Húsfreyjan 1. tbl 2023

Page 1

Raðfrumkvöðull með deilieldhús

Viltu finna milljón?

Drífandi daladísir

Konur í orkumálum

Hinar fimm fræknu á Skagaströnd

Páskadögurður Árdísar

Prjónauppskriftir

HEIMSMEISTARI OG

KVENFÉLAGSKONA

Katrín Tanja Davíðsdóttir

97 70018 79800 8 01 ISSN 0018-7984

Ævintýri

Glæsileg ný prjónabók eftir Védísi Jónsdóttur

42

EFNISYFIRLIT

5 Leiðari Húsfreyjunnar Kvenfélagskonan

Sigríður Ingvarsdóttir ritstjóri

6

12

Viðtal Heimsmeistari og kvenfélagskona

Viðtal við Katrínu Tönju Davíðsdóttur

Frumkvöðlastarfsemi

Raðfrumkvöðull, ævintýrmanneskja, bókhaldsnörd og kvenfélagskona

Viðtal við Evu Michelsen

15 Smásagan Sunnudagur

Höfundur: Eygló Ida Gunnarsdóttir

16

Kvenfélagið Hjálpin í Eyjafjarðarsveit Drífandi daladísir

Lilja Sverrisdóttir

26

Kvenfélagið Eining Skagaströnd Hinar fimm fræknu

Guðný Nanna Þórsdóttir

19

Kvennasamtök

Konur í orkumálum

Hildur Harðardóttir

22

Kvenfélagið Iðunn í Eyjafjarðarsveit

90 ára afmæli fagnað

Hrönn Arnheiður Björnsdóttir

Kvenfélagasamband Íslands

28

Hannyrðahornið Hlýjar flíkur fyrir öll kyn Sjöfn Kristjánsdóttir

35 Hönnun

Fer ótroðnar slóðir í prjónahönnun

Auður Björt Skúladóttir

38 Matarþáttur Húsfreyjunnar Páskadögurður Árdísar

Albert Eiríksson

45 Leiðbeiningastöð heimilanna Algeng vandamál í þvottavélum

Jenný Jóakimsdóttir

48 Fjármál Viltu finna milljón?

Hrefna Björk Sverrisdóttir

50 Krossgátan Frístund

24

Sterk staða kvenfélaga

Dagmar Elín Sigurðardóttir forseti KÍ 24

25

Kvenfélagasamband Íslands

Formannaráðsfundur KÍ

Jenný Jóakimsdóttir

Kvenfélagasamband Íslands

Jólafundur á Hallveigarstöðum

Jenný Jóakimsdóttir

tbl. 2023

51 Atvinnurekstur Kokkurinn í Klukkublómi

Þórdís Dögg Auðunsdóttir

3 Húsfreyjan 1.

OSTASALAT

Góðar hugmyndir að saumaklúbbsréttum

á gottimatinn.is

H ÚSFREYJUNNAR

Kvenfélagskonan

Kvenfélagasamband

Íslands var stofnað 1. febrúar árið 1930, til að kvenfélög landsins ættu sér ákveðinn samstarfsvettvang. Árið 2010 var stofndagurinn 1. febrúar formlega nefndur ,,Dagur kvenfélagskonunnar“ til að vekja athygli á því mikla og óeigingjarna starfi sem kvenfélagskonur um allt land hafa sinnt í gegnum árin. Dagurinn hefur fest sig í sessi á undanförnum árum og er það vel.

Í gegnum árin hafa kvenfélagskonur lagt á sig ómetanleg störf til að bæta samfélagið okkar. Þær hafa sinnt fórnfúsu starfi til að koma góðum málum til leiðar. Með elju, útsjónarsemi, áhuga og eftirfylgni hafa kvenfélög landsins komið að ótal söfnunum fyrir tækjum, búnaði og fjármagni til að styðja við hin ýmsu góðgerðarsamtök, stofnanir og einstaklinga ásamt því að leggja hönd á plóg varðandi fjölmörg samfélagsverkefni.

Febrúarblað Húsfreyjunnar hefur gjarnan verið tileinkað kvenfélagskonum og er hér engin breyting á, enda tímaritið blað Kvenfélagasambands Íslands. Markmið Kvenfélagasambandsins er m.a. að hvetja konur til áhrifa í þjóðfélaginu, vinna að jafnréttismálum, stuðla að hag heimilanna og styðja við mál sem efla vináttu og frið. Þessi markmið eiga svo sannarlega enn sitt erindi við okkur í dag, ekki síður en þegar Kvenfélagasambandið var stofnað fyrir 93 árum.

Markmiðin mikilvæg

Við þurfum enn á því að halda að hvetja konur til áhrifa í þjóðfélaginu þegar hallar t.d. enn mikið á hlutfall kvenna í

stjórnum fyrirtækja, en einugnis 30-35% stjórnarmanna í stórum fyrirtækjum eru konur, þrátt fyrir að það liggi fyrir að þau fyrirtæki sem hafa konur í stjórn skili betri árangri. Á meðan ástandið í nágrannalöndum okkar hvað þessi mál varðar er að þróast í rétta átt, þá virðist því miður sem Ísland standi í stað.

Enn þarf að vinna að jafnréttismálum þar sem víða hallar verulega á konur. Oft er talað um að þriðja vaktin falli mun þyngra á konur en karla. Þegar rætt er um þriðju vaktina þá er samhengið þar að fyrsta vaktin sé launað starf, sem unnið er utan heimilis. Atvinnuþátttaka íslenskra kvenna er með því hæsta sem gerist í heiminum eða yfir 80%. Önnur vaktin er síðan fólgin í því sem þarf að sinna á heimilinu þ.e. hefðbundin heimilisstörf og umönnun barna o.fl. Þriðja vaktin er hins vegar allt þetta auka skipulag, skutl og stúss sem þarf að sinna bæði utan og innan heimilisins. Rannsóknir hafa sýnt að þar bera konur miklu meiri ábyrgð. Þriðja vaktin er jafnvel talin vera hamlandi fyrir konur á vinnumarkaði þegar kemur að aukinni ábyrgð og stöðuhækkunum, auk þess sem hún getur haft áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði, réttindi í lífeyrissjóðum og jafnvel verið hluti af óútskýrðum launamun kynjanna.

Heimilin eru oft á tíðum kjölfestan í lífi okkar. Þar er okkar skjól og samvera og þar fer fjölskyldulífið að stórum

hluta fram. Að stuðla að hag heimilanna er afar metnaðarfullt og yfirgripsmikið markmið sem kemur öllum til góða. Hagur heimilanna er okkar hagur og er samofinn öllu okkar lífi. Hagur heimilanna kemur inn á fjármál og lífskjör þjóðarinnar. Að efla vináttu og frið er markmið sem á alltaf að vera í hávegum haft. Undanfarið höfum við því miður upplifað stríð í Evrópu og séð afleiðingar þess í ömurlegum birtingarmyndum og enn sér ekki fyrir endann á þeim átökum sem nú eiga sér stað. Við þurfum ætíð að viðhafa friðarboðskap og efla vináttu hvar sem því verður við komið. Vinátta er ómetanleg og veitir gleði og styrk.

Í gegnum starf kvenfélaga í áranna rás hafa orðið til sterk vináttubönd. Vinátta sprettur af væntumþykju, góðvild og kærleiksböndum. Okkur þykir ánægjulegt að eyða tíma saman og takast á við sameiginlegt verkefni með vinum okkar og ég fullyrði að góð vinátta svífi jafnan yfir vötnum í starfsemi allra kvenfélaga á Íslandi.

Þó samfélagið hafi tekið miklum breytingum frá því að Kvenfélagasambandið var stofnað er hlutverk kvenfélaganna enn afar mikilvægt. Í huga mínum er aðdáun og þakklæti fyrir allt það fórnfúsa starf sem kvenfélagskonur um allt land hafa unnið í gegnum tíðina.

Sigríður Ingvarsdóttir

Útgefandi: Kvenfélagasamband Íslands. 1. tölublað, 74. árgangur, febrúar 2023 Tímaritið Húsfreyjan kemur út fjórum sinnum á ári: Í febrúar, maí, september og nóvember. Húsfreyjan er gefin út bæði á pappír og rafrænt. Árgangurinn kostar kr. 5.900 í áskrift, m. vsk. Hvert blað kostar í lausasölu kr. 1.990. Útgáfustjórn: Björg Baldursdóttir formaður, Garðabæ, Magðalena Jónsdóttir gjaldkeri, Rangárþingi eystra, Eva Hilmarsdóttir, Eyjafirði, Guðrún Þóranna Jónsdóttir, Selfossi og Þóra Sverrisdóttir, A-Húnavatnssýslu.

Til vara: Guðný Valberg, Rangárþingi og Linda B. Sverrisdóttir, Borganesi. Ritstjóri: Sigríður Ingvarsdóttir, singvarsd@gmail.com.

Viltu gerast áskrifandi?

Prófarkalesari: Björg Baldursdóttir. Ábyrgð: Kvenfélagasamband Íslands.

Auglýsingar: Kvenfélagasamband Íslands, husfreyjan@kvenfelag.is, sími 552 7430, husfreyjanauglysingar@gmail.com.

Kvenfélagasamband Íslands: Hallveigarstaðir Túngötu 14, 101 Reykjavík.

Netfang: kvenfelag@kvenfelag.is. Heimasíða: www.kvenfelag.is. Sími 552 7430.

Ljósmyndari Húsfreyjunnar: Silla Páls - www.mirrorrose.com

Umbrot og prentun: Prentmet Oddi á Selfossi - Umhverfisvottuð prentsmiðja. Húsfreyjan er prentuð á umhverfisvænan pappír.

Þú getur skráð þig í áskrift inni á husfreyjan.is eða hringt í síma 552 7430.

5 Húsfreyjan 1. tbl. 2023
LEIÐARI
Prentgripur 1041 0858
SVANSMERKIÐ

Heimsmeistari og kvenfélagskona

Viðtal við Katrínu Tönju Davíðsdóttur

afrekskonu í CrossFit

Katrín Tanja Davíðsdóttir er sannarlega góð fyrirmynd þegar kemur að hreysti og heilbrigði, metnaði og dugnaði. Hún er óhrædd við að elta draumana og leggur mikið á sig til að ná árangri, enda hefur hún náð árangri á heimsmælikvarða. Þessi glæsilega unga kona er fædd í London 10. maí 1993 en er alin upp á Íslandi. Hún hefur tvisvar orðið heimsmeistari í CrossFit en það var árin 2015 og 2016. Hún er önnur íslenska konan sem nær að verja heimsmeistaratitilinn í greininni en áður hafði Annie Mist Þórisdóttir náð þessum árangri er hún varð heimsmeistari árin 2011 og 2012.

Katrín Tanja lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands og hefur stundað nám í lögfræði og verkfræði. Hún æfði fimleika í tíu ár, en 18 ára gömul hóf hún að æfa crossfit og náði strax mjög góðum árangri í greininni. Um þessar mundir

býr hún í Idaho í Bandaríkjunum með sambýlismanni sínum, Brooks Laich, sem er fyrrverandi íshokkíleikmaður. Þessi lífsglaða, jákvæða kona tók því vel að koma í viðtal hjá tímaritinu Húsfreyjunni og gefa lesendum innsýn í líf sitt og svara hinum ýmsu spurningum.

Lífið í dag og daglega rútína

Ég bý í æðislegum bæ sem heitir Coeur

D´Alene og er efst í Idaho í Bandaríkjunum. Þetta er alveg ótrúlega lítill bær en algjör paradís! Við búum þar saman ég og kærastinn minn, Brooks Laich, með voffalingana okkar tvo, Koda og Theo. Það er svo fyndið að á Íslandi hef

ég alltaf verið algjör miðbæjardama og vil helst bara vera í 101 - en núna er ég að upplifa að búa meira afsíðis og umlukin alveg ótrúlega mikilli náttúru og ég nýt þess svo miklu meira en ég hefði nokkurn tímann búist við!

Við Brooks erum bæði mjög mikið rútínufólk og ég held það komi frá íþróttunum. Hann var atvinnumaður í íshokkí í rúm 15 ár. Við reynum helst að vakna aldrei við vekjaraklukkku og leyfa líkamanum að fá alltaf þann svefn sem hann þarf - vöknum samt yfirleitt á milli 6:30 og 7:30 á morgnana. Þá hleypum við hundunum út á meðan við búum til morgunmat og fáum okkur kaffibolla. Við elskum rólega morgna. Yfirleitt sitjum við aðeins eftir morgunmatinn og svörum tölvupóstum eða tökum símafundi. Klukkan 9 erum við svo mætt á æfingu. Við erum með frábæra heimaaðstöðu, sem eru algjör forréttindi. Það tekur okkur um það bil 10 sekúndur að labba í gymmið! Brooks kemur alltaf með mér á fyrri æfingu dagsins og ég æfi yfirleitt til kl 13 en hann fer svo að vinna eftir hádegi. Ég fer yfirleitt upp í hús og útbý hádegismat fyrir okkur. Eftir það fer ég alltaf í góðan göngutúr með hundana. Þeir eeeeeeelska göngutúrinn sinn og ég elska þennan gæðatíma með þeim!! Klukkan 15 fer ég svo yfirleitt á seinni æfingu dagsins. Ég klára daginn minn yfirleitt alltaf á milli klukkan 1718. Brooks er algjör herramaður og er yfirleitt búinn að kveikja eld fyrir mig þegar ég kem aftur upp í húsið, sem er ótrúlega kósý. Þá eldum við kvöldmat og

svo slökum við bara á, yfir góðum þætti eða spjöllum í sófanum. Við erum svo alltaf komin upp í rúm bara um 21:30.

Hollt, gott og hreint mataræði Mataræðið skiptir ótrúlega miklu máli fyrir íþróttafólk. Ég krefst rosalega mikils af líkamanum mínum og þarf að gefa honum góða orku í staðinn! Ég reyni samt bara aðallega að borða hollan og góðan og hreinan mat. Ég borða mjög mikið af grænmeti, ávöxtum, eggjum, allskonar kjöti og fiski síðan borða ég líka alltaf beyglu með morgunmatum, hafra með hádegismatnum og hrísgrjón, pasta eða kartöflur með kvöldmatnum, til að passa upp á að ég sé líka að fá inn nóg af kolvetnum. Ég hef gengið í gegnum allskonar bylgjur með mataræðið en það sem ég hef fundið að virkar best fyrir mig er að borða HOLLT og að borða nóg. Auðvitað leyfi ég mér einstaka sinnum smá súkkulaði í desert það er bara svo gott fyrir sálina.

Hef aftur fundið eldmóðinn Ég er nýlega búin að skipta um þjálfara og er nú undir handleiðslu Mat Fraser. Hann er fimmfaldur heimsmeistari karla og við vorum æfingafélagar í mörg ár. Það er búið að vera ótrúlega gaman að vinna með honum, þetta er mjög erfitt og miklar æfingar, en ég treysti honum mjög vel og treysti því að ég sé að gera rétta hluti. Þá þarf ég bara að leggja inn vinnuna.

Framundan er mót hjá okkur Annie Mist í Miami en við ætlum að keppa

6 Húsfreyjan 1. tbl. 2023 VIÐTAL Texti: Sigr íður Ingvarsdóttir -
Myndir: Silla Páls

saman í liði með Mal O´Brien en hún er einungis 19 ára gömul og er ein efnilegasta CrossFit konan í dag. Eftir það mót taka aftur við rútína og æfingar. Síðan fer keppnistímabilið að byrja. Ég hef alls ekki átt nógu góð síðastliðin ár en mér finnst ég hafa fundið eldmóðinn aftur inni í mér. Ég hef æft meira og betur en ég hef gert í langan tíma. Ég þarf aftur að læra að treysta á sjálfa mig. Mig langar svo til að sjá hvað ég get gert, ég finn að ég get enn orðið svo mikið betri. Mig langar að ná aftur á pall á Heimsleikunum! Hvort sem það gerist aftur eða ekki þá vil ég gefa allt sem ég á í það og að minnsta kosti vita að ég gaf sjálfri mér séns. Það er þvílíkt ævintýri að fá að elta það að verða best í heimi í einhverju!

Elska áskoranir

Það að vera atvinnumanneskja í CrossFit er það skemmtilegasta sem ég geri, það erfiðasta sem ég geri, mest krefjandi og mest áskorun, mest gefandi. Ég hef ALLTAF elskað áskoranir og alltaf elskað það að reyna að verða best í einhverju. Í rauninni er þetta fullkomin íþrótt fyrir mig. Ég er alveg ótrúlega heppin að vera í þeirri aðstöðu að fá að gera þetta að minni atvinnu. Ég elska að vakna spennt yfir því sem ég er að fara gera þann daginn og ef það er eitt sem ég gæti innstillt í ALLA, þá væri það að allir væru með eitthvað sem þau myndu brenna fyrir! En þetta er auðvitað ekki áreynslulaust. Það er margt sem ég hef oft þurft að fórna og það er í rauninni aldrei “off” takki á því að vera atvinnumaður í íþrótt .... en þetta er líka VAL og ég hef alltaf reynt að horfa á þetta þannig. Íþróttaferillinn er ekki endalaus. Ég vil fá sem mest út úr ferlinum mínum á meðan ég hef tækifæri til. Ég er líka svo ótrúlega heppin að fá að gera þetta með bestu vinkonu minni, Annie Mist. Einnig er Brooks, kærastinn minn, mesti stuðningur sem ég nokkurn tímann gæti hugsað mér. Síðan er fjölskyldan mín mestu og bestu klappstýrur sem hægt er að hugsa sér. Á erfiðum dögum koma markmiðin mín og fólkið mitt, mér í gegnum erfiðleikana.

Ég get fundið jákvæða reynslu og lærdóm sem silfurþráð í nánast hvaða aðstæðum sem er.

Ég hef alveg óbilandi trú á að ég geti hvað það sem ég ætla mér og drifkraft til þess að vinna fyrir því.

8 Húsfreyjan 1. tbl. 2023

Ég get tekið uppbyggjandi gagnrýni og í rauninni sækist mjög eftir henni.

Það er alltaf stutt í hláturinn hjá mér sem gerir lífið svo miklu auðveldara og margfalt skemmtilegra.

Kvenfélagskona eins og amma og mamma

Amma mín, Hervör Jónasdóttir, hafði verið kvenfélagskona og í stjórn Hvítabandsins frá því að ég man eftir mér. Ég man svo oft eftir því að hafa verið hjá ömmu og afa á meðan það voru stjórnarfundir í stofunni hjá þeim. Þar á undan var það mamma hans afa sem var í stjórn Hvítabandsins, svo það er löng hefð fyrir því í minni fjölskyldu að konur séu í kvenfélagi og taki virkan þátt í starfi þeirra. Ég hef alla tíð litið svo ótrúlega upp til ömmu og viljað feta í hennar fótspor svo kannski var það alltaf bara tímaspurssmál þar til ég gekk sjálf í félagið, en við mamma, Oddfríður Helgadóttir, gerðum það saman fyrir nokkrum árum, sem mér þykir svo ótrúlega vænt um. Hún hefur verið mun virkari í félagsstörfunum heldur en ég, en ég hef reynt að mæta alltaf með henni þegar ég hef verið á landinu. Það mun koma tími þar sem ég get verið meiri hluti af því sem Hvítabandið er að gera, en þangað til finnst mér ótrúlega gaman að mæta og byrja að minnsta kosti að kynnast hinum félagskonunum. Þetta er alveg ótrúlegt tengslanet þvílíkt flottra kvenna. Fyrir mér er það líka ótrúlega mikill heiður og einskonar fjölskyldustolt að fá að vera hluti af þessu kvenfélagi.

Bókin DÓTTIR

Katrín hefur skrifað bók, sem ber heitið ,,Dóttir - Leið mín til tveggja heimsmeistaratitla í CrossFit“. Bókina skrifaði hún á ensku í samvinnu við Rory McKerman og fjallar bókin um líf hennar og íþróttaferil. Afi Katrínar, Helgi Ágústsson fv. sendiherra þýddi bókina yfir á íslensku. En hvernig kom það til að þú skrifaðir þessa bók?

