Page 1


Ríkisfang : Ekkert Flóttinn frá Írak á Akranes © Sigríður Víðis Jónsdóttir 2011 Mál og menning Reykjavík 2011 Bókin hlaut styrk úr Bókmenntasjóði Hönnun kápu: Emilía Ragnarsdóttir / Forlagið Ljósmynd á kápu: Ari Sigvaldason Kort: Ólafur Valsson Umbrot: GÞ / Forlagið Letur í meginmáli: Minion 10/14,5 pt. Prentun: Oddi, umhverfisvottuð prentsmiðja 1. prentun september 2011 2. prentun nóvember 2011 Öll réttindi áskilin. Bók þessa má ekki afrita með neinum hætti, svo sem ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild, án skriflegs leyfis höfundar og útgefanda. ISBN 978-9979-3-3233-6 Mál og menning er hluti af www.forlagid.is

Forlaginu ehf.


Flóttamannabúðir

‫ﺍﻟﻣﺧﻳﻡ‬

‫مخيم للاجﻯين‬ Tjöld í eyðimörk Mars 2009

Hvernig er að búa í tjaldi í eyðimörk og komast hvergi í skjól undan brennandi sólinni? Hitamollan er kæfandi, hvergi skugga að fá. Sól er hátt á lofti en á samt enn eftir að rísa hærra. Getur ekkert skyggt á hana? Kannski sandstormur geti dregið ský fyrir sólu. Hann veitir þó ekki mikið skjól – fínn sandurinn fyllir öll vit, smýgur inn undir fötin, ofan í lungun. Kæfir þá sem húka inni í þunnum tjöldum með klút fyrir andlitinu. Og bíða. Bíða eftir að storminn lægi, bíða eftir að komast í burtu úr flóttamannabúðum í einskismannslandi. Einhver hlýtur að heyra um neyð þeirra og láta sig hana varða. Hjálparstofnanir hafa þegar allt kemur til alls ítrekað varað við lífsskilyrðum á þessum stað. Á sumrin er ljósgulur sandurinn brennheitur en yfir vetrarmánuðina skríða tjaldbúar skjálfandi undir teppi. Það er þó sama hversu mörg teppin eru, þeim hitnar ekki. Endalaus skjálftinn þreytir en það er of kalt til að ná að festa blund, kuldinn nær inn að beini. Ísköld nótt in er óralöng og virðist aldrei ætla að víkja fyrir morgunbirtunni. Hvort er betra að kafna úr hita eða frjósa úr kulda?

‫ﺇﻧﻔﺟﺎﺭ ﺳﻳﺎﺭﺓ ﻣﻠﻐﻭﻣﺔ‬ ‫ﻏﺯﻭ‬

Ég er stödd í Al Waleed-flóttamannabúðunum í vesturhluta Íraks. Sveifla myndavélinni og veit ekki alveg hvað ég á að segja eða gera. Nýkomin úr rúmgóðri íbúð í Reykjavík, jólaútsölunum var rétt að ljúka þegar ég lagði af stað. Yfir tjaldbúðunum eru undarleg þyngsli. Kannski það sé sorgin, 11


