

5
Leiðari Húsfreyjunnar Vor í lofti og sól í sinni Sigríður Ingvarsdóttir ritstjóri
6
12
Viðtal Frá Sádi-Arabíu til Siglufjarðar Viðtal við Ólöfu Ýrr Atladóttur
Hönnun Hönnun innblásin af arfleifð íslensku þjóðarinnar
Anna Silfa Skart
15
Kvenfélag Keldhverfinga 100 ára Brot úr sögu kvenfélags og sveitar Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir
18
Smásagan Ferðin heim Sigríður Helga Sverrisdóttir
30 Hannyrðahornið Íslenskar sumarpeysur
Sjöfn Kristjánsdóttir
20
Kvenfélag Garðabæjar Ágrip af 70 ára sögu
Kvenfélags Garðabæjar
Erla Bil Bjarnardóttir
Kvenfélagasamband Íslands
24
Helga tekur sæti í stjórn KÍ
Jenný Jóakimsdóttir
25
Kvenfélagasamband Íslands
Ályktað um geðheilsu
Jenný Jóakimsdóttir
26
Golf Golf er fyrir alla
Ragnhildur Sigurðardóttir afrekskylfingur
Leiðbeiningastöð heimilanna Efnafræði þrifanna
PH gildi hreinsiefna
Húsfreyjan 2. tbl. 2023
38
Matarþáttur Húsfreyjunnar Vor í lofti hjá Bertu Dröfn og Svani
Albert Eiríksson
41 Menning og listir Lífið og listin
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir listakona
44
Garðrækt Fagrir fjölæringar
Sigríður Embla Heiðmarsdóttir garðyrkjufræðingur
46 Leiðbeiningastöð heimilanna Náttúrulegar húðvörur úr eldhúsinu
48
Jafnréttisþing
Sveitastelpa úr Landbroti á fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna
Eva Björk Harðardóttir varaforseti KÍ
50 Krossgátan
Frístund
51 Uppskrift
Sumarlegt rækjusalat
Það er snjallt að gefa ársáskrift að Húsfreyjunni. Húsfreyjan er jákvætt og hvetjandi tímarit sem er bæði hluti af menningu og sögu íslenskra kvenna og nútímalegt, fróðlegt og fjölbreytt. Hún er á óskalista margra kvenna sem hafa áhuga á lífsstíl og líðan, handavinnu og matargerð. Í Húsfreyjunni eru fróðleg og gefandi viðtöl við konur víðs vegar að af landinu.
Húsfreyjan kemur út fjórum sinnum á ári; í febrúar, maí, september og nóvember. Er í boði bæði prentuð og heimsend til áskrifenda og rafræn.
Ársáskrift kostar 5.900 kr.
Falleg gjafabréf í boði
Hafið samband við skrifstofu
Kvenfélagasambands Íslands:
• husfreyjan@kvenfelag.is
Sími 552 7430
• www.husfreyjan.is
Heimilisiðnaðarfélag Íslands hefur frá stofnun þess árið 1913 boðið upp á námskeið í hverskyns handverki, þar á meðal þjóðbúningasaum, tóvinnu, vefnaði, útsaumi og tálgun. Allar nánari upplýsingar og skráningar á námskeið má finna á heimasíðu okkar www.heimilisidnadur.is
Heimilisiðnaðarfélag Íslands Nethylur 2e / 110 Reykjavík / Sími 551 5500
www.heimilisidnadur.is
www.facebook.com/heimilisidnadarfelagid
www.instagram.com/heimilisidnadarfelagid
Þaðer eitthvað sérstakt sem gerist í sálartetrinu, þegar daginn er farið að lengja, grasið að grænka og sólin lætur sjá sig í æ meira mæli. Við klæðumst gjarnan litaglaðari fatnaði og ég er ekki frá því að við brosum meira með hækkandi sól.
Á sama tíma og farfuglarnir mæta til landsins, nýfædd lömb fara að sjást á túnum og hreiðurgerð hefst hjá fuglunum, fer landinn að eyða meiri tíma úti við og hefja sína hreiðurgerð í görðum, á sólpöllum og svölum. Því við viljum eiga notalegt afdrep utan dyra þegar veðurguðirnir sýna sínar bestu hliðar.
Í gegnum tíðina hefur veðurfar verið eitt vinsælasta umræðuefni Íslendinga. Jafnt rigningartíð og hitabylgjur hafa áhrif á fréttaflutning, bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt. Við Íslendingar erum orðin vön því að skipuleggja ekki ferðalög innanlands nema með stuttum fyrirvara þegar veðurspár fara að verða marktækari og við sjáum hvar mestar líkur eru á góðu veðri. Flestir Íslendingar elska hlýja sólardaga og vilja njóta þeirra til hins ýtrasta þegar þeir gefast.
Vellíðunartilfinning tengd vorkomunni
Flest upplifum við ákveðinn létti og vellíðan tengdan vorkomunni. Létti vegna bjartari tíma eftir dimman vetur. Sumarleyfi eftir vinnuálag. Frí frá skólum, námskeiðum, æfingum og ýmsu félagsstarfi sem tilheyrir daglegri rútínu í skammdeginu. Við hlökkum til sumarsins, og höfum flest ákveðnar væntingar tengdar þessum bjarta árstíma. Væntingar um
fleiri samverustundir með fjölskyldu og vinum, ferðalög og upplifun sem brýtur upp þær daglegu venjur sem við flest erum föst í yfir vetrartímann. Það er einnig staðreynd að margir einstaklingar hreyfa sig mun meira yfir sumar tímann, draga fram hjólið, eru duglegri að fara í sund, ganga meira og eru meira úti við.
Eins breytum við Ís lendingar gjarnan mat aræðinu á þessum árstíma. Drögum fram grillið og reiðum fram allskonar kræsingar beint af grillinu ásamt því að borða mun meira af ávöxtum og grænmeti. Fæðið sem við leitum mörg hver meira í á sumrin er gjarnan kennt við svokallað Miðjarðarhafsmataræði, en eins og nafnið vísar til er þetta mataræði upprunnið frá löndum við Miðjarðarhafið. Megin uppistaðan í því mataræði eru hráefni úr jurtaríkinu eins og grænmeti og ávextir, en auk þess heilkorna brauð, pasta, baunir, fræ, ólífur og ólífuolía ásamt fiski og alífuglakjöti. Fjöldi rannsókna bendir til að Miðjarðarhafsmataræðið sé ákaflega hollt og dragi úr líkum á hjartasjúkdómum auk þess sem mataræðið virðist draga úr líkum á að fá Parkinsons sjúkdóm eða Alzheimer sjúkdóm.
Heilsusamlegt veðurfar
Þó svo að veðurfar hér á landi geti verið upp og ofan, þá leikur enginn vafi á því að alla jafna er það heilsusamlegt, sé tek-
ið tillit til hnattstöðu okkar. Blásturinn, úrkoman, hreina loftið og vatnsgæðin eru þættir sem margir öfunda okkur af. Veðurfarið hefur einnig áhrif á hreinleika og ferskleika fæðunnar okkar bæði af landi og úr sjó, sem auðvitað á sinn þátt í góðri heilsu íbúa landsins. Þannig má leiða að því líkum að óvíða sé heilsusamlegra veðurfar, þegar á heildina er litið, þó svo að veðurfarsleg áhrif á andlega líðan manna séu breytileg og einstaklingsbundin.
Veðurfar hefur vissulega áhrif á upplifun okkar og hugarástand. Samspil veðurs, væntinga, lífs og umhverfis eru allt þættir sem hafa áhrif á lífsorkuna og andlega líðan. Margir telja að skap okkar sveiflist í takti við lægðir og veðurfar og að ákveðin fylgni sé á milli bjartsýni og jákvæðni og góðs tíðarfars. Aðrir halda því fram að veðurfar sé bara hugarástand. Maður eigi bara að klæða sig eftir veðri og taka öllum veðrabrigðum fagnandi.
Að vera jákvæður er val og gerir tilveruna svo miklu auðveldari auk þess sem þær systur gleði og jákvæðni eru smitandi. Hvernig svo sem veðurfarið verður á næstu vikum skulum við hafa sól í sinni og hoppa hamingjusöm og ef til vill örlítið veðurbarin út í hið íslenska, margbreytilega, fallega sumar.
Sigríður Ingvarsdóttir, ritstjóri Húsfreyjunnar
Útgefandi: Kvenfélagasamband Íslands. 2. tölublað, 74. árgangur, maí 2023 Tímaritið Húsfreyjan kemur út fjórum sinnum á ári: Í febrúar, maí, september og nóvember. Húsfreyjan er gefin út bæði á pappír og rafrænt. Árgangurinn kostar kr. 5.900 í áskrift, m. vsk. Hvert blað kostar í lausasölu kr. 1.990.
Útgáfustjórn: Björg Baldursdóttir formaður, Garðabæ, Magðalena Jónsdóttir gjaldkeri, Rangárþingi eystra, Eva Hilmarsdóttir, Eyjafirði, Guðrún Þóranna Jónsdóttir, Selfossi og Þóra Sverrisdóttir, A-Húnavatnssýslu.
Til vara: Guðný Valberg, Rangárþingi og Linda B. Sverrisdóttir, Borganesi. Ritstjóri: Sigríður Ingvarsdóttir, singvarsd@gmail.com.
Prófarkalesari: Björg Baldursdóttir. Ábyrgð: Kvenfélagasamband Íslands.
Auglýsingar: Kvenfélagasamband Íslands, husfreyjan@kvenfelag.is, sími 552 7430, husfreyjanauglysingar@gmail.com.
Kvenfélagasamband Íslands: Hallveigarstaðir Túngötu 14, 101 Reykjavík. Netfang: kvenfelag@kvenfelag.is. Heimasíða: www.kvenfelag.is. Sími 552 7430.
Ljósmyndari Húsfreyjunnar: Silla Páls - www.mirrorrose.com
Umbrot og prentun: Prentmet Oddi á Selfossi - Umhverfisvottuð prentsmiðja. Húsfreyjan er prentuð á umhverfisvænan pappír.
Þú getur skráð þig í áskrift inni á husfreyjan.is eða hringt í síma 552 7430.
og úr einkasafni
ÓlöfÝrr Atladóttir er ein af þessum mögnuðu konum sem eru óhræddar við að taka að sér ný verkefni og henda sér út í djúpu laugina. Hún hefur fjölbreytta menntun og starfsreynslu að baki. Á árunum frá 2008 til 2017
gegndi hún embætti ferðamálastjóra á Íslandi og tók virkan þátt í þeirri miklu uppbyggingu og umbreytingu sem varð á íslenskri ferðaþjónustu á því tímabili.
Síðan lá leiðin til Sádi-Arabíu þar sem hún starfaði í þrjú ár við uppbyggingu ferðaþjónustu við Rauða hafið og í Al Ula. Frá Sádi-Arabíu lá leiðin til Siglufjarðar þar sem hún rekur nú ferðaþjónustufyrirtæki undir formerkjum Sóti Summits og Summit Heliskiing á Tröllaskaga. Einnig á hún og rekur Sóta Lodge, sveitahótel í Fljótum ásamt eiginmanni sínum, Arnari Þór Árnasyni.
Fyrir utan það að sinna rekstri og uppbyggingu nýs ferðaþjónustufyrirtækis við nyrstu strendur Tröllaskaga, sinnir Ólöf ýmsum ráðgjafastörfum á sviði ferðaþjónustu og leiðir nú um stundir norrænt verkefni á sviði nærandi ferðaþjónustu („Regenerative tourism“), nálgun í uppbyggingu ferðaþjónustu sem hefur vakið æ meiri athygli víða um heim á undanförnum árum.
Flakk og flandur á yngri árum
„Ég er fædd í Reykjavík, en foreldrar mínir bjuggu þá í Kópavoginum. Faðir minn er læknir og eftir að hafa flutt á Ísafjörð í eitt ár þar sem hann sinnti störfum, fórum við til Bandaríkjanna þegar ég var fjögurra ára til þess að hann gæti menntað sig í sérgrein sinni, nýburalækningum. Þar bjuggum við í þrjú ár, fórum svo aftur í Kópavoginn og síðan
til Svíþjóðar, þar sem mamma stundaði sitt sérnám í talmeinafræði. Eftir að hafa flutt til Íslands aftur og klárað gagnfræðaskólann í Kópavogi fannst mér liggja beinast við að fara í Menntaskólann á Akureyri eins og foreldrar mínir og útskrifaðist þaðan 1986,“ segir Ólöf og bætir við að þetta flakk í barnæsku hafi kannski ómeðvitað lagt grunninn að ferðaáhuganum sem hefur einkennt lífsferilinn síðan.
„Ég hef líka alltaf talið að það hafi gert mér gott að þurfa að takast á við nýjar aðstæður, læra inn á ný skólakerfi, skapa mér félagslíf og mynda tengsl við fólk á nýjum stöðum. Í það minnsta þykir mér fátt meira gefandi en að kynnast nýju fólki og takast á við ný verkefni og áskoranir.“
Eftir stúdentspróf lauk Ólöf BA prófi í íslensku og síðar BS prófi í tölulegri líffræði, meðfram ýmsum verkefnum. „Ég var svo sem ekkert að flýta mér, og átti þar að auki erfitt með að sjá fyrir mér að ég myndi einhvern tímann feta mjög markaðan stíg í vinnu, með því að t.d. mennta mig til starfs sem ég myndi sinna eftir það. Ég kom þannig við á ýmsum stöðum á fyrstu námsárunum, tók t.d. virkan þátt í félagslífi í háskólanum, starfaði með Leikfélagi Kópavogs og kynntist töfrum íslenskrar náttúru við landvörslustörf víða um Norðurland. Svo kenndi ég í tvo vetur á Borgarfirði eystra og var í fyrsta hópnum sem stundaði fjarnám við Kennaraháskóla Íslands á þeim tíma.“
Vísindi og rannsóknir
Ólöf lauk M.Sc. prófi í stofnerfðafræði fiska, en verkefni hennar var unnið við Hafrannsóknastofnun og University of
East Anglia og réðist hún til starfa hjá erfðafyrirtækinu DeCode að því loknu, en tók svo við stöðu framkvæmdastjóra Vísindasiðanefndar og sinnti því um fimm ára skeið.
„Þetta var mjög áhugaverður tími til að starfa við erfðavísindi, miklar og á köflum óraunsæjar væntingar um þá gósentíð sem tæki við þegar erfðamengi mannsins yrði raðgreint. Örar tækniframfarir kölluðu á pælingar um forsendur og afleiðingar þess sem hægt væri að nýta tækniframfarir í, sem og hvort tæknivæddar lausnir væru raunverulega svarið við öllu því sem hrjáir mannkynið. Ég var svo heppin að fá að taka þátt í samræðum við og læra af því fólki sem mest velti þessum málum fyrir sér hér á landi og þetta tímabil markaði mig mjög. Mér hefur síðan verið mjög umhugað um að við mannfólkið nýtum hæfileika okkar til gagnrýnnar hugsunar og eigum heiðarlegar samræður um kosti og galla þess sem við tökum okkur fyrir hendur sem dýrategund. Ég get ekki neitað því að á síðustu árum hefur mér fundist óþægilega mikið halla á gagnrýna hugsun, þar sem þeir sem hrópa hæst og nota beittustu stílvopnin á jöðrum viðhorfa fá að stýra umræðu um vandmeðfarin málefni. Það skapar ekki lausnamiðaðan jarðveg.“
Meðfram störfum sínum hjá Vísindasiðanefnd lauk Ólöf meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu og vann rannsóknarverkefni um tvíhliða þróunarsamvinnu Íslendinga í Afríku.
„Ég hafði lengi haft áhuga á málefnum þróunarlanda og bætti raunar við mig diplóma í þróunarfræðum með MPA gráðunni. Lokaverkefnið mitt fjallaði svo
Ólöf og Arnar sjókayakferð við Selnesvita.
um ákvarðanatöku í þróunarsamstarfi
Íslendinga, sem ég hafði kynnst gegnum frændur mína tvo, sem báðir störfuðu fyrir Þróunarsamvinnustofnun Íslands.
Ég hafði borið gæfu til að heimsækja þá báða á vettvang í Malawi og Mósambík og fannst ég því hafa smá innsýn sem ég gæti byggt á. Til að vinna verkefnið var ég svo heppin að þurfa að fara í rannsóknarferð til samvinnulanda Íslands í Afríku og taka viðtöl við starfsfólk þar. Ferðir mínar til sunnanverðrar Afríku eru því orðnar þrjár og ég vil alls ekki játast undir að þær verði ekki fleiri, því þessar ferðir eru allar með því minnistæðara sem ég hef tekist á hendur um ævina.“
Fjölskyldan er akkerið Ólöf er gift Arnari Þór Árnasyni fjármálafræðingi, sem rekur bókhaldskrifstofuna Aðalbókarann ehf. Samanlagt eiga þau fjögur börn.
„Ég eignaðist dóttur mína með fyrri eiginmanni. Það kom í ljós að ég gat ekki eignast börn af sjálfsdáðum, og eftir að hafa reynt nokkrar glasafrjóvganir tók ég þá ákvörðun að fara frekar þá leið að ættleiða. Það reyndist svo mín mesta gæfa í lífinu, enda er dóttir mín bara frábær í alla staði. Ég hef verið spurð hvort þetta hafi ekki verið erfitt ferli, en málið er að ég lít ekki svo á að fólk eigi „rétt á“ að eignast börn, ekki frekar en að fólk eigi rétt á að fæðast með fullkomna sjón. Það getur auðvitað verið mikil sorg í því fólgin að geta ekki eignast barn, en sorgir eru fylgifiskur lífsins og þetta verkefni mitt
var alls ekki jafnt erfitt og margt sem fólk allt í kringum mig hefur þurft að takast á við. Ég hef verið afskaplega heppin í lífinu.
Við Arnar tókum svo saman fyrir rúmum áratug og sameinuðum tvær fjölskyldur, en hann á þrjú börn frá fyrra hjónabandi. Fjölskyldan mín er akkerið sem heldur lífsskipinu stöðugu, í öllum straumum og boðaföllum.
Við vorum bæði vel rúmlega fertug þegar við tókum saman en sá áratugur sem liðinn er síðan hefur verið afskaplega viðburðaríkur. Við höfum ferðast mikið bæði tvö saman í gönguferðum víða um Evrópu, en líka farið víða í fjölskylduferðir og stundað alls kyns útivist saman hér heima og erlendis. Við erum mjög stolt af krökkunum og núna þegar þau eru öll meira og minna að feta sína eigin leið út í lífið vitum við að þau munu standa sig vel í sínu. Fyrir okkur liggur að halda áfram að njóta þeirra ævintýra sem lífið býður upp á og njóta félagsskapar hvors annars. Það hefur reyndar komið mér á óvart að þessi tímamót, að horfa á eftir börnunum stíga inn í fullorðinsárin, hefur reynst mér erfiðara en margt annað og ég hef stundum þurft að hemja mig í mömmutöktunum.“
Ferðamálin fylgt mér lengi Ólöf þekkir mjög vel til íslenskrar ferðaþjónustu í gegnum hin ýmsu störf sem hún hefur sinnt. Á árum áður starfaði hún sem leiðsögumaður í hestaferðum og hálendisgönguferðum. Hún hefur
einnig rekið fræðasetur fyrir ferðamenn í Mývatnssveit og starfað sem landvörður í þjóðgörðum og á ýmsum friðuðum svæðum á Norðurlandi.
„Ég hef fengið ótrúlega mörg tækifæri til að kynnast landinu og tel mig þekkja það dável. Eftir að við fjölskyldan fluttum heim frá Ameríku 1975 fórum við hringinn eins og allir aðrir það árið, vopnuð amerísku hústjaldi, forláta kolagrilli og heimilistíkinni, sem gaut tveimur hvolpum á fyrsta kvöldi og jók flækjustig ferðalagsins til muna. Við lentum í óveðri í Skaftafelli og Austfjarðaþokunni ómengaðri og eftir þessa ferð varð ekki aftur snúið: mér þótti bara ekkert skemmtilegra en að fara í „ród-tripp“ um landið og þykir enn.“
Ólöf tók við embætti ferðamálastjóra í byrjun árs 2008. „Á þessum tíma voru ansi miklar sprungur að myndast í góðærisísnum, sem brast svo með eftirminnilegum hætti í október það ár. Á Ferðamálastofu þurftum við eins og aðrir að bregðast við breyttum aðstæðum og takast á við þær áskoranir sem efnahagshrunið hafði á ferðamálin, störf okkar og kannski ekki síst okkur sjálf. Þetta var krefjandi tími.“
Eftir eldgosin í Eyjafjallajökli 2010 hófst ævintýralegur vöxtur atvinnugreinarinnar í efnahagslegu tilliti, en sá vöxtur hafði í för með sér margvíslegar áskoranir sem takast þurfti á við. „Á Ferðamálastofu einbeittum við okkur að því að efla gæði og fagmennsku innan ferðaþjónustunnar, skapa faglega umgjörð um þróunar- og uppbyggingarstyrki til hagaðila, efla öryggi ferðamanna, taka þátt í að móta lagalega umgjörð greinarinnar, styðja við rannsóknir og móta umgjörð og stefnu til framtíðar. Ekki síst var gefandi fyrir mig að ná að setja af stað vinnu að áfangastaðaáætlunum um land allt á síðasta ári mínu í embætti.