Ég elska reynslusögur og ég hef alltaf getað fundið svo mikinn innblástur eða lærdóm frá annarra manna ferlum, hvort sem það er í íþróttum, viðskiptalífinu eða skemmtanageiranum. Mér finnst það bæði bara virkilega áhugavert að fá að heyra sögur annarra og svo finnst mér einhvern veginn að ef ein mann-

eskja gat eitthvað, þá hlýt ég að geta gert það líka. Það er ALLSKONAR sem fólk hefur yfirstigið og komist í gegnum rosalega mótvinda sem ég hef oft getað nýtt mér í mínum erfiðleikum. Ætli það hafi ekki verið það sem að fékk mig til að vilja skrifa bók. Bara að fá að deila minni sögu. Kannski er einhver kafli í bókinni sem veitir einni stelpu innblástur eða hjálpar annarri að halda í þrautseigju í gegnum erfitt tímabil. Það hafa allir sína sögu og þegar maður stoppar til þess að hlusta þá er hver einasta manneskja alveg virkilega áhugasöm . Maður heldur svo oft að maður viti allt og þekki alla, en svo verður maður yfirleitt mjög

skemmtilega ,,surprised“ ef maður bara stoppar og spyr.

Horft til framtíðar

Mig langar til þess að keppa í nokkur ár til viðbótar - en svo er ég alveg ótrúlega spennt að fá að ferðast meira og upplifa heiminn með Brooks. Hann er algjör ævintýrakarl og ég hlakka svo til þess að hafa meiri tíma og tækifæri til þess að ferðast þegar íþróttirnar ráða ekki alveg öllu. Fá að smakka allskonar mat og upplifa mismunandi menningarheima. En svo allra mest þá vonast ég til að við eignumst fjölskyldu saman. Mér finnst líklegt að við munum búa úti í

9 Húsfreyjan 1. tbl. 2023

Það þarf virkilega mikinn

kjark og þor til að þora að elta draumana sína með öllu því sem maður hefur. Við eigum það öll skilið að gefa okkur sjálfum alvöru séns!

Idaho, en ég mun alltaf vilja eiga heimili okkar hér á Íslandi líka. Ég er algjör fjölskyldukerling og fjölskyldan mín er með ,,family dinner“ einu sinni í viku sem er ein skemmtilegasta og besta hefð sem ég þekki. Bestu vinkonur mínar eru líka á Íslandi og svo er bara eitthvað við það að vera heima, svo mikið ,,comfort“ í því að þekkja allt og alla. Heimurinn er líka alveg ótrúlega lítill ef maður lætur hann vera það. Það er hægt að hoppa upp í flugvél og vera komin heim eftir nokkra klukkutíma þegar maður vill.

Við Annie Mist erum líka búnar að vera í nokkur ár að vinna að ,,DOTTIR“ og það er annað sem ég hlakka svo ótrúlega til að geta dembt mér í meira þegar við erum báðar hættar að keppa. Það er svo margt sem að okkur langar að gera og byggja upp. Við höfum nú þegar gefið út heyrnartól, en okkur vantaði sjálfar heyrnartól sem myndu þola svitann og dyttu ekki úr við hamaganginn í t.d. ,,burpees“. Við gáfum út barnabók í fyrra sem var tvímælalaust skemmtilegasta ferli sem við báðar höfum verið partur af. Bókin heitir “What is the way?”

og við erum að vinna í íslenskri þýðingu á henni. Nýjasta verkefnið okkar var að byrja með ,,podcast“ þætti og svo erum við að stefna að nýju spennandi verkefni i haust sem ég er svo spennt að geta deilt með öllum síðar.

Góð ráð til ungra stúlkna með stóra drauma

Að ÞORA að elta draumana sína. Það getur oft verið mjög ,,scary“ að segja hlutina upphátt ef maður skyldi ekki ná þeim eða að virkilega gefa 100% í það sem mann langar til, því hvað ef maður er ekki með plan B, ef það mistekst. Það þarf virkilega mikinn kjark og þor til að elta draumana sína með öllu því sem maður hefur en það er VIRKILEGA

SKEMMTILEGT og sama hvað: við eigum það öll skilið að gefa okkur sjálfum alvöru séns!

10 Húsfreyjan 1. tbl. 2023

DÓTTIR

Leið mín til tveggja heimsmeistaratitla í CrossFit

ÁVARP HÖFUNDAR

Eftirnöfn á Íslandi þykja mörgum athyglisverð því þau fylgja hefð frá dögum forfeðra okkar. Við erum öll synir eða dætur föður okkar eða móður. Pabbi minn heitir Davíð, þannig að ég er Davíðsdóttir og bróðir minn er Davíðsson.

Árið 2009 var CrossFit enn lítt þekkt meðal fólks utan raða þeirra sem stunduðu íþróttina. Þegar Annie Þórisdóttir skaust skyndilega inn á sviðið á öðrum heimsleikanna í CrossFit vakti það talsverða athygli á landi og þjóð. Tveimur árum síðar hlaut hún titilinn „Hraustasta kona heims“.

Á næsta áratug efldist ráðandi staða íslenskra kvenna samhliða íþróttinni, Annie, Sara Sigmundsdóttir og ég börðumst um fyrsta sætið á leikunum. Þórisdóttir, Sigmundsdóttir og Davíðsdóttir. Eitt land. Þrjú hundruð og þrjátíu þúsund íbúar. Tíu sinnum á verðlaunapalli. Fjórir heimsmeistaratitlar. Tvenn silfurverðlaun. Fjögur brons. Allt dætur.

Dætur eru ekki lengur undrunarefni

á CrossFit-leikunum, við erum afl sem tekið er tillit til. Orðið dóttir hefur ummyndast í táknmynd krafts, styrkleika og atgervis. Gildi Crossfit-samfélagsins fellur að öllu leyti að menningu okkar.

Við metum hæfileika umfram útlit. Við metum og virðum erfiða vinnu. Tilfinning fyrir samheldni hópsins sem og samfélagsins treystir einingu okkar.

Ísland býr að auki að einhverju mesta kynjajafnrétti í heiminum, þannig að mér er afar mikilvægt að menn og konur keppi í sömu greinum og fái sömu verðlaunaupphæð og sjónvarpstíma.

Ég er svo stolt af að taka þátt í þessari íþrótt, og ekki síður stolt af því að vera dóttir og fannst viðeigandi að bókin mín héti DÓTTIR.

Ég vona að lestur þinn um vegferð mína auki þér sjálfstraust um hæfileika þína. Ég vona að þú trúir að með sleitulausri vinnu og seiglu getir þú líka gert hvaðeina sem þig dreymir um. Ég vona

að þú finnir sama innri styrk og kraft og „dóttir“ gefur mér.

Ég samgleðst þér að vera besta útgáfan af sjálfri þér!

Úr kaflanum:

ÞÚ VINNUR EÐA ÞÚ LÆRIR, 6. ágúst 2017 (Lokadagur heimsmeistarakeppni

Reebok Crossfit-leikanna

í Madison í Wisconsin)

Þegar ég horfi á sjálfa mig í speglinum reyni ég að hugsa um eitthvað annað en það sem blasir við mér. Kannski verða hendur mínar ekki þaktar siggi, kannski verð ég verkfræðingur eins og ég ætlaði mér. Eða lögfræðingur eins og afi minn. Kannski eignast ég hund eða kærasta. Sársaukinn í upphandleggsvöðvunum minnir mig á að þetta kaus ég. Ég er atvinnukona. Ég hef kosið að lifa eftir reglum sem leyfa aðeins smávægileg frávik hvað varðar lífsstíl; mataræði, hvíld og æfingar.

Úr kaflanum: ÍSLAND „Ef hægt er að bjarga heiminum munu konur gera það“ – VIGDÍS FINNBOGADÓTTIR, FYRRVERANDI FORSETI ÍSLANDS.

Á Íslandi hafa konur með árunum orðið enn atkvæðameiri. Þegar ég ólst upp var mér aldrei sagt að ég gæti ekki gert eitthvað vegna þess að ég væri stúlka eða gæti ekki orðið jafn sterk og strákur. Ég vissi að ég gæti gert það sama og aðrir. Það þýddi ekki að það væri auðvelt, en að það væri hægt. Ég var alin upp við þessi viðhorf og hefði talið þau sjálfsögð og eðlileg – ef ég hefði ekki ferðast um heiminn.

Úr kaflanum:

HJARTSLÁTTUR – „Það verð sem við greiðum fyrir ástina er sorgin“

- ELÍSABET II BRETADROTTNING. Eftir að ljóst varð að ég myndi yfirgefa Ísland urðu samræður okkar ömmu

angurværari. Amma gerði sitt besta til að setja hlutina í samhengi. „Katrín, við ætlum að gera þetta núna.“ Hún talaði alltaf eins og við tvær værum ein og sama manneskjan. „Við munum sakna hvor annarrar en við viljum verða bestar í heiminum og þá verðum við að gera þetta.“

Amma hafði óþrjótandi ímyndunarafl og mikla sköpunargáfu. Hún hafði svo gaman af að segja mér álfasögur. Hún átti safn af múmínbollum með myndum af litlum sætum múmínálfum og öðrum verum við leik og störf. Þessar litríku myndir endurspegluðu persónuleika ömmu, hún var svo ung í anda. Hún átti 10 eða 15 bolla sem hún notaði til skiptis í morgunkaffinu. Daginn sem ég flutti til Boston laumaði hún einum í töskuna mína á leiðinni út á flugvöll. Í bollanum var handskrifaður miði:

Til þín elsku Katrín, Horfðu...

...til baka á það sem þú hefur nú þegar komið til leiðar, ...upp og trúðu þvi að himinninn verði heiður, ...niður til að vera viss um að þú farir réttu leiðina, ...fram á við og til sigurs á sérhverri hindrun.

Heilræði frá ömmu

Næst nafni sínu hafði hún teiknað fallegt brosandi andlit. Þessi miði varð mér dýrmætur. Hann fylgir mér og ég les hann oft, stundum upphátt. Ég lifi samkvæmt þessum fjórum grunnreglum. Þetta er meira en minnismiði til mín, þetta eru stefnumið mín.

11 Húsfreyjan 1. tbl. 2023
ÚR BÓKINNI DÓTTIR EFTIR KATRÍNU TÖNJU OG RORY MCKERNAN

Texti: Sigríður IngvarsdóttirMyndir: Silla Páls

Raðfrumkvöðull, ævintýramanneskja, bókhaldsnörd og kvenfélagskona

Viðtal við Evu Michelsen

„að láta verkin tala“ á sannarlega vel við Evu Michelsen, sem hefur í gegnum tíðina verið óhrædd við að stíga út fyrir þægindarammann og koma hugmyndum sínum í framkvæmd.

Orðatiltækið

Sjálf á hún og rekur nokkur fyrirtæki ásamt því að kenna á námskeiðum, veita ráðgjöf, sinna ýmsum frumkvöðlastörfum, sinna félagsstörfum og síðast en ekki síst láta drauma sína verða að veruleika.

Eva Michelsen hefur lengi haft einlægan áhuga og ástríðu fyrir frumkvöðlastarfi. Hún kom að stofnun og rekstri Húss sjávarklasans að Grandagarði, þar sem frumkvöðlar og fyrirtæki tengd sjávarútvegi og haftengdri starfsemi hafa aðstöðu og geta notið leiðsagnar. Einnig kom Eva að því að opna Lífsgæðasetur

St. Jó, þ.e. á gamla St. Jósepsspítala í Hafnarfirði, en þar eiga allir rekstraraðilar það sameiginlegt að auka lífsgæði fólks með einum eða öðrum hætti. Í september árið 2020 opnaði Eva svo formlega Eldstæðið, atvinnueldhús fyrir matarfrumkvöðla og smáframleiðendur, sem staðsett er að Nýbýlavegi 8 í Kópavogi þ.e. gamla Toyota húsinu.

6 mánaða heimsreisa

Eftir 5 ára starf í Sjávarklasanum fór

Eva í 6 mánaða heimsreisu með systur sinni Láru Dawn. Í heilt ár skipulögðu

þær systur ferðina. Þær létu eftir sér að prufa allt sem þær höfðu látið sig dreyma um og rúmlega það s.s. að kafa með skjaldbökum, synda með hákörlum, skella sér í fallhlífarstökk, fljúga í hurðalausri þyrlu og margt fleira. Að sögn Evu

upplifðu þær systur ótal ævintýri og dásamlega náttúru. ,,Þegar litið er til baka er erfitt að benda á hápunkta ferðalagsins þar sem þetta var allt svo geggjað, en ætli Inkaslóðirnar í Perú og Galapagos eyjarnar séu ekki þau svæði sem standa upp úr“.

Þegar Eva var í heimsreisunni fékk hún að vita að hún hefði fengið inngöngu í bandarískt prógram YTILI, sem ætlað var ungum frumkvöðlum sem vildu kynnast bandaríska stuðningsumhverfinu. Þátttakendum sem fengu inngöngu var boðið til Bandaríkjanna í tvær vikur og þar fengu þeir að kynnast þeirri fjölbreyttu flóru af ýmiskonar stuðningi sem frumkvöðlum og fyrirtækjum stóð til boða í Bandaríkjunum. ,,Þar kynntist ég þessari deili-eldhúsa hugmyndafræði fyrst og féll algjörlega fyrir henni. Því þetta var akkúrat sú aðstaða sem ég hefði viljað hafa aðgang að varðandi ýmsar af mínum hugmyndum. Því má segja að hugmyndin komi til vegna minna eigin þarfa.“ að sögn Evu.

Eldstæðið

Eldstæðið er deili-eldhús fyrir matarfrumkvöðla og smáframleiðendur. Um er að ræða 315 fm húsnæði með full vottuðu eldhúsi, sem búið er öllum helstu tækjum og tólum til matvælaframleiðslu, kæli- og þurrlager ásamt skrifstofu og fundaraðstöðu. Nafnið Eldstæðið vísar til gömlu eldstæðanna, sem voru til staðar í torfbæjum á árum áður og er logo fyrirtækisins í anda þess.

Það er oft á tíðum mikil áskorun

fyrir frumkvöðla í matvælaframleiðslu að hefja rekstur hér á landi þar sem strangar kröfur eru gerðar til matvælaframleiðslu og aðgengi að viðurkenndri aðstöðu sem hlotið hefur samþykki heilbrigðisyfirvalda hefur verið af skornum skammti.

Að sögn Evu eru nú um 40 framleiðendur starfandi í Eldstæðinu. ,,Fólk kemur og fer. Nokkur fyrirtæki eru útskrifuð, komin út í rekstur og búin að byggja upp sína eigin aðstöðu annars staðar og það er bara frábært að sjá hugmyndir raungerast með þeim hætti“.

Eva segir að hún hefði aldrei getað gert ein, allt sem gera þurfti til að þessi draumur um Eldstæðið yrði að veruleika. ,,Frábæra tengslanetið mitt gerði algjört kraftaverk varðandi aðstöðuna. Maðurinn minn Gunnar Kristinn Vilbergsson, pabbi, tengdamamma, fjölskylda og vinir lögðust á eitt við að mála, rífa niður, byggja upp, gera og græja“. Hún segist vera á hárréttum stað í lífinu nú, með þetta flotta deili-eldhús og alla matarfrumkvöðlana sína í virkri starfsemi. En auk þess er Eva með nokkur fyrirtæki til viðbótar.

Furðulegur áhugi á bókhaldi

Rassvasi ehf (www.rassvasi.is) er fyrirtæki sem býður upp á almenna bókhaldsþjónustu og fjármálaráðgjöf. Auk þess annast fyrirtækið námskeið og fræðslu um bókhald fyrir einstaklinga, einyrkja og fyrirtæki. Nafn fyrirtækisins vísar til rassvasabókhalds og þess að hjálpa einstaklingum og fyrirtækjum að komast á

12 Húsfreyjan 1. tbl. 2023
FRUMKVÖÐLASTARFSEMI

réttan stað með bókhaldið, þ.e.a.s. upp úr rassvasanum í gott form. Eva er með mastersgráðu í stjórnun og stefnumótun ásamt því að vera viðskiptafræðingur og viðurkenndur bókari. Hún segist alltaf hafa haft furðulegan áhuga á bókhaldi og því hefur hún mjög gaman af því að sinna bókhaldi bæði fyrir sín eigin fyrirtæki og aðra.

Víravirki.is

Annað fyrirtæki sem Eva á og rekur heitir Víravirki eða viravirki.is Um er að ræða vefsíðu sem er ætlað að vekja

áhuga og umtal um íslenskt handverk tengt íslenska þjóðbúningnum, ásamt því að miðla fróðleik og koma þjóðbúningum og þjóðbúningaskarti í notkun.

Forsaga síðunnar er sú, að í ársbyrjun 2018 fékk Eva að gjöf námskeið í þjóðbúningasaumi. Hún valdi sér 20. aldar upphlut með tilheyrandi þjóðbúningasilfri. Eva sagðist ekki hafa verið tilbúin að leggja út fyrir nýju silfri heldur vildi frekar nálgast gamalt silfur og gefa því nýtt líf.

,,Það var lítið að finna á leitarvélum og þurfti ég að leita til ýmissa fróðra aðila til að fá upplýsingar um hverjir það eru sem bjóða þjóðbúningasilfur, hvort sem það er nýtt eða gamalt og í umboðssölu. Eftir því sem ég kláraði búninginn og hef komist meira inn í þjóðbúningasamfélagið uppgötvaði ég að það þarf meira umtal um menningararfinn, verðmæti þjóðbúninga og skartið sem þeim tilheyrir. Það liggur alltof mikið af gömlum þjóðbúningum, auka-

hlutum og þjóðbúningasilfri í skúffum og skúmaskotum sem gerir engum gagn.“

Því er vefsíðan unnin af hreinum áhuga Evu á þjóðbúningasilfri og þjóðbúningum.

Michelsen konfekt og

ERM

Enn eitt fyrirtækið sem Eva á og rekur heitir Michelsen konfekt ehf. www.michelsenkonfekt.is Þar framleiðir Eva sitt eigið konfekt, sörur, kökur og alls kyns kræsingar. Eva notar að sjálfögðu aðstöðuna í Eldstæðinu við framleiðsluna. Eva segir að ef það er nógu mikið af smjöri, eggjum og rjóma í uppskriftum sé hún örugglega að prófa sig áfram með þær.

Að sögn Evu þá tekur hún einnig að sér ýmiss konar verkefnastjórnun, ráðgjöf og kennslu. Í vetur var hún t.d. að kenna hjá Háskólanum í Reykjavík áfangann ,,Nýsköpun og stofnun fyrirtækja“ .

Uppfærð ímynd kvenfélagskonunnar

Eva hefur verið í Félagi kvenna í Kópavogi allt frá stofnun þess þ.e. frá því 1. febrúar árið 2019. Hún segist ekki hafa haft neina reynslu af því að vera í kven-

13

félagi fyrr en hún var dregin inn í þetta starf af vinkonu sinni Bryndísi Steinu Friðgeirsdóttur, fyrsta og núverandi formanni FKK. Eva segir að félagsskapurinn sé frábær, þarna hittist konur, fræðist, hafi gaman og gefi af sér til samfélagsins. Í Félagi kvenna í Kópavogi eru milli 50 og 60 konur.

Eva segist hafa viljað uppfæra ímynd kvenfélagskonunnar í takt við breytta tíma. ,,Það er alls ekki svo að kvenfélagskonan sé eldri kona sem er bara í því að baka, föndra og prjóna heima, heldur er þetta alveg frábært starf sem verið er að vinna og það er verið að leggja svo ótrúlega mikið af mörkum til samfélagsins í formi sjálfboðavinnu á ótal sviðum. Þetta er hreinlega geggjað starf sem verið er að vinna af kvenfélögum landsins“

Stuttu eftir að félagið var stofnað skall heimsfaraldurinn á með öllum þeim afleiðingum sem við þekkjum og það hafði auðvitað áhrif á starfsemi félagsins að sögn Evu. Félagið hefur undanfarið verið að efla tengslanetið milli kvenfélaga

og landshluta með heimsóknum og hafa þær heimsóknir verið afar ánægjulegar og vel tekið á móti félagskonum.

Eva segir að kvenfélögin tvö í Kópavogi þ.e. Félag kvenna í Kópavogi og

Kvenfélagið Freyja sinni ákaflega mikilvægu starfi í bæjarfélaginu. Þau reka t.d. í sjálfboðaliðastarfi Mæðrastyrksnefnd Kópavogs og Orlofsnefnd Kópavogs.

ÖFLUG FORVÖRN

ÖFLUG FORVÖRN

GEGN BEINÞYNNINGU

GEGN BEINÞYNNINGU

Kalkþörungar með D3, K2 og C vítamínum ásamt viðbótar magnesíum og mangan

Kalkþörungar með D3, K2 og C vítamínum ásamt viðbótar magnesíum og mangan

Skeifunni 8, 108 Reykjavík

Sími 517 6460 - www.belladonna.is

ALLAR VÖRUR HAFKALKS ERU ÁN AUKEFNA OG

ERFÐABREYTTRA INNIHALDSEFNA (GMO FREE)

Við eigum frábært

úrval af flottum buxum

í stærðum 34-60

14 Húsfreyjan 1. tbl. 2023

Endurminning úr barnæsku

Höfundursmásögunnar að þessu sinni er Eygló Ida Gunnarsdóttir. Hún er fædd í Kaupmannahöfn árið 1980 en ólst upp á Kirkjubæjarklaustri ásamt systur sinni, Guðbjörgu Lísu og foreldrum þeirra, Gunnari Þ. Þorkelssyni dýralækni og Jónu S. Sigurbjartsdóttur hársnyrti.

