Page 1


I Inngangur um siðmenningu

Ástin mín, á hverjum morgni vakna ég og ætla að yrkja til þín ljóð. Þau koma til mín í draumi, tær einsog fuglasöngur sumarsins, fögur sem tunglið á milli trjánna. Ég sé glampandi sólsetur, himna og höf. Einhver hlær í myrkrinu, einhver grætur. Einhvern tíma kemur þetta allt til mín, einhvern tíma vaknar veruleikinn og þá erum við hætt að hugsa um fjármálamarkaðina, einkavæðinguna og allt þetta helvítis fokking fokk, óréttlætið, ástandið, af því að þá verðum við búin að koma böndum á fjármálamarkaðina, taka einkavæðinguna í bakaríið og græðgina úr sambandi. Þá yrkjum við um dýrð ástarinnar, fegurð himinsins og söng fuglanna; en hamarshögg veruleikans halda áfram að dynja. Þau dynja úti í þjóðfélaginu, inni í þér, inni í mér, alls staðar. Í Bréfi til Láru, sem kom út árið 1924, talar Þórbergur Þórðarson um að í þessum heimi berjist tvö andstæð meginöf l, afturhald og framsókn. Afturhaldið er lífs~7~


bankastræti núll

speki andleysisins, segir Þórbergur, og vakir yfir helgi eignarréttarins einsog villidýr yfir bráð sinni. Það minnir á fjármálafyrirtæki nútímans og fjármálamarkaðina sem stundum kalla sig alþjóðasamfélag og líkjast úlfum sem ekki má styggja. Þórbergur Þórðarson segir: „Trúarbrögð þess er „framtak einstaklingsins“ og „frjáls samkeppni“, löngu úrelt lygaþvæla um nauðsyn gerspilltrar lífsstefnu. Af leiðingin er brask, fjárglæfrar, örbirgð, mannhatur, lítilsvirðing fyrir andlegum efnum, styrjaldir, drepsóttir og dauði fyrir örlög fram.“ Og Þórbergur bætir við að þetta ástand kalli Indverjar tamas. Framsóknina kalla Indverjar aftur á móti rajas en hún logar af hugsjónum og berst fyrir „réttlæti, mannbótum og samstarfi“. Jafnvægið þarna á milli kalla Indverjar sattva og er það eins konar sameignarstefna þar sem við hættum að láta „fáfróða og ábyrgðarlausa braskara verzla með líf og velferð almennings, og vísindi og listir steypa fjárgræðgi og styrjöldum af stóli“. Þórbergur Þórðarson vitnar einnig í dulspekinga um hinar ólíku vistarverur mannanna, hin ólíku plön tilverunnar, þar sem áttunda planið er hið dularfyllsta, „vistarvera forhertra glæpamanna, sannkallað helvíti“. Þórbergur kallar þetta plan síldarplanið „þar sem síldar­ spekúlantarnir verða gjaldþrota í dag og reisa með allt sitt hyski til Rómaborgar í fyrra málið“. Í ritgerðinni Music of Failure eða Auðnuleysishljómkviðunni – einsog Ísak Harðarson kallar hana í þýðingu ~8~