Ríkisfang: Ekkert

lamandi sorg yfir látnum ástvinum, lífi sem einu sinni var en er ekki lengur. Sumu er erfitt að gleyma, sumt verður aldrei hægt að komast yfir. Kannski þyngslin orsakist af örvæntingu tjaldbúa yfir því að gleymast úti í hrjóstrugri eyðimörk og vera að öllu leyti upp á aðra komnir. Aðra sem ef til vill hafa lítinn áhuga á neyð þeirra, jafnvel engan. Svo langt sem augað eygir er sandur og flatneskja – ljósgul jörð og gulleitur himinn renna saman lengst í fjarskanum. Sums staðar er sandurinn einna líkastur möl, annars staðar er þetta hálfgert stórgrýti. Yfir öllu liggur síðan fíngert sandryk. Það smýgur alls staðar, sáldrast yfir nýþvegnar flíkur, potta og pönnur – límist utan á bera barnsfætur sem hlaupa um milli hvassra steina. Himinhvolfið er vítt, nánast í yfirstærð, kannski eru það þó bara tjaldbúarnir sem eru svona litlir – einmana sálir í endalausu landflæmi. Á opnu svæði í búðunum hópast fólk í kringum vatnskrana sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur komið upp. Velktir plastbrúsar eru fylltir og bornir inn í veðurbarin tjöld sem standa í löngum röðum í sandinum. Blettótt tuskudýr liggur með höfuðið grafið í hrjúft undirlagið en í fjarska glittir í vírgirðingu sem umkringir flóttamannabúðirnar. Víða blaktir sorp í tjaldstögum. Ruslið er úr flóttamannabúðunum og hefur fokið upp og sest í stögin sem eru svo þétt að sums staðar mynda þau hálfgert net. Um allar búðir sést í reipi sem búið er að vefja í marga hringi utan um langa járnhæla. Grjóthnullungum er staflað yfir hælana svo tjöldin fjúki ekki í veðravítinu. Grjótið ber vitni ójöfnum leik við náttúruna þar sem endalokin eru óþægilega augljós: Hér ætti enginn að vera. Undan heklaðri ábreiðu inni í upplituðu tjaldi sést í agnarsmátt höfuð. Þetta er lítil stúlka með mikið svart hár, fædd fjórum dögum fyrr. Á vatteruðu rúmteppi með fallegum blómamyndum situr móðir hennar og gefur henni brjóst. Hún er í síðu gallapilsi og svörtum bol, skærlitir stafir prentaðir á bolinn: Smile. 12


Flóttamannabúðir

Lítill drengur fyrir utan tjaldið sitt í flóttamannabúðunum.

„Jú, takk, það gengur bara ágætlega,“ segir hún lágt og brosir fallega til mín. Augun flökta hins vegar, virka þreytuleg og áhyggjufull. Sú litla fæddist með gulu og móðirin hefur lítið sofið síðan hún kom í heiminn. Hún heitir Rowayda og er systir ungrar konu, Línu Mazar, sem bjó í tjaldi spölkorn frá en flutti á Akranes. Við hliðina á rúminu er lítil vagga með hvítri himnasæng og mynd af brosandi fiðrildi. Á tjaldstöng hanga bleik plastblóm en á tjaldvegginn frammi hefur verið saumað plakat með mynd af strönd og pálmatrjám. Litla fjölskyldan hefur lagt sig í líma við að gera líf í tjaldi eins eðlilegt og mögulegt er. Hafa allt fínt og snyrtilegt. Halda reisninni. Móðurina óraði ekki fyrir því að hún myndi eiga heima í tjaldi þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn. Í Bagdad bjó hún í húsi með þaki og þykkum veggjum, átti fallega stofu með margvíslegum munum, lífið gekk sinn vanagang og líf í þunnu tjaldi var jafnfjarstæðukennt og að sólin kæmi einn dag upp í vestri. En stundum fer lífið í ólíklegustu 13


