Page 1

j o n a t h a s w i f t

n

r eisubók gúllÍver s Gulliver’s Travels jón st. kristjánsson þýddi og ritaði inngang

Ferðir til ýmissa Fjarlægr a landa heimsins Í Fjórum hlutum eFtir lemúel gúllÍver


Reisubók GúllíveRs

að mér fyndist það ekki sæma mér sem útlendingi að grípa inn í flokkserjur. Væri ég hins vegar albúinn, þó svo líf mitt lægi við, að verja hans persónu og ríki gegn öllum innrásum.

5. k APítuli Með einstöku herbragði kemur höfundurinn í veg fyrir innrás. Hann er sæmdur háum heiðurstitli. Sendimenn koma frá keisara Blefúskú og friðmælast. Það kviknar af slysni í híbýlum keisarinnunnar. Höfundurinn á hlut í að bjarga öðrum hlutum hallarinnar.

Keisaradæmið Blefúskú er eyja til norð-norðausturs frá Lilliput og á milli skilur um átta hundruð stika breiður áll. Ég hafði enn ekki séð þangað yfir og eftir þessa aðvörun um yfirvofandi innrás forðaðist ég að koma á ströndina þeim megin af ótta við að draga að mér athygli óvinaflotans sem enn hafði enga njósn haft af mér, því öll samskipti milli ríkjanna tveggja höfðu á stríðstímanum verið forboðin upp á lífsstraff og hafnbann verið lagt af keisara vorum á allar fleytur af öllu tagi. Ég greindi hans hátign frá herbragði sem ég hefði upphugsað og miðaði að því að leggja hald á gervallan flota óvinarins sem lá, að því er flugumenn sögðu, fyrir akkerum á hafnarlegunni, reiðubúinn að sigla strax og byr gæfi. Ég ráðgaðist við hina reyndustu sjómenn um dýpið í sundinu en það höfðu þeir oft stungið út og sögðu mér að það væri, um miðlínu á háflóði, sjötíu glúmgúffa djúpt, eða um einn málfaðmur að evrópsku máli en aðrir hlutar í mesta lagi fimmtíu glúmgúff. Ég hraðaði mér yfir á norðausturströndina, sem lá gegnt Blefúskú, og liggjandi bak við stapa nokkurn dró ég fram vasasjónpípu mína og leit yfir flota óvinarins sem samanstóð af fimmtíu stríðsskipum og fjölda farmskipa. Ég sneri svo heim aftur og kallaði eftir (svo sem mér hafði verið gefin heimild til) feiknum af hinum sterkustu taugum og járnstöngum. Taugarnar voru álíka gildar og seglgarn og stengurnar að lengd og sverleika á við fataprjóna. Ég þrinnaði taugarnar til að styrkja þær og í sama augnamiði sneri ég járnstengurnar saman, þrjár og þrjár, og sveigði til króka á endunum. Hafandi þannig fest fimmtíu króka í jafn margar seilar hélt ég aftur til norðausturstrandarinnar, fór úr kápu, skóm og sokkum og

68


Greip ég því næst knýtta endann á færunum mínum, sem krókarnir voru festir við.