Ég fékk líka margvísleg tækifæri til að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi, bæði á norrænum vettvangi og innan Evrópska Ferðamálaráðsins, þar sem ég var fyrsti Íslendingurinn og fyrsta konan til að gegna hlutverki varaforseta.
Þetta var viðburðaríkur og lærdómsríkur tími og ég eignaðist marga góða félaga innan ferðamálanna sem mér þykir mjög vænt um.“
Sádi-Arabía 2018 Í árslok 2017 var kominn tími til að söðla um. Ólöf hafði tekið þá ákvörðun að sækjast ekki áfram eftir því að gegna embætti ferðamálastjóra. Þau hjónin höfðu þá fest kaup á gömlu skólabyggingunni að Sólgörðum í Fljótum: „Ég var mikið að hugsa um hvað mig langaði að gera. Ég var nýorðin fimmtug og mér fannst nauðsynlegt að kanna hvað lífið gæti boðið upp á, enda fannst mér ég eiga nóg eftir og var spennt fyrir að takast á við nýjar áskoranir.
Þá gerðist það að haft er samband við mig gegnum Linkedin með fyrirspurn um hvort ég hafi áhuga á því að starfa í Sádi-Arabíu. Ég játa að ég tók þetta ekki alvarlega fyrst, en eftir að hafa skoðað málið og séð að þetta virtist raunverulegt, varð ég ansi spennt fyrir því að fá tækifæri til að prófa að starfa í þessum heimshluta, sem við vitum yfirleitt afskaplega lítið um. Okkur hjónum fannst þetta tilvalið tækifæri til að upplifa eitthvað nýtt.
Ég endaði síðan á því að búa í Riyadh
í þrjú ár og starfa fyrir tvö stór ferðaþjónustuverkefni, öðru í Al Ula, og hinu við Rauða hafið. Bæði verkefnin voru afar umfangsmikil og náðu til uppbyggingar á stórum landssvæðum. Sádar eru rétt að hefja vegferðina við að byggja upp ferðaþjónustu sem atvinnugrein, en landið býr yfir spennandi náttúru, mikilli menningararfleifð og hlýjum og gestrisnum heimamönnum.
Sádi-Arabía hefur lengi verið talsvert
lokað land og þar eru siðvenjur og samfélagsgerð að mörgu leyti afar framandi. Þarna koma saman afar íhaldssöm viðhorf og vel menntuð, ung þjóð, en um 70% Sáda eru undir þrítugu. Unga fólkið, sem margt er menntað og hefur búið á Vesturlöndum, hefur lengi þráð að slakað sé á ýmsum reglum, s.s. um réttindi kvenna og aðskilnað kynja, en á sama tíma er í landinu sterkur þrýstihópur íhaldssamra afla sem taka þarf tillit til, til þess að forðast að allt fari í bál og brand. Þetta er marglaga samfélag og að mörgu leyti heillandi og ég lærði mikið af dvöl minni þar.
Það var líka ofboðslega áhugavert að sjá allar breytingarnar sem áttu sér stað á meðan ég var þarna, allt frá því að konum var leyft að keyra – ég þurfti að taka bílpróf í Sádí sem var áhugavert –og til þess að sjá atvinnuþátttöku Sáda af báðum kynjum snar aukast í öllum atvinnugreinum og skynja viðhorfsbreytingarnar sem voru að verða. Það er mikil vinna eftir, en ég vona innilega að Sádar haldi áfram á þeirri braut sem verið var að marka þegar ég bjó þarna.“
Mest fannst Ólöfu gaman að upplifa náttúru landsins, ferðast um eyðimerkur og kafa í óspjölluðum kóralrifjum, og ekki síður að kynnast fólki víða um landið. „Sádar eru hlýir og dásamlegir heim að sækja, gestrisnir og höfðinglegir og stoltir af landinu sínu. Þetta er í raun eina landið þar sem ég upplifði, eins og erlendir ferðamenn á Íslandi, að þurfa á fyrstu mínútum dvalarinnar að svara spurningunni: „How do you like Saudi?“.“
Fyrir ljóshærða vestræna konu á besta aldri var tilveran stundum sérstök í SádiArabíu. „Ég upplifði mig stundum sem
næstum kynlausa og naut ákveðinna forréttinda þess vegna. Mér var til dæmis boðið á úlfaldaveðreiðar, þar sem ég var eina konan á svæðinu, og að vera eina konan í brúðkaupsveislu karla, en hefðin er að karlar og konur fagni brúðkaupi hjóna hvor í sínu lagi. Það er reyndar að breytast og ungt fólk í dag kýs oft að halda upp á stóra daginn erlendis, t.d. í Egyptalandi, til að geta fagnað saman með vinum og fjölskyldu. Ég þvældist líka víða í störfum mínum og hitti heimafólk í stórum bæjum og smáum. Þannig öðlaðist ég svolitla innsýn inn í daglegt líf fólks og það var mjög lærdómsríkt, ekki síst þegar ég bar það saman við aðstæður hér á Íslandi fyrir fáum áratugum síðan. Það er glettilega margt sambærilegt í þróunarsögu Íslands og Sádi-Arabíu.“
Nýtt ævintýri á Tröllaskaganum Þegar Ólöf og Arnar fluttu til Sádi-Arabíu voru þau nýbyrjuð að endurbyggja skólahúsið á Sólgörðum og héldu þeirri vinnu áfram næstu árin. „Svo settum við opnunardag Sóta Lodge þann 13. mars 2020, sem hlýtur að teljast versti dagur til slíks í allri hótelrekstrarsögu Íslands, en þann dag var öllu skellt í lás vegna kóvid. Ofan á þetta bættist að ég var enn í Sádi-Arabíu, lokuð inni í landinu vegna ferðatakmarkana og í raun í einangrun á heimilinu um margra mánaða skeið, eins og raunin varð víða um heim. Þetta var erfitt ár og stundum einmanalegt.“
Þau hjónin lögðu ekki árar í bát og ákváðu að nota tækifærið og byggja upp ferðapakka fyrir Íslendinga, nota kóvidtímabilið til lærdóms og þjálfunar og vera þrautseig. „Kóvidtímabilið var nú kannski lengra en nokkur sá fyrir í upphafi og þetta var ansi erfitt auðvitað. Á sama tíma var í þessu fólgið ákveðið frelsi, þótt það sé kannski undarlegt að nota það orð um þennan tíma hafta og kyrrsetningar. Við komumst í samband við frábært fagfólk á öllum sviðum útivistar og afþreyingar, prófuðum að setja saman allskyns ferðir undir formerkjum ferðaskrifstofunnar okkar, Sóta Summits, og slípuðum þjónustuna og starfshætti. Þannig að án þess að ég ætli að gera létt úr þessum tíma, sem var sannarlega erfiður, þá gerðist nú ýmislegt gott og skemmtilegt.“
Sóta Lodge er sjö herbergja gæðahótel í Fljótum, miðja vegu milli Hofsóss
og Siglufjarðar. Hótelið býður þriggja rétta kvöldverð og morgunverðarhlaðborð með allri gistingu, ásamt aðgangi að Barðslaug, sveitalaug í næsta húsi. Árið 2021 sömdu þau við Skagafjörð um að taka að sér rekstur á sundlauginni og standa fyrir viðhaldi og endurbótum á þjónustunni. Þar er núna búið að setja upp fallega sánu, og í lauginni býður Ólöf upp á flotstundir og meðferðir. „Barðslaug er með hlýrri sundlaugum og hentar vel fyrir börn – og fólk sem vill prófa þyngdarleysið í flotinu. Það fellur afar vel að starfseminni okkar að sinna þessari laug, og skapar líka tengingu við sveitina, enda er laugin samkomustaður barna í sveitinni og mikið fjör oft á tíðum.“
Sóti Lodge er vinsæll áfangastaður skíða- og útivistarfólks af öllu tagi. „Við höfum staðið fyrir gönguskíðanámskeiðum undanfarna vetur og einnig boðið upp á fjallaskíði og þyrluskíði. Eftir útivistina er svo boðið upp á dýrindismat og þjónustu á Sóta Lodge, heita laug, flot og sánu. En á sumrin er ekki síður skemmtilegt að heimsækja Fljótin – við fáum vinahópa og klúbba til okkar og setjum saman göngu- og afþreyingardagskrá, sinnum leiðsögn, akstri og annarri þjónustu. Það er hrikalega gaman finnst mér að taka á móti svona hópum, fólk mætir með gleðina í farteskinu og bara svo frábært að verða vitni að þeim sterku vinaböndum sem einkenna þessa hópa.“
Aðalskrifstofa Sóta Summits er á Aðalgötu á Siglufirði. „Hér vinnum við að sölu og markaðsmálum, sinnum tilfallandi verkefnum og setjum saman sérferðir fyrir fjölskyldur og hópa. Á sumrin bjóðum við einnig dagsferðir á Siglufirði. Við tökum fólk í raf-fjallahjólaferðir um nágrennið, erum með lengri og styttri
skipulagðar gönguferðir og erum að byrja í samstarfi með bátsferðir á Örkinni, fallegum, endurbyggðum eikarbát með heimilisfesti hér á Siglufirði. Í vor buðum við upp á skíðaferðir í Jökulfjörðum á Örkinni og verðum með dagsferðir frá Siglufirði í sumar. Það er margt í deiglunni og spennandi tímar.“
Tækifærin framundan fyrir íslenska ferðaþjónustu
Ólöf stýrir NorReg, norrænu verkefni um nærandi ferðaþjónustu („regenerative tourism“) fyrir hönd Íslenska ferðaklasans. „Nærandi ferðaþjónusta er nálgun í uppbyggingu og rekstri þar sem grunnforsendurnar eru gagnkvæm tengsl alls sem mannanna verk snerta. Í henni er fólgin heildræn sýn á innbyrðis tengsl samfélags, náttúru og einstaklinga. Undir formerkjum nærandi ferðaþjónustu ígrunda þannig ferðaþjónustuaðilar hvaða áhrif þeir hafa á umhverfi sitt og samfélag og leitast við að þróa reksturinn þannig að áhrifin af honum séu jákvæð. Mælikvarðinn á velgengni er þannig ekki bara efnahagslegur. Í NorReg vinnum við með svæðissamtökum og litlum fyrirtækjum á Norðurlöndum að því að efla þau á eigin forsendum og skapa verkfæri sem gera þeim kleift að styrkja eigin starfsemi. Á sama tíma opnast tækifæri til að efla þann skilning meðal ráðamanna að ferðaþjónustan, samfélag og umhverfi eru hvert öðru háð. Það verður að taka tillit til þess í allri stefnumótun og opinberri ákvarðanatöku og finna leiðir til að meta áhrif ferðaþjónustunnar á hamingju íbúa, samfélagslega ánægju og velferð náttúrunnar. Nærandi ferðaþjónusta leitast við að næra allt sem hún hefur snertingu við – gesti, starfsmenn, nágranna og náttúru.
Mér finnst þetta mjög spennandi verkefni. Mín sýn á lífið og tilveruna er svolítið mörkuð af þessari heildrænu hugsun – ég er sannfærð um að ekkert sem við gerum sé eingangrað við okkur sjálf. Þvert á móti hafa allir einstaklingar mikil og margvísleg áhrif á umhverfi sitt og það er okkar ábyrgð að reyna að stíga þannig til jarðar að þau áhrif séu oftar til góðs en ills. Svo náttúrulega finnur hver sína leið í því.“
Lífið í dag
Ólöf og Arnar fluttu á Siglufjörð fyrir rúmu ári og una hag sínum vel. „Það var auðvitað eðlilegt skref. Við losuðum húsnæðið okkar í Reykjavík og við höfum á Siglufirði byggt okkur notalegt og fallegt heimili. Mér fannst pínulítið skrýtið að flytja hingað fyrst, en finn svo að ég sakna einskis úr Reykjavík, nema auðvitað vina og fjölskyldu. Ég er ættuð frá Siglufirði, eins og margir heimamenn hafa minnt mig á hlýlega – hér hefur verið afar vel tekið á móti okkur nýbúunum, enda Siglfirðingar heimsborgarar við nyrstu strandir.
Okkur langar að halda áfram að byggja upp skemmtilega og gefandi ferðaþjónustu hér nyrst á Tröllaskaga. Okkur langar til að vera þátttakandi í okkar nærsamfélagi og hafa áhrif til góðs. Mig dreymir um að ferðirnar okkar og þjónusta veiti gestum okkar innsýn í dásamlega náttúru og sögu svæðisins og að upplifunin sé ekki síst fólgin í að ná að draga djúpt andann og njóta þess að vera til hér og nú.“
Hamingjan felst kannski bara í því að fá að vera til „Ég er orðin mjög meðvituð um það á undanförnum árum að tíminn er á endanum okkar eina eign. Mér finnst orðið mjög mikilvægt að nýta hann á meðvitaðan hátt, ekkert endilega þannig að það sé alltaf eitthvað mikið að gerast, heldur að dagarnir sigli ekki fram hjá í einhverju meðvitundarleysi og séu svo bara farnir, án þess að ég hafi munað eftir að anda, njóta þess sem ég er að gera (hvort sem það er skemmtilegt eða ekki) og vera glöð yfir því að vera til. Lífið er nefnilega allskonar. Það er ekki alltaf stanslaus veisla, en í gegnum súrt og sætt þá er ég samt til og í því er kjarni hamingjunnar fólginn. Lífið bara er.“
Á hestbaki í Flókadal.Myndir:
Silfa Þorsteinsdóttir hönnuður er fædd 1968 í Reykjavík og ólst upp í Bústaðarhverfinu til 6 ára aldurs en flutti þaðan til Mosfellsbæjar sem þá var sveit og í uppbyggingu. Faðir hennar byggði fjölskyldunni þar fallegt hús sem hún síðan ólst upp í.
Reykjavíkurmeistari nema í hárskurði
Ég kláraði mína grunnskólagöngu í
Mosfellsbæ og eignaðist þar góða vini sem ég síðan hef notið að eiga vináttuna áfram með inn í lífið og er þakklát fyrir þeirra hlutdeild í minni lífsins göngu. Eftir grunnskólann lá leiðin í Iðnskólann
þar sem ég lagði stund á hárskeranám og er gaman að segja frá því að ég landaði þeim vegsauka að verða Reykjavíkurmeistari nema í hárskurði. Er miður að sú sérhæfing skuli hafa fallið niður í tímans rás enda hefur mér ætíð þótt vel klipptir og skeggsnyrtir herrar vera ákaflega myndarlegir á velli. Þá sótti ég fróðleik og kennslu í Fjölbrautaskólann í Breiðholti með áherslu á textíl og einnig viðskipti. Og svona af því að mér finnst gaman að öllu grúski þá lærði ég förðun samhliða enda alltaf þótt miklu skipta að konur haldi sér vel til og ekki verra þegar þær fylgja ríkjandi straumum og
stefnum þegar kemur að tískunni enda
svo óumræðilega skemmtilegt að upplifa þær mörgu og oft byltingarkenndu sveiflur og breytingar sem endurspegla tíðaranda hverrar stundar.
Blessað barnalán, yndislegur
elskhugi og lífsins besti vinur
Ég er líkt og margir af minni kynslóð tvígift og eignaðist með mínum fyrrverandi
eiginmanni tvær yndislegar dætur sem eru svo sannarlega lifandi demantar
minnar tilveru en þær eru Ásrún Telma sem er fædd 1995 og Iðunn Silfa fædd 1997. Tvær atorkumiklar, ósérhlífnar, einarðar og ákveðnar ungar konur sem eiga framtíðina fyrir sér, vita hvað þær vilja og eru óhræddar við að sækja sína farsæld. En barnalánið endar ekki þar. Ég eignaðist með mínum seinni manni önnur falleg og yndisleg börn tvo drengi og eina stelpu, Ingvar og Gyrði Örn og svo hana Þórunni Þöll. Síðan eru tvö barnabörn komin. Á bak við þetta allt er svo auðvitað kallinn minn, hann Egill Örn Arnarson Hansen, sem ég var svo lánsöm að kynnast og eiga nú í dag sem lífsins förunaut. Yndislegur elskhugi og minn lífsins besti vinur.
Sköpunarglöð með eigin rekstur Eftir allt blessað námið vann ég hjá öðrum í hárskurði og hárgreiðslu og eins og algengt er með Íslendinga þá átti betur
við mig að vinna hjá sjálfri mér. Fór ég því í rekstur í mínu fagi og vann við það þar til fyrir nokkrum árum að ég varð að hætta störfum vegna vinnutengds sjúkdóms þar sem vefja- og slitgigtin er.
Í gegnum árin í hárinu þurfti ég auðvitað að viðhalda þekkingu, sækja fróðleik og nýjungar í faginu eftir því sem það þróaðist. Það er gaman að segja frá því að ég lærði eiginlega meira um hárgreiðslu kvenna, þegar ég dvaldi um tveggja ára skeið á Hawaii, en í Iðnskólanum sjálfum enda stofur þar fljótari að tileinka sér allt það nýjasta á þeim tíma en stofur hérna heima á Íslandi eins og gefur að skilja, þar sem ferðalög milli landa þá voru ekki jafn algeng og auðveld eins og nú í dag. Ég held sem dæmi að ég hafi verið fyrst hérlendis til að koma með álstrípur sem meðferð í háralitun.
Textíl vinna hefur alltaf átt vel við mig
og því var það ekki snúið að leita einnig í verkefni og sjálfstæðan rekstur með vörur og þjónustu því tengdu. Í þessu skyni fór ég m.a til Danmerkur þar sem ég lærði Nuno þæfingu á ull og silki, skellti mér í hönnun á þeim vörum og setti síðan upp og rak Garnbúðina á Akranesi auk þess sem ég var með þeim fyrstu til að setja slíkar vörur í sölu í stórmörkuðum eins og Hagkaup og Fjarðarkaup, en í dag þykir það heimsins sjálfsagðasti hlutur að geta gengið að svona sérvöru þar, en hér áður fyrr var það ekki algengt.
En sköpunargleðin stoppaði ekki þar enda, eins og ég hef áður sagt, fús til að fylgjast með og elta strauma og stefnur í tískunni og eru snyrtivörur þar ekki undanskildar. Ég hannaði, framleiddi og seldi hérlendis snyrtivörulínuna Secret,
en hún var eftir því sem ég best veit fyrsta snyrtivörulínan sem hægt var að kaupa á netinu, sem í dag er örugglega ein af algengustu söluaðferðum. Er ljúft að rifja það upp að framtakið og nýjungin fékk góðar viðtökur og til marks um það hlaut ég fyrstu viðurkenninguna sem Frumkvöðull, sem Mosfellsbær veitti og hefur síðan árlega afhent til þeirra sem bæjarfélagið telur skara fram úr. Verð ég mínum heimabæ ævinlega þakklát fyrir þeirra tiltrú og viðurkenningu.
Lifandi tenging við liðna sögu Ég hef lengi átt þann draum að taka aftur upp þráðinn í því að fara í hlutverk hönnuðar og þá í því að vinna með skartgripi. Hjá mér blundaði alltaf sú þrá að sjá skart hannað inn í nútímann sem jafn-
framt hefði sterka og lifandi tengingu við liðna sögu og þá einmitt skart fyrri alda hérlendis. Ég hef notið þess að eiga góða að sem hafa lagt mér lið og verið blessuð með góðum undirtektum margra sem ég hef leitað til í þessari vegferð minni. Er yndislegt að segja frá því að Þjóðminjasafn Íslands tók vel á móti mér og veitti mér aðgang að munum til að sækja minn innblástur í þ.m.t stokkabelti frá 16. öld sem lagði grunninn að því munstri sem ég síðan útfærði í mínu skarti. Í þessari línu er síðan að finna hálsmen, eyrnalokka og armbönd sem öll eiga sín heiti, sem eru sótt í nöfn kvenna úr okkar norrænu goðafræði. Allsherjargoðinn hann Hilmar Örn Hilmarsson var svo ljúfur að koma með nafngiftina fyrir hvert og eitt ásamt því að segja í stuttu máli
sögu hverrar gyðju. Síðan þessi fallega lína kom fram hef ég verið að hanna og setja fram nýtt skart og má þar m.a. nefna armbandið Bæn og Gersemi. Innblásturinn að bæninni er sóttur i barnstrúna góðu og þá einlægu von að í öllum sé eitthvað gott að finna og þá fullvissu að þau sem hafa kvatt okkur séu áfram með okkur eins og foreldrar mínir báðir. Þegar ég var að hanna Gersemina þá sótti ég hvatninguna sem fyrr í skart fyrri alda og norrænar hefðir.