Í dag býr Eygló Ida í Hafnarfirði ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum.

Að sögn Eyglóar Idu hefur í mörg ár blundað í henni einhver ritlistarbaktería; ,,þó ég hafi meira verið að yrkja ljóð heldur en skrifa smásögur. Stuttir prósar,

Sunnudagur

Það hefur snjóað í alla nótt. Stórar snjóflyksur svífa enn löturhægt og hljóðlaust til jarðar. Fönnin liggur jafnt yfir jörðina, svo ósnert og hrein. Kyrrðin er nánast áþreifanleg.

Lágvært ískur rýfur kyrrðina um stund. Dyr á gömlu bárujárnshúsi opnast til hálfs og lítið stelpuskott rekur út freknótt nefið. Hárið stendur í einni flókabendu undan þvældri ullarhúfu sem systkini hennar notuðu líka á sama aldri og kuldagallinn er orðinn helst til stuttur. Loftið ilmar af köldum ferskleika og hún dregur djúpt andann.

Stúlkan fer sér að engu óðslega, laumar sér út um dyragættina og stígur varlega í ósnortinn snjóinn. Fyrst eitt skref. Svo tvö. Svo treður hún út stóran hring í nýju kuldaskónum. Hún finnur skafl og byrjar að moka op fyrir lítið snjóhús. Snjóhúsið verður að leynigöngum. Þar finna ræningjarnir hana aldrei og svo kemur löggan og handtekur bófana og allt verður gott.

Hún býr til snjókarl með stóran maga og langa handleggi. Raunar bara einn handlegg því hún finnur bara eina grein og það er erfitt að brjóta hana í tvennt. Snjóstrumpar, það þurfa líka að vera snjóstrumpar. Svo hún gerir strumpa úr snjó sem eru fullkomnir í hennar augum.

ljóðbrot og hljómfagrar setningar flögra um í heilanum á mér á hverjum degi eins og eyðimerkurrunnar en það er allur gangur á því hvort ég næ að grípa andartakið og festa það á blað“.

Sagan Sunnudagur er endurminning úr barnæsku. Eygló Ida dvaldi löngum stundum í garðinum heima hjá sér, byggjandi strumpa og aðrar fígúrur úr snjónum, niðursokkin í ímyndaðan draumaheim. ,,Þessar stundir eru enn ljóslifandi í minningunni og kominn tími til að festa andartakið á blað; gera tilraun til að teikna tilfinninguna með orðum.“

Svo gerir hún snjókerlingu með stóran barm og flissar með sjálfri sér. Vettlingarnir eru orðnir blautir og hárlokkarnir sem stóðu undan húfunni límast við gagnaugað. Hún leggur vettlingana í snjóskafl og setur kaldar hendurnar í vasann til að hlýja sér svolítið. Á rauðu nefinu er lítill sultardropi. Hún leggst kylliflöt í snjóinn og gerir myndarlegan snjóengil og liggur hreyfingarlaus í sömu stellingu stundarkorn. Yfir henni svífa tístandi smáfuglar í tugatali. Bærinn virðist vera að vakna úr dvala.

Himinninn er litföróttur í ýmsum appelsínugulum blæbrigðum og það er hætt að snjóa. Morgunskíman varpar daufri birtu yfir störf stúlkunnar í garðinum og við blasa ævintýri morgunsins. Snjókarlahjónin – sá einhenti og sú brjóstgóða- standa reisuleg í horni garðsins og við hlið þeirra þrír snjóstrumpar sem fyrir öðrum líta ef til vill út eins og litlar steinvörður á fjalli. Opið inn í leynigöngin er hreint ekki svo leynilegt lengur og myndarlegur snjóengillinn liggur enn á miðri flötinni. Það er mál að fara inn, kuldaboli nístir inn að beini í gegnum blautan kuldagallann.

Smám saman færist líf yfir bæinn. Bæjarbúar vakna einn af öðrum og líta út um gluggann. Þeir hrista höfuðið og bölva snjó og ófærð. Bölva því að helgin sé enn eina ferðina að líða undir lok. Láta sig dreyma um sólarlandaferðir og eyðieyjur og örlitla hvíld frá bláköldum hversdagsleikanum.

Lyktina af nýlöguðu kaffi leggur frá húsunum í bænum og í fjarska heyrist í bíl sem hrekkur ekki í gang.

Gulir vettlingar frjósa í útspörkuðum skafli.

Það er kominn sunnudagur.

Höfundur Eygló Ida Gunnarsdóttir

15 Húsfreyjan 1. tbl. 2023 SM ÁSAGAN

Drífandi daladísir

Lilja Sverrisdóttir

BókinDrífandi daladísir er saga kvenna sem í byrjun 20. aldar stofnuðu hjúkrunarfélagið Hjálpina í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði, sem síðar varð kvenfélagið Hjálpin. Þær Lilja Sverrisdóttir, Ingibjörg Bjarnadóttir og Sigríður Bjarnadóttir eru höfundar bókarinnar sem byggð er að miklu leyti á fundargerðabókum. Með þessari bókaútgáfu er verið að heiðra þessar konur fyrir þeirra óeigingjarna starf og halda minningu þeirra lifandi um ókomna tíð. En dugnaður og ósérhlífni einkenndi starf þessara kvenna og alltaf voru nýjar félagskonur tilbúnar að taka við keflinu með velferð náungans að leiðarljósi. Meðfylgjandi er umfjöllun Lilju Sverrisdóttur.

Í september síðastliðnum kom bókin okkar Drífandi daladísir út. Í fyrstu var stefnt að því að bókin kæmi út á 100 ára afmælinu en margt reyndist tímafrekara en gert var ráð fyrir, svo sem leit að myndum og samantekt upplýsinga um félagskonur. Allar fundargerðabækur félagsins eru varðveittar sem og ýmis önnur gögn. Þær eru helstu heimildir að sögunni auk minninga félagskvenna. Einnig er margt að finna á netinu (úr blöðum og tímaritum).

Meginefni bókarinnar er saga félagsins ásamt mynd og stuttum texta um hverja félagskonu. Höfundar eru fé-

lagskonurnar Ingibjörg Bjarnadóttir, Gnúpufelli, Lilja Sverrisdóttir, Gullbrekku og Sigríður Bjarnadóttir, Hólsgerði. Einnig fengum við til liðs við okkur Gunnar Jónsson frá Villingadal en hans helsta verkefni var söfnun mynda af konum sem voru í félaginu fyrstu áratugina og vinna æviágripa. Þá ritaði hann formálann og kom að prófarkalestri. Lilja var ritstjóri og skipulagði vinnuna við útgáfuna.

100 ára saga

Í bókinni er tekin saman í stórum dráttum hundrað ára saga Hjálparinnar en hún var stofnuð 25. október 1914, sem hjúkrunarfélag í Saurbæjarhreppi sem var fremsti / innsti hreppurinn í Eyjafirði og er nú hluti Eyjafjarðarsveitar. Miklar breytingar hafa orðið á þessum 100 árum eins og í samgöngum en þá ferðuðust konur fótgangandi eða á hestum. Boð voru látin ganga í opnu bréfi með ákveðnu skipulagi á milli bæja og voru kirkjuferðir jafnan notaðar til að koma boðum áleiðis og ræða tiltekin mál. Nú til dags heyrir til undantekninga að gengið sé á milli staða og farsímarnir flytja nú boðin sem áður ýttu undir kirkjusókn.

Margar konur hafa unnið mikið og gott starf í þágu félagsins bæði fyrr og síðar. Eflaust hefur brautryðjendastarfið verið lang erfiðast, en það voru dug-

miklar og áhugasamar konur sem stóðu að stofnun félagsins og skipulögðu starf þess. Takmark félagsins var að annast sjúklinga á félagssvæðinu og sjá til þess að þeir fengju nauðsynlega hjúkrun og aðhlynningu lærðrar hjúkrunarkonu vegna berklafaraldurs og fleiri sjúkdóma sem geisuðu á Íslandi á þeim tíma. Þær hrintu af stað hugmyndinni að stofnun heilsuhælisins fyrir berklaveika í Kristnesi og geislastofu á Akureyri. Hugmyndin fékk strax geysilegan stuðning og dreif að gjafir og framlög úr öllum áttum.

Fá ráð dugðu þar til lyf unnu á berklunum og bólusetning hófst gegn barnaveikinni. Hin skæða farsótt „Spænska veikin“ barst sem betur fer ekki norður í land. Framan af var aðstoð við sjúka og fátæka því meginviðfangsefni félagsins. Þegar þörfin fyrir hjúkrun minnkaði í samfélaginu var hætt að kalla félagið hjúkrunarfélag en í staðinn varð það kvenfélagið Hjálpin.

16 Húsfreyjan 1. tbl. 2023
KVENFÉLAGIÐ HJÁLPIN Í EYJAFJARÐARSVEIT
Texti: Lilja SverrisdóttirMyndir: Úr einkasafni

HJÁLPIN

Meðfylgjandi ljóð, sem ber heitið Hjálpin er eftir Kristínu Sigfúsdóttur, en ljóðið gaf hún kvenfélaginu á fimm

ára afmæli þess og lýsir það vel starfinu á þeim tíma:

Hér er starf frá hreyfing þeirri runnið

„Hjálpin“ líkn, er sjúkum veitir þrótt, kvennastarf af kærleikstoga spunnið keppi ungt að setja merkið hátt.

Sýnið framtíð konur að þið kunnið kærleikans að geyma undramátt, höndum tengdum hugsjón göfgri unnið hikið ei, þótt stundum vinnist smátt.

Blessist Hjálpin, blessist líknargróði býli hverju í okkar fögru sveit, félagskonur þiggið þökk í hljóði þeirri er ykkar mannást vermdi heit.

Það er gull sem geymist vel í sjóði og gildi fær í himnaríkis leit.

Kærleiksandinn lifi í starfi og ljóði landsins kæra yfir hverjum reit.

Með bættum efnahag hreppsbúa og öflugra heilbrigðiskerfi urðu viðfangsefnin fjölbreyttari og konur gáfu sér tíma til að lyfta sér upp og ferðast.

Fjáröflun og góð skemmtun

Aðalverkefni félagsins áður fyrr var að hlúa að nærumhverfinu með fjáröflun sem fólst í að vera með tombólu, baka og halda basar, sjá um erfidrykkjur o.s.frv. Handverkshátíðin skipaði stóran sess í tekjuöflun félagsins lengi vel en núna erum við aðallega með kaffihlaðborð og veitingar.

Svona félagsskapur er ekki bara „eitthvað svona konufélag.” Lífæð hverrar byggðar er m.a. kvenfélag sem tekur að sér ýmis þurfandi verkefni í samfélaginu. Þá er félagið góður grunnur fyrir konur sem búa í nánd hver við aðra til að hittast og kynnast. Auðvitað hittumst við til baksturs og eldamennsku ef svo ber undir en líka til að gera eitthvað fyrir okkur sjálfar eins og fræðslufundir, matarkvöld, göngur, kynningar, föndur og sitthvað fleira.

Að vera í kvenfélagi er góð skemmtun. Þar skapast tækifæri til að gera góðverk, bæta það sem betur má fara í nærumhverfinu, taka þátt í skemmtilegum verkefnum og síðast en ekki síst að hlúa að okkur sjálfum og skemmta okkur og öðrum.

Skemmtilegar staðreyndir

Einnig má nefna nokkrar skemmtilegar staðreyndir.

Til að mynda var ungfrú Regína Þorsteinsdóttir frá Jökli einungis sjö ára þegar hún gekk í félagið árið 1914 og því yngsta félagskonan fyrr og síðar.

Rósfríður Sigtryggsdóttir frá Samkomugerði, var 16 ára þegar hún gekk í kvenfélagið árið 1919. Hún var gerð að heiðursfélaga árið 1973 og þegar hún lést árið 1990 hafði hún verið félagskona í 71 ár eða lengst allra kvenna í félaginu.

Aldursforseti félagsins á afmælisárinu er Kristbjörg Magnúsdóttir frá Miklagarði, 92 ára og á að baki 70 ára setu í félaginu.

Árið 1919 gerðust hjónin Þorsteinn Breim og Valgerður Lárusdóttir ævifélagar. Þorsteinn var fyrsti og eini karlmaðurinn sem hefur verið í félaginu en árið 2007 var lögum þess breytt þannig að allir, bæði karlar og konur, gætu gerst félagar.

Tækifærisvísur

Meðfylgjandi vísur er urðu til í skemmtiferð kvenfélagsins Hjálparinnar 2. september 1978

Bílstjórinn Eggert Jónsson kvað.

Á ferð með fjölda kvenna á fund við álfa og tröllin. Ljúfan læt ég renna léttan bíl á fjöllin.

Ingibjörg Bjarnadóttir sendi Eggert þessa vísu:

Ferðast um með lífsglatt lið. Lokkaprúða bænda svanna Eggert knúsar kvenfólkið Í krókabeygjum öræfanna.

Eggert svaraði:

Öræfin mitt örvar blóð Í æðum fossar þjóta. Lokkaprúða fagra fljóð Fæ ég þín að njóta?

Það er mikill áfangi að verða 100 ára og þegar farið var að glugga í fundargerðabækur kom ýmislegt skemmtilegt í ljós. Byrjað var á að fara í gegnum allar fundagerðir til að finna heildartölu félagskvenna og á endanum töldust um 231 kona hafa verið starfandi í kvenfélaginu á þessum 100 árum. Alls voru konur 85 talsins þegar flest var í félaginu en árið 2014 voru þær 41 og fimm af þeim voru heiðursfélagar en það verða konur sjálfkrafa þegar þær verða sjötugar.

17 Húsfreyjan 1. tbl. 2023

Konur í orkumálum

Hildur Harðardóttir, formaður stjórnar Kvenna í orkumálum

Orku-og veitustarfsemi er ein af undirstöðum samfélagsins. Orkuog veitufyrirtæki hafa það hlutverk að sjá íbúum og fyrirtækjum í landinu fyrir rafmagni, heitu og köldu vatni og sjá um að koma ofanvatni og skólpi í réttan farveg. Fyrirtækjunum er treyst fyrir mikilvægum auðlindum landsins og að þær séu nýttar á sjálfbæran og skynsamlegan hátt í þágu samfélagsins og loftslagsmarkmiða. Orku- og veitustarfsemi er hátæknigeiri með nýsköpun og tækniþróun að leiðarljósi sem kallar á vel menntað starfsfólk með góða sérþekkingu og í þessu ljósi eru laun há samanborið við aðrar atvinnugreinar.

Í sögulegu samhengi hefur orku- og veitustarfsemi þótt karllægur geiri og konur lítið sýnilegar. Stofnun félagsins Konur í orkumálum, KÍO, var á sínum tíma ætlað að breyta því. Hildur Harðardóttir er formaður stjórnar félags kvenna í orkumálum.

Aukinn sýnileiki kvenna

„Sagan af því hvernig KÍO varð til er nokkuð skondin, þegar horft er í baksýnisspegilinn“, segir Hildur Harðardóttir, formaður stjórnar félagsins og brosir. „Stofnandi og fyrsti stjórnarformaður KÍO, Harpa Pétursdóttir, var þá að koma af stórri innlendri ráðstefnu í geiranum og furðaði sig á því hversu fáar konur voru sýnilegar, hvort sem litið var til gesta eða fyrirlesara. Hún ákvað því að taka málin í sínar hendur og stofna þetta félag í ársbyrjun 2016 í samstarfi Viðtal: Sigríður IngvarsdóttirMyndir: Úr einkasafni

18 Húsfreyjan 1. tbl. 2023
KVENNASAMTÖK
Fráfarandi formaður KÍÓ Harpa Pétursdóttir og núverandi formaður Hildur Harðardóttir.

við nokkrar öflugar konur í orku- og veitufyrirtækjum landsins“, segir Hildur. „Í ljós kom að áhuginn fyrir félagi sem hefði þann tilgang að efla þátttöku kvenna í geiranum voru miklu fleiri en stofnendur áttu von á því flytja þurfti stofnfund félagsins í stærra húsnæði þegar það fyrra sprengdi fundinn utan af sér!“

Hlutverk KÍO er að stuðla að jafnrétti í orkumálum, efla þátt kvenna og styrkja tengsl þeirra og áhrif innan orku- og veitugeirans. Félagið vill einnig stuðla að menntun og fræðslu kvenna er varðar orkumál. „Við vinnum að þessum markmiðum með því að halda fundi, samkomur og viðburði, í hvers kyns formi, og svo stöndum við fyrir könnunum og greiningum ýmis konar til að taka púlsinn á jafnréttismálunum innan fyrirtækjanna á Íslandi og geta hvatt til jákvæðra

breytinga„, segir Hildur. Félagið er opið öllum þeim sem áhuga hafa á orku- og veitumálum og auknu jafnrétti í samfélaginu, öllum kynjum til hagsbóta.

Félagar KÍO eru um 470 talsins í dag og koma úr margvíslegum fyrirtækjum og opinberum stofnunum sem tengjast orku- og veitustarfsemi á einhvern hátt. Að mati Hildar hefur félaginu frá upphafi verið ákaflega vel tekið og stuðningur við hlutverk KÍO mikill. Fyrirtækin vinna markvisst að jafnréttismálum innan sinna raða og aukinn sýnileiki kvenna og öflugar fyrirmyndir hjálpar til við að fá fleiri konur til starfa.

Eins og staðan er í dag eru konur tæp 30% starfsfólks í orku- og veitugeiranum. Gengið hefur vel að jafna kynjahlutföll í stjórnum, stjórnendastöðum og almennum stöðugildum innan fyrirtækjanna en stór hluti starfsfólks er iðn- og

tæknimenntað sem starfar úti á mörkinni við oft erfiðar aðstæður og óblíða náttúru. Þar eru karlmenn enn í miklum meirihluta.

„Við viljum auðvitað jafna þessi hlutföll eins og mögulegt er. Jafnrétti og fjölbreytileiki á vinnustað ætti að vera kappsmál allra stjórnenda, því við vitum að það skilar sér í betri rekstri og betri ákvarðanatöku þegar ólíkir einstaklingar koma með ólík sjónarmið að borðinu“, segir Hildur. KÍO hefur ýmislegt til málanna að leggja að mati Hildar, bæði innan fyrirtækjanna sjálfra og inn í almenna samfélagsumræðu.

Jákvæð þróun

„Félagið hefur unnið þrjár greiningar á stöðu kvenna í orkumálum á Íslandi ásamt Ernst & Young og vinnur nú að undirbúningi á fjórðu skýrslunni. Gögnin byggja á upplýsingum um kynjaskiptingu í helstu áhrifastöðum innan 12 stærstu orku- og veitufyrirtækja landsins. Þá höfum við þrisvar staðið fyrir könnun um líðan starfsfólks í geiranum; í fyrstu tvö skiptin meðal félagskvenna KÍO en í það þriðja meðal alls starfsfólks í 13 stærstu orku- og veitufyrirtækjum landsins. Þá höfum við einnig látið greina kynjahlutfall viðmælenda í fréttum um orku- og veitumál“ segir Hildur. Reglubundnar greiningar af þessu tagi bjóða upp á samtal innan geirans um hvað má betur fara og við í stjórn félagsins viljum leggja enn ríkari áherslu á að eiga það samráð við stjórnendur og fylgja því eftir að verkefnin okkar nýtist til þess að bæta jafnréttismenningu innan geirans.

Niðurstöður greininganna sýna að mörgu leyti jákvæða þróun hvað varðar stöðu kvenna og líðan þeirra á vinnustaðnum.

„Hlutfall kvenkyns stjórnarformanna hefur farið úr 25% í 58% á aðeins fjórum árum í orkugeiranum á Íslandi. Þá hefur hlutfall kvenkyns framkvæmdastjóra hækkað um 10% á tveimur árum og er nú 46%“, segir Hildur. Ákvörðunarvald liggur hjá konum í 36% tilfella, en þetta hlutfall mældist 30% fyrsta árið sem skýrslan var gerð. Það er þó enn mikið verk að vinna, en ákaflega fáar konur eru forstjórar í orku- eða veitufyrirtæki á Íslandi af þeim 12 sem lágu til grundvallar skýrslunni og þróunin hefur staðið í stað frá fyrstu skýrslu sem framkvæmd

19 Húsfreyjan 1. tbl. 2023
Félagsfólk KÍO á góðri stund í heimsókn í Elliðaárdalnum og Elliðaárstöð. Frá vinstri: Auður Nanna Baldvinsdóttir, Páll Erland og Kristín Linda Árnadóttir.

var árið 2017. Þegar þetta er skrifað eru þær aðeins tvær og önnur þeirra lætur af störfum nú í upphafi árs.