inngangur um siðmenningu

sinni sem birtist í Skírni haustið 1997 – lýsir bandaríski rithöfundurinn Bill Holm heimili Bardalsfólksins, fátækra innf lytjenda frá Íslandi: „Þau áttu enga fulla bauka af peningaseðlum, enga falda fjársjóði, ekkert sem hafði fjárhagslegt gildi í raun og veru; í þeim skilningi voru Bardalirnir vissulega fátækir. En ekki fátækir í huga eða anda! Þau áttu bækur á þremur eða fjórum tungumálum: Platon, Hómer, Björnsson á norsku, Snorra Sturluson á íslensku, Whitman, Darwin, Dickens, Ingersoll, Elbert Hubbard, haug af píanóverkum eftir Händel, Bach, Mozart, George Beverly Shea og Björgvin Guðmundsson, gamlar upptökur með Caruso, Galla-Curci, Schumann-Heink og John McCormack, ódýrar bækur með myndum af málverkum og höggmyndum merkustu listasafna í Evrópu, orgel, píanó, fiðlu, trompet, handbækur um garðyrkju, matargerð og húsráð, bestu tímaritin um pólitík og listrýni, auk Capper’s Farmer, Minneota Mascot og Plain Truth, orðabækur og málfræði þriggja eða fjögurra tungumála, bækur um furður vísindanna, ævintýraferðir Richards Burton, gamlar kennslubækur í framburði og stærðfræði, Biblíur og sálmabækur á öllum Norðurlandatungunum, Fást, The Reader’s Digest og „Sweet Hour of Prayer“. Litla húsið var einsog geimskip á förum frá jörðinni, fermt því besta sem við höfum gefið hvert öðru á síðustu 4000 árum í sögu mannlegrar vitundar. Og ekkert af því var tíu króna virði í ~9~


bankastræti núll

hinum harða heimi frjálsrar samkeppni! Skiptastjórarnir hefðu allt eins getað lagt eld að húsinu á þessu kóf heita sumarsíðdegi og sparað þannig allt ómakið við f lokkunina, valið á minningargjöfum til vinanna og bílskúrssöluna á því sem þá var eftir. En það sem manni varð ljóst og vakti ósvikna furðu, var að Bardalirnir höfðu ekki einungis troðfyllt hús sitt af þessu fáránlega dóti, heldur var húsið í rauninni táknmynd af þeirra innra lífi er þeir prýddu hinni mestu fegurð og viti sem þeir skilið gátu. Þau lásu bækurnar, léku á hljóðfærin, báru merkingu hússins með sér hið innra og tóku hana að lokum með sér ofan í röðina beinu í kirkjugarðinum í Lincolnsýslu. Og þó ekki alveg … Hver sá, sem ber með sér heila siðmenningu hið innra, gefur öllum af henni í samræðum og daglegri breytni … Ekkert þeirra hafði próf úr gagnfræðaskóla, hvað þá meira. Þau gáfu það sem launuðum kennurum mistekst svo tíðum að gefa.“ Til er önnur saga eftir Bill Holm. Í garðinum heitir hún og segir frá íslensku pokakerlingunni Söru Kline sem bjó í Íslendingabyggðinni í Minneota í miðvesturríkjum Bandaríkjanna. Þar segir meðal annars: „Hinn visni og skítugi líkami Söru Kline magnaðist í huga mér; ég fann fnykinn af hálfreyktum stubbum úr skjóðu hennar og kámuga krumlu hennar á kinninni. Þetta var sagan sem mamma vildi aldrei segja og ástæða ~ 10 ~


inngangur um siðmenningu

þess að mér var kennt – og það af þrotlausri smámunasemi – að umgangast hana einsog greifynju. Hún hafði sko mátt þola nóg í þessum heimi og þurfti ekki á frekari smán að halda á leið sinni úr honum. Siðmenning er vísast ekki fólgin í því að vita hvernig eigi að bregðast við í fyrsta sinn, frekar í hinu að reyna (án mikillar vonar) að vera skynsamur og nógu mannlegur til að bæta fyrir misgjörðirnar þegar þær mæta þér á nýjan leik.“ Sara Kline skar sig úr „sakir fátæktar“ og hafði orðið undir í lífinu. Sara Kline gekk alltaf í sömu lörfunum, gömul og visin, næstum tannlaus, fitugt grátt hárið hulið svartri slæðu. Ung stúlka var hún börnuð af ríkum karli en hann gekkst aldrei við barninu sem óx úr grasi, varð vandræðamaður sem barði móður sína og rændi og drakk sig í hel. Foreldrar Bills skipuðu honum að heilsa Söru Kline með handabandi og ávarpa hana kurteislega á íslensku „og það sem mér fannst verst af öllu, beygja mig niður og kyssa hana á kinnina“. Þetta var mikil þolraun fyrir drenginn, ekki síst þegar félagar hans og vinir sáu til. Bill Holm lýsir þroskaferlinu á bak við þetta með þessum orðum: „Börn eru útlendingahatarar að eðlisfari. Þau elska eigin fegurð og atorku svo mikið að þau fyrirlíta þá sem þetta skortir. Það er eðli þeirra að niður­lægja og atyrða krypplinga, gamalmenni og þá sem eru ófrýnilegir, sérkennilegir og afmyndaðir. Ég ~ 11 ~