Ríkisfang: Ekkert

áttir og allt í einu er ekkert eins og áður: Einn vordag árið 2003 hristist Bagdad og skalf og hér er stúlkan núna, 26 ára gömul með fjögurra daga gamalt barn, stórfjölskyldan sundruð um allar jarðir. Næsta stóra sjúkrahús er 400 kílómetra frá flóttamannabúðunum en þegar hríðarnar hófust kom Rowayda sér í næsta þéttbýli – 160 kílómetra í burtu. Náði í tæka tíð á heilsugæslustöð í litlum bæ og klukkan sex á föstudagsmorgni fæddist sú litla. Seinna sama dag hossaðist nýbakaða móðirin til baka eftir þjóðveginum, nánast alveg að landamærum Sýrlands – alla leið í hinar alræmdu Al Waleed-flóttamannabúðir, djúpt inni í eyðimörkinni. Litla stúlkan fæddist daginn sem Lína frænka hennar varð 29 ára. Daginn eftir var sterkur sandstormur í búðunum og ekki hægt að sjá út úr augum. Móðir hennar stundi, enn dauðþreytt eftir fæðinguna, vafði stúlkuna sína inn í teppi og beit saman tönnum. Gat fátt annað gert en vonað að veðrið skánaði, vonað að tjaldfestingarnar losnuðu ekki, að tjaldið legðist ekki saman, ekki einu sinni enn. Beðið inni í tjaldi. Beðið eins og venjulega. Hvenær myndi hún losna héðan? Hún var þegar búin að upplifa tvö steikjandi sumur og tvo hrollkalda vetur. Myndi hún einhvern tímann fá lausn sinna mála? Litla stúlkan stóð af sér fyrsta sandstorminn – en það koma fleiri slíkir. Foreldrarnir eru hugsi. Velta fyrir sér hvað verði um hana, hvað verði um þau, hvernig þetta verði þegar sumarhitarnir hefjast. Sú litla er grunlaus um áhyggjur foreldra sinna og drekkur mjólkina hraustlega. Hefur ekki hugmynd um að hún er Palestínumaður frá Írak og þar af leiðandi fædd inn í afar sérkennilega stöðu. Veit ekki að í henni fléttast saman ákvörðun stórvelda um að stofna ríki fyrir gyðinga í Palestínu og önnur ákvörðun, tekin rúmri hálfri öld síðar, um að ráðast inn í Írak. Stúlkan hefur ekki hugmynd um að afi hennar og amma voru fædd og uppalin í Palestínu en flúðu þaðan þegar Ísraelsríki var stofnað. Að þau fengu skjól í Írak og héldu að þau yrðu þar í fáeinar vikur og gætu svo farið heim. Að síðan liðu sextíu ár og þau áttu ekki afturkvæmt. Hún veit ekki að í kjölfar innrásarinnar í Írak 2003 breyttust 14


Flóttamannabúðir

valdahlutföllin í landinu og hennar fólki er ekki lengur vært þar. Veit ekki að hún er fædd tvöfaldur flóttamaður – á flótta fyrir lífi sínu sem þó er vart hafið. Hvernig ætti lítið barn líka að skilja það sem fullorðnum reynist erfitt að botna í? Stúlkan er strandaglópur í eyðimörk, peð á pólitísku taflborði. Hún getur ekki verið í Írak, það er alltof hættulegt – en getur heldur ekki farið þaðan. Hún hefur ekkert land að hverfa til. Litla stúlkan opnar annað augað, grætur örlítið og drekkur síðan meira. Grunlaus um alla landlausu Palestínumennina sem dreifðust tvist og bast um nágrannalöndin á sínum tíma – og eru þar enn. Eða um innrásina í Írak sem átti að frelsa Íraka en færði Palestínumenn í Írak á hinn bóginn í fjötra. Hvað þá að hún viti um bjölluna sem hangir í mötuneytinu í bandarísku herstöðinni rétt við flóttamannabúðirnar, þessa sem á er ritað: Let Freedom Ring. Það er kvöld í herstöðinni, kalt í veðri, stjörnubjart. Ég sit og virði fyrir mér bandaríska fánann og bjölluna á veggnum, opna snakkpoka og fæ óvænt kvíðakast. Matarúrvalið er svo mikið að ég get ekki valið. Hvort langar mig í Honey Nut Cheerios, múffu, múslístöng eða beyglu með rjómaosti? Kannski ég ætti frekar að veðja á vínber, appelsínur eða aðra ferska ávexti? Hvernig gos langar mig í? Hingað í herstöðina mega íbúar flóttamannabúðanna ekki koma. Ég fæ hins vegar inni sem blaðamaður og gisti þar ásamt starfsmönnum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem ég fékk að slást í för með frá Sýrlandi. Við dyrnar að mötuneytinu hangir matseðill vikunnar. Á sunnudag var beikon í morgunmat en hamborgarar, pylsur og bakaðar baunir þegar leið á daginn. Svínakótilettur í morgunmat á mánudeginum. Svínakjöt á matseðlinum á hverjum einasta degi út vikuna í landi þar sem þorri landsmanna setur svínakjöt ekki inn fyrir sínar varir af trúarlegum ástæðum. Enda er beikonið ekki fyrir Írakana. Ég opna kókdós og spái í það hvort hermennirnir séu allir 18 ára eða hvort þeir líti bara út fyrir að vera það. Þeir eru glaðlegir, vingjarn15