Hár starfsaldur og

mikil starfsánægja

Hildur segir að hafa verði í huga að starfsaldur í orku- og veitugeiranum er hár, 40% starfsfólks hefur unnið í 40 ár eða lengur, og vonandi verði náttúruleg

þróun í átt að betra kynjahlutfalli samhliða almennri endurnýjun starfsfólks.

„Það breytir því þó ekki að við verðum að vera meðvituð um stöðuna og vera tilbúin að gefa öflugum konum tækifæri í æðstu stjórnendastöður þegar það býðst.“

Niðurstöður um líðan starfsfólks í orku- og veitugeiranum sýna að starfsánægja er hærri en gengur og gerist á almennum vinnumarkaði, en 90% segjast ánægð með starfið sitt. Þá er menntunarstig hátt og þekking mikil. Niðurstöðurnar sýna einnig að hlúa má betur að ákveðnum hópum og málum, sem dæmi upplifa konur eldri en 55 ára sem sinna skrifstofustörfum minni starfsánægju og minni hvatningu í starfi en karlar og konur sem sinna öðrum störfum innan fyrirtækjanna í úrtakinu. Einnig sjáum við skýr tækifæri til þess að setja upp hvata til að jafna fæðingarorlofstöku milli kynja, en konur taka 10 mánuði að meðaltali á meðan að karlar taka um þrjá mánuði.

„Niðurstöðurnar sýna að orku- og veitugeirinn ætti að vera eftirsóknarverður vinnustaður fyrir fólk. Það eru einnig mjög spennandi og krefjandi verkefni framundan við orkuskipti og önnur samfélagslega mikilvæg mál og við þurfum

fjölbreytt fólk með fjölbreyttan bakgrunn til liðs við okkur til að leysa þau“ segir Hildur.

Fjölbreytt dagskrá

KÍO stendur reglulega fyrir viðburðum þar sem tækifæri gefst fyrir félagsfólk til að hittast og ræða málin. „Félagið stendur fyrir opnum fundum um orkumál, árlega er farið í göngu úti í nátt-

úrunni og gjarnan um svæði þar sem eru orku- eða veitumannvirki, og svo er stórskemmtileg árshátíð haldin á ári hverju, til að nefna einhver dæmi“, segir Hildur.

Fyrir nánari upplýsingar um KÍO bendum við á heimasíðu félagsins, www. kio.is, þar sem einnig er hægt að skrá sig í félagið. KÍO er opið öllum þeim sem vilja stuðla að jafnrétti og fjölbreytileika í orkumálum á Íslandi.

20 Húsfreyjan 1. tbl. 2023
Pallborð forsvarsfólks fyrirtækja sem tóku þátt í könnun um líðan starfsfólks 2022. Stjórn KÍO 2022-2024. Sumarganga KÍO 2022 um Hengilssvæðið.

NORRÆNIR MÖRTUDAGAR

Í KUOPIO Í FINNLANDI 15.–17. JÚNÍ 2023

SMÖKKUM Á SAVO

Á dagskránni verður kynning á matarmenningu Savo, heimsóknir til matvælaframleiðenda á svæðinu, borgin býður gestum í móttöku, heimsókn á víngarð, leiðsögn um borgina og gægst verður inn í eldhús hjá kvenfélagskonum (Mörtum) í Savo.

Meðal gesta og fyrirlesara verða þingmenn Evrópuþingsins, Sirpa Pietikäinen, forseti Marttaliitto, og Marianne Heikkilä, framkvæmdastjóri Marttaliitto.

Nánari upplýsingar og bindandi skráning eigi síðar en 10.4.2023, ásamt greiðsluleiðbeiningum fyrir viðburði o.fl á https://www.martat.fi/savo/tapahtumat. Sjá nánar á www.kvenfelag.is.

Gestgjafarnir Kvenfélagskonur (Mörtur) í Savo bjóða okkur hjartanlega velkomnar til að fagna Mörtudögum í Kuopio!

Falleg náttúra og notalegt umhverfi með framúrskarandi þjónustu gera Kuopio að aðlaðandi stað til að heimsækja. Kuopio er í Norður Savo og var svæðið var valið „Evrópska matargerðarsvæðið“ árin 2020- 2021. Í Kuopio eru flestir veitingastaðir í Finnlandi miðað við íbúafjölda þar sem boðið er upp á hreint hágæða hráefni frá ökrum, skógum og vötnum í nágrenninu.

Verðið er 280 evrur. (Hótelherbergi og ferðakostnaður til Kuoipo eru ekki innifalin í verði.)

Verðið felur í sér;

- Fimmtudaginn 15. júní frá kl. 9:00 til 18:00

Fyrirlestrar, morgunkaffi, hádegismat, síðdegiskaffi og kokteilboð.

- Föstudaginn 16. júní frá kl. 10:00 til 22:00

Skoðunar- og bátsferð, hádegismat um borð í bátnum og veislukvöldverð

- Laugardaginn frá kl. 10:30 til 13:30

Miðbær Kuopio skoðaður og kíkt í eldhúsið hjá

Mörtum í Savo.

Borgin er umkringd Kallavesi-vatni og hinu fjölbreytta Puijo-svæði, fínum laufskógi og tjarnir eru víða í borginni - þetta eru einhver af þekktustu náttúrueinkennum Kuopio. (www.kuopio.fi)

Fjarlægðin milli Helsinki og Kuopio er 336 km. Hægt er að fljúga frá Helsinki, fara með bíl, rútu eða lest.

Hótelbókanir að vild en hægt er að panta herbergi á Hotel Puijonsarvi:

- Sími: +358 10 762 9500

- Tölvupóstur: sales.peeassa@sok.fi

- Vefsíða: www.sokoshotels.fi

Notið BÓKUNARAUÐKENNI: BMARTTA23 við bókun Herbergispantanir þarf að gera eigi síðar en 14.05.2023.

Einstaklingsherbergi: 130 €/pr. nótt

Tveggjamanna herbergi: 150 €/pr. nótt

Verðið felur í sér ókeypis aðgang að líkamsræktarstöðinni, gufubaði og staðgóðum morgunverði.

Texti: Hrönn Arnheiður Björnsdóttir, ritari Kvenfélagsins IðunnarMyndir: Úr einkasafni.

90 ára afmæli fagnað

Hrönn Arnheiður Björnsdóttir

Þann11. desember 1932 var Kvenfélagið Iðunn stofnað í þáverandi Hrafnagilshreppi og átti því 90 ára afmæli á síðasta ári. Af því tilefni var hinum tveimur kvenfélögunum í Eyjafjarðarsveit, Öldunni og Hjálpinni, boðið á jólafund Iðunnar í Laugarborg í Hrafnagilshverfi þann 11.12.2022, kl. 11.12, til gamans.

Reynir Schiöth sá um ljúft undirspil á píanó en hann er einmitt svo vel giftur, henni Þuríði Jónu Schiöth, sem starfað hefur í félaginu í áratugi og tekið virkan þátt síðan um 1970. Þuríður stiklaði á stóru, fyrir gesti jólafundarins, um starfið og viðveru sína í félaginu og sannarlega hefur margt verið brasað á þessum árum sem væri tilefni í annan pistil.

Aðalrétturinn var Ris a la mande, með karamellu- og kirsuberjasósu og auðvitað ein mandla vel falin í einni skálinni. Gaman er hvað margt hagleiksfólk er í Eyjafjarðarsveit og núna var skemmtileg gjöf í möndluverðlaun frá Kolbrúnu Ingólfsdóttur, glerlistakonu, sem er með vinnustofuna K.Ing Gler, í Hólshúsum.

Hefð er fyrir jólasögu eða frásögn og las Hrönn, ritari Iðunnar, grein úr 4. tbl. 34. árg. 1983, Húsfreyjunnar: Jól á Hveravöllum 1971, eftir Hildi Torfadóttur.

Kvenfélagið Hjálpin kom færandi hendi með púrtvín og var skálað fyrir Iðunni í tilefni dagsins. Bögglaskiptin voru síðan næst á dagskrá og eru alltaf skemmtileg eins og þeirra er von og vísa. Boðið var svo upp á sérrý og meira púrtvín, kaffi og konfekt og að lokum var heiðursfélögum Iðunnar færðar Hyasintuskreytingar sem skreyttu m.a. háborðið á viðburðinum. Þetta var yndislegur hápunktur eftir stórt ár hjá Iðunni.

Kvenfélagsstarfið hjá Iðunni

árið 2022 í stórum dráttum

Fjórir stórir fundir eru haldnir ár hvert þ.e. aðalfundur í febrúar, vorfundur í maí, haustfundur í október og síðan endum við árið á jólafundi í desember. Iðunnarkvöld eru frá september og fram í apríl, þá komum við saman í fundarherbergi Laugarborgar og skiptumst á að hafa umsjón með þeim. Það hafa komið góðir gestir til að fræða félagskonur, verið handavinnukvöld, bókakynningar þar sem félagskonur segja frá þeim bókum sem þær hafa verið að lesa, námskeið sem félagskonum langar að fá til sín og svona mætti lengi telja. Í júní var flatbrauðsbakstur og fjáröflunarnefnd gerði rabarbarachili-kryddsultu.

Menningarnefnd stóð fyrir frábærum göngutúr seint í júní um gamla bæinn á Akureyri undir leiðsögn Margrétar Guðmundsdóttur, sagnfræðings, og sagði hún okkur frá húsum, sögu þeirra og

fyrrum íbúum sumra húsanna. Mjög ánægjuleg ganga og samverustund þrátt fyrir napurt veður. Á næsta ári verður það ferðanefnd sem mun sjá um dagsferð félagsins.

Það kom í ljós með vorinu að engin Handverkshátíð yrði í ágúst þannig að stjórn ákvað að flauta til Hrafnagilshátíðar 16.-17. júlí. Það var gert með þátttöku íbúa Hrafnagilshverfis (og nokkrum áhugasömum sveitungum sem komu í hverfið) og stóðu nokkrir íbúar fyrir loppumörkuðum heima hjá sér um allt hverfið á laugardeginum, í alveg frábæru veðri, markaður var í Laugarborg báða dagana en veðrið var síðan frekar slæmt á sunnudeginum. Kvenfélagið Iðunn var með vöfflukaffi í Laugarborg þessa daga og bauð upp á nýjung á sunnudeginum: Vöfflupúff, sem er vaffla með súkkulaðiáleggi og sykurpúðum og stóð fólki til boða að fara upp í Aldísarlund sem er um 100 metrum ofan við Laugarborg

22 Húsfreyjan 1. tbl. 2023
KVENFÉLAGIÐ IÐUNN Í EYJAFJARÐARSVEIT

í skógi og grilla þar sykurpúðana, ein Iðunnarkona var búin að kveikja upp í grillinu og át sitt vöfflupúff með góðri lyst. Þessi viðburður tókst bara ljómandi vel og var skemmtileg nýjung að fá fólk til að koma, leggja bílum sínum og fá sér göngutúr um hverfið, enda iðaði hverfið af lífi þennan laugardag.

Í september fóru 5 félagskonur og 4 makar til Skotlands og voru fyrst í Helensburgh í skoðunarferðum en fóru síðan til Glasgow á ACWW þingið sem áður hefur verið skrifað um í Húsfreyjunni. Þessi ferð tókst afskaplega vel og vonandi verður önnur ferð farin innan skamms.

Í nóvember tóku Iðunnarkonur sig til og voru með á kökubasar sem haldinn var í Hlíðarbæ. Það var mikið lagt á sig til að hafa nógu margar sortir og nógu mikið af þeim á þessum basar, enda höfðu félagskonur ekki tekið þátt í basar í áraraðir. Þetta gekk vonum framar og væri gaman að hafa kökubasar heima í héraði seint á árinu 2023.

Í byrjun desember var síðan viðburður í sveitinni á vegum Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar sem kallast: Opnar dyr Var ákveðið með skömmum fyrirvara að skella sér með og opna dyrnar á Laugarborg með kaffihúsastemningu, vöfflusölu, söluborði og kynningu á félaginu, fyrir þær konur sem vildu fá slíka. Ein

ný kona gekk í félagið og þá var markmiðinu náð.

Árið 2023 verður án efa gott ár og fullt af skemmtilegum verkefnum,

fundum og hittingum. Gleðilegt nýtt ár og velkomin í heimsókn til Kvenfélagsins Iðunnar í Eyjafjarðarsveit. Nýjar konur eru auðvitað sérstaklega velkomnar.

23 Húsfreyjan 1. tbl. 2023

Sterk staða kvenfélaga

Dagmar Elín Sigurðardóttir, forseti Kvenfélagasambands Íslands

Íupphafi hvers árs er staldrað við og rifjað upp liðið ár, hvað hefur áorkast og hvað má gera betur og síðast en ekki síst að rifja upp allt það merka starf sem unnið hefur verið í kvenfélögum um land allt.

Kvenfélagasamband Íslands (KÍ) er með aðsetur í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum, Reykjavík, húsinu sem konur reistu af miklum myndarbrag. Innan vébanda KÍ eru kvenfélög sem starfa hvert á sínu sambandssvæði.

Á liðnu ári gafst að nýju tækifæri til margvíslegra fundarhalda og samfagnaðar. Félög gátu haldið sína aðalfundi, bæði félög og sambönd. Á þeim umbreytingatíma þegar fólk mátti ekki koma saman kviknuðu líka hugmyndir að tækifærum til að eiga saman kvöldstund og nýta sér

tæknina. Þannig var Zoom kaffihúsakvöldinu, netfundi, hrundið af stað og svo mikil ánægja var með þessi kvöld að stjórn KÍ og formannaráð hafa ákveðið að halda áfram með þau og eru þau fyrirhuguð á sama tíma að hausti milli Landsþinga. Með þessum hætti getum við átt notalega stund allar saman þótt við séum á ólíkum stöðum á landinu. Eina sem þarf er að vera kvenfélagskona í einu af aðildarfélagi KÍ og vera með búnað sem býður upp á þann möguleika að taka þátt. Eitt af ánægjulegri verkefnum stjórnar og forseta KÍ er að fá tækifæri til að heimsækja samböndin og hitta félagskonur. Á öllum þeim stöðum sem heimsóttir voru á liðnu ári var það sammerkt, sterk staða kvenfélaga í sinni heimabyggð og góð ímynd. Kvenfélagskonur í kvenfélögum

landsins hafa alla tíð frá stofnun félaganna verið ötular að vinna óeigingjörn störf til að afla fjármuna í hin margvíslegu verkefni tengd sinni heimabyggð og hafa margir notið góðs af því starfi. Öll eiga kvenfélög það sammerkt að aðstoða allt og alla í sínu nærumhverfi og taka þátt í starfi með öðrum kvenfélögum í landinu.

Febrúarblað Húsfreyjunnar er ár hvert helgað kvenfélögunum og er það vel að leggja áherslu á það öfluga starf sem unnið er. Þannig hafa kvenfélögin sterka stöðu hvert um sig í sínu nærumhverfi vegna starfa sinna við að liðsinna meðborgurum og þeim sem þurfa sérstaka aðstoð og fjármagn.

Kvenfélagastarfið er nú á tímum ennþá í fullu gildi.

Formannaráðsfundur KÍ

Formannaráðsfundur

Kvenfélagasambandsins var haldinn laugardaginn 19. nóvember sl. í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum. Fulltrúar frá 14 af 17 héraðssamböndum innan KÍ voru mættar á fundinn sem Eva Björk Harðardóttir varaforseti stjórnaði.

Laufey Guðmundsdóttir sem situr í stjórn Almannaheilla fyrir hönd KÍ kynnti hvað felst í því að vera Almannaheillafélag og að vera á Almannaheillaskrá, en það opnar meðal annars fyrir að gjafir einstaklinga og fyrirtækja til samtaka fylgi afsláttur eða lækkun skatta. Félögum er bent á heimasíðu Almannaheilla www.almannaheill.is til að kynna sér málið nánar

Fundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun: 66. formannaráðsfundur Kvenfélagasambands Íslands haldinn á Hallveigarstöðum 19. nóvember 2022 hvetur fjölskyldur til þess að gefa sér tíma, ræða saman og eiga gæðastundir án truflana frá netmiðlum. Í umhverfi okkar er gríðarlegt áreiti af samfélagsmiðlum sem sofa aldrei og gefa aldrei grið. Stafrænt ofbeldi, áreitni, notkun samfélagsmiðla, fíkn og kvíði hefur farið stigvaxandi ár frá ári sem hefur ófyrirséðar afleiðingar fyrir líðan og heilsu barna og fullorðinna. Aldrei hefur verið jafn mikil þörf og í dag, að gefa sér tíma til þess að njóta samverustunda

með þeim sem okkur þykir vænt um, borða saman í rólegheitum og eiga gott samtal.

Stjórn KÍ þakkar öllum þeim sem mættu á fundinn kærlega fyrir góðan dag á Hallveigarstöðum. Næsti formannaráðsfundur sem er líka aðalfundur formannaráðs verður haldinn 10.-11. mars nk. á Hótel Laka Kirkjubæjarklaustri.

24 Húsfreyjan 1. tbl. 2023 KVENFÉLAGASAMBAND ÍSLANDS
Texti: Jenn ý Jóakimsdóttir
„Hvernig getum við haft meiri áhrif á samfélagið?“

Jólafundur á Hallveigarstöðum

árlegi jólafundur Kvenfélagasambands Íslands fór loksins fram 18. nóvember sl. en honum hafði verið frestað í tvígang vegna heimsfaraldurs. Það voru því glaðar konur sem mættu og áttu saman notalega stund í sal Kvennaheimilisins á Hallveigarstöðum.

Hinn

Jólafundurinn hófst á jólahugvekju séra Helgu Soffíu Konráðsdóttur. Sigríður Víðis Jónsdóttir las upp úr bók sinni; Vegabréf: íslenskt. Kvennakórinn Hrynjandi sem æfir reglulega á Hallveigarstöðum söng síðan fyrir gesti nokkur vel valin jólalög og kom gestum í jólastemmingu fyrir aðventuna. Eins og áður þá svignuðu borðin undan glæsilegum veitingum að hætti Ásdísar Hjálmtýsdóttur húsmóður Hallveigar-

Kvennakórinn Hrynjandi. staða. Fundinum lauk með útdrætti úr jólahappadrættinu þar sem fjölmargir vinningar voru í boði. Það er alltaf ljúft

að byrja aðventuna á mætingu á jólafund KÍ og eru allar kvenfélagskonur velkomnar á meðan húsrúm leyfir.

25 Húsfreyjan 1. tbl. 2023 KVENFÉLAGASAMBAND ÍSLANDS
Texti: Jenn ý Jóakimsdóttir
Sigríður Víðis Jónsdóttir tekur við þakkargjöf frá Dagmar Elínu Sigurðardóttur forseta KÍ.

Texti: Sigríður IngvarsdóttirMyndir: Úr einkasafni

Hinar fimm fræknu

Viðtal við Guðnýju Nönnu Þórsdóttur

Eining á Skagaströnd er eitt af minnstu kvenfélögum landsins en félagskonur þar eru eingöngu fimm talsins.

Kvenfélagið

Félagið á sér þó langa sögu en það var stofnað 27. febrúar árið 1927 af 20 konum.

Þrátt fyrir að félagskonur séu ekki margar er starfsemin engu að síður afar öflug og fjölbreytt og tekið er eftir því á landsvísu hve mikill kraftur er í félagsstarfinu hjá þessum mögnuðu konum.

Guðný Nanna Þórsdóttir hefur verið formaður Kvenfélagsins Einingar frá árinu 2018. Í samtali við þessa kraftmiklu konu kemur vel fram að í mörg horn er að líta. Kvenfélagið er mikill máttarstólpi í samfélaginu á Skagaströnd og kemur víða við sögu í samfélaginu.

Samhugur og hjálpsemi

Guðný Nanna eða Nanna, eins og hún er oftast kölluð, er alin upp í Árbænum og flutti til Skagastrandar fyrir átta árum.