bankastræti núll

og jafnaldrar mínir vorum engin undantekning frá því. Siðmenning er ferlið sem fyllir mann sektarkennd og skömm fyrir þetta útlendingahatur, og stöðvar það þannig. Í því búa fyrstu skyldur foreldranna.“ Ég trúi á annað líf og önnur, að hér og nú sé þar og þá og þar og þá sé hér og nú … Ég trúi á annað líf og önnur, fyrir dauðann og eftir, á framvinduna og fortíðina sem liggur undir koju í káetu heimsins og læðist hjá tollvörðum tímans.

Um hvað erum við að tala? Siðmenningu? Þroska? Einn af gömlu grísku spekingunum sagði þrennt þurfa að fara saman: bókvit, verkvit og siðvit. Þetta þrennt hefur verið rifið í sundur og menntun fyrst og fremst tengd skólagöngu en skólagengið fólk þarf ekki endilega að vera menntað, því menntun er menning hjartans, einsog ein góð kona sagði. Um hana hef ég fjallað annars staðar. Menning er ekki bara menningar- og listviðburðir. Menning er ekki bara fólgin í því að fara í leikhús og halda listahátíðir með tilheyrandi kokteilboðum heldur það besta sem við höfum gefið hvert öðru á síðustu 4000 árum mannlegrar vitundar, einsog ~ 12 ~


inngangur um siðmenningu

Bill Holm orðar það, og þar vega leikhús og listviðburðir þungt. Sumir líta á skáldskapinn sem baráttu gegn innihaldsleysinu og tómleikanum en tómleikinn leiðir af sér myrkrið í samtímanum og myrkrið í samtímanum er systir frjálshyggjunnar og bróðir fjármálamarkaðanna. Kannski er skáldskapurinn andspyrnuhreyfing hins mannlega, kannski sendiherra vonarinnar. Í þúsundir ára hefur maðurinn fært stór og smá atvik úr lífinu í kringum sig í búning orða: þróað frásagnar­list sem þrátt fyrir háan aldur minnir meira á ungling í blóma lífsins en hruman jötun. Því má slá föstu að þorsti mannanna í sögur sé óslökkv­andi og að sú tilhnei­g ing „að segja frá stórmælum sem orðið hafa í veröldinni sé ekki tíska heldur mann­k yninu ásköpuð“, einsog Halldór Laxness orðar það í Persónu­legum minnisgreinum um skáldsögur og leikrit. Í frásagnarlistinni varðveitir mannkynið minningu sína, breytir atburðum í ævintýr og staðreyndum í sögu. Þannig er aldurinn, fortíðin og hið liðna ávallt með okkur, liggur undir koju í káetu heimsins og læðist hjá tollvörðum tímans. En nú heyri ég hamarshöggin dynja. Styrjaldir, orkuskortur, hungursneyð, bankahrun og gjaldþrot, allar ógöngurnar sem fjármálamarkaðirnir hafa leitt okkur í, kannski í samspili við dauðasyndirnar. Í því ferli er erfitt að sjá hvað er eggið og hvað er hænan, enda er ~ 13 ~


bankastræti núll

það svo, einsog Megas orti á einum stað, að elti refurinn úlfinn í hringi eltir úlfurinn faktískt refinn. Eða söng ekki John Lennon: All I want is the truth, just gimme some truth …

~ 14 ~

Bankastræti núll, brot  
Bankastræti núll, brot  

Greinasafn Einars Más Guðmundssonar, brot