Ríkisfang: Ekkert

Hermaður fyrir utan mötuneytið í herstöðinni.

legir, grínast hver í öðrum og heilsa mér kurteislega. Ég tek stikkprufu – strákarnir í mötuneytinu reynast vera 21 og 22 ára. Á einn vegginn hefur verið límt plastumslag. Inni í því eru útprentuð skilaboð frá yfirhershöfðingja landgönguliðs flotans, send til hermanna í Írak og Afganistan á afmæli landgönguliðsins árið 2008: „Árásirnar 11. september 2001 breyttu þjóð okkar um aldur og ævi, og forseti okkar hefur heitið því að þessi þjóð muni ekki standa hjá meðan morðóðir hryðjuverkamenn leggja á ráðin um næstu árás,“ segir yfirhershöfðinginn. Ellefti september? Ráðamenn eru löngu búnir að gangast við því að Írak hafði ekkert með árásirnar í Bandaríkjunum að gera. Sá sem skammtar matinn í mötuneytinu var þrettán ára þegar tvíburaturnarnir í New York hrundu til grunna – félagi hans fjórtán. Seinna um kvöldið stekkur þrekvaxinn hermaður óvænt undan ryðguðum olíutunnum og skýtur sér eldsnöggt á bak við steinvegg. Tunnurnar vagga fram og til baka áður en þær skellast saman og velta með látum eftir jörðinni. 16


Flóttamannabúðir

Skothríð berst frá nálægu húsi. Frá steinveggnum er svarað í sömu mynt. Rauður blossi lýsir upp svæðið áður en grár reykur leggst yfir allt. Hermaðurinn beygir sig niður og hleypur eins og fætur toga upp að næsta vegg, hefur vélbyssuna á loft og tæmir úr henni. Andartaki síðar hættir hreyfingin í fjarska. Dauður! Ungur hermaður rekur upp fagnaðaröskur og veifar tölvuleikjafjarstýringu. „Náði þér!“ „Dísús, maður. Heppni og ekkert annað.“ Félagi hans ranghvolfir í sér augum og leggur fjarstýringuna frá sér. Tekur síðan eftir mér þar sem ég stend upp við vegginn. „Ó, góða kvöldið, fröken.“ Strákarnir í sófanum líta upp frá tölvuskjánum. Hneigja höfuðið virðulega, bresta á með þykkum suðurríkjahreim, ég hef ekki séð þá áður: „Sæl, fröken.“ „Velkomin, fröken.“ Í herstöðinni við landamæri Íraks og Sýrlands tæma hermenn úr vélbyssum á tölvuskjá, tækifærin til að gera það í raunveruleikanum eru fá hér um slóðir. Vestast í Al Anbar-héraðinu hefur allt verið með frekar kyrrum kjörum um nokkurra mánaða skeið. Ástandið er mun betra en í Bagdad. Ég horfi á tölvuskjáinn og fer óvart að hlæja. „Svo þið haldið ykkur við með því að berjast í sýndarveruleika. Magnað!“ Engum öðrum virðist finnast þetta fyndið, kannski er þetta heldur ekkert fyndið. Ég doka við og fylgist með ungum, feimnislegum strák með gleraugu grilla snoðklipptan vin sinn á skjánum. Sá snoðaði fórnar höndum. „Hei, þetta var ósanngjarnt, ókei? Byrjum aftur.“ Hann rís upp að nýju, í sýndarveruleika í raunveruleikanum í Írak. Herliðið hefur það meginhlutverk að vakta Al Tanf-landamærastöðina á landamærum Íraks og Sýrlands. Það er hér sem erlendir 17


