mjög hart að því hvar ég stend í handboltanum í dag, en auðvitað hef ég mikinn stuðning við bakið á mér frá bæði liðsfélögum mínum og þjálfurum sem hefur einnig hjálpað mér.“

Ágætis möguleiki á stórmóti nóvember fyrir landsliðið

í

Harpa og félagar hennar í íslenska landsliðinu eru í undanriðli fyrir Evrópumótið 2022 með Svíum, Serbum og Tyrkjum. Liðið hefur þegar leikið við Svía og Serba og náðu að vinna sér inn tvö stig gegn Serbum á Ásvöllum. Næstu tveir leikir liðsins eru gegn Tyrkjum og með tveimur sigrum þar eru möguleikar íslenska liðsins mjög góðir. Harpa er bjartsýn fyrir framhaldinu með landsliðinu, sem Eyjamaðurinn Arnar Pétursson þjálfar. „Ég held það þrátt fyrir að leikurinn á móti Svíþjóð fór ekki eins og við vildum þá gekk okkur mjög vel á móti Serbíu þannig ég tel okkur alveg eiga ágætis möguleika á því að komast áfram.“ Hvert stefnir Harpa í framtíðinni? „Ég myndi segja að ég væri opin fyrir öllu, mig langar einhvern tímann að prufa eitthvað nýtt og kannski endar það á því að ég fái að spila erlendis.“

21


Sendum bæjarbúum bestu nýársóskir

Sendum bæjarbúum bestu nýársóskir

Sendum bæjarbúum bestu nýársóskir

22


Hver er uppáhalds jólasveinninn þinn? Ég verð að segja Kertasníkir, hann gefur bestu gjafirnar. Hvað var það besta sem þú fékkst í skóinn? Mér fannst skemmtilegast að fá eitthvað dót í skóinn. Ertu hrædd við Grýlu og Leppalúða? Já en meira hrædd við Grýlu. Hvað er skemmtilegast við jólin? Vera öll saman að borða góðan mat og svo auðvitað að opna pakka. Hvað er í matinn hjá ykkur á jólunum? Í forrétt er aspassúpa og í aðalrétt er léttreyktur lambahryggur. Heldur þú að Grýla og Leppalúði séu góð í fótbolta? Nei ég held ekki. Hver er uppáhalds liðsfélaginn þinn hjá ÍBV? Ætli það sé ekki hún Selma mín. Hefur eitthvað tröll náð þér á Þrettándanum? Nei ekki svo ég muni eftir því.

NÖKKVI GUÐMUNDSSON

Hverjir eru uppáhalds leikmennirnir þínir í ÍBV? Í handbolta verð ég að segja Sara Dröfn og í fótbolta var það DB þegar hún var hérna í fyrra, rosa gaman að spila með henni.

BERTA SIGURSTEINSDÓTTIR

SPURT & SVARAÐ

Hver er uppáhalds jólasveinninn þinn? Hurðaskellir er uppáhalds jólasveinninn minn af því það er svo gaman að skella hurðum. Hvað var það besta sem þú fékkst í skóinn? Það besta sem að ég fékk í skóinn var súkkulaðistykki. Ertu hræddur við Grýlu og Leppalúða? Já ég er ennþá mjög hræddur við þau. Hvað er skemmtilegast við jólin? Mér finnst skemmtilegast að borða góðan mat. Hvað er í matinn hjá ykkur á jólunum? Það er alltaf hamborgarhryggur um jólin. Heldur þú að Grýla og Leppalúði séu góð í fótbolta? Örugglega ekki lengur en áður fyrr voru þau alveg pottþétt góð. Hver er uppáhalds liðsfélaginn þinn hjá ÍBV? Það er hann Ívar Bessi. Hefur eitthvað tröll náð þér á Þrettándanum? Nei en Þríhöfðarnir voru einu sinni næstum búnir að ná mér. Hverjir eru uppáhalds leikmennirnir þínir í ÍBV? Í handbolta er það Róbert Sigurðarson og í fótbolta eru það Telmo og Guðjón Pétur.

