13 minute read

Hvernig spilar stjórn Golfklúbbs Grindavíkur Húsatóftavöll?

Stjórn Golfklúbbs Grindavíkur sumarið 2021 er skipuð eftirtöldum aðilum: Formaður, Sverrir Auðunsson. Varaformaður, Guðmundur Andri Bjarnason. Ritari, Svava Agnarsdóttir. Gjaldkeri, Óðinn Árnason. Meðstjórnendur eru Leifur Guðjónsson, Svana Hammer, Sigþór Kristinn Skúlason og Guðmundur Bragason. Framkvæmdastjóri er Helgi Dan Steinsson.

Ég held að besta leiðin til að kynna þetta fólk sem er tilbúið að gefa tíma sinn og vinnu í þetta sjálfboðastarf, sé með því að sjá hvernig þau sjá golfið fyrir sér, n.t. Húsatóftavöll í Grindavík. Ég fékk þau til að velja sér tvær holur til að fjalla um, hvernig þeim finnst best að spila viðkomandi holu.

Varaformaðurinn Guðmundur Andri steig fyrstur á stokk, valdi sér 11. og 12. holu, Sigþór valdi holur 5 og 6 og Óðinn valdi 13. og 14. holu. Formaðurinn ruddist síðan fram á ritvöllinn með holur 2 og 17. Og Leifur í kjölfarið með holur 8 og 16. Nú var farið að fækka holum í boði og Svava ritari stökk á 4 og 7, Svana fylgdi á eftir með 9 og 18 og því voru fjórar holur eftir. Framkvæmdastjóranum fannst eðlilegt að taka tvær erfiðustu holur vallarins, 3 og 15 og því hafði Gummi Braga ekkert val, tók dreggjarnar 1 og 10.

Svona vill stjórn GG spila Húsastóftarvöll:

Hola 1. Gummi Braga

„Upphafsholan lítur út fyrir að vera þægileg hola en raunin er að hún getur klárlega refsað manni.

Það eru í sjálfu sér ekki miklar hættur í teighögginu, fer þó eftir högglengd hvaða glompur eru í leik en þær eru meira vinstra megin á brautinni. Ég reyni að staðsetja upphafshöggið hægra megin á brautinni ef kostur er, finnst innkoman á grínið yfirleitt betri þaðan. Grínið er frekar mjótt og ekki mjög stórt, með bönkerum bæði vinstra og hægra megin við það. Ef menn slá hægra megin á grínið er hætta á að boltinn leki í bönkerinn þar. Það fer eftir vindátt hversu ákveðið ég slæ á grínið í öðru höggi, í stífri norðanátt þá er jafnvel öruggara að vera aðeins of stuttur og reyna að tryggja parið með góðu innáhöggi þaðan.

Hola #1 er hola sem maður er mjög sáttur við að labba frá með par en oftar en ekki endar hún í bogey eða þaðan af verra!“

Hola 2. Sverrir Auðuns

„Þessi 169 metra hola er alvöru, fullorðins golfhola sem refsar slæmu höggi og ef maður kemur sér á rangan stað við flötina getur reynst erfitt að bjarga parinu. Fyrst eftir að opnað var fyrir holuna fannst manni eins og skrambi væri það sem oftast var skrifað niður. Eins og með margt í golfinu lærir maður smám saman á holuna. Ef flaggið er uppi vinstra megin styttist holan og gott 6 eða 7 járn dugar til að gefa sér góðan möguleika á fugli. Ef flaggið er neðst hægra megin eykst erfiðleikastigið og þá dugar ekkert minna en gamli góði blendingurinn eða jafnvel 5-tré í stífum mótvindi. Smá fade með hárfínt mið á miðja flöt og ef lengdin reynist rétt mun kúlan detta vel inn á flötina og renna tignarlega niður að vel staðsettri holunni.