Ríkisfang: Ekkert

bardagamenn eru sagðir hafa streymt inn í landið eftir innrásina. Sumir hermannanna eru við gæslustörf í herstöðinni sjálfri og þeirra bíður að dveljast innan gaddavírsins og sandpokanna allan sólarhringinn. Það er bannað að fara út fyrir herstöðina nema við skyldustörf. Í flatneskjunni í kring er svo sem ekki mikið við að vera. Nálægt stöðinni er húsaþyrping en næsta þéttbýli er órafjarri. Flóttamannabúðirnar eru rétt hjá en gætu allt eins tilheyrt öðrum heimi. Á skraufþurri jörð í tjaldbúðunum myndar stórgrýti afkáralega umgjörð um auða hjólastóla sem standa fyrir framan sum tjöldin. Við hliðina á einum slíkum situr drengur í dökkbláum íþróttagalla og horfir niður fyrir sig. Hægri fóturinn er af við hné, sá vinstri afmyndaður. Drengurinn fékk í sig sprengjubrot í loftárásum bandalagsríkjanna í Basra, um það leyti sem stjórn Saddams Husseins féll. Ég kinka til hans kolli og ætla að ganga hjá en fólkið í flóttamannabúðunum vill endilega að ég sjái hann almennilega, skoði sárin, taki myndir. Menn drífur að, strákurinn grúfir sig vandræðalegur niður, tárin byrja að renna. Sjálf hripa ég eitthvað niður á blað, hnykla brýr, hiksta. Hef ekki hugmynd um hvort hann skammast sín fyrir að gráta eða hvort hann grætur af skömm yfir að hafa endað sem afmyndað hrúgald sem kemst hvergi. Einkennilegur massi af holdi hangir við hægri lærlegginn og hnéskelina. Það er eins og enn eigi eftir að gera stúfinn að almennilegum stúfi. Litaraftið er sérkennilegt, hálfgráleitt. Vinstri fóturinn lítur helst út eins og brunnin spýta, raunar er lítið eftir af honum nema rammskakkt beinið, hitt virðist hafa sprungið í burtu. Hnéð er bæklað, húðin sviðin, tærnar óeðlilegar, klesstar saman – þetta er ekki fótur, þetta er afskræming. Ég kyngi og brosi skakkt – það gáfulegasta sem mér dettur í hug að segja áður en ég læt mig hverfa er: „Gangi þér vel.“ Þar sem ég sit hjá nýfæddu stúlkunni og móður hennar hringir gemsi í tjaldinu. Í flóttamannabúðunum er ágætis farsímasamband, enda 18


Flóttamannabúðir

Systur Línu og bestu vinkonur hennar. Rasha með þriggja mánaða gamla dóttur sína og tvíburarnir Rowayda og Ronda. Rowayda heldur á fjögurra daga gömlu stúlkunni.

herstöðin rétt hjá. Á línunni er rödd frá Íslandi sem vill vita allt um þá litlu, vita hvernig gangi, vita hvort umslagið sem ég tók með hafi komist til skila. Þetta er móðursystir litlu stúlkunnar, hún Lína, sem hringir frá Akranesi. Það er hálft ár síðan hún flutti til Íslands. Lína varð að skilja stóran systkinahóp eftir þegar íslenska ríkisstjórnin veitti henni hæli. Systurnar sem urðu eftir í eyðimörkinni eru sláandi líkar henni – þetta gæti raunar verið hún, sitjandi þarna inni í gluggalausu tjaldi. Mánuðina á undan höfum við Lína spjallað klukkutímum saman á Skaga. Á köldum vetrardegi er gott að sitja í sófanum heima hjá henni og horfa á snjókomuna út um stóran stofugluggann. Aðstæðurnar eru gjörólíkar en þegar öllu er á botninn hvolft er eyðimörkin einungis einu símtali frá ísnum. „Sigga, hvernig er í Al Waleed núna, er allt í lagi með þau?“ Ég jánka, allt er í lagi. Auðvitað er samt ekkert í lagi. Við hliðina á mér er ungbarn, fætt með gulu og án ríkisfangs. Palestínumenn fengu landvistarleyfi í Írak á sínum tíma en ekki ríkisborgararétt – það er ekkert land í veröldinni sem stúlkan getur gert tilkall til og sagt: Hér á ég heima. En ég 19


