Hjólhesturinn 28. árg. 1. tbl. mars. 2019

Page 1

FJALLAHJÓLAKLÚBBURINN Hjólhesturinn, 1. tölublað 28. árg. mars 2019 - Frítt

Fjölskylduferð á norðurlandi Hjólaferðir klúbbsins - Heydalur 2018 Hjólaleiðir á höfuðborgarsvæðinu merktar Hjólað um í Malmö og vetrarhjólreiðar í Oslo Gölluð umferðarljós. Hjólandi í umferðarlögunum


Páll Guðjónsson

Fjallahjólaklúbburinn 30 ára Íslenski fjallahjólaklúbburinn (ÍFHK) var stofnaður í þjóðgarðinum í Skaftafelli 5. júlí 1989 og verður því 30 ára í sumar. 27. april 1991 var svo boðað til almenns fundar, þar sem línur voru lagðar í starfsemi klúbbsins. Fólk var kosið í nefndir og klúbbnum skipt í ferðadeild, sem sér um ferðamál, keppnisdeild sem sá um keppnishald og umhverfisdeild sem sá um umhverfis- og skipulagsmál. Hjólreiðafélag Reykjavíkur, (HFR), var endurvakið vorið 1993 og sér nú um starfsemi keppnisdeildarinnar. Landssamtök hjólreiðamanna, (LHM), vor u stofnuð veturinn 1995 - 1996 og sjá nú um verkefni umhverfis­deildarinnar. Hjólreiðar.is verkefnið sem undirritaður stýrir hefur svo til viðbótar útbúið fræðslu- og hvataefni sem er bæði aðgengilegt frítt á vefnum og í formi bæklinga sem má nálgast frítt í klúbbhúsinu. Margir hafa farið í sitt fyrsta hjólaferðalag

með klúbbnum enda kjörið að prófa slíkt í góðum félagsskap og læra af reynslu annara. Sumar ferðirnar henta nýliðum sérlega vel og aðrar eru fyrir lengra komna. Það má færa rök fyrir að ÍFHK eigi stóran hlut í þeirri þróun að normalisera hjólreiðar hvort heldur er til ferðalaga, til samgangna eða sem sport og þykja þau sem slíkt stunda heint ekkert skrítnari en annað fólk lengur. Þegar ég kynntist klúbbnum fyrst átti hann heimili í litlum búningsklefaskáp í Þróttheimum þar sem fólk hittist mánaðarlega og spjallaði eða skoðaði ljósmyndir úr nýjustu ævintýraferðunum sem varpað var á tjald með slides vélum. Seinna flutti klúbburinn í lítið herbergi á Austurbugt en það hús þurfti að víkja fyrir Hörpu. Þá fengum við rétt svo fokhelt húsnæði á Brekkustíg 2 sem kostaði gríðarmikla vinnu sjálfboðaliða að standsetja í núverandi horf. En í dag fer vel um okkur þar og nútímatæknin gerir allt einfaldara. 2


Hjólhesturinn, fréttabréf ÍFHK 1. tölublað 28. árgangur, mars 2019

Klúbbhúsið Brekkustíg 2 Viðgerðaraðstaða á neðri hæðinni, kaffi og spjall uppi þegar við erum með opið hús 1. og 3. fimmtudagskvöld hvers mánaðar. Fylgist með dagskránni á vef klúbbsins og skráið ykkur á póstlistann til að fá tilkynningar um viðburði sem eru oft skipulagðir með stuttum fyrirvara því við viljum hafa gaman af lífinu og skipuleggjum okkur ekki um of. Allir velkomnir, félagsmenn og aðrir.

Útgefandi: Íslenski fjallahjólaklúbburinn. Klúbbhúsið, Brekkustíg 2, 101 Reykjavík. Netfang ifhk@fjallahjolaklubburinn.is Heimasíða: fjallahjolaklubburinn.is FB: facebook.com/fjallahjolaklubburinn Ábyrgðarmaður, ritstjóri og umbrot: Páll Guðjónsson. Próförk: Páll Guðjónsson og Frosti Jónsson Myndir flestar frá greinahöfundum. Forsíðumynd: Annecke Macrander. Á tvíhjólinu eru Andreas og Christina Macrander, en í kerrunni er farangur.

