Húsfreyjan 3. tbl 2024

Page 1


Kvenfélagasamband Íslands

3. tbl. 75. árg. 2024

Verð 2.250 kr.

Jákvæð og hvetjandi

Valkyrjurfjallsmilli og fjöru

Ekki endalaust hægt að skera niður

TIL HVERS ER ÆTLAST AF MÉR SEM KONU

Eiríksstaðir í Haukadal

Lífið sem frásögn

MEÐ ÝMISLEGT Á PRJÓNUNUM FRUMKVÖÐULL

OG FYRIRMYND

Jónshús í Kaupmannahöfn

REGNBOGANS LITUM

Nanný Arna Guðmundsdóttir

VALKYRJUR MILLI FJALLS OG FJÖRU

40. landsþing Kvenfélagasambands Íslands

á Ísafirði 11.–13. október 2024

DAGSKRÁ*

FÖSTUDAGUR 11. OKTÓBER

16:00 - 17:30 Skráning þátttakenda og afhending gagna

15:00 - 16:30 Formannaráðsfundur (formenn héraðssambanda KÍ) í Edinborgarhúsinu

18:00 Þingsetning í Ísafjarðarkirkju

Tónlistaratriði

Ávörp

19:30 – 21:00 Móttaka í Edinborgarhúsinu

LAUGARDAGUR 12. OKTÓBER

9:00 Þingfundur hefst í Edinborgarhúsinu

· Kosning embættismanna þingsins Skýrslur og umræður

Mál lögð fyrir þingið, ályktanir og lagabreytingar

10:30 – 12:00 Vinnustofa og fyrirlestur

12:00 Hádegisverður

13:00 Þingfundi framhaldið

· Húsfreyjan 75 ára

Kynning frambjóðenda til embætta KÍ

14:00 Valkyrjur milli fjalls og fjöru

Fyrirlestrar um þema þingsins í boði SVK

Kvölddagskrá og hátíðarkvöldverður í Félagsheimilinu Bolungarvík

18:30 Rútur fara í Bolungarvík

19:30 Fordrykkur

20:00 Hátíðarkvöldverður og dagskrá í boði SVK í Félagsheimilinu Bolungarvík

SUNNUDAGUR 13. OKTÓBER

09:00 Komum okkur í gang

09:30 Vinnustofa

11:00 Þingfundi framhaldið Tímasetning 41. landsþings KÍ árið 2027

· Umræður, niðurstöður og ályktanir

· Kosningar í embætti KÍ

· Önnur mál

13:00 Þingslit

13:15 Hádegisverður og heimferð

*Dagskrá birt með fyrirvara um breytingar

ÞÁTTTÖKUGJALD

Þinggjald án gistingar: 41.500 kr.

GISTING HÓTEL HORN OG HÓTEL TORG

Verð pr. mann í tvær nætur með morgunverði:

Tveggja manna herbergi: 26.000 kr.

með þinggjaldi alls: 67.500 kr.

Þriggja manna herbergi: 23.000 kr.

með þinggjaldi alls: 64.500 kr.

GISTING GAMLA GISTIHEIMILIÐ

Verð pr. mann í tvær nætur með morgunverði: Tveggja manna herbergi: 20.000 kr.

með þinggjaldi alls. 61.500 kr.

Þriggja manna herbergi: 17.500 kr.

með þinggjaldi alls: 59.000 kr.

Tilgreina skal herbergisfélaga þegar pantað er.

Greiðsla þarf að berast samhliða skráningu.

Einnig er í boði að panta sérstaklega gistingu í stærri herbergi 4 til 7 manna á Gistiheimilinu og á Hosteli Ísafjarðar. Hentar vel fyrir hópa. Gisting pr. mann frá 16.000 kr. í tvær nætur. Hafa skal samband við Jenný á skrifstofu KÍ til að panta í þau herbergi. Sendið póst á landsthing@kvenfelag.is eða hafið samband í síma 552 7430 . Til að tryggja sem flestum gistingu er ekki í boði að panta einstaklingsherbergi.

Allir sem kaupa gistingu í gegnum KÍ eru með innifalinn morgunmat sem er borinn fram á Hótel Torgi frá klukkan 7 til 9.

Innifalið í þinggjaldinu er seta á landsþinginu, þinggögn, málsverðir, hátíðarkvöldverður og annað það sem skráð er í dagskrá landsþingsins.

Skráning skal berast fyrir 24. september 2024.

Athugið! Ekki verður hægt að fá endurgreiðslu þátttökugjalds eftir 24. september 2024. Eftir þann tíma er eingöngu möguleiki á nafnabreytingu sem skal sendast á landsthing@kvenfelag.is

Gestgjafar þingsins eru konur í Sambandi vestfirskra kvenna.

Allar kvenfélagskonur innan KÍ eru velkomnar á landsþingið.

EFNISYFIRLIT

Leiðari Húsfreyjunnar

Að höndla hamingjuna

Sigríður Ingvarsdóttir ritstjóri

Ferðaþjónusta á Vestfjörðum

Að leyfa lífinu að birtast í öllum regnbogans litum

Nanný Arna Guðmundsdóttir

Smásaga Útfararþjónustan

Elísabet Kjerúlf

Matarþáttur Húsfreyjunnar

Húsfreyjan 75 ára

Albert Eiríksson

Kvenfélagasamband Íslands

Kvenfélag Svínavatnshrepps 150 ára

Jenný Jóakimsdóttir

Viðtal

Ekki endalaust hægt að skera niður

Karolína Elísabetardóttir

Dagmar Elín Sigurðardóttir 6

Þankagangur

Til hvers er ætlast af mér sem konu

Linda B. Sverrisdóttir

Saga og menning

10

Sagan í litum regnbogans

Bjarnheiður Jóhannsdóttir

Hugsanir, líðan og orð

Lífið sem frásögn

Ásdís Káradóttir

Smásaga

Leyndarmál í lyfjaskáp

Guðrún Egilsson

Viðtal

Með ýmislegt á prjónunum

Halla Benediktsdóttir

Æviágrip Ólafíu Jóhannsdóttur

Frumkvöðull og fyrirmynd

Sveindís Anna Jóhannsdóttir

Leiðbeiningastöð heimilanna Bjargaðu kaffikorgnum frá sorpinu

Jenný Jóakimsdóttir

Kvenfélagasamband Íslands Valkyrjur milli fjalls og fjöru

Hannyrðahornið Sokkar, vettlingar og fánaóróar

Kristín Örnólfsdóttir

Samtök kvenna Konur í sjávarútvegi

Tinna Gilbertsdóttir

Krossgátan Frístund

Pistill Gaman og gefandi að vera kvenfélagskona

Björg Baldursdóttir

Velkomin til Ísafjarðar

Að höndla hamingjuna

Ölleigum við sjálfsagt þá ósk að lifa hamingjusömu lífi og ná að höndla hamingjuna dags daglega á margvíslegan hátt. Það er þó mjög einstaklingsbundið hvað það er sem veitir okkur hamingju og gerir okkur hamingjusöm, því hamingja er hugarástand sem kemur innan frá.

Hamingja getur verið flókin tilfinning sem erfitt er að skilgreina nákvæmlega en þó má reyna að útskýra hamingju sem gleði, ánægju, sælu, vellíðan eða velferð.

Þó ýmsir minnist ýmissa atburða á lífsleiðinni sem hafi gert þá hamingjusama þá telja margir að hamingjan felist í hinu daglega og hversdagslega í lífinu. Að vakna glaður á morgnana, vera innan um fólkið sem manni þykir vænt um, að vera heilbrigður á sál og líkama og vera sáttur og þakklátur fyrir það sem lífið hefur fært manni. Hamingjan snýst ekki um að vera brosandi allan sólarhringinn heldur finna sátt við lífið, jafnvel þó á móti blási. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að hamingja er alls ekki tengd veraldlegum auðæfum og því er hamingjusamasta fólkið ekki endilega það sem á mest af öllu, heldur miklu frekar einstaklingarnir sem eru sáttir við það sem þeir eiga.

Hamingja og hugarfar

Við getum sjálf haft áhrif á upplifun okkar af hamingju á margvíslegan hátt. Til að viðhalda hamingju í lífinu er mikilvægt að temja sér jákvæða hugsun og þakklæti. Minnast alls þess sem við getum verið þakklát fyrir og einbeitt okkur að því að sjá það jákvæða í lífinu, sjá glasið frekar sem hálf fullt heldur en hálf tómt.

Eins er gott að halda upp á smáa sem stóra sigra í lífinu, vera dugleg að fagna ýmsum tímamótum og taka sér tíma til að halda upp á litlu afrekin okkar. Það er alltaf gaman að hafa eitthvað til að hlakka til og maður þarf að hafa fyrir því að búa sér til tilhlökkunarefni Sagt er að við upplifum allt í tvígang þ.e. fyrst þegar við erum að skipuleggja hlutina og síðan þegar við raungerum þá. Þetta á t.d. við um ferðalög, það er gaman að skipuleggja ferðir, hvert förinni er heitið og hvað ætlunin er að upplifa. Það er dýrmætt að geta hlakkað til, síðan að upplifa hlutina og að lokum að eiga góðar minningar um upplifunina.

Margir halda því fram að hamingja sé val, að við getum sjálf tekið ákvörðun um að vera hamingjusöm burt séð frá því hvað lífið færir okkur. Því má segja að hamingja sé ákvörðun hjá hverjum og einum. Við sjálf þurfum að hafa fyrir því að næra hamingjuna, halda okkur við það jákvæða í lífinu og sækja frekar í félagsskap þeirra sem sjá björtu hliðarnar, því þær systur jákvæðni og neikvæðni eru smitandi.

Hamingjan hefur líklegast verið hugðarefni mannsins allt frá örófi og margir hafa orðið til þess að tjá sig um hana. Þekkt tilvitnun frá Mahatma Gandhi segir ,,Hamingjan er samræmi milli þess sem þú segir og þess sem þú gerir.“ Hugarfar okkar hefur áhrif á hvernig við lifum lífinu og hvernig við tökumst á við daglegar áskoranir. Það hefur enginn lofað okkur að lífið yrði auðvelt, en það er mun innihaldsríkara og betra með jákvæðu hugarfari.

Sigríður Ingvarsdóttir, ritstjóri Húsfreyjunnar

Útgefandi: Kvenfélagasamband Íslands. 3. tölublað, 75. árgangur, september 2024 Tímaritið Húsfreyjan kemur út fjórum sinnum á ári: Í febrúar, maí, september og nóvember. Húsfreyjan er gefin út bæði á pappír og rafrænt Árgangur kostar 6.900 kr. m. vsk. í áskrift. Hvert blað kostar í lausasölu 2.250 kr. Útgáfustjórn: Björg Baldursdóttir formaður, Garðabæ, Magðalena Jónsdóttir gjaldkeri, Rangárþingi eystra, Eva Hilmarsdóttir, Eyjafirði, Guðrún Þóranna Jónsdóttir, Selfossi og Þóra Sverrisdóttir, A-Húnavatnssýslu. Til vara: Guðný Valberg, Rangárþingi og Linda B. Sverrisdóttir, Borganesi. Ritstjóri: Sigríður Ingvarsdóttir, singvarsd@gmail.com.

Viltu gerast áskrifandi?

Prófarkalesari: Björg Baldursdóttir. Ábyrgð: Kvenfélagasamband Íslands. Auglýsingar: Kvenfélagasamband Íslands, husfreyjan@kvenfelag.is, sími 552 7430, auglysingar@husfreyjan.is Kvenfélagasamband Íslands: Hallveigarstaðir Túngötu 14, 101 Reykjavík. Netfang: kvenfelag@kvenfelag.is. Heimasíða: www.kvenfelag.is. Sími 552 7430. Ljósmyndari Húsfreyjunnar: Silla Páls - www.mirrorrose.com Umbrot og prentun: Prentmet Oddi á Selfossi - Umhverfisvottuð prentsmiðja. Húsfreyjan er prentuð á umhverfisvænan pappír.

Þú getur skráð þig í áskrift inni á husfreyjan.is eða hringt í síma 552 7430.

Húsfreyjan 3. tbl. 2024

IngvarsdóttirMyndir: Silla Páls

íður

Umsj ón : Sigr

Að leyfa lífinu að birtast í öllum regnbogans litum

Viðtal við Nanný Örnu Guðmundsdóttur

Nanný Arna Guðmundsdóttir er fædd og uppalin á Ísafirði og situr í bæjarstjórn Ísafjarðar. Hún rekur ferðaþjónustufyrirtækið Borea Adventures á Ísafirði, ásamt eiginmanni sínum Rúnari Óla Karlssyni. Hugmyndin að fyrirtækinu sem stofnað var árið 2006 á rætur sínar að rekja til útivistaráhuga þeirra hjóna, en þau hafa alla tíð haft gaman af því að þvælast um fjöll og firnindi, róa og sigla um firðina og því fannst þeim tilvalið að bjóða fleirum upp á þessa möguleika. Þau leggja áherslu á stuttar dagsferðir sem og lengri ferðir um norðanverða Vestfirði sem og sérsniðna leiðangra á fjarlægari slóðir. Eins bjóða þau upp á daglegar bátsferðir til Hornstranda yfir sumartímann og eru með tvo báta í áætlunarsiglingum. Fyrirtækið býður m.a. upp á kajakferðir, gönguferðir, hjólaferðir, skíðaferðir og ljósmyndaferðir.

Auðvelt að njóta kyrrðar og friðar á Vestfjörðum Nanný Arna segir að ferðaþjónusta sé mjög vaxandi á Vestfjörðum. Samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu ferðuðust 13% erlendra ferðamanna til Vestfjarða frá júní 2023 til maí 2024 og á sama tíma gistu 8% þeirra á Vestfjörðum. Þegar hún byrjaði í ferðaþjónustu 2012, voru það aðeins 6% erlendra ferðamanna sem heimsóttu Vestfirði og enn færri gistu. Orðspor svæðisins, sem áhugaverður staður að heimsækja, berst víða. Árið 2022 voru Vestfirðir númer eitt á lista Lonely Planet um áhugaverða staði

til að heimsækja. Þar er Vestfjörðum lýst sem einum af síðustu áfangastöðum Evrópu þar sem hægt er að upplifa óspillta náttúru með tiltölulega auðveldum hætti. Lonely Planet lýsir Vestfjörðum sem útivistarparadís sem er laus við massatúrisma og því auðvelt að njóta kyrrðar og friðar. Ferðaþjónusta á Vestfjörðum hefur verið byggð upp á hófstilltan hátt með sjálfbærni að leiðarljósi. Fyrirtækin eru lítil fjölskyldufyrirtæki sem bjóða flest upp á afþreyingu eða gistingu í sinni heimabyggð. Þau eru því sérfræðingar á sínu svæði, en ekki bara í afreyingu heldur líka í vegakerfinu og hvernig veðráttan getur haft áhrif á upplifun. Enn sem komið er, eru Vestfirðingar gestrisnir og tilbúnir að aðstoðað fólk í vanda, segja sögur sem bæta við upplifun fólks og benda á skemmtilega viðkomustaði utan alfaraleiðar. Vestfirðir eru svona staður sem Íslendingar vilja heimsækja í útlöndum, með þetta “local” sem allir eru að leita eftir. Ferðamenn geta því ferðast og verið að mestu lausir við alla hina ferðamennina.

Sögur af daglegu lífi fólks

Það sem heillar mest við að starfa í ferðaþjónustu er að vera í samskiptum við fólk. Mér finnst gaman að geta deilt sögum af mínu svæði til annarra sem sýna áhuga. Þá er ég ekki bara að tala um munnmælasögur eða hetjusögur, heldur sögur af daglegu lífi fólks. Fólk hefur áhuga á að vita hvað við gerum hér fyrir vestan. Gestir okkar vilja heyra

sögur úr nútímanum, svo ég segi þeim frá skólunum okkar, íþróttalífinu, kórastarfinu, tónlistarlífinu, útivistaráhuga íbúa, bendi á handverkshús og góða veitingastaði. Að sjálfsögðu grípum við líka í sögur úr fortíðinni og þá eru sögur af Hornströndum nærtækastar. Hornstrandir eru okkar helsti áfangastaður og við erum sérfræðingar í svæðinu. Ég og maðurinn minn erum bæði ættuð af Hornströndum, hann úr Fljótavík, ég úr Hornvík. Sögurnar fjalla að mestu um daglegt líf ættingja okkar sem bjuggu við óblíða náttúru og fámenni á hjara veraldar. Þessar sögur eru hetjusögur í eyrum nútímamannsins.

Mér finnst líka gaman að byggja upp fyrirtæki, auka þekkingu mína á rekstri og öllu því sem viðkemur flóknum innviðum. Fyrirtækið hefur á nokkrum árum stækkað úr þremur heilsárs starfsmönnum í átta. Yfir sumartímann erum við rúmlega þrjátíu að störfum hjá fyrirtækinu. Það eru forréttindi að sjá eitthvað sem maður hefur skapað sjálfur, vaxa og verða stoð í atvinnumöguleikum á Ísafirði. Ég er orðin sérfræðingur í krísustjórnun og tel mig hafa viðamikla þekkingu á nýsköpun og vaxtarverkjum lítilla fyrirtækja.

Fjölgun skemmtiferðaskipa Á síðustu árum hefur umræða um skemmtiferðaskip og massatúrisma verið fyrirferðarmikil. Sérstaklega varðandi komur skemmtiferðaskipa til Ísafjarðarbæjar. Stórir fjölmiðlar efast um getu

sveitarfélagsins og heimamanna til að taka við svo miklum fjölda ferðamanna og fjalla ítrekað um álag á innviði og íbúa. Hafandi sagt áður að Vestfirðir séu lausir við massatúrisma þá ætla ég að standa við það, því Vestfirðir eru svo mikið meira en Ísafjörður og Ísafjarðarbær hefur einnig upp á svo mikið meira að bjóða en miðbæ Ísafjarðar. Að sjálfsögðu fylgir því álag að fá rúmlega íbúafjölda sveitarfélagsins í heimsókn á einum degi. Ferðaþjónar í sveitarfélaginu hafa tekið vel á móti þessum gestum okkar. Þeir eru hugmyndaríkir varðandi afþreyingu sem er í boði og tímastjórnun ferða miðast við að hægt sé að bjóða sömu vöruna nokkrum sinnum yfir daginn. Því er hægt að bjóða nánast öllum sem þess óska upp á einhvers konar afþreyingu. Þeir sem ekki kjósa að kaupa afþreyingu rölta á eigin vegum um bæinn, kíkja við á kaffihúsum eða veitingastöðum, versla í búðum og njóta menningar. Sveitarfélagið hefur sett fram stefnu við móttöku skemmtiferðaskipa sem á meðal annars að takmarka fjölda farþega á dag. Skemmtiskipa-

Húsfreyjan 3. tbl. 2024

sjóður var settur á laggirnar sumarið 2024, en honum er ætlað það hlutverk að styrkja einstaklinga og lítil félög til að standa að uppákomum um allt sveitarfélagið. Sumarið 2024 voru trúbadorar, aðrir listviðburðir og ýmiss konar þátttökuviðburðir i boði fyrir gesti, þeim að kostnaðarlausu.

Komur skemmtiferðaskipa hafa mjög jákvæð áhrif á fjárhag Ísafjarðarhafnar og afkomu fjölda lítilla fyrirtækja í Ísafjarðarbæ. Ferðatímabilið er stutt á Vestfjörðum og fyrir nokkrum árum var það algengara en hitt að veitinga- og gististaðir lokuðu yfir vetratímann og sérverslanir áttu erfitt með að þrífast á ársgrundvelli. Þessi aukna gestakoma yfir sumarmánuðina styrkir rekstur þessara fyrirtækja sem er jákvætt fyrir okkur heimamenn. Við viljum geta verslað í heimabyggð, brugðið okkur á kaffihús og kíkt á veitingastaði allt árið um kring.

Að því sögðu þá ætla ég ekki að neita því að það sé álag á íbúa, sérstaklega á stærstu dögunum. Við sem erum vön að geta rölt út og verið ein í heiminum eigum erfitt með að venjast fjöldanum

eða að þurfa að standa í röð í búðum. Ég trúi því hins vegar að með samvinnu íbúa, fyrirtækja og sveitarfélagsins muni heimsóknir til Ísafjarðar halda áfram að vera hápunktur í ferðalagi farþega skemmtiferðaskipa.

Hornstrandirnar heilla Íslendingar eru mjög duglegir að ferðast á eigin vegum. Vinsælustu ferðirnar okkar eru bátsferðir yfir á Hornstrandir. Þar gengur fólk gömlu þjóðleiðirnar á eigin vegum í nokkra daga, gistir í tjöldum og nýtur kyrrðarinnar. Margir Íslendingar tengjast Hornströndum á einhvern hátt og eiga jafnvel athvarf í gömlum húsum eða sumarhúsum á landi forfeðra sinna. Tveggja tíma kajakferð á Pollinum á Ísafirði og fimm tíma kajakróður í Önundarfirði eru einnig mjög vinsælar ferðir. Þær eru ekki mjög tæknilegar og kjörnar fyrir byrjendur og þá sem vilja fara aðeins út fyrir þægindarammann og skoða umhverfið frá öðru sjónarhorni. Vestfirðir eru útivistarparadís og því mæli ég eindregið með að vera úti og leika. Allir sem gaman hafa af því

að hjóla ættu að taka hjólin með sér þegar þeir heimsækja okkur. Gamlir aflagðir vegir eru víða á Vestfjörðum og sumir vegir meira að segja ekki aflagðir, sem eru tilvaldir fyrir hjólafólk. Miðað við marga landshluta er lítil bílaumferð um Vestfirði og alls staðar hægt að finna skemmtilegar hjólaleiðir. Svo er tilvalið að kíkja á öll litlu söfnin okkar og kaffihúsin sem eru vítt og breytt um fjórðunginn. Rauðisandur er einstaklega falleg náttúruperla og einnig Holtsfjara í Önundarfirði fyrir þá sem vilja skreppa í sjóinn eða sulla í fjöruborðinu. Leyndar perlur eins og Ögurnes fyrir klettaklifrara, gönguferð upp á Kaldbak í Dýrafirði eða Kubbann á Ísafirði, Paddlebord í lygnum fjörðum og heitar laugar sem koma öllum óvart. Svo verða allir að koma við hjá Stellu í Heydal, hún er höfðingi heim að sækja.

Er umhugað um nærsamfélagið Það kom tímabil þar sem ég var að gaspra á samfélagsmiðlum um ýmis mál sem vörðuðu sveitarfélagið mitt og

Vestfirði eins og skert þjónusta ríkisfyrirtækja, niðurskurður starfa á landsbyggðinni, skert aðgengi að menntun í íslenskum háskólum og ýmis önnur mál þar sem mér fannst landsbyggðin fara halloka. Fyrir sveitarstjórnarkosningar 2014 var ég klukkuð af uppstillingarnefnd Í-listans hjá Ísafjarðarbæ og ég ákvað að slá til. Ég sá reyndar ekki fyrir mér að sitja þrjú kjörtímabil en hvert ár hefur fært mér nýja reynslu og þekkingu sem ég get nýtt til hagsbóta fyrir sveitarfélagið mitt og íbúa. Mér finnst að íbúar í sveitarfélögum eigi að láta sig sveitarstjórnarmál varða, því þau fjalla í flestum tilfellum um nærsamfélagið okkar. Sveitarstjórnarfulltrúar eru líka íbúar sem gleymist oft í umræðunni. Það er frekar látið í það skína að kjörnir fulltrúar séu valdasjúkir einstaklingar sem vilja skara eld að eigin köku. Ég hef ekki kynnst slíkum fulltrúa ennþá, frekar fólki sem vill vinna fyrir sitt sveitarfélag. Þó svo að kjörnir fulltrúar deili ólíkri sýn þá eru allir að stefna á að vinna vel fyrir samfélagið. Aðal markmiðin eru að rekstur sveitarfélaga sé jákvæður, uppbygging í samræmi við kröfur nútímasamfélags og að íbúum líði vel. Því ættu allir íbúar að finna sig í sveitarstjórnarmálum. Það var ekki erfið ákvörðun að segja já þarna

2014 enda mun heillavænlegra að taka þátt og taka ábyrgð heldur en að tuða á samfélagsmiðlum og við eldhúsborðið.