Ríkisfang: Ekkert

nefni það auðvitað ekki einu orði, það er óþarfi að fjölyrða um hið augljósa. Í nálægu tjaldi svífur sandryk um í sólargeisla sem brýtur sér leið inn í gegnum tjaldhimininn. Agnirnar dansa í loftinu áður en þær lenda á ofinni mottu og höfði manns sem fæddist í Ayn Ghazal í Palestínu. Hvítir skeggbroddar ramma inn hlýlegt bros og rök augu, þykkar hendur handfjatla lítinn kaffibolla með rótsterku, sætu kaffi. Gamli maðurinn er föðurbróðir Aydu Abdullah, sem endaði á Skaga líkt og Lína. Maðurinn flúði á sínum tíma frá Palestínu yfir til Íraks – og er nú, 61 ári síðar, á flótta frá Írak. Hann hristir höfuðið hálfgáttaður, þetta er skrýtið líf. Skyndilega fyllir út í tjaldopið kraftalegur maður með sólgleraugu – majórinn í bandarísku herstöðinni. Með honum er túlkur herliðsins. Hermennirnir eru á vappi í búðunum vegna þess að starfsfólk Flóttamannastofnunarinnar er mætt í mánaðarlega heimsókn sína. Majórinn sest inn til okkar með fyrirgangi, tekur samræðurnar hratt og örugglega yfir, spyr þau stuttlega hvernig gangi en talar samt aðallega sjálfur, segist vita að þetta sé allt saman erfitt, vita að þau vilji betra fyrir börn sín. Kippir tuskudýri upp úr úttroðnum poka og réttir lítilli stúlku í tjaldinu. Gestunum er fært kaffi og við sitjum öll í hring. Ég hef ekki græna glóru um hvort þetta er sviðsetning vegna þess að það er blaðamaður á staðnum eða hvort þetta er hluti af því að vinna „hug og hjörtu“ Íraka, nálgast þá og sýna þeim vinsemd. Majórinn teygir sig aftur í pokann og tekur upp aðra gjöf. „Lítil stúlka með jafnfallegt bros og þú þarf á svona að halda til að geta viðhaldið því!“ Sú litla tekur feimin við pakkanum. Tannkremstúpu. Ég kveð fólkið í tjaldinu og velti bréfi frá Íslandi á milli handanna. Var beðin að koma því til skila í búðunum. Bréfið var skrifað seint um kvöld tveimur vikum áður af enn annarri konu í íslenska hópn20


Flóttamannabúðir

Stúlkan með tann­ kremstúpuna fyrir utan tjaldið sitt.

um. Flugvélin mín var á leið í loftið eftir nokkrar klukkustundir og ég að hnýta seinustu lausu endana á Akranesi. Sú sem skrifaði bréfið baðst afsökunar á því hvað hún hefði verið lengi að koma því saman. Og látið mig bíða á meðan. Afsakaði sig í bak og fyrir og bað mig að útskýra aðstæður fyrir viðtakandanum, hún hefði ekki getað tjáð sig jafnskýrt og hún vildi. Þetta væri þó betra en ekkert. „Ég get bara … ekki einbeitt mér … get ekki skrifað það sem ég er að hugsa … get ekki tjáð mig á blaði … eftir allt sem ég er búin að sjá er ég svo ringluð. Það er allt á ferð og flugi í höfðinu á mér.“ Hún lagði frá sér pennann, braut saman bréfið og rétti mér. „Þegar hugurinn var skýr skrifaði ég oft ljóð. En nú skrifa ég ekki neitt lengur. Kannski get ég seinna skrifað ljóð. Á Íslandi!“ Þar sem ég afhendi bréfið í flóttamannabúðunum geri ég mér takmarkaða grein fyrir því sem fram undan er og átta mig tæpast á umfangi sögunnar. Veit ekki að ég á eftir að fara ótal ferðir á Akranes, borða meira af íröskum og palestínskum kræsingum en ég hélt að ég gæti innbyrt, gráta og hlæja, gnísta tönnum. Sitja á skrifborðsstól í Reykjavík og gaumgæfa ljósmyndir af limlestu fólki. Rýna í mynd21