Fugl í höfn á annarri er gott veganesti fyrir verðugt verkefni framundan sem er sú þriðja.“

Hola 3. Helgi Dan

„Hola 3 er hola sem er oftast leikin á móti ríkjandi vindátt. Ég slæ yfirleitt með hybrid af teig og set mig í þá stöðu að eiga 130 metra í innáhöggið. Ef ég nota driver í upphafshöggið þá minnkar lendingarsvæðið töluvert og möguleikar á slæmri útkomu á holunni aukast að sama skapi. Flötin er erfið viðureignar og því mikilvægt að vera á réttum palli. Par er gott skor.“

Hola 4. Svava Agnars

„4. holan er skemmtileg og krefjandi hola en hefur reynst mér erfið í gegnum tíðina. Ég slæ upphafshögg með dræver og miða á jaðarinn á hólnum sem er hægra megin við brautina og vona að boltinn nái inn á braut og rúlli eftir henni. Næsta högg á að vera upp á flöt en það er krefjandi högg þar sem töluverð hækkun er upp á flötina. Ef mér tekst að ná upp á flöt í tveimur höggum á ég góðan möguleika á pari en því miður labba ég oftar en ekki af flötinni með fimm högg.“

Hola 5. Sigþór

„Braut 5 er skemmtileg og krefjandi par 3 hola. Þegar við stöndum á teig, þ.e.a.s. á karlateig, þá sjáum við mjög vel yfir holuna og þannig par 3 holur finnst mér skemmtilegastar. Það er að sjálfsögðu mjög misjafnt hvaða járn maður velur, fer allt eftir vindátt og styrk í það og það skiptið. Það eru engir bönkerar í kringum grínið en samt sem áður eru ýmsar hættur í leik. Það er alls ekki gott að vera of langur, betra að vera aðeins of stuttur ef maður ætti að velja. Flötin getur samt stundum verið að stríða manni og ekki alltaf auðvelt að tryggja parið jafnvel þótt maður hitti flötina í upphafshögginu. Oftar en ekki gengur mér nokkuð vel á þessari holu.“

Hola 6. Sigþór

„Braut 6 er ein af mínum uppáhalds brautum á vellinum. Ef upphafshöggið heppnast mjög vel og mótvindur er ekki til staðar, þá tek ég yfirleitt áhættu og reyni að hitta flötina í höggi númer tvö. Ef það heppnast þá er maður búinn að setja sig í hörku fuglafæri en ef högg númer tvö hittir ekki flötina, þá er maður yfirleitt kominn í vandræði og getur svo sannarlega þakkað fyrir að ná pari þegar upp er staðið. Ef upphafshöggið er ekki vel heppnað þá tek ég yfirleitt létt annað högg og skil eftir ca. 90 metra fyrir innáhöggið. Stór og góð flöt með miklu landslagi einkennir þessa holu.“

Hola 7. Svava Agnars

„7. holan lítur út fyrir að vera mjög auðveld hola, stutt og þægileg. Hún leynir þó á sér þar sem vinstra megin við flötina eru klettar og gjótur sem gleypa auðveldlega boltann ef svo óheppilega vill til að maður lendi þar. Mér finnst erfitt að meta hvaða kylfu ég nota á þessari holu þar sem vindur hefur mikil áhrif á henni. Góður möguleiki er á fugli á þessari holu en algengara er að ég fari hana á pari og jafnvel meira.“

Hola 8. Leifur Guðjóns

„8. hola er gríðarlega vel heppnuð golfhola, ekki sú lengsta en ein sú erfiðasta. Hættur eru bæði hægra og vinstra megin. Upphafshöggið er gríðarlega mikilvægt en með Þorbjörn í baksýnisspeglinum þá verður maður bjartsýnn og ég tek alltaf driver á þessari holu. Best er að lenda vinstra megin inni á braut og eiga 70 - 100 metra eftir. Eftir það þá er parið í vasanum sem er frábært á þessari holu en ef upphafshöggið klikkar þá er maður fljótur að sjá ljótt skor!“

Hola 9. Svana Hammer

„9. holan er frábær golfhola, stutt par 5 sem gefur möguleika á að slá inn á green í 2 höggum ef vindar eru hagstæðir. Ég vil staðsetja mig vinstra megin við glompurnar og reyna við green í öðru höggi, en ef vindar eru óhagstæðir þá vil ég einfaldlega slá yfir garðinn sem liggur þvert yfir brautina og eiga 40 - 50 metra eftir, það getur skilað manni möguleika á góðum fugli, alla vegana gefins pari. Þessi hola getur gefið jafn mikið og hún getur tekið, það kemur fyrir að maður slær upp í garðinn hægra megin við brautina, þá endar þetta oftast í chippi inn á braut til þess að reyna koma sér inn á green með góðu móti.„

Hola 10. Gummi Braga

„Tíunda holan er þó nokkuð erfiðari eftir að hún var lengd, en að sama skapi skemmtilegri að mínu mati. Þetta er skemmtileg en krefjandi hola með vallarmörk hægra megin.

