
3 minute read
Verður gaman að hitta gamla félaga úr klúbbnum
Sigurður Jónsson er yngsti klúbbmeistarinn í sögu GG en hann varð meistari árið 1992, þá aðeins 16 ára en hann náði bílprófsaldrinum seinna þetta ár. Siggi er af mikilli golffjölskyldu kominn og þetta ár endaði afi hans, Pétur Antonsson í öðru sæti og pabbi hans, Jón Pétursson í þriðja sæti. Ekki nóg með það heldur vann mamma hans, Sigrún Ragna Sigurðardóttir mfl. kvenna og amma hans, Sigrún Jónsdóttir kvennaflokk með forgjöf!
Siggi er fæddur og uppalinn í Grindavík en tók fyrstu almennilegu golfsveiflurnar á Akureyri hjá ömmu sinni og afa: „Ég fór oft á sumrin á Akureyri til ömmu og afa og hef verið u.þ.b. sex ára gamall þegar ég byrjaði að sveifla kylfum. Tók t.d. þátt í mínu fyrsta meistaramóti þar og lenti í þriðja sæti. Á unglingsárunum var ég síðan meira í Grindavík og stundaði golfíþróttina grimmt og komst nokkuð vel upp á lagið. Ég man ekki alveg hvað ég var gamall þegar ég byrjaði að spila í meistaraflokki í meistaramótunum, ég hefði getað verið í unglingaflokknum og hver veit nema ég hefði komið nafninu mínu á þann platta líka! En ég vildi keppa við þá bestu í klúbbnum og náði best þriðja sæti ef ég man rétt, árið sem pabbi vann. Árið eftir gekk síðan allt upp og ég náði að vinna þá gömlu.
Á þessum tímapunkti stefndi hugur Sigga til sjómennsku, hann menntaði sig sem vélstjóri en vatt svo kvæði sínu í kross árið 2000 og skellti sér í viðskiptafræði í Háskólanum í Reykjavík: „Ég spilaði ekki oftar í meistaramótinu, árið eftir sigurinn var ég kominn á sjó og sá ekki annað en að sjómennskan yrði ævistarfið. Ég var orðinn vélstjóri en fann síðan að mig langaði til að breyta til, hugur minn hafði oft leitað til viðskipta og það var gaman að setjast á skólabekk í Háskólanum í Reykjavík og útskrifast sem viðskiptafræðingur árið 2003. Ég starfaði sem starfsmaður innan bankageirans í 15 ár, þar til fyrir 3 árum, þá keypti ég ásamt nokkrum félögum fyrirtækið Íslenska fjárfesta hf. en þar eru tveir aðrir Grindvíkingar í eigendahópnum, þeir Gunnar Freyr Gunnarsson og Þorbjörn Atli Sveinsson. Ég finn að þetta á vel við mig, þ.e. að vinna hjá sjálfum mér. Íslenskir fjárfestar hf. annast miðlun innlendra og erlendra verðbréfa, jafnt skráðra sem óskráðra, auk þess sem félagið hefur sérhæft sig í miðlun fjárfestinga í erlendum verðbréfasjóðum. Viðskiptavinir félagsins eru allt frá sparifjáreigendum til stærri fjárfesta, svo sem stofnanafjárfesta, en meginþorri starfseminnar felst í þjónustu við fagfjárfesta.“
Ertu búinn að vera spila golf alla tíð?
„Já og nei. Ég gekk í Setbergs-golfklúbbinn árið 2001 og spilaði þar til ársins 2010. Færði mig svo í GKG þegar elsti sonur minn byrjaði að æfa í GKG, það lá einhvern veginn beinast við að ganga í þann klúbb. Ég hafði farið í nokkrar æfingaferðir með syni mínum og kynntist þá fullt af góðu fólki í klúbbnum svo það var eðlilegt að ganga í hann. GKG er mjög góður klúbbur með frábæra inniaðstöðu sem ég hef verið duglegur að nýta mér í vetur svo ég mæti fullur bjartsýni inn í þetta golftímabil!“
Hvað er ´92 meistari GG með í forgjöf í dag og hvernig sér hann framtíðina í golfinu fyrir sér?
„Ég er með 3,7 í forgjöf í dag og stefni á að taka þátt í meistaramóti GKG en ég hef ekki komist síðustu ár. Meistaramótin eru ofboðslega skemmtileg, á þeim er keppt í fjóra daga samfellt svo ég mun reyna að plana sumarið þannig að ég geti mætt til leiks í ár. Svo er ég klár að mæta til Grindavíkur í sumar á mótið „Meistari meistaranna“, það verður gaman að hitta gamla félaga úr klúbbnum. Húsatóftavöllur er orðinn virkilega skemmtilegur en ég á eftir að spila hann eftir síðustu breytingar. Hann er auðvitað mikið breyttur frá því að ég var í klúbbnum, þá var hann bara 9 holur og það hefur verið gaman að fylgjast með framganginum í klúbbnum að undanförnu. Það er í raun alveg lygilegt að ekki stærri klúbbur geti haldið úti 18 holu velli og ekki nóg með að hann sé 18 holur, heldur virkilega flottur og skemmtilegur völlur.“