Hún á fimm börn þau Ditto, Bjarna Þór, Steinar Frey, Sonju Sif og Jóhönnu Guðleifu en þrír elstu drengirnir voru farnir að heiman þegar fjölskyldan ákvað að láta slag standa og flytja norður. Eldri dóttir hennar, sem þá var 14 ára, var ekki á góðum stað félagslega og því var sú ákvörðun tekin að kippa henni út úr þeim aðstæðum sem hún var í og breyta til. Nanna þekkti vel til á Skagaströnd þar sem faðir hennar, Þór Gunnlaugsson, var þar lögreglumaður um 30 ára skeið og Nanna var mjög oft þar hjá honum í fríum. Þegar litið er til baka reyndist ákvörðunin um að flytja norður mjög góð og Nanna segist hvergi annars staðar vilja vera. Skagastönd er gott samfélag sem heldur vel utan um fjölskyldur og þar ríkir samhugur og hjálpsemi.

Gott að geta rétt öðrum hjálparhönd

Þremur árum eftir að Nanna flutti norður gekk hún í Kvenfélagið Einingu á Skagaströnd og árið 2018 var hún orðin formaður þess. Spurð út í ástæður þess að ganga í kvenfélag sagði hún að það væri hreinlega í genunum, hún hefði verið alin upp í kvenfélagi. Móðir hennar Jóhanna Guðrún Gunnarsdóttir var formaður kvenfélagsins Fjallkonurnar.

Að sögn Nönnu kom móðir hennar m.a. að stofnun Starfsmenntunarsjóðs ungra kvenna en tilgangur sjóðsins er að hvetja og styðja við bakið á ungum konum, sem ekki eiga kost á námslánum, til að afla sér aukinnar menntunar.

Nanna segir það mjög gott að geta rétt öðrum hjálparhönd og stutt við góð málefni líkt og kvenfélagskonur eru að gera. Hún sér fram á fjölgun í kvenfélaginu og líklegast er einn karlmaður að ganga

26 Húsfreyjan 1. tbl. 2023
KVENFÉLAGIÐ EINING SKAGASTRÖND
Árný Ósk Hálfdánardóttir, Elín Ósk Ómarsdóttir, Dagný Hildur Þorgeirsdóttir og Guðný Nanna Þórsdóttir frá Kvenfélaginu Einingu Skagaströnd og Jenný Jóakimsdóttir KÍ.

í félagið á næstunni. Sá segist liðtækur í bakstrinum og vonast hann til að fá fleiri karlmenn með sér.

Alltaf uppselt á þorrablótin Árleg þorrablót eru stærstu viðburðirnir sem kvenfélagið stendur fyrir. þorrablótin eru það vinsæl að færri komast að en vilja og takmarka þarf miðakaup við 10 aðgangsmiða per einstakling. þorrablótin eru haldin í Félagsheimilinu Fellsborg á Skagaströnd og eru að jafnaði um 250 manns á þorrablótunum. Kvenfélagskonur annast sjálfar stóran hluta af matseldinni s.s. að sjóða svið og hangikjöt, steikja soðbrauð o.fl. Þær skreyta einnig og leggja á borð, prenta miða og söngbækur. Að sögn Nönnu fer janúarmánuður að stórum hluta í undirbúningsvinnu fyrir þorrablótið hjá kvenfélagskonunum.

Fjölbreytt fjáröflun

Auk þorrablótanna eru þær Einingarkonur með afar fjölbreytta fjáröflun. Þær standa reglulega fyrir félagsvist, sem í gegnum tíðina hefur verið vel sótt. Árlega halda þær páskabingó og á covid tímabilinu dóu þær ekki ráðalausar heldur héldu rafrænt páskabingó, sem sló alveg í gegn. Kvenfélagið tekur einnig að sér að annast erfidrykkjur og útbúa leiðisskreytingar ásamt því að selja greni og friðarkerti. Fyrir jólin útbúa þær jólagjafir handa öllum íbúum Skagastrandar sem eru 65 ára og eldri og ganga sjálfar í hús og afhenda gjafirnar með jólasveinahúfur á höfði. Guðný Nanna segist finna fyrir sönnum jólaanda þegar þessi afhending á pökkum fer fram og eldri borgararnir sem taka við gjöfunum kunna svo sannarlega að meta þetta framlag. Í fyrra innihéldu pakkarnir t.d. fallegt flísteppi þar sem kvenfélagskonur höfðu sjálfar saumað nafn hvers og eins í teppið. Eins hafa kvenfélagskonurnar haldið utan um sölu á minningarkortum og heillaskeytum.

Stuðningurinn skilar sér til samfélagsins

Í gegnum fjáraflanir kvenfélagsins

Einingar hafa safnast háar upphæðir sem hafa gert félaginu kleift að styðja myndarlega við margvísleg málefni. Þær hafa stutt við fjölskyldur sem hafa átt við tímabundna erfiðleika að etja sökum veikinda og/eða dauðsfalla. Reglulegur stuðningur hefur skilað sér til kirkjunnar auk þess sem sos börn eru styrkt. Einnig hefur ,,Róluvinafélagið“ fengið myndarlegan stuðning frá kvenfélaginu, en Róluvinafélagið var stofnað af áhugasömum foreldrum með það að markmiði að endurbæta og byggja upp þá þrjá leikvelli sem eru á Skagaströnd. Að sögn Nönnu er frábært að sjá hve vel hefur tekist til með þá uppbyggingu og t.d. státi nú leikvöllurinn við tjaldstæðið

af einni flottustu aparólu landsins. Einnig hefur kvenfélagið Eining styrkt Leikskólann á Skagastönd, slysavarnarfélagið, dvalarheimilið, ungmennafélagið, Rauða krossinn o.fl.

Forréttindi að búa úti á landi Nanna horfir björtum augum til framtíðarinnar á Skagaströnd. Hún segir það hreinlega forréttindi að búa úti á landi. ,,Hér er gott að ala upp börn og hér er auðvelt að koma hlutum í verk. Hér er lífið svo miklu einfaldara og afslappaðra og lífsgæðin meiri. Ég verð bara stressuð um leið og ég kem til höfuðborgarinnar og vil helst bara drífa mig heim sem fyrst“. Hún sér fram á ærin verkefni framundan hjá Kvenfélaginu Einingu og hlakkar til að takast á við þau í góðri samvinnu kvenfélagskvenna og e.t.v. karla.

Húsfreyjan 1.
tbl. 2023
Ekki henda mér, gefðu mig heldur!
Guðný Nanna ásamt börnunum sínum.

HLÝJAR FLÍKUR FYRIR ÖLL KYN

Sjöfn Kristjánsdóttir

Nú þegar að lægðirnar ganga yfir með tilheyrandi kulda og trekki er ljúft að setjast niður með prjónana og búa til fallegar og hlýlegar flíkur. Sjöfn Kristjánsdóttir prjónahönnuður gefur að þessu sinni lesendum Húsfreyjunnar uppskriftir af fallegum flíkum fyrir fullorðna, flíkum sem henta fyrir öll kyn á öllum aldri. Flíkurnar bera heitin Ava mynsturpeysa og Ilmur sokkar.

Flotta fyrirsætan á myndinni heitir Júlíana Dögg Chipa.

Prjónaðar flíkur hafa yljað okkur Íslendingum um margra ára skeið en líklegast hefur þessi iðja ,,prjón“

borist til Íslands á fyrri hluta 16. aldar með þýskum, enskum eða hollenskum kaupmönnum. Elsta varðveitta prjónaða flíkin hér á landi er belgvettlingur sem talinn er vera frá fyrri hluta 16. aldar, en vettlingurinn fannst við uppgröft að Stóruborg í Austur-Eyjafjallahreppi. Á sama stað fannst einnig sléttprjónaður smábarnasokkur og háleistur. Prjón varð síðan mjög vinsælt og náði mikilli útbreiðslu um land allt. Karlar, konur og börn prjónuðu og prjónaskapurinn var ekki talin vera sérstök kvennavinna eins og síðar varð.

28 Húsfreyjan 1. tbl. 2023 HANNYRÐAHORNIÐ
Páls
Myndir: Silla

AVA

fyrir fullorðna

Prjónfesta: 18 lykkjur = 10 cm

Garn: 1 þráður af MITU frá Rauma og 1 þráður af Silk mohair. Þræðirnir eru prjónaðir saman. Garnið fæst í Ömmu mús.

Það sem þarf:

• Hringprjónn nr. 5 (40 cm fyrir hálsmál)

• Hringprjónar nr. 5.5 (40 cm, 80 og 100/120 cm langir)

• Sokkaprjónar nr. 5.5 (fyrir stroff á ermum ef þarf)

• Nál til frágangs

• Prjónamerki – 8 hringlaga stykki sem komast upp á prjónana og 1 hringlaga merki til að merkja upphaf umferðar.

Peysan er prjónuð ofan frá og niður og í hring, með mynsturprjóni og laskútaukningu. Hér að neðan koma útskýringar á þeim atriðum sem mikilvæg eru í þessari uppskrift.

Prjónamerki

Í þessari peysu mæli ég með að afmarka allar lasklykkjur með hringlaga prjónamerkjum svo þið villist ekki á leið niður berustykkið þegar þið eruð að auka út.

Faldprjón

Þessa aðferð nota ég meðal annars til þess að prjóna niður hálslíningu, streng í mitti á buxum, stroff á ermum og svo framvegis. Það er gert með því að prjóna hverja lykkju í þá lykkju sem fitjað var upp á. Ef þið treystið ykkur ekki til þess að prjóna kantinn niður þá er ekkert mál að sauma hann niður í lokin. Með þessu færðu tvöfalda þykkt á t.d. hálsmáli og frágangurinn verður snyrtilegur. Svo er líka voðalega gott að þurfa ekki að sauma niður eftir á. Hér er linkur á vídjó sem hægt er að styðjast viðwww.bit.do/faldprjon.

Jöfn úrtaka/útaukning í umferð

Hér er hlekkur á þá reiknivél sem ég nota til þess að auka

jafnt út/taka jafnt úr í umferð. Increase= útaukning og decrease= úrtaka: www.bit.do/reiknaukn.

M1R, M1L

Make one right og make one left eða auka um 1 lykkju til hægri og 1 lykkju til vinstri. Þetta er aðferð til þess að auka út í laska. Með því að snúa lykkjum til hægri eða vinstri vísa þær rétt báðu megin við laskalykkjur.

M1R: Takið bandið upp milli síðustu lykkju fyrir laskalykkju og laskalykkju, farið með prjóninn aftan í bandið og prjónið framan í það slétt.

M1L: Takið bandið upp á milli síðustu lykkju fyrir laskalykkju og laskalykkju, farið með prjóninn framan í bandið og prjónið aftan í það slétt. Sjá myndband: www.bit.do/ m1rm1l.

Hálslíning

Fitjið upp 76, 76, 76, 80, 80 lykkjur á hringprjón nr. 5 (40 cm langan). Prjónið 2l sl og 2l br til skiptis, alls 8 cm. Prjónið kragann niður að innanverðu með sléttu prjóni

29 Húsfreyjan 1. tbl. 2023
Lengd
Garnmagn
Garnmagn
XS 102 cm 31 cm 31 cm 42 cm 300 g 75 g S 106,5 cm 35,5 cm 33 cm 44 cm 350 g 100 g M 111 cm 35,5 cm 36 cm 46 cm 400 g 100 g L 115,5 cm 40 cm 38 cm 48 cm 450 g 125 g XL 124,5 cm 44.5 cm 40 cm 50 cm 500 g 125/150 g
Stærð
Ummál bolur Ummál ermar bolur, frá handvegi
Lengd
ermar, frá handvegi
MITU
Mohair

(faldprjón, sjá útskýringu fremst í uppskrift). Skiptið yfir á hringprjón nr. 5.5 (40 cm langan), prjónið 1 umferð slétt og aukið út um 4, 4, 4, 0, 0 lykkjur jafnt yfir umferðina. Nú eiga að vera 80 lykkjur á prjóninum í öllum stærðum.

Berustykki

Nú þarf að gera ráð fyrir útaukningu í laska með því að staðsetja lasklykkjurnar. Umferð byrjar fyrir miðju að aftan. Gott er að merkja upphaf umferðar með prjónamerki.

Umferð 1

1. skref: Prjónið 16, 16, 16, 16, 16 lykkjur samkvæmt mynsturmynd 1 (umferð byrjar í lykkju 50, hægri hluti bakstykkis). Setjið PM 1 upp á prjóninn.

2. skref: Prjónið 1 lykkju slétt (lasklykkja), setjið PM 2 upp á prjóninn.

3. skref: Prjónið 7, 7, 7, 7, 7 lykkjur samkvæmt mynsturmynd 2 (lykkja 35, hægra axlarstykki). Setjið PM 3 upp á prjóninn.

4. skref: Prjónið 1 lykkju slétt (lasklykkja), setjið PM 4 upp á prjóninn.

5. skref: Prjónið 31, 31, 31, 31, 31 lykkjur samkvæmt mynsturmynd 1 (lykkja 35, framstykki). Setjið PM 5 upp á prjóninn.

6. skref: Prjónið 1 lykkju slétt (lasklykkja), setjið PM 6 upp á prjóninn.

7. skref: Prjónið 7, 7, 7, 7, 7 lykkjur samkvæmt mynsturmynd 2 (lykkja 35, vinstra axlarstykki). Setjið PM 7 upp á prjóninn.

8. skref: Prjónið 1 lykkju slétt (lasklykkja), setjið PM 8 upp á prjóninn.

9. skref: Prjónið 15, 15, 15, 15, 15 lykkjur samkvæmt mynsturmynd 1 (lykkja 35, vinstri hluti bakstykkis).

Umferð 2

Prjónið samkvæmt mynsturmynd að PM 1. Aukið út með

M1R, færið PM 1 yfir á hægri prjón, prjónið 1 lykkju slétt (lasklykkja), færið PM 2 yfir á hægri prjón, aukið út með

M1L. Prjónið áfram samkvæmt mysturmyndum og endurtakið útaukningu hjá öllum lasklykkjum – alls 8 útaukningar í umferð.

Umferð 3

Prjónið samkvæmt mynsturmynd og án útaukninga í löskum.

Endurtakið umferð 2 og 3 þar til þið hafið aukið út, Í HEILDINA, 24, 26, 27, 30, 33 sinnum. Nú eiga að vera 272, 288, 296, 320, 344 lykkjur á prjóninum. Prjónið bol.

Bolur

Nú þarf að skipta stykkinu upp í bol og ermar. Umferð byrjar fyrir miðju að aftan:

30 Húsfreyjan 1. tbl. 2023

1. skref: Prjónið mynsturprjón 2 lykkjur framyfir PM 2 (hægri hluti bakstykkis).

2. skref: Setjið 51, 55, 57, 63, 69 lykkjur á hjálparband/nælu - www.bit.do/hjalparbandv2 (hægri ermi).

3. skref: Fitjið upp 7, 7, 9, 7, 9 nýjar lykkjur - www. bit.do/fitjauppihandvegi (hægri handvegur).

4. skref: Prjónið mynsturprjón 2 lykkjur framyfir PM 6 (framstykki).

5. skref: Setjið 51, 55, 57, 63, 69 lykkjur á hjálparband/-nælu (vinstri ermi).

6. skref: Fitjið upp 7, 7, 9, 7, 9 nýjar lykkjur (vinstri handvegur).

7. skref: Prjónið mynsturprjón út umferð (vinstri hluti bakstykkis).

Nú eiga að vera 184, 192, 200, 208, 224 lykkjur á prjóninum. Ermalykkjur eru komnar á hjálparband/hjálparnælu. Prjónið nú þar til bolur, frá handvegi, mælist 21, 23, 26, 28, 30 cm. Prjónið stroff (2l sl og 2l br til skiptis) alls 10 cm. Fellið af með brugðningu - www.bit.do/ brugning.

Ermar

Ermin er prjónuð í hring með mynstri. Færið er malykkjur af hjálparbandi og yfir á hringprjón nr. 5.5 (40 cm langan). Einnig þarf að prjóna upp 5, 9, 7, 11 lykkjur í handvegi - www.bit.do/lykkjurhandv. Lykkj urnar eru ekki jafn margar og þær sem fitjaðar voru upp vegna þess að þá passar lykkjufjöldinn ekki við mynstur í ermum.

Nú eiga að vera 56, 64, 64, 72, 80 lykkjur á prjóninum. Tengið í hring og prjónið ermina með mynsturprjóni þar hún mælist, frá handvegi, 32, 34, 36, umferð slétt og takið úr 12, 20, 16, 24, lykkjur jafnt yfir umferðina (sjá jafna úrtöku fremst í uppskrift). Nú eiga að vera 44, 44, 48, 48, 52 lykkjur á prjóninum. Prjónið snúið stoff (2 lykkjur sléttar og 2 lykkjur brugðnar) alls 10 cm. Fellið af með brugðningu - www.bit.do/brugning. Dragið bandið í gegnum síðustu lykkjuna og slítið frá. Prjónið hina ermina eins.

Frágangur

Felið alla enda og lagið göt í handvegi ef þau eru til staðar. Skolið í vél og vindið á 400-600 snúningum (mohair er viðkvæmt!). Leggið peysuna til á þurrt handklæði og sléttið vel úr henni. Látið þorna vel. Það er voða gott að leggja hana til nálægt ofni því þá þornar hún fyrr. Ef peysan stækkar þá hef ég sett mohair peysur í þurrkara, ásamt öðrum þvotti sem er orðinn hálf þurr, og hef hana í ca 8 mín.

Mynsturmyndir

Allar stærðir fylgja sömu mynsturmyndum. Það sem greinir á milli stærða eru línurnar.

Útskýringar á táknum

Slétt prjón

Aukið út til vinstri

Aukið út til hægri

Brugðið prjón

Lasklykkjur

Hér endar stærð XS í útaukningum í berustykki

Hér endar stærð L í útaukningum í berustykki

Hér endar stærð S í útaukningum í berustykki

Hér endar stærð XL í útaukningum í berustykki

Hér endar stærð M í útaukningum í berustykki

31 Húsfreyjan 1.
tbl. 2023

Þessi svarta lína er miðja á bakstykki

Berustykki

Hér byrjar umferð (fyrir miðju á bakstykki)

Berustykki – ermar

Hér byrjar framstykkið

Bolur eftir að útaukningum er lokið. Línurar sýna hvar þið eruð stödd í mynstri í þeirri umferð þegar verið er að skipta upp í bol og ermar.

32 Húsfreyjan 1. tbl. 2023
- fram- og bakstykki
M S XS XL L
Hér byrjar axlarstykkið

ILMUR

sokkar á fullorðna

Stærð (miðað við skóstærð)

Ummál um ökkla og rist miðað við prjónastærð nr. 3

Ummál um ökkla og rist miðað við prjónastærð nr. 2.5

Garnmagn

Prjónfesta:

30 lykkjur = 10 cm á prjóna nr. 3.

32 lykkjur = 10 cm á prjóna nr. 2.5.

Garn: Sokkagarn sem hentar prjónastærð 2.5 – 3.5. Í uppskriftinni er notað Merino Yak frá Schachenmayr (fæst í Gallery Spuna).

Það sem þarf:

• sokkaprjónar nr. 2.5 eða 3.

• nál til frágangs

Sokkarnir eru prjónaðir í hring með mynstri í kringum kálfa. Slétt prjón á rist, il og í úrtöku. Ummálið er eins í öllum stærðum en lengdin er ekki sú sama. Sokkarnir eru ætlaðir sem ullarsokkar og eru þess vegna ekki jafn þéttir að fætinum og venjulegir sokkar. Þeir sem vilja hafa sokkana þéttari og þrengri prjóna þá á prjóna nr. 2.5 en ekki nr. 3. Hér að neðan koma útskýringar á þeim atriðum sem mikilvæg eru í þessari uppskrift.

SSK er ensk skammstöfun yfir Slip Slip Knit. Færið tvær lykkjur yfir á hægri prjón (eina í einu) með því að fara með hægri prjón framan í þær. Farið með vinstri prjón inn í báðar lykkjurnar og prjónið aftan í þær saman slétt –www.bit.do/slipslipknit.

Að færa upphaf umferðar Í mynsturmyndum er talað um að færa upphaf umferðar um 1 lykkju. Með því er átt við að færa byrjun umferðar fram um 1 lykkju. Þá prjónarðu eina lykkju til viðbótar í lok umferðarinnar á undan. Þetta er gert svo hægt sé að prjóna 2 lykkjur saman slétt í lok umferðar. Ef við færum ekki upphaf umferðar þá erum við með 1 lykkju sitthvorumegin við upphafið og prjónamerki þar á milli og erfitt er að prjóna þær lykkjur saman slétt. Mikilvægt er að fylgja þessu svo mynsturmyndir gangi upp. Aðferð: Prjónið umferðina á undan að prjónamerki sem markar upphaf umferðar. Takið prjónamerkið af, prjónið

1 lykkju slétt, setjið prjónamerkið aftur á. Nú er búið að færa upphaf umferðar fram um 1 lykkju.

Mynsturmynd

ATH. að í umferð 7 í mynsturmynd þarf að færa upphaf umferðar fram um 1 lykkju (sjá nánari útskýringu fremst í uppskrift).

Slétt prjón

SSK

Prjónið 2 lykkjur saman slétt

Takið 1 lykkju óprjónaða, prjónið 2 lykkjur saman slétt, steypið óprjónuðu lykkjunni yfir

Sláið bandi upp á prjóninn

34-36 20 cm 19 cm 100 g 37-39 20 cm 19 cm 100 g 40-42 20 cm 19 cm 100 g 43-46 20 cm 19 cm 100 g
Endurtaka Endurtaka

Fitjið upp 60 lykkjur á sokkaprjóna nr. 2.5 eða 3. Skiptið lykkjum á 3 prjóna (20 lykkjur á hvern prjón). Tengið í hring og prjónið brugðningu (2l sl og 2l br til skiptis) alls

4. Skref: (rangan): Takið fyrstu lykkjuna óprjónaða eins og eigi að prjóna hana brugðna, prjónið brugðið þar til 1 lykkja er eftir að snúning, prjónið tvær lykkjur saman brugðnar. Prjónið 1 lykkju brugðna. Snúið við. Endurtakið skref 3 og 4 þar til 10 lykkjur eru eftir á prjóninum. Endið á því að prjóna umferð á röngunni.

Upptaka lykkna á hælstalli

Haltu á sokknum þannig að réttan snúi að þér. Þú átt semsagt ekki að sjá inní sokkinn:

1. Prjónið lykkjur á hæltungu sléttar (10 lykkjur).

2. Prjónið upp lykkjurnar á kanti hælstallsins, alls 15 lykkjur. (Stundum þarf að taka upp fleiri lykkjur til þess að loka götum en þá þarf að passa að prjóna þær saman með öðrum lykkjum í næstu umferð á eftir til þess að jafna út lykkjufjöldann.)

3. Prjónið lykkjur á rist (30 lykkjur).

4. Prjónið upp lykkjurnar á kanti hælstallsins, alls 15

Nú eru 70 lykkjur á prjóninum en við viljum hafa einungis 60 lykkjur líkt og í byrjun. Skiptið lykkjunum á prjónana þannig að ilin skiptist á tvo prjóna (20 lykkjur á hvorn prjón) og ristin er á einum prjón (30 lykkjur). Til þess að jafna út lykkjufjöldann (nú eru of margar lykkjur í il) þarf að taka úr lykkjur í hliðum sokksins. Það er gert sitthvoru megin við ristina.

Hér sést hvernig mæla á lengd sokksins.

að prjóna hana slétt) með bandið fyrir aftan. Prjónið slétt út umferð. Snúið við.

2. Umferð (rangan): Takið 1 lykkju óprjónaða (eins og eigi að prjóna hana brugðna) með bandið að ykkur, prjónið brugðið út umferð. Snúið við. Endurtakið umferð 1 og 2 þar til þið hafið prjónað alls 30 umferðir (ein umferð er einn prjónn).

Hæltunga

Þessi tunga myndast við það að nota úrtöku sem myndar svo sjálfan hælinn á sokknum. Við byrjum á því að skipta lykkjunum í þrennt. Nú eru 30 lykkjur á prjóninum. Þeim er skipt í þrennt, 10 lykkjur á hvorum enda og 10 lykkjur fyrir miðju.

Úrtakan

í hæltungu er svona:

1. Skref: (réttan): Prjónið slétt 20 lykkjur. Snúið við.

2. Skref: (rangan): Takið fyrstu lykkjuna óprjónaða eins og eigi að prjóna hana brugðna (látið bandið liggja að ykkur), prjónið brugðið 9 lykkjur. Snúið við.

3. Skref: (réttan): Takið fyrstu lykkjuna óprjónaða eins og eigi að prjóna hana slétta. Prjónið þar til 1 lykkja er eftir að síðasta snúning (þar sem þið snéruð við síðast). Prjónið SSK. Prjónið 1 lykkju slétt. Snúið við.

Hægra megin við rist (áður en lykkjur á rist eru prjónaðar): Prjónið 2 síðustu lykkjurnar í il saman sléttar.

Vinstra megin við rist (eftir að lykkjur á rist hafa verið prjónaðar): Prjónið SSK.

Prjónið nú með sléttu prjóni þar til sokkur, frá kanti hælstalls, mælist 14, 15.5, 17, 18 cm (sjá útskýringu á mynd fremst í uppskrift).

Úrtaka á tá

Umferð 1: Prjónn 1 (il): Prjónið 1 lykkju slétt. Prjónið SSK. Prjónið út prjóninn.

Prjónn 2 (il): Prjónið þar til 3 lykkjur eru eftir á prjóninum, prjónið þær saman slétt. Prjónið 1 lykkju slétt.

Prjónn 3 (rist): Prjónið 1 lykkju slétt. Prjónið SSK. Prjónið þar til 3 lykkjur eru eftir á prjóninum, prjónið þær saman slétt. Prjónið 1 lykkju slétt.

Umferð 2: Prjónið slétt og án úrtöku.

Endurtakið umferð 1 og 2 einu sinni til viðbótar (2x í heildina). Hér eftir er tekið úr í hverri umferð þar til 16 lykkjur eru eftir á prjónunum (8 lykkjur á il og 8 lykkjur á rist). Lykkið saman þessar 16 lykkur – www.bit.do/lykkjasaman.

Klippið bandið, dragið í gegnum lykkjurnar og saumið endann niður og inn í sokkinn. Prjónið hinn sokkinn eins.

Frágangur

Gangið frá öllum endum og þvoið sokkana samkv. þvottaleiðbeiningum á garni. Leggið til á handklæði og látið þorna. Með svona litlar flíkur er best að skola úr undir köldu vatni, kreista lauslega og leggja til.

34 Húsfreyjan 1. tbl. 2023

Fer ótroðnar slóðir í prjónahönnun

Viðtal við Auði Björt Skúladóttur

Þráttfyrir ungan aldur þá hefur

Auður Björt Skúladóttir vakið mikla athygli í prjónaheiminum á Íslandi og víðar undanfarin ár. Hún fer ótroðnar slóðir í sinni prjónahönnun. Auður Björt er mörgum lesendum Húsfreyjunnar kunn, en hún sá um tíma um Hannyrðahorn Húsfreyjunnar og kom þar fram með fjölbreyttar prjónauppskriftir. Margt hefur gerst í prjónahönnun hjá henni síðan þá.

Síðastliðið sumar lauk Auður Björt námi frá Háskóla Íslands og er orðin löggiltur textílkennari. En hún hefur verið að vinna sem textílkennari síðastliðin þrjú ár. Auður Björt segir að textílnámið hafi verið mjög spennandi og á sama tíma krefjandi. ,,Covid hafði mikil áhrif á það og setti mark sitt á námsumhverfið þar sem ég var meira og minna í fjarnámi vegna þess. En það hjálpaði líka, það gerði það að verkum að ég náði að stunda fullt nám og fulla vinnu yfir eins árs námstímabil.

Golfið heillar

Auður Björt býr í Hafnarfirði ásamt eiginmanni sínum Ingvari og börnum þeirra, þeim Ingvari 6 ára og Katrínu Emilíu 9 ára. Að sögn Auðar þá hefur hún búið allt sitt líf í Hafnarfirði. ,,Við erum miklir Hafnfirðingar enda býr öll okkar nánasta fjölskylda í Hafnarfirði . Maðurinn minn er kokkur og vinnur í mötuneyti og þegar hann er heima sér hann alfarið um matinn á heimilinu, ég er nefnilega alveg heft í eldhúsinu og vil frekar vera að prjóna og hanna heldur en að elda matinn. Við ferðumst mikið sem

fjölskylda. Á veturna förum við á skíði og á sumrin erum við í útilegum og í golfi. Ég æfði golf sem unglingur en setti það til hliðar þegar ég gekk með okkar fyrsta barn. Ég tók svo aftur upp kylfurnar í sumar og hef engu gleymt. Ekki skemmir að maðurinn minn hefur einnig áhuga og svo erum við líka að draga börnin í þetta. Þannig að golfið er orðið fjölskyldusport. Í sumar vaknaði upp áhugi á að læra golfið. Þar sem ég var nú að klára eitt nám, var um að gera að finna nýtt nám. Ég hóf sem sagt nám í Golfkennaraskólanum PGA núna í haust. Námið tekur þrjú ár og er kennt jafnt um veturinn en samtals 8 helgar á ári. Ég er hálfnuð með fyrsta árið, en námið er mjög skemmtilegt og fróðlegt. Ég er farin að hlakka mikið til næsta sumars, að geta farið að kenna golfið líka.

Laumuprjónari til að byrja með

Auður Björt er með langa reynslu af prjónaskap. Aðspurð hvernig áhuginn á prjónaskapnum kviknaði, segist hún einfaldlega hafa prjónað frá því að hún man eftir sér. ,,Ég man vel eftir mér sitjandi með mömmu í sófanum að prjóna og gera aðra handavinnu. Þegar ég var strand hjálpaði mamma mér og ég hélt svo áfram. Ég var samt svona laumu-

prjónari fyrst. Það var ekki mikið um að ungir krakkar væru að prjóna. Allavega var ég lítið að flagga því að ég prjónaði. Það var ekki fyrr en í menntaskóla að ég hitti aðra sem prjónuðu og þá var ég ekki lengur feimin við þetta. Þegar ég lít til baka þá held ég að ég hafi verið að prjóna meira og minna síðustu 20 árin.“

,,Eftir menntaskóla fór áhuginn á prjónatækni og prjónahönnun að kvikna. Ég var þá búin að fá prjónasett frá manninum mínum að gjöf. Ég vann í Fjarðarkaup og þar var nýbúið að opna stórt og fínt prjónahorn. Þar fékk ég vinnu seinnipartinn við að ráðleggja konum varðandi garn og fylgihluti. Þar þurfti ég að sanna mig fyrir viðskiptavinunum. Ég var oft var spurð hvort það væri ekki einhver önnur að vinna, og eiginlega gert ráð fyrir að ég vissi ekki neitt. Ég náði þó fljótt að sanna mig. Ég fór að leita mér meiri þekkingar og prufa mig áfram. Það var þá sem ég áttaði mig á að ég gæti unnið við að kenna handavinnu.

Tók U-beygju í lífinu

,,Eftir að hafa tekið eins árs frí eftir menntaskóla, unnið og safnað mér pening til að geta keypt mér íbúð, þá tók ég góða U beygju i lífinu. Ég hafði

Texti: Sigríður

Myndir:

35 Húsfreyjan 1. tbl. 2023
HÖNNUN
Ingvarsdóttir -
Ú r einkasafn i

stefnt á að fara í verkfræðinám en endaði í textílkennaranámi. Það var þá sem ég hannaði mína fyrstu flík. Það var barnalopapeysa með hettu. Með náminu eignaðist ég fyrra barnið mitt. Síðasta árið í náminu tók ég að mér handavinnuþáttinn í Húsfreyjunni. Ég leit á það sem einskonar stökkpall að prufa mig áfram, að hanna mínar eigin uppskriftir og gefa þær út. Það heppnaðist vel og birti ég þrjá handavinnuþætti í Húsfreyjunni. Eftir að hafa lokið við B.ed. gráðuna í náminu ákvað ég að taka mér pásu. Ég var ekki viss um að ég vildi fara að vinna við kennslu. Einnig var námið búið að vera mjög óútreiknanlegt og enn í hálfgerðri mótun. Ég fór að vinna í í garnversluninni Handprjón. Þar jókst þekking mín á garni og mismunandi prjónaaðferðum enn meir og hélt áfram að dýpka og þróast. Það var þarna sem hönnunin á bókinni hófst.

Ég fór að vinna með kaðla, eins báðum megin, bæði í teppum og sjölum. Ég fór að gefa út uppskriftir og vöktu þær mikla athygli og urðu vinsælar.“ Eftir þetta segist Auður Björt hafa verið óstöðvandi í að hanna prjónles eins báðum megin.

Elskar að kenna handavinnu

,Árið 2019 komu þrjár konur á námskeið hjá Auði Björt og ræddu við hana um að textílkennarinn á þeirra vinnustað væri að hætta störfum. Á þessum tíma var dóttir hennar að hefja sína skólagöngu og Auður Björt orðin þreytt á mjög löngum vinnudögum sem lauk oft ekki fyrr en kl. 18.

,,Ég greip tækifærið og kennsluáhuginn var mættur til mín. Ég sótti um og fékk starfið. Þarna ákvað ég einnig að fara aftur í nám og klára textílkennararéttindin. Ég útskrifaðist svo vorið 2022. Ég elska að kenna ungum

börnum handavinnu. Ég fann það mjög sterkt á Covid tímabilinu, þegar ég fékk ekki að kenna handavinnu, hvað mér þótti handavinnukennslan skemmtileg. Handavinnukennslan er mér svo eðlislæg, áreynslulaus og gefandi út af mínum góða grunni.

Sjöl og teppi – eins báðum megin Prjónabókin ,,Sjöl og teppi - eins báðum megin“, eftir Auði kom út í ágúst 2022. Þar er að finna á þriðja tug prjónauppskrifta af sjölum og barnateppum. Þetta er önnur bókin sem hún gefur út. Auður hefur áður sent frá sér bókina ,,Lopapeysuprjón – fyrir byrjendur og lengra komna“.

Eins og nafn bókarinnar bendir til þá er hönnun Auðar einstök fyrir það að verkin eru EINS báðum megin. Það er sem sagt ENGIN ranga - heldur má segja að það séu tvær réttur eða verkið jafn fagurt báðum megin. Þetta gerir það að verkum að stykkin verða mun notadrýgri og fallegri.

Auður leitar víða fanga við hönnun sína. Meðal annars í gamalt íslenskt handverk og til Hjaltlandseyja.

Í bókinni eru uppskriftir við allra hæfi, frá einföldum uppskriftum fyrir byrjendur upp í flóknari uppskriftir fyrir vana og reynslumeiri prjónara.

Samhliða útgáfu bókarinnar opnaði Auður vefsíðuna audurbjort.is þar sem hún birtir meðal annars myndir og skýringar-/kennslumyndbönd er varða innihald bókarinnar.

Uppskrift

Vetraboði er ein af fjögurra „boða“ uppskriftum í bókinni. Boðauppskriftirnar eru allar fullkomnar sem fyrsta verkefni. Vetraboði er samspil garðaprjóns og gataprjóns. Verkið hefst á miklu garðaprjóni og er síðan brotið upp með gataprjóni sem eykst þegar komið er lengra inn í sjalið og á sama tíma minnkar garðaprjónið. Í Vetraboðann þarf einungis tvær 100gr hespur af garni sem eru 400m hvor. Vetrarboðinn er einnig fullkominn sem afgangasjal. Athugið að það verður að skipta um lit í gataprjóns-umferð. Vetraboðinn er hálfmáni þannig að vænghafið er langt og miðjan stutt. Hann er því fullkominn innan undir úlpuna á köldum vetrardögum, sem hálsklútur eða yfir axlirnar.

36 Húsfreyjan 1. tbl. 2023

Vetrarboði

Í tilefni af 30 ára afmæli mínu hannaði ég þrjú sjöl í sama prjónastíl og sjalið Haustboða en með mismunandi útfærslum. Vetrarboðinn er hálfmáni sem er fljótprjónaður og einfaldur. Byrjað er á efri brún sjalsins með fáum lykkjum. Aukið er ört út báðum megin sem gerir vænghafið langt og mikið. Garðaprjónspartarnir eru breiðir í fyrstu en mjókka þegar neðar dregur. Þá breikka aftur á móti gataprjónspartarnir. Tilvalið er að leika sér með liti í þessu sjali.

Áhöld

4 mm hringprjónn, 80 cm eða lengri

Prjónamerki

Garn

Fínband

Dottir Dyeworks 100%

Merino SW, 100 g, 400 m

Litir: A: Blue moon og B: Cabernet

Garnþörf

Litur A = 100 g / 400 m

Litur B = 100 g / 400 m

Prjónfesta

19L = 10 cm garðaprjón, strekkt

Mál

Lengd: 215 cm

Breidd: 48 cm (í miðju)

Munstur

Garðamunstur

1. umf: (Ré) 3sl, Y, sl þar til

3L eru eftir af umf, Y, 3L óprj mbff.

2. umf: (Ra) 3sl, Y, sl þar til 3L eru eftir af umf, Y, 3L óprj mbff.

Gatamunstur

1. umf: (Ré) 3sl, (Y, úrt-H), endurtakið þar til 4L eru eftir af umf, Y, 1sl, Y, 3L óprj mbff.

2. umf: (Ra) 3sl, Y, sl þar til 3L eru eftir af umf, Y, 3L óprj mbff.

3. umf: 3sl, Y, sl þar til 3L eru eftir af umf, Y, 3L óprj mbff.

4. umf: 3sl, Y, sl þar til 3L eru eftir af umf, Y, 3L óprj mbff.

Með lit A fitjið upp 6L með lokaðri snúrufit. Á prjóninum eru 9L. Prj 6sl, 3 óprj mbff.

1. umf: (Ré) 3sl, Y, 3sl, Y, 3L óprj mbff. (ATH: passið að missa ekki uppsláttinn niður þar sem bandið er sett fyrir framan.)

2. umf: (Ra) 3sl, Y, 5sl, Y, 3L óprj mbff.

Prj með lit A garðamunstur x 19 (89L).

Prj með lit B gatamunstur x 2 (105L).

Prj með lit A gatamunstur x 1 (113L).

Prj með lit A garðamunstur x 10 (153L).

Prj með lit B gatamunstur x 3 (177L). Prj

með lit A gatamunstur x 1 (185L). Prj

með lit A garðamunstur x 8 (217L). Prj með lit B gatamunstur x 4 (249L). Prj með lit A gatamunstur x 1 (257L). Prj með lit A garðamunstur x 6 (281L). Prj með lit B gatamunstur x 5 (321L). Prj með lit A gatamunstur x 1 (329L). Prj með lit A garðamunstur x 4 (345L). Prj með lit B gatamunstur x 6 (393L).

Lokaumferð

Prj með lit A 1. umf í gatamunstri (395L).

Frágangur

Fellið af með snúruaffellingu (sjá bls. 8–9) þar til 7L eru eftir af prjóninum. Lykkið saman snúru (sjá bls. 8–9). Gangið frá endum og strekkið.

37 Húsfreyjan 1. tbl. 2023

Páskadögurður Árdísar

Páskarnir eru góður tími til að gera sér dagamun, styrkja vinaböndin og bjóða fólki heim. Árdís Hulda Eiríksdóttir, forstöðukona á Hrafnistu bauð nokkrum vinkonum sínum í páskadögurð og var öllu tjaldað til, enda hún orðlögð fyrir bragðgóðar veitingar og fallega framreiðslu. Það er eins með páskabröns og aðrar veislur, gott er að skipuleggja með góðum fyrirvara. Þar sem réttirnir voru margir, skipu-

Albert Eiríksson

lagði Árdís sig þannig, að hluta af veitingunum útbjó hún með góðum fyrirvara.

Gestir í boðinu voru: Hrönn Ljótsdóttir, Lovísa Jónsdóttir, Lucia Lund, Ragnhildur Hjálmarsdóttir, Sigurbjörg Hannesdóttir, Sigrún Erlendsdóttir, Soffía S. Egilsdóttir og Vilborg Eiríksdóttir

38 Húsfreyjan 1. tbl. 2023 MATARÞ ÁTTUR HÚSFREYJUNNAR
Texti: Albert EiríkssonMyndir: Silla Páls

Perur með gráðosti og pekanhnetum

1 stk. vel þroskuð pera Gráðostur

Pekanhnetur

Hlynsýróp (Maplesýróp)

Skerið peruna í tvennt að endilöngu, takið kjarnann úr, setjið peruna í eldfast mót. Setjið mulinn gráðost og gróft saxaðar pekanhnetur í holuna þar sem kjarninn var. Setjið hlynsýróp yfir.

Hitið í ofni við 180°C í 20 mín.

Berið fram með góðu kexi.

Boost

1 banani

1 pera, vel þroskuð Safi úr 1 appelsínu

Frosið mangó, 4 msk. Smá engiferrót, eftir smekk

2 msk. möndlur með hýði ½ - 1 dl vatn

Klaki

Setjið allt í blandara og hrærið þar til er silkimjúkt, borið fram í fallegum glösum.

39 Húsfreyjan 1. tbl. 2023
Bakaðar perur er réttur sem kemur verulega á óvart, alveg sjúklega góð samsetning.

Ananasostakaka

Botn

250 gr gott kex, t.d. hafrakex með karmellu og súkkulaði 50 gr smjör, brætt

Myljið kexið t.d. í matvinnsluvél og bætið bráðnu smjörinu út í. Setjið í mót. Kælið í ísskáp á meðan fyllingin er búin til.

Fylling

400 gr rjómaostur

4 eggjarauður

6 msk. sykur

1 msk. sítrónusafi

4 msk. ananaskurl

1 peli rjómi, þeyttur

4 blöð matarlím

Leggið matarlímið í bleyti í kalt vatn í 5 mínútur. Bræðið yfir vatnsbaði, ásamt sítrónusafanum. Kælið.

Þeytið rjómaost, eggjarauður og sykur vel saman. Bætið ananaskurli út í. Bætið síðan matarlímsblöndunni

út í, hellið í mjórri bunu og þeytið vel á meðan. Að lokum er rjómanum hrært varlega saman við.

Hellið fyllingunni yfir botninn og kælið vel í a.m.k. 4 klst.

Hlaup

½ líter hreinn ananassafi

4 blöð matarlím

Leggið matarlímið í bleyti í kalt vatn í 5 mín. og bræðið síðan í ananassafanum yfir vatnsbaði.

Kælið.

Hellið yfir kökuna. Kælið í ísskáp þar til hlaupið er orðið stíft.

40 Húsfreyjan 1. tbl. 2023
Ananas er í uppáhaldi hjá mörgum ekki síður en ostakökur - þannig að útkoman getur bara orðið góð. Kosturinn við ostaköku eins og þessa er að hana er gott að útbúa daginn áður.

Páskamarengsterta með passioncurd

Marengs

6 eggjahvítur

300 g sykur

Stífþeytt saman.

3 botnar, bakið við 110°C á blæstri í 60 mínútur. Takið út og kælið.

Passioncurd

4 egg

2 eggjarauður

3 sítrónur, nota bæði safann og fínrifinn gula hlutann af berkinum

2 dl sykur

10 passion ávextir (ástríðualdin), kjötið tekið úr

100 g ósaltað smjör, brætt við lágan hita

Blandið öllu nema smjöri saman í pott, hitið við vægan hita og hrærið í þar til þykknar, takið af hitanum og hrærið smjörinu saman við. Kælt í ísskáp.

3 pelar rjómi

Setjið tertuna saman, ofan á hvern botn fer passioncurd og þeyttur rjómi.

Best er að setja tertuna saman kvöldið áður en hún er borin fram svo að marengsbotnarnir nái að brjóta sig. Geymið í kæli þar til kakan er borin fram.

Þessi samsetning er himnesk, marengsbotnar, þeyttur rjómi og passioncurd á milli. Passioncurd er ekkert síðra en sítrónusmjör(lemoncurd), passioncurd mundi sennilega kallast ástríðualdinsmjör á íslensku en það hljómar frekar einkennilega.

41 Húsfreyjan 1. tbl. 2023

Sjávarréttabrauðréttur

1 dós sýrður rjómi

200 g mæjónes

2 msk. rjómi

2 tsk. karrý

2 tsk. aromat

1 tsk. hvílaukssalt

Smá Cayenpipar

Hvítt brauð

Hrærið saman sýrðum rjóma, mæjónesi, rjóma og kryddi.

Takið skorpuna af brauðinu, skerið brauðið niður í teninga og setjið út í sósuna. Setjið í mót.

Setjið yfir egg, rækjur, krækling, surimi.

Gerbrauð með fyllingu

½ pakki þurrger

1 dl mjólk

2 dl vatn

¼ dl matarolía

1 tsk. salt

450 - 475 gr hveiti

Blandið saman vatni og mjólk og hitið þar til verður ylvolgt, bætið þurrgerinu út í, látið taka sig í nokkrar mínútur. Bætið út í matarolíu, salti og hveiti. Hnoðið saman og látið lyfta sér í ca. 40-45 mín.

Fylling

Pepperoni

Reykt skinka

Rifinn cheddarostur

Rifinn mexíkóostur

Smurostur með beikonbragði

1 egg til að pensla með

Þegar deigið er búið að lyfta sér, fletjið það út, smyrjið beikonsmurosti á deigið, setjið fyllinguna inn í eftir endilöngu deiginu, lokið með því að brjóta deigið saman. Penslið að utan með eggi og stráið mexíkóosti yfir. Látið lyfta sér í 30 mín. Bakað ofarlega í ofni við 225°C í um 25 mínútur.

42 Húsfreyjan 1. tbl. 2023
Bragðmikið kaffimeðlæti sem öllum líkar vel.

Laxaplatti með rjómaosti

1 Hreinn rjómaostur

1 Rjómaostur með graslauk og lauk Vorlaukur, fínt skorinn

Kapers

Sítrónubörkur, rifinn

Svartur pipar, nýmalaður

Reyktur lax

Dill

Hrærið saman rjómaostunum og setjið fínsaxaðan vorlauk út í. Smyrjið á platta. Setjið yfir lax, sítrónubörk, vorlauk, kapers, dill og nýmalaðan pipar. Borið fram með kexi.

Jógúrt með kanil og mangói

Hrein grísk jógúrt frá Örnu

Rjómi

Kanill

Hlynsýróp

Mangó

Hrærið saman gríska jógúrt og rjóma þar til ykkur finnst jógúrtin passlega þykk. Bætið út í kanil og hlynsýrópi, magn eftir smekk.

Skerið niður mangó í litla bita og setjið í botninn á glasinu, setjið jógúrtina yfir.

Ofan á: Ristið á pönnu, kókosflögur, sesamfræ, saxaðar pekanhnetur, sólblómafræ, setjið smá hlynsýróp yfir. Takið af pönnunni, setjið á bökunarpappír og kælið.

Brotið niður og sett ofan á jógúrtið, ásamt ávöxtum t.d. mangói og bláberjum.

43 Húsfreyjan 1. tbl. 2023
Fallegur réttur sem sómir sér vel á hvaða veisluborði sem er. Fallegur, einfaldur og lystugtugur eftirréttur

Kaffilituð egg

Egg

Vatn

Ediksýra

Kaffi, instant (líka hægt að nota venjulegt kaffi)

Hlutföll

1,5 líter vatn á móti

1 msk. af ediksýru.

Kaffi, fer eftir hvað maður vill hafa litinn dökkan, ég notaði 3 msk.

Setjið egg og vatn í pott þannig að vatnið fljóti yfir, bætið ediki út í vatnið ásamt kaffi og sjóðið í 10 mínútur, slökkvið undir og kælið. Látið eggin standa í vökvanum í 4-6 klst.

Húsfreyjan er fjölbreytt og vandað tímarit Kvenfélagasambands Íslands

Hægt er að velja um að fá blaðið sent heim á pappír eða fá áskrift eingöngu rafrænt.

Allir áskrifendur hafa aðgang að áskriftarvefnum á husfreyjan.is.

Á áskriftarvefnum er að finna mörg eldri blöð Húsfreyjunnar.

Til að gerast áskrifandi ferðu inn á husfreyjan.is eða hefur samband við skrifstofu Húsfreyjunnar s. 552 7430

44 Húsfreyjan 1. tbl. 2023
97 70018 79800 02 ISSN 0018-7984 HUSFREYJAN ´ KVENFÉLAGASAMBAND ÍSLANDS 3. TBL. 71. ÁRG. 2020 VERÐ KR. 1990 Kolvetnaminni matur Uppskrift af vináttu Bökum eigin brauð COVID-þrif
heimilumEinstakur útsaumur Djúp gleði að miðla þekkingu um mikilvægi heimilanna 97 70018 79800 03 ISSN 0018-7984 Ég kemst í hátíðarskap Helga Möller og Elísabet Ormslev KVENFÉLAGASAMBAND ÍSLANDS 4. TBL. 71. ÁRG. 2020 VERÐ KR. 1990 97 70018 79800 04 ISSN 0018-7984 KvenfélagasambandÍslands 1.tbl.72.árg.2021 Verð1.990kr. Ása Steinunn Atladóttir hjúkrunarfræðingur og kvenfélagskona 97 70018 79800 01 ISSN 0018-7984 Samvinna og samstaða þjóða KvenfélagasambandÍslands 3.tbl.72.árg.2021 Verð1.990kr. 97 70018 79800 03 ISSN 0018-7984 GRUNNURINN AÐ LÍFI OKKAR DR. RAGNHEIÐUR I. ÞÓRARINSDÓTTIR REKTOR LANDBÚNAÐARHÁSKÓLA ÍSLANDS PRJÓN: FLÉTTA OG RANDVER FLOTTAR PEYSUR AFTURNÝTING OG ENDURNÝTING SMALABAKA OG BLÁBERJABAKA SMÁSAGA OG KROSSGÁTA KvenfélagasambandÍslands 4.tbl.72.árg.2021 Verð1.990kr. Jákvæðoghvetjandi Landsþing KÍ Jólamaturinn Prjónauppskriftir Jólastemning Smásögur 9770018 79800 0018-7984 9770018 798008 04 0018-7984 Sesselja Ómarsdóttir Líftækni,kraftlyftingarlyfjaþróun,og köfun
á

Algeng vandamál í þvottavélum og ráðleggingar við lausn vandans

Leiðbeiningastöð

heimilanna hefur

í fjölda ára aðstoðað marga gjaldfrjálst við val á heimilistækjum og fáum við margar spurningar varðandi hin ýmsu heimilistæki. Algengustu spurningarnar varða þvottavélarnar okkar og þvottinn. Það er ýmislegt sem kemur upp, s.s. hvort þvottavélin sé ekki að þvo eins vel og áður eða að hún leki eftir hvern þvott. Ekki hunsa merki um að eitthvað sé að vélinni þinni. Sum þvottavélarvandamál er hægt að leysa mjög auðveldlega með því að nota einföld verkfæri eða jafnvel bara með því að herða slönguna, á meðan önnur vandamál gætu þurft vinnu fagmanns. Lengjum líftíma heimilistækjanna okkar, það er ekki alltaf ástæða til að kaupa nýtt.

Í almennri stefnu stjórnvalda um úrgangsforvarnir til ársins 2027 eru raftæki sett í brennidepil á árunum 2022 – 2023 í verkefninu ,,Saman gegn sóun“.

Ef þú ert hins vegar að nota meiri tíma í viðgerðir en að þvo í þvottavélinni þinni gæti verið kominn tími til að kaupa nýja. Mikilvægt er að skila gömlu biluðu vélinni í endurvinnslu. Öll stærri raftæki (svokölluð hvítvara) nema kælitæki fara í flokkinn Stór raftæki og skal skilað á móttökustöðvar Sorpu. Tækin eru tætt í sundur hjá viðurkenndum vinnsluaðilum. Efni hættuleg umhverfinu eru flokkuð frá og meðhöndluð með viðeigandi hætti. Endurvinnsluefni, t.d. málmar, eru flokkuð frá og komið í réttan farveg.

Hér er að finna leiðbeiningar og ráð um hvernig má laga nokkur vandamálum í þvottavélum og hvenær þarf að hafa samband við fagmann.

Þvottavélin þrífur ekki nægilega vel

Ein algengasta ástæðan er stífla. Ef þvottaefnið kemst ekki að fötunum þínum, þá getur þvottavélin ekki þvegið almennilega. Ef það er stífla, munu

þvottaefni, sýklar og jafnvel mygla að lokum safnast upp og flytjast yfir í þvottinn þinn. Þetta gerist líka ef sían eða frárennslisrörið er stíflað.

Prófaðu að þrífa bæði þvottaefnisskúffuna og síuna áður en þú byrjar á næsta þvottaferli. Ef það er ekki að virka gætirðu þurft að athuga frárennsli.

Aðrar ástæður gætu verið:

• Ofhleðsla – Ef troðið er of miklu í vélina hreyfist þvotturinn ekki nægilega, óhreinindi festast þá á milli þvottsins og of lítið pláss er eftir fyrir þvottaefnið til að dreifast.

• Rétt þvottaefni eða rétt þvottakerfi –Hafa ber í huga við kaup á þvottaefnum að ákveðin þvottaefni virka best við ákveðið hitastig. Eins eru ákveðin þvottakerfi vélarinnar hönnuð fyrir sérstakar flíkur s.s. silki. Ef þú velur rangt þvottakerfi gæti það leitt til þess að þvottavélin er ekki að vinna nægilega á því sem verið er að þvo.

Af hverju klárar þvottavélin ekki?

Ef vélin þín er tiltölulega ný ætti hún að birta villukóða þegar hún nær ekki að klára þvottalotu. Ef svo er skaltu skoða handbók vélarinnar til að hjálpa þér

45 Húsfreyjan 1. tbl. 2023 LEIÐBEININGASTÖÐ HEIMILANNA
Umsjón: Jenný Jóakimsdóttir

að finna bestu leiðina til að takast á við vandamálið.

Þegar villukóði birtist ekki geta aðrar orsakir verið:

• Gölluð upphitun – Ef vélin slekkur á sér á fyrsta hálftímanum gæti verið að vatnið sé ekki að hitna rétt, sem verður til þess að vélin stöðvist í miðri lotu. Á hinn bóginn, ef vélin stöðvast eftir 30 mínútur gæti vatnið verið að ofhitna, sem aftur neyðir vélina til að stöðvast. Líklegasta orsökin fyrir þessu er bilaður hitastillir.

• Frárennsli – Ef vélin þín getur ekki tæmt vatnið á milli hverrar lotu gæti það þvingað vélina til að stöðvast of snemma. Athugaðu hvort séu stíflur í dælusíu og frárennslisslöngunni.

• Gölluð tenging – Ef tengingin er ekki rétt gæti vélin kveikt og slökkt á sjálfri sér af handahófi. Þetta getur verið erfitt að ákvarða svo það er skynsamlegt að kalla út tæknimann.

• Ofhitnun – Ef þú hefur notað vélina þína stanslaust í fimm klukkustundir eða meira gæti komið upp ofhitnun. Gefðu vélinni frí og reyndu aftur síðar.

• Leki – Sumar vélar stöðvast í miðri þvottalotu ef grunur leikur á leka. Ef þú sérð vatn koma einhvers staðar úr vélinni skaltu athuga slöngur, dælu og hurðarþéttingu.

Þvottavélin fer ekki í næstu lotu Líklegasta ástæðan fyrir því að þvottavélin fer ekki í næstu lotu er bilaður tímamælir. Tímamælirinn stjórnar hverju skrefi í lotunni, færir ferlið frá þvotti til skolunar og snýst síðan. Þannig að ef tímamælirinn bilar geta loturnar ekki haldið áfram sjálfkrafa.

Góðu fréttirnar eru þær að þú getur auðveldlega skipt um það sjálf eða ráðið iðnaðarmann til að gera það fyrir þigvertu viss um að þú kaupir tímamæli sem er samhæfður við tegund og gerð þvottavélarinnar.

Aðrar mögulegar orsakir eru:

• Hurðarlás eða samlæsing – Samlæsingin er virkjuð þegar hurðinni er örugglega lokað með læsingunni. Það gerir vélinni kleift að vita að það er óhætt að hefja þvottinn eða fara í næsta lotu meðan á þvotti stendur. Ef þetta bilar veit vélin ekki hvort og hvenær hún er tilbúin til að halda áfram.

• Frárennsli – Frárennslisdælan fjarlægir umfram vatn úr tromlunni í hverju skrefi þvottaferilsins. Ef frárennslisdælan er biluð og getur annað hvort ekki fjarlægt vatnið eða gefið til kynna að það sé búið, þá mun vélin ekki halda áfram að vinna. Undarleg hljóð sem koma frá vélinni meðan á tæmingu stendur eru öruggt merki um að vandamál.

Þvottavélin mín snýst ekki

Ef þvotturinn þinn nær enda á hverri lotu en neitar að snúast, gæti það verið eitthvað eins einfalt og ofhleðsla, sem veldur því að hún kemst í ójafnvægi. Ef þú hefur til dæmis sett of mörg þung handklæði í vélina, getur þyngdin haft áhrif á skynjarana og slökkt á vélinni. Flestar nýjar vélar í dag láta vita ef þú hefur sett of mikið í hana.

Ef vandamálið er ekki ofhleðsla gæti ástæðan verið eitt af eftirfarandi:

• Brotinn hurðarlás eða samlæsing – ef annað hvort er bilað eða slitið þá fær þvottavélin ekki grænt ljós um að byrja að snúast. Þú getur athugað þetta með því að ýta á lásinn - ef það smellur ekki er það bilað. Horfðu líka á plasthlutana í kringum hurðarlásinn, ef þeir eru slitnir eða tærðir getur verið að merkið virki ekki.

• Reimin – Athugaðu hvort reimin sé rót vandans með því að opna hurðina og reyna að snúa tromlunni. Það ætti að vera einhver mótstaða - ef tromlan snýst hins vegar of auðveldlega þá gæti þurft að skipta um reimina.

• Stífla – Ef tromlan getur ekki tæmt sig þá byrjar snúningurinn ekki. Ef þú sérð enn vatn inni í vélinni þegar snúningurinn ætti að vera að byrja er það merki um að það þurfi að athuga hvort frárennslislagnir séu stíflaðar.

Aðrar orsakir gætu verið bilaður drifmótor eða dæla. Ef þú ert enn ekki viss um orsökina skaltu hafa samband við fagmann.

Af hverju kemur vond lykt úr þvottavélinni?

Það þarf að þrífa þvottavélar af og til. Vond lykt getur komið frá óhreinni hurðarþéttingu eða myglu í tromlu eða þvottaefnisskúffu.

Byrjaðu á að kanna hvort sé stífla í síu og frárennslisslöngu. Settu handklæði á gólfið til að taka við bleytu og dragðu síuna út (venjulega neðst á vélinni). Fjarlægðu allt kusk eða rusl.

Áður en þú skoðar frárennslisslönguna skaltu hafa fötu tilbúna vegna þess að það getur komið vatn úr henni þegar þú losar það frá úrgangsgildrunni undir vaskinum. Skoðaðu bæði slönguna og gildruna varðandi hugsanlega stíflu.

Ef það eru engar stíflur gæti þurft

46 Húsfreyjan 1. tbl. 2023 LEIÐBEININGASTÖÐ HEIMILANNA

að hreinsa vélina vel. Mygla, uppsöfnuð óhreinindi og þvottaefni geta valdið vondri lykt.

Hægt er að laga flest vandamál með þvottaefnisskúffur með því að hreinsa þær vel og framleiðendur mæla með því að þú gerir það reglulega. Ef þvottaefnisskúffan er í raun biluð er hægt að kaupa varahluti frá framleiðanda.

Fjarlægðu skúffuna alveg úr þvottavélinni, notaðu heitt vatn og uppþvottalög og vertu með hanska til að skrúbba hana vel. Það þarf líka að þrífa þar sem skúffan situr í vélinni og gæta sérstaklega að holunum efst.

Það er líka þess virði að gera þjónustuþvott á vélinni þinni, sem þýðir að keyra mjög heitan þvott eða sérstakt forrit, flestar nýjar vélar láta vita ef þörf er á tromluhreinsun. Skoðaðu handbókina til að fá nánari upplýsingar. Að gera þetta einu sinni í mánuði hjálpar til við að halda óhreinindum í skefjum.

Brunalykt frá þvottavélinni

Brunalykt sem kemur frá þvottavélinni þinni getur bent til hættulegra aðstæðna.

Slökktu strax á vélinni og taktu hana úr sambandi.

Brunalyktin gæti stafað af bilaðri reim eða mótor. Hafðu samband við fagmann til að greina vandamálið.

Af hverju lekur þvottavélin?

Of mikið þvottaefni getur valdið of mikilli froðu sem veldur því að tromlan offyllist og lekur.

Þú skalt ganga úr skugga um að vélin sé alveg jöfn á gólfinu – ef svo er ekki getur vatn seytlað út.

Ef vélin er enn að leka, þá er kominn tími til að skoða slönguna. Hertu tengingarnar og leitaðu að sprungum eða rifum.

Ef vatn lekur enn í næstu lotu gætirðu þurft að skipta um vatnsinntakssíuna eða vatnsslönguna. Allt uppsafnað rusl og/ eða almennt slit getur valdið því að þessir hlutir bili og leki.

Ef slangan sjálf er að leka, þá þarf að skipta um hana.

Það er skynsamlegt að athuga vatnsdæluna líka.

Ef lekinn er aðeins minniháttar og kemur að framan gæti þetta verið þvottavélarhurðin. Innsiglið í kringum hvelf-

inguna getur slitnað með aldrinum, sem leiðir til leka og/eða þéttingar, en það er auðvelt að skipta um hana.

Hávaðavandamál í þvottavél Hvort sem þvottavélin skröltar, suðar eða titrar og hávaðinn er óhóflegur þá er eitthvað að sem þú ættir ekki að hunsa.