Best að vera mikið úti að leika Þegar ég var unglingur lærði ég speki sem höfð var eftir langömmu minni frá Horni í Hornvík; “mundu að þú ert ekkert merkilegri en aðrir og aðrir eru ekkert merkilegri en þú” Mér finnst reyndar margir merkilegir vegna gjörða sinna en ekki af því þeir eru eitthvað nafn. Þessi speki hefur sparað mér mikið stress og neikvæðar hugsanir. Önnur lífsspeki sem ég lærði hjá Margréti Pálu, þegar

ég starfaði hjá henni fyrir 100 árum er þetta með líðanina. Það er ekki alltaf gaman í lífinu, stundum er leiðinlegt, verkefni leiðinleg eða hlutirnir ganga ekki eins og maður sjálfur var búinn að áætla og það er allt í lagi. Það er í lagi að láta sér leiðast, það er í lagi að vera ekki alltaf “besta útgáfan af sjálfum sér”, það er í lagi að stundum er enginn til að leika við. Ef það væru alltaf jól, þá væri ekkert gaman á jólunum. Annars er best að vera mikið úti, leika sér einn eða með öðrum, taka sig ekki of hátíðlega og leyfa lífinu að birtast í öllum regnbogans litum.

Ég spyr mig... ...til hvers er af mér ætlast, einni konu í þessari veröld

Linda B. Sverrisdóttir

Þaðfyrsta sem upp í hugann kemur þó sorglegt sé, er auðvitað að vera sæt og hafa ekki hátt. Giftast góðum manni, þjóna honum til borðs og sængur, athugasemdalaust. Fæða honum börn og hugsa um þau að sjálfsögðu, skutla í skólann, á æfingar, til vinanna, í afmæli, því ekki getum við nú lagt það á þau greyin að ganga á milli staða í hverfinu, á milli þess sem ég vinn 100% vinnu á

lægri laununum , fer í ræktina til að geta haldið áfram að vera sæt og passað í samfestinginn frá rándýra hönnuðinum úti í heimi, korteri eftir fæðingu þriðja barnsins. Hönnuðurinn er auð vitað karlmaður, aðeins of vel í holdum, brúnkusprautaður með gull á hverjum fingri, fæddur inn í þessa forríku fjölskyldu og hefur aldrei þurft að spyrja sig að nokkrum hlut, alla vega alls ekki hvernig konur eru, því við ætlum bara að laga okkur að hans ímyndaða veruleika. Svo hitti ég nokkrar konur til að efla tengslanetið og fá útrás fyrir tjáningarþörfina, mögulega einhver af þeim sem hlustar á mig og ég þarf auðvitað að heyra hvað þær eru að spá, í hvaða skóm þær eru, með hvaða varalit og veski þær eru, því ekki get ég nú farið að taka sjálfstæðar ákvarðanir um hvað mér finnst flott. Svo þarf ég auðvitað að fylgjast með hvað er „inn“ og „trendy“ fyrir heimilið, guð forði mér nú frá því að maðurinn þurfi mögulega að skammast sín fyrir skóhornið í fínni forstofunni, ekki rétt merki kannski. Matseldina þarf ég að kunna upp á tíu, alltaf að finna

nýjar uppskriftir sem samfélagsmiðlastjörnur deila með okkur almúganum. Og ég rétt smakka á tungubroddinn, bara til að vera viss um að brasið sé boðlegt því ég þarf auðvitað að halda í við mig eins og áður hefur komið fram. En það er nú samt auðvitað margt sem hefur áunnist, hvernig læt ég. Við erum komin með jafnlaunavottun, menn eru alveg að elda öðru hvoru og sækja og skutla börnum. Sumar okkar eru meira að segja elskaðar og dáðar af mökum okkar, þó við séum bara eins og við erum. Sumar okkar eiga líka konur en ekki menn, og þær eiga jafnvel saman börn sem komu upprunalega sem frostpinnar frá Danmörku. Og svo eru líka til konur sem ákveða að fara einar í gegnum lífið og sumar þeirra fá sér jafnvel líka svona frostpinnabörn og koma þeim aleinar til manns eða konu eða kvár.

Við erum líka að verða heldur viðmótsþýðari gagnvart hinum ýmsu líkamsmyndum, sem ég held nú að muni koma okkur öllum til góða. Ég fagna þessum fjölbreytileika, við þurfum fjölbreytileika. Við eigum að tileinka okkur skilning og umburðarlyndi gagnvart öllu okkar samferðarfólki, hvort sem það eru konur, menn eða kvár. Við breytum ekki veröldinni nema við sjálf byrjum á því að tileinka okkur viðhorf og nálgun sem einkennist af kærleika til hverrar manneskju. Væru

stríð í heiminum ef við gætum öll tileinkað okkur það? Ef við gætum litið á okkur öll sem jafningja og þyrftum ekki meiri völd eða auð en næsta kona. Nú er ég kannski komin aðeins út úr þeim ramma sem ég lagði upp með, en það er kannski akkúrat eins og þetta á að vera – að láta leiðast þangað sem hugurinn fer, eða tækifærin eru, eða kyrrðin er, eða ástin, allt eftir því hverju þú ert helst að leita að hverju sinni. Og við megum heldur aldrei hætta að leita, alla ævina eigum við að vera að skoða nýja hluti og prófa okkur áfram.

Niðurstaðan. Ég er ánægð kona í lífi mínu í dag. Ég hef auðvitað þurft að prófa ýmislegt áður en hér er komið sögu, sumt ansi gott og gjöfult, annað heldur meira krefjandi og jafnvel meiðandi á stundum. En það breytir því ekki að það er öll sú reynsla sem hefur gert mig að þeirri konu sem ég er í dag. Og ég er stolt kona í dag, með öllum mínum líkamsfrávikum.

Ég held það sé gott að vera kona á Íslandi í dag, en við megum samt aldrei gleyma þeim konum sem á undan okkur fóru og börðust fyrir þeim réttindum sem við höfum í dag.

Og við þurfum alltaf að verja réttindin, tilbúnar til að berjast áfram þegar á þarf að halda.

Það er ekki útlitið, fjárhagurinn eða staðan sem skiptir mestu máli, það er sáttin við að vera þessi kona, stolt og stormandi í gegnum lífið oftast með bros á vör og frið í hjarta... og hefur auðvitað ekki hátt um það.

Linda B. Sverrisdóttir býr í Borgarnesi og er formaður Sambands borgfirskra kvenna og situr í útgáfustjórn Húsfreyjunnar.

SAGAN Í LITUM REGNBOGANS

á heimili Þjóðhildar Jörundardóttur

ÁEiríksstöðum í Haukadal eru rústir bæjar sem eitt sinn hýsti unga fjölskyldu, þau Eirík rauða, Þjóðhildi og börnin þeirra. Í þúsund ár var rústin það eina sem eftir stóð, en um árþúsundamótin var byggður upp tilgátubær sem sýnir hvernig heimili ungt fólk á landsnámsöld hélt.

Lengst af hefur þar verið starfrækt hefðbundin sýning, þar sem sagt hefur verið frá ábúendum og ekki síst Eiríki og syninum Leifi heppna. Fyrir 5 árum tóku nýir staðarhaldarar við og þá urðu hægt og rólega breytingar á þessum stað. Bjarnheiður Jóhannsdóttir, húsfreyja á Eiríksstöðum segir svo frá: „Við vildum efla upplifunina og ekki síst ná að draga fram fleiri myndir en aðeins af karlmönnum, vígum og ártölum“.

„Í dag leggjum við áherslu á að fólk geti umvafið sig fortíðinni, snert, spurt og spjallað, en einnig langaði okkur að draga inn meiri fróðleik, með því að gera alls konar tilraunir, bæði smáar og stórar.“

Járngerð og ullarlitun

Tilraunafornleifafræði, sem þau hafa tileinkað sér er mikilvæg viðbót við akademíska vinnu, þegar annað hvort bókmenntum eða fornleifum sleppir. Þannig má fá allskonar vitneskju, afsanna kenningar, sýna fram á möguleikann á öðrum kenningum, þótt ekki sé hægt að sanna,

Allir litir regnbogans í þurrkinum í Haukadal

en alltaf er ferlið skemmtun í sjálfu sér og mikil upplifun fyrir fólk að sjá hlutina gerða.

Meðal þeirra tilrauna sem fljótt var ráðist í er járngerð, sem 20. aldar fræðimenn töldu hafa verið lélega hérlendis, en tilraunir tókust með ágætum og breyttu í raun viðhorfi fræðasamfélagsins til járngerðar á Íslandi á landnámsöld.

Ekki síður er gaman að segja frá öllum þeim tilraunum sem gerðar hafa verið með ullarlitun og spuna að hætti land-

námskvenna. Driffjöðurin í þeirri vinnu er Rain Mason, sem fannst of lítið gert með hlutverk kvenna og þeirra menningararf og lagðist hún þess vegna í mikinn lestur og í kjölfarið tilraunastarfsemi. Óhætt er að segja að árangurinn hafi verið frábær. Með fínstillingum þekktra plantna sem notaðar voru á þessum tíma, öðrum efnum úr heimilishaldinu og hita- og tímatilraunum hefur regnboginn verið endurskapaður algerlega. „Því fortíðin er ekki í svarthvítu, eins

og við oft teljum,“ segir Bjarnheiður, „heldur hafði fólk fyrir því að lita fötin sín og önnur klæði, því norrænar þjóðir voru snyrtilegar og vildu líta vel út“. Rain selur garnið sitt á Eiríksstöðum og bíður spenntur eftir því að í Dölunum rísi spunaverksmiðja, sem verður frábært að fá að vinna með.

Svolitlir nördar á sinn hátt Í rauninni má segja að á Eiríksstöðum sé tilgangurinn að lofa fólki að komast nær raunveruleikanum á 10. öld. Það finnur lyktina, handleikur reiðufé tímabilsins og allskonar tól og tæki sem heimilislíf þess tíma krafðist. „Ekki síður skiptir máli að hafa fólk með okkur sem nennir að sökkva sér ofan í söguna og miðla henni áfram til gesta. Þau sem vinna hjá okkur eru öll svolitlir nördar á sinn hátt.“ En á Eiríksstöðum má fólk búast við því að fá ólíka sögu og ólíkar umræður, eftir því hver er að vinna. Sumir starfsmennirnir eru sérlega áhugasamir um mat, aðrir um ullarvinnslu, einhverjir um bardaga og vopn. Þannig lifir neistinn hjá fólki og það nennir að tala allan daginn um eitthvað sem vekur því sjálfu áhuga, ekki síst ef það fær áhugasama gesti sem spyrja. Bjarnheiður segir að stundum komi fyrir að fólk sem er ekkert sérlega áhugasamt um sögu sé farið að spyrja út í hvaða fræðibækur það eigi að lesa þegar það kemur heim, í lok heimsóknar. Þá er tilganginum náð.

Okkur langar að hugsa framtíðina

miklu stærri en við gerum núna. Eiríkur var reyndar augljóslega smábóndi þegar hann bjó hér, en þessi sögufrægi staður var í alfaraleið um Haukadalinn, sem þá var aðalleiðin norður í land og eflaust gestkvæmt og mikið gengið og riðið um sveitina. Það eru vaxtarsprotarnir sem við sjáum núna, viðbót í formi annars konar starfsemi sem tengist 10. öldinni og getur skemmt og frætt. Eitt stærsta verkefnið okkar á næstu mánuðum er að byggja upp jarðhýsið sem var hér á 10. öld og var augljóslega vettvangur kvenna, þar sem þar fundust munir

tengdir vefnaði. Þar verður gaman að gera tilraunir með ljósið, hversu bjart var til vinnu, hversu hratt er hægt að vefa á kljásteinavefstað, hvort það sé kalt eða heitt í húsinu og hvernig það er að vera að hálfu ofan í jörðinni með starfsemina. Eins verður gaman að sjá hvort kenningar fræðimanna um tilhögun eldstæða stenst skoðun.

„Þetta er svona það helsta sem fær hjartað til að slá hjá okkur“ segir Bjarnheiður að lokum. Það er svo mikilvægt að hafa ástríðu fyrir því sem við gerum og við viljum miðla henni áfram.

Bjarnheiður horfir í langeldinn. Mynd: Gunnella Þorgeirsdóttir
Hér er setið við ullarvinnslu í tilgátuhúsinu að Eiríksstöðum.
Eiríksstaðir undir regnboganum.
Rain Mason á góðum degi. Mynd: Gunnella Þorgeirsdóttir

Lífið sem frásögn

Ásdís Káradóttir

Engir tveir bera sig nákvæmlega eins að þegar kemur að ritstörfum. Innblásturinn getur látið bíða eftir sér. Ef þú staldrar við og skrifar, þá koma orð sem geta orðið að einhverju í fyllingu tímans. Þetta á við um öll verk, ekki dugar að hugsa. Eitt er víst að ef þú ætlar að skrifa þá þarftu vissulega að hugsa og lesa. Æfingin og undirbúningur er það sem til þarf í þessu sem öðru.

Tony Buzan upphafsmaður hugkorta talaði um að geislandi hugsun hefði bylgjur og bugður. Við vitum að stillt vatn getur haft slakandi áhrif á okkur en ólgandi sjór og brimrót hefur önnur áhrif. Þegar við horfum á tré getum við ímyndað okkur margt. Tré með rótum, stofni, krónu og fræjum. Við getum hugsað um myndlíkingu, að þetta sé okkar eigið lífstré, svo dæmi sé tekið. Við höfum tengingar sem við setjum saman í gegnum myndir og finnum fyrir í líkama okkar. Ein hugsun leiðir til annarrar, vekur upp tilfinningar, hugmyndir eða ímyndun.

Sögur af áskorunum, þjáningu, veikindum og missi, hafa fylgt mannkyninu frá upphafi. Í söguljóðinu Gilgameskviðu sem er eitt elsta ritaða bókmenntaverk sem þekkt er en þar er sagt frá hetjunum Gilgames og Enkídú. Í þeim mætast andstæður og átök við náttúruna sem er þeim æðri og er illviðráðanleg. Gilgames var óhamingjusamur konungur í Mesópótamíu um 2.7 f. Krist. Gilgames þótti fullkominn í útliti og hann stjórnaði ríki sínu með mikilli ógn þannig að borgararnir hræddust hann. Hann réð yfir náttúrunni, einmanaleikinn sótti á hann og fólkinu í ríkinu leið ekki vel. Hann reisti múrvegg utan um borgina til þess að einangra sig enn meir. Sem svar við ofríki Gilgames, er Enkídú sendur til hans og þeir bindast vináttuböndum og finna sátt (Gottskálk Jensson, Hjalti Snær Ægisson, 2011).

Ásdís Káradóttir og Sæunn Þórisdóttir.

Frásagnir hafa verið notaðar til að fræðast, túlka reynslu og skilgreina rétt og rangt. Almenningur og fræðimenn sækja í fornar sögur til að ríma við nútímann. Síðastliðinn áratug hafa augu beinst að mikilvægi þess að nýta sögur til að finna skilning á ýmsu sem ekki blasir við. Þjáning er hluti af lífinu. Fáir ef nokkur kemst undan því að kljást við sársauka eða missi af einhverjum toga.

Frásagnarlæknisfræði (e. narrative medicine) er nýlegt fræðasvið. Læknirinn og bókmenntafræðingurinn Rita Charon er upphafsmaður fræðasviðsins. Hugmyndafræðin er vaxandi og hefur meðal annars hlotið brautargengi innan íslenska heilbrigðiskerfisins.

Bókmenntir geta velt upp ýmsum spurningum. Fólk hefur í gegnum aldirnar deilt reynslu sinni með því að koma henni í gegnum sögur. Frásögnin er notuð til að endurskapa reynslu, ná utan um það sem hefur gerst og setja merkingu og tilgang.

Ímyndunaraflið er lykilatriðið í byggingu sjálfsmyndar Fólk, bókmenntir og heilbrigðisvísindi leitast við að koma einhverju skipulagi á lífið og tilveruna, finna uppruna, tilgang og niðurstöðu. Bókmenntafræðingurinn David Morris (2001) segir í grein sinni „Narrative, Ethics, and Pain: Thinking with stories“ að fólk hugsi í sögum, það merki ekki að hugsa um sögur heldur fremur að við notum söguformið til þess að íhuga og skilja aðstæður. Ákveðin orð kalla fram hugmyndir. Hvernig tölum við um ást? Við getum bara talað um hana í hugtakslíkingum, það sama á við um sársauka.

Samkvæmt Aristóteles veittu grískir harmleikir áhorfendum geðhreinsun (e. catharsis). Þeir höfðu að hans mati þau áhrif að hreinsa út hræðslutilfinningar, meðaumkunartilfinningar og veita í staðinn gleði og kátínu. Kristján Árnason bendir á, í inngangi að verki Aristóteles Um skáldskaparlistina (1997),

að „catharsis“ sé læknisfræðilegt hugtak (bls. 35-36).

Að skrifa sig frá erfiðri lífsreynslu og nota ímyndunaraflið á erfiðum tímum er vel þekkt og viðurkennt í nútímanum. Í verkinu Út í vitann (2014) vitnar þýðandinn, Herdís Hreiðarsdóttir í orð Virginiu Woolf sem lýsti útrásinni ,,catharsis“ á myndrænan hátt og hvernig hún öðlast hugarró eftir móðurmissi við skrif bókarinnar.

Ég var heltekin af nærveru móður minnar. Ég gat heyrt rödd hennar, séð hana, ímyndað mér hvað hún myndi gera eða segja á sama tíma og ég sinnti hefðbundnum verkefnum hversdagsins … ég var gagntekin af henni frá því að ég var þrettán uns ég varð fjörutíu og fjögurra ára gömul. Síðan dag einn þegar ég gekk um Tavistock- torgið samdi ég, eins og ég bý stundum til bækurnar mínar. To the Lighthouse í stórfenglegu, óviljandi æðiskasti. Einn hlutur leiddi af sér annan. Rétt eins og sápukúlur sem eru blásnar með pípu streymdi aragrúi af hugmyndum og atriðum, á örskotsstundu upp úr hugarfylgsnum mínum … hvað var það sem blés sápukúlurnar? Af hverju þarna? Ég hef enga hugmynd um af hverju. En ég skrifaði bókina mjög hratt og þegar ég skrifaði hana hætti ég að vera heltekin af móður minni. Ég heyrði ekki lengur rödd hennar. Ég sé hana ekki lengur (Woolf, bls. 323-324).

Samlíðan – blindgata opnast

Að segja sögu er ákveðinn kortlagning og þegar atburðum og eða aðstæðum er lýst á lifandi hátt getur blindgata opnast til allra átta. Frásögnin verður þá auga þess sem meðtekur, við það getur afstaða til margs breyst og endurskoðun orðið á eigin viðhorfum.

Einn af ótalmörgum eiginleikum minnisins er að þegar við hlustum á aðra fer okkar eigið minni af stað sem er oft allt annað en minni þeirra sem segja frá. Minnið breytist og endurvinnur þær upplýsingar sem við meðtökum dag hvern.

Arthur W. Frank (1995) félagsfræðingur hefur fjallað um mátt frásagna í bók sinni The wounded storyteller: Body, illness and ethics. Frank hefur sjálfur tekist á við alvarleg veikindi, bæði hjartasjúkdóm og krabbamein. Hann greinir frásagnir af veikindum í þrjá flokka.

Sá fyrsti er endurreisnarsögur (e. restitution narrative) en þar segir frá alvarlegu ástandi sem er tímabundið, viðkomandi nær heilsu á nýjan leik. Þessar

sögur eru fyrirferðamestar, allir þeir sem veikjast alvarlega óska þess að verða heilbrigðir og þeir vita að fólk vill heyra endurreisnarsögur, sögulínan er í grunninn: „Í gær var ég heilbrigð, í dag er ég veik, á morgun verð ég frísk“ (Frank, 1995, bls. 77). Fólk býr jafnvel til uppistand um veikindin og túlkunin verður þá á sama hátt og að ofan er nefnt, áhorfendur skemmta sér og gleðjast við endurreisnina sem við komandi er að gera uppistand um.

Þá talar Frank um óreiðufrásögn (e. chaos narrative) en þá er sá sem segir sögu sína oft mikið veikur, sögurnar eru sundurlausar og fylgja ekki frásagnarforminu. Það rekur ekki einn atburður annan.

Í þriðja lagi eru sögur af sigurvegurum eða leit að tilgangi (e. quest narrative) þar sem frásagnirnar einkennast af því að eitthvað hafi breyst, jafnvel til góðs og sjúkdómurinn, og harmurinn, hafi kennt eitthvað nýtt um lífið og ný tækifæri hafi hlotist af.

Frank talar um að þjáning sé drifkrafturinn á bak við allar veikindasögur og það að segja og hlusta á slíkar sögur sé hluti af bataferlinu. Hann bendir á að frásagnarferlið sé hið sama en geti tekið breytingum eftir aðstæðum hverju sinni (Frank, 1995, bls. 76). Hvernig sagan er sögð segir töluvert um hvar einstaklingur er staddur og einnig viðhorf til aðstæðna og framtíðar.

Útbreiðsla veikindafrásagna hefur aukist undir lok 20. aldar og byrjun 21. aldar samkvæmt bókmenntafræðingnum Stella Bolaki (2016, bls. 4). Hún telur að það megi rekja til femínisma, hinseginfræða og fötlunarfræða þar sem sögurnar komi frá fyrstu hendi. Samfélagsmiðlar hafi einnig átt þátt í útbreiðslu frásagna af lífi og líðan fólks. Bolaki fjallar um að sannsögur hafi fengið aukna umfjöllun og athygli manna beinst að áhrifamætti þess að tjá sögu sína og skrifa sig frá vanlíðan.

Hugsanir, líðan og orð

Við hugsum öll í sögum og ef til vill geta frásagnir og myndlíkingar endurbyggt laskaða sjálfsmynd eftir ágjöf í lífinu. Ásdís og Sæunn stofnuðu Klíó skrif

og ritstjórn og hafa haldið námskeið meðal annars hjá Endurmenntum HÍ, á bókasöfnum, Krabbameinsfélaginu og aðildarfélögum. Þar er kynning á ýmsum aðferðum, hvernig hægt er að vinna með texta og koma m.a. hugsunum og líðan sinni í orð t.d. með smásögum, örsögum og ljóðsögum sem geta orðið að lengri textum í fyllingu tímans. Myndsköpun og hugmyndafræði Jóga Nidra eru notaðar sem kveikjur til að draga fram það sem dulvitundin geymir. Ritstjórnarferlið er kynnt og þátttakendum gefst tækifæri til að fá ritstjórnarlestur á verk sitt. Lögð er áhersla á skrifæfingar.