Perlan mín
Nýjasta hönnunin mín er svo ný lína sem ég hef skírt My Pearl by SILFA, en þetta er óvenjulegt skart sem er í reynd prjónaog vinnuskart. Skrítið en satt ! Hérna er skartgripalína sem sækir rætur sínar í mína reynslu og þekkingu sem hannyrðakona enda er ég forfallin prjónari eins og svo margar góðar konur hérlendis. Þegar maður prjónar er maður oftar
en ekki að leita að eða týna málböndum, aukahlutum og fleiru. Þannig að hægt og rólega þróaðist sú hugmynd að gott væri að geta „gengið með á sér“ prjónatækin góðu og vera smart á sama tíma.
Þetta er sem sagt skart á hefðbundna vísu en þó hannað þannig að það nýtist einnig sem vinnutól þegar kemur að prjónaskap, þar sem í hálsmeninu er að finna prjónamál sem nýtist til að sjá stærðir prjóna og er mælieiningin bæði fyrir millimetra og fyrir markaðinn í USA. Þá býður línan upp á að lengja í hálsmeninu þannig að hægt er að nota það sem belti en framlenginguna er einnig hægt að nota sem stakt armband, en í henni er að finna 3 stærðir fyrir prjóna. Síðan er í sömu línu úrval af ferskvatnsperlum í nokkrum litum og hægt að nota þær bæði sem staka eyrnalokka og eða stafla þeim saman svo úr verði langir lokkar eða svokallað Strikkefisk skraut í hálsmeni en lokkarnir eru
hannaðar sem lykkjumerki. Hvað er nú skemmtilegra þegar prjónað er að geta prjónað með stæl og spillir ekki að þegar maður á við eyrað á sér þá er hægt að næla sér í lykkjumerki í leiðinni ! Nýjasti fjölskyldumeðlimur þessarar línu er svo 5 cm mælieiningar hálsmen sem einnig nýtist sem framlenging á keðjuna eða á prjónahálsmenið.
Þessi skemmtilega skartgripalína kemur bæði í gylltum lit (18 karata harð-gylling) og svo í hefðbundum silfurlit, en það er há-pólerað læknastál. Öll vörulínan, alveg eins og upphaflega Silfu línan er ofnæmisprófuð og framleidd þannig að litla umhirðu þarf til að halda skartinu fallegu frá einum tíma til annars.
Allt um mínar vörur, hönnun og meira er hægt að kynna sér á heimasíðunni www.silfa.is en samhliða markaðssetningu og sölu þar, er ég svo lánsöm að eiga í dag frábæra samstarfs- og söluaðila hérlendis þar sem einnig er hægt að versla mínar vörur. Þá er skemmtilegt að segja frá því að My Pearl hefur hlotið athygli út fyrir landsteinana og eru söluaðilar farnir að kynna vöruna bæði í Kanada og í henni Ameríku auk þess sem þekktur prjóna hönnuður í Þýskalandi kollféll fyrir vörunni og hefur verið að kynna hana þar. Þannig að framtíðin er björt og fram undan eru spennandi og skemmtilegir tímar.
Straumar og stefnur
Varðandi strauma, stefnur og tísku þá fer skart einnig í hringi eins og t.d. fatatískan og fylgja þá aukahlutirnir með, en þó alltaf með smá breyttu sniði.
Nýjar kynslóðir skapa sinn eiginn stíl og það er svo dásamlega skemmtilegt.
Ég hef farið mínar eigin leiðir varðandi alla mína sköpun og hef ekki verið að fylgja einhverju sérstöku. Hef farið eftir mínu innsæi og því sem mér finnst fallegt og nytsamlegt. Eins og nýja Perlan mín sem er nytjaskart og fjölnota.
Nú er ég meðal annars að einblína á erlendan markað með Perluna mína. Góðir hlutir gerast hægt og er nú fjórða árið mitt hafið í Silfunni eins og við fjölskyldan köllum hana. Ég er með nokkrar hugmyndir sem ég er að vinna að bæði í skarti og textíl. Við sjáum bara hvað kemur fyrst, þetta er allt í vinnslu eins og sagt er sem er svo dásamlegt fyrir mig því ég nærist á að skapa.
Konur stofna kvenfélag
í Kelduhverfi
Sunnudaginn 25. júní árið 1922 voru konur í Kelduhverfi boðaðar til fundar að bænum Ólafsgerði í þeim tilgangi að stofna kvenfélag í sveitinni. Nokkrar konur, bæði giftar og ógiftar, brugðust við kallinu og mættu á þessum bjarta sumardegi, sporléttar og fullar eftirvæntingar, til fundarins. Í lok fundar hafði Kvenfélag Keldhverfinga formlega verið stofnað og voru stofnfélagar þess 13. Kelduhverfi heitir sveitin upp af botni Öxarfjarðar milli Tjörness að vestan og Jökulsár á Fjöllum að austan. Næst sjónum er víðáttumikið undirlendi mótað af framburði Jökulsár á Fjöllum en sunnan þess taka við gróin hraun með fjalldrapamóa og birkikjarri. Í hraunjarðrinum spretta fram lindir eða keldur sem sveitin ber nafn sitt af og á undirlendinu eru nokkur vötn sem uppspretturnar næra og gæða lífi. Af þeim eru Lónin vestast en þau eru opin til sjávar. Þar fyrir austan er hið fuglaríka Víkingavatn og nokkru austar hin vinsæla veiðiá Litluá sem á upptök sín við bæinn Keldunes og rennur til sjávar við ósa Jökulsár. Austan við Keldunes er Skjálftavatn en nafnið tengist tilurð vatnsins sem myndaðist í eldsumbrotum sem kennd eru við Kröfluelda 1975-1984. Í Kelduhverfi fylgdu umbrotunum miklir jarðskjálftar og landsig og þegar snjóa leysti vorið 1976, blasti hið nýja stöðuvatn við. Austast í Kelduhverfi eru hin þekktu svæði Ásbyrgi og Jökulsárgljúfur sem nú eru hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Eyðibýlið Ólafsgerði stendur á suðurbakka Víkingavatns. Árið 1922 var íbúðarhúsið í Ólafsgerði eitt stærsta hús
sveitarinnar en í því var stór stofa sem var vinsæl til funda og samkomuhalds. Heimilisfólkið í Ólafsgerði var ákaflega félagslynt, tók vel á móti gestum og kom því ekki á óvart að til fyrsta fundar kvenfélagsins skyldi vera boðað í Ólafsgerði.
Frá byrjun voru árlegir fundir félagsins tveir, aðalfundur að vori og haustfundur en einstaka sinnum voru aukafundir af sérstöku tilefni. Sú skemmtilega hefð skapaðist að byrja hvern fund með sönglagi áður en hefðbundin fundarstörf hófust og hefur kvenfélagið viðhaldið þeirri hefð á aðalfundum félagsins.
Fyrstu áratugina voru félagskonur á bilinu 12-17 á hverjum tíma en flestar urðu þær 27 árið 1962. Þegar samgöngur urðu auðveldari í sveitinni fjölgaði fundum félagsins. Auk hinna árlegu funda skiptust kvenfélagskonur á að halda klúbbfundi og um tíma höfðu þær einnig sérstaka matarfundi þar sem hver og ein kona borgaði aðgangseyri sem rann í sérstakan ferðasjóð. Sjóðurinn var síðan notaður til að gera sér glaðan dag þegar tækifæri gafst, en það er nauðsynlegt hverjum félagsskap að gefa sér einnig tíma til að gera eitthvað skemmtilegt saman.
Fjölbreytt og gefandi starf Í fyrstu lögum Kvenfélags Keldhverfinga kemur fram að tilgangur þess hafi verið
að efla samvinnu meðal kvenna og styðja ýmis þarfamál í sveitinni. Kvenfélagið hefur látið margt gott af sér leiða frá stofnun þess og stutt og styrkt fjölbreytt verkefni, innan sveitar sem utan. Styrkir til fátækra í Kelduhverfi voru áberandi á fyrstu tveimur áratugum kvenfélagsins. Konurnar vissu hvar skóinn kreppti, þær voru vakandi yfir sveitungum sínum og alltaf boðnar og búnar að veita liðsinni þar sem neyðin var mest. Fátæk heimili fengu jólaglaðning, flíkur á börnin sem kvenfélagskonur útbjuggu sjálfar eða heimabakað brauð og bakkelsi. Einnig lögðu þær til vinnu á fátækum og barnmörgum heimilum eða réðu hjálparstúlkur til að vinna þar sem aðstoðar var þörf. Kvenfélagið styrkti einnig kvenfélagskonur og aðra sveitunga í veikindum þeirra og þá hefur það í gegnum tíðina styrkt kaup á ýmsum lækningatækjum og öðrum búnaði fyrir heilsugæslu og sjúkrahús.
Kvenfélagið lagði ýmislegt af mörkum til Garðskirkju í Kelduhverfi, ýmist í formi fjárstyrkja eða gjafa. Þá hafði félagið frumkvæði að því að planta trjágróðri í kringum nýja kirkjugarðinn þegar hann var tekinn í notkun um 1940 og um margra ára skeið var það árvisst verkefni kvenfélagskvenna að hreinsa og slá garðinn. Í það var yfirleitt farið á einhverjum góðviðrisdegi snemma sumars og þá gjarnan tekið með sér nesti. Voru það góðar samverustundir.
Árið 1953 var hafist handa við að byggja skóla og félagsheimili í Kelduhverfi og var Skúlagarður vígður þann 9. ágúst árið 1959. Kvenfélagið greiddi 8% af byggingarkostnaði félagsheimilisins og hefur frá upphafi átt þann hlut
í húsnæðinu. Kvenfélagskonur vörðu á þessum árum miklum starfskröftum í uppbyggingu félagsheimilisins, þar sem áhersla var lögð á að afla fjár til byggingar þess og árið 1964 hafði kvenfélagið lokið við að greiða sinn hlut í félagsheimilinu. Þar var ekki látið við sitja og hefur kvenfélagið í gegnum tíðina keypt margvíslegan búnað sem nýst hefur fé-
lagsheimilinu til framleiðslu veitinga og skemmtanahalds.
Fyrsta jólatréssamkoma kvenfélagsins var haldin árið 1931 og þegar félagsheimilið í Skúlagarði var komið í fulla notkun um 1960 urðu jólatréssamkomur að árvissum viðburðum í barnmargri sveitinni en þegar börnum fækkaði var lögð áhersla á að skemmtanirnar væru
samverustundir fyrir sveitunga á öllum aldri. Í byrjun árs 1963 hélt kvenfélagið sitt fyrsta þorrablót í Skúlagarði og í framhaldinu tók félagið að sér að sjá um þorrablót Keldhverfinga annað hvert ár á móti Búnaðarfélagi Keldhverfinga.
Frá upphafi stofnunar beitti kvenfélagið sér fyrir námskeiðahaldi í sveitinni. Í fyrstu var lögð áhersla á að kenna ungum stúlkum saumaskap og vefnað. Hélt félagið t.d. saumanámskeið á fjórum stöðum í sveitinni veturinn 1942-43 og árið 1946 voru haldin fjögur vikunámskeið á jafnmörgum bæjum. Síðar urðu námskeiðin fjölbreyttari og stóð kvenfélagið m.a. fyrir námskeiðum í föndri, prjónaskap, hnýtingum, flosi, keramik, ensku, snyrtingu og ýmis konar matreiðslu. Á síðustu áratugum hefur félagið lagt áherslu á að styðja við Öxarfjarðarskóla og styrkt þar félagsstarf og kaup á nauðsynlegum búnaði.
Frá fyrstu tíð voru skemmtisamkomur og dansleikir mikilvæg fjáröflun kvenfélagsins. Fyrsta fjáröflunarsamkoma félagsins var haldin í Ólafsgerði þann 19. júní árið 1923, tæpu ári frá stofnun þess. Stóð samkoman langt fram í bjarta sumarnóttina og undir morgun fóru síðustu gestirnir heim.
Árið 1924 byggði Ungmennafélagið Leifur Heppni í Kelduhverfi skóla- og
samkomuhús í landi Grásíðu á austurbakka Víkingavatns. Í húsinu sem ávallt var kallað ,,Fundahús“ var starfræktur skóli um skeið en einnig var það notað sem samkomuhús allt þar til félagsheimilið í Skúlagarði var byggt. Þar hélt kvenfélagið skemmtisamkomur til fjáröflunar en einnig áttu Ungmennafélagið og kvenfélagið í samstarfi um samkomur í Fundahúsinu, eins og barnasamkomur og fjáröflunarsamkomur fyrir góð málefni. Innan Ungmennafélagsins var lengi starfrækt leikfélag og áttu félögin í góðu samstarfi um leiksýningar sem sýndar voru í Fundahúsinu og síðar í Skúlagarði.
Eitt af fyrstu föstu fjáröflunarverkefnum kvenfélagsins var að selja réttarkaffi á stærstu rétt sveitarinnar, Höfðarétt, sem síðan var flutt og hét eftir það Tjarnarrétt. Smám saman varð veitinga- og kaffisala við margvísleg tilefni ein stærsta fjáröflunarleið félagsins og þá hefur það tekið að sér að sjá um erfidrykkjur í Kelduhverfi.
Keldhverfinga
Laugardaginn 25. júní 2022 hélt Kvenfélag Keldhverfinga upp á aldarafmæli félagsins, en á þeim tímamótum voru félagskonur 13 líkt og í upphafi. Boðið var upp á stutta göngu- og skoðunarferð
að eyðibýlinu Ólafsgerði þar sem stofnfundur félagsins var haldinn 100 árum fyrr. Einnig var gamla Fundahúsið á austurbakka Víkingavatns heimsótt og saga þessa einstaka húss sem er samtvinnuð sögu kvenfélagsins rifjuð upp. Síðan var gestum boðið til dagskrár og kaffiveislu í Skúlagarði og þótti allt takast bærilega og skemmtu gestir sér vel. Kvenfélagið afþakkaði gjafir aðrar en
frjáls framlög sem runnu óskipt til Velferðarsjóðs Þingeyinga.
Í tilefni af aldarafmælinu var ákveðið að hanna merki fyrir kvenfélagið sem er hið fyrsta í sögu þess. Hugmyndin á bak við merkið er að kvenfélagskonur í Kelduhverfi umvefja, vökva og næra sveitina líkt og uppspretturnar sem sveitin er við kennd. Vonandi verður svo áfram um ókomna tíð.
Höfundursmásögunnar ,,Ferðin heim“ er Sigríður Helga Sverrisdóttir. Hún er fædd í Reykjavík árið 1964 og ólst þar upp að mestu, en fyrstu ár ævi sinnar bjó hún ásamt fjölskyldu sinni á sveitabæ á Norðausturlandi. Hún starfar sem kennari og er með meistaragráðu í enskum og amerískum bókmenntum frá
Háskóla Íslands. Sigríður Helga hefur
alla tíð haft mikinn áhuga á skapandi
skrifum og byrjaði að skrifa sögur og
ljóð ung að aldri. Hún hefur birt fjölda
ljóða í blöðum, tímaritum og sameiginlegum ljóðabókum auk þess sem hún
hefur gefið út tvær ljóðabækur, Rauður
snjór, sem kom út árið 2002 og Haustið í greinum trjánna, sem kom út hjá Bókaútgáfunni Sæmundi haustið 2017. Þá
kom út í hennar þýðingu sumarið 2019
ljóðaúrval eftir danska skáldið Pia Tafr-
Elsa sat hljóð í djúpum hægindastól og hlustaði á ljúfa tóna sem bárust úr útvarpstækinu á litlu borði við hliðina á henni. Herbergið hennar var rúmgott og bjart og hádegissólin skein skært inn á ný bónað gólfið. Uppi á hillu fyrir ofan rúmið hennar var hún búin að raða í snyrtilega röð uppáhaldsmyndum af börnum sínum og barnabörnum. Nú naut hún þess að horfa í áttina til þeirra um leið og hún hlustaði á tónlistina. Á veggnum til hliðar við rúmið hékk stór eftirprentun í ódýrum viðarramma, sem hafði verið þarna þegar hún kom. Myndin var af dökkhærðri konu, ekki ósvipaðri henni þegar hún var ung. Konan var svipmikil og hafði sérstaklega sterkan augnsvip, fannst henni. Þetta augnaráð virtist fylgja henni hvert sem hún fór um herbergið og horfði niður á hana þegar hún lá í rúminu.
Elsa lokaði augunum og lét hugann reika. Óskaplega var þetta vel til fundið af elstu dóttur hennar að finna þennan fína stað fyrir hana til að dvelja á um
dup. Haustið 2019 hlaut Sigríður Helga önnur verðlaun í ljóðasamkeppni Ljósberans í Reykjanesbæ og viðurkenningu í ljóðasamkeppni Húsfreyjunnar sama ár. Nýlega hlaut hún svo viðurkenningu fyrir ljóð í ljóðasamkeppni Júlíönu 2021.
Sigríður Helga hefur einnig fengist við smásagna- og örsagnaskrif. Örsaga eftir hana birtist í tímaritinu Stína árið 2017, en þetta er fyrsta smásagnasamkeppnin sem hún tekur þátt í. Smásöguna skrifaði Sigríður Helga upphaflega á ensku á námskeiði í skapandi skrifum, en þýddi hana síðan yfir á íslensku og stílfærði til að senda hana inn í smásagnasamkeppni Húsfreyjunnar.
Sigríður Helga á tvö börn og tvö barnabörn. Hún býr ásamt dóttur sinni í Reykjavík.
stund á meðan hún jafnaði sig eftir áfallið. Hún þurfti að muna eftir að nefna það við hana næst þegar dóttir hennar kæmi hversu ánægð hún væri. Auðvitað myndi hún ekki ætla að stoppa hér lengur en nauðsyn krefði en hún gat ekki kvartað undan neinu.
Elsa leit út um gluggann á herbergi sínu á þriðju hæð, sem sneri út í fallegan garðinn. Um stund dáðist hún að því hvað garðinum væri vel við haldið. Hún hafði oft fylgst með eldri manni í gráleitum vinnujakka sýsla niðri í garðinum, við að slá og klippa, raka og snyrta. Hávaxin trén, sem teygðu sig til himins, höfðu fellt blöðin að mestu og lágu nú í bunkum um alla grasflötina. Rifsberjarunnarnir, sem höfðu verið vel klipptir, skörtuðu fullvaxta berjum sem biðu þess að vera tínd af einhverjum starfsmanni heimilisins, sem myndi síðan sjóða þau í dýrindis sultu til að hafa á morgunverðarborðinu. Hún hlakkaði til að geta farið út í garð og fengið sér göngutúr innan um haustlaufin og andað að sér ilmi haustsins.
Matartíminn var annað tilhlökkunarefni. Þvílíkar lystisemdir á borðum, hvort sem var í morgunmat, hádeginu eða kvöldmatnum. Henni fannst sem hún væri gestur á lúxushóteli. Hún hafði ferðast víða um heiminn en sjaldan eða aldrei notið slíkra gæða. Hún reyndi að rifja upp bestu ferðir sínar til útlanda en gafst upp þegar hún mundi ekki hvert hún hafði farið síðast. Var það til Kanaríeyja eða Tenerife? Eða var það ferðin til Rómar? Hafði hún kannski aldrei komið þangað? Var hún rugla saman ferðinni til Veróna og Garda? Hún gat ómögulega púslað þessu saman í huganum. Ekki í dag.
Og einmitt í þessu var bjöllu hringt frammi á ganginum sem þýddi að hádegismaturinn væri tilbúinn. Í þetta sinn var það dýrðlegur lax með soðnum kartöflum og bræddu smjöri. Hennar uppáhald.
Elsu fannst gaman að taka aðra gesti tali yfir matnum og í þetta sinn gekk að borðinu hennar myndarlegur eldri
maður með grásprengt hár og rólegt yfirbragð. Hún hafði sjálf alla tíð fengið talsverða athygli fyrir útlit sitt og var meðvituð um að hann leit til hennar hýru auga um leið og hann spurði hvort hann mætti setjast hjá henni. Hann heilsaði henni síðan kurteislega og tók þéttingsfast í hönd hennar um leið og hann kynnti sig. Hann sagðist heita Halldór og hafa starfað lengst af sem læknir. Hann var greinilega nýkominn, því hún hafði aldrei séð þennan mann fyrr.