23


SPILA Í EFSTU DEILD 2022 - ALDREI NEINN EFI Eiður Aron Sigurbjörnsson leikmaður ársins 2021 Eiður Aron Sigurbjörnsson, fyrirliði meistaraflokks karla hjá ÍBV í knattspyrnu, átti mjög gott tímabil í fyrra en hann fór fyrir liði ÍBV sem vann sér sæti í efstu deild á ný. Það þýðir að ÍBV verður með lið í efstu deildum karla og kvenna í fótbolta og handbolta árið 2022. ÍBV endaði tímabilið með 47 stig en sá stigafjöldi hefði oft dugað til að vinna deildina. Liðið hafnaði þó í 2. sæti á eftir Frömurum sem léku liða best. Liðið vann sér inn 25 stig á útivelli sem er frábær árangur. Komumst í gír Við ræddum aðeins við Eið um tímabilið en hann segir hópinn hafa verið vel stemmdan fyrir tímabilið. „Það var mikil tilhlökkun í hópnum fyrir sumrinu og allir vel gíraðir eftir vonbrigðin tímabilið á undan. Fyrir mig persónulega var mikil spenna að fara að spila aftur með ÍBV eftir 7 ára fjarveru.“

Eiður lék síðast með ÍBV árið 2014 en þá spilaði hann 13 leiki í deildinni áður en hann hélt á láni til Sandnes-Ulf í Noregi. Liðið spilaði fyrstu leiki tímabilsins í bikarnum, sá fyrri gegn Reyni frá Sandgerði sem vannst með fjórum mörkum gegn einu en sá seinni var stórkostlegur leikur gegn Kórdrengjum. Eiður kom ÍBV yfir áður en heimamenn jöfnuðu metin og framlengja þurfti því leikinn. Í framlengingunni komust gestirnir yfir í tvígang en í bæði skiptin jafnaði Guðjón Pétur Lýðsson metin, seinna mark hans kom á lokasekúndu leiksins og grípa þurfti til vítaspyrnukeppni. Eyþór Orri Ómarsson skoraði sigurmark ÍBV en það var síðasta mark liðsins í bikarnum þetta tímabilið. „Það var flott að fara áfram í bikarnum og vildum við klárlega fara lengra en við gerðum,“ sagði Eiður en hann segir bikarleikina í upphafi móts hafa verið gott veganesti inn í deildina.

Aldrei neinn efi í hópnum Fyrstu tveir leikir tímabilsins voru gegn Grindavík og Fram en þeir töpuðust báðir, þá hlakkaði í mörgum sem töldu ÍBV ekki hafa það sem til þurfi til að fara upp í efstu deild. „Það var aldrei neinn efi í hópnum, mótið vinnst ekki eftir 2 umferðir og við vissum það alveg. Þetta voru 22 leikir og við þurftum bara að halda áfram því sem við vorum að gera þó úrslitin í þessum fyrstu tveimur leikjum hafi ekki fallið með okkur.“ Eftir þessi töp fór liðið á frábæra siglingu þar sem það halaði inn 22 stigum af næstu 24 mögulegum. Þarna voru strákarnir búnir að finna sitt rétt form. „Já það má segja það, við komumst í þannig gír að við fórum bara í leiki og við vissum að við myndum vinna þá. Þegar sú tilfinning er í hópnum þá erum við á góðum stað.“

24


Leikurinn við Þór var vendipunktur Kórdrengir voru helstu keppnisaðilar ÍBV um 2. sæti deildarinnar en þeir komu í heimsókn til Vestmannaeyja í byrjun júní og ætluðu að hefna fyrir tapið í bikarnum. Gestirnir tóku tveggja marka forystu þrátt fyrir að spila manni færri frá 13. mínútu. Stefán Ingi Sigurðarson minnkaði muninn í sínum fyrsta leik fyrir liðið á láni frá Breiðabliki og það var síðan Sito sem jafnaði metin stuttu seinna. Eyjamenn voru mun líklegri til að finna sigurmarkið en jafntefli var niðurstaðan. Fundu leikmenn að þessi leikur væri mikilvægur? „Þetta var klárlega mikilvægur leikur eins og aðrir leikir en ekkert sem við spáðum mikið í, bara fótboltaleikur sem við vildum vinna.“ Eftir þessa frábæru siglingu liðsins komu tveir leikir gegn Gróttu og Fram þar sem liðið vann sér inn einungis eitt stig af sex mögulegum. Var eitthvað stress í mönnum eftir það? „Nei ekki neitt, við héldum bara haus og vorum ákveðnir í að klára markmiðið sem við settum okkur fyrir tímabilið. Þó það komi ekki alltaf 3 stig með okkur til Eyja þá er ekkert vit í því að gera of mikið út því, bara áfram gakk.“ Strákarnir voru greinilega staðráðnir í að láta þessa tvo leiki ekki skemma tímabilið og unnu næstu sex leiki í röð. Hver var lykillinn að því að tryggja sætið í efstu deild? „Mér finnst leikurinn við Þór Akureyri hérna í Eyjum vera vendipunktur í þessu öllu saman, þegar við skorum sigurmark

á 92. mínútu leiksins einum færri eftir að hafa að klúðrað víti á 87. mínútu,“ sagði Eiður en sá leikur var ótrúlegur í rauninni. Stefán Ingi kom ÍBV yfir snemma leiks en gestirnir jöfnuðu metin áður en gengið var til búningsherbergja. Þegar seinni hálfleikur var tæplega hálfnaður misstu Eyjamenn mann af velli. Guðjón Pétur Lýðsson klikkaði á vítaspyrnu þegar lítið var eftir en það var Guðjón Ernir Hrafnkelsson sem skoraði sigurmark leiksins þegar komið var framyfir venjulegan leiktíma. Strákarnir töpuðu gegn Fjölni en gátu síðan tryggt sæti sitt í efstu deild í leik á heimavelli gegn Þrótti, voru menn með fiðring og staðráðnir í að tryggja sætið í efstu deild? „Alveg klárlega staðráðnir í því, já. Ef við værum ekki með fiðring fyrir úrslitaleik um að komast upp eða finna fyrir smá spenning þá hefur maður lítið að gera að spila fótbolta finnst mér.“ Eftir að sætið var tryggt hefur leikmönnum liðsins væntanlega verið mjög létt.

Liðið hefur styrkst mikið frá því að sætið í efstu deild var tryggt. Til liðsins hafa komið Íslandsmeistarinn Halldór Jón Sigurður Þórðarson, fyrrum Íslandsmeistarinn Alex Freyr Hauksson, Eyjamaðurinn Guðjón Orri Sigurjónsson og Andri Rúnar Bjarnason sem deilir markametinu í efstu deild á einni leiktíð en hann skoraði 19 mörk með Grindvíkingum áður en hann hélt út í atvinnumennsku. „Ég er mjög ánægður með þá leikmenn sem hafa skrifað undir hjá okkur, vonandi geta þeir bætt okkar leik mikið og gert þetta að skemmtilegu sumri,“ sagði Eiður en Hermann Hreiðarsson er einnig nýr þjálfari liðsins. Hermann gerði frábærlega með Þrótt Vogum og kom þeim upp í 1. deild í fyrra. Hver er lykillinn að því að festa sig í sessi í efstu deild að mati Eiðs? „Mér finnst það vera að hafa lið sem er vel drillað og ná stöðugleika í leikmannamálum og þjálfaramálum sem er vonandi að gerast núna.“

„Já það var rosalegur léttir og ég sjálfur er ótrulega stoltur af þessum árangri hjá okkur,“ sagði Eiður en mikil vonbrigði voru fyrir liðið að fara ekki upp um deild árið áður. Ætla ekki bara að vera með Markmiðin fyrir næsta ár eru ekki alveg orðin ljós en Eiður var allavega klár á einu. „Við erum ekki að mæta í deild þeirra bestu bara til þess að vera með.“

25


26

Sendum bæjarbúum bestu nýársóskir

Sendum bæjarbúum bestu nýársóskir

Sendum bæjarbúum bestu nýársóskir

Sendum bæjarbúum bestu nýársóskir



Sendum bæjarbúum bestu nýársóskir

Vestmannaeyjabær


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.