Í upphafshögginu reyni ég að vera í vinstri kanti brautar eða jafnvel vinstra megin við hana ef ekki er mikið röff. Hægra megin við brautina er gjá og síðan vallarmörk, einnig finnst mér innkoman á grínið erfiðari ef maður er staðsettur hægra megin á brautinni. Ef ég næ upphafshögginu á góðan stað vinstra megin þá slæ ég innáhöggið eins mikið hægra megin á grínið og ég þori, þar sem boltinn lekur yfirleitt til vinstri á því. Það er heldur ekki gott að lenda vinstra megin við grínið þar sem er grjótgarður ofl. Það þarf að passa sig á að oft er töluverður hæðarmunur í öðru höggi, svo menn misreikna oft fjarðlægðina og eru of stuttir í því. Grínið er ekki breitt en frekar langt og skemmtilegt með miklu landslagi. Þetta er hola sem maður er sáttur við að fá par á.“

Hola 11. Gummi Bjarna

„11. holan á Húsatóftavelli í Grindavík er ótrúlega skemmtileg hola, af teig er hún sennilega sú fallegasta og með besta útsýnið yfir Grindavík, Þorbjörn og völlinn sjálfan. Menn geta verið nokkuð villtir þegar upphafshöggið er slegið af teig en ég er einn af þeim. Ég reyni að fara ekki hægra megin á brautina en þar eru glompur sem geta gert manni lífið leitt. Þegar ég slæ, reyni ég að staðsetja mig vinsta megin á brautinni. Ef holan er hægra megin á gríninu, við glompuna, þá reyni ég að vera í röffinu, á milli tíundu og elleftu brautar til að eiga opnara innáhögg. Grínið er stórt og skemmtilegt, á tveimur pöllum og þetta er í heildina á litið skemmtileg hola. Ef maður labbar frá henni með gott par, þá er maður mjög sáttur.“

Hola 12. Gummi Bjarna

„Fyrir mig er þessi hola nokkuð snúin, ég veit aldrei hvað ég ætla að gera, hvort ég ætla að leggja upp eða slá á grínið, þannig að ég er oft í tómu brasi með þessa holu. Miðað við lengd, þá ættu menn að vera að spila hana á pari eða fugli en ég labba oftar en ekki með skolla eða þaðan af verra frá henni. Ég spila hana yfirleitt eftir því hvar holan er staðsett inni á gríninu. Ef holan er fremst á gríninu, þá er vont að leggja upp, þá er innáhöggið svo erfitt, þannig að ef að pinninn er fremst þá slæ ég með hybrid, reyni að koma mér á grínið en mér er sama þó ég lendi í glompu, mér finnst auðveldara að slá úr þeim heldur en að eiga þrjátíu metra vipp yfir glompurnar og pinninn er fremst. Ef holan er aftast á gríninu, þá finnst mér miklu þægilegra að eiga eftir sextíu metra vipp og með allt grínið til að vinna með. Til að fá gott skor, skiptir máli að vera á réttum palli.“

Hola 13. Óðinn Árna

„Valdi þessa holu þar sem mér þótti hún sú snúnasta þegar ég byrjaði í golfi hér í Grindavík. Slá þarf yfir veginn og ekki í boði að vera að draga eitthvað úr högginu. Nýlegar breytingar á þessari holu þykja mér mjög vel heppnaðar og hafa bætt völlinn nokkuð. Þetta er hola sem bíður upp á að vera nokkuð villtur í upphafshögginu og leggja vel í það, enda stórt lendingasvæði neðan vegar. Ég stilli miðið á drævernum nokkurn veginn á hólinn við 14. flötina og er sáttur þegar kúlan lendir nálægt hólnum. Oft leitar höggið til hægri en það er auðveldlega hægt að redda sér úr því þó það geti lengt holuna ansi mikið. Næsta högg er oftast með hybrid og slegið eftir brautinni. Lendingasvæðið á braut er nokkuð stærra en það virðist í fyrstu og ef vel tekst til þá er ég um 100 metra frá flöt fyrir þriðja högg og laus við allar heimsóknir frá kríunum sem bíða oft eftir manni vinstra megin við braut. Á góðum degi er þá reynt við flötina í þriðja höggi, vil frekar vera styttri en lengri enda ekki mikið svæði að vinna með aftan við flötina. Tvípútt og sáttur við parið.“

