Page 1


FO R MÁLI

Charlotte 14. febrúar, 2002

Það er alltaf eitthvað að brotna, rofna og bresta. Glös og diskar og neglur. Samningar og kartöfluflögur. Það má rjúfa heit og brjóta brauð. Það má brjóta ísinn. Öldur brotna og raddir bresta. Keðjur má rjúfa. Alveg eins og þögnina. Síðustu tvo mánuði meðgöngunnar bjó ég til lista yfir þetta allt í von um að það myndi auðvelda fæðingu þína. Loforð bresta. Hjörtu bresta. Nóttina áður en þú fæddist settist ég upp í rúminu til þess að bæta einhverju á listann. Ég rótaði í náttborðsskúffunni í leit að blýanti og blaði en Sean lagði hlýja hönd á fótlegginn á mér. Charlotte? sagði hann. Er allt í lagi? Áður en mér tókst að svara dró hann mig í faðm sinn, þrýsti mér að sér og ég sofnaði örugg og gleymdi að skrifa niður hvað mig hafði dreymt. Það var ekki fyrr en mörgum vikum síðar, þegar þú varst komin, að ég mundi hvað hafði vakið mig þessa nótt; flekamót. Það eru staðir þar sem jörðin brestur. Það eru staðir þar sem jarðskjálftar eiga upptök sín, þar sem eldgos verða til. Með öðrum orðum: jörðin er að bresta undir okkur; það er traust jörðin undir fótum okkar sem er blekking. Þegar þú komst geisaði stormur sem enginn hafði spáð fyrir um. Norðaustan stormur sögðu veðurfræðingarnir seinna,


8

BROTHÆTT

stórhríð sem átti að blása í norður til Kanada í stað þess að sækja í sig veðrið og berja strönd Nýja Englands. Fréttastofurnar fleygðu burt fréttunum af menntaskólakærustupörum sem hittust aftur á elliheimili og giftust og frægri sögunni á bak við sælgætishjörtun og komu þess í stað með sífelld fréttaskot af afli stormsins og bæjum þar sem ísinn hafði slegið út rafmagnið. Amelia sat við eldhúsborðið og klippti samanbrotinn pappír í hjörtu um leið og ég fylgdist með snjónum fjúka upp í tæplega tveggja metra skafl upp við glerdyrnar. Í sjónvarpinu sáust bílar renna út af vegum. Ég gaut augunum á skjáinn, á bláu ljósin á lögreglubílnum sem hafði verið lagt fyrir aftan bílinn sem valt og reyndi að sjá hvort lögreglumaðurinn í bílstjórasætinu væri Sean. Ég hrökk upp við bylmingshögg á glerhurðina. „Mamma!“ hrópaði Amelia, henni var líka brugðið. Ég sneri mér við í tæka tíð til að sjá hagldrífuna gera atlögu í annað sinn og mynda sprungu í glerið, ekki stærri en nöglina á mér. Á meðan við horfðum breiddi hún úr sér í vef af sprungnu gleri á stærð við hnefann á mér. „Pabbi lagar þetta seinna,“ sagði ég. Það var þá sem ég missti vatnið. Amelia leit á milli fótanna á mér. „Það hefur orðið smáslys.“ Ég kjagaði að símanum og þegar Sean svaraði ekki í farsímann sinn hringdi ég í skiptiborðið. „Þetta er konan hans Seans O’Keefe,“ sagði ég. „Ég er að fara að fæða.“ Maðurinn á skiptiborðinu sagði að hann gæti sent sjúkrabíl en það myndi örugglega taka tíma – það hefðu orðið svo mörg umferðarslys. „Það er allt í lagi,“ sagði ég og minntist þess hversu lengi ég hafði verið að fæða systur þína. „Ég hef örugglega þó nokkurn tíma.“ Skyndilega engdist ég í svo öflugri hríð að síminn datt úr hendinni á mér. Ég sá Ameliu horfa á mig með uppglennt augu. „Það er allt í lagi með mig,“ laug ég og brosti þar til mig verkjaði í kinnarnar. „Síminn datt bara.“ Ég teygði mig í símann og í þetta sinn hringdi ég í Piper, sem ég treysti betur en nokkrum öðrum í heiminum til að bjarga mér.


CHARLOT TE

9

„Þú getur ekki verið að fæða,“ sagði hún, jafnvel þótt hún vissi betur – hún var ekki bara besta vinkona mín heldur líka upphaflegi fæðingalæknirinn minn. „Keisaraskurðurinn er á dagskrá á mánudaginn.“ „Ég held að barnið hafi ekki fengið tilkynninguna,“ sagði ég, greip andann á lofti og gnísti tönnum í annarri hríð. Hún hafði ekki orð á því sem við vorum báðar að hugsa: að ég gæti ekki fætt þig á eðlilegan hátt. „Hvar er Sean?“ „Ég … veit ekk– ó, Piper!“ „Andaðu,“ sagði Piper sjálfkrafa og ég fór að anda ótt og títt, ha-ha-hí-hí, eins og hún hafði kennt mér. „Ég hringi í Giönnu og segi henni að við séum á leiðinni.“ Gianna Del Sol var fósturlæknir sem hafði tekið við mér fyrir aðeins átta vikum að beiðni Piper. „Við?“ „Varstu að hugsa um að keyra sjálf?“ Fimmtán mínútum síðar hafði ég mútað systur þinni með því að koma henni fyrir í sófanum og kveikja á barnaefninu. Ég sat við hliðina á henni í vetrarfrakka föður þíns, einu flíkinni sem passaði orðið á mig. Í fyrsta sinn sem ég fékk hríðir hafði ég verið búin að pakka niður í tösku sem beið við dyrnar. Ég hafði verið með fæðingaráætlun og tekið upp mismunandi tónlist til að spila á fæðingarstofunni. Ég vissi að þetta yrði sárt en launin voru ótrúleg: barnið sem ég hafði beðið eftir að hitta mánuðum saman. Í fyrsta sinn sem ég fékk hríðir hafði ég verið svo spennt. Í þetta sinn var ég skelfingu lostin. Þú varst öruggari innan í mér en þú yrðir þegar þú kæmir út. Í sömu andrá var dyrunum þeytt upp og Piper fyllti allt herbergið með sjálfsörygginu í röddinni og skærbleiku úlpunni. Rob, maðurinn hennar, fylgdi á eftir henni og hélt á Emmu, sem hélt á snjóbolta. „Barnatíminn?“ sagði hann og sett­ist hjá systur þinni. „Veistu, þetta er uppáhaldsþátturinn minn í öllum heiminum … næst á eftir Jerry Springer.“ Amelia. Ég hafði ekki hugsað fyrir því hver ætti að passa hana á meðan ég yrði á spítalanum að fæða þig.

Brothætt  
Brothætt  

Brot úr skáldsögunni Brothætt