„Ertu nýkominn hingað“ spurði hún varfærnislega.
„Já,“ sagði hann, svo hún varla heyrði. „Ég kom í fyrradag. En ég fer bráðum heim“, bætti hann við kankvís og leit djúpt í augu hennar.
Hún lét þetta gott heita af hnýsni og sneri umræðunni lipurlega yfir í spilakvöldið sem átti að halda í salnum um kvöldið.
Daginn eftir kom elsta dóttir hennar í heimsókn. Hún var á hraðferð eins og venjulega en lét móður sína hafa nokkur tímarit til að stytta henni stundirnar.
Hún hélt víst að henni leiddist eitthvað, en það var nú síður en svo. Elsu hafði aldrei leiðst, hafði alltaf haft nóg fyrir stafni, en gat ekki fengið sig til þess að segja það við dóttur sína ef hún skyldi misskilja hana og halda að hún væri að sýna vanþakklæti. Svo hún flýtti sér að segja henni hvað hún væri ánægð hérna og að dóttirin hefði ekki getað fundið betri stað fyrir hana. Hér væri hún búin að kynnast góðu fólki og alltaf væri eitthvað við að vera fyrir gestina. Það væri hugsað svo vel um þá. Svona lét hún dæluna ganga um stund en snarþagnaði í miðri setningu þegar hún leit á andlit dóttur sinnar sem varð allt í einu hið vandræðalegasta. Dóttirin kvaddi síðan í flýti með þeim orðum að hún þyrfti að drífa sig aftur í vinnuna.
Elsa sat eftir á rúmi sínu og hugleiddi
hvað hún hefði nú sagt til að koma dóttur sinni svona úr jafnvægi en gat ekki með nokkru móti áttað sig á því hvað það gæti hafa verið. Hún hafði nú alltaf verið óttalega lokuð, blessunin. Eitthvað annað en yngri dóttirin, en hún bjó of langt í burtu til að heimsækja móður sína. Og sama mátti segja um einkasoninn, sem bjó í útlöndum. Þetta unga fólk var allt öðruvísi en eldri kynslóðir, svo upptekið af sjálfu sér og eigin lífi. Hún leit sem oftar upp á myndina sem hékk á veggnum og sá að konan horfði á sig til baka. Nú fannst henni sem það myndaðist örlítið glott á öðru munnviki hennar. Þetta glott minnti hana á konu sem hún vann eitt sinn með. Hún gat ekki með nokkru móti munað nafn hennar en sú hafði alltaf talið sig vita betur og ekki þolað neina gagnrýni. Elsu fannst merkilegt hvað hún hafði alla tíð verið ógn öðrum konum og þurft að líða fyrir það á margan hátt. Hún hafði aldrei skilið það. En núna skipti það engu máli lengur. Ekkert skipti lengur máli. Elsa hristi höfuðið þegar henni var hugsað til þess hvað hún gat verið viðkvæm og tekið allt inn á sig hér áður fyrr.
Skyndilega greip hana áköf heimþrá og hana langaði heim í húsið sitt, en hún vissi að það þýddi ekki að biðja um það, að svo stöddu. Hún þurfti að ná sér betur fyrst. Hún fann fyrir gamalkunnum einmanaleika færast yfir sig, sem hún fann oftar fyrir eftir að maðurinn hennar lést, svo hún ákvað að fara og leita sér að félagsskap. Það virtist vera nóg af honum á þessum stað.
Elsa gekk fram á ganginn til að athuga hvort hún sæi Halldór einhversstaðar en hann var hvergi sjáanlegur. Þeir fáu gestir sem sátu í dagstofunni virtust heldur ekki mjög árennilegir eða líklegir til að létta henni stundirnar með spjalli. En hún lét sig hafa það að setjast hjá þeim samt þó ekki væri mikið um samræður.
Einn er feitur annar mjór allir sitthvað bralla, einn er lítill annar stór með ýmsa leynda galla.
Það var betra en að sitja ein inn á herberginu sínu.
Halldór kom ekki í morgunverðinn næsta dag né þann næsta. Eftir nokkra daga ákvað hún loks að spyrja starfsmann um hann. Var henni þá sagt að hann væri farinn.
„Farinn hvert?“ spurði hún þá dálítið hvumsa.
„Nú, heim“ svaraði starfsmaðurinn hálf glottandi, „heim á æskuslóðirnar“.
„Nú, jæja“, sagði hún dálítið leið yfir svo skjótum endi á þeirra kunningsskap sem hafði lofað svo góðu. En hann hafði svo sem sagt að hann færi fljótt aftur. Hún reiknaði bara ekki með því að það yrði svona skjótt. Hvað skyldi hafa valdið því, hugsaði hún, en gleymdi því svo um leið.
Elsa settist í hægindastólinn sinn og horfði út um gluggann upp í himinninn sem var grár í dag. Það rigndi og hún hlustaði á rigninguna falla niður á blaut laufblöðin í garðinum þangað sem hún hafði ekki enn komist. Kannski einhvern daginn, hugsaði hún, áður en hún færi sjálf heim.
Hún rankaði við sér þegar verið var að spila „You are my sunshine“ í útvarpinu. Lagið minnti hana á sumar og brosandi ungabörn. Nú hljómaði það um ganginn eins og í yfirgefnu húsi. Í því kom starfsstúlka inn til hennar og rétti henni höndina og togaði hana upp úr stólnum.
„Kominn kaffitími“, sagði hún og reyndi að hljóma hress og upplífgandi. „Það eru komnir nýir dvalargestir!“, bætti hún við.
Elsa studdi sig við starfsstúlkuna inn í matsalinn og bjó sig undir að mæta því sem þar beið hennar. Mikilvægast af öllu var að halda reisn sinni, alla leið. Og gleðinni. Héðan færi hvort sem er enginn lifandi.
Höfundur: Sigríður Helga Sverrisdóttir
Hrum er kona, hin er ung af heimsins orku knúnar, ein er létt og önnur þung og allar kostum búnar.
Hver og einn er sérstök sál, svona fólk við erum með lífsins eld og innra bál í öllu sem við gerum.
Höf. Kristján Hreinsson
Kvenfélag Garðabæjar er 70 ára í ár, stofnað 8. mars 1953 í félagsheimilinu á Garðaholti. Afmælisnefnd var skipuð á aðalfundi 2022 af fimm félagskonum til undirbúnings sjötugs afmælis félagsins. Veglegt afmælishóf var haldið á Garðaholti þann 1. febrúar 2023, þar sem margir ágætir gestir heiðruðu Kvenfélag Garðabæjar í ávörpum sínum.
Félagsstarfið
Markmið Kvenfélags Garðabæjar er menning og mannúð. Rótgrónar hefðir eru í starfsemi félagsins, félagsfundir eru frá október til maí, vorferðir skipulagðar af ferðanefndum innanlands og til annarra landa. Á aðalfundum eru kjörnar konur í stjórn og ýmsar starfsnefndir t.d. fjáröflunarnefnd, 17. júní nefnd, fermingarkyrtlanefnd, ferðanefnd og skógarnefnd. Fjöldi áhugaverðra aðila hafa komið á félagsfundi, konum til fróðleiks og skemmtunar.
Félagskonum er skipt í hópa er gegna ýmsum störfum t.d. við undirbúning og umsjón á félagsfundum, til fjáraflana og fyrir 17. júní hátíðarhöldin í bænum.
Konur njóta samveru og skemmta sér einnig á konukvöldum sem eru fjáröflunarkvöld.
Aðsetur félagsins er í Félagsheimili
Garðaholts, sem hefur verið miðstöð starfsemi félagsins frá upphafi. Kvenfélagið hefur í áratugi haft ábyrgð á rekstri Garðaholts samkvæmt samningi við Garðabæ sem er meirihlutaeigandi hússins.
Samskipti kvenfélaga
Kvenfélag Garðabæjar er eitt af tíu aðildarfélögun í Kvenfélagasambandi Gullbringu og Kjósarsýslu (KSGK), sambandi kvenfélaga á Reykjanesskaga og norður í Kjós. Margvíslegt samstarf er þar á milli og hist við ýmis tækifæri. Kvenfélag Garðabæjar er einnig aðildarfélag innan Kvenfélagasambands Íslands.
Kvenfélag Garðabæjar tók þátt í landsöfnun Kvenfélagasambands Íslands (KÍ) árið 2020 sem fram fór í tilefni 90 ára afmælis KÍ, seld voru armbönd og súkkulaði. Safnað var fyrir hugbúnaði sem tengir ómskoðunartæki víðsvegar um landið við sérfræðinga á Landspítala Háskólasjúkrahúsi. Þar er mikilvægur gagnagrunnur sem styður að heilbrigði kvenna á landinu.
Hugmynd að stofnun kvenfélagsins kom fram á þorrablóti í Garðahreppi árið 1951. Konur eignuðust efni í trog sem verkefni fyrir þorrablót og úr varð stofnun Kvenfélags Garðahrepps. Þorrablót félagsins voru fastur liður á fyrsta laugardegi í þorra, haldin á Garðaholti og voru geysi vinsæl í félagslífi íbúa. Jafnframt voru haldin vinsæl hjónaböll á vegum félagsins. Vandað var til skemmtiatriða sem oftast voru heimatilbúin, með trogin full af dýrindis þorramat á miðjum borðum. Einnig var fengið utanaðkomandi listafólk til að skemmta og hljómsveit lék fyrir dansi.
Síðast hélt kvenfélagið þorrablót á Garðaholti árið 2014.
Kynningarstarf
Ýmislegt er gert til að kynna starfsemi félagsins m.a. að halda úti heimasíðu www.kvengb.is og facebook síðu Kvenfélags Garðabæjar. Birting smáfrétta í Garðapóstinn er mikilvæg til lesenda um að kvenfélagið er til staðar í bæjarfélaginu. Vefsíða félagsins var endurnýjuð frá grunni árið 2022.
Kvenfélag Garðabæjar var fyrst kvenfélaga á Íslandi að taka „netið“ í sína þjónustu með opnun heimasíðu þann 4. nóvember 2003. Þar eru birtar tilkynningar og fleira m.a. listi yfir styrki og gjafir frá stofnun félagsins.
Kirkjan
Kvenfélagið hefur ætíð átt gott samstarf við Garðasókn. Til fjölda ára hafa félagskonur tekið þátt í undirbúningi ferminga við Vídalínskirkju og Garðakirkju. Fermingarkyrtlarnir eru í eigu kvenfélagsins. Aðventumessa fyrsta sunnudag í aðventu er helguð Kvenfélaginu.
Gjafir og styrkir
Frá upphafi stofnunar Kvenfélags
Garðabæjar hafa félagskonur borið samfélagið fyrir brjósti. Auðvelt er að lesa gegnum gjafir og styrki kvenfélagsins, helstu vígslur, opnanir og stórafmæli í samfélaginu. Ósjaldan kemur félagið að framkvæmdum sem má segja að hafi verið meira afgerandi á fyrri árum. Má sjá á www.kvengb.is styrki til Dvalar og hjúkrunarheimilisins í Holtsbúð, til Hjúkrunarheimilisins Ísafoldar, tæki til Heilsugæslunnar, til Hjálparsveitar skáta, til Tónlistarskólans, tækja til Landspítala og til kirknanna tveggja. Auk þess eru veittir árlega styrkir til ýmissa líknarmála. Áður fyrr voru tvö börn, piltur og stúlka á Indlandi, styrkt til náms fram til fullorðinsára. Árlega veitir félagið styrki til Styrktarsjóðs Garðasóknar, sem er útdeilt í samfélaginu til þeirra sem þurfa fyrir jólin. Haustið 2017 var verkefnið „húfuprjón“ er nokkrar félagskonur tóku sig saman og hittust á Garðaholti, prjónuðu húfur og gáfu börnum í Garðabæ við útskrift úr leikskóla.
Kvenfélag Garðabæjar hefur verið virkur þátttakandi í hátíðarhöldum í bænum, þar sem félagskonur bjóða uppá hátíðar-
Út
Kvenfélagið gaf útivistarbekk sem afhentur var íþrótta- og tómstundafulltrúa Garðabæjar 2011.
kaffihlaðborð. Við þetta tækifæri baka konur og útbúa dýrindis brauðrétti sem íbúar kunna vel að meta. Hafa um 700 manns mætt í hátíðarkaffið, sem reyndar féll niður í tvö ár vegna sóttvarnatakmarkana. Þetta framlag félagskvenna er helsta fjáröflun félagsins.
Fjallkonan skrýðist skautbúningi sem kvenfélagið á.
Spilakvöld eldri borgara
Kvenfélagið hefur boðið eldri borgurum til félagsvistar og bingós tvisvar á ári, þar er tekið vel á móti fólki og spilað af fjöri. Auðvitað bíður svo veglegt kaffiborð í spilahléi. Þessi kvöld hafa verið vel sótt.
Skógrækt
Skógrækt er fastur liður í félagsstarfinu enda sérstök skógarnefnd starfandi. Fyrsti reiturinn sem félagið fékk var úr landi Dysja í Garðahverfi, þar gróðursettu konur og hittust í skógarlautinni í hrauninu. Framkvæmd við nýjan Álftanesveg þrengdi að reitnum, svo félagið gaf Garðabæ skógarreitinn með skilyrði um að sett yrði upp söguskilti við reitinn eftir að framkvæmdum við Álftanesveg lyki.
Í Smalaholti fékk kvenfélagið úthlutað ræktunarreit hjá Skógræktarfélagi
Garðabæjar sem fékk holtið til skógræktar ofan við Vífilsstaðavatn. Öllum félagasamtökum og grunnskólum í
Garðabæ var boðin þátttaka í að klæða bert holtið skógi með því að fá úthlutað spildu. Undirtektir voru glæsilegar og vorið 1990 hófst Landgræðsluskógaátak Skógræktarfélags Íslands sem úthlutaði trjáplöntum til svæðanna. Mikið líf færðist í holtið við gróðursetningar, kvenfélagskonur voru þar engir eftirbátar skrýddu reitinn sinn skógi og nutu
útiveru með kaffi og nesti. Smalaholtið með sínum 30 ára yndi skógi er nú vinsælt útivistarsvæði, opið öllum með stígum og áningarstöðum.
Menningarverðlaun
Kvenfélagið hlaut viðurkenningu fyrir menningarstarfsemi frá menningar- og safnanefnd Garðabæjar árið 2018 við athöfn á Garðaholti. Þar tóku þær Hjördís Árnadóttir formaður Kvenfélags Álftaness og S. Helena Jónasdóttir formaður Kvenfélags Garðabæjar á móti viðurkenningum.
Stjórn
Ný stjórn tók við á aðalfundi 2023, er Sigurbjörg Helena Jónasdóttir lét af 6 ára formennsku.
Nýja stjórn skipa Halldóra Björk Jónsdóttir formaður, Steinunn Bergmann, Anna Nílsdóttir, Svava Gústavsdóttir, Sonja M. Halldórsdóttir.
Heiðursfélagar Fyrir unnin störf í stjórnum félagsins.
Hafa þessar konur verið virkir félagar alla tíð.
Greta Håkansson, gerðist félagi 1966. Greta er listakona, hún hannaði og gaf kvenfélaginu merki félagsins, sem karmelsystur í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði saumuðu svo listilega og úr varð veglegur félagsfáni. Það var svo séra Bragi Friðriksson sem helgaði fánann árið 1982.
Ingibjörg Stephensen, gerðist félagi árið 1966. Hún starfaði fyrir Kvenfélagið sem gjaldkeri árin 1975-1980. Hún var einnig um tíma rekstrarstjóri Garðaholts.
Þórdís Katla Sigurðardóttir, varð félagi 1966. Hún starfaði í stjórn félagsins á tímabilinu 1972-1975.
Kristiana Kristjánsdóttir, gerðist félagi 1970. Hún starfaði í stjórnum félagsins árin 1976 –1992. Hún var driffjöður í revíum skemmtinefnda á fundum félagsins og á þorrablótum.
Halldóra Salóme Guðnadóttir, gerðist félagi árið 1974. Hún starfaði fyrir félagið í stjórn 1981– 1987.
Halldóra Jónsdóttir gerðist félagi árið 1977. Hún starfaði í stjórn og hefur meðal annars saumað altarisdúka í Garðakirkju sem gjöf kvenfélagsins.
Sigurlaug Garðarsdóttir Viborg varð heiðursfélagi árið 2015 í tilefni 100 ára kosningaréttar kvenna. Hún gerðist félagi 1993, hefur verið varaformaður og formaður. Hún hefur gegnt embætti forseta Kvenfélagasambands Íslands. Sigurlaug saumaði fallegan telpubúning árið 2000, fyrir stúlku sem fylgir fjallkonunni og færir henni blómvönd.
Vissir þú að:
• Kvenfélag Garðahrepps var stofnað 8. mars 1953 af 45 konum. Nafninu var breitt í Kvenfélag Garðabæjar árið 1985.
• Félagið hélt fyrstu jólaskemmtunina árið 1953 fyrir börn á Garðaholti.
• Strax á fyrsta starfsári var farið í stækkun félagsheimilisins Garðaholts í samstarfi við hreppinn sem lagði til byggingarefni samkvæmt samningi en kvenfélagið framkvæmdina. Eftir stækkun Garðaholts var það leigt út til mannfagnaða en Kvenfélagið sá um rekstur þess.
• „Sóknarnefnd Hafnarfjarðarkirkju ánafnar Kvenfélagi Garðahrepps fullan eignar- og umráðarétt á veggjum Garðakirkju“ afsalsbréf var lesið á fyrsta aðalfundi kvenfélagsins 2. febrúar 1954.
• Söfnun var þá hafin með söfnunarbaukum, einnig bárust veglegar gjafir til endurbyggingar Garðakirkju. Garðakirkja var endurvígð árið 1966.
• Árið 1961 var skipuð leikvalla- og leikskólanefnd, sem styrkti uppbyggingu leikvalla. Fjáraflanir voru t.d. sala jólakorta sem konur gengu með í hvert hús, basarar o.fl. til kaupa á leiktækjum.
• Hagnaður rekstrar Félagsheimilis Garðaholts árið 1964 fór í kaup á leikvallatækjum í Silfurtúni.
• Árið 1973 voru þrír gæsluvellir í bænum sem kvenfélagið hvatti til og lagði til leiktæki á vellina.
• Árið 1975 sameinast kvenfélagið og Lionsklúbbur Garða- og Bessastaðahrepps um að ráðast í byggingu sundlaugar. Stofnaður var sundlaugarsjóður og seld jólakort fyrir jólin 1976. Þessi fyrsta sundlaug var staðsett milli álma við Flataskóla, sem síðar varð Ásgarður.
• Kvenfélagið hefur frá 1980 lagt til fjallkonu við 17. júní hátíðarhöldin í Garðabæ. Fyrstu árin leigði félagið búning, en árið 1982 keypti félagið skautbúning. Félagskonur hafa oftast skrýðst búningnum og flutt ljóð.
• Árið 1981 beinir félagið þeirri áskorun til bæjarstjórnar að séð verði til þess að lögum um grunnskóla sé framfylgt og komi verði á hið fyrsta kennslu í heimilisfræðum.
• Afhjúpuð var lágmynd í Garðakirkju í tilefni 30 ára endurvígslu kirkjunnar, lágmyndin er af Páli postula eftir listakonuna Kristjönu Samper. Þá var sagt að Garðakirkja væri fullbyggð.
• Kvenfélag Garðabæjar gaf listaverkið Í mótun eftir listakonuna Sigrúnu Guðmundsdóttur. Afhjúpað 20. nóvember 1988 við Bæjarskrifstofurnar í gömlu Sveinatungu, (flutt á inntorg Garðatorgs 1989 og stendur mót nýju Sveinatungu). Skúlptúrinn er úr sedrusvið.
• Sundlaugin Ásgarði var vígð 30. september 1989, þá afhenti félagið lyftustól fyrir hreyfihamlaða við laugina.
• Við vígslu Vídalínskirkju 30. apríl 1995 færði kvenfélagið kirkjunni kross og tvo kertastjaka á altarið. Eftir Pétur Hjálmarsson silfursmið.
• Minjasafnsnefnd var stofnuð 11. febrúar 1997, sem fjórar konur störfuðu í við að safna munum og ræða við fólk. Gripirnir voru aðallega frá Hofsstöðum. Settir voru upp sýningarskápar í anddyri turnsins á Garðatorgi 7 sem vísi að minjasafni. Gripunum var komið fyrir í kjallara Klaustursins að Holtsbúð.
• Vatnspósturinn við göngustíginn við Arnarnesvog er gjöf kvenfélagsins í tilefni 25 ára kaupstaðar- afmælis Garðabæjar.