Afslættir til félagsmanna Allar helstu hjólaverslanir veita félags­mönnum ÍFHK veglegan afslátt gegn fram­vísun félags­ skírteinis og einnig tugir annarra aðila með útivistarvörur, ljósmynda­vörur, rafvörur, tónlist, málningu og m.fl. Skoðið listann á vef klúbbsins:

Athugið: Skoðanir greina­höf­unda eru þeirra eigin og endurspegla ekki endilega skoðanir stjórnar eða annarra félaga Íslenska fjallahjólaklúbbsins.

fjallahjolaklubburinn.is Markmið félagsins er að auka notkun reiðhjóla og vinna að bættri aðstöðu hjólreiða­f ólks til samgangna þó við störfum undir þessu gamalgróna nafni. Náin samvinna er við Lands­­samtök hjólreiðamanna en allir félagar ÍFHK, Hjólreiðafélagi Reykjavíkur, Hjóla­ mönnum og Hjólreiðafélagi Akureyrar eru jafnframt í LHM.

© 2019 Íslenski fjallahjólaklúbburinn. Vinsamlega getið um uppruna efnis ef þið vitnið í það eða endurbirtið efni.

Félagsgjaldið er aðeins 2500 kr. 3500 kr. fyrir fjölskyldur, 1500 kr. fyrir yngri en 18 ára. Einfaldar leiðbeiningar á heimasíðu fjallahjolaklubburinn.is > klúbburinn > Gangið í klúbbinn 33


Helgar- og sumarleyfisferðir 2019 Nákvæmar dagsetningar liggja ekki fyrir í tveimur ferðum og margar hugmyndir eru á teikniborðinu. Þetta þarf ekki að vera tæmandi listi og við erum alltaf opin fyrir hugmyndum ef einhver hefur. Upplagt að mæta á opið hús, sýna sig, sjá aðra og hafa áhrif á starfið í klúbbnum.

Í júní verður norðurland heimsótt, nánar tiltekið Skagafjörður og hjólaðar þar tvær dagleiðir. Nánari upplýsingar þegar nær dregur. Skráið ykkur á póstlistann okkar í reit af forsíðunni á fjallahjolaklubburinn.is 23 júní verður harðjaxlaferð upp að Hvalvatni. Dagsferð þar sem burðast þarf með hjól og klöngrast erfiðar leiðir. 40 km að mestu á malarvegi og torfærum stígum. Þessi ferð er eingöngu ætluð vönu hjólafólki í fantagóðu formi.

18-19 maí. Hefðbundin Eurovision ferð. Hjólað yfir Hengilinn niður að Úlfljótsvatni þar sem við munum gista í góðum bústað með heitum potti og þeir sem vilja geta fylgst með Eurovision í sjónvarpinu. Erfiðleikastig 6, mest megnis á malbiki, en 10 km á malarvegi. Áætlaður hjólatími 5-7 tímar hvor dagur. Dótið verður ferjað fyrir okkur.

Erfiðleikastig 10, þær gerast ekki erfiðari en þetta. Fararstjóri er Örlygur Sigurjónsson sem veitir nánari upplýsingar um ferðina.

4


6-7 júlí verður farið á Snæfellsnes. Hjólaður hringur um Berserkjahraun og farið í sund í Stykkishólmi og svo út að borða. Kvöldvaka á tjaldsvæðinu, en þar verður gist í tjöldum. Gítarar velkomnir. Á sunnu– deginum tökum við pjönkur okkar saman og keyrum í átt til Borgarness. En áður en við snæðum þar hamborgara samkvæmt hefð, þá ætlum við að hjóla Hítardalinn, en þar voru náttúru­hamfarir í fyrra. Við munum skoða skriðuna í kristilegri fjarlægð og undra okkur á ægikröftum náttúrunnar. Erfiðleikastig 5 af 10. Fólk þarf að vera vant hjólreiðum og hafað hjólað í 1-2 klukku­ stundir samfleytt án vandkvæða. 40-60 km hjólaleiðir að mestu á malarvegum.