Á námskeiðum eru stuttir textar kynntir, eins og smásögur, örsögur og ljóðsögur. Að þróa góðvild með sjálfum sér og gera reynslu sína merkingarbæra með orðum. Kennt er að nota myndsköpun og hugmyndafræði Jóga Nidra sem kveikjur til að draga fram það sem dulvitundin geymir. Þá eru flæðiskrif einnig kennd. Ritstjórnarferlið og ritþjálfun eru kynnt og þátttakendum gefst tækifæri til að fá ritstjórnarlestur á verk sitt. Lögð er áhersla á skrifæfingar. Þegar lífið tekur óvænta stefnu þá breytist sjónarhornið og sjálfsmyndin breytist. Hún getur laskast og við það rís oftast einhver þörf til að orða reynsluna til að finna merkingu og tilgang. Leitað er að skilningi á því hvers vegna allt breyttist og varð öðruvísi en vonir og væntingar stóðu til og ekki síður hefst leit að leiðum til að vinna úr þeim harmi sem hlýst af. Að skrifa um líðan sína er ein leið til þess að öðlast jákvæðari merkingu og breyta sjónarhorni.

Nánar um Ásdísi og Sæunni

hjá Klíó skrif og ritstjórn Ásdís Káradóttir er með MA-gráðu í ritlist og BA-gráðu í bókmenntafræði. Hún er einnig hjúkrunarfræðingur með framhaldsnám í sálgæslu og Jóga Nidra kennsluréttindi. Hún hefur reynslu af að skrifa um eigin reynslu. Sæunn Þórisdóttir ritstjóri er með MAgráðu í hagnýtri ritstjórn og útgáfu ásamt BA-gráðu í bókmenntafræði með ritlist sem aukagrein.

Guðrún Egilsson

Höfundur smásögunnar Leyndarmál

Guðrún Egilson er Reykvíkingur, fædd 1945. Hún tók stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík, BA próf í íslensku, frönsku og almennri bókmenntasögu frá Háskóla Íslands og síðar próf til kennsluréttinda. Guðrún starfaði sem blaðamaður á árunum 1965-1970 og var við frönskunám við Sorbonne í París um hálfs árs skeið. Á árunum 19711983 stundaði hún sjálfstæða blaðamennsku, þýðingar og önnur ritstörf. Á árunum 1986-2012 var hún íslenskukennnari, fyrst við Grunnskóla Hafnar-

fjarðar og lengst af við Verslunarskóla Íslands. Um langt árabil eða um 40 ár skrifaði hún pistla fyrir Morgunblaðið. Frá 2003- 2015 var hún síðan málfarsráðgjafi í hlutastarfi við RÚV. Guðrún hefur sent frá sér fjórar bækur, ævisögu Rögnvaldar Sigurjónssonar í tveimur bindum, Tvístirni, ævisögu Svanhvítar Egilsdóttur prófessors og loks pistlasafnið Hugsað upphátt. Eins hafa verið birtar bæði ljóð og smásögur eftir hana.

Leyndarmál í lyfjaskáp

Mér

verður starsýnt á gula teketilinn. Hann stendur þarna svo umkomulaus mitt í óreiðunni og dregur mig inn í bernskuna. Ég hafði það fyrir vana að horfa beint á hann þegar andrúmsloftið lá eins og þykkur mökkur inni í eldhúsinu og hleypti engri brosglætu í gegn. Hann var svo fagurgulur- eins og sólin- og kallaði fram gleði og hlýju sem var sjaldgæfur munaður á þessu heimili. Og þegar mér leið sem verst tyllti ég mér í huganum klofvega á stútinn og flaug á þessu kynlega farartæki langt, langt í burtu.

-Ertu búin að tæma meðalaskápinn, - segir Ólöf systir mín og lítur um öxl, vopnuð tusku og bursta. Hún hefur borið allt út úr diskaskápnum og keppist við að þrífa þaðan margra ára grómtekin óhreinindi.

-Ha, nei, -segi ég annars hugar.

-Þar er áreiðanlega heilt apótek. Tómar flöskur undan hóstasaft, úðabrúsar, pillubox og eldgömul lyf sem hann var búinn að steingleyma. Kallinn henti aldrei neinu. Blessuð drífðu í þessu, við getum ekki hangið hér til eilífðar. Var ekki meiningin að sýna íbúðina eftir helgi?

-Af hverju liggur svona mikið á, - segi

ég vesældarlega. –Pabbi er varla kólnaður í gröfinni.

-Illu er best aflokið,- segir Ólöf, snögg upp á lagið að vanda, og heldur áfram að skrapa skápinn að innan.

Ég reyni að hrista af mér slenið. Mér finnst svo stutt síðan við pabbi sátum hérna við eldhúsborðið og brostum hvort til annars. Þannig voru okkar tjáskipti. Orðin þvældust bara fyrir okkur. Nú er brosið hans slokknað og ég orðlaus sem fyrr. En fyrir eyrum mér suðar orðasveimurinn úr mömmu, sem er löngu dáin, úr Pétri sem er fluttur til Danmerkur og úr Ólöfu sem hamast með tuskuna. Þetta skrækróma tríó, sem annaðist undirleik við bernsku mína og æsku, verður stöðugt háværara án þess að ég greini orðaskil. Ég er enn á ný gripin þeirri lamandi tilfinningu að ég sé ein í heiminum, tilheyri engum og eigi hvorki mál né málsvara. Mig sundlar þarna á miðju eldhúsgólfinu, reyni að einblína á gula teketilinn og er í þann veginn að skríða upp á hann eins og fyrrum þegar ég heyri Ólöfu segja með uppgerðarlegri

hlýju:

-Svona, svona. Þetta getur ekki verið svona sárt. Pabbi var orðinn gamall og þreyttur, eins og þú veist. Hann var

löngu hættur að vinna og hafði engin áhugamál. Þetta var ekki orðið neitt líf hjá honum. Og þegar öllu er á botninn hvolft var hann ekki einu sinni pabbi þinn, bætir hún við, eins og hún sé að segja mér ný tíðindi.

Þessi ögrandi athugasemd hleypir í mig illu blóði og ég horfi á systur mína með manndrápssvip:- Víst var hann pabbi minn. Hann sagði það sjálfur.

-Jæja góða, sagði hann það, hvæsir hún illyrmislega Ertu búin að gleyma blóðflokkunum?

-Að sjálfsögðu hef ég engu gleymt. Allra síst þeirri skelfilegu kvöldmáltíð þegar það upplýstist að ég var af allt öðrum blóðflokki en foreldrar mínir og systkini. Bekkurinn minn hafði verið hvattur til þess að gefa blóð og ég veifaði sigri hrósandi skírteininu mínu, þar sem stóð skýrum stöfum að ég væri í A-flokki. Mamma sótroðnaði, sagði mér að láta þetta niður, pabbi rak upp stór augu og teygði sig í kortið en mamma þreif það af honum og æddi með það inn í stofu. Pétur og Ólöf horfðu undrandi hvort á annað og síðan á mig, eins og ég væri viðundur. Að vísu hafði ég alltaf verið hálfgert viðundur í fjölskyldunni en aldrei hafði mér fundist ég eins utangátta

og botnaði hvorki upp né niður. Máltíðin leystist upp, blóðmörinn storknaði á fatinu, rófustappan kólnaði, pabbi lét sig hverfa og mamma skellti hurðum, bölvandi og ragnandi. Um kvöldið sagði Ólöf mér að annaðhvort væri ég umskiptingur eða að mamma hefði átt mig með öðrum manni en pabba. Mér þótti fyrri kosturinn betri þótt sú ægilega staðreynd þyrmdi yfir mig að síðari tilgátan væri rétt.

Þetta mál var aldrei rætt á heimilinu frekar en annað. Allar tilraunir mínar til að fá mömmu til að leysa frá skjóðunni enduðu með formælingum og hatursfullu augnaráði. Systkini mín minntust aldrei á þennan atburð og ekki pabbi heldur fyrr en nokkrum mánuðum síðar þegar ég hafði eigrað um í ráðleysi dögum saman, vanrækt skólann, lokað á vini mína og grátið mig í svefn. Sorgin var of sár til þess að gamla flóttaleiðin mín væri fær.

Hann læddist inn til mín á slitnu flókaskónum, horfði á mig, dálítið raunamæddur og sagði;

,,Vina mín, þú veist að ég er ekkert sérlega mælskur og við, þú og ég , stöndum frammi fyrir vandamáli sem hvorki orð né athafnir fá leyst. En má ég ekki vera pabbi þinn? Ég hef verið það hingað til.

Leyfðu mér að vera það áfram“.

Það var sem þessi hógværu orð hans leystu mig úr ánauð. Ég flaug upp um hálsinn á honum og grét af einskærum létti.

Eftir þennan atburð þróaðist með okkur pabba orðlaust trúnaðarsamband sem stóð af sér alla storma heimilislífsins. Mamma og systkini mín voru svo upptekin af sjálfum sér að þau veittu því enga eftirtekt. Það fólst í örlitlu brosi og léttri snertingu þegar enginn sá til. Það veitti okkur þrek til að umbera gráan hversdagsleikann; mér til að stunda nám mitt af einurð, honum til að umbera yfirgang og skapofsa móður minnar. Og þegar hún vildi leita sátta á banabeðinu og spurði hvort ég vildi ekki vita um mitt rétta faðerni, hristi ég höfuðið. Það kom mér ekki við.

Allar þessar minningar hafa þotið um hugann með leifturhraða á meðan Ólöf stendur sigri hrósandi yfir mér, vopnuð bursta og klút. Mér býður jafnvel í grun að hún vilji að ég afneiti pabba, lýsi yfir að ég sé ekki dóttir hans og mér beri því

Húsfreyjan 3. tbl. 2024

ekki að taka arf eftir hann. Kannski hefur hún útvegað sér DNA-sýni til að sanna mál sitt. Kannski ætlar hún að leiða mig fyrir dómstóla og svipta mig opinberlega því sem ég á sannast og best. Margra ára hatur sýður í mér. Hún er ekki systir mín. Hún hefur aldrei verið systir mín og nú hefur hún tekið á sig yfirbragð og æði konunnar sem sveik manninn sinn og eitraði allan minn uppvöxt.

Ólöf hörfar undan augnaráði mínu og byrjar að róta í meðalaskápnum án þess að segja orð. Hún nær sér í svartan ruslapoka og fleygir í hann hálftómum glösum, hylkjum og öskjum með glamri og brothljóðum. Hún tautar eitthvað fyrir munni sér og það eru rauðir dílar í vöngum hennar eins og hjá mömmu þegar hún komst í ham.

-Jú, jú, auðvitað var hann pabbi þinn, segir hún svo stundarhátt. Hann sá ekki sólina fyrir þér, þrátt fyrir allt. Þess vegna hleypti hann mér aldrei að sér og þess vegna syrgir þú hann meira en ég. Þess vegna vil ég losna við allt þetta drasl og minningar sem hafa ekkert gildi. En um þig gildir auðvitað öðru máli. Fyrirgefðu hvað ég var hvatvís.

Hún tekur utan um mig og ég halla mér stundarkorn upp að henni og við náum saman í fyrsta sinn síðan við vorum krakkar. En tilfinningin er svo skrýtin að við sleppum hvor annarri og förum báðar að gramsa í skápnum af ákefð.

Það er satt. Pabbi henti aldrei neinu. Dagsetningar á umbúðunum eru yfirleitt nokkurra ára. Þarna er auðvitað ekkert nýtilegt, jafnvel ekki hálspillur . Þetta fer allt ofan í pokann.

-En bíddu nú við, segir Ólöf. Þarna eru nýir lyfjapakkar, sumir óopnaðir. Hvað skyldi þetta nú vera?

Eg tek einn pakkann, sé að dagsetningin er bara nokkurra vikna, en það er ekki bara hún sem vekur forvitni mína heldur heitið á lyfinu. Þarna stendur stórum stöfum: Viagra.

-Sérðu þetta, segi ég steinhissa.- Pabbi hefur fengið sér stinningarlyf!

Ólöf er orðlaus af undrun. Hann var kominn á áttræðisaldur. Veist þú til þess að hann hafi átt sér vinkonu? Þú fylgdist betur með honum en ég.

-Nei, ég hef ekki hugmynd um það. Við töluðum aldrei mikið, sátum bara og létum fara vel um okkur. En hann brosti mikið í seinni tíð og var óvenju léttur í

spori. Honum leið greinilega vel. Þess vegna var ég svo hissa þegar hann dó svona skyndilega.

-Getur verið að hann hafi verið að laumast með einhverjar kerlingar án þess að nokkur vissi? Eiginlega ætti maður að vera bálvondur og hneykslaður. Þetta hefur bara farið með hann, hjartað hefur gefið sig af áreynslu.

Ég sest niður máttvana af undrun, en skyndilega skelli ég upp úr. Mér hefur ekki stokkið bros síðan pabbi dó en nú leysast innibyrgðar tilfinningar upp í svo hjartanlegan hlátur að Ólöf starir á mig með hálfopinn munn en stenst svo ekki mátið og fer að hlæja líka.

-Maður dauðvorkenndi karlgreyinu að hanga hér í einsemd eftir að hafa verið kúgaður og kokkálaður og svo hefur hann bara gengið fram af sér í bólfimi á áttræðisaldri, segir hún milli hláturgusanna.

Ég segi ekkert, bara hlæ. Eiginlega ætti ég að vera afbrýðisöm og sár út í pabba fyrir að hafa farið svona á bak við mig. En mér er létt. Mér finnst hann hafa fengið að deyja með reisn, í tvennum skilningi. Mig rámar óljóst í að hafa furðað mig á ókennilegri konu sem felldi tár við útförina en hver hún er skiptir ekki máli, ekki fremur en mitt raunverulega faðerni.

Skyndilega hefur lifnað yfir þungbúnu eldhúsinu og mér finnst sem guli teketillinn taki viðbragð af kátínu. Ég reyni að fanga þetta dýrmæta andartak áður en við systur höldum hvor til síns heima með bros á vör. Við höfum ákveðið að láta slag standa og fresta frekari aðgerðum um sinn.

Við óskum Húsfreyjunni

innilega til hamingju með 75 ára afmælið!

Með ýmislegt á prjónunum

Halla Benediktsdóttir, umsjónarmaður Jónshúss í Kaupmannahöfn

Halla Benediktsdóttir er umsjónamaður Jónshúss í Kaupmannahöfn og hefur verið undanfarin níu ár. Við fengum Höllu til að segja frá starfsemi hússins og einnig því sem hún hefur verið að fást við utan vinnu, en það tengist ekki síst prjónaskap og handavinnu.

Halla flutti til Kaupmannahafnar árið 2009 ásamt eiginmanni sínum, Hrannari Hólm og börnum þeirra, Helenu Brynju og Helga Benna. Fjölskyldan flutti vegna vinnu Hrannars og var planið að vera þar í þrjú til fimm ár, en síðan eru liðin 15 ár. “Okkur líður vel í Kaupmannahöfn.“ segir Halla.

Félagsheimili Íslendinga í Kaupmannahöfn Hús Jóns Sigurðssonar var byggt árið 1852 og stendur á besta stað í Kaupmannahöfn, innan gamla borgarvirkisins. Þar bjuggu hjónin Jón Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir í 27 ár, frá 1852 til 1879. Húsið er reisulegt og fallegt á fimm hæðum og hefur verið félagsheimili Íslendinga í Kaupmannahöfn í rúm 50 ár, og í raun lengur því heimili Ingibjargar og Jóns var á sínum tíma einnig kallað félagsheimili Íslendinga í Kaupmannahöfn, enda voru þau sérlega gestrisin, höfðu meðal annars opið hús á miðvikudögum þar sem boðið var upp á íslenskan fisk.

Það var síðan árið 1966 sem Íslendingar eignuðust húsið, en íslenskur heilsdali, Carl Sæmundssen, sem lengi hafði búið og starfað í Kaupmannahöfn, keypti húsið og gaf það Alþingi Íslendinga. Í gang

fóru breytingar, því áður hafði verið búið á flestum hæðum hússins og árið 1970 var Jónshús formlega opnað sem félagsheimili Íslendinga í Kaupmannahöfn. Árið 2024, 54 árum síðar, er félagslífið í Jónshúsi enn í miklum blóma. Verður vikið að því síðar.

Það var aldrei planið hjá Höllu að verða umsjónarmaður Jónshúss. En fljótlega eftir flutninginn til Kaupmannahafar fór hún að kenna íslensku í Jónshúsi og upp frá því var hún með annan fótinn í húsinu, ef svo má segja. Árið 2015 var síðan staða umsjónarmanns hússins auglýst laus og varð Halla fyrir valinu.

Garnaflækjan

Halla hefur alltaf haft mikinn áhuga á handavinnu, er lærður textilkennari og hefur kennt handavinnu. Hún settist á skólabekk í Kaupmannahöfn og nam handverk og hönnun. „Það var frábært að fá tækifæri á að dýpka skilning minn á ýmiskonar handverki og bæta við mig hönnunarkunnáttu. Með námi vann ég sem prjónahönnuður, bæði sjálfstætt og með dönskum fatahönnuði.“

Halla tók þátt í því að stofna prjónaklúbb sem hefur aðsetur í Jónshúsi, Garnaflækjuna, sem lifir enn góðu lífi. Fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði eru prjónakvöld í Jónshúsi sem eru vel sótt. „Prjónakvöld Garnaflækjunnar eru frábær, við njótum þess að vera saman og prjóna. Ég hef reyndar óendanlega mikinn áhuga á handprjóni og hef auk þess sérstaklega gaman af því að virkja annað fólk til að prjóna. Það er svo skemmti-

legt þegar alls konar fólk situr saman og prjónar, allir verða jafnir og mikið er spjallað. Að mæta á prjónakvöld Garnaflækjunnar er góð leið til að kynnast fólki.“

Halla segir frá því að Garnaflækjan hafi tekið að sér ýmis verkefni í gegnum tíðina. Einn veturinn voru prjónaðar húfur fyrir heimilislausa, síðar voru prjónaðar litlar dúkkur í sjúkrabíla, en lang stærsta verkefnið sem Garnaflækjan hefur fengist við er að prjóna veifur fyrir Tívolí. En hvernig stóð á því að Garnaflækjan fór að prjóna veifur fyrir Tívolí?

„Tívolí heldur reglulega upp á þjóðhátíðardaga ýmissa landa og fyrir þremur árum bættist íslenski þjóðhátíðardagurinn við. Ég var í samstarfshópi um skipulag dagsins og vildi endilega finna einhvers konar handprjón sem við gætum skreytt Tívolí með. Ég mundi eftir að hafa séð jólatré sem prjónahönnuðurinn Védís Jónsdóttir hafði skreytt með veifum úr ónýtum íslenskum lopapeysum. Þá kviknaði hugmynd um að prjóna veifur úr íslenskri ull í fánalitum, kaupa ónýtar lopapeysur og búa til veifur. Ég hafði samband við Védísi sem tók þessu vel og var þá ekki aftur snúið. Ég fékk þrjár góðar konur með mér í lið og við kýldum verkefnið í gang. Það var verulega spennandi að fara af stað með verkefni sem var óskrifað blað.“

„Þetta gekk sérlega vel og var verulega skemmtilegt. Við auglýstum sérstök veifuprjónakvöld í Jónshúsi, þar sem fólk kom og prjónaði veifur. Mikil stemning myndaðist. Ein kona, Helga Hansen, fór

á flug og prjónaði yfir 200 veifur. Og það var ekki eingöngu prjónað í Kaupmannhöfn, heldur einnig á Íslandi, Svíþjóð, Kanarí og Færeyjum. Alls voru prjónaðar fleiri en 2000 veifur. Varla er unnt að lýsa tilfinningunni að mæta í Tívolí og sjá veifunar prýða garðinn, sem þær settu heldur betur svip á. Veifurnar voru teknar niður að deginum loknum og endurnýttar ári síðar. Við héldum áfram að prjóna veifur og var þeim fundið pláss.“

„Ég var búin að ákveða að þetta væri komið nóg þar til Tívolí hafði samband í vor og spurði hvort við vildum ekki bæta við veifum. Ég fékk þá hugmynd að prjóna frekar hina séríslensku sjónvarpssokka. Ég prjónaði einn og fór á fund í Tívolí. Ég varð að leggja mig alla fram til að selja þeim hugmyndina, því þeim fannst þetta ekki mjög sokkalegur sokkur. Við fengum þó grænt ljós og fórum af stað, prjónuðum sjónvarpsokka í barnastærðum í fánalitum, planið var að prjóna 80 pör, en við náðum 160 pörum. Sokkarnir voru hengdir upp í Tívolí þann 17. júní ásamt öllum veifunum. Nú eru veifunar aftur komnar í geymslu og bíða til næsta árs en sokkarnir eru komnir í Jónshús og bíða þess að það fari að kólna, en þá munum við gefa þá flóttamannasetri sem er hér í nágrenninu. Það var svo gaman að prjóna sokkanna að ég mun taka því fagnandi ef Tívolí óskar eftir meira handprjóni.“

Fjölbreytt starfsemi

En það er ekki bara Garnaflækjan sem lifir góðu lífi í Jónshúsi. Húsið iðar af lífi frá morgni til kvölds, enda gegnir það margs konar hlutverki. Húsið er jú Félagsheimili Íslendinga í Kaupmannahöfn. Fjórir kórar æfa vikulega í húsinu, einnig er þar móðurmálsskóli, heldri borgarar hittast á miðvikudögum, haldnir eru foreldramorgnar á fimmtudögum, krílasöngur, AA-fundir og Icelandair félagsvist á föstudögum, svo fátt eitt sé nefnt. Íslendingafélagið í Kaupmannahöfn heldur ýmsa viðburði í húsinu, Íslenski söfnuðurinn nýtir húsið vel og auk þess eru hér tveir öflugir hópar kvenna, Félag kvenna í atvinnulífinu í Danmörku og Katla Nordic, sem nýta húsið fyrir viðburði. Einnig halda nemendur tækniháskólans DTU svokallaðar vísindaferðir í húsinu. Reglulega eru haldnir tónleikar í húsinu og það sama má segja um lista-

aukning á að íslenskir ferðmenn komi í heimsókn á heimili Ingibjargar og Jóns, bæði í stærri og smærri hópum. Halla tekur á móti stærri hópum og segir frá húsinu, en öllum er að sjálfsögðu velkomið að kíkja við þegar Jónshús er opið. Í Jónshúsi eru tvær íbúðir fyrir fræðimenn sem dvelja þar að jafnaði í fjórar vikur. Það er eftirsótt að vera fræðimaður í Jónshúsi, mjög margir sækja um, en færri komast að en vilja. Um það bil 22 fræðimenn dvelja árlega í húsinu. Einnig er í húsinu bóksafn sem endurnýjast fyrst og fremst á bókagjöfum. Um það bil 10.000 bækur eru í húsinu, barnabækur eru mjög vinsælar.

Í vinnunni allan sólarhringinn Þar sem Halla býr í Jónshúsi segist hún í rauninni vera í vinnunni allan sólarhringinn og er alltaf með kveikt á símanum. Enda sé aðeins dauð stund í húsinu yfir blánóttina. „Jónshús er mjög sýnilegt á samfélagsmiðlum, bæði á Facebook og Instagram og hefur það vafalítið haft áhrif á hve margir leggja leið sína í húsið“.

En Halla hefur fleiri prjónajárn í eldinum en Garnaflækjuna. Tíunda árið í röð er hún verkefnastjóri á stórri prjónahátíð sem fram fer í Kaupmannahöfn og kallast Pakhusstrik. „Ég áttaði

mig á því þegar ég var að vinna með dönskum hönnnuðum að Íslendingar

aði að búa til vettvang sem gæti miðlað þessari vitneskju til Dana. Hér í borg er menningarhús Íslands, Færeyja og Grænlands, Norðurbryggja, sem hefur það markmið að kynna menningu þessarra landa. Fyrir tíu árum fór ég á fund á Norðurbryggju og seldi þeim hugmynd um að búa til prjónahátíð þar sem garn og vitneskja frá þessum löndum væri á dagskrá. í stuttu máli má segja að prjónahátíðin hafi frá upphafi gengið ótrúlega vel. Hún er haldin yfir helgi þar sem fólki gefst kostur á að kaupa íslenskt, færeykst og grænlenskt garn.Við fáum fólk frá þessum löndum til að koma og halda erindi og auk þess eru ýmsir viðburðir í léttari kantinum. Þó ég segi sjálf frá þá er þetta örugglega einn flottasti prjónaviðburðurinn í Danmörku. Við erum á besta stað í Kaupmannahöfn og í glæsilegu húsi. Hægt er að fylgjast með okkur á Instagram undir Pakhusstrik.“

Eftir að hjónin Halla og Hrannar fluttu í Jónshús fóru þau að grafast fyrir um sögu hússins og borgarinnar og ekki síst sögu Íslendinga í Kaupmannahöfn. Hrannar hefur nú í nokkur ár sýnt þúsundum Íslendinga borgina og sagt sögur, en þess utan hafa þau hjónin undanfarin átta ár farið í „sýndargöngur“ um Kaupmannahöfn og nágrenni. Alls eru „göngurnar“ orðnar 58 og eru verulega vinsælar, en fylgjast má með „Höllu og Hrannari á göngu um Kaupmannahöfn“ bæði á Facebook og Instagram.

Frumkvöðull og fyrirmynd

Ólafía Jóhannsdóttur (f. 1863 d. 1924)

Þann 21. júní 2024 voru 100 ár liðin frá andláti Ólafíu Jóhannsdóttur og að því tilefni var haldin minningarathöfn í samstarfi við Kvenfélagasamband Íslands, Bandalag kvenna í Reykjavík, Djáknafélag Íslands, Félagsráðgjafafélag Íslands, Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, Handleiðslufélag Íslands, Hvítabandið, Kvenréttindafélag Íslands og Mosfellsprestakall. Minningarathöfnin hófst á Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum við Túngötu 14 í Reykjavík. Gengið var saman í fylkingu að leiði Ólafíu í Hólavallagarði þar sem séra Henning Emil fór með blessun og Elísabet Gísladóttir, formaður Djáknafélagsins, leiddi bæn. Að því loknu var blómsveigur lagður að legstað hennar.

Æskuár og uppvöxtur Ólafía fæddist 22. október 1863 að kirkjustaðnum Mosfelli í Mosfellsbæ og foreldrar hennar voru séra Jóhann Knútur Benediktsson og Ragnheiður Sveinsdóttir. Þegar Ólafía var tæplega tveggja ára var henni komið fyrir í fóstri í Viðey hjá Ólafi Stephensen dómsmálaritara og konu hans Sigríði Þórðardóttur en foreldrar hennar og fjölskylda fluttust austur í Meðalland.

Fóstrið í Viðey var gott og í endurminningum sínum fjallar Ólafía um að þar hafi hún átt sínar sælustu stundir en sterk og djúp tengsl mynduðust, sérstaklega við Sigríði sem Ólafía kallaði ávallt frúna sína og Sigríður kallaði Ólafíu Lóu sína. Ólafía naut góðs af og bjó alla tíð að þeim góða grunni sem lagður var í kærleiksríkt uppeldi. Sumarið 1868 kom

Ólafía Jóhannesdóttir, (1863-1924), brjóstmynd á Mosfelli í Mosfellsdal. Mynd: Kirkjublaðið.is

Ragnheiður, móðir Ólafíu, út í Viðey til að sækja hana og flytja heim með sér. Ekki vildi Ólafía fara með móður sinni og mótmælti hún kröftuglega án árangurs. Við aðskilnaðinn strauk Sigríður henni um vangann og sagði: „Jæja Lóa mín, ríkari er eign en umboð“ og sátu þessi orði í minni Ólafíu alla ævi. Þegar til Reykjavíkur var komið fór Ragnheiður með Ólafíu heim til systur sinnar, Þorbjargar Sveinsdóttur sem bjó á Skólavörðuholtinu og var ljósmóðir í bænum. Úr varð að þær systur sammæltust um að Þorbjörg myndi fóstra hana en hún var ógift og barnlaus.

Þorbjörg var virt ljósmóðir í Reykjavík, þótti einstaklega nærfærin og úrræðagóð í sínu starfi ásamt því að gera

engan greinamun á fátækum konum eða betri borgurum þegar kom að því að veita fæðingarhjálp. Þorbjörg barðist fyrir réttindum kvenna, löngu áður en farið var að skilgreina kvenréttindi á formlegan hátt. Hún var sérstök og henni oft lýst sem hetju, kvenskörungi og brautryðjanda. Móðurbróðir Ólafíu var Benedikt Sveinsson, sýslumaður og alþingismaður. Systkinin Benedikt og Þorbjörg voru náin og bæði eldhugar í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Ólafía var því aftur komin í fóstur á heimili þar sem hún fékk sérstakt og óhefðbundið uppeldi sem mótaði hana fyrir lífstíð.

Frumkvöðull á mörgum sviðum Ólafía var í námi í Barnaskólanum í Hafnarstræti í þrjá vetur og þaðan fór hún í Kvennaskólann. Hún las síðan utan skóla við Latínuskólann ásamt því að vinna sem kennari. Hún tók fjórða bekkjar próf 1890 fyrst íslenskra kvenna og sótti um að fá að taka stúdentspróf ári síðar, þar sem hún taldi sig tilbúna til að gangast undir lokapróf. Beiðni hennar var hafnað af yfirvöldum skólans á þeirri forsendu að tveir vetur skyldu líða milli fjórðabekkjarprófs og stúdentsprófs þegar konur áttu í hlut. Piltar gátu tekið próf ári eftir fjórðabekkjarpróf og það hafði Einar, frændi Ólafíu einmitt gert. Ólafía sætti sig ekki við þessi málalok og hætti við að ljúka stúdentsprófinu. Frá árinu 1886 var konum veitt heimild til að taka próf frá Lærða skólanum en óheimilt að sitja í skólanum. Það var ekki fyrr en árið 1904 að konum var heimilað að sitja í Lærða skólanum. Á árunum 1888-1902

Blómsveigur var lagður að leiði Ólafíu. Á myndinni eru frá vinstri: Oddný Sigrún Magnúsdóttir, Séra Henning Emil Magnússon, Vilborg Bergman formaður BKR, Dagmar Elín Sigurðardóttir forseti KÍ, Sveindís Anna Jóhannsdóttir formaður handleiðslufélags Íslands, Steinunn Bergman formaður Félagsráðgjafafélags Íslands, Þorbjörg Guðmundsdóttir formaður Hvítabandsins, Elísabet Gísladóttir formaður Djáknafélagsins og Sigrún Elfa Reynisdóttir.

starfaði Ólafía sem kennari, fyrst í Flatey á Breiðafirði og síðar í Reykjavík við barnaskólann og Kvennaskólann.

Árið 1894 var Hið íslenska kvenfélag stofnað að áeggjan Þorbjargar fóstru Ólafíu og gekk Ólafía í félagið ásamt fóstru sinni og starfaði hún ötullega innan þess. Ólafía var fyrsta konan sem kjörin var í æðstu stjórn Góðtemplarareglunnar á Íslandi.

Ólafía beitti sér fyrir stofnun Hvítabandsins á Íslandi og var kosin formaður þess 1895. Að auki lét hún til sín taka á Íslandi í baráttunni við áfengisvandann. Síðast en ekki síst var hún hvatamaður að stofnun Háskóla Íslands.

Stórhuga frumkvöðlastarf Ólafíu einskorðaðist ekki við Ísland, þótt ættjarðarástin hafi verið mikil. Hún var annáluð fyrir mælsku og góð tungumálamanneskja og með þessa eiginleika að vopni söðlaði hún meðal annars um á sviði alþjóða viðskipta, er hún gerðist umboðsaðili fyrir breska líftryggingafélagið Star á Íslandi og í Færeyjum, löngu fyrir daga lífeyrissjóða og almannatrygginga. Árslaun Ólafíu hjá Star voru 300 kr. en á þessum tíma, um aldamótin 1900, voru árslaun vinnukvenna um 40 kr. eða rétt rúm 13% af árslaunum Ólafíu. Óhætt er því að segja að hún hafi verið hátekjukona í sjálfstæðum rekstri með sveigjanlegan vinnutíma.

Ólafía ferðaðist víða um Ísland og hélt fyrirlestra á vegum Hvítabandsins. Síðar fór hún til Bandaríkjanna, Kanada, Englands, Skotlands og Noregs til að halda fyrirlestra um jafnréttismál, menntamál, trúmál, lífeyrisréttindi og heilbrigðismál. Árið 1912 stofnaði hún heimili fyrir utangarðs konur í Kristjaníu og skrifaði á norsku bókina Aumastar allra: Myndir frá skuggahliðum Kristjaníu. Þar sem sagðar eru sögur af konum; vændiskonum, afbrotakonum, heimilislausum konum ásamt konum sem þjást af sárasótt og öðrum afleiðingum lífernis síns. Ólafía fór ótroðnar slóðir og skrifaði m.a. um kynsjúkdóma en á þessum tímum var ekki fjallað um kynlíf í bókum og þaðan af síður sjúkdóma því tengdu. Bókin vakti mikla athygli bæði á Íslandi og erlendis, var oft endurútgefin í Noregi og einnig þýdd yfir á íslensku og ensku og gefin út í Kanada. Ólafía ritaði síðar endurminningar sínar Frá myrkri til ljóss. Bókin, sem gefin var út árið 1925, var tímamótaverk í íslenskri bókmenntasögu en þetta var í fyrsta sinn sem sjálfsævisaga konu kom út á prenti. Ólafía var búsett í Noregi í um 20 ár. Þar hélt hún ætterni sínu ætíð til haga og klæddist ávallt íslenskum þjóðbúningi. Því var hún kölluð Hin íslenska Á sviði starfsendurhæfingar var Ólafía einnig frumkvöðull. Hún áttaði sig fljótt á því að fólk þurfti stuðning við að finna

sér viðeigandi störf til að geta séð fyrir sér og sínum. Nýtti Ólafía tengslanet sitt óspart og vann að því að finna vinnustaði og húsnæði fyrir sína skjólstæðinga. Hún var heillega hugsandi kona sem lýsti samhjálp sem borgaralegri skyldu allra manna, með skilning og innsæi að leiðarljósi. Ekki væri fyllilega hægt að hjálpa fólki án þess að læra að skilja það á heildrænan hátt. Þannig var Ólafíu umhugað um fagleg vinnubrögð og sjá má tengingu við handleiðslufræði nútímans.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar Einar Benediktsson, skáld, var sonur Benedikts, móðurbróður Ólafíu og voru þau frændsystkinin náin. Einar veitti frænku sinni aðstoð í námi er hún las utan skóla við Lærða skólann og hún hjúkraði honum á heimili sínu og Þorbjargar þegar hann glímdi við erfið veikindi í langan tíma. Talið er að Einar hafi haft Ólafíu í huga þegar hann samdi eftirfarandi erindi í ljóði sínu Einræður Starkaðar (sjá á næstu blaðsíðu). Góðmennska á erindi við samtímann og gildi þau sem bæði Ólafía og Einar héldu á lofti eiga enn við. Þegar okkur líður illa og sjáum ekkert jákvætt handan hornsins getur eitt bros haft afgerandi áhrif. Bros smitar út frá sér og getur auðveldað til muna að horfa fram á veginn.

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt, sem dropi breytir veig heillar skálar.

Þel getur snúist við atorð eitt.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Svo oft leyndist strengur í brjósti sem brast við biturt andsvar, gefið án saka.

Hve iðrar margt líf eitt augnakast, sem aldrei verður tekið til baka.

Þrátt fyrir erfiðleika getum við haldið áfram og fundið það sem jákvætt er og hjálplegt. Það er vel þekkt að þegar langvarandi álag og erfiðleikar hafa verið til staðar þarf oft sáralítið til að mælirinn fyllist.

Fyrirmynd sem vert er að minnast Ólafía er þjóðkunn í Noregi en hún starfaði í tæpa tvo áratugi í Ósló. Hún er ekki með öllu ókunn á Íslandi, styttur af henni eru við kirkjuna á Mosfelli, á skrifstofu Kvenfélagasambandsins á Hallveigarstöðum og fyrir framan hátíðarsal Háskóla Íslands. Nemendur í félagsráðgjöf og handleiðslufræðum við Háskóla Íslands læra um Ólafíu. Hvernig störf hennar endurspeglast í grunngildum félagsráðgjafar og eigin ígrundun og hugmyndir um fagmennsku tengjast nútíma handleiðslu. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir skrifaði bók um Ólafíu sem kom út árið 2006.

Er jafnrétti handan við hornið? Ég vona svo sannarlega að svo sé og kvennasagan hjálpi okkur að raunverulegt

jafnrétti verði að veruleika og er sannfærð um að betri heilsa og líðan þjóðar helst í hendur við aukið jafnrétti. Saga Ólafíu er stórbrotin og hægt að sækja í hennar sjóð til að efla umræðu um jafnrétti. Öll erum við óendanlega stolt af okkar yndislegu Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, sem varð fyrst kvenna í heiminum til að gegna hlutverki forseta. Við ættum öll líka að þekkja sögu Ólafíu og vera stolt af hennar frumkvöðlastarfi. Það er von mín og trú að sögu hennar verði betur haldið á lofti og kennd sem hluta af sögu lands og þjóðar.

Sveindís Anna Jóhannsdóttir, félagsráðgjafi, formaður Handleiðslufélags Íslands og framkv.stj. Starfsendurhæfingar Hafnarfjarðar

Gengið í fylkingu frá Hallveigarstöðum í Hólavallagarð að leiði Ólafíu.
Prúðbúnir gestir í þjóðbúningum stilltu sér upp í anddyri Hallveigarstaða.
Sveindís Anna Jóhannsdóttir.

ENDURNÝTING

Bjargaðu kaffikorgnum frá sorpinu

Þegar við hellum upp á kaffi tökum við bragðið og litinn úr kaffibaununum en skiljum næringuna og orkuna eftir í kaffikorgnum.

Það fer mikið af orku í að framleiða kaffibaunir. Við erum því ekki að nýta kaffibaunina til fullnustu þegar við hendum kaffikorginum. Til að nýta kaffibaunirnar sem best ættum við að endurnýta korginn.

Best er að byrja á því að safna honum saman og leggja svo á plötu í ofninn til að þurrka, það er nokkuð fljótgert í blástursofnum. Í kaffinu er kalíum, köfnunarefni og fosfór. Allt efni sem eru góð fyrir plönturnar. Kaffikorginn má nýta fyrir pottaplöntur innanhúss og í garðinn úti. Kaffikorgur nýtist vel gegn sniglum og skordýrum sem sækja í plöntur, dreifðu kaffikorg yfir moldina og óværurnar halda sér í burtu. Ef kettir sækja í garðinn gagnast vel að strá kaffikorg og appelsínuhýði í moldina til að halda þeim í burtu. Kaffikorgur er súr og því gott að bæta honum við moldina fyrir plöntur sem þurfa súrari jarðveg s.s. tómatplöntur, rósir og burkna. Einnig er mælt með að vökva t.d. rósir og burkna með kaffivatni – setja kaffikorg í vatn og sía vatnið áður en því er hellt á plönturnar. Kaffikorgur getur líka verið góður fyrir moltugerð hann bætir við köfnunarefni og hjálpar til við að halda góðum hita á niðurbrotinu.

Kaffikorgur er góður við þrif á pottum og pönnum. Notaðu kaffikorg, smá vatn og svamp til að skrúbba potta og pönnur. Nýtist líka vel til að hreinsa ryð af málmvörum.

Kaffikorg er hægt að nota til að losna við ólykt af höndum ef við höfum til dæmis verið að skera lauk eða flaka fisk. Þá tökum við bara smá af kaffikorg og

nuddum í hendurnar með eða án sápu, til að taka ólyktina.

Kaffikorgur gagnast líka vel til að fjarlægja vonda lykt úr ísskápnum eða frystinum. Þurrkið kaffikorginn og geymið svo í glasi í ísskápnum og/eða frystinum. Korgurinn gagnast líka vel til að hreinsa loftið í gömlum fataskápum eða ferðavögnum. Kaffikorg er hægt að nota til að ná táfýlu úr skóm, þá er korgurinn settur í sokk og látinn liggja í skónum yfir nótt.

Það er líka hægt að nýta kaffikorginn í lúxusdekur. Meðfylgjandi er uppskrift af næringarríkum kaffiskrúbb með kókosolíu, avokado olíu, hrásykri og kardimommum fyrir góða lykt.

Næringarríkur kaffiskrúbbur

2 dl kaffikorgur

1 dl hrásykur

0,5 dl avókadó olía

1 dl kókos olía

1 tsk. möluð kardimomma.

10 dropar af kardimommu ilmkjarnaolíu

Bræðið kókosolíuna í vatnsbaði og bætið hinum innihaldsefnum við.

Hellið i krukku og hafið við hendina í eldhúsinu eða á baðherberginu.

Notið til að taka ólykt af höndum í eldhúsinu eða til að skrúbba allan líkamann einu sinni í viku. Má nýta líka á andlit. Kaffiskrúbbur eykur blóðflæði, stinnir húðina og sagður draga úr appelsínuhúð. Koffínið í kaffinu dregur úr bólgum og roða og því góður gegn bólum.

Njótið vel.

Þú finnur fleiri góð umhverfisráð á heimasíðu Leiðbeiningastöðvarinnar: www.leidbeiningastod.is

Umsjón:

Nýliði á ritvellinum í öðru sæti smásagnasamkeppni Húsfreyjunnar

Elísabet

Kjerúlf er fædd 1957 að Vallholti í Fljótsdal og ólst þar upp fram að tvítugu. Árið 1985 útskrifaðist hún sem tannfræðingur frá Tannlæknaháskólanum í Árósum. Hún hefur síðan starfað við tannvernd hjá Berki Thoroddsen tannlækni og síðar hjá Tannlæknaþjónustunni á Selfossi. Hún hefur gegnt trúnaðarstörfum innan Félags íslenskra tannfræðinga og var formaður félagsins í nokkur ár. Elísabet má teljast nýliði á ritvellinum og hefur ekki gengið með rithöfund í maganum þótt hún hafi fiktað eitthvað við skrif sem unglingur. Hún segir: „Það var jólin 2011. Ég lá uppi í rúmi og las heitustu jólabókina og strauk hendinni bak við hægra eyrað, þá fann ég fyrir einhverju upphleyptu og þegar ég skoðaði það betur var þetta takki og hann var stilltur á Off. Ég fiktaði aðeins í honum og sneri á On og þá bara gerðist eitthvað,ég fór að skrifa smásögur.“

Elísabet hefur sótt námskeið hjá End-

urmenntun Háskóla Íslands í ritsmíðum og notið þar leiðsagnar Önnu Heiðu Pálsdóttur. Hún hefur einnig fengið birt efni í blöðum og netmiðlum. Frá árinu 2012 hefur hún starfað með hópi rithöfunda á netinu sem hefur árlega gefið út smásagnabók. Smasogur.com, útgafa sem hópurinn stofnaði, annaðist stjórn og utanumhald allra verkþátta. Þátttakendur völdu þema, nafngift og bókarkápu og aðstoðuðu hver annan við að gera sögurnar sem bestar. Margir voru með frá byrjun, en reglulega bættust nýir höfundar við á meðan aðrir duttu út. Þetta var skemmtileg og gefandi samvinna þar sem reyndi á útsjónarsemi og úthald. Alls gaf hópurinn út 11 bækur en félagið var lagt niður árið 2023. Elísabet ætlar að halda áfram að skrifa smásögur, svona þegar andinn kemur yfir hana. Helstu áhugamál hennar fyrir utan skrif eru ljósmyndun, garðrækt og útivera. Hún á tvö börn og fjögur barnabörn og

Útfararþjónustan

Ég sat rauðeygð og örvingluð við eldhúsborðið og fletti í gegnum bæklinga frá nokkrum útfararstofum. Svimandi háar upphæðir blöstu við mér. Ódýrasta líkkistan kostaði heilar hundrað og sjötíuþúsund krónur. Þá var allur annar tilkostnaður eftir svo sem prestur, kór, blómaskreytingar og sjálf erfidrykkjan sem ég lagði mikinn metnað í. Þetta yrði ekki undir einni miljón króna. Ég strauk handarbakinu yfir grátbólgin augun og gat með engu móti séð fram á að koma honum Gunnlaugi mínum sómasamlega í jörðina. Við höfðum lifað í hamingjusömu hjónabandi síðastliðin 35 ár. Auðvitað hafði ýmislegt komið upp á allan þennan tíma en ekkert sem við gátum ekki lagað. Svo þurfti hann endilega að taka upp á því að geispa golunni í síðustu viku, já bara alveg fyrirvaralaust,

eins og hann var nú alltaf skipulagður.

„Dauðinn gerir ekki alltaf boð á undan sér,“ hafði sóknarpresturinn okkar muldrað og rýndi í leiðinni út um stofugluggann, upp í gráan himininn, svona eins og hann væri í beinu sambandi við almættið.

Og þetta átti bara eftir að versna. Daginn eftir fór ég í bankann til að kanna fjármálin. Gunnlaugur hafði alltaf séð um þau og lagði fyrir um hver mánaðamót af laununum sínum þótt ekki væru þau há. Ég hafði einnig með ráðdeild og sparnaði haldið öllum heimilisútgjöldum í lágmarki. Við vorum jú að safna fyrir heimsreisunni sem við ætluðum í þegar Gunnlaugur færi á eftirlaun. Nú var úti um þá ferð en í staðinn ætlaði ég að halda veglega jarðarför. Ég starði því stjörf á þjónustufulltrúann í bankanum

býr í Grafarvogi ásamt kisanum sínum honum Brandi.

þegar hann tjáði mér að sparnaðarreikningurinn hans Gunnlaugs væri tómur. Galtómur, ekki einn aur.

„Það getur ekki verið…“ Ég starði á drengstaulann sem glotti við tönn svo það skein í grátt víravirkið. Hann leit ekki út fyrir að vera nema rétt nýfermdur og virkaði ekki traustvekjandi.

„Gáðu aftur,“ rödd mín varð hjáróma þegar ég þuldi aftur upp kennitöluna hans Gunnlaugs.

„Því miður, það var allt tekið út af reikningnum fyrir nokkrum mánuðum síðan.“ Pilturinn var hættur að brosa og horfði blákalt á mig.

„Það eru einungis peningar inni á launareikningi mannsins þíns, þrjú hundruð og fimmtíu þúsund.“ Ég var farin að svitna og fann þrýsting við gagnaugað.

„Og hver tók út peningana?“ Rödd mín var nú hás, næstum því hvísl.

„Það gerði Gunnlaugur sjálfur enda var hann einn með prókúru á reikningnum.“ Svartir flekkir blikkuðu fyrir augum mínum þegar ég spurði.

„Og hvað gerði hann við peningana?“

„Það veit ég ekkert um.“ Pilturinn horfði áfram á mig, án hluttekningar. „Hann fékk þetta allt greitt út í seðlum, fimmtán miljónir, tvöhundruð og sjötíuþúsund, fimmhundruð áttatíu og ein króna.“

Ég man ekki hvernig ég komst heim og mér var óskiljanlegt hvað Gunnlaugur hefði gert við peningana. Hann hafði alltaf verið klókur í peningamálum en hafði aldrei alveg treyst þessum bönkum.

Peningarnir hlutu að vera á öruggum stað, málið var bara að ég vissi ekki hvar sá staður var. Upphæðin á launareikningnum dygði skammt. Ég ætti að vísu fyrir kökubakstrinum og þar yrði ekkert til sparað. Ég fór yfir kökusortirnar í huganum, en var trufluð af símanum í holinu. Ég var ekki í skapi til að tala við neinn svo ég lét hann hringja út. Ég sat í rökkrinu inni í stofu og fór yfir fjárhagsstöðuna í huganum en sá enga lausn á vandanum. Mér lá við örvinglun. Síminn hringdi aftur og það var með semingi að ég stóð upp og svaraði. Steinvör tvíburasystir mín var á línunni.

„Elskan mín, ætlar þú ekki að fara að drífa þig að skipuleggja útförina?“ Steinvör var óþolandi stjórnsöm og með nefið niðri í öllu. Hún stóð reyndar eins og klettur við hliðina á mér þegar eitthvað bjátaði á. En hún hafði þann undarlega hæfileika að vita allt um mína hagi, stóra sem smáa.

„Annars hringdi ég til að segja þér að ég sá auglýsingu frá nýrri útfararþjónustu.“ Ég hélt símtólinu langt frá eyranu því hvell rödd Steinvarar skarst inn í hljóðhimnuna á mér. Hún var hugsanlega orsök þess að ég var farin að tapa heyrn á hægra eyra.

„ Hún er miklu ódýrari en hinar útfararþjónusturnar,“ hélt hún áfram.

„Þetta er eitthvað alveg nýtt og öðruvísi, víst mjög vinsælt hjá unga fólkinu og hægt að setja á Vísa-rað.“ Orðaflaumurinn flæddi frá Steinvöru og af gamalli reynslu vissi ég að þegar hún var

Húsfreyjan 3. tbl. 2024

í þessum ham var tilgangslaust að reyna komast að. Áður en símtalinu lauk hafði ég lofað henni að hitta útfararstjórann á kaffihúsi daginn eftir og fara yfir það sem hann hafði upp á að bjóða.

Það var ekki sjón að sjá mig þegar ég leit í spegilinn næsta morgun. Ég hafði varla sofið dúr um nóttina. Húðin var föl, dökkir baugar undir augunum og óstýrilátir hárlokkar flæddu um höfuð mitt. Ég var ekkert að hafa mig sérstaklega til, setti á mig húfu og fór í gamla kápu. Ég mætti á kaffihúsið á tilsettum tíma og litaðist um. Þar var þétt setið og í miðjum salnum, við tveggja manna borð, sat uppdubbaður maður í svörtum jakkafötum með dökkt yfirvaraskegg og sleikt hár aftur á hnakka. Þetta hlaut að vera útfararstjórinn. Ég gekk til hans og kynnti mig.

„Sæll vertu, ég er Magnhildur Jónsdóttir.“ Maðurinn spratt upp og heilsaði mér með óþægilega föstu handabandi.

„Blessuð og sæl.“ Maðurinn brosti breitt og það glampaði á gulltönn í neðri góm.

„Ég samhryggist þér,“ sagði hann um leið og við settumst niður. „Já, það er alltaf erfitt þegar dauðann ber að garði.“

„Láttu mig vita allt um það,“ svaraði ég og horfði önug á manninn. Þjóninn kom að borðinu, við pöntuðum okkur kaffi og útfararstjórinn bað um rjómaköku.

„Systir þín vildi endilega að ég kynnti fyrir þér hvaða þjónustu ég býð upp á. Ég er með algjörlega nýjar hugmyndir varðandi útfarir, svo er ég líka ódýrastur.“ Maðurinn horfði sannfærandi á mig og það var sérstakur glampi í augum hans. Þjóninn kom með veitingarnar á borðið. Ég fékk mér sopa af kaffinu. Útfararstjórinn stakk kökugafflinum í harðan marengsinn, rjóminn spýttist út á milli laganna, niður á borð og á buxurnar hans.

„Helv…“ Hann stoppaði í miðri setningu og brosti vandræðalega. Ég flýtti mér að rétta honum munnþurrkuna mína og hann strauk rjómann af buxnaklaufinni.

„Rjómann á að setja á milli botnanna fjórum tímum áður en kakan er borin fram svo þeir verði mjúkir,“ ég brosti í fyrsta skipti í marga daga.

„Ég ætla annars að baka allt sjálf fyrir erfidrykkjuna,“ sagði ég stolt og horfði

á útfararstjórann skófla upp í sig marengsnum sem honum hafði tekist að brjóta niður í smærri einingar.

„Hvernig er annars þessi nýja útfararþjónusta sem þú býður upp á og er svona ódýr?

„Frábært hjá þér að baka allt sjálf,“ sagði útfararstjórinn með fullan munninn og ýtti kökudisknum frá sér. „ Það heldur kostnaðinum niðri.“ Hann sleikti út um og þurrkaði rjómann úr yfirvaraskegginu með munnþurrkunni.

„Varðandi þessa nýjung hjá mér…“ Hann leit varfærnislega í kringum sig , eins og hann byggist við að samkeppnisaðilar hans lægju á hleri.

„ þá…“ Hann hallaði sér að mér og hvíslaði... Ég hlustaði agndofa, trúði ekki mínum eigin eyrum og hrópaði hneyksluð upp yfir salinn.

„Facebook-jarðarför!“

Steinvör systir hringdi um leið og ég kom heim.

„Jæja, hvernig var?“ spurði hún spennt. Ég settist á stól í holinu með símann í höndunum. Mér leið eins og ég væri stödd í óskilgreindu tómarúmi og vissi ekki hvar ég átti að byrja.

„Tja,“ mér vafðist tunga um tönn.

„Svona segðu mér, náðuð þig saman?“

„Jú, ætli það ekki,“ sagði ég dræmt. „En þetta verður svolítið óhefðbundið.“

„Nú, nú, hvernig þá?“ Steinvör var óþolinmóð.

„Þetta verður svona Facebook- jarðarför,“ stundi ég upp.

„Facebook-jarðarför!“ gargaði hún. „Hvað er það nú eiginlega?“

„Það er víst nýjasta æðið, kemur frá Japan. Fræga fólkið í Hollywood er allt komið í þetta. Svo er kostnaðurinn sáralítill.“

„Og hvernig fer þetta fram ef ég má spyrja?“ Það leyndi sér ekki í rödd Steinvarar að hún var stórhneyksluð.

„Útfararstjórinn kemur hingað síðar í dag og sækir tölvuna hans Gunnlaugs.

Hann fer á Facebook síðuna hans og í myndasafnið og safnar efni fyrir athöfnina. Það verður enginn prestur heldur bara góðar minningar í myndum og máli sem hann finnur til.“ Steinvör dæsti.

„Á svo bara að sýna þetta á stórum skjá í kirkjunni eða hvað?“

„Nei,nei, athöfnin fer fram á Sportbarnum. Útfararstjórinn á hlut í honum og svo fáum við helmings afslátt af bjórnum.“

„Ha! Á þetta að verða einhver bjórjarðarför með rjómatertum?“ Steinvör var orðin hás og bætti við.

„Ætlar þú svo bara að lofa honum að gramsa í tölvunni hans Gunnlaugs sí svona.“ Nú var kominn áhyggjutónn í rödd hennar.

„Ég hef nú engar áhyggjur af því, ég kann ekkert á svona tölvur og er dauðfegin að hann ætlar að gera þetta fyrir mig.“

„Hvað með tónlistina, á ekki að vera kór og organisti? Einhver virðuleiki verður nú að vera á athöfninni,“ hélt hún áfram.

„Það er víst alveg dottið úr tísku, nú er bara spiluð uppáhalds tónlist þess látna,“sagði ég. „Það verða Hljómar og Bítlarnir sem hljóma við athöfnina.“ Það varð þögn í smástund á hinum enda línunnar. Það hafði aldrei gerst áður hjá Steinvöru.

„Hvað með blómaskreytingar?“ Það hafði dregið nokkuð úr raddstyrk hennar.

„Þetta verður allt náttúrulegt og umhverfisvænt. Það er nú líka í anda Gunnlaugs. Hann var náttúrubarn og vildi heldur aldrei eyða í óþarfa. Ég tíni villt blóm í vasa og á kistunni verður bara íslenski fáninn, alveg plein sem er svo mikið inn núna.“ Það var varla að ég þekkti röddina í Steinvöru þegar hún spurði:

„En kistan?“

„Gunnlaugur verður brenndur,“ sagði ég. „ Ég fæ lánaða kistu. Það er ekki lengur verið að brenna kistu með hverju líki, algjör sóun á verðmætum og smíðaviði.“

„Brenndur!“ hrópaði hún og rödd hennar varð kunnugleg aftur. „Þú hefur þá ekkert venjulegt leiði til að heimsækja á jólunum.“

„Það gerir ekkert til,“ sagði ég með trega í röddinni. „Hann Gunnlaugur minn verður alltaf hér hjá mér. Í krukku.“

Ég vaknaði fyrir allar aldir á útfarardaginn. Morguninn fór í það að þeyta rjóma og setja saman tertur. Annar undirbúningur var ekki í mínum höndum og blómin hafði ég týnt daginn áður. Klukkan eitt var ég búin að öllu, Steinvör kom og sótti mig og við brunuðum með veitingarnar niður á Sportbarinn. Það var ekki seinna vænna því athöfnin átti að hefjast klukkan tvö. Útfararstjórinn tók á móti okkur í kjól og hvítu. „Sælar.“ Hann horfði með undrun á okkur til skiptis. „Ég vissi ekki að þið væruð tvíburasystur, þið eruð nauðalíkar.“ „Við erum eineggja,“ sagði ég um leið og við Steinvör röðuðum tertunum upp á barborðið sem stóð í miðjum salnum. Lágvær tónlist ómaði frá hátölurunum : Bláu augun þín með Hljómum, fyrsta lagið sem við Gunnlaugur vönguðum við. Hvítmáluð líkkistan stóð sveipuð íslenska fánanum fyrir neðan risastóran flatskjá innst í salnum. Stólar stóðu í röðum út frá barnum og sums staðar var hægt að sitja við lítil hliðarborð. Gestirnir streymdu að. Útfararstjórinn tók á móti þeim og bauð upp á drykk fyrir athöfnina.„Gott að fá sér eitthvað hjartastyrkjandi,“ sagði hann og brosti hughreystandi. Ég horfði vandræðalega í kringum mig. Þetta var allt svo óraunhæft og skrítið og ég ákvað að fá mér einn sterkan. Yfirmaður Gunnlaugs ásamt Steinvöru, sat við barinn. Hann hafði alltaf boðið Gunnlaugi með sér í veiðitúra í bestu laxveiðiár landsins. Gunnlaugur hafði líka farið erlendis á hverju ári með samstarfsfólkinu á einhver námskeið en mér var aldrei boðið með.

„Það er ekkert skemmtilegt fyrir þig að vera að þvælast með okkur körlunum,“ var Gunnlaugur vanur að segja. „Við erum nú líka að safna fyrir heimsreisunni, manstu.“ Þetta var útrætt mál. Yfirmaðurinn stóð upp og tók utan um mig og vottaði mér samúð sína.

„Gunnlaugur var einn af mínum bestu starfsmönnum. Ég á eftir að sakna hans.“

Hann teygaði glasið í botn og það gætti trega í röddinni. Hann snéri sér að Steinvöru. Hún sat hnuggin og með tárin í augunum við hlið hans.

„Og ég samhryggist þér líka Steinvör mín, þú hefur misst góðan mág.“ Steinvör saug upp í nefið og greip tissjú úr töskunni sinni. Mér leið undarlega, eins

og ég væri stödd í bíómynd frá Alfred Hitchcock, allt var svo óraunverulegt, eins og tilfinningar mínar hefðu verið settar í frost. Útfararstjórinn gekk til okkar.

„Nú fer athöfnin að hefjast, komið og fáið ykkur sæti, sagði hann.“ Við Steinvör stóðum upp og settumst í fremstu stólaröðina. Yfirmaðurinn varð eftir á barnum. Útfararstjórinn stakk myndlykli í flatskjáinn og dempaði ljósin. Skvaldrið í salnum þagnaði. Hann var þétt setinn og nokkrir sem ekki höfðu fengið sæti stóðu upp við vegg. Hver myndin af annarri rann yfir skjáinn. Útfararstjórinn hafði ekki einungis safnað efni af Facebook . Hann hafði líka farið í fjölskyldualbúmið. Á fyrstu myndinni sat Gunnlaugur nakinn á gæruskinni og horfði stóreygður og brosandi á ljósmyndarann. Tengdamóðir mín heitin hafði farið með hann til ljósmyndara á fyrsta ári. Á eftir fylgdu afmælismyndir, fyrsta þetta og hitt myndir, fermingarmyndir, myndir frá skólaböllum og unglingapartýum. Síðan poppaði upp mynd af okkur saman. Hún var tekin á fyrstu útihátíðinni sem við fórum saman á. Við vorum klædd í lopapeysur og gallabuxur og Gunnlaugur hélt arminum utan um mig. Nú brutust tilfinningar mínar fram og tárin streymdu niður kinnarnar. Síðan komu myndir frá trúlofunarveislunni, brúðkaupinu og brúðkaupsferðinni, já, frá endalausum gleðistundum í lífi okkar. Ég hafði ekki við að snýta mér. En hvað var nú þetta? Ég starði undrandi á flatskjáinn. Á honum birtist mynd af Gunnlaugi ásamt samstarfsmönnum hans. Myndin var tekin á námskeiði sem þeir fóru á fyrir hálfu ári síðan. Ég vissi það því ég þekkti rauðu skyrtuna sem ég gaf honum áður en hann fór í þessa ferð til Þýskalands. En þessi mynd var ekki tekin í Þýskalandi. Hún var tekin á Ítalíu eða Spáni. Á myndinni sat hann með vinnufélögum sínum á sólarströnd með blikandi haf í bakgrunni. Og konan sem var með þeim, ég starði agndofa. Þetta var hún Steinvör systir. Ég gat ekki betur séð en að hún væri að daðra við einn af vinnufélögum Gunnlaugs, harðgiftan mann. Hvað var eiginlega í gangi? Steinvör var farin að ókyrrast í stólnum við hliðina á mér. Næsta mynd var tekin á veitingastað. Neðst á hana hafði útfararstjórinn skrifað: Vinir á góðri stund.

Gunnlaugur sat þétt upp við yfirmanninn með handlegginn yfir axlir hans og horfði á hann ástleitnum augum. Þegar ég horfði nánar á myndina gat ég ekki betur séð en að yfirmaðurinn væri að káfa á læri Gunnlaugs undir borðinu. Ég varð stjörf. Gat þetta verið? Var líf mitt síðustu 35 árin byggt á lygum og svikum? Ég hugsaði með hryllingi til allra veiðiferðanna. Á næstu mynd sat Gunnlaugur berrassaður ásamt Steinvöru og vinnufélaga sínum í heita pottinum heima hjá yfirmanninum. Ég kannaðist vel við húsið sem hann keypti sér eftir að hann skildi við konuna. Öllu starfsfólkinu, ásamt mökum, var nefnilega boðið í innflutningspartýið. Undir myndinni stóð: Slakað á í pottinum eftir góðan veiðidag.

„Ég þarf á klósettið,“ sagði Steinvör hás. Hún stóð upp í flýti og strunsaði fram salinn. Ég tók varla eftir því hvað hún sagði. Tilfinningar mínar voru í algjöru uppnámi og að lokum fylltist ég óstjórnlegri reiði. Þvílík skömm og niðurlæging. Ég stóð upp. Yfirmaðurinn sat ennþá við barinn. Ég fikraði mig

fram milli stólanna og komst klakklaust að barborðinu.

Hendur mínar gripu um tertudisk og marengskakan, passlega mjúk , skall kröftuglega á höfði yfirmannsins. Á eftir fylgdi djöflatertan með sextán eggjunum, perutertan með sherrý-frómas og hindberja-jógúrt tertan. Rjómi í bland við margskonar kökukrem rann eftir andliti hans og niður á svörtu jakkafötin svo hann líktist helst dalmatíuhundi. Steinvör kom hlaupandi til mín og hrópaði:

„Magnhildur, Magnhildur! Ég skal útskýra þetta allt saman!“Tertan með lífrænu jarðarberjunum hafnaði á höfði hennar og bleikur rjóminn tónaði vel við rauðu hárlokkana sem hún hafði alltaf verið svo stolt af. Hún hrópaði upp, greip um höfuðið og hljóp grátandi fram á klósett. Það var ekki furða þótt hún vissi allt um mína hagi. Útfararstjórinn kom nú á harða hlaupum með skelfingarsvip og ætlaði að segja eitthvað.

„E…“

Ég hikaði eitt augnablik en greip síðan stolt mitt, rjóma-marsípan-tert-

Dalvegi 30, 201 Kópavogur

Sími 517 6460 - www.belladonna.is

una, og kýldi í andlit hans. Á eftir fylgdi bananatertan með súkkulaðikreminu og að lokum stríðstertan með niðursoðnu ávöxtunum. Barinn og salurinn hafði á augabragði breyst í rjómakökuvígvöll og útfararstjórinn lá óvígur á gólfinu. Jarðarfarargestirnir sátu stjarfir í sætum sínum og lagið: She loves you, yeah,yeah … með Bítlunum hljómaði frá hátölurunum, meðan myndir frá lífi okkar Gunnlaugs rúlluðu áfram á flatskjánum. Ég stóð auðmýkt og niðurlægð fyrir fullum sal af fólki. Það var úti um mína glæsilegu erfidrykkju. Þvílík jarðarför, þvílík skömm. Ég hafði heyrt að allir gerðu sig að fífli fimm mínútur á dag hið minnsta og að viskan fælist í því að halda sig innan þeirra marka. Ég stormaði því fram í forstofuna og skellti hurðinni á eftir mér. Og eitt var víst. Það yrði enginn Gunnlaugur í keri uppi á hillu heima hjá mér í framtíðinni.

Höfundur: Elísabet Kjerúlf

Húsfreyjan 75 ára

Það þótti viðeigandi í tilefni 75 ára afmælis Húsfreyjunnar að útgáfustjórnin fengi að láta ljós sitt skína í Matarþættinum enda eru þær þekktar í sínum hópum fyrir góðgæti af ýmsu tagi. Þær tóku vel í það, hittust á fögrum degi á fallegu heimili Lindu B Sverrisdóttur í Borgarnesi og réðu ráðum sínum á meðan Silla ljósmyndari blaðsins myndaði veisluföngin. Kræsingunum voru síðan gerð góð skil að loknum fundi. Útgáfustjórninni er efst í huga mikið þakk-

læti til lesenda blaðsins fyrir tryggðina í gegnum tíðina. Frá upphafi hefur Húsfreyjan eðlilega tekið miklum breytingum og hefur þróast í takt við tímann. Á fundinum í Borgarnesi fæddust margar góðar hugmyndir sem vonandi munu líta dagsins ljós í nánustu framtíð.

Til hamingju með afmælið síunga Húsfreyja.

Útgáfustjórn Húsfreyjunnar ásamt starfsmanni Kvenfélagasambandsins og ritstjóra. Efri röð: Þóra Sverrisdóttir, Jenný Jóakimsdóttir, Guðrún Þóranna Jónsdóttir og Magdalena Jónsdóttir. Neðri röð: Guðný Valberg, Björg Baldursdóttir, Linda B. Sverrisdóttir og Sigríður Ingvarsdóttir.

Partýbrauð

½ l undanrenna

½ dl matarolía

30 g þurrger

1 egg (við stofuhita)

¼ tsk. salt

1 msk. sykur

1 dl hveitiklíð

1 dl rúgmjöl

10 – 12 dl hveiti

Gerið leyst upp í volgu vatni í deigskálinni, matarolíu, sykri og eggi hrært saman við.

Grófa mjölinu blandað saman við, slegið vel , hveiti bætt í þar til deigið er samfellt, mjúkt og fjaðrandi. Látið lyfta sér um helming með yfirbreiðslu í um 40 mínútur. Deigið hnoðað léttilega, búnar til 36 bollur, raðað nokkuð þétt í ofnskúffu sem klædd er með bökunarpappír. Bollubrauðið látið lyfta sér vel, penslað með eggi og sesamfræi (eða öðru fræi) stráð yfir. Bakað við 200°C í um 20 – 25 mínútur.

Tilbreytni: Gott að skipta deiginu til helminga og baka á tveimur plötum, Það fer betur á veisluborði. Svo er hægt að brjóta bollurnar af brauðinu jafnóðum ef vill, eða að hafa hníf til taks. Gott með salati og líka gott með miklu smjöri og brauðosti.

Hólmfríðarsalat

1 lítil dós mæjónes

1 dós sýrður rjómi

1 Mexikó-ostur

1 hvítlauksostur

1 rauð paprika

1 græn paprika

1 rauðlaukur

1 bolli vínber, skorin í tvennt

1 lítil dós ananaskurl

Skerið osta og grænmeti frekar smátt og blandið saman með mæjónesi og sýrðum rjóma. Bætið vínberjum í rétt áður en salatið er borið fram.

Sigtið safa frá ananaskurli og bætið kurlinu við salatið.

Guðrún Þóranna Jónsdóttir kom með Partýbrauð en upphaflega uppskriftin birtist í bæklingi frá Kvenfélagasambandi Íslands, Gerbakstur II, frá síðustu öld. Kristjana Stefánsdóttir tók saman. Partýbrauðs-uppskriftin er hér, svolítið breytt.

TJALDSVÆÐIÐ

Beikonrúllur

Beikon í sneiðum

Fínt samlokubrauð í sneiðum

Ostur í sneiðum

Grænt epli skorið í aflanga bita

Skerið skorpuna af hverri brauðsneið og skerið brauðsneiðina í tvennt. Leggið beikonsneið á borð, þar ofan á fer hálf brauðsneið af samlokubrauði, ostsneið ofan á brauðið og síðan eplabiti. Öllu rúllað upp og tannstöngli stungið í gegn.

Bakað í ofni við 200°C þar til beikonið er steikt og brauðið aðeins farið að taka á sig lit.

Besta ostakakan

200 g makkarónukökur

75 g smjör

400 g rjómaostur

200 g flórsykur

1/2 l þeyttur rjómi

2 tsk. vanillusykur

Makkarónukökur muldar í spað og bræddu smjörinu hrært saman við. Látið blotna vel. Blöndunni þrýst í botninn á fati.

Rjómaosturinn hrærður mjúkur í hrærivél. Flórsykri og vanillusykri bætt út í, og hrært áfram. Loks er þeytta rjómanum blandað saman við ostahræruna. Þessari hræru smurt yfir makkarónurnar í fatinu. Sett í frost. Þegar kakan er orðin frosin, er hún tekin út og súkkulaðikremið smurt ofan á.

Súkkulaðikrem

200 g suðusúkkulaði

1 dós sýrður rjómi

Suðusúkkulaði brætt og sýrða rjómanum hrært saman við. Þessu smurt yfir kökuna. Sett i frost. Nóg er að taka kökuna úr frosti 1-2 klukkutímum áður en hún er borin fram. Þá er ávöxtum, s.s. jarðarberjum, vínberjum og bláberjum raðað yfir kökuna.

Borið fram með kærleik og kaffi.

Beikonrúllur í boði Sigríðar ritstjóra.
Sigríður Ingvadóttir ritstjóri Húsfreyjunnar kom með Bestu ostakökuna.

Súrdeigs

Focacciabrauð

Súrdeigsmóðir tekin úr kæli á fyrsta degi. Að morgni annars dags er hnoðað saman 3 msk. af móður, 200 g af hveitiblöndu og 200 ml af ylvolgu vatni og látið standa og hefast undir viskustykki fram eftir degi. Þá eru tekin 200 g af þessu fordeigi og hrært saman við það 700 ml af ylvolgu vatni og svo 1 kg af mjöli, til dæmis hvítu brauðhveiti eða durum og jafnvel blanda með 5 korna blöndu.

Hnoðað saman og látið standa undir viskustykki í 50 mín.

Þá er smá salti klipið saman við deigið og 50 ml af ylvolga vatninu góða. Hnoðað létt.

Deigið láta standa í skál fram eftir kvöldi og togað og teygt á hálftíma fresti 6 – 8 sinnum, þangað til það er orðið þétt en loftkennt.

Skellt út á borð með smá hveiti, togað og teygt og látið standa á borðinu undir stykki í 40 mín.

Aðeins bætt við af hveiti og togað einu sinni enn og teygt.

Sett í form sem hefur verið smurt með olíu, plastað og látið standa í ísskáp yfir nótt.

Að morgni þriðja dags er ofninn hitaður í 250°C.

Formið tekið úr kæli, deigið penslað með olíu og ólífum í bitum og ½ rifnum fetakubbi dreift yfir og potað niður með puttunum. Grófum salt-

Þeytt smjör

200 g smjör brætt

200 g smjör mjúkt

flögum frá Saltverk síðan dreift yfir.

Síðan er forminu lokað með álpappír ef við eigum ekki form með loki og stungið inn í ofn í 20 mín. Eftir það er

Smjörið brætt á frekar háum hita þar til það er orðið gullinbrúnt og litur tekinn að myndast í botninum.

Látið standa á borði yfir nótt.

Mjúka smjörið hrært í hrærivél og brædda smjörinu bætt við í 3 – 4 skömmtum.

Hrært vel á miklum hraða þar til ljóst og létt.

Hægt að bragðbæta með salti, uppáhalds kryddblöndunni, lakkrísdufti eða nánast hverju sem manni dettur í hug.

álpappír/lok tekið af, hitinn lækkaður í 220°C og bakað áfram í 30 mín. Þá er það loksins tilbúið.

Avókadósmjör

3 stór vel þroskuð avókadó

60 g smjör mjúkt

3 lime- safi og fínt rifinn börkur

Smá salt

Avókadó, smjör, lime safi og börkur hrært saman með töfrasprota, þar til fallega grænt og létt. Saltað til eftir smekk

Mangó chili rækjur

500 g rækjur

400 g apríkósumarmelaði

100 ml Teryakisósa

1 tsk. Sambal Olek (Chilimauk)

15 ml límónusafi

3 msk. fiskisósa

1 cm engifer rifinn fínt

1 hvítlauksrif rifið fínt

½ mangó skorið smátt

Öllu blandað saman í skál

Gott að gera daginn áður

Hjónabandssæla

3 bollar gróft haframjöl

1 bolli spelt

1 bolli heilhveiti

1 ½ bolli púðursykur

1 tsk. lyftiduft

¼ tsk. salt

250 g mjúkt smjör

2 msk. mjólk

Sulta að eigin vali, 1 ½ krukka

Öll hráefnin sett saman í skál, brett upp á ermar og hrært og klipið saman með höndunum, þangað til smjörið er orðið vel samlagað.

Ca. ¾ hlutar settir í smurt eldfast mót og þjappað aðeins.

Sultan smurð ofan á og svo restinni af deiginu dreift yfir og þjappað létt Bakað við 175°C í 35 mínútur.

Daim ostakaka

Botn

2 pk. MacVities karamellukex

75 g smjör

Hrært saman í matvinnsluvél, sett í hringlaga smelluform og bakað í ofni í 8 mín. við 175°C.

Fylling

1 dós rjómaostur

150 g hrásykur

Skvetta af vanilludropum

6 stk. matarlímsblöð ½ l rjómi

4 stk. Daim tvöföld (8 lítil)

Matarlímsblöðin lögð í skál með köldu vatni í 10 mínútur.

Rjómi þeyttur.

Daim brytjað eða hakkað gróft í matvinnsluvél.

Rjómaostur, hrásykur og vanilludropar hrærð vel saman.

Matarlímið tekið úr vatninu og kreistur úr því vökvi, sett í pott

með 1 dl af köldu vatni, hitað létt þar til uppleyst. Hrært saman við rjómaostablönduna.

Þeytta rjómanum hrært rólega saman við með sleikju og að endingu Daiminu þar saman við. Dreift ofan á botninn í smelluforminu og sett inn í ísskáp yfir nótt.

Leppar - klattar

Guðný Valberg kom með leppa. Þessir ,,klattar” hafa alltaf gengið undir nafninu ,,leppar” hér á mínu heimili af því að það er hefð í Noregi að kalla þá ,,lapper”. Tengdamóðir mín var norsk og átti í fórum sínum forláta rafmagns ,,steketakke”-pönnu sem er tæplega 50 cm í þvermál og því hægt að baka hátt í 20 litla leppa í einu á henni. Ég baka því æði oft þessa leppa þegar von er á svöngu fólki til mín í sveitina. Af því að við ræktum bygg hér á bæ, þá hef ég auðvitað laumað því inn í hitt og þetta matarkyns, til dæmis í leppana. Það bætir frekar bragðið heldur en hitt, fyrir utan hollustuna við að fá trefjarnar með.

3 dl hveiti (eða 2 1/2 dl hveiti og 1/2 dl malað byggmjöl)

2 tsk. matarsódi

2 msk. sykur

1/4 tsk salt

4 dl súrmjólk/sýrður rjómi

2 egg

(1 tsk. vanillusykur, eða eftir smekk)

Smjör til að smyrja pönnuna með

Blandið saman í skál, hveiti, matarsóda, sykri og salti og ef til vill vanillusykri.

Bætið súrmjólk og eggjum út í þurrefnin og hrærið í jafna hræru. Varist að hræra of lengi.

Látið hræruna taka sig í 10 mínútur. Hitið pönnu að miðlungshita og smyrjið létt yfir með smjöri ef þarf, best að hafa hana sem þurrasta.

Setjið hræruna með skeið á pönnuna

eða lítilli ausu, eftir stærð leppanna og bakið þar til þeir eru orðnir gylltir og fallegir á báðum hliðum. Berið fram volga til dæmis með sultu, hrærðum berjum og sýrðum rjóma eða brúnum geitaosti. Leppana má smyrja og bera fram með alls kyns áleggi, salati, laxi, eggjum, tómötum, kjötáleggi o.fl. Látið hugmyndaflugið ráða.

Fylltir sveppir

12 stk. sveppir

½ stk. púrrulaukur, fínsaxaður 100 g beikon, fínt skorið 1 bakki rjómapiparostur

Brjótið sveppastilkana frá hattinum og saxið ca helminginn.

Steikið stilkana, púrrulauk og beikon í smjöri.

Bætið rjómaostinum saman við og blandið vel saman

Fyllið hattana með maukinu, setjið í eldfast mót og bakið við 180°C í 20 mínútur.

Guðný Valberg kom með klatta sem kallast leppar í hennar fjölskyldu.
Fylltir sveppir henta sem smáréttir á hlaðborð eða meðlæti með grillmat.

Kvenfélag Svínavatnshrepps 150 ára

Kvenfélag Svínavatnshrepps hélt upp á 150 ára afmæli sitt 20. apríl síðastliðinn. Var öllum kvenfélagskonum í AusturHúnavatnssýslu af því tilefni boðið í kaffi í Dalsmynni. Þar var mikil kökuveisla sem einkenndist af því að hafa kaffibrauð sem hugsanlega hefði getað verið á borðum er kvenfélagið var stofnað.

Félagið er næstelsta kvenfélag landsins og var stofnað að Sólheimum 25. nóvember 1874. Stofnfélagar voru 8 stórhuga konur úr hreppnum. „Þá var öldin önnur, konur höfðu hvorki kosningarétt né kjörgengi til Alþingis og lítt mun hafa tíðkast að þær stæðu upp á mannamótum og létu til sín heyra.“ Segir um stofnunina í bókinni Margar hlýjar hendur. Þar segir einnig að félagið hafi haldið uppi kennslu fyrir ungar stúlkur og fengið inn í sveitina bæði prjónaog saumavélar þegar þær fóru að fást. Í dag starfa í félaginu 12 konur sem standa fyrir öflugu starfi. Félagið aflar fjár, meðal annars með kaffisölu, dúkaleigu og ýmsu fleiru sem síðan er gefið til góðgerðarmála. Hafa Hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi, Jólasjóður Rauða krossins í A-Hún, Heimilisiðnaðarsafnið, skólar og leikskólar á svæðinu og fleiri notið góðs af.

Afmælisboðið var hið ánægjulegasta og færðu hin fimm kvenfélögin á svæðinu Kvenfélagi Svínavatnshrepps 50 þúsund krónur að gjöf sem gefnar voru til Heimilisiðnaðarsafnsins. Í tilefni afmælisins var útbúinn nýr fáni félagsins og fékk KÍ einn slíkan að gjöf. Núverandi formaður félagsins er Guðrún Sigurjónsdóttir.

„Ekki endalaust hægt að skera niður“

Viðtal við bóndann, áhugavísindamanninn, rithöfundinn, ullarsérfræðinginn og ostagerðamanninn Karólínu Elísabetardóttur sem hefur vakið mikla athygli fyrir lausnir gegn riðuveiki og að standa að umfangsmiklum rannsóknum til að greina og finna verndandi arfgerðir gegn riðusmiti í íslensku sauðkindinni.

Karólína Elísabetardóttir er sauðfjárbóndi og athafnakona sem býr á heiðarbýlinu Hvammshlíð, þar sem áhersla er lögð á hraustar kindur með fjölbreytta liti og góða ull. Þá segist hún vera „áhugavísindamaður,» rithöfundur, ullarsérfræðingur og ostagerðamaður og mikill aðdáandi íslensks landbúnaðar og róttæk í því að „versla íslenskt“ hvar sem það er hægt. Einnig segist hún vera mikið náttúrubarn, sem fær sinn innblástur í daglegum fjallgöngutúrum með hundunum sínum Baugi, Kappa og Ljúf. Karólína hefur staðið fyrir afar merkilegum rannsóknum sem sýna fram á lausnir gegn riðuveiki og hefur hún leitt saman vísindafólk víðs vegar að úr heiminum til að leita að genum í íslenskum kindum sem gætu verið verndandi gagnvart riðusmiti. Karólína framleiðir osta undir heitinu „Hvammshlíðarostar” og hefur gefið út dagatöl sem hafa vakið mikla athygli en dagatalið inniheldur margvíslegan fróðleik sem snýst um sauðkindina, búskapinn í Hvammshlíð og sveitalífið fyrr og nú. Eins er nýkomin út bók eftir Karólínu sem ber heitið Litadýrð – Handbók um íslenska sauðfjárstofninn

Lífið sem bóndi „það eina sanna” Karólína fæddist í Þýskalandi, en hefur upplifað sig sem Íslending allt frá því að hún kom fyrst til Íslands 19 ára gömul

eða árið 1989, þá sem vinnukona á Húsatóftum á Skeiðum. Aðalstarf hennar þar var að mjólka kýrnar á bænum og vinna í heyskap. Á þessum tíma, þ.e. áður en öll þessi vélvæðing kom til sögunnar, vantaði meira af afleysingafólki til starfa í sveitum landsins. Lífið sem bóndi, þar sem allt snýst um skepnurnar, í nánum tengslum við náttúruna, hefur síðan verið „það eina sanna” fyrir

Karólínu, þrátt fyrir verkfræðinám og nokkur ár á auglýsingarstofu, sem hún rak með þáverandi kærasta sínum. Þetta líf er raunveruleikinn að hennar mati, grunnur sem allt byggir á.

„Ekki fyrir löngu síðan voru nærri allir Íslendingar bændur – eða vinnufólk hjá bændum –, allt frá landnámstíð. Prestar, læknar og kennarar voru líka bændur. Þeir bjuggu allt til sem þurfti til að lifa af, hér var ekki þessi verka- og stéttaskipting sem fannst í flestum öðrum löndum alveg frá miðöldum,” segir hún. „Það finnst mér heillandi – ekki síst þar sem ófáir þeirra voru fróðir um margt, pældu í mörgu og höfðu mikla löngun í að læra alltaf eitthvað nýtt. Enn í dag eru margir íslenskir bændur afar fjölhæfir og vel menntaðir þrátt fyrir að ekki allir séu langskólagengnir.”

Karólína eignaðist loksins litla jörð árið 2010. Það var 8 hektara spilda í Hegranesi í Skagafirði. Þar byrjaði hún sinn eigin fjárbúskap. Eftir 5 ára búskap í Hegranesinu festi hún síðan kaup á eyðijörðinnni Hvammshlíð, en sú jörð er 100 sinnum stærri eða um 800 hektarar. Er hún flutti þangað, gat hún tekið litla íbúðarhúsið sitt með sér. Hvammshlíð er heiðarbýli og hvorki húsakostur né tún voru til staðar. Óhætt er að fullyrða að margir hafi verið hissa á þessum kaupum Karólínu á jörðinni og flutningi hennar þangað. Jörðin hafði þá verið í eyði í 127 ár, eða frá árinu 1888.

Karólína hefur alla tíð haft mikinn áhuga á kindum eða allt frá því að hún var barn. Því lá beint við að vera með fjárbúskap og eins er hún með nokkra reiðhesta. Hún hefur smám saman verið að byggja upp útihúsin fyrir vaxandi hjörð.

„Mér finnst mjög heillandi að vera með nóg pláss í kringum mig og alla þessa fallegu náttúru, ég er samt alls ekki mannfælin,“ segir Karólína og hlær.

„Samt finnst mér gott að geta ákveðið sjálf hvenær ég hitti fólk – burtséð frá því að það er alltaf nóg að gera, finnst mér mjög mikilvægt að hafa nógan tíma fyrir sjálfa mig og mína nánustu á fjórum fótum. Fyrir mig er bara ekki hægt að upplifa mig einmana þegar ég hef þessi vinaleg fjöll í kringum mig – og auðvitað bestu vini mína, hundana og kindurnar og hrossin. Ég hef aldrei upplifað mig einmana hér í sveitinni, hins vegar upp-

lifði ég mig til dæmis einmana á stórri lestarstöð úti í Evrópu einhvern tímann innan um þúsundir manna.“

Baráttan við að útrýma riðuveiki á Íslandi

Karólína segir að riðuveikin hafi fyrst komið upp á Íslandi fyrir u.þ.b. 150 árum. En hrútur af ensku kyni var þá fluttur til landsins og grunur er um að hann hafi verið uppruni riðuveikinnar hér á landi. Bóndi á Veðramótum í Skagafirði flutti hann inn. Hann lánaði hann til undaneldis á ýmsa bæi þar sem síðar greindist riða. Riðan var lengi aðeins bundin við Norðurland. Upp úr 1950 fer hún síðan að breiðast um landið. En riða hafði þá verið mikið vandamál nærri alls staðar í heiminum, oft í mörg hundruð ár.

Riða í sauðfé hefur því verið alvarlegt vandamál á Íslandi um langt skeið, síðustu árin sérstaklega á Norðurlandi. Þessi ólæknandi og banvæni sjúkdómur stafar af því að prótein í svokölluðu príonpróteini, sem finnst í nánast öllum spendýrum, aflagast. Riðuveikin er bráðsmitandi og áhrif hennar eru mest á heilann og taugakerfið hjá þeim sem smitast. Eina ráðið sem síðustu fjörutíu ár hefur verið gripið til hér á landi var að skera allan bústofn niður, sem er það versta sem sauðfjárbóndi getur lent í. En smitandi prótein getur varðveist í marga áratugi í umhverfinu og leynst víða, þess vegna hefur niðurskurður einn og sér

ekki endilega í för með sér upprætingu á vandamálinu og mörg dæmi eru um að riða komi aftur upp á bæjum þar sem allt fé hefur verið skorið niður. Sem betur fer er til einföld lausn við riðuveikinni sem hefur verið notuð í mörgum löndum. „Það hefur verið þekkt í rúmlega þrjátíu ár að ákveðið gen hefur áhrif á smitnæmi kindanna og ef kindin ber ákveðna arfgerð þá veikist hún ekki af riðu,“ segir Karólína. En það er að finna kindur með ákveðnar stökkbreytingar í príonpróteini og eru ónæmar fyrir riðusmiti. Þannig er hægt að rækta upp riðuþolinn sauðfjárstofn innan fárra ára ef það er gert á skipulagðan hátt að sögn Karólínu. Lengi var því haldið fram að svoleiðis breytileika væri ekki að finna í sauðfé hér á landi en nú hefur komið í ljós að svo sé. Mörgum bændum kom það reyndar ekki á óvart, þar sem lengi hafði verið augljóst, að sumar ættir voru minna næmar fyrir riðu en aðrar Upphafið af áhuga Karólínu á riðuveikinni var að henni var neitað um að flytja kindurnar sínar frá Hegranesinu í Hvammsvík vegna reglugerða um riðu –hún fékk reyndar í lokin samt leyfi til að flytja þær, en það er önnur saga. Þegar riða kom síðan upp árið 2020 í Skagafirði, þ.e. á Stóru-Ökrum og fjórum tengdum bæjum, var það gríðarlegt áfall fyrir allt samfélagið á svæðinu. Þá fannst henni komið nóg – bara ekki hægt að það væri endalaust verið að skera niður allan fjárstofn. Það yrði hreinlega

að finna nýjar leiðir til að takast á við riðuna.

Karólína fór þá markvisst að kynna sér málin. Hún safnaði saman upplýsingum víðs vegar að, las vísindagreinar um riðu, ræddi við bændur og setti sig í samband við innlenda jafnt sem erlenda sérfræðinga. Því miður var lítið að finna varðandi rannsóknir á riðu hér á landi. „Ég var svo heppin að hitta á rétta fólkið á réttum tíma,” segir Karólína. „Fyrst var ég smeyk um að þessir vísindamenn – leiðandi á sínu sviði – myndu aldrei taka mig alvarlega, fyrst ég er ekki fulltrúi neinnar stofnunar og ekki einu sinni dýralæknir.” En sem betur fer voru þeir strax afar áhugasamir um riðuveikina hér á landi þar sem Ísland er með mjög einangraðan fjárstofn. Í framhaldinu var settur á fót rannsóknarhópur með vísindamönnum frá 5 löndum þ.e. Ítalíu, Spáni, Englandi, Frakklandi og Þýskalandi. Af hálfu Íslands eru í hópnum Stefanía Þorgeirsdóttir og Vilhjálmur Svansson á Keldum og Eyþór Einarsson hjá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins, auk Karólínu sjálfrar.

Hópurinn hefur síðan 2021 unnið að því, að finna út hvaða „arfgerðir” eru til á Íslandi og í kjölfarið, hversu næmar eða ónæmar þær eru m.t.t. riðusmits. Upphaflega var gert ráð fyrir að breytileikinn R171, svo kallað ARR, sem er alþjóðlega viðurkenndur sem verndandi, finnist ekki hér á landi – en umfangsmiklar rannsóknir á Ítalíu sýndu fram á að breytileikinn T137 sé a.m.k. eins verndandi þar. Íslensk rannsókn frá 1999 hafði leitt í ljós, að T137 væri líka að finna á Íslandi. Umfangsmikil sýnataka úr kindum um landið allt hófst til að finna núlifandi kindur með T137 og

hefja ræktun á riðuþolnum fjárstofni á þessum grunni. T137 fannst eftir nokkra mánuði á Sveinsstöðum í Þingi og talsvert seinna á sjö bæjum í viðbót á Norðurlandi og einum bæ á Austurlandi. Í þessari leit fannst alveg óvænt í byrjun 2022 frægi verndandi breytileikinn ARR – sá, sem átti ekki að vera til. Þar með opnuðust umfangsmiklir möguleikar til ræktunar, sem hófst strax veturinn á eftir.

Íslenski sauðfjárstofninn er einstaklega fjölbreyttur og bændur þurfa að taka tillit til þess þegar þeir rækta upp riðuþolinn stofn: Ekki má missa þennan fjölbreytileika út. Þess vegna hófust á sama tíma rannsóknir um næmi allra íslensku breytileikanna. Til þess eru notaðar ýmsar aðferðir, m.a. næmispróf í tilraunaglasi, smittilraunir á erfðabreyttum músum og einnig samanburður arfgerðarhlutfalls í sem flestum íslenskum riðuhjörðum. Í dag bendir allt til þess að talsvert meira en bara ARR sé til gagns. Fleiri niðurstöður eru væntanlegar jafnt og þétt næstu árin.

Litadýrð - Handbók um liti í íslenska sauðfjárstofninum Áður en riðurannsóknirnar fóru í gang og áttu hug hennar allan, fannst Karólínu vanta almennilega fræðslu um litina í íslenska sauðfjárstofninum. Hún byrjaði því að safna efni í bók sem hún kláraði loksins núna í vor og ber heitið Litadýrð –Handbók um liti í íslenska sauðfjárstofninum. Bókin er annars vegar ætluð til að hjálpa bændum að greina liti á réttan hátt og hins vegar að sýna fjölbreytileika íslenskra sauðalita í allri sinni dýrð. Í bókinni fjallar Karólína einnig um ullarliti og ull frá sjónarhorni ullarverksmiðja og handverkfólks.

Hún segir að ólíkt því sem gerist í flestum öðrum löndum þá hafi engum hér á landi, sem betur fer, dottið í hug að banna ákveðna liti í búfé. Því hafi hér varðveist litafjölbreytileiki í sauðfé sem er einstakur í heiminum. En sérstaðan er ekki aðeins hve litirnir eru margir heldur einnig hve litaheitin eru mörg. Sem dæmi má nefna að það sem heitir skjótt á hrossum, er kallað skjöldótt á kúm og flekkótt á kindum. Margt kom í ljós við vinnu bókarinnar, m.a. að ennþá veit enginn hvernig guli liturinn erfist. Efni í næstu rannsókn!

Bústörf og ostaframleiðsla

Karólína hóf að framleiða osta árið 2020 undir heitinu Hvammshlíðarostar. En þá byrjaði riðurannsóknin. Þess vegna hefur framleiðslan verið frekar óregluleg. „Það hefur lengi verið áhugamál hjá mér að eignast kýr og fullvinna ýmsar vörur úr mjólkinni. Reglur í kringum kýr eru mun strangari en í kringum sauðfé. Því miður er vandamál hjá mér að ég gæti ekki verið með hefðbundna mjólkurframleiðslu, þar sem ekki er alltaf fært heim að bænum til að sækja mjólkina. Því þurfti ég að hugsa um hvernig ég gæti unnið úr mjólkinni svo hún myndi ekki skemmast þ.e. auka geymsluþolið. Þá er gott að nýta mjólkina til ostagerðar. Ég ákvað því að koma ostagerðinni í gang áður en ég léti verða af því að fá mér kýr,” segir hún. „Sérstaða ostanna minna er að ég nota 100% íslenskt hráefni: ekki innflutta staðalgerla til að sýra ostinn heldur súrmjólk og krydd beint úr íslenskri náttúru. Ég hef smám saman verið að þróa uppskriftir sem koma vel út – bæði varðandi bragðið og varðandi tæknileg atriði. Söl virka t.d. mjög vel sem krydd, sama er hægt að segja um fjallagrös, en beltisþari hins vegar lætur ostinn molna sem gengur auðvitað ekki.“

Ostarnir eru fáanlegir í Matarbúðinni Nándinni í Hafnarfirði og á ýmsum mörkuðum á Norðurlandi og hafa notið mikilla vinsælda. Einnig er hægt að panta meira magn, eins og heil ostahjól beint frá henni.