• Árið 2001 gekkst kvenfélagið fyrir ráðstefnu í Fjölbrautarskólanum, þemað „Móðir, kona, meyja – með til betra lífs“ þar sem fjallað var um heilsu og líkamsrækt kvenna frá ýmsum sjónarhornum.
• Það má segja að Kvenfélag Garðabæjar hafi verið í fararbroddi margra samfélagsmála í Garðabæ s.s. stækkunar Félagsheimilisins Garðaholts, endurreisn Garðakirkju, uppbygging leikvalla, búnað til kennslu í grunnskólum og Tónlistarskólanum, til sundlaugar, Heilsugæslunnar og ekki síst við 17. júní hátíðarhöld.
Jóakimsdóttir
Helga Magnúsdóttir var kosin ritari Kvenfélagasambands Íslands á 67. formannaráðsfundi sem haldin var á Kirkjubæjarklaustri í mars síðastliðnum. Helga starfar sem almannatengill í Sendiráði Bandaríkjanna og hefur starfað þar í 17 ár. Helga starfar einnig sem óperusöngkona. Helga hefur verið virk í kvenfélagsstarfi um margra ára skeið. Helga er varaformaður
Félags Kvenna í Kópavogi, yngsta kvenfélagi landsins, og kemur inn í stjórn KÍ sem fulltrúi þaðan. Helga er nýtekin við sem for-
maður í Eddu kvennafélagi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi. Helga var áður ritari Bandalags Kvenna Hafnarfirði og formaður Vorboða kvenfélags Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði. Helga er í stjórn sumarbúðanna Vindáshlíð, sem eru sumarbúðir fyrir stelpur á aldrinum 9-16 ára á vegum KFUM og K. Helga starfar einnig í sunnudagaskóla Hafnarfjarðarkirkju og hefur séð um sunnu-
dagaskóla í Hallgrímskirkju og Keflavíkurkirkju. Helga er 47 ára fædd og uppalin í Keflavík, gift Bergi Þorra Benjamínssyni og búa þau nú í Kópavogi. Helga á úr fyrra sambandi 25 ára tvíbura, Guðna Natan og Sigríði Stellu. Bergur á einnig tvíbura úr fyrra sambandi, þau Birnu og Benjamín sem eru 17 ára. Helga er menntuð sem óperusöngkona, spilar á píanó og smá á gítar líka. Hún hefur verið kórstjóri í barna og fullorðins kórum, auk þess að hafa starfað sem tónmenntakennari, þáttastjórnandi í útvarpi, og tekið þátt í margvíslegu sjálfboðastarfi m.a. hjá KFUM og K, Rauða krossinum og fleira.
Skeifunni 8, 108 Reykjavík
Sími 517 6460 - www.belladonna.is
Íslands (KÍ) fundaði á Hótel Laka, Kirkjubæjarklaustri á 67. formannaráðsfundi helgina 10. – 11. mars sl.
Formannaráð fer með æðsta vald um málefni KÍ milli landsþinga KÍ sem haldin eru á þriggja ára fresti. Á fundinn mæta formenn og fulltrúar héraðssambanda KÍ ásamt stjórnarkonum KÍ.
Fundurinn að þessu sinni var aðalformannaráðsfundur milli landsþinga og ásamt öðrum aðalfundarstörfum var kosinn nýr ritari í stjórn, varastjórnarkona var endurkjörin og kjörnefnd kosin fyrir landsþingið á Ísafirði 2024.
Formannaráðið lætur sig mörg mál varða og ræðir á fundum sínum mál er varða kvenfélögin í landinu og þau mál sem eru í þjóðfélagsumræðunni hverju sinni. Að þessu sinni sendi formannaráð frá sér eftirfarandi ályktun varðandi geðheilsu.
67. formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands haldinn á Hótel Laka, Kirkjubæjarklaustri dagana 10.-11. mars 2023 sendir frá sér eftirfarandi ályktun:
Geðheilsa er vaxandi vandamál í þjóðfélaginu. Fundurinn hvetur stjórnvöld til að gefa þessum málaflokki enn meiri gaum en nú er, hlúa
betur að veikum einstaklingum og grípa þá fyrr inn til aðstoðar.
Geðheilsa er jafn mikilvæg og líkamleg heilsa og því má ekki sofna á verðinum þó svo að geðheilsan sé ekki eins sýnileg og líkamlegt sár. Í
þjóðfélagsumræðunni heyrast margar alvarlegar sögur um mjög veika einstaklinga sem kerfið nær ekki að grípa. Átröskun, kvíði, sjálfsvíg, kulnun, allt eru þetta alvarlegir sjúkdómar sem einstaklingar bera oft ekki utan á sér og skellur hart á aðstandendum. Því þarf að gera átak í að grípa einstaklingana fyrr, hlúa að þeim og aðstandendum þeirra, sem oftar en ekki þurfa að glíma við áföll í kjölfarið.
Kosin var ný kona í stjórn Kvenfélagasambands Íslands. Helga Magnúsdóttir frá Félagi kvenna í Kópavogi (FKK) í Kvenfélagasambandi Kópavogs (KSK) var kosin ritari KÍ til næstu þriggja ára. Sólrúnu Guðjónsdóttur frá Kvenfélaginu Gleym mér ei í Grundarfirði var þakkað fyrir vel unnin störf síðastliðin 6 ár sem ritari KÍ. Björg Baldursdóttir frá
Kvenfélagi Garðabæjar var endurkjörin í varastjórn KÍ til þriggja ára.
Það var Samband vestur skaftfellskra kvenna sem var gestgjafi þessa 67. formannaráðsfundar og er sambandinu þakkað kærlega fyrir góða skemmtun og viðurgjörning á Kirkjubæjarklaustri.
Golf er gríðarlega vinsælt á Íslandi enda getur fólk stundað golf á öllum aldri og það hefur mjög góð áhrif bæði á líkama og sál. Ýmsar rannsóknir hafa sýnt fram á að golfiðkun er góð leið til að hvetja fólk til reglulegrar hreyfingar og hún getur dregið úr einkennum langvinnra sjúkdóma. Auk þess sem útivera og félagslegir þættir eru meðal ávinnings af reglulegri golfiðkun. Fjölmargir einstaklingar eru eflaust að velta fyrir sér hvernig best sé að taka fyrstu skrefin til að stunda þessa íþrótt, hvernig útbúnað þarf að hafa og ýmsu sem tengist golfinu.
Ragnhildur Sigurðardóttir er PGA golfkennari og afrekskylfingur sem á marga Íslandsmeistaratiltla að baki. Hún er einn af þremur eigendum fyrirtækisins GolfSögu sem selur íslenskum kylfingum golfferðir til Spánar vetur, vor og haust.
Golfáhuginn
Golfáhugi Ragnhildar byrjaði eiginlega vegna þess að sem barn þá bjó hún við hliðina á golfvellinum í Grafarholti og bróðir hennar Sigurður Sigurðarson dró hana með sér á völlinn. Þegar hún var að byrja sem krakki í golfinu voru fáar stelpur sem stunduðu þessa íþrótt, en sú staða er gjörbreytt. Ragnhildur náði mjög fljótt góðum tökum á íþróttinni, segist hafa orðið alveg vitlaus í golfið um leið, enda lækkaði forgjöfin fljótt og titlarnir hlóðust upp. Sem dæmi á hún 22 klúbbmeistaratitla, 4 Íslandsmeistaratitla í höggleik og 8 í holukeppni. Hún hefur 10 sinnum orðið stigameistari Íslands. Í tvígang hefur Ragnhildur verið tilnefnd sem Íþróttamaður Íslands og var kosin Íþróttamaður Reykjavíkur árið 2005.
Þó afrekalistinn sé langur þá segir Ragnhildur að það sem standi upp úr
í golfinu hjá sér séu kynnin við allt það yndislega fólk sem hún hefur fengið að eyða tímanum með á golfvöllum landsins sem og víða um heim.
Alhliða líkams- og heilsurækt Ragnhildur fullyrðir að golf sé fyrir alla ,,það er stórkostlegt sameiningarafl fólks á öllum aldri, öllum getustigum og af öllum stéttum. Afar og ömmur geta farið út að leika með börnum og barnabörnum og sama hvort kylfingarnir eru nýbyrjaðir eða búnir að stunda golf lengi þá verður forgjöfin til þess að allir eiga jafn mikinn séns.“
Ragnhildur segist hafa fengið til sín byrjendur á aldursbilinu 4 ára til 84 ára. Allir geta haft jafn gaman af golfinu og borið í hjartanu draum um að bæta sig. ,,Þakklæti og auðmýkt er gott að ástunda og golf gerir okkur að betri manneskjum bara ef við leyfum okkur að þroskast með þeim verkfærum sem golfið réttir okkur.“
Útiveran, samveran við gott og heilbrigt fólk ásamt glímunni við sjálfan sig... gerir golfið að einni allra bestu alhliða líkams- og heilsurækt sem fólk getur stundað. Viðskiptavinir okkar hjá GolfSögu sem kaupa af okkur golfferðir skipta þúsundum á árs grundvelli, fleiri fyrirtæki selja golfferðir á erlenda grundu og auðvelt er því að því átta sig á umfangi golfáhuga Íslendinga“ segir Ragnhildur
Golf gerir ekki mannamun
Ragnhildur segir að golfið sé svona vinsælt af því það gerir ekki mannamun. ,,Stétt eða staða skiptir ekki máli... ef þú kannt mannasiði og kannt að halda uppi sæmilegum leikhraða þá vilja allir spila með þér. Eins og áður sagði þá er glíman við sig sjálfan stóra áskorunin.“
Ragnhildur segir að þegar einstaklingar vilji byrja í golfi sé best að setja sig i samband við golfkennara og fá ráðgjöf varðandi kylfukaup og æfinga-kennslu-
prógramm. ,,Flestir sem hafa haft tækifæri til þess að skella sér erlendis í golfskóla eru komnir með skothelda lausn á áframhaldandi golfiðkun sinni. Það er fátt betra en að stunda æfingar í vikutíma án utanaðkomandi truflana. Vakna á morgnana, mæta í skólann og stunda sínar æfingar í 5 til 6 klst á dag. Eftir slíkt námskeið er fólk tilbúið til að fara að spila á golfvöllum.“
Ragnhildur bendir einnig á að námskeið í grunnatriðum yfir vetrartímann séu líka góð lausn fyrir þá sem ekki hafa tök á því að fara í skóla erlendis. Einkatímar og smærri námskeið eru líka í boði hjá flestum golfkennurum.
Útbúnaður
Útbúnaður er oft í boði, fyrir þá sem ekki eiga slíkan, hjá þeim sem bjóða upp á kennslu, en gott er að kaupa sér grunnbúnað, t.d. tvær til fjórar kylfur svo hægt sé að æfa á milli kennslustunda. Þegar fólk fer í golfferðir og golfskóla erlendis er á flestum stöðum hægt að leigja sér golfsett meðan á dvölinni stendur. Mikilvægt er þó að afla sér upplýsinga um slíkt áður en lengra er haldið. Þeir sem vilja kaupa sér kylfur er bent á golfverslanir á Höfuðborgarsvæðinu, þær veita ráðgjöf og mæla kylfinga hátt og lágt með það að markmiði að hver og einn fái verkfæri við sitt hæfi.
Golfhermar
Ragnhildur segir að með tilkomu golfherma sé golf nú orðið heilsársíþrótt sama hvernig viðrar. ,,Golfhermar
spretta nú upp víða um borgina og tiltölulega auðvelt er að komast að til þess að iðka sínar æfingar. Kennsluefni sem hjálpar fólki að stunda æfingar í Trackman er hægt að finna í Facebook hópnum: (3) Golfhermakynning - Trackman Golfhöllin Granda - Ragga Sig | Facebook
Ég hvet fólk til þess að kíkja í heimsókn í Golfhöllina Granda þar getur fólk af öllum getustigum fengið ráðgjöf varðandi kennslu og æfingar í golfhermum.“
Golfkennsla
Ragnhildur heldur utan um golfkennslu á Spáni og fararstjórn ásamt vetrarnámskeiðum í Golfhöllinni Granda.
,,Fyrir tveimur árum bauðst mér tækifæri til að taka vetrarnámskeiðin mín,
Mjög erfitt er fyrir byrjendur að komst að á golfvöllum landsins á vorin og þetta er því kjörið tækifæri fyrir þá sem eru að taka sín fyrstu skref að læra að leika golf á velli, telja punkta og í leiðinni að temja sér helstu siðareglur. Grunntækni og grunnhreyfingar eru að sjálfsögðu hluti af námsefninu. Einnig er á döfinni hjá okkur að opna Golfhöllina Granda sem æfingasvæði í takt við æfingasvæðin á Höfuðborgarsvæðinu, þar sem kostnaðurinn verður svipaður og að kaupa sér bolta.“ segir Ragnhildur.
Glíma við sjálfan sig Ragnhildur hefur mikla reynslu af því að kenna fólki á öllum aldri golf. ,,Það er mikilvægt að vera næmur fyrir líðan fólks því spennustig líkamans hefur áhrif á hvernig líkaminn vinnur og þar af leiðandi golfsveifluna. Ef hugarástand er ekki gott þá hefur það gríðarleg áhrif á það hvernig fólk skynjar það sem kennarinn hefur að segja.
Við erum öll svo ólík og hlutverk golfkennarans er að finna lausnir fyrir hvern og einn. Það er hægt, því það er alltaf hægt að finna lausnir.
Golf er stórkostlegt á óteljandi vegu en það sem stendur upp úr hjá mér er þessi glíma við sjálfan sig. Golf gerir okkur að betri manneskjum ef við beitum réttum brögðum. Ef við ráðumst endurtekið á okkur sjálf og brjótum okkur niður þá náum við ekki að blómstra. Talið fallega við ykkur sjálf eins og þið væruð að tala við börnin ykkar. Ég mæli með því að þið reynið að temja ykkur að segja
,,Það er mikilvægt að vera næmur fyrir líðan fólks því spennustig líkamans hefur áhrif á hvernig líkaminn vinnur og þar af leiðandi golfsveifluna.
sem eru búin að vera ansi fjölmenn undanfarin ár, inn í Golfherma Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar. Ég varð strax hugfangin af möguleikunum sem Trackman golfhermarnir gefa okkur. Í vetur kenndi ég í Golfhermum í Golfhöllinni Granda og hef verið að þróa kennsluefni fyrir þá sem vilja æfa sig í golfhermum.
Í sumar er á döfinni að vera með námskeið fyrir byrjendur í Golfhöllinni Granda þar er ætlunin að gera fólk leikhæft á velli.
eitthvað fallegt eftir hvert högg sem þið sláið (það þarf alls ekki að vera upphátt). Ef þið finnið ekkert fallegt til að segja, þá skuluð þið segja eitthvað greinandi í staðinn. Jafnvel lítið klapp a öxlina.. ,,Ragnhildur mín þetta er allt í lagi, þú varst að reyna að gera þitt besta.’’ Golf er leikur og aðalatriðið er að hafa gaman, njóta og hafa góð áhrif á fólkið í kringum sig. Þá eru miklu meiri líkur á að árangurinn láti ekki á sér standa“ segir Ragnhildur að lokum.
„Sýrustig (hugtakið pH-gildi er notað þegar tala er tilgreind) er í efnafræði mælikvarði fyrir hversu súr vökvi er. Gildi frá 0 til 7 tákna súra lausn, þ.e. sýru (því súrari sem gildið er lægra), gildið 7 táknar hlutlausa lausn, og gildi frá 7 og upp í 14 táknar basíska lausn (því basískari sem gildið er hærra).“ Af wikipedia.
Vatn er hlutlaust og er með pH gildi 7. Margir muna eftir þessu úr efnafræðinni í skóla, alla vega þeir sem fylgdust vel með. En þó svo að efnafræði sé ekki eitthvað sem þú ert að spá í dags daglega þá er þetta góður lærdómur sem gott er að vita og þekkja þegar kemur að þrifum og blettahreinsun.
Hér kemur því smá upprifjun sem gagnast öllum.
Basískar lausnir eru betri í að ráðast gegn óhreinindum, fitu, prótínum og öðrum lífrænum efnum. Súrar lausnir vinna betur á kalki, ryði og öðrum steinefnum. Að þekkja pH gildi efnanna getur því verið gagnlegt.
Dæmi: Kattarhland er á súra skalanum, en þegar það þornar breytist pH gildið í basískt. Að þrífa kattarhland með basískri lausn hefði því lítil áhrif. Betra væri því að nota súra lausn til að hlutleysa hlandið. Þess vegna virkar edik svona vel á kattarhland.
Basískar lausnir með pH gildi hærra en 7 gagnast best til að þrífa:
- Fitug gólf
- Óhreina veggi
- Tjöru
- Vélar og verkfæri
- Vélarolíu, díselolíu, ásafitu
- Matarolíu
- Háfana í eldhúsinu
- Bakaraofna
Súrar lausnir með pH gildi lægra en 7 gagnast best til að þrífa:
- Vatnsbletti
- Ryð
- Kalk áfellingar
- Kalkstein
- Innan í uppþvottavélina
- Salerni
- Sturtuklefa
- Þvagskálar
Við viljum nota umhverfisvæn efni til að þrífa. Leiðbeiningastöðin mælir með svansmerktum hreinsiefnum. Borðedik og matarsódi eru líka tilvalin hreinsiefni
á heimilinu en gæta þarf þess að nota ekki edikið á hvað sem er þar sem það er ætandi. Mild sápa er best við flest dagleg þrif.
Klór: pH 11 til 13
Klór er bleikiefni og fer næstum því eins hátt á pH skalanum og hægt er. Semsagt mjög basískt. Það er mjög ætandi og nauðsynlegt er að lofta vel út þegar klór er notaður. Klór er ekki hægt að nota hvar sem er og getur t.d. á andartaki gert göt á fatnað. Aldrei ætti að blanda klór saman við önnur hreinsiefni. Getur verið hættulegt við innöndun. Klór er hinsvegar góður til að bleikja (hvítta) og fjarlæga bletti (í hvítum fatnaði).
Klór ætti að fara afar varlega með, getur skaðað húð og er hættulegur við innöndun. Klór getur eyðilagt yfirborð ýmissa efna og fjarlægir lit.
Ammóniak: pH 11 to 12
Ammoníak er annað mjög basískt efni og pH gildi þess er í kringum 12. Ammóníak er líka mjög ætandi eins og klórinn. Aldrei ætti að blanda Ammóníak við önnur efni. Ammóníak ætti eingöngu að nota við mjög erfiða bletti sem önnur efni hafa ekki virkað á. Í raun er Ammóníak svo eitrað að maður ætti alls ekki að nota það heima hjá sér. Bara lyktin af Ammóníak blöndu getur verið skaðleg.
Ofna hreinsir: pH 11 to 13
Flestir ofnahreinsar eru jafn basískir og Ammóníak. Þeir virka því vel til að ná erfiðum viðbrenndum óhreinindum úr ofnum. Þegar ofnahreinsar eru notaðir ætti alltaf að fara mjög gætilega, nota hanska og loftræsta vel.
Betri umhverfisvænni leið til að þrífa ofna er brúnsápa eða matarsódi. Blandið vatni saman við matarsóda og búið til þykka blöndu sem hægt er að smyrja inn í kaldan ofninn. Látið bíða í góða stund og nuddið svo með grófum svampi. Gott að nota spreybrúsa með vatni til að bleyta aftur upp í matarsódanum ef óhreinindin eru mikil. Hægt að endurtaka nokkrum sinnum áður en matarsódinn er fjarlægður með blautri tusku. Hægt er að spreyja smá borðediki á matarsódann þannig að hann freyði smá til að hjálpa til í lokin. Hafa skal í huga að það er aðeins á þessu augnabliki
sem freyðir sem edikið virkar á matarsódann. Þegar hættir að freyða erum við eingöngu með lausn sem er að mestu leyti vatn og salt.
Umhverfisvæna leiðin er kannski ögn seinlegri á ofninn en algjörlega hættulaus fyrir þig og umhverfið. Þessvegna er miklu sniðugra að þrífa bakaraofninn reglulega svo vinnan verði léttari.
Matarsódi: pH 8 til 9
Matarsódinn er líka basísk lausn. En bara rétt svo. Vegna þess að matarsódinn er basískur en ekki nægilega basískur til að vera ertandi þá er hann frábær kostur til að nýta á margan hátt við þrifin á heimilinu. Hann eyðir líka lykt.
Matarsódann er hægt að nota til dæmis til að:
- Hreinsa niðurföll
- Í þvottavélina
- Í ísskápinn
- Á pottana og pönnurnar
- Í örbylgjuofninn
- Í ofninn (sjá að ofan)
- Í uppþvottavélina
- Í ruslafötuna
- Til að þrífa rúmdýnuna
Borðedik: pH 2.0 – 2.9 Borðedik er súr lausn, og er notað í matvæli til að sýra.