Ríkisfang: Ekkert

bönd af manneskjum sprengdum í loft upp. Halda síðan í undarlega leit að gömlum, palestínskum þorpum í Ísrael. Þar sem ég geng um flóttamannabúðirnar í Írak veit ég bara að mér finnst fullkomlega óraunverulegt að héðan hafi fólk flutt til Íslands. Að á Akranes séu komnar konur og börn sem færa heimsmálin beint heim í stofu: Palestínu og Írak. Einhver hefði getað haldið að berskjölduð tjöld í eyðimörk væru nógu stór skammtur af ömurleika fyrir einn stað. Hrollkaldir vetur. Feiknarlegir sumarhitar. Það er ástæða fyrir því að hjálparsamtök hafa bent á að aðstæður í Al Waleed eru óbærilegar. Í búðunum er hins vegar að finna fleira en veðuröfgar: Sporðdreka sem skríða á milli tjaldanna. Snáka sem hlykkjast um. Þunglyndi og kvíða sem hrjá marga. En þá kemur það skelfilega. Þau sem kjósa að búa hér flúðu eitthvað enn verra. Eitthvað sem gerði helvítið í eyðimörkinni þrátt fyrir allt að skárri kosti. Hvað í ósköpunum er það?

22


‫ﺍﻟﻣﺧﻳﻡ‬ Bílsprengja ‫انفجار‬ ‫ملغومة ﻣﻠﻐﻭﻣﺔ‬ ‫ﺇﻧﻔﺟﺎﺭسيارةﺳﻳﺎﺭﺓ‬ Glerbrot og barnaföt Síðla árs 2006

‫ﻏﺯﻭ‬

Í miðjum reykjarmekkinum liggur handleggur. Sterkleg höndin er í óeðlilegri stellingu, glerbrot í hrúgum allt í kring. Spýtnabrak, strigaskór, plastpokar, matvæli, snúnar járnstangir. Öllu ægir saman. Fingurnir á jörðinni eru krepptir – karlmannsfingur. Þetta er handleggur án axlar, eigandinn er horfinn. Hann hlýtur að vera einhvers staðar mitt í skelfingunni – hver á handlegg, á hvern vantar margbrotna hönd? Stuttu áður tengdist höndin sláandi hjarta. Kannski kveikti hún í sígarettu, ef til vill tóku fingurnir í aðra hönd og heilsuðu innilega, tvö sláandi hjörtu. En á milli lífs og dauða er einungis einn kveikur. Í sekúndubrot virtist veröldin standa í stað – síðan varð hún að dufti. Fingurnir þeyttust í loft upp og enduðu í hrúgu á steyptri stétt. Handleggurinn rifinn af við öxl. Enn einn dagur í Bagdad, enn ein öflug bílsprengjan. Lína virðir vettvanginn fyrir sér og langar að kasta upp. Hún heitir Lína Mazar en er venjulega kölluð Lína. Dóttir hjónanna Falah og Afaf – hann flúði Palestínu þegar hann var ungur strákur, hún fæddist í Bagdad stuttu eftir að fjölskylda hennar flúði. Síðan liðu mörg ár og svo kynntust Falah og Afaf í Írak. Árið 1980 bættist Lína í hópinn á heimili þeirra í Bagdad. Lítill sólargeisli í stórum systkinahópi sem hélt þétt saman. Fyrir Íraksstríðið hafði Lína aldrei séð illa farin lík. Aldrei séð blóðpolla á malbiki eða húðtægjur á bárujárnsbraki. En nú er árið 23

Rikisfang: Ekkert - brot úr bókinni  

Ríkisfang: Ekkert eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur. Brot úr bókinni