1.Hluti – sJóFeRÐ til lilliPut

óð út í sjóinn í leðurvesti mínu hálfri stundu fyrir háflóð. Ég óð svo hratt sem ég mátti og synti í miðjum ál um þrjátíu stika leið uns ég botnaði. Til flotans náði ég á innan við hálfri stundu. Óvinirnir voru svo felmtraðir þegar þeir sáu mig að þeir stukku af skipum sínum og syntu til lands og voru á þeim vart færri en þrjátíu þúsund sálir. Því næst tók ég færi mín og festi krækju í kluss á hverjum skipsstafni og hnýtti svo allar taugarnar saman í endann. Meðan ég var að bjástra við þetta skutu óvinirnir að mér þúsundum örva og sátu margar mér í höndum og andliti og fyrir utan að valda mér sárum kvölum tálmuðu þær stórum starfa mínum. Mest var ég uggandi um augu mín sem ég hefði fortakslaust misst hefði mér ekki komið ráð í hug. Í leynivasa mínum geymdi ég, með öðrum gagnsmunum, gleraugu sem höfðu farið fram hjá leitarmönnum keisarans eins og ég áður nefndi. Þau tók ég nú fram og festi eins tryggilega og ég gat á nef mér og þannig varinn hélt ég ódeigur áfram starfa mínum þrátt fyrir örvar óvinarins sem margar hverjar buldu á glerinu í gjörðinni en gerðu ekki annað en að skekkja hana ögn. Ég var nú búinn að festa allar krækjur. Tók ég endahnútinn í greipar mér og lagðist í seilarnar en ekki bifaðist eitt einasta skip því akkerin héldu þeim öllum tryggilega. Því var enn eftir áhættusamasti þáttur þessarar aðgerðar minnar. Ég sleppti taugunum en skildi krókana eftir í skipunum, skar svo rösklega á akkerisfestarnar og hlaut við það meir en tvö hundruð skeyti í andlit og hendur. Greip ég því næst knýtta endann á færunum mínum, sem krókarnir voru festir við, og dró fimmtíu stærstu stríðsskip óvinarins næsta léttilega á eftir mér. Blefúskarnir höfðu ekki minnstu hugmynd um hvað ég hygðist fyrir, og féllust þeim fyrst hendur af forundran. Þeir höfðu séð mig skera á festarnar og töldu ætlun mína ekki aðra en þá að koma skipunum í rek eða láta þau kraka hvert upp á annað. En þegar þeir litu allan flotann síga í einu lagi fram á við og sáu mig toga í seilarendana, ráku þeir upp slíkt kvein harms og örvæntingar að slíkt er vart hægt að útmála eða ímynda sér. Þegar ég var úr hættu sloppinn nam ég staðar um stund til að draga út örvarnar sem sátu í höndum og andliti og neri þar á nokkru af sama salva og mér hafði verið fenginn við komu mína og ég hef áður nefnt. Svo tók ég niður gleraugun og eftir að hafa beðið í um klukkustund, uns ögn fjaraði út, óð ég yfir álinn með trúss mitt og komst heill í hina keisaralegu höfn Lilliput. Keisarinn og öll hans hirð stóð við ströndina og beið útfalls þessa mikla ævintýris. Sáu menn skipin síga fram í stórum boga en grilltu mig ekki því ég var upp á bringu í sjó. Þegar ég kom út í miðjan ál urðu menn enn

71


Reisubók GúllíveRs

angistarfyllri því þá náði sjórinn mér í háls. Keisarinn taldi mig þá drukknaðan og að óvinaflotinn færi nú að með ófriði. En senn var af honum létt óttanum því állinn grynntist með hverju skrefi. Kom ég fljótt í kallfæri, hóf upp enda færanna sem krækt var í flotann og hrópaði hárri röddu: „Lengi lifi hinn mikli og máttugi keisari af Lilliput.“ Þessi ágæti fursti fagnaði mér við landtökuna með margvíslegum lofræðum og sló mig til nardaks á staðnum en það er æðsta nafnbótin þeirra í meðal. Hans hátign krafðist þess nú að við aðra og seinni hentugleika drægi ég til hafna hans það sem eftir væri af flota óvinanna. Og svo ómæld eru ærugírugheit fursta að ekki virtist hann ætla sér minna en að leggja til sín allt keisaradæmið Blefúskú sem skattland og stýra því með vísikonungi. Að þurrka út breiðendska útlaga og neyða þjóðina til að brjóta egg sín frá mjórri endanum og vera eftir það eini keisarinn í öllum heiminum. En ég reyndi hvað ég gat að fá hann ofan af þessum áformum og bar við mörgum rökum góðra stjórnarhátta og réttvísi og lýsti því hiklaust yfir að ég myndi aldrei taka þátt í að hneppa frjálsa og hugrakka þjóð í þrældóm. Og þegar málinu var hreyft í ráðinu voru hinir vitrustu af ráðherrunum á mínu máli. Þessi afdráttarlausa og djarflega yfirlýsing mín gekk svo þvert á áform og stjórnarstefnu hans keisaralegu hátignar að hann gat aldrei fyrirgefið mér. Lét hann það spyrjast út í ráðinu, undir rós, en mér var tjáð að sumir hinna vísari manna þar, alltént eftir þögn þeirra að dæma, hefðu virst vera á mínu bandi meðan aðrir, sem til mín báru óvild á laun, hefðu ekki getað stillt sig um athugasemdir sem fólu í sér sneiðar til mín. Eftir þetta hófst, milli hans hátignar og klíku ráðherra sem lá illt orð til mín, makk sem uppskátt varð um innan tveggja mánaða og hefði allt eins getað orðið mér til endanlegrar glötunar. Svo litla vikt hefur dygg þjónusta við fursta sé á metaskálarnar lagt afsvar við því að þjóna undir duttlunga þeirra. Um þremur vikum eftir þessa dáð kom alvörubúinn sendiherra frá Blefúskú með auðmjúk friðarboð og var þeim fljótt til lykta ráðið með skilmálum sem voru afar hagfelldir fyrir keisara vorn en ég þreyti ekki lesandann með þeim. Þarna komu sex sendiherrar með fimm hundruð manna fylgd og var innreið þeirra afar tilkomumikil, svo sem hæfði prakt fursta þeirra og mikilvægi erindisins. Þegar lokið var samningunum, sem ég lagði sitthvað gott til í krafti hins góða álits sem ég nú naut, eða alltént virtist njóta við hirðina, komu þeirra ágæti í formlega heimsókn til mín en því hafði verið laumað að þeim hvert vinarbragð ég hefði sýnt þeim. Þeir luku alls fyrst miklu lofi á hugdirfð mína og veglyndi, buðu mér svo heim í

72


Þessi ágæti fursti fagnaði mér við landtökuna með margvíslegum lofræðum og sló mig til nardaks á staðnum.


1.Hluti – sJóFeRÐ til lilliPut

ríki sitt í nafni keisarans meistara þeirra og báðu mig sýna sér nokkur dæmi hinnar firnamiklu hreysti minnar sem þeir hefðu spurt svo mörg undur af. Lét ég það fúslega eftir þeim en mun ekki mæða lesandann með smáatriðum þar að lútandi. Þegar ég hafði nokkra stund skemmt þeirra ágæti, þeim til ómældrar undrunar og ánægju, bað ég þá að gera mér þann heiður að bera bljúga kveðju mína keisaranum, meistara þeirra, hvers almæltir mannkostir hefðu að verðskuldan fyllt veröld alla aðdáun og hvers konunglegu persónu ég væri staðráðinn í að heimsækja áður en ég sneri aftur til míns heimalands. Næst þegar ég varð þess heiðurs aðnjótandi að hitta keisara vorn bað ég hann því um leyfi til að heimsækja furstann af Blefúskú og veitti hann mér það náðarsamlega en þó með afar kuldalegu bragði að því ég glöggt fann. Ekki fékk ég ráðið í ástæðuna fyrr en tiltekin persóna hvíslaði því að mér að Flimnap og Bolgólam hefðu útlagt samskipti mín við sendiherrana sem merki um óhollustu, þótt slíkt væri hjarta mínu sannarlega fjarri. Það var hér sem ég fór að gera mér mína fyrstu, þokukenndu mynd af innræti hirðfólks og ráðherra. Hafa skal í huga að sendiherrar þessir ræddu við mig með aðstoð túlks því tungumál þessara ríkja eru svo ólík sem nokkur mál í Evrópu geta verið og miklast hvor þjóð um sig af fornhelgi, fegurð og afli sinnar tungu með yfirlýstri fyrirlitningu á máli grannans. En í krafti þeirra yfirburða sem keisari vor hafði náð með því að hertaka flota andstæðinganna skyldaði hann þá til að leggja fram attesti sín og flytja mál sitt á tungu Puta. En þess skal hér getið að vegna hins mikla kaupskapar og samskipta milli ríkjanna beggja, stöðugrar viðtöku útlægra og þeirrar venju hvors ríkis um sig að senda ungmenni úr aðals- og landeigendastéttum yfir í hitt til að forframa sig með því að skoða heiminn og skilja fólk og siði, þá eru í hafnarbæjum fáir tignarherrar eða kaupmenn eða sjóarar sem ekki eru skraffærir á báðum tungum eins og ég komst að nokkrum vikum síðar þegar ég fór til að votta keisaranum af Blefúskú virðingu mína. En mitt í mikilli ólukku, sem af vonsku óvina minna var vaxin, reyndist sú ferð mér happasælt ævintýr eins og ég mun greina frá þegar þar að kemur. Lesandinn minnist þess máski að þegar ég undirritaði skilmálana fyrir frelsisgjöf minni þá voru þar nokkrir sem mér hugnuðust ekki vegna þeirrar undirgefni sem mér var þar tilsögð enda hefði ekkert utan neyðin ein þröngvað mér til að ganga að þeim. En þar sem ég var nú orðinn nardak af æðstu gráðu í ríkinu þá voru hjúaskyldur ekki taldar upphefð minni sæmandi, og keisarinn (svo hann njóti sannmælis) færði þær aldrei í tal við

75


Reisubók GúllíveRs

mig. Þó leið ekki á löngu áður en ég fékk tækifæri að vinna hans hátign ósmátt þjónustuverk, alltént að því ég hélt þá. Ég hrökk upp um miðnætti við hróp hundruða manna fyrir utan hjá mér og setti að mér nokkra skelfingu við að vera svo hastarlega vakinn. Ég heyrði orðið búrglúmi endurtekið í sífellu. Nokkrir af hirðmönnum keisarans olnboguðu sig í gegnum þvöguna og grátbáðu mig að koma undireins til hallarinnar þar sem híbýli hennar keisaralegu hátignar stæðu í báli, vegna gáleysis þernu hennar sem sofnað hefði út frá lestri ástarrómans. Ég snaraðist á fætur og þar sem skipanir höfðu verið gefnar um að rýma mér leið, og nóttin einnig björt af tungli, náði ég fljótt til hallarinnar án þess að troða nokkurn niður. Þar hafði fólk þegar reist stiga upp við hallarmúrinn og var vel útbúið skjólum, en vatn þurfti að sækja um alllangan veg. Skjólurnar voru á stærð við fingurbjargir og vesalings fólkið bar þær í mig eins hratt og það mátti en svo var eldurinn ólmur að þær komu að litlu gagni. Hefði ég léttilega getað kæft hann með kápu minni en hana hafði ég skilið eftir í óðagotinu og stokkið af stað í leðurvesti mínu einu. Ástandið virtist með öllu glatað og grátlegt og þessi mikilfenglega höll hefði fortakslaust brunnið niður í grunn hefði mér ekki, af snarræði sem mér annars er ekki eiginlegt, skyndilega hugkvæmst úrræði. Kvöldið áður hafði ég drukkið drjúgt af því ágæta víni sem glimigrim kallast (Blefúskar nefna það flúnek en vín vort þykir taka því fram) og er afar leysandi. Fyrir mikla heimsins lukku hafði ég engu af því af mér létt. Hitinn sem í mig hljóp af nándinni við eldinn og streðið við að slökkva hann dreif nú vínið út í þvagi og kastaði ég því af mér í þvílíkri megnd, og setti svo vel niður þar sem mest lá við, að eftir þrjár mínútur var eldurinn slökktur og þessu göfuga sloti, sem aldir hafði tekið að reisa, frá eyðingu forðað. Var nú orðið bjart af degi og ég sneri aftur heim til mín, án þess að bíða þakka keisarans, því þótt ég hefði framið eitt ágætt þjónustuverk gat ég ekki um það sagt hvernig hans hátign tæki aðferð minni við að inna það af hendi. Ein grundvallarlagagrein ríkisins segir nefnilega að það sé dauðasök sérhverri persónu, af hvaða standi sem hún kunni að vera, að kasta af sér vatni innan hallarmúranna. Mér varð rórra eftir boð frá hans hátign um að hann myndi skipa háyfirdómaranum að fríkenna mig formlega. En sú varð þó aldrei raunin. Var ég á laun látinn vita að keisarinnuna hryllti svo ósegjanlega við aðförum mínum að hún hefði flutt sig í fjarlægan hluta hallarinnar, staðráðin í að fyrri híbýli skyldu aldrei í lag færð til hennar afnota og að sinni helstu trúnaðarkonu nærstaddri gat hún ekki látið hjá líða að heita hefndum.

76


1.Hluti – sJóFeRÐ til lilliPut

6. k APítuli Um íbúa Lilliput, þeirra lærdómssakir, lög og siði, og hvernig þeir mennta börn sín. Lífshættir höfundar í því landi. Hann hreinsar mannorð einnar eðalkvinnu.

Þó að ég hyggist geyma lýsinguna á ríki þessu fyrir sérstakt kver þar um skal ég, uns þar að kemur, þægja forvitnum lesanda með nokkrum almennum dráttum. Rétt eins og stærð landsbúa er eitthvað undir sex þumlungum þá er allt eftir öðru mátað hvað snertir landsins skepnur, tré og jurtir. Til dæmis að nefna eru hæstu uxar og hestar milli fjórir og fimm þumlungar upp á herðakamb, sauðfé undir eða yfir hálfum öðrum þumlungi, gæsir eru á stærð við spörfugla, og þannig er allt í þrepavís niður á við uns komið er að smæstu dýrunum sem voru mínum augum næstum ósýnileg. En náttúran hefur aðhæft augu Putanna öllum hlutum sem þeim er þörf að greina. Þeir sjá afar skýrt en ekki langt út frá sér. Og sem dæmi um frána sjón þeirra, á það sem næst þeim er, get ég tilfært að ég hef skemmt mér við að horfa á steikara reyta lævirkja sem smærri var en húsfluga og unga stúlku þræða ósýnilega nál með ósýnilegum þræði. Hæstu tré þeirra, og á ég þar við trén í lystigarði konungs, eru um hálf fjórða alin að hæð og náði ég naumlega upp í þau hæstu með krepptum hnefa. Annar jarðargróði lýtur sömu hlutföllum en hann læt ég hugarlund lesandans eftir. Ég segi fátt að sinni um þeirra lærdómssakir sem öldum saman hafa, í öllum greinum, staðið í blóma. En skriftarmáti þeirra er afar skringilegur, því hann er hvorki frá vinstri til hægri, eins og í Evrópu, né frá hægri til vinstri, eins og í Arabíu, né upp og niður eins og hjá Kínlendingum, né niður og upp eins og Kaskagónar gera, heldur í skakkhorn úr einu blaðshorni í annað eins og gera frúr okkar á Englandi. Þeir jarðsetja sína dauðu með höfuðið lóðrétt niður, því þeir trúa því að eftir ellefu þúsund tungl muni allir aftur upp rísa. Þá muni jörðin (sem þeir álíta að sé flöt) kastast um og muni þannig allir koma standandi niður við upprisuna. Lærdómsmenn þeirra í meðal viðurkenna fáránleika þessarar kreddu en siðurinn viðgengst enn af þjónkun við múginn. Til eru ýmis einkar kyndug lög og boð í þessu ríki og gengju þau ekki svo þvert á lagareglur í mínu kæra heimalandi myndi ég freistast að segja fáein orð þeim til réttlætingar. Óskandi væri þó að hjá oss væri lögunum jafn vel framfylgt. Fyrstu lagaboð sem ég nefni áhræra uppljóstrara. Fyrir

77

Reisubók Gúllivers - sýnishorn  
Reisubók Gúllivers - sýnishorn  

Nú kemur Reisubókin út í fyrsta skipti í fullri lengd á íslensku í nýrri glæsilegri þýðingu Jóns St. Kristjánssonar með fróðlegum inngangi h...