Algengast er að finna borðedik sem blönduna 5% ediksýra á móti 95% vatni. Þó svo borðedik sé þynnt ediksýra þá er borðedik samt ætandi og ætti að fara varlega í notkun þess. Vegna sótthreinsandi eiginleika þess er borðedik gott til að drepa til dæmis örverur vegna myglu og sveppagróður til dæmis á flísum inni á baðherberginu eða í gluggakörmum. Sýran í edikinu virkar vel á steinefni og þar með vel á kalk útfellingar á flísum og í sturtunni og baðkarinu. Borðedik er súr lausn og ætti
því að nota gætilega. Betra er að þrífa með mildri sápu, t.d. jurtasápu (Castile sápu), brúnsápu eða uppþvottalegi.
Það var óskemmtilegt að fá símtal í símatíma Leiðbeiningastöðvarinnar frá konu sem notaði eingöngu borðedik til að þrífa í eldhúsinu og skemmdi bæði marmarann á borðplötunni og hvítu háglans innréttinguna sem var öll orðin mött. Þarna hefði hún eingöngu átt að nota milda sápu og heitt vatn.
Sítróna: pH 2.3
Sítrónan er súr lausn eins og borðedikið og gagnast því við þrif á steinefnum eins og kalki á baðherbergjum og sturtuklefum. Sítrónan er oftust notuð við þrif með salti en það er til að fá slípieiginleika saltsins með í þrifin. Sítrónan er líka náttúrulegt bleikiefni og nýtist vel á bletti í ljósum flíkum.
Þú finnur fleiri þrifaráð
á vef Leiðbeiningastöðvarinnar á www.leidbeiningastod.is
Það er snjallt að gefa ársáskrift að Húsfreyjunni. Húsfreyjan er jákvætt og hvetjandi tímarit sem er bæði hluti af menningu og sögu íslenskra kvenna og nútímalegt, fróðlegt og fjölbreytt. Hún er á óskalista margra kvenna sem hafa áhuga á lífsstíl og líðan, handavinnu og matargerð. Í Húsfreyjunni eru fróðleg og gefandi viðtöl við konur víðs vegar að af landinu.
Húsfreyjan kemur út fjórum sinnum á ári; í febrúar, maí, september og nóvember. Er í boði bæði prentuð og heimsend til áskrifenda og rafræn.
Ársáskrift kostar 5.900 kr.
Falleg gjafabréf í boði
Hafið samband við skrifstofu
Kvenfélagasambands Íslands:
• husfreyjan@kvenfelag.is
• Sími 552 7430
www.husfreyjan.is
Myndir: Silla Páls
Kristjánsdóttir -
Texti: Sjöfn
Nú er vorið komið og sumarið á næsta leiti. Þá er ekki seinna vænna en að skella í íslenskar sumarpeysur. Hér koma tvær peysur úr smiðju Sjafnar Kristjánsdóttur.
Gyðjan ber nafn með rentu enda verður maður einstaklega gyðjulegur þegar maður klæðist þessari
peysu – og þá sérstaklega ef hún er í áberandi lit.
Loforð er örlítið þykkari og hlýrri en alls ekki síðri á sumarkvöldum á fróninu fagra.
Báðar peysurnar passa bæði við hversdagslegan klæðnað eins og t.d. gallabuxur, en einnig henta þær
vel yfir fallega sumarkjóla sem við fullkomnum svo með flottum strigaskóm.
Þessar flottu fyrirsætur á myndunum eru þær mæðgur Sjöfn Kristjánsdóttir og Saga Sjafnar.
Efni: Alpaca Wool frá Icewear.
Prjónfesta: 16 lykkjur á prjóna nr. 6 gera 10 cm.
Það sem þarf
• Hringprjónn nr. 5.5 (80/100 cm langur).
• Hringprjónar nr. 6 (40, 80 og 100/120 cm langur).
• Sokkaprjónar nr. 5.5
• Prjónamerki
• Nál til frágangs
Garnmagn
Stærð Alpaca wool
XS 400 g
S 450 g
M 500 g
L 600 g
XL 650 g
2XL 700 g
Peysan er prjónuð ofan frá og niður og í hring með sléttu prjóni og laskútaukningu. Hálslíningin (kraginn) er prjónuð með tvöföldum þræði en restin er prjónuð með einföldum þræði. Hér að neðan koma útskýringar á þeim atriðum sem mikilvæg eru í þessari uppskrift.
Að setja ermalykkjur á hjálparband
Til þess að geyma ermalykkjurnar og aðskilja þær frá bolnum þarf að þræða garnspotta í öðrum lit inn í lykkjurnar. Einnig er hægt að nota hjálparnælur eða lykkjusnúrur í stað bandsins. Hér er hlekkur á þessa aðferð – https://bit.ly/hjalparband.
Að fitja upp nýjar lykkjur í handvegi
Með þessum lykkjum erum við að búa til örlítið meira rými undir höndum. Það er misjafnt hversu margar lykkjur eru fitjaðar upp milli uppskrifta en í þessari uppskrift eru
það 7 lykkjur sitthvorumegin. Hér er hlekkur á þessa aðferð – https://bit.ly/fitjauppihandvegi.
Snúin lykkja
Til þess að fá sléttu lykkjuna snúna í hálsmáli og stroffi þarf að prjóna svona: Prjónið aftan í sléttu lykkjuna í stað þess að prjóna framan í hana – https://bit.ly/snuinslett.
Hálsmál
Fitjið upp 72, 76, 76, 80, 80, 84 lykkjur, með tvöföldum þræði af Alpaca 70, á hringprjón nr. 6 (40 cm langan).
Tengið í hring og prjónið snúna brugðningu (1 snúin sl. og 1 br. lykkja til skiptis) alls 8, 8, 8, 9, 9, 9 cm (eða eftir smekk). Prjónið 1 umferð slétt, með einföldum þræði, og aukið út um 8 lykkjur jafnt yfir umferðina. Nú eiga að vera 80, 84, 84, 88, 88, 92 lykkjur á prjóninum.
Berustykki
Nú þarf að gera ráð fyrir útaukningu vegna laska (skilin milli erma og bols). Útaukningin er laskaútaukning og er aukið út um 16 lykkjur í fjórðu hverri umferð. Umferð 1 (byrjar fyrir miðju að aftan):
1. skref: Prjónið 17, 18, 18, 19, 19, 20 lykkjur slétt (hægri hluti bakstykkis).
2. skref: Setjið prjónamerki nr. 1 upp á prjóninn.
3. skref: Prjónið 5 lykkjur slétt (hægra axlarstykki).
4. skref: Setjið prjónamerki nr. 2 upp á prjóninn.
5. skref: Prjónið 35, 37, 37, 39, 39, 41 lykkjur slétt (framstykki).
6. skref: Setjið prjónamerki nr. 3 upp á prjóninn.
7. skref: Prjónið 5 lykkjur slétt (vinstra axlarstykki).
8. skref: Setjið prjónamerki nr. 4 upp á prjóninn.
9. skref: Prjónið 18, 19, 19, slétt (vinstri hluti bakstykkis). Nú eruð þið komin hring og búin að merkja skilin á milli bols og axla.
Umferð 2 – útaukning: Prjónið þar til 2 lykkjur er eftir að PM 1. Sláið bandinu upp á prjóninn, prjónið aftan í 2 lykkjur saman slétt, takið þær ekki af prjóninum heldur sláið bandinu upp á prjóninn og prjónið aftur aftan í þær saman slétt.
Færið PM 1 yfir á hægri prjón.
Prjónið 2 lykkjur saman slétt (framan í þær og hafið þær áfram á prjóninum), sláið bandinu upp á prjóninn, prjónið 2 lykkjur saman slétt (framan í þær), sláið bandinu upp á prjóninn. Endurtakið við öll fjögur prjónamerkin. Nú er búið að auka út um 16 lykkjur.
Umferð 3, 4 og 5: Prjónið slétt prjón og enga útaukningu.
Endurtakið umferð 2, 3, 4 og 5 þar til þið hafið aukið
út alls 10, 11, 12, 12, 13, 14 sinnum. Á leiðinni niður berustykkið mæli ég með að skipta yfir á lengri prjón.
Fyrst 80 cm og svo 100/120 cm langan. Nú eiga að vera 240, 260, 276, 280, 296, 316 lykkjur á prjóninum. Prjónið 1 umferð í viðbót án útaukninga.
Bolur
Nú þarf að setja ermalykkjur, eða þær lykkjur sem koma yfir upphandlegginn, á hjálparband (það er garn í öðrum lit sem þú þræðir inn í lykkjurnar til þess að geyma þær). Þetta er gert báðum megin.
1. skref: Prjónið slétt að prjónamerki nr. 1 (hægri hluti bakstykkis).
2. skref: Setjið 45, 49, 53, 53, 57, 61 lykkjur á hjálparband/-nælu (hægri ermi).
3. skref: Fitjið upp 5 auka lykkjur (hægri handvegur).
4. skref: Prjónið slétt að prjónamerki nr. 3.
5. skref: Setjið 45, 49, 53, 53, 57, 61 lykkjur á hjálparband/-nælu (vinstri ermi).
6. skref: Fitjið upp 5 auka lykkjur (vinstri handvegur).
7. skref: Prjónið slétt út umferð.
Nú eiga að vera 160, 172, 180, 184, 192, 204 lykkjur á prjóninum (með aukalykkjum í handvegi). Prjónið nú slétt prjón í hring þar til bolur, frá handvegi, mælist 29, 31, 33, 35, 37, 39 cm. Skiptið yfir á hringprjón nr. 5.5 og prjónið
1 umferð slétt til viðbótar. Prjónið svo snúið stroff alls 4, 4, 4, 5, 5, 5 cm. Fellið af með brugðningu – https://bit.ly/ brugdning.
Ermar
Ermin er prjónuð í hring með sléttu prjóni. Færið lykkjurnar, sem þið settuð á hjálparband, yfir á hringprjón nr. 6 (40 cm langan). Þá þræðið þið einfaldlega prjónana inn í lykkjurnar sem eru á bandinu. Einnig þarf að prjóna upp 5 nýjar lykkjur sem fitjaðar voru upp í handvegi - https:// bit.ly/lykkjurhandvegur.
Nú eiga að vera 50, 54, 58, 58, 62, 66 lykkjur á prjónunum. Niður ermina ætlum við að fækka lykkjum. Byrjið á því að prjóna 1.5, 1, 3, 2.5, 2, 1.5 cm án úrtöku. Í næstu umferð prjónið 2 fyrstu lykkjurnar saman slétt og 2 síðustu lykkjurnar saman slétt. Takið úr niður ermina ALLS 9, 10, 12, 11, 12, 13 sinnum með 2.5, 2.5, 2, 2.5, 2.5, 2.5 cm millibili. Eftir úrtöku eiga að vera 32, 34, 34, 36, 38, 40 lykkjur á prjóninum.
Prjónið áfram slétt prjón þar til ermin, frá handvegi, mælist 24, 26, 28, 30, 32, 34 cm. Skiptið yfir á sokkaprjóna nr. 5.5 og prjónið 1 umferð slétt til viðbótar. Prjónið snúið stoff alls 8, 8, 8, 9, 9, 9 cm. Fellið af með brugðningu - https://bit.ly/brugdning.
Frágangur
Felið alla enda og þvoið samkvæmt þvottaleiðbeiningum á garni. Gott er að skola úr henni í volgu vatni (leggja hana í bala) með ullarsápu og leyfa henni að liggja í vatninu í 15 mín. Fjarlægið vatnið úr balanum, leggið peysuna inn í handklæði og labbið ofan á því til að losna við vatnið. Leggið peysuna til á þurrt handklæði og sléttið úr henni. Látið hana þorna.
Efni: 1 þráður af Super frá Icewear og 1 þráður af silk mohair prjónaðir saman.
Prjónfesta: 14 lykkjur á prjóna nr. 7 gera 10 cm.
Það sem þarf
• Hringprjónar nr. 7 (40, 80 og 100 cm langir)
• Hringprjónar nr. 6 (40 og 80 cm langir)
• Nál til frágang
• Prjónamerki
Garnmagn
Stærð Super Silk mohair
XS 400 g 100 g
S 450 g 100 g
M 500 g 125 g
l 600 g 150 g
XL 650 g 150 g
2XL 700 g 150 g
Peysan er prjónuð ofan frá og niður, í hring, með gatamynstri í berustykki. Ermar og bolur er prjónað með sléttu prjóni. Stroff í hálsmáli, ermum og á bol er prjónað með snúnum sléttum lykkjum. Hér að neðan koma útskýringar á þeim atriðum sem mikilvæg eru í þessari uppskrift.
Að taka jafnt úr/auka jafnt út í umferð Hér er hlekkur á þá reiknivél sem ég nota til þess að auka jafnt út/taka jafnt úr í umferð. Increase = útaukning og decrease = úrtaka: https://bit.ly/jafnar
M1R, M1L
Ein góð leið til þess að auka út í prjónlesi, sérstaklega í laskaútaukningu, er að nota aðferð sem er skammstöfuð sem M1R, M1L eða á ensku „make one right, make
one left“. Með því að auka út til vinstri og hægri hallar útaukningin rétt í löskum.
M1R: Bandið á milli lykkna er tekið upp með því að fara með vinstri prjón aftan í bandið og prjóna svo framan í það. Með þessu snýst upp á bandið til hægri.
M1L: Bandið á milli lykkna er tekið upp með því að fara með vinstri prjón framan í bandið og prjóna svo aftan í það. Með þessu snýst upp á bandið til vinstri.
Ef við gerum ekki snúninga á bandið þá myndast göt eins og gatamynstur í löskum. Stundum á það við og er það þá sérstaklega tekið fram í þeirri uppskrift. Hlekkur til útskýringar - https://bit.ly/m1rm1lknit.
Hálsmál
Fitjið upp 64, 64, 68, 68, 72, 72 lykkjur á hringprjón nr. 6 (40 cm langan). Tengið í hring og prjónið snúið stroff (1 lykkja snúin slétt, 1 lykkja brugðin til skiptis - www.bit.do/ snuinlykkja) alls 8 cm. Gott er að merkja upphaf umferðar með prjónamerki.
Skiptið yfir á hringprjón nr. 7 (40 cm langan), prjónið 1 umferð slétt og aukið út um 14, 14, 10, 10, 6, 6 lykkjur jafnt yfir umferðina (sjá nánar fremst í uppskrift). Nú eiga að vera 78 lykkjur á prjóninum í öllum stærðum.
Mynsturmynd fyrir laskmynstur
Slétt prjón
Brugðið prjón
Slá bandinu upp á prjón
Prjónið 2 lykkjur saman brugðnar
Berustykki
Nú þarf að prjóna berustykkið og mynstur í löskum sam kvæmt mynsturmynd hér að ofan. Umferð byrjar fyrir miðju að aftan.
Umferð 1:
1. skref: Prjónið 5 lykkjur slétt (hægri hluti bakstykkis). Setjið prjóna merki nr. 1 upp á prjóninn.
2. skref: Prjónið 13 lykkjur slétt (mynstur í laska). Setjið prjónamerki nr. 2 upp á prjóninn.
3. skref: Prjónið 3 lykkjur slétt stykki). Setjið prjónamerki nr. 3 upp á prjóninn.
4. skref: Prjónið 13 lykkjur slétt (mynstur í laska). Setjið prjónamerki nr. 4 upp á prjóninn.
5. skref: Prjónið 10 lykkjur slétt (framstykki). Setjið prjóna merki nr. 5 upp á prjóninn.
6. skref: Prjónið 13 lykkjur slétt (mynstur í laska). Setjið prjónamerki nr. 6 upp á prjóninn.
7. skref: Prjónið 3 lykkjur slétt (vinstra axlarstykki). Setjið prjónamerki nr. 7 upp á prjóninn.
8. skref: Prjónið 13 lykkjur slétt (mynstur í laska). Setjið prjónamerki nr. 8 upp á prjóninn.
9. skref: Prjónið 5 lykkjur slétt (vinstri hluti bakstykkis).
Umferð 2:
Prjónið slétt prjón og mynstur í laska (13 lykkjur á 4 stöðum) samkvæmt mynsturmynd fremst í uppskrift.
Umferð 3:
Prjónið slétt prjón að prjónamerki nr. 1, aukið út með M1R. Færið prjónamerki nr. 1 yfir á hægri prjón, prjónið 13 lykkjur mynstur, færið prjónamerki nr. 2 yfir á hægri prjón, aukið út með M1L.
Endurtakið hjá öllum löskum, alls 8 auka lykkjur í umferð.
Endurtakið umferð 2 og 3 ásamt því að prjóna samkvæmt mynsturmynd í löskum þar til þið hafið aukið út alls 16, 18, 19, 21, 22, 23 sinnum.
Nú eiga að vera 206, 222, 230, 246, 254, 262 lykkjur á prjóninum.
Bolur
Nú þarf að skipta stykkinu upp í bol og ermar. Nú er mynstri í löskum lokið:
1. skref: Prjónið slétt þar til 3, 2, 2, 1, 1, 1 lykkjur eru eftir að prjónamerki nr. 2 (hægri hluti bakstykkis).
2. skref: Setjið 41, 43, 45, 47, 49, 51 lykkjur á hjálparband/ hjálparnælu - https://bit.ly/hjalparband (hægri ermi).
3. skref: Fitjið upp 5 nýjar lykkjur - https://bit.ly/fitjauppihandvegi (hægri handvegur).
4. skref: Prjónið slétt prjón þar til 3, 2, 2, 1, 1, 1 lykkjur er eftir að prjónamerki nr. 6 (framstykki).
5. skref: Setjið 41, 43, 45, 47, 49, 51 lykkjur á hjálparband/ hjálparnælu (vinstri ermi).
6. skref: Fitjið upp 5 nýjar lykkjur (vinstri handvegur).
7. skref: Prjónið slétt út umferð (vinstri hluti bakstykkis). Nú eiga að vera 134, 146, 150, 162, 166, 170 lykkjur á prjóninum. Ermalykkjur eru komnar á hjálparband/ hjálparnælu.
Prjónið nú slétt prjón þar til bolur, frá handvegi, mælist 28, 30, 32, 34, 36, 38 cm. Skiptið yfir á hringprjón nr. 6 (80/100 cm langan) og prjónið eina umferð slétt. Prjónið svo snúið stroff (1 lykkja snúin slétt og 1 lykkja brugðin til skiptis) alls 5 cm. Fellið af með brugðningu - https:// bit.ly/brugdning. Í affellingu er fallegra að prjóna sléttu lykkjuna snúna.
Ermar
Ermin er prjónuð í hring með sléttu prjóni. Færið ermalykkjur af hjálparbandi og yfir á hringprjón nr. 7 (40 cm langan). Einnig þarf að prjóna upp þessar 5 lykkjur sem fitjaðar voru upp í handvegi - https://bit.ly/lykkjurhandvegur.
Nú eiga að vera 46, 48, 50, 52, 54, 56 lykkjur á prjóninum (með aukalykkjum í handvegi). Niður ermina ætlum við að fækka lykkjum. Byrjið á því að prjóna 4, 3, 4, 1, 2, 3 cm án úrtöku. Í næstu umferð eru 2 fyrstu lykkjurnar í umferð prjónaðar saman slétt og 2 síðustu lykkjurnar í umferð prjónaðar saman slétt. Endurtakið þessa úrtöku niður ermina með 11, 12, 12, 10, 10, 8 cm millibili ALLS 3, 3, 3, 4, 4, 5 sinnum.
Prjónið áfram þar til ermi, frá handvegi, mælist 34, 35, 36, 37, 38, 39 cm. Nú eiga að vera 40, 42, 44, 44, 46, 46 lykkjur á prjóninum. Skiptið yfir á sokkaprjóna nr. 6 og prjónið 1 umferð slétt til viðbótar. Prjónið svo stroff eins og á bol alls 8 cm. Fellið af með brugðningu - https://bit. ly/brugdning.
Frágangur
Gangið frá endum og þvoið peysuna (mæli með köldu skoli og vindu 400-600 snúninga). Leggið til þerris á þurrt handklæði. Látið þorna vel.
Söngkonan Berta Dröfn kann svo sannarlega að lifa lífinu og lætur drauma sína rætast. Reglulega fréttist af henni syngjandi í uppfærslum í New York eða á Ítalíu. Hún er af miklu „matarkyni” komin, er óhrædd við að prófa nýja rétti og slær upp veislu af minnsta tilefni. Milli þess sem hún sinnir gestum Þjóðarbókhlöðunnar stjórnar hún tveimur kvennakórum með bros á vör, Grindavíkurdætrum og Kvennakórnum Hrynjandi. Berta heldur reglulega til Ítalíu, ýmist í tónleikaferðir eða sem leiðsögu-
kona með fróðleiksfúsa ferðamenn. Svanur Vilbergsson gítarleikari stóð þétt við hlið Bertu sinnar við að undirbúa veisluna sem var innblásin af Kosta Ríka mat en þangað fór Berta sautján ára sem skiptinemi og dvaldi í heilt ár. Berta og Svanur verða með tónleika með lögum eftir Sigvalda Kaldalóns í Snjáfjallasetri við Ísafjarðardjúp og í Steinshúsi í sumar. Í haust verða þau m.a. með tónleika í Grindavíkurkirkju og í Tónlistarmiðstöðinni á Eskifirði.
Fordrykkur fyrir 6 manns
2 græn epli
4 stilkar sellerí
5 msk. sykur
2 ½ bolli vatn
6 sjússar gin
Klakar
Setjið öll hráefnin nema ginið og klaka í blandara. Sigtið svo safann í könnu. Setjið klaka og 1 sjúss gin í sex glös og hellið safanum jafnt í þau.
Forréttur fyrir 4-6 manns. Þarf að undirbúa daginn áður.
350 g ýsa
4 lime
½ rauður pipar
¼ laukur
¼ askja af kóríander
½ tsk. salt
200 ml Ginger ale Granatepli - skraut (má sleppa)
Sósa
4 msk. Hellmann’s majónes
2 msk. sítrónusafi
1 tsk. sykur
Skerið fiskinn í teninga. Kreistið lime yfir fiskinn, þannig að safinn hylji hann allann. Skerið piparinn, laukinn og kóríander frekar fínt og hræðið því létt við fiskinn. Saltið. Geymið í lokuðu íláti inní ískáp í allavega 9 klst.
Hellið ginger ale yfir fiskinn þrem klukkustundum áður en rétturinn er borinn fram.
Lokið ílátinu aftur og geymið inn í ísskáp. Stráið granatepli yfir hvern disk rétt áður en rétturinn er borinn fram.
Setjið innihald sósunnar í skál og hrærið saman. Borið fram sér.
Smáréttur fyrir 6 manns
2 Platanos (Grænir stórir bananar. Fást í Hagkaup og Fiska)
3 bollar olía til steikingar
Hitið olíu í litlum potti þar til hún verður mjög heit. Skerið platanos í 6 jafna bita og setjið þá varlega ofan í heita olíuna. Látið þá standa í olíunni í ca 8 mínútur eða þar til þeir eru ljósbrúnir að lit. Lækkið þá hitann undir pottinum, takið bitana upp og setjið á servíettu. Geymið olíuna í
pottinum. Kremjið hvern bita með flötum diski eða glasi. Hitið olíuna upp og setjið bitana aftur í pottinn í ca 3 mínútur.
Tómatsalat
2 tómatar
¼ laukur
Lúka ferskt kóríander
Safi úr ½ lime
1 tsk. tómatsósa
Skerið tómata, lauk og kóríander smátt og blandið saman í skál. Kreistið lime og tómatsósu saman við.
Sterkt lárperumauk
2 lárperur
½ sítróna
1 rauður ferskur pipar
Salt og pipar
Setjið öll hráefnin í blandara og maukið. Salt og pipar eftir smekk.
Fyrir 6 manns
1½ kg ungnauta framfile, skorið í teninga
Marinering
½ bolli Worcestershire-sósa
½ bolli soyjasósa
½ bolli olífuolía
2 msk. Dijon sinnep
7 saxaðir hvítlauksgeirar
2 msk. brúnn sykur (hrásykur)
4 msk. sítrónusafi
2 tsk. basil
2 tsk. oregano
2 tsk. svartur pipar
Blandið marineringunni saman og setjið saman við kjötið í lokuðum poka. Geymið inn í ísskáp í 2-6 klst. Þræðið síðan kjötið upp á grillspjót og grillið.
Grilltími fer eftir smekk.
Kartöflur
1 kg litlar kartöflur
2 msk. ólífuolía
2 tsk. hvítlauksduft
2 tsk. Italian seasoning
2 tsk. cajun seasoning
Salt og pipar
Skerið kartöflurnar í tvennt. Blandið öllum hráefnunum vel saman í skál og setjið svo í airfryer skúffu. Hitið við 200°C í 10 mín.
Hristið til. Setjið aftur inn í airfryer á sama hita í 9 mín.
Melónusalat
½ vatnsmelóna
1 agúrka
30 fersk lauf af myntu
Dressing
2 msk. fíflahunang
(eða annað mjúkt hunang)
2 msk. hreinn lime safi
1 ½ msk. ólífuolía
Smá salt
Skerið salatið og setjið í skál. Blandið dressinguna saman og hellið yfir salatið.
Eftirréttur fyrir 6 manns
Botn
4 eggjahvítur
150 gr. sykur
100 gr. flórsykur
Hrærið eggjahvítu og sykri mjög vel saman í hrærivél. Sigtið flórsykur í skál og bætið við í hrærivélina í skömmtum.
Setjið marensinn í sprautu og dreifið með jöfnu millibili á bökunarpappír. Bakið við 100°C í klukkustund eða þar til hann er orðinn harður.
Toppur
½ l rjómi
500 gr. vanilluskyr
Smartís eða annað skraut á toppinn
Létt þeytið rjómann og blandið skyrinu saman
við. Setjið toppinn með lítilli skeið ofan á marensinn rétt áður en rétturinn er borinn fram.
Skreytið að vild og eftir smekk.
Uppskrift fyrir einn
Brotinn klaki / krap
Grenadine
1 msk. mjólkurduft
Vanilluís kúla
Litlir sykurpúðar (má sleppa)
2 msk. niðursoðin mjólk
Fyllið 1/3 af glasi með brotnum klaka og hellið smá grenadine yfir þannig að hann taki lit. Dreifið mjólkurdufti yfir. Setjið sama magn af brotnum klaka ofan á og bleytið með grenadine. Því næst setjið þið vanillu ískúlu og sykurpúða ofan á. Dreifið niðursoðinni mjólk á toppinn.
S. Eysteinsdóttir er vel þekkt í íslensku listalífi og verk hennar er víða að finna bæði innanlands og utan. Nýverið hlaut hún ,,Eyrarrósina 2023” fyrir menningarstarf sitt í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Eyrarrósin er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins og er samstarfsverkefni Byggðastofnunar, Icelandair og Listahátíðar í Reykjavík. Þessi frjóa listakona er fædd og uppalin á Siglufirði. Hún á tvö félagsheimili þ.e. Freyjulund í Hörgársveit og Alþýðuhúsið á Siglufirði þar sem hún er með heimili, gallerí og vinnustofur auk þess sem hún heldur reglulega hátíðir, gjörninga, alls kyns uppákomur og opnar heimili sitt og vinnustofur fyrir listafólki og gestum. Enda er aldrei lognmolla í kringum þessa einstöku listakonu sem virðist koma ótrúlegustu hlutum í verk og alltaf vera með ótal mörg járn í eldinum.
Uppalin í ævintýraveröld
Að sögn Aðalheiðar var frábært að alast upp á Siglufirði. ,,Þetta var sannkölluð ævintýraveröld, með ótal gömlum verksmiðjum frá síldarárunum og bryggjum út um allt. Þetta var draumaveröld villtra barna. Alls staðar var hægt að rata inn í fjölbreytt ævintýri. Við krakkarnir gátum endalaust verið að sýsla í yfirgefnum verksmiðjum og sjórinn hafði mikið aðdráttarafl. Við byggðum pramma og allskonar fley til að sigla á, sprönguðum með að setja kaðla í löndunarkrana og upp í rjáfur yfirgefinna verksmiðja, svo voru auðvitað skíðin og allt sem tengdist snjónum á veturna.“
Siglufjörður var dálítið einangraður á árum áður, sérstaklega á veturna. Loðnubátar komu þó reglulega til löndunar og aðkomusjómenn komu í land.
Það hefur löngum verið haft á orði að Siglfirðingar hafi verið gestrisnir og góðir heim að sækja. Þrátt fyrir einangrað samfélag unnu íbúar vel úr þeim aðstæðum og voru sjálfum sér nægir með afþreyingu. ,,Hér voru reglulega haldnir hjóna- og paradansleikir, tískusýningar, bingó, spilakvöld og kórastarf. Síðan voru kvikmyndasýningar fjórum sinnum í viku í Nýja bíó svo eitthvað sé nefnt.“
Fótboltinn áhrifavaldur flutninga til Akureyrar
Fótboltinn dró Aðalheiði til Akureyrar þar sem fyrrverandi eiginmaður hennar,
Ómar Guðmundsson, samdi við Þór um að gerast markvörður liðsins. ,,Ég var alveg til í þessa flutninga þar sem ég átti eftir að mennta mig og mér fannst því tilvalið tækifæri að flytjast til Akureyrar til að láta verða af því. Þar hófst myndlistanámið og ég útskrifaðist frá Myndlistarskólanum á Akureyri 1993.
,,Kennararnir mínir á Siglufirði höfðu hvatt mig til að fara í myndlistarnám, en þar sem ég var frekar baldin sem unglingur þá kom það ekki til greina. Ég var 24 ára, tveggja barna móðir þegar ég geng fram á lítið skilti sem á stendur ,,Myndlistarskólinn á Akureyri“. Það er
Texti: Sigríður
Ingvarsdóttir -
Myndir: Silla Páls
skemmst frá því að segja að skiltið vakti athygli mína, ég fór inn til að kanna hvað væri þarna í boði. Þar með var ekki aftur snúið og ég hef unnið að myndlist nánast alla daga síðan.“
Fjárfest í félagsheimilum
Árið 1995 tók Aðalheiður saman við seinni manninn sinn, Jón Laxdal myndlistarmann, en hann lést fyrir einu og hálfu ári. Þau keyptu félagsheimilið Freyjulund í Arnarneshreppi árið 2004 og gerðu það að heimili sínu og vinnustofum.
Árið 2011 festi Aðalheiður síðan kaup
á Alþýðuhúsinu á Siglufirði svo í dag á hún heimili og vinnustofur í tveimur
fyrrverandi félagsheimilum.
Það sem heillar hana sérstaklega við félagsheimilin eru stór salarkynni, mikil lofthæð, stórir gluggar og góð birta. ,,Síðan er að sjálfsögðu afar góður andi í svona félagsheimilum með mikla sögu.
Hér hafa svo margir orðið ástfangnir og margt gengið á.
Aðalheiður heldur þrjár listahátíðir í
Alþýðuhúsinu á hverju ári. LEYSINGAR um páskana, FRJÓ um miðjan júlí
og SKAFL á haustin. Þessar listahátíðir eiga það sammerkt að fjöldinn allur af listafólki tekur þátt í þeim, eða allt frá tíu og upp í fjörutíu listamenn í hverri listahátíð.
Aðalheiður sér um allan und irbúning, framkvæmd og sam band við listamenn en nýtur góðrar aðstoðar fjölskyldu og vina. Í tilefni af 10 ára menn ingarstarfi í Alþýðuhúsinu
á Siglufirði 2012-2022 gaf
Aðalheiður út veglega bók sem skrásetur starfið.
Vinnur með daglegt líf fólks
Í gegnum tíðina hefur Aðal heiður unnið með daglegt líf fólks. Til þess notar hún ýmsa miðla en aðallega timbur og aflagt hráefni. Aðalheiður hefur í gegnum tíðina verið mjög afkastamikill listamaður og víða má finna listaverk eftir hana, s.s. á opinberum stofnunum hér á landi, á einkaheimilum en einnig víðsvegar út um heim.
Að sögn Aðalheiðar finnst henni alltaf skemmtilegast að vinna að því verki sem hún er að vinna að hverju sinni. ,,Ég útskrifaðist sem málari úr myndlistarskólanum og hef alla tíð haldið áfram að mála í ýmsum tilbrigðum. Ég hef einnig gert teikningar, grafík, gjörninga, hljóðverk og stórar innsetningar þar sem ég notast jafnvel við alla þessa tækni í bland við skúlptúra og lágmyndir.“
Aðalheiður var ein af þeim sem byggðu upp listagilið á Akureyri og Verksmiðjuna á Hjalteyri. Síðan byggði hún upp starfsemina í Alþýðuhúsinu á Siglufirði sem smitast svo sannarlega út í samfélagið. Þar er það í þriðja skipti sem hún fer af stað með menningaruppbyggingu og menningarmiðlun. Í þetta skiptið á heimili sínu sem er jafnframt vinnustofa, gallerí og viðburðasalur.
Afmælis uppákomur
Aðalheiður hefur haldið sérstaklega upp á stórafmælin sín. Í tilefni af fertugsafmæli sínu hélt hún 40 sýningar í 14 löndum á 40 Í tilefni af tugsafmælinu hélt 50 sýningar á 5 árum í 5 löndum.
Þann 23. júní í ár verður Aðalheiður 60 ára og ætlar að fagna sextugsafmæl inu með verkefninu ,,60 staðir á 6 dögum“. Þá verða fluttir 10 gjörningar á hverjum degi hringinn í kringum landið. En í bígerð er rútuferðalag með fjölskyldu og vinum og settir upp gjörningar, ýmist á fjölförnum ferðamannastöðum eða listasöfnum. Gjörningaverkefnið stendur yfir frá 22. – 27. Júní og verður auglýst opinberlega þannig að áhugasamir geta fylgst með, komið á einstaka uppákomur eða jafnvel fylgt allan hringinn.
Listræn fjölskylda
Móðir Aðalheiðar, Arnfinna Björnsdóttir, hefur alla tíð verið mikil handverkskona. Hún fór í seinni tíð að gera klippimyndir þ.e. stemmur frá Síldarævintýrinu, sem hafa notið verðskuldaðrar athygli. Þrátt fyrir að hún hafi orðið áttræð á sl. ári er hún enn að. Listræna hugsun telur Aðalheiður að hún hafi þó allt eins fengið frá föður sinum Eysteini Aðalsteinssyni fyrrum fisksala á Siglufirði.
,,Ég á þrjú börn auk eins fylgifisks frá Jóni. Elsta barnið, Þórey Ómarsdóttir, fæst við söng og skrif, sá næsti, Arnar Ómarsson, er sjálfstætt starfandi myndlistarmaður og er með fyrirtæki í Danmörku, Quad studio, sem sérhæfir sig í þrívíddarsköpun. Brák Jónsdóttir er sjálfstætt starfandi myndlistarmaður. Valgerður Dögg Oddudóttir Jónsdóttir er heimspekimenntuð og kennari við Verkmenntaskólann á Akureyri. Auk þess á Aðalheiður 5 ömmubörn og tvo tengdasyni.
Lífsklukkan ræður för ,,Það er dálítið gott að finna það að hver og ein manneskja getur að miklu leyti ráðið því hvernig hið daglega líf
er. Auðvitað er ýmislegt utanaðkomandi sem setur fólki skorður en það sem skiptir máli er hvernig þú tekur því sem lífið býður upp á. Sjálf hef ég unnið markvisst að því að hreinsa álagsþætti út úr lífinu og það er mikill léttir. Ég er einnig alltaf að gera mér betur grein fyrir hve tíminn er dýrmætur. Það eru forréttindi að geta unnið eingöngu að listinni og sínum hugðarefnum. Þegar ég er ekki bundin verkefnum, sem tengjast stofnunum eða öðrum persónum, leyfi ég lífsklukkunni að ráða för, ég vakna við fyrstu dagsog fer að sofa þegar mér sjálfri hentar.
Það er gulls ígildi að þekkja gott og frjótt fólk. Ég er búin að standa í þessu í 30 ár og á þeim tíma kynnst ótrúlega áhugaverðu fólki alls staðar að úr heiminum, sem oft á tíðum kemur í Alþýðuhúsið til að framkalla list sína. Bæjarbúar og aðrir gestir njóta því góðs
af uppákomunum. Það hefur sýnt sig að það vill enginn búa í menningarsnauðu samfélagi. Menning er aðlaðandi og hún skorar mjög hátt þegar fólk velur sér framtíðarbúsetu og staði til að heimsækja.
Ég hef búið mér ævintýralegt líf hér í Alþýðuhúsinu á Siglufirði og Freyjulundi í Hörgársveit, þar sem hver dagur býður upp á ólíka viðburði, heimsóknir og upplifanir.“
Núþegar vor er í lofti og sólin birtist
æ oftar hugsa margir til garðanna sinna og hvernig eigi að koma sér upp fallegum gróðurreitum í kringum heimilið eða sumarbústaðinn. Eins vilja einstaklingar fá ráðleggingar varðandi fjölærar plöntur, hvað þurfi að hafa í huga þegar garðurinn er skipulagður og hvað sé best að gera á hverjum árstíma varðandi plöntur og garðverk.
Sigríður Embla Heiðmarsdóttir er garðyrkjufræðingur og ráðgjafi í fjölærum gróðurlausnum. Hún kláraði BSpróf í umhverfisskipulagi, sem heitir nú landslagsarkitektúr, frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og skrifaði lokaritgerð sína um fjölæringa. Hún rekur ráðgjafa- og verktakaþjónustuna Garðalíf Emblu og heldur úti fésbókarsíðu með sama nafni.
Að sögn Sigríðar Emblu, sem oftast er kölluð Embla, langaði hana helst að finna atvinnu þar sem náttúra og hönnun kæmi saman og því lá leið hennar í Umhverfisskipulag á Hvanneyri. Meðfram námi vann hún í gróðrarstöð og þá segist hún fyrst hafa fundið hversu vel henni leið í útivinnu umkringd gróðri. Sem sölumaður þar fann hún fljótt hversu gaman það var að finna plöntur sem henta ólíkum þörfum og skemmtilegast ef hægt var að vekja áhuga fólks á plöntum.
Embla er sérstaklega hrifin af fjölæringum. Að hennar sögn var hún svo heppin að fá kennara á Hvanneyri sem hafði einnig áhuga á fjölæringum og fræddi hana um vaxandi áherslu á fjölæringa í nágrannalöndum okkar. Það varð til þess að BS-ritgerðin hennar
fjallaði um fjölæringanotkun bæði hér og erlendis. Kostir fjölæringa eru margir. Þeir eru fljótari að ná sinni hefðbundnu stærð en tré og runnar, blóm þeirra og blöð eru áberandi og með því að velja rétt í beð verða þau blómleg frá vori og fram á haust. Þeir vaxa á ólíkan hátt og þannig er hægt að velja tegundir við mjög misjafnar aðstæður, en það krefst þess að fólk þekki þá vel og hvernig þeir virka. Þessir eiginleikar gefa þeim heilmikinn karakter sem Emblu langar til að kynna fyrir öðrum.
Garðalíf Emblu
Embla á og rekur fyrirtækið Garðalíf Emblu. Hún hefur síðastliðin ár haldið fyrirlestra, námskeið og gestakennslu um notkun fjölæringa. Eftir slíka fyrirlestra hefur hún fengið nokkur verkefni í einkagörðum þar sem viðskiptavinir vilja bæta fjölæringum í stór runnabeð. Þá hannar hún beðin með núverandi gróðri
og bætir fjölbreyttum fjölæringum við til að mynda blómskrúðugt beð sem hylur að lokum moldina.
Embla segist síðan oft heyra í fólki sem vantar aðstoð á vormánuðum, þá fyrst til að klippa runna og svo síðar varðandi umhirðu og hreinsun þegar arfinn er farinn að ná sér á strik. Þá getur hún hreinsað garðinn í fyrstu umferð og garðeigendur ná síðan sjálfir að halda beðunum hreinum út sumarið. Þetta finnst henni góð leið til að mæta viðskiptavinum sínum. „Létt garðvinna hressir okkur bæði á líkama og sál og með því að fá mig til að hreinsa fyrst þegar arfinn er sem mestur geta fleiri notið þess að staldra við í garðinum og hirða um hann út sumarið,“ segir Embla.
Embla hefur einnig hannað skipulag og plantað fjölæringum í beð hjá nokkrum bæjarfélögum, svo sem í Hljómskálagarðinum, í Hveragerði og víða í Kópavogi.
,,Þessi endalausa árátta mín á að upplýsa fólk um snilli fjölæringa varð til þess að ég setti upp heimasíðu, facebook og instagram fyrir Garðalíf Emblu. Þá gat ég hlíft vinum mín um við þessari fræðslu ef áhugi þeirra var lítill. Þessir miðlar gefa mér góðan byr og þar sé ég áhuga fólks á fjölæringum og á mínum verkefnum. Fyrir það er ég mjög þakklát.“
Garðyrkjudagatal Embla segir að hugmynd sín um garðyrkjudagatal hafi lengi blundað í henni. Sú árátta að verða að skipuleggja sína eigin garðyrkju í þaula varð til þess að hrinda hugmyndinni af stað og leyfa síðan fleirum að njóta. Margir búa svo vel að eiga garðpart en víða skortir aðdráttarafl eftir smekk eigandans. ,,Mín reynsla er að fólk vill almennt nýta garðana sína en fallist hendur yfir öllum verkefnunum sem þarf að vinna. Ég hef trú á að garðyrkjudagatalið mitt geti hjálpað slíku fólki að finna sinn stíl af garði og ná betri yfirsýn yfir garðverkin. Dagatalið hentar líka þeim sem vilja njóta náttúrunnar þrátt fyrir garðleysi, því við getum öll notið útivistar og gróðurs án þess að eiga plöntur,“ segir Embla.
frá vori til hausts
Að blómstra frá vori og fram á haust er eiginleiki sem fjölæringar hafa ekki. Þeir geta sumir hverjir blómstrað oftar en einu sinni og jafnvel lengi í einu. Til að eiga fallegan garð þarftu að eiga nokkrar tegundir og velja þær sem blómstra á ólíkum tímum við sömu aðstæður. Sem dæmi má nefna að kúlulykill fer að blómstra núna og eftir hann koma lyfjajurt, gullhnappur og silfursóley, næst blómstra ólíkar tegundir blágresa og sveipstjörnur. Í júlí ná fingurbjargarblóm, eldlilja og bóndarós athygli okkar og svo eru meyjarskjöldur, prestabrá og venusvagn í blóma snemma
hausts. Ilmgresi og indíasnót sýna haustliti sína í september og þá taka sígrænu tegundirnar við; postulínsblóm og vetrarneisti. Þetta eru einungis fjölæringar sem hér hafa verið taldir upp, en auðvitað verða beðin enn fallegri með því að blanda vel völdum runnum við.
Trjáklippingar skulu gerðar eftir áramót og fram að laufgun í apríl/maí. Síðan skal sá fræjum í mars og apríl. Gott er að klippa allt dautt af fjölæringum í apríl og gefa öllum beðum áburð. Niðurplöntun nýrra plantna er í lok maí. Ekki gleyma að nýta allar matjurtir garðsins, rífa rabarbara og klippa af graslauk reglulega frá maí til júlí. Að sumri skal hreinsa arfa reglulega og klippa burt dauð blóm af sumarblómum og fjölæringum svo blómstrun haldist lengur. Í júní og fram í ágúst skaltu fylgjast með blómunum, þau blóm sem sá sér um garðinn er hægt að klippa burt fyrir sáningu og halda þeim þannig niðri. Afklippurnar má endurnýta í blómvönd. Ekki gleyma að reyta arfa fram í september svo arfinn nái aldrei yfirhöndinni. Haustlauka er best að setja niður í október.
Uppáhaldsplöntur
Aðspurð um uppáhaldsplönturnar sínar svarar Embla því til að þær séu ósköp margar en hún nefnir fimm.
Meyjarskjöldur
(Ligularia dentata) hefur dökkrauð blöð og fær svo dökkgul blóm á haustin. Hún grípur stöðugt augað með sínum stóru blöðum og rauða lit.
Goðalykill (Dodecatheon meadia) myndar fallega lágvaxna græna breiðu og fær óvenjuleg og áberandi bleik blóm á háum stilklum. Plantan er ekki mjög há-
vaxin en gleður augað þegar hún byrjar að blómstra í júlí.
Brúngresi (Geranium phaeum) á fullt af fallegum frændum í blágresisfjölskyldunni en ólíkt þeim fær brúngresið svo áberandi brúnt munstur í hverju blaði. Þótt blöðin séu í raun nóg blómstrar hún líka vínrauðum blómum og endurnýjar blómin sín lengi áður en hún hættir alveg.
Rottueyra (Cerastium biebersteinii) er jarðlæg gráblaða planta, hún skríður áfram, sem Emblu finnst kostur, því þá þekur hún beð og jafnvel hangir tignarlega fram af grjóti. Hún blómstrar mörgum hvítum blómum.
Postulínsblóm (Saxifraga x urbium) ættu flestir að þekkja, mögnuð planta með sígræn blöð, hún er mjög lágvaxin og lokar fyrir jarðveginn. Hún þolir ágætlega bæði skugga og sól. Síðan blómstrar hún fíngerðum og mörgum hvítum blómum á háum stilkum.
Blóm sem gleðja garðgesti
Hægt er að ganga beint suður frá Hljómskálanum og þegar komið er að stígamótum eru stór fjölæringabeð beggja vegna stígsins. Embla fékk það verkefni að fylla þessi beð af fjölbreyttu úrvali fjölæringa. Þótt garðurinn sé alger perla er bæði nokkuð rakur jarðvegur þar og nokkuð hvasst sérstaklega á veturna. ,,Ég valdi 15 tegundir fjölæringa sem blómstra ólíkum litum á ólíkum tíma að sumri. Þar sem beðin eru tvö beggja megin stígsins fannst mér gott að hafa speglun á beðunum og endurtaka sömu tegundirnar tvisvar til fjórum sinnum í hvoru beði fyrir sig. Ég vildi að gróskan byði upp á ný blóm reglulega. Það myndi gleðja garðgesti og vonandi hvetja þá til að heimsækja garðinn oft yfir sumarið.“
Þegar vorar leitum við mun meira út í náttúruna og það, að taka góða göngutúra í góða veðrinu, er gott bæði fyrir líkama og sál. En það er ekki síðra að nota náttúruleg innihaldsefni beint á kroppinn og andlitið. Það sem við eigum til í eldhússkápunum eru oft bestu húðvörurnar sem til eru. Þegar öllu er á botninn hvolft, ef þau eru góð fyrir líkamann þinn þegar þau eru borðuð, eru þau líka góð þegar þau eru borin á húðina! Flestar bestu húðvörur á markaðnum státa sig af því að nota náttúruleg hráefni. Hér skoðum við átta náttúrulegar húðvörur sem þú getur gripið úr eldhúsinu.
Grænt te Heilsuávinningurinn af því að drekka grænt te er ekkert leyndarmál. Það er sagt hafa róandi áhrif á hugann og gott fyrir líkamann. Grænt te getur líka gert kraftaverk við augnpokum. Frystu einfaldlega tepokana eftir að þú hefur fengið þér bolla og settu þá á augun í að minnsta kosti 30 mínútur. Þú getur líka bætt smá af grænu tei við rakakremið þitt og nuddað því inn í húðina. Þar sem það inniheldur pólýfenól getur það verndað húðina gegn UV skemmdum og varðveitt mýkt hennar. Frábært innihaldsefni til að nota ef þú vilt halda húðinni þinni unglegri.
Hafrar
Næstum allir eiga hafrakassa í eldhússkápnum. Góðu fréttirnar eru þær að þú getur nýtt hafra til að hjálpa húðinni að ljóma! Hafrar hafa bólgueyðandi eiginleika og eru góðir til að róa þurra húð. Þeir eru líka góðir sem mjúkir andlitsskrúbbar - fullkomnir fyrir þá sem eru með viðkvæma húð. Blandið höfrunum saman við vatn og berið á andlitið og hálsinn í 10-15 mínútur áður en það er þvegið af.
Þú getur líka bætt við hunangi ef þú ert með einhver útbrot.
Hunang er ekki bara gott á bragðið heldur er það sagt eitt öflugasta lækningaefni náttúrunnar. Það er sérstaklega gagnlegt við unglingabólum eða tilviljunarkenndum útbrotum, vegna bakteríudrepandi efnanna sem eru í hunangi. Auk þess inniheldur það glýkólsýru, sem gerir það líka að mildum andlitsskrúbbi. Allt eru þetta frábær innihaldsefni fyrir andlitsmaska! Þú getur sameinað hunang með öðrum innihaldsefnum til að fá sem mest út úr maskanum þínum. Til dæmis munu eggjahvítur losa þig við fílapensla, avókadó gefur húðinni raka og kanill gerir fínar línur minna sýnilegar.
Eplaedik
Eplaedik, sem gott er að nota sem andlitsvatn, er afar einfalt að útbúa. Blandaðu 1 hluta af ediki í 2 hluta vatns fyrir venjulega til þurra húð, eða jöfnum hlutum af ediki og vatni fyrir feita húð. Berið það á með hreinni bómull eftir að hafa þvegið andlitið. Þú getur líka bætt ilmkjarnaolíum við þessa blöndu. Lavender er til dæmis mjög góð- en ekki hika við að nota þína uppáhalds.
Matarsódi
Mjólk
Mjólk er góð leið til að mýkja þreyttar hendur. Mjólkin bæði róar og gefur húðinni raka. Helltu einfaldlega nægri nýmjólk
í skál svo þú getir sett báðar hendur ofan í . Settu svo mjólkina í örbylgjuofninn eða pott til að hita hana, ekki sjóða. Leggðu hendurnar í bleyti í 5-10 mínútur – fitan og vítamínin úr mjólkinni gefa raka og næra húðina.
Kókosolía
Kókosolía er ótrúlega fjölhæft innihaldsefni, ekki aðeins í matreiðslu heldur einnig sem náttúruleg húðvara. Þú getur notað hana sem rakakrem eftir sturtu bæði fyrir andlit og líkama. Þú getur notað kókosolíu til að næra þurr naglabönd með því að nudda smá á hverja nögl. Kókosolía er líka góð á varirnar sem náttúrulegur varasalvi
Matarsódi hjálpar til við að losa dauða húð og er frábær fyrir fótsnyrtinguna heima. Bætið ½ bolla af matarsóda við hverja 3,5 lítra af vatni í bala og hrærið þar til það er alveg uppleyst. Síðan skaltu halla þér aftur og slaka á með fætur ofaní í 30 mínútur. Mundu að bera á þig rakakrem á eftir!
Annar ávinningur af matarsóda er að hann gleypir nánast allt sem hann kemst í snertingu við. Þess vegna er hann frábær í ísskápinn og þvottinn fyrir ferska lykt. Þessi blanda er því frábær leið til að halda fótunum ferskum.
Ólífuolía
Önnur olía sem er ljúffeng í matreiðslu og holl fyrir húðina! Ólífuolía hefur lengi verið notuð sem náttúruleg húðvara – sagt er að Kleópatra hafi notað hana. Einómettuðu fitusýrurnar sem hún er gerð úr eru sérstaklega gagnlegar fyrir þá sem eru með þurra húð. Þetta þýðir að ólífuolían er ótrúlega rakagefandi og nærandi. Ólífuolía hefur einnig verndandi áhrif gegn UV geislum þar sem hún er rík af andoxunarefnum.
Texti: Eva Björk Harðardótti rMyndir: Úr einkasafni
Mérhlotnaðist sá heiður að fá að vera fulltrúi Kvenfélagasambandsins í sendinefnd Íslands á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna 5. mars sl. í New York (CSW67), sveitastelpu úr Landbroti. Sendinefndin frá Íslandi samanstóð af um 50 manns, aðallega konum bæði úr stjórnmálunum, stjórnsýslunni og frjálsum félagasamtökum sem eiga það sameiginlegt að vinna fyrir konur og jaðarhópa, berjast fyrir jafnrétti og sanngjarnara samfélagi.
Forsætisráðuneytið stóð fyrir undirbúningnum með forsætisráðherrann okkar, Katrínu Jakobsdóttur í broddi fylkingar. Stolt allan tímann að eiga þvílíka forystu og fyrirmynd fyrir dætur okkar og syni. Hún talaði tæpitungulaust um stöðuna og áskoranirnar framundan. Þótt við á Íslandi séum betur stödd en flestar þjóðir þegar kemur að jafnrétti, þá örlaði ekki á grænþvotti í hennar ræðu. Fjölmargar áskoranir eru framundan og víða eigum við langt í land þegar kemur að jafnrétti kynjanna og jaðarsettra hópa. Á fundi sem kallaðist “Push back the pushback” þar sem Katrín var í panel ásamt öðrum ráðherrum Norðurlandanna, voru m.a. rædd viðbrögð ríkjanna við bakslagi því sem við höfum orðið vör við í jafnrétti kynjanna á heimsvísu. Eftir því var tekið hve stuttur viðbragðstími þessara lýðræðisríkja var við nýjum áskorunum og hve fljótt var brugðist við með lagabreytingum og aðgerðum á vegum hins opinbera til að stemma stigu við nýrri tegund ofbeldis sem á sér stað í netheimum.
Fjölmargir fundir voru haldnir samtímis í hinum ótalmörgu salarkynnum
Sameinuðu þjóðanna svo oft var úr
vöndu að ráða hvaða fundir yrðu fyrir valinu hverju sinni. Dagana nýtti ég eins vel og ég gat en lét viðburði og fundi þar sem við frá Íslandi áttum hlutverk í fyrirspurnum eða framsögn ganga fyrir.
Nýr veruleiki kemur harkalega
í hausinn á okkur
Þema þingsins var svolítið hvernig fjórða iðnbyltingin, netvæðingin hefur haft
áhrif á jafnréttisbaráttuna og hvaða ráðstafana er verið að grípa til víða um heim til að rétta hlut kvenna og jaðarsettra hópa í nýjum veruleika þar sem
netheimar virðast veita ofbeldismönnum nýjan vettvang og ný vopn í hendurnar til að beita fórnarlömb sín ofbeldi, ná til sífellt yngri stúlkna og einnig vettvang til að hittast á og bera saman bækur sínar, jafnvel hjálpast að og veita hvor öðrum stuðning. Þessi nýi veruleiki er að koma harkalega í hausinn á okkur. Við eigum ekki löggjöf sem dugir til að koma í veg fyrir eða taka á misnotkun og kúgun á þessum vettvangi netheima. Hann er aðgengilegur öllum og ótrúlega flókið að vernda börnin okkar fyrir þeim hættum sem leynast í sakleysislegum leikjum og
öppum sem hver og einn getur náð í. Fyrir nokkrum árum nægði að slökkva á netinu á kvöldin og þar með var heimilisfólkið komið í var. Í dag er netið allt umlykjandi og sefur aldrei, sem þýðir stanslaust áreiti og aðgengi.
Á sama tíma og netið stuðlar að jafnrétti til náms og færir okkur alls kyns tækifæri sem gerir okkur kleift að vinna saman óháð staðsetningu og upplýsir okkur jafnóðum um óréttlæti og ofbeldi víða um heim er það staðreynd að við tæknigeirann starfa ennþá tvöfalt fleiri karlmenn en konur. Það er ekki að hjálpa til heldur að við gervigreind starfa fimmfalt fleiri karlmenn en konur. Þessi nýja tækni sem komin er inn á öll heimili í hinum vestræna heimi er að mestu leyti hönnuð af karlmönnum fyrir karlmenn. Því miður var það svo að löggjöfin tók ekki að breytast í jafnréttisátt
á Íslandi fyrr en konum fjölgaði á þingi. Því þurfum við að vinna markvisst að því að fjölga konum í tækniheiminum, bæði í námi og störfum.
Raddir þriðja heims ríkja
Á þinginu komu skýrt fram raddir þriðja heims ríkjanna, þær minntu okkur á þann veruleika sem þær búa við, að vera enn í þeirri stöðu að þurfa að berjast fyrir rennandi vatni. Rafmagn í hugum margra er lúxus og internetið fjarlægur draumur.
Að við minnumst ekki á stöðu kvenna í Afganistan eða Íran í dag, þar sem konur eiga hvorki líf né framtíð. Eru aðeins útungunarvélar og eign karlmannsins. Þær biðja okkur um eitt. Að við gleymum þeim ekki. Þetta er meðal annars ástæða þess að nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt fyrir konur að hafa samtök sem svo aftur eru hluti af stærri samtökum. Samtakamáttur kvenna hefur komið okkur þangað sem við erum í dag.
Hér áður fyrr þurfti ekki stjórnvöld til að huga að mjúku málunum. Formæður okkar voru heima við, sinntu börnum og öldruðum, sáu um sjúka og þá sem minna máttu sín. Það gerðu þær svo lítið
bar á ásamt því að halda heimili. Það var enginn sem rétti þeim jafnrétti, þær urðu að sækja það sjálfar og sækja það hart. Ef konur og kvenfélög hefðu ekki staðið að stofnun leikskóla og þannig gert konum kleift að fara út á vinnumarkaðinn væru þær kannski í annarri stöðu en þær eru í dag. Kvenfélög hafa á síðustu öld átt stóran þátt í að byggja upp velferðarkerfi landsins eins og það er í dag. Þau hafa stutt við byggingu dvalarheimila og sjúkrahúsa, hlúð að leikskólum, grunnskólum og kirkjum landsins ásamt því að halda að stórum hluta uppi menningarlífi heilu byggðarlaganna.
Ég hef ávallt verið stolt af því að vera kvenfélagskona en aldrei eins og eftir þetta þing. Baráttan fyrir jafnrétti og sanngjarnara samfélagi fer nefnilega að stórum hluta fram í grasrótinni, þar sem við gefum af okkur. Bíðum ekki í 300 ár eftir að jafnrétti kynjanna nái fram að ganga. Verum breytingin sem dætur okkar og afkomendur þurfa á að halda í framtíðinni.
krossgátur © Húsfreyjan ÁLEIÐIS RENNINGI VÍNIÐ SAMSNÚIN TÓBAKSBLÖÐ GANGFLÖT NÖGL Frístundar krossgátur © Húsfreyjan SNEMMA HÁHYRNING LÍFLÁTIÐ TUNGUMÁL KJAFTAR
Lausnarorð berist útgefanda fyrir 5. ágúst nk. merkt KROSSGÁTA. Verðlaun: Vegur mannsins frá Sæmundi, Flest öðlumst við einungis endrum og sinnum meðvitund um þann sannleika að við höfum aldrei notið tilverunnar í fyllingu sinni, að líf okkar á ekki hlutdeild í sannri og uppfylltri tilveru heldur fer fram hjá henni eins og hún er í raun og veru. Sjálfshjálparrit eftir Martin Buber. Íslensk þýðing: Torfi Jónsson. Fræðabálkur að ferðalokum frá Sæmundi, Í þessari bók rekur fræðaþulurinn Þórður Tómasson í Skógum meðal annars gamalt orðafar um raddfæri og málfar, geð- og skapbrigði, svefn og svefnhætti. Fjallar um lækningajurtir og matargerð fyrri alda. Þetta er síðasta bókin sem Þórður gekk sjálfur frá. Júnkerinn af Bræðratungu frá Sæmundi, Sjálfsævisaga Páls Skúlasonar. Páll var ritstjóri og lögfræðingur og þekktur maður jafnt á öldurhúsum, bókasöfnum og réttarsölum Reykjavíkurborgar. Við ævilok lét Páll eftir sig sjálfsævisögu þar sem hann segir af hógværð og hispursleysi frá lífi sínu. Lausnarorð í 1. tbl: Árabátur. Vinningshafar: Brynja Bergsveinsdóttir, Hvolsvelli fær; Skáld Rósa frá Sæmundi. Halldóra B. Ragnarsdóttir Reykjavík fær; Álfadalur frá Sæmundi. Aneta Cwiklinska, Neskaupstað fær; Þriðja kver um kerskni og heimsósóma frá Sæmundi. Verðlaun hafa verið send til vinningshafa.
er yndislegt að borða úti og eiga notalega stund með fjölskyldu eða vinum. Það er bæði einfalt og fljótlegt að útbúa allskonar girnileg salöt. Salöt henta einstaklega vel þegar á að bjóða upp á máltíðir úti við, því þau eru borin fram köld. Salöt eru auk þess bráðholl og falleg á borði. Hér er gefin uppskrift af gómsætu rækjusalati ásamt dressingu, sem hentar bæði vel, bæði sem forréttur og aðalréttur. Hlutföllinn af þeim hráefnum sem fara í salatið fara eftir smekk hvers og eins og auðvelt er að skipta út einu hráefni fyrir annað, allt eftir því hvað til er í ísskápnum eða eftir því hvað fólki finnst bragðast vel. Gott er að bjóða upp á heitt hvítlauksbrauð með salatinu.
Hráefni:
Góðar rækjur
Sítróna
Engiferrót
Gott grænt salat eftir smekk
Soðin egg
Tómatar
Mangó
Ananas
Kirsuberjatómatar
Gúrka
Paprika
Avocado Fetaostur
Aðferð: Kreistið ferskan sítrónusafa yfir rækjurnar og blandið saman ásamt smá bút af rifinni engiferrót. Salati raðað á fallegt fat, rækjum og grænmeti raðað þar ofan á. Skreytt með soðnum eggjum og sítrónubátum.
Dressing:
1 dl sýrður rjómi
1 dl majones
1 dl þeyttur rjómi
3-4 greinar ferskt koriander smátt saxaðar
2-3 msk. sweet relish
1 tsk. dijon sinnep
2 msk. sítrónusafi
Salt og sítrónupipar eftir smekk