Útgáfa á dagatali til að fjármagna dráttarvélakaup

„Nágranni minn hann Bragi heitinn á bænum Þverá dó skyndilega árið 2018. Hann hafði verið mjög góður vinur og hjálpað mér mikið, m.a. hafði ég áður

fengið dráttarvél að láni hjá honum. Eftir dauða hans þurfti ég að koma mér sjálfri upp dráttarvél. Því ákvað ég að búa til dagatal til að fjármagna dráttarvélarkaupin. Óhætt er að fullyrða að dagatölin hafi slegið í gegn og því hef ég haldið áfram að gefa þau út og selja. Ég hef mjög gaman af þessari útgáfu og þarna er ýmsan fróðleik að finna um íslenska þjóðhætti ásamt fallegum myndum sem tengjast sveitastörfum og bústofni – bæði gömlum og nýjum, sem ég tek sjálf hér heima í Hvammshlíð.“

Karólína segir að í gegnum dagatölin hafin hún kynnst mjög mörgum skemmtilegum og áhugaverðum einstaklingum, bæði fólki sem hefur samband til að panta og einnig einstaklingum sem senda gamlar myndir eða sérstök gögn. Á meðal þeirra er Rebekka frá Laugabóli við Ísafjarðardjúp, sem varð 98 ára um daginn og hefur komið nokkrum sinnum í heimsókn í Hvammshlíð.

Hvatningarverðlaun og maður ársins

Karólína hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir störf sín í þágu riðurannsókna og vegna ódrepandi áhuga, eljusemi og tenginga við erlenda vísindamenn til að finna verndandi arfgerðir gegn riðusmiti

í íslensku sauðkindinni. Hún hlaut hvatningarverðlaun Búnaðarsambands Eyjafjarðar og Landbúnaðarverðlaun Íslands árið 2021. Hún var kjörin maður ársins í Austur-Húnavatnssýslu bæði árið 2021 og árið 2023. Einnig var hún valin maður ársins á Norðurlandi vestra af Héraðsfréttablaðinu Feyki í fyrra.

„Það er mikill heiður að fá allar þessar viðurkenningar og mér þykir ákaflega vænt um að fá viðurkenningu frá samfélaginu fyrir mikilvæg málefni eins og riðuveikina. Mér finnst samt alltaf dálítið skrítið að hampa þeim. Það er ólýsanlega gott að hafa fundið lausnina við þessu mikla vandamáli og loksins sjáum við fram á bjarta framtíð – og ef ég get bjargað þúsundum kinda sem verða ekki skornar niður út af riðu í framtíðinni, þá eru þetta bestu verðlaunin fyrir mig,“ segir Karólína að lokum.

KVENFÉLAGASAMBAND ÍSLANDS Nú

Valkyrjur milli fjalls og fjöru

þegar líða tekur að hausti er tilhlökkun í loftinu því með haustinu vakna kvenfélögin úr dvala eftir gott sumarfrí, þar sem félagskonur hafa hlaðið batteríin fyrir komandi tíma. Það er alltaf gaman að hittast og mikill og góður vinskapur sem myndast hefur í kvenfélögunum.

Haustið hefst af fullum krafti þar sem konur alls staðar af landinu flykkjast á 40. Landsþing KÍ sem haldið verður á Ísafirði dagana 11. – 13. október 2024. Gestgjafi þingsins er Samband vestfirskra kvenna og yfirskriftin „Valkyrjur

milli fjalls og fjöru„ sýnir styrkleika og kraft félagskvenna KÍ um land allt. Ýmis málefni verða tekin fyrir á þessu þingi, fræðandi og uppbyggilegir fyrirlestrar verða fluttir en síðast en ekki síst höfum við gaman saman. Samtakamáttur kvenna er mikill og saman vinnum við bæði stóra sigra sem smáa. Kvenfélagasamband Íslands heldur úti öflugri heimasíðu www.kvenfelag.is þar sem lesa má nánar um starfið.

Dagmar Elín Sigurðardóttir, forseti Kvenfélagasambands Íslands

Nýr umsjónaraðili Hannyrðahornsins

Kristín Örnólfsdóttir

Handavinna hefur verið mitt aðal áhugamál frá því að ég man eftir mér. Ég lærði mjög ung að prjóna og hef aldrei tekið mér frí frá þeirri iðju. Meðfram prjónaskapnum hef ég farið í gegnum hina ýmsu handavinnukafla í mínu lífi. Á unglingsárunum og vel fram yfir tvítugt saumaði ég á mig nær öll föt. Síðan tók við langt skeið þar sem bútasaumur átti hug minn allan svo dæmi séu tekin.

Síðustu átta árin eða svo hefur vettlingaprjón verið stórt áhugamál hjá mér.

Árið 2020 gaf ég út mína fyrstu vettlinga uppskrift á Ravelry og eru þær orðnar þó nokkrar síðan þá. Einnig hef ég fengið birtar uppskriftir í erlendum bókum og tímaritum þar á meðal Harry Potter knitting magic II, The Fellowship of the knits og Vogue Knitting, winter 2022/23 svo eitthvað sé nefnt.

Húsfreyjan er fjölbreytt og vandað tímarit Kvenfélagasambands Íslands

Hægt er að velja um að fá blaðið sent heim á pappír eða fá áskrift eingöngu rafrænt.

Allir áskrifendur hafa aðgang að áskriftarvefnum á husfreyjan.is.

Á áskriftarvefnum er að finna mörg eldri blöð Húsfreyjunnar.

Til að gerast áskrifandi ferðu inn á husfreyjan.is eða hefur samband við skrifstofu Húsfreyjunnar s. 552 7430

SOKKAR

Stærðir (skóstærðir): 36-38 (39-41) Ummál um ökla og rist: 20 (21) cm

Í þessari skemmtilegu sokkauppskrift eru hægri og vinstri sokkur ekki prjónaðir eins. Það er bæði gert til þess að munstrið speglist og til þess að samskeyti munsturs séu innanfótar. Því er mikilvægt að fylgjast vel með hvaða leiðbeiningar og munsturteikningar tilheyra hægri sokk og hvaða leiðbeiningar og munsturteikningar tilheyra vinstri sokk.

Efni og áhöld: Artic frá Icewear. Ein dokka er 50 g (175 m/191yd).

Litur 1: Artic #0001, 2 dokkur.

Litur 2: Artic #8090, 1 dokka

Prjónar: Sokkaprjónar nr. 2.5.

Prjónfesta: 30 lykkjur og 32 umferðir/ 10 cm í munsturprjóni á prjóna nr. 2.5. Nauðsynlegt er að hafa rétta prjónfestu til þess að sokkarnir nái uppgefinni stærð. Sannreynið prjónfestu og skiptið um prjóna ef þörf er á. Auðvelt er að gera sokkana ennþá minni eða ennþá stærri en gefið er upp með því að nota minni eða stærri prjóna.

SKAMMSTAFANIR

L - lykkjur

sl - slétt br - brugðið

UPPHAF

Fitjið upp 60 (64) L á sokkaprjóna nr 2.5 með lit 1. Skiptið lykkjunum jafnt yfir 4 prjóna (15 (16) L á hverjum prjóni) og prjónið stroff; 2 L sl, 2 L br til skiptis þar til stroffið mælist 3 cm eða eins langt og óskað er.

Munsturteikningar fyrir hægri og vinstri sokk eru ekki þær sömu. Það er mikilvægt að fylgja þeim leiðbeiningum sem fylgja hverjum sokk fyrir sig til að munstrið gangi upp við hæl.

Prjónið nú samkvæmt munsturteikningu A frá hægri til vinstri, neðan frá og upp og endurtakið munsturumferðirnar 5 (6) sinnum (= 40 (48) umferðir). Gott er að setja PM til að merkja upphaf umferðar.

Ath. mikilvægt er að enda á síðustu umferð munsturteikningar A

MUNSTURTEIKNINGAR A

Vinstri sokkur Hægri sokkur

Þegar komið er að því að prjóna hæl þá eru hægri og vinstri sokkar ekki prjónaðir eins.

HÆLL

Hælstallur:

Hælstallur er prjónaður fram og til baka; sl á réttunni og br á röngunni.

Fyrsta lykkjan er alltaf prjónuð slétt en síðasta lykkja hverrar umferðar á hælstalli er tekin óprjónuð með bandið fyrir framan prjóninn.

Hægri hælstallur: Notið aðeins lit 1 og prjónið 30 (32) L sl á einn prjón (lykkjur sem tilheyrðu prjónum 1 og 2). Þetta er fyrsta umferð hælstalls.

Lykkjur á prjónum 3 og 4 eru geymdar á prjónunum og ekki prjónaðar á meðan hælstallur og hæltunga eru prjónuð og einn prjónn er lagður til hliðar á meðan. Prjónið samtals 24 (28) umferðir (endið á því að prjóna umferð á röngunni).

Vinstri hælstallur: Slítið böndin. Notið aðeins lit 1 og prjónið 30 (32) L sl á einn prjón (lykkjur sem tilheyrðu prjónum 3 og 4). Þetta er fyrsta umferð hælstalls.

Lykkjur á prjónum 1 og 2 eru geymdar á prjónunum og ekki prjónaðar á meðan hælstallur og hæltunga eru prjónuð og einn prjónn er lagður til hliðar á meðan. Prjónið samtals 24 (28) umferðir (endið á því að prjóna umferð á röngunni).

ATH. Eini munur á hælstalli hægri og vinstri fótar er hvar hællinn er staðsettur á prjónunum. Það er gert til þess að samskeyti munsturs lendi innanfótar. Allt annað er gert eins.

Hæltunga:

1. umferð (réttan): Prjónið 15 (16) L sl, setjið PM, prjónið 5 (5) L, takið 1 L óprjónaða, prjónið næstu L sl, steypið óprjónuðu L yfir prjónuðu L, prjónið 1 L sl. Snúið stykkinu.

2. umferð (rangan): Takið fyrstu L óprjónaða, prjónið br að prjónamerkinu, prjónið 5 (5) L br til viðbótar, prjónið 2 L br saman, prjónið 1 L br. Snúið stykkinu.

3. umferð (réttan): Takið 1 L óprjónaða, prjónið sl þar til 1 L er eftir að gatinu sem myndaðist í umferðinni á undan, takið 1 L óprjónaða, prjónið næstu L sl, steypið óprjónuðu L yfir prjónuðu L, prjónið 1 L sl. Snúið stykkinu.

4. umferð (rangan): Takið 1 L óprjónaða, prjónið br þar til 1L er eftir að gatinu sem myndaðist í umferðinni á undan, prjónið 2 L br saman, prjónið 1 L br. Snúið stykkinu.

Endurtakið umferðir 3 og 4 þar til 22 (22) L eru eftir á prjóninum. (Síðasta umferð er á röngunni).

Prjónið næstu 2 umferðir á eftirfarandi hátt: Réttan: Takið 1 L óprjónaða, prjónið sl þar til 2 L eru eftir af umferðinni, prjónið 2 síðustu L sl saman. Snúið stykkinu.

Rangan: Takið 1 L óprjónaða, prjónið br þar til 2 L eru eftir af umferðinni, prjónið síðustu 2 L br saman.

Nú ættu að vera 20 L á prjónunum í báðum stærðum.

Næsta umferð: Takið 1 L óprjónaða, prjónið 9 (9) L sl og setjið PM hér, þar sem þetta verður nú upphaf umferðar (miðja á hæl).

Prjónið nú samkvæmt munsturteikningu B og athugið að velja rétta munsturteikningu.

1. umferð munsturteikningar B: Notið prjóninn sem var lagður til hliðar og prjónið næstu 10 (10) L sl samkvæmt munsturteikningu B og takið upp og prjónið 12 (14) L af kantinum á hælstalli samkvæmt munsturteikningu B, prjónið lykkjur af prjónunum tveimur sem tilheyra ristinni, samkvæmt munsturteikningu B, takið upp og prjónið 12 (14) L af hinum kantinum á hælstallinum samkvæmt munsturteikningu 2, prjónið 10 (10) L sl samkvæmt munsturteikningu B. Nú ættu að vera 74 (80) L á prjónunum.

Prjónið samkvæmt munsturteikningu B frá hægri til vinstri, neðan frá og upp og takið úr þar sem við á.

Þegar munsturteikningu B er lokið ættu að vera 60 (64) L á prjónunum. (15 (16) L á hverjum prjóni).

Prjónið áfram samkvæmt munsturteikningu A þar til sokkurinn mælist 12-13-14 cm frá hælstalli (stærð 36-3738) eða 15-16-17 cm frá hælstalli (stærð 39-40-41) eða fram að nöglinni á litlu tá.

ÚRTAKA FYRIR TÁ:

Notið aðeins lit 1.

1. umferð: Prjónið 1 umferð sl.

2. umferð:

Prjónn 1: Prjónið þar til 3 L eru eftir á prjóninum, prjónið 2 L sl saman, prjónið 1 L sl.

Prjónn 2: Prjónið 1 L sl, takið 1 L óprjónaða , prjónið 1 L sl, steypið óprjónuðu L yfir prjónuðu L, prjónið sl út prjóninn.

Prjónn 3: Prjónið þar til 3 L eru eftir á prjóninum, prjónið 2 L sl saman, prjónið 1 L sl.

Prjónn 4: Prjónið 1 L sl, takið 1 L óprjónaða , prjónið 1 L sl, steypið óprjónuðu L yfir prjónuðu L, prjónið sl út prjóninn.

Endurtakið umferðir 1 og 2 þar til 6 L eru eftir á hverjum prjóni (24 L).

Prjónið lykkjurnar á prjóni 1.

Slítið bandið en hafið það 30 cm langt. Lykkið saman framan á tá með nál.

FRÁGANGUR

Gangið frá lausum endum.

Pressið sokkana varlega með straujárni og blautum klút. Gangi ykkur vel, leikið ykkur með liti og njótið

MUNSTURTEIKNING B

HÆGRI HÆLL

Stærð 36 - 38

Prjónið sl með lit A

Prjónið sl með lit B

HÆGRI HÆLL

Stærð 39 - 41

VINSTRI HÆLL

Stærð 36 - 38

VINSTRI HÆLL

Stærð 39 - 41

Takið 1 L óprjónaða, prjónið 1 L sl, steypið óprjónuðu L yfir prjónuðu L Prjónið 2 L sl saman

FÁNAÓRÓAR

- ÍSLENSKI FÁNINN

Þessi uppskrift inniheldur þrjár mismunandi útfærslur af íslenska fánanum, Það er upplagt að nota afgangs garn í þessa óróa.

Efni og áhöld: Kambgarn frá Istex eða Artic frá Icewear. Einnig er hægt að gera óróana stærri og þá er upplagt að nota t.d Nordic frá Icewear og prjóna nr 3.5.

GARN

Kambgarn frá Istex

Litur 1: #0051 hvítur, um það bil 10 - 15 grömm.

Litur 2: #0942 blár, um það bil 5 - 8 grömm.

Litur 3: #0917 rauður, um það bil 5 - 8 grömm.

Eða

Artic frá Icewear Garn

Litur 1: #9004 1000 hvítur, um það bil 10 - 15 grömm.

Litur 2: #9004 4041 blár, um það bil 5 - 8 grömm.

Litur 3: #9004 2026 rauður, um það bil 5 - 8 grömm.

Prjónar: Sokkaprjónar nr. 2.5.

Púðafylling eftir smekk

Heklunál nr. 3

Stoppunál

SKAMMSTAFANIR OG MERKI

L - lykkja/lykkjur

Prj. - prjónið

Prj. 2L saman - prjónið 2 lykkjur saman s1kp - takið 1 L af óprjónaða, prj. næstu L, steypið óprjónuðu L yfir prjónuðu L

M - aukið út um 1 L

HEFJIST HANDA

Fitjið upp 12 lykkjur með lit 1 á einn prjón nr. 2.5.

Skiptið lykkjunum jafnt yfir 4 prjóna, 3 lykkjur á hverjum prjóni. Prjónið samkvæmt munsturmynd og endurtakið munstrið fjórum sinnum í hverri umferð. Veljið munstur og styðjist við eftirfarandi leiðbeiningar:

Umf. 1: prj. 12 L sl.

Umf. 2: *prj. 2 L sl, aukið út um 1 L, prj. 1 L sl*, endurtakið frá *-* þrisvar sinnum til viðbótar.

Umf. 3: prj. 16 L sl.

Umf. 4: *prj. 1 L sl, aukið út um 1 L, prj. 2 L sl, aukið út um 1 L, prj. 1 L sl*, endurtakið frá *-* þrisvar sinnum til viðbótar.

Umf. 5: prj. 24 L sl.

Umf. 6: *prj. 1 L sl, aukið út um 1 L, prj. 4 L sl, aukið út um 1 L, prj. 1 L sl *, endurtakið frá *-* þrisvar sinnum til viðbótar.

Umf 7: prj. 32 L sl.

Umf. 8: *prj. 1 L sl, aukið út um 1 L, prj. 6 L sl, aukið út um 1 L, prj. 1 L sl*, endurtakið frá *-* þrisvar sinnum til viðbótar.

Umf. 9: prj. 40 L sl.

Athugið: Þegar byrjað er að prjóna samkvæmt munsturmynd þá mæli ég með því að ein góð prjóna regla verði brotin, þ.e. hafið endana á röngunni mjög lausa þannig að það verði auðvelt að teygja kúluna og þá munu munsturlitirnir ekki sjást í gegnum hvíta litinn.

Umf. 10: *prj. 1 L sl, aukið út um 1 L, prj. 8 L sl, aukið út um 1 L, prj. 1 L sl*, endurtakið frá *-* þrisvar sinnum til viðbótar.

Umf. 11: prj. 48 L sl. Upphaf munsturs á hjartalaga fána er í þessari umferð (sjá munsturmynd).

Umf. 12: *prj. 1 L sl, aukið út um 1 L, prj. 10 L sl, aukið út um 1 L, prj. 1 L sl*, endurtakið frá *-* þrisvar sinnum til viðbótar. Upphaf kúlulaga munsturs er í þessari umferð (sjá munsturmynd).

Umf. 13: prj. 56 Lsl.

Umf. 14: *prj. 1 L sl, aukið út um 1 L, prj. 12 L sl, aukið út um 1 L, prj. 1 L sl*, endurtakið frá *-* þrisvar sinnum til viðbótar.

Umf. 15 - 26: prj. 64 L sl. Upphaf munsturs þegar ferkantaði fáninn er prjónaður, þ.e. umf. 16 (sjá munsturmynd).

Umf. 27: *prj 1 L sl, s1kp, prj 10 L sl, prj. 2L saman, prj. 1 L sl*, endurtakið frá *-* þrisvar sinnum til viðbótar.

Umf 28: prj. 56 L sl.

Umf. 29: *prj 1 L sl, s1kp, prj 8 L sl, prj. 2L saman, prj. 1 L sl*, endurtakið frá *-* þrisvar sinnum til viðbótar.

Umf. 30: prj. 48 L sl.

Umf. 31: *prj 1 L sl, s1kp, prj 6 L sl, prj. 2L saman, prj. 1 L sl*, endurtakið frá *-* þrisvar sinnum til viðbótar.

Umf. 32: prj. 40 L sl.

Athugið: þegar búið er að prjóna umferð 32 snúið þá

röngunni út, lokið gatinu sem myndaðist við uppfitjun og gangið frá öllum lausum endum. Snúið röngunni síðan inn aftur og haldið áfram að prjóna samkvæmt uppskrift þar til komið er að umferð 37.

Umf. 33: *prj 1 L sl, s1kp, prj 4 L sl, prj. 2 L saman, prj. 1 L sl*, endurtakið frá *-* þrisvar sinnum til viðbótar.

Umf. 34: prj. 32 L sl.

Umf. 35: *prj 1 L sl, s1kp, prj 2 L sl, prj. 2 L saman, prj. 1 L sl*, endurtakið frá *-* þrisvar sinnum til viðbótar.

Umf. 36: prj 24 L sl.

Nú er komið að því að setja fyllingu í óróann. Hve mikið fer eftir mati hvers og eins. Prjónið svo áfram, eftir að fyllingin er komin í óróann, þar til 12 L eru á prjónunum.

Umf. 37: *prj. 1 L sl, s1kp, prj. 2 L saman, prj 1 L sl*, endurtakið frá *-* þrisvar sinnum til viðbótar.

Umf. 38: prj. 16 L sl.

Umf. 39: *prj. 1 L sl, prj. 2 L saman, prj. 1 L sl*, endurtakið frá *-* þrisvar sinnum til viðbótar.

Slítið bandið en hafið endann ca. 120 cm langan. Notið stoppunál til að þræða garnið í gegnum lykkjurnar 12, tvisvar sinnum.

Notið heklunál til að fara í gegnum toppinn og svo til að krækja í bandið.

Heklið síðan ca. 20 cm langa snúru. Tengið enda snúrunnar við topp óróans og gangið svo frá endanum.

MUNSTURMYNDIR

Pressið óróann varlega með blautum klút og heitu straujárni. Pressið toppinn, botninn og allt um kring.

Myndbönd sem sýna helstu aðferðir við gerð kúlanna er að finna á “geymdum sögum” saved stories a Instagram síðunni minni @kristinornolfs

Góða skemmtun.

Tákn

Aukið út um 1 L

S1kp

Prj. 2 L saman

VETTLINGAR

Kvenmanns stærð S/M L Efni og áhöld: Artic frá Icewear. Ein dokka er 50 g (175 m/191yd).

Mohair Mix frá Icewear. Ein dokka er 25 g (161 m). Litur 1: Mohair Mix #0001, 1 dokka. Litur 2: Artic #0001,1 dokka. Litur 3: Artic #8090, 1 dokka.

Prjónar: Sokkaprjónar nr. 2.25 og 3 fyrir stærð S/M Sokkarprjónar nr 2.5 og 3 fyrir stærð L

Prjónfesta: 34 L og 34 umferðir á prjóna nr 2.25. 30 lykkjur og 32 umferðir/ 10 cm í munsturprjóni á prjóna nr. 2.5. Nauðsynlegt er að hafa rétta prjónfestu til þess að sokkarnir nái uppgefinni stærð. Sannreynið prjónfestu og skiptið um prjóna ef þörf er á.

Auðvelt er að gera vettlingana ennþá minni eða ennþá stærri en gefið er upp með því að nota minni eða stærri prjóna.

SKAMMSTAFANIR

L - lykkjur

Prj. - prjónið

S1kp - takið 1 L óprjónaða, prjónið 1 L sl, steypið óprjónuðu L yfir prjónuðu L. Þegar hægri handar vettlingur er prjónaður:

Auk-H - aukið út um 1 L með því að fara aftan í og taka upp bandið á milli lykkja með vinstri prjóni. Prjónið síðan framan í lykkjuna. Það myndast snúningur.

Auk-V - aukið út um 1 L með því að fara framan í og taka upp bandið á milli lykkja með vinstri prjóni. Prjónið síðan aftan í lykkjuna. Það myndast snúningur. Þegar vinstri handar vettlingur er prjónaður:

Auk-V - aukið út um 1 L með því að fara aftan í og taka upp bandið á milli lykkja með vinstri prjóni. Prjónið síðan framan í lykkjuna. Það myndast snúningur.

Auk-H - aukið út um 1 L með því að fara framan í og taka upp bandið á milli lykkja með vinstri prjóni. Prjónið síðan aftan í lykkjuna. Það myndast snúningur.

UPPHAF

Athugið að Mohair Mix er notað fjórfalt, þ.e. fjórir þræðir eru prjónaðir saman. Fitjið upp 36 L með fjórföldu Mohair Mix á tvo prjóna nr. 3.

Stroff: Skiptið lykkjunum jafnt á milli fjögurra prjóna og prjónið stroff í hring á eftirfarandi hátt með fjórföldu

garni:

1. umferð: Prjónið brugðið.

2. umferð: Prjónið slétt.

Endurtakið umferð 1 og 2 þar til stroffið mælist 6 cm. Ljúkið við stroffið með brugðinni umferð.

Hægt er að setja prjónamerki til að merkja upphaf umferðar.

Slítið bandið. Skiptið yfir í prjóna nr 2.25 (2.5) og prjónið 1 umferð sl með lit 2.

PRJÓNIÐ MUNSTURMYND A

Aukið út um 21 lykkju í fyrstu umferð munsturmynd A, samkvæmt merkingum. Nú ættu að vera 57 lykkjur á prjónunum.

Athugið: Munsturmynd A er prjónuð frá hægri til vinstri, neðan frá og upp fyrir hægri handar vettling og frá vinstri til hægri, neðan frá og upp fyrir vinstri handar vettling.

Prjónið samkvæmt munsturmynd A að umferð 25.

Hægri handar vettlingur: þegar umferð 25 er prjónuð, prjónið fyrstu 34 lykkjurnar samkvæmt munstri, setjið næstu 19 lykkjur á auka þráð.

Fitjið síðan upp 8 lykkjur og prjónið áfram samkvæmt munsturmynd A.

Vinstri handar vettlingur: þegar umferð 25 er prjónuð, prjónið fyrstu 22 lykkjurnar samkvæmt munstri, setjið næstu 19 lykkjur á auka þráð.

Fitjið síðan upp 8 lykkjur og prjónið áfram samkvæmt munsturtmynd A.

Prjónið áfram samkvæmt munsturmynd A og takið úr þar sem við á þar til 8 L eru eftir á prjónunum. Slítið bandið og þræðið það í gegnum lykkjurnar 8 og svo í gegnum toppinn.

Aukið út um 21 lykkju í fyrstu umferð munsturmyndar A, samkvæmt merkingum. Nú ættu að vera 57 lykkjur á prjónunum.

ÞUMALL

Í þumalinn þarf 4 sokkaprjóna nr. 2.25 (2.5). Færið lykkjurnar 19 af auka þræðinum yfir á 2 prjóna. Notið þriðja prjóninn til að taka upp 13 lykkjur til að fylla upp í opið sem myndaðist á milli upphafs og enda á lykkjunum 19. Prjónið samkvæmt munsturmynd B.

Athugið: Munsturmynd B er prjónuð frá hægri til vinstri fyrir hægri handar vettling og frá vinstri til hægri fyrir vinstri handar vettling. Byrjið á þumlinum innan handar.

Prjónið samkvæmt munsturmynd B og takið úr þar sem við á þar til 10 L eru eftir á prjónunum, slítið bandið og þræðið það í gegnum lykkjurnar 10 og svo í gegnum toppinn.

FRÁGANGUR

Gangið frá lausum endum.

Pressið vettlingana varlega með straujárni og blautum klút. Sleppið því að pressa stroffið, leyfið því að vera loðið og lifandi.

Gangi ykkur vel, leikið ykkur með liti og njótið.

storkurinn.is storkurinn@storkurinn.is instagram/storkurinn // facebook/storkurinn

MUNSTURMYND A

Athugið: Munsturmynd A er prjónuð frá hægri til vinstri, neðan frá og upp fyrir hægri handar vettling og frá vinstri til hægri, neðan frá og upp fyrir vinstri handar vettling.

MUNSTURMYND B, ÞUMALL

Prjónið sl með lit 2

Prjónið sl með lit 3

Aukið út um 1 L með lit 2

Auk-H með lit 2

Auk-V með lit 2

S1kp þegar vinstri vettlingur er prjónaður og prj. 2 L sl saman þegar hægri vettlingur er prjónaður, með lit 2

Prj. 2 L sl saman þegar hægri vettlingur er prjónaður og s1kp þegar vinstri vettlingur er prjónaður, með lit 2

Konur í sjávarútvegi

Tinna Gilbertsdóttir formaður stjórnar KIS

Konur í sjávarútvegi (KIS) eru félagasamtök sem voru stofnuð árið 2013 af hópi kvenskörunga sem fundu þörf fyrir aukinni tengingu, samstarfi og eflingu kvenna innan greinarinnar. Þessi leiðandi atvinnuvegur Íslendinga hefur jafnan verið fremur karllægur og þótti því rík þörf á að byggja upp kröftugt félag kvenna til að við gætum fundið hver aðra, kynnst betur okkar á milli og myndað eins konar sameiningarkraft til að öðlast enn sterkari rödd. Fram að stofnun félagsins má segja að við höfum margar vitað hver af annarri, hver í sínu horni innan greinarinnar en mögulega ekki þekkst mikið nema einna helst innan afmarkaðs kima sjávarútvegsins, innan eigin fyrirtækja eða byggðarlaga. Helsta markmið félagsins er því í raun að mynda breiða og fjölbreytta fylkingu kvenna innan starfsgreinarinnar og gera konur sýnilegri bæði innan sjávarútvegsins og utan hans ásamt því að auka áhrif kvenna innan greinarinnar.

Frá stofnun félagsins hefur bæst jafnt og þétt í hóp okkar og í dag koma félagskonur okkar frá öllum krókum og kimum atvinnuvegarins, hvort sem þær tengjast sjávarútveginum beint í gegnum vinnslufyrirtæki, útgerðir eða þá í gegnum fyrirtæki sem tengjast sjávarútveginum meira óbeint, í gegnum fyrirtæki sem þjónusta sjávarútveginn eða tengjast honum á alls kyns hátt. Innan félagsins eru því konur alls staðar að af landinu, sem búa að fjölbreyttri reynslu og þekkingu og með þessum samtökum sameinum við krafta okkar og myndum mikilvæga heild sem

Tinna Gilbertsdóttir.

hefur orðið að öflugu tengslaneti fyrir okkar félagskonur.

Tengslin ræktuð með reglulegum viðburðum Í september ár hvert er haldinn aðalfundur þar sem ný stjórn er kjörin og sitja ávallt 7 konur í stjórn hvers árs auk formanns stjórnar. Á síðasta aðalfundi, sem haldinn var í september 2023, fögnuðum við 10 ára afmæli félagsins sem er merkur og flottur áfangi út af fyrir sig. Félagið hefur svo sannarlega vaxið og dafnað allt frá stofnun þess. Fyrsta starfsárið okkar voru 131 félagskona skráð og hefur heldur betur bæst í hópinn síðustu ár og teljum við hvorki meira né minna

en 345 félagskonur í dag. Við getum hins vegar alltaf blómum á okkur bætt og er ég sannfærð um að við eigum eftir að bæta enn við okkur í fjölda félagskvenna í nánustu framtíð.

Starfsár KIS er frá september til maí hverju sinni. Á hverju starfsári fyrir sig eru skipulagðir viðburðir og heimsóknir til fyrirtækja í sjávarútvegi þar sem markmiðið er að kynnast öðrum konum í greininni, læra og auka skilning okkar á sjávarútveginum og fjölbreytni fyrirtækja og stofnana innan hans. Félagið hefur miðað við að þessar heimsóknir séu með um það bil mánaðar millibili og séu af ólíkum toga svo að sem mest fjölbreytni náist. Stjórn KIS skipuleggur því

Umsjón: Sigíður IngvarsdóttirMyndir: úr einkasafni

Stjórn Kvenna í sjávarútvegi 2023-2024. Talið frá vinstri: Unnur Svala Vilhjálmsdóttir (Eimskip), Ragnheiður Eyjólfsdóttir (Fisktækniskólinn), Ingveldur Ásta Björnsdóttir (Oddi hf), Tinna Gilbertsdóttir (Iceland Seafood), Margrét Kristín Pétursdóttir (Vísir hf.), Margrét Albertsdóttir (Vísir hf. og verkefnastjóri KIS). Á myndina vantar Rakel Kristinsdóttur (Síldarvinnslan) og Unni Ingu Kristinsdóttur (Samherji).

Frá heimsókn KIS til Marel í janúar 2024.

oft á tíðum bæði fyrirtækjaheimsóknir, fræðsluviðburði, skemmtidagskrár og ferðalög svo dæmi séu tekin. Dagskrá hvers árs fyrir sig er því skemmtilega fjölbreytt og hefur stuðlað að því að hópur kvenna í sjávarútvegi er orðinn þéttur og samrýndur. Á nýliðnu starfsári voru viðburðirnir margvíslegir. Við byrjuðum á heimsókn til Matvælaráðuneytisins þar sem þáverandi matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, tók á móti okkur í morgunverðarheimsókn þar sem hún fræddi okkur um þau málefni og verkefni sem mat-

vælaráðuneytið sinnir daglega. Það var virkilega áhugaverð heimsókn og voru félagskonur öllu fróðari um þennan mikilvæga málaflokk að heimsókn lokinni. Í nóvember var farið í heimsókn til Bacco Seaproducts og í desember fjölmenntu KIS konur í jólaglögg á Kjarval og gerðu sér glaðan dag áður en almennar annir jólamánaðarins tóku yfir. Viðburðirnir héldu áfram á nýja árinu með heimsóknum til Marel og Eimskipa. Arion banki bauð svo félagskonum í kynningu á átaksverkefninu „Konur fjárfestum“ sem er með það að markmiði að jafna þátttöku kynjanna á fjármálamarkaði. Að auki var Steinar Þór Ólafsson, sérfræðingur í samskiptum og miðlum hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi fenginn til að kynna fyrir okkur starfstengda samfélagsmiðilinn Linkedin og hvernig er hægt að nýta miðilinn sér í hag.

Við ljúkum starfsári okkar ávallt með vorferð sem er hápunktur árlegra viðburða. Tilgangurinn með þessari árvissu ferð er að fagna vel heppnuðu starfsári og styrkja sambönd okkar á meðan við lærum og víkkum sjóndeildarhringinn okkar enn frekar. KIS hefur lagt land undir fót í þessum vorferðum sínum og m.a. farið í heimsóknir um Norðurlandið þar sem fyrirtæki í Dalvík, á Akureyri og víðar voru heimsótt. Einnig hefur verið farið til Austfjarða, til Vestmannaeyja, norðanrverðra Vestfjarða, sunnanverðra Vestfjarða, Reykjaness og Snæfellsness.

Frábær vorferð til Færeyja Ákveðið var að vorferð KIS þetta starfsárið yrði sérlega vegleg til þess að fagna 10 ára afmæli félagsins vel og rækilega. Farið var í ferð til Færeyja þann 15.17. maí síðastliðinn sem stjórn félagsins hafði haft veg og vanda af að skipuleggja ásamt öðrum góðum félagskonum sem hafa sterka tengingu við hinn færeyska sjávarútveg. Það má með sanni segja að KIS konur hafi fengið að njóta gestrisni frændþjóðar okkar og fengið að kynnast nokkrum af stærstu fyrirtækjum Færeyja sem tengjast sjávarútvegi þar í landi.

Flogið var af stað að morgni þess 15. maí og farið í heimsókn til Atlantic Airways, stærsta flugfélags Færeyinga. Því næst var keyrt yfir til Klaksvíkur þar sem útgerðarfélagið JFK / Kósin var heimsótt. Að því loknu var keyrt yfir til Þórshafnar þar sem Eimskip var heim-

sótt. Seinni daginn var farið af stað snemma morguns yfir til Fuglafjarðar þar sem dásamlegt veður tók á móti okkur og uppsjávarfyrirtækið Pelagos, frystigeymslan Bergfrost og útgerðarfyrirtækið Framherji var heimsótt. Á leið okkar til baka til Þórshafnar var komið við hjá saltfiskvinnslunni PRG – Fiskavirkið. Að því loknu var svo haldið um borð í Norrænu í boði Smyril Line þar sem fyrirtækið var kynnt og boðið var til veglegs kvöldverðar. Í lok ferðar þáðu KIS konur boð frá „Leiðandi kvinnur í vinnu“ (sem er félag leiðandi kvenna í færeysku atvinnulífi) þar sem við kynntum starf félagsins okkar ásamt því að heyra af reynslu færeyskra kvenna af þarlendu atvinnulífi. Það má með sanni segja að KIS konur hafi verið í skýjunum með vorferðina í ár þar sem virkilega vel var tekið á móti okkur hvar sem við komum og fengum við að njóta hinnar færeysku gestrisni í hvívetna.

Staða kvenna í íslenskum sjávarútvegi

Ásamt því að standa fyrir öflugri viðburðaröð á hverju starfsári hefur KIS tvisvar staðið fyrir rannsóknum á stöðu kvenna innan sjávarútvegsins á Íslandi og fengið RHA-Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri í lið með sér við úrvinnsluna. Sú fyrri var unnin árið 2016 og sú síðari árið 2021. Rannsóknirnar voru unnar með það að markmiði að kortleggja

stöðu kvenna innan sjávarútvegsins með því að safna tölulegum upplýsingum um konur og kanna viðhorf til þeirra innan greinarinnar. Rannsóknin var send á æðstu stjórnendur um 500 fyrirtækja í sjávarútvegi og tengdum greinum. Niðurstöðurnar voru nýttar til samanburðar til þess að sjá hvort það hafi orðið einhver breyting á þessu 5 ára tímabili sem leið á milli rannsóknanna tveggja.

Helstu niðurstöður voru þær að á þessu fimm ára tímabili sást að á heildina litið sé konum í fullu starfi í sjávarútvegstengdum greinum að fjölga í öllum starfsflokkum. Þeim vinnustöðum sem hafa enga konu í fyrirtækinu fækkaði verulega (en tæplega fjórðungur fyrirtækjanna hafa innan við fimm starfsmenn). Á heildina litið er sjávarútvegurinn að skapa fleiri störf, því við sjáum að körlum er einnig að fjölga í öllum flokkum nema í flokki framkvæmdastjóra þar sem störf virðast hafa verið að færast til kvenna í eilítið auknum mæli. Hlutfall kvenkyns framkvæmdastjóra er þó ekki nægilegt að okkar mati. Hlutfallið hækkaði úr 16% upp í rúm 24% sem er ánægjulegt og þróun í rétta átt, en þó myndum við vilja sjá hraðari þróun hvað þetta varðar. Þegar niðurstöður eru dregnar saman er ljóst að hægfara breytingar eru að eiga sér stað, en þó ekki nægilegar sem að okkar mati undirstrikar þörfina fyrir félagið Konur í sjávarúvegi. Því betur má ef duga skal!

Höldum starfinu ótrauðar áfram Það er ljóst að konur í íslenskum sjávarútvegi búa að viðamikilli reynslu og að mínu mati er KIS upplagður vettvangur til að sameina okkur innan stéttarinnar og mynda þétt tengslanet sem við svo búum að um ókomna tíð. Konur hafa unnið við sjávarútveg frá örólfi alda og lengi framan af var rödd þeirra veik og samtakamáttur lítill en nú hefur orðið breyting á. Með tilkomu félagsskapar eins og KIS geta konur í sjávarútvegi látið til sín taka í sameiningu og þar eru allar konur sem starfa í sjávarútvegi eða tengdum greinum velkomnar því eitt af fremstu markmiðum félagsins Konur í sjávarútvegi eru: jákvæðni, samstaða og hjálpsemi.

Konur í sjávarútvegi eru eflandi félagasamtök sem eftir 10 ára ötult starf býr nú að rödd sem hlustað er á innan sjávarútvegsins. Við ætlum okkur að halda okkar góða starfi ótrauðar áfram og leggja okkar á vogarskálarnar við að auka veg kvenna innan þessarar leiðandi atvinnugreinar. Með KIS konum hafa tekist sterk viðskipta- og vináttubönd og með áframhaldandi öflugu starfi KIS vonumst við til þess að enn fleiri konur líti til sjávarútvegsins sem starfsgreinar sem bjóði upp á spennandi atvinnutækifæri til framtíðar.

Myndir úr vorferð Kvenna í sjávarútvegi til Færeyja.

Verðlaunakrossgáta

Frístundar krossgátur © Húsfreyjan FÆGJA ÁRÁSIN REKUALLTAF ÁVINNING

GÆTA

VARÐSTAÐA

BEIN Í HORNI

GEFIN KÓRÓNA LÆGSTA STOFNUN SÓSU 2 AFKVÆMIÐ ÝLFRA

Frístundar krossgátur © Húsfreyjan ÁRÍÐANDI EFALEIFTRIKÆN BYGGINGARNAR

BROTHLJÓÐ 1

KVABBI

SORPÍLÁT

Frístundar krossgátur © Húsfreyjan TEKUR MARK Á Á HVERJUM DEGI STUTTNEFNI NAFN KONU METTI

HÁRLUBBA 4 MANNSNAFN PIRRIST STÓR KJAFTUR HRUN

SÝNISHORNIÐ 5 ÞVERBINDIÐ GLYSIÐ 3 LETURTÁKNUM

LAUFTRÉ INDÍÁNA RÍGBINDA NOKKUÐ STÓRA ÝRT

BLAKKARHJÓL 7 DVÖL UTANHÚSS YNDIÐ 6

SÖFNUN ÝTIN STÆKKAÐA

ÞYNGDARTÁKN AÐFERÐ EYDDA SÁÐLÖNDIN KALLA ALDUR DUGLEGRA 8

NÆR SJÓ 9 GNÝR KVÖLDI JURT

DEIGRA

HROSSASKÍT KRAUMAÐI VILLTUR SAMSULL

Frístundar krossgátur © Húsfreyjan KLÓRIÐ MÁLMS LOFTTEGUND HÖFNUN ÖSKUSTÓ BANDVEFSSTRENG FRÁ EYJUNNI GRÆNU

SVIFDÝR SKÁNINNI HREYFING NOTALEG BARDAGI

LÉREFTINU

LÆRLINGARNIR 10

MEIÐIÐ BRJÓSTNÆLANNA

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10

Lausnarorð berist útgefanda fyrir 15. október nk. merkt KROSSGÁTA. Verðlaun: Að verða að manni frá Sæmundi. Bernskuminningar Sigurðar Kristinssonar norðan af ströndum. Hugljúfar en í aðra röndina ógnvekjandi börnum 21. aldarinnar sem sjá hér hættur í hverju skrefi. Draumur Jórsalafarans frá Sæmundi. Sagan gerist í Þýskalandi á krossferðatímum og segir af ungum pílagrími sem dvelur á leið sinni í suður-þýskum smábæ og tekst þar á við höfuðskepnur lífs síns, ástina, valdboð mannanna og görótta fortíð. Höfundur: Kristján Guðlaugsson. Katrín – málsvari mæðra frá Sæmundi. Þegar baráttukonan Katrín Pálsdóttir missir mann sinn og yfirvöld vilja taka börnin snýst hún öndverð og verður baráttukona fyrir réttindum mæðra. Höfundur: Sigurrós Þorgrímsdóttir. Lausnarorð í 2. tbl: Oddaflug. Vinningshafar: Þórdís Þórhallsdóttir, Grenivík fær; Vektu ekki barnið frá Sæmundi. Kristbjörg Sigurðardóttir, Akureyri fær; Sannar sögur af einhverjum helvítis kalli í Mosfellsbæ frá Sæmundi. Ingunn Sólveig Aradóttir, Þorlákshöfn fær; Þankar frá Sæmundi. Verðlaun hafa verið send til vinningshafa.

Kvenfélagskonan

Það er gaman og gefandi að vera kvenfélagskona

Súímynd af kvenfélagskonu, sem lengi vel var við lýði, að hún væri miðaldra, jafnvel háöldruð og gengi oft í peysufötum dagsdaglega, er löngu orðin úrelt. Kvenfélagskonur í dag eru flottar og frískar konur á öllum aldri og úr öllum stéttum og kimum samfélagsins. Þær hafa áhuga á öllu sem nöfnum tjáir að nefna; stjórnmálum, listum, handverki, matargerð, málefnum nærsamfélagsins og yfirleitt öllu sem snertir mannlíf og menningu.

Ef þú hefur flutt í nýtt umhverfi, hvort sem það er þorp úti á landi, sveit, kaupstaður eða bara nýtt hverfi, er besta leiðin til að eignast góðar vinkonur og kynnast nýju samfélagi að ganga í kvenfélagið á staðnum. Nýjum konum er jafnan tekið opnum örmum og góð og uppbyggjandi tengsl myndast.

Fyrir allmörgum árum flutti ég í lítið þorp úti á landi, nánar tiltekið Hnífsdal. Hafði ég verið ráðin skólastjóri við barnaskólann. Í Hnífsdal þekkti ég ekki nokkra manneskju. Þar sem ég er frekar mikil félagsvera kveið ég örlítið fyrir því hvernig mér gengi að fóta mig í þessu litla samfélagi. Sá kvíði reyndist með öllu ástæðulaus. Ég var ekki búin að taka upp úr kössunum þegar tvær hressar konur mættu heim til mín, buðu mig velkomna til starfa og fullvissuðu mig um að í Hnífsdal myndi ég una mér vel. Þar voru þær sannarlega sannspáar. Aðal erindi þeirra var að bjóða mér í kvenfélagið Hvöt. Ég varð hálf hvumsa yfir þessu góða boði, hélt að nýbúar á hverjum stað þyrftu að sanna sig fyrir samfélaginu, þyrftu að vera afspyrnu skemmtilegir og duglegir og hafa flesta þá kosti til að bera sem eina manneskju mega prýða til að vera

gjaldgengir í félagsskap staðarins. En nei nei. Þessar dásamlegu kvenfélagskonur upplýstu mig um það, að íbúum þorpsins væri umhugað um að nýbúum fyndust þeir velkomnir og að öllum liði vel í samfélaginu.

Ekki þarf að orðlengja að ég þáði þetta góða boð og þar með hófst mitt kvenfélagsuppeldi. Það var ekki af verri endanum. Mikil samkennd ríkti, mikið lagt upp úr því að fundir væru skemmti legir og félagsandinn væri góður. Ýmsar fjáraflanir voru í gangi og góðum mál efnum lagt lið. Ekki má gleyma ferða lögum þar sem kátína og gleði voru ævinlega með í för. Þarna eignaðist ég góðar vinkonur og dýrmætar minn ingar. Ég hef búið nokkuð víða og allsstaðar hefur það verið mitt fyrsta verk að ganga í kvenfélagið á staðn um, sé það fyrir hendi. Get bara ekki án þess verið.

Ég tel víst að kvenfélagskonur deili þessari reynslu af félögunum sínum með mér. Að vera í kvenfélagi er ekki bara eilífur kökubakstur, (sem vissulega er einn af þáttunum í starfi kvenfélaga, því einhvern veginn verður að afla fjár til líknarstarfa og skemmti legheita) heldur felur það í sér dýrmætar samveru stundir, vináttu og stuðning kvenna hver við aðra.

Ég vil hvetja sem flestar konur, sem ekki eru kvenfélagskonur nú þegar, að ganga í sitt svæðisfélag og taka þannig þátt í

að bæta og styrkja samfélagið með góðum verkum og ekki síður til að styrkja sjálfar sig, mynda vináttutengsl og vera virkar í góðum félagsskap. Það er feminismi af bestu gerð.

Sjáumst sem flestar á Landsþingi Kvenfélagasambands Íslands á Ísafirði í október.

Texti: Björg BaldursdóttirMynd: Silla Páls

Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.