Hola 14. Óðinn Árna

„Ný par 3 hola sem getur reynt nokkuð á skynsemina, sérstaklega þegar hreyfing er á Grindavíkurlogninu. Hér borgar sig að ná sannfærandi höggi yfir erfitt svæði fyrir framan teiginn og oft betra að vera lengri en styttri í upphafshögginu. Ímynda mér að góðir kylfingar slái nokkuð nálægt varnargarðinum til að fá góða legu en fyrir meðalskussa eins og mig þá finnst mér öruggara að miða hægra megin á flötina. Leiðinlega oft of stuttur og of langt til hægri á þessari holu. Draumahöggið er inná flöt með sjöu eða sexu og séns á fugli. Auðvelt að lenda í leiðinda basli með lélegu upphafshöggi og ein af þessum holum sem getur reynt mjög á andlegt þol. Geng brosandi frá þessari holu ef ég næ pari eða skolla.“

Hola 15. Helgi Dan

„Það fer algjörlega eftir veðri og hvernig hefur gengið á hringnum hvernig ég leik þessa holu. Ef skorið er þokkalegt og veðrið gott þá reyni ég við flötina í tveimur höggum. Ef skorið er gott þá spila ég holuna sem par 5 holu og sætti mig við parið en fuglinn er alltaf á bak við eyrað.“

Hola 16. Leifur Guðjóns

„16 hola. er frekar löng og erfið par 3 hola og hentar vel þeim kylfingum sem spila með frjálsri aðferð og ég er klárlega einn af þeim. Þarna er maður nálægt sjónum, sem sagt á heimavelli. Best þykir mér ef það er norðanátt, sem sagt á móti, að nota driver og ef það er logn þá tek ég dempaðan driver [Þú last rétt lesandi góður, DEMPAÐUR driver er eitthvað sem Leifur fann upp! Eins og einn góður klúbbmeðlimur sagði eitt sinn við Leif, „þú ert langbesti kylfingur klúbbsins miðað við getu!“ - Innskot blaðamanns]. Gott er að lenda vinstra megin á braut og láta landslagið sjá um afganginn en ég er oftast á gríni, tvö pútt , par og þrír punktar. Margir af okkar bestu kylfingum hafa átt í basli með þessa holu.“

Hola 17. Sverrir Auðuns

„Á þeirri sautjándu hafa nokkrar af skemmtilegustu breytingum á golfvellinum s.l. ár litið dagsins ljós. Farnar eru glompurnar á miðri braut sem á sínum tíma var komið fyrir í skjóli næturs. Nú er ekkert annað í stöðunni en að taka gott mið á miðja braut og láta vaða í eitt alvöru 180 – 220 metra drive en vindurinn sem gengur hægt og vel um völlinn ræður hvort niðurstaðan sé á neðri eða efri mörkum í upphafshögginu. Sem betur fer er hægt að vera með fjórtán kylfur í pokanum því kylfuval er það sem þarf, til að takast á við annað höggið því það högg sem bíður manns getur verið allt frá 120 – 180 metrar inn á nýja stóra flöt sem liggur 50 metrum aftar en eldri flötin. Vel heppnuð framkvæmd hjá Simma, að nýta aðkomuvatnið til að útbúa tvær tjarnir til að verja flötina, þýðir að það þarf að vanda sig vel í innáhögginu. Í Meistarmótinu árið 2020 gaf þessi hola 0 fugla yfir allt mótið og 0 Pör á þriðja degi mótsins. Á venjulegum degi er par málið áður en haldið er í göngutúrinn upp að þeirri átjándu.“

Hola 18. Svana Hammer

18. holan er frábær par 3 hola en eins auðveld og hún lítur út fyrir að vera þá er hún það alls ekki, kylfuval fer allt eftir vindi og staðsetningu pinnans.

Ef pinninn er á miðri flötinni og þetta eðlilega grindvíska logn er, þá verður 8 járnið nánast alltaf fyrir valinu en eins og ég segi, þá er ekkert mál ef að pinninn er efst uppá pallinum hægra megin, að nota 5 járn þegar blæs aðeins á móti.

This article is from: