2 minute read

Engar líkur á að ég verði forgjafarsvindlari!

Golfklúbbur Grindavíkur á nokkra kylfinga sem hafa upplifað draumahöggið, einn þeirra er Eyjapeyinn Páll Þorbjörnsson sem við þekkjum betur sem Palla fasteignasala hjá Allt fasteignasölu og hjá rótgrónum félagsmönnum er það Palli Idol.

Það virðist vera að Palli hafi litið svo á að toppnum hafi verið náð árið 2012 þegar draumahöggið datt í hús, en hann hefur lítið sést á golfvellinum undanfarin ár.

Hverju sætir það?

„Þegar ég náði draumahögginu á sínum tíma þá fjölgaði í fjölskyldunni og nokkur verkefni í atvinnulífunu komu inn svo ég lét golfið víkja – tímabundið. Einhvern veginn hef ég ekki komið mér að boltanum aftur, en ég finn að nú er kominn tími til að fara mæta aftur og endurtaka leikinn, þ.e. að fara holu í höggi! Eða dusta rykið af forgjöfinni.“

Manstu eftir draumahögginu?

„Ég man þetta eins og hafi gerst í fyrra! Þetta var á gömlu 4. holunni sem í dag er 16. holan. Þetta er ekki beint auðveldasta holan til að fara í einu höggi þar sem hún er tæpir 180 metrar! Ég notaði 5-járnið mitt, Nike SQ og ákvað að miða hægra megin við flötina þar sem staðsetning holunnar var hægra megin á flötinni. Tók sveifluna þannig að ég myndi draga boltann og að vindurinn myndi koma honum inn á flöt. Allt lukkaðist. Áður en boltinn lenti á flötinni segi ég við Friðrik að þessi sé hola í höggi. Boltinn lendir á mjúkri flötinni u.þ.b. sjö metra frá holunni og það hægist vel á honum. Við sjáum boltann rúlla vel en rólega upp stallinn og í átt að holu. Bingó, boltinn fór trúlega ofan í. Við vorum ekki vissir hvort boltinn hafi farið bak við pinnann eða ofan í þar sem fjarlægðin var mikil. Þegar nær kom að flötinni þá var það orðið öruggt að boltinn hafi lent í holunni. Friðrik var fljótari til að kíkja í holuna, og jú dásemdin var þarna. Boltinn var auðvitað myndaður til að eiga minninguna,“

Hvernig ætlarðu að tvinna saman fasteignasöluna og golfiðkun?

„Ég er með frábært starfsfólk hjá mér hjá Allt fasteignasölu, en í dag erum við um 15 manna fyrirtæki en þar leggjum við mikið upp úr persónulegri þjónustu, það er búið að vera mikill uppbyggingarfasi í fyrirtækinu frá því ég tók við framkvæmdastjórastöðunni og nýjasta viðbótin er að við erum að opna í Mosfellsbæ en við opnuðum í Reykjanesbæ 2016, Grindavík 2014 og Vestmannaeyjum 2018. Ég held að ég ætli að nota golfvöllinn til að komast í zoom out, hlaða batteríin og njóta góðra stunda.

Mun þessi Einherji mæta í Meistaramót GG á 40 ára afmælisárinu?

„Ég ætla að sjá í hvaða formi ég verð kominn í, en ég hef unnið til verðlauna þar áður og ef ég tek þátt þá er auðvitað ekkert annað sem væri planið en að endurtaka leikinn. Að vera í keppni í fjóra daga í góðra vina hópi er ofboðslega skemmtilegt en kílóum hefur fjölgað og spurning er hvernig gæðin í sveiflunni er í dag. Það er gaman að sjá uppbygginguna sem er í gangi í klúbbnum og GG stefnir greinilega í rétta átt og gaman að sjá að margt af því sem var fyrirhugað þegar ég var í stjórn klúbbsins hefur orðið að veruleika og gott betur. En ég mun klárlega láta að mér kveða, engar líkur að ég verði forgjafarsvindlari, mun þurfa að berjast fyrir hverju höggi, en ég hlakka til!“