Mögulegar orsakir eru:

• Slitnar trommulegur

• Þvottavélafætur í ójafnvægi

• Hindranir í ytri potti og innri tromlu

• Mikið þvottaefni.

Undarleg hljóð sem koma frá þvottavél ætti að kanna, jafnvel þótt þau séu hljóðlát.

Algengustu ástæðurnar fyrir undarlegum hljóðum í þvottavél eru klink og brjóstahaldaravír.

Þú finnur fleiri ráð og greinar um heimilistæki á heimasíðu Leiðbeiningastöðvarinnar www.leidbeiningastod.is

Heimildir:

Frá Which; Neytendasamtökum í Bretlandi

2023 Hönnunar - og prjónasamkeppni

Iceland knit fest- Blönduósi - 9. - 11. júní

Verkefnið er að endurvinna íslenska lopapeysu og nota hana sem grunnefnivið í nýja nothæfa flík

Íslensk lopapeysa er skilgreind í keppninni sem handprjónuð peysa úr íslenskum lopa, prjónuð í hring með munstruðu berustykki.

Reglur:

Nota skal íslenska lopapeysu í flíkina

Flíkinni þarf að vera hægt að klæðast

Endurvinna má önnur efni og nota með í flíkina

Prjón skal vera megin vinnuaðferð við vinnslu verksins en einnig má nota aðrar handverksaðferðir

Verkið verður metið út frá frumleika, notagildi og handverki

Fylgja skulu myndir af ferlinu og sagan á bak við hönnunina, hver var peysan og hver er hún orðin?

Upplýsingar um skil:

Síðasti skiladagur er 15. maí 2023. Verkin skal merkja með dulnefni en nafn, heimilisfang, símanúmer og netfang látið fylgja í lokuðu umslagi merktu dulnefninu.

Senda skal fullunnið verk til:

Textílmiðstöð Íslands

bt: Svanhildar Pálsdóttur

Kvennaskólanum

540 Blöndósi

Móttakandi heitir fullum trúnaði við þátttakendur.

Dómnefnd velur 3 efstu sætin. Úrslitin verða kynnt og verðlaun afhent á Prjónagleðinni 2023. Ístex, Tundra, VatnsnesYarn og Rúnalist gefa glæsileg verðlaun. Verkin verða til sýnis á hátíðinni.

Nánari upplýsingar veitir Svanhildur Pálsdóttir (svana@textilmidstod.is) og þær má einnig finna á https://www.textilmidstod.is

47 Húsfreyjan 1. tbl. 2023 LEIÐBEININGASTÖÐ HEIMILANNA

Viltu finna milljón?

Viðtal við Hrefnu Björk Sverrisdóttur

kom út bók sem ber hið áhugaverða heiti,,Viltu finna milljón – Þú átt meiri pening en þú heldur“. Höfundar bókarinnar eru þau Hrefna Björk Sverrisdóttir og Grétar Halldórsson. Í bókinni er spurt: Af hverju að gefa fyrirtækjum út í bæ tugi ef ekki hundruð þúsunda af tekjunum okkar á hverju ári ef við getum auðveldlega komist hjá því? Er ekki betra að njóta peninganna sjálf og nota þá í eitthvað sem veitir okkur ánægju?

Nýverið

sem settar eru fram á aðgengilegan og einfaldan hátt um hvernig hægt sé að minnka kostnað og auka tekjur. Allt frá beinum aðgerðum í fjármálum yfir í að greina samskipti þegar kemur að peningum og eyðslumynstri.

Hver er Hrefna Björk?

Hrefna Björk annar höfundur bókarinnar er viðskiptafræðingur að mennt og segist lengi hafa haft áhuga á fjármálum og lesið sig mikið til um fjármál. Að mati

Hrefnu Bjarkar þá vantaði einfalda bók á mannamáli um fjármál og góð ráð t.d. varðandi sparnað og hvernig betur er hægt að fara með fjármagn. ,,Við erum öll daglega að sýsla með fjármuni en sá fróðleikur sem haldið er á lofti, beinist oft að því hvernig fólk á að ávaxta peningana sína eða standa að fjárfestingum.“

Í bókinni er mikið til verið að fjalla um einfalda hluti sem snertir okkar

hversdagslegu

neyslu og daglega

líf sem við erum

öll að fást við

svo sem rekstur

fjölskyldu og

heimilis, matarinnkaup, þrif, tómstundir, samgöngur, ferðalög, kaup á fasteignum. Þar eru tíundaðar fjölmargar aðferðir

,,Ég er 41 árs, tveggja barna móðir. Alin upp í Garðabæ, en flutti 9 ára gömul í vesturbæ Reykja víkur og hef haldið mig á því svæði þangað til ný verið er við fluttum út á Seltjarnarnes. Í gegnum tíðina hef ég komið að alls konar ólíkum verkefnum, mörgum tengdum út gáfu og fjölmiðlum en ég hef alltaf fengið mikla ánægju út úr því að skapa og koma hlutum í framkvæmd. Í dag rek ég veitingastaðinn ROK ásamt því að sinna bókaútgáfunni.“

Erum flest að eyða meira en við þurfum

Að sögn Hrefnu

Bjarkar þá erum við mjög oft að samþykkja kostnað án þess að gera okkur grein fyrir því eða rýna betur í hlutina. Einfalt dæmi eru seðilgjöld á reikningum

en oft er hægt að komast hjá þeim með því að setja reikninga í beingreiðslur. Þá kaupum við oft vörur og þjónustu án þess að leita okkur betri tilboða annars staðar. Við erum stundum að borga fyrir tryggingar á tveimur stöðum, dæmi um það eru ferðatryggingar sem margir eru bæði með í heimilistryggingum og í gegnum kreditkortin sín. Enn fremur segir Hrenfa Björk að við séum mörg frekar óskipulögð þegar kemur að því að kaupa hluti. ,,Ég held að við séum oft frekar hvatvís og óþolinmóð og eigum það til að kaupa bara það fyrsta sem okkur líst vel á. Þetta getur t.d. verið mjög dýrkeypt þegar kemur að raftækjum, en með smá rannsóknarvinnu þá getum við keypt vandaða endingargóða hluti auk þess sem mörg tæki fara oft á mjög góð tilboð nokkrum sinnum á ári. Því getur margborgað sig að bíða aðeins með kaupin og kanna málin betur.“

Mikil sóun tengd mat

Matur er næststærsti útgjaldaliður flestra heimila á eftir húsnæði. ,,Með því að rýna í matarvenjur sínar og gera litlar breytingar geta því sparast miklir peningar. Gott er að venja sig á að reyna að skipuleggja matarinnkaupin nokkra daga fram í tímann. Færri búðarferðir þýða oftast minni útgjöld, en oft kaupum við flest eitthvað meira en okkur vantar. Auðvitað á svo aldrei að fara svangur að versla í matinn. Þá er einnig gott að prófa að hafa einn til tvo kjötog fisklausa daga í viku. Það eru mjög

48 Húsfreyjan 1. tbl. 2023
FJ ÁRMÁL Texti: Sigríður IngvarsdóttirMyndir: Ú r einkasafn i

dýr hráefni og ef þú sleppir þeim nokkra daga í viku, þá sparast mikið. Það er hægt að gera mjög góðan mat úr grænmeti og hrísgrjónum, eða búa til góða súpu og brauð. Mörg heimili eru að henda of miklum mat en matarsóun er náttúrulega eins og að henda pening. Ef við ímyndum okkur í hvert sinn sem við setjum mat í ruslið að þetta séu peningar, þá fer fólk að horfa öðruvísi á matarsóun. Það skiptir líka miklu máli að geyma hráefnin rétt, en rétt geymsluaðferð getur lengt líftíma matvöru um marga daga.“ að sögn Hrefnu Bjarkar.

Pör og fjármál

Önnur stærsta skilnaðarástæðan eru fjármál en samt sem áður er mjög algengt að pör og hjón setjist aldrei niður og ræði fjármál. Að sögn Hrefnu þá er þetta í raun svolítið sérstakt. ,,Fæst pör setjast niður til að ræða sérstaklega fjármálin og væntingar til þeirra. Flestir lifa svolítið dag frá degi og oft getur skapast mikil togstreita á milli aðila í sambandi þar sem væntingar þeirra til fjármála eru mjög ólíkar,þar sem við erum oftast ólíkir persónuleikar. Það er algengt að annar aðilinn sé sparsamari en hinn og oft fer í taugarnar á öðrum aðilanum eyðsla hins. Við erum því með í bókinni kafla sem tekur á þessum samskiptum og mælum með peningingastefnumótun þar sem við komum með hugmyndir að því sem pör geta rætt um. Oft snýst þetta bara um samskipti og að skilja drauma og væntingar hvors annars og þá er hægt að vinna að markmiðum beggja. En að gefa sér tíma og fara yfir hlutina þannig að allir séu meðvitaðir um stöðuna og framtíðina er mjög mikilvægt.“

Verum meðvituð um neysluna

Í bókinni er alls ekki verið að halda því fram að fólk eigi að hætta að lifa lífinu, en það er mjög auðvelt að bæta daglegan rekstur og við getum öll tekið okkur á og hætt að sóa fjármunum að óþörfu. Að sögn Hrefnu Bjarkar þá eigum við að vera meðvituð um neysluna okkar, læra betur inn á okkur sjálf. Taka meðvitar ákvarðanir um hve miklu við ætlum að eyða t.d. í fríum.

,,Það er gott að setja sér ákveðin markmið fyrirfram. T.d. ákveða hversu miklu þú ætlar að eyða í fríinu og jafnvel brjóta það niður á daga. Þá er auð-

veldara að halda utan um það. Einnig ef þú setur þér markmið en ert ekki bara að spara fyrir einhverju þá verður það oft auðveldara, t.d. ef þú ert með markmið um að fara í tveggja mánaða ferðalag eftir einhvern ákveðinn tíma og ert búin að finna út að þú þurfir að safna þér 1.5 milljón til að geta farið. Þegar þú stendur síðan frammi fyrir ákvörðun um að kaupa t.d. nýja skó eða fara út að borða þá er gott að spyrja sjáfa þig að því hvort þig langi frekar í skóna eða að komast í ferðalagið. Þá verður ákvörðunin oft mjög auðveld þar sem markmiðið að komast í frí er eitthvað sem þig langar virkilega til.

Það getur virkað mjög vel fyrir marga að tileinka sér peningalausan dag einu sinni í viku til að draga úr útgjöldum. Það virkar í raun eins og það hljómar, að eyða engum peningum einn dag í viku. Á suma virkar betur að fara út í öfgar í aðra áttina og þá geta svona dagar komið sér vel en nokkrir svona dagar í mánuði safnast saman í stærri upphæðir.„

Góð ráð varðandi veislur Hrefna Björk ráðleggur fólki að skipuleggja viðburði fyrirfram. ,,Oftast vitum við með góðum fyrirvara ef það stendur til að halda stóra veislu. Brúðkaup, skírn, ferming, útskrift eða stórafmæli gera boð á undan sér. Með því getur þú byrjað að leggja inn á sér reikninginn fyrir veislunni og þá verður hún ekki jafn dýr þegar að henni kemur. Ef bjóða á upp á áfengi í veislunni er sniðugt að safna áfengi með því að fá vini og vandamenn til að kaupa flöskur í fríhöfninni þegar þeir eiga leið til útlanda þar sem verðmunurinn á víni þar og í vínbúðunum er mjög mikill.

Það þarf að ákveða fjölda og skoða svo á hvaða degi og klukkan hvað maður hyggst halda veisluna. Það skiptir mjög miklu máli þegar kemur að kostnaði. Veislur sem haldnar eru seint um helgar krefjast þess oft að keypt sé mikið af áfengi, en fyrir veislur yfir miðjan dag er yfirleitt nóg að bjóða upp á eitthvað sætt og kaffi. Veislur í miðri viku standa styttra o.s.frv. Það getur því skipt mjög miklu máli hvenær, á hvaða degi og tíma dags veislan er haldin.

Ef bjóða á upp á mat þá er um að gera að flækja það ekki of mikið og reyna að hafa brauð og grænmeti í meirihluta

þar sem það er ódýrara hráefni. Brauð, risotto, hrísgrjónaréttir, kartöfluréttir, snittur og brauðréttir eru ódýrir en einnig mjög mettandi.“

Eigin reynsla

Að lokum segir Hrefna Björk að sín reynsla í gegnum tíðina hafi verið allskonar í fjármálum. ,,Þegar ég var yngri þá eyddi ég oft miklum peningum í allskonar vitleysu. Ég hef alltaf unnið mikið og vann svakalega mikið með skóla um kvöld og helgar alveg frá því ég var 16 ára. Ég hafði því peninga til umráða og þá voru oft teknar vitlausar ákvarðanir og mánaðarlaunum eytt hratt. Með tímanum hef ég hins vegar áttað mig á því hvað það er mikið af dóti sem við kaupum og höfum svo engin not fyrir. Þá hef ég einnig komist að því hversu oft maður gleymir því sem mann langaði í úr búðinni, bara með því að bíða með kaupin í tvo til þrjá daga. Þá er það svo góð tilfinning að eyða aðeins minna og skulda ekki of mikið, að maður eigi vel fyrir afborgunum um mánaðarmót og geti lagt fyrir í varasjóð. Það er svo mikið frelsi fólgið í því og ég tala nú ekki um að sleppa við að borga fyrirtækjum út í bæ stóran hluta af launum manns í eitthvað sem veitir manni ánægju í mjög skamman tíma. Ég leyfi mér hinsvegar alveg að lifa lífinu og elska t.d. að fara út að borða, ferðast og gera skemmtilega hluti. Ég reyni bara að halda jafnvægi með því að vera skynsöm 80% af tímanum og eyða ekki í óþarfa svo að ég geti leyft mér meira af þeim hlutum sem veita mér raunverulega gleði.“

49 Húsfreyjan 1. tbl. 2023
Hrefna Björk og Magnús Scheving með nýfæddan son sinn.

Verðlaunakrossgáta

Frístundar krossgátur © Húsfreyjan HEIMTA ÓSKILIN MÁLNYT GÖTU Í REYKJAVÍK SPRIKLBÆKLING

Frístundar krossgátur © Húsfreyjan VEIÐA HEY TIL ÞERRIS TRJÁGRÓÐURINN TALA SAMRÆMT RÖSKIR 1 DREN

DRÓ AF FÆRÐ GRÍSKRAR VEIÐIGYÐJU BÓKSTAF FORNGRÍSK MYNT RÆÐISMANN

SKAFRENNING

TROSNAÐ FLJÓTFÆRNI

2

ERTING ARFBERANA MANNSNAFN Í KVIKMYNDUM

Frístundar krossgátur © 5 SKAPS FANG TOPP LOFTTEGUND

FRÆÐILEG HROTTANN KRABBAFLÓ ÞYNGDARTÁKN STAUPIN KONUNAFNS LABBAÐU DÆLDUM HREYFI AFHENDINGU GÆLUNAFN AGNARS

SKIPVERJAR GEISLAVIRKUM MÁLMI ÓHREINKAÐ SKVALDRI

FANGIÐ HEY6 VERR REIK SÁR MIKIL ÁNÆGJA

HLJÓÐFÆRI NÆR LANDI FRAMLEIÐSLA SKAUT

7 RUÐNINGUR ÁGJÖF ÓLÁN NOTHÆF FLÝTIR FÖRUNEYTI HRÓPIN SKRÁ KLAUSTURFEÐRA

4 SKRIFUÐU 8 REIKNINGSKUNNÁTTU Frístundar krossgátur © Húsfreyjan TEKIN TALSVERT

Lausnarorð berist útgefanda fyrir 13. apríl nk. merkt KROSSGÁTA Verðlaun: Skáld Rósa frá Sæmundi, Skáldskapur Rósu Guðmundsdóttur (1795–1855) birtist hér í fyrsta sinn í heildstæðu safni sem Ragnar Ingi Aðalsteinsson ritstýrði og bjó til prentunar. Formála ritar Elísabet Jökulsdóttir skáld sem segir þar m.a. „Skáld-Rósa er skáld því hún býr yfir umbreytingarafli, skáldlegum þrótti og skáldlegri sýn. … hún veinar meðan hjartað springur.“ Álfadalur frá Sæmundi, Sönn saga um kynferðisofbeldi, þöggun og afleiðingar þess. Höfundur rekur hér sögu móður sinnar, Sigurbjargar Oddsdóttur frá Álfadal á Ingjaldssandi. Þetta er saga harðrar lífsbaráttu, hroðalegrar grimmdar og lamandi meðvirkni svo lesandann rekur í rogastans. Höfundur: Guðrún J. Magnúsdóttir. Þriðja kver um kerskni og heimsósóma frá Sæmundi, Í Þriðja kveri um kerskni og heimsósóma má finna gamanmál, þar sem mestmegnis er skopast að dægurþrasi líðandi stundar, en inni í millum leynist alvarlegra efni. Bragfræðin er fjölbreytt: Drápur, ferskeytlur, limrur, slitrur, frumgerð bragform og eftirhermuhættir. Höfundur: Helgi Ingólfsson. Lausnarorð í 4. tbl: Taflmaður. Vinningshafar: Hólmfríður Linda Stefánsdóttir, Garðabæ fær; Endurminningar Guðrúnar Borgfjörð frá Sæmundi. Guðný H. Ragnarsdóttir, Reykjavík fær; Varurð frá Sæmundi. Laufey Bragadóttir, Akureyri fær; Þær líta aldrei undan frá Sæmundi. Verðlaun hafa verið send til vinningshafa.

50 Húsfreyjan 1. tbl. 2023
1 2 3 4 5 6 7 8 9
Húsfreyjan DVELJIÐ ÚTREIKNANLEG LÁTA FÆÐU Í MUNN 3 SPIL SPURT EFNA-
TENGD
HAND-
STOKKUR
HÚN SEM ÉG Á STYBBA ÓLGU VENDIR NAFN KONU

Kokkurinn í Klukkublómi

Þórdís

Dögg Auðunsdóttir opnaði blóma- og gjafavöruverslunina

Klukkublóm á Hellu um verslunarmannahelgina 2021 þegar heimsfaraldurinn sveif enn yfir vötnum. Þórdís sem er kokkur að mennt bjó í Danmörku í 21 ár. Árið 2019 flutti hún heim og fór að starfa í blómaverslun á Selfossi þar sem pabbi hennar heitinn bjó. Á Selfossi kviknaði sú hugmynd að hefja eigin rekstur blóma- og gjafavöruverslunar. Bæjarfélagið Hella varð fyrir valinu, en þar var engin slík verslun og gott húsnæði í boði, en Klukkublóm er staðsett í elsta hluta þorpsins að Þrúðvangi 36.

Sígauni í mér

Þórdís Dögg segir að í gegnum lífsferilinn hafi hún mjög oft flutt búferlum og það sé sígauni í sér. ,,Það er ótrúlega gott að búa á Hellu, fólkið hér er svo elskulegt og hér hefur mér verið mjög vel tekið. Einnig hefur versluninni verið mjög vel tekið, viðskiptavinahópurinn er stöðugt að stækka og ég er alltaf að sjá ný andlit

í versluninni.“ „Það var greinilega þörf fyrir blómabúð á þessu svæði, enda ekki neina slíka að finna alla leið frá Selfossi og að Höfn í Hornafirði.“

Líður best innan um blóm

Þórdís Dögg er lærður kokkur og hefur um langt árabil starfað við matreiðslu sem hún segir mjög skemmtilegt. En nú eiga blómin hug hennar allan. Hún segist alla tíð hafa haft mikinn áhuga á blómum og skreytingum og líði mjög vel með blóm í kringum sig. Því hafi verið nærtækt þegar skrefið var stigið út í eigin atvinnurekstur að stofna til reksturs í kringum blóm. Þórdís Dögg tekur að sér að útbúa skreytingar s.s. kistuskreytingar og kransa og skreytingar og blómavendi fyrir hin ýmsu tilefni, hvort sem fólk vill gleðja eða sýna samúð. Eins annast Þórdís Dögg skreytingar fyrir hótel Rangá og fleiri. Í versluninni má auk afskorinna blóma og pottablóma finna ýmsar gjafavörur s.s.reykelsi, sápur, kort og fleira. Þórdís Dögg er enn sem komið er eini starfsmaður verslunarinnar, en þrátt fyrir það er opið hjá henni alla daga vikunnar.

Netfang: klukkublom@simnet.is

Texti: Sigríður

Myndir:

ATVINNUREKSTUR
Ingvarsdóttir -
Ú r einkasafn i
51 Húsfreyjan 1. tbl. 2023

Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.