26-27 júlí. Fjallahjólaklúbburinn verður 30 ára í júlí. Við munum fagna með grillveislu í Heiðmörk. Þeir sem vilja geta gist í skála Norðmanna og tekið inn allann yndisleika Heið­merkurinnar að næturlagi. Erfiðleikastig 5. 9-11 ágúst ætlum við að heimsækja Vest­ mann­aeyjar. Gist í tjöldum, bröggum eða innigistingu, fólk velur sjálft. Farið út að borða á föstudags- og laugardagskvöldi. Kíkt á næturlífið og svo verður Eyjan náttúrulega hjóluð þvers, kruss og í kross. 30 km hjólaðir sitt hvorn daginn, allt á malbiki. Erfiðleikastig 5. Í byrjun september erum við að gæla við að fara utanlandsferð. Moseldalurinn ku vera ákaflega fallegur og auðveld hjólaleið.

Opnumynd úr ferð klúbbsins um Borgarfjörð 2018 © Anna Magnúsdóttir

5


Takið þátt í starfinu Klúbburinn rekur sig ekki sjálfur en þegar margir leggja hönd á plóg verður þetta allt skemmtilegra. Ertu með hugmynd að nýju verkefni eða viltu taka við og leiða hefðbundin verkefni klúbbsins t.d. vikulegar hjólaferðir um borgina? Saman búum við yfir mikilli reynslu og erum til í að prófa nýja hluti. Það er enginn starfsmaður á launum til að vinna verkin svo okkur vantar ekki bara hugmyndir heldur líka fólk til að framkvæma þær. Endilega hafið samband ef þið eruð með tillögur eða viljið koma inn í starfið með virkum hætti. Við erum grasrótarsamtök og ekki mikið fyrir að flækja hlutina fyrir okkur.

Fylgist með Við er um með viðburðaalmanak á heima­­­síðunni þar sem við skráum viðburði í klúbbhúsinu, hjólaferðir á höfuð­­borgar­ svæðinu, lengri ferðalög og einnig áhugaverða viðburði skipulagða af öðrum en okkur. Við sendum einnig fréttapósta á póst­ listann okkar þegar eitthvað er á döfinni, endilega skráið ykkur á hann á forsíðu heima­ síðunnar. Einnig er gott að „líka við“ Facebook síðu klúbbsins fyrir minni tilkynningar og einnig er spjallgrúppa á Facebook með nafni klúbbsins þar sem félagsmenn mega spyrja og spjalla um allt milli himins og jarðar.

6


Klúbbhúsið okkar Á Brekkustíg 2 er ágætis aðstaða fyrir 20-30 manns á efri hæðinni, þar sitjum við í mesta bróðerni, sötrum kaffi, ræðum heimsmálin, hjólamálin og þjóðmálin. Það verða haldin kompukvöld, myndasýningar,, viðgerðanámskeið og ýmsar óvæntar uppá­ komur sem við kynnum á póstlistanum okkar eða Facebook síðu klúbbsins. Á jarðhæð er viðgerðaraðstaða fyrir félags­­­fólk. Öll áhöld til viðgerða eru til staðar en ætlast er til þess að fólk geri við sjálft og gangi fallega um aðstöðuna. Myndir: Hrönn Harðardóttir, Auður Jóhannsdóttir, Anna Magnúsdóttir og Þorgerður Jónsdóttir.

7


Ómar Smári Kristinsson

Týpur ferðafólks

sér frá einum áfangastað til hins næsta þegar hjólað er. Það er erfitt og hættulegt að lesa blöð og skoða snjallsíma meðan hjólað er. Auðvitað er líka fullt af spennandi efni á blaðsíðum og snjallsímum – heilu heimarnir. Og maður er fljótur að hendast heimanna á milli á blaðsíðum og skjám. Og maður er fljótur að ferðast heimshorna á milli í flugvél. Gott og blessað, en þetta er samt sundurslitið. Þetta minnir mig á muninn á því að nenna að lesa heila bók eða lesa bara kaflaheiti og myndatexta. Fyrir mér er ferðalag heild. Bestu heildirnar upplifi ég á reiðhjóli, svona yfirleitt. Ekki í sama skilningi og heildarmynd

Mér finnst g aman að ferðast. Mér finnst gaman að sjá hvernig sjónarhornin breytast eftir því hvernig ég færist til. Hvað birtist á bak við næsta fjall, hvert rennur þessi lækur, hvernig tengjast þessir ásar og hálsar? Gluggasæti í lest (ef það er ekki of mikið af trjám) eða í flugvél (ef það er ekki of mikið af einsleitum skýjum) eru mínir staðir. Ég skil ekki hina týpuna; fólkið sem dregur fyrir gluggann eða skoðar eitthvað á blað­síðum eða skjám, meðan stórbrotið eða spennandi útsýni líður hjá. Þá hugsa ég með mér: Veslings fólkið, ætli því finnist nokkuð gaman að hjóla? Fólk er svo lengi að koma 8


nauðsynleg gögn fyrir gamlingja. Já, svona týpa er ég. Fólk sem upplifir heiminn frekar í áfangastöðum en leiðinni milli þeirra, frekar í punktum en línum, á trúlega erfitt með að skilja mig, hvernig ég nenni þessum þvælingi milli aðalatriða. Ég felli enga dóma (þó mér finnist auðvitað minn háttur betri). En ég vona bara að hin týpan finni einhverja leið til að njóta hjólreiða, vegna þess að þær eru svo mann- og heimsbætandi, líkt og bent er á með óteljandi rökum í Hjólhestinum og víðar. Mynd: Höfundur hjá algengum upphafs- og endapunkti, heimili sínu. Ljósmynd: Nína Ivanova

úr flugvélarglugga. Það er æðislega gaman að sjá heiminn ofanfrá, en það er ekki sama þrívíddin, sama snertingin, sama virkjun skilningarvita, sama líkamlega tilfinningin og að vera á reiðhjóli. Þegar ég verð orðinn hrört gamalmenni, þá vona ég að tæknin hafi fengið frið til að þróast þannig að til verði góðir sýndarhermar fyrir innanhússhjól. Þá get ég skoðað mig um í löndum heims – ekki flettandi myndum, heldur puðandi í gegnum eina samhangandi mynd. Þetta kemur ekki í staðinn fyrir líkamlega upplifun raunferðalags en hefur þann kost að það er stutt í klósett, lyfjaskápa, bedda og önnur

Íslenska hjólakortið Cycling and the independent traveler around Iceland 2019 Ný útgáfa af íslenska hjólakortinu er væntanleg 1. júní 2019. Kortið verður á ensku og dreift frítt í öllum betri hjólabúðum og upplýsingamiðstöðvum ferðamanna. Allt efni kortsins er svo aðgengilegt á www.cyclingiceland.is Þar verður meðal annars: • Hjólakort Íslands – sérupplýsingar um umferð, brekkur, hjólaþjónustu • Hjólakort höfuðborgarsvæðisins – helstu hjólaleiðir og þjónusta • Public Transport leiðakort (www.publictransport.is) – allar áætlunarleiðir landsins • Campsites & Huts – öll tjaldsvæði og fjallaskálar, sérupplýsingar fyrir hjólandi gesti • Gagnlegar upplýsingar: öryggi, tjaldreglur, ferðir með hjól í almenningssamgöngum o.fl. Höfundar eru Ómar Smári Kristinsson, Andreas Macrander, Nina Ivanova og Ingi Gunnar Jóhannsson. Ritstjóri er Sesselja Traustadóttir. Útgefandi er Hjólafærni á Íslandi.

Á nýja kortinu má meðal annars sjá allar einbreiðu brýrnar þar sem Vegagerðin mun lækka hámarkshraðann í 50 km. Einnig er sett inn tákn fyrir hvíldarstaði við þjóðvegina. 9


1

Árni Davíðsson

Hjólað í Malmö Malmö er sem kunnugt er í Suður-Svíþjóð í héraðinu Skáni. Borgin hefur lengi verið fræg fyrir mikla hlutdeild hjólreiða í umferð borgarinnar. Kannski hefur nálægðin við Kaupmannahöfn handan Eyrarsundsins þar eitthvað að segja en sennilega hafa sögulegar ástæður líka einhver áhrif en borgin er gömul iðnaðarborg og reiðhjólið var gjarnan samgöngumáti verkafólks á 20 öld. Borgaryfirvöld Malmö virðast í gegnum tíðina hafa haft meiri skilning á hjólreiðum en í flestum öðrum borgum. Eftir ráðstefnu sem ég sótti í borginni hafði ég nokkra tíma lausa og ákvað að

skella mér á borgarhjól að skoða borgina. Borgarhjól eru hjól í stöndum um borgina sem hægt er taka á skammtímaleigu með lítilli fyrirhöfn. Greiðslufyrirkomulag er gjarnan með appi tengt greiðslukorti og maður skráir sig í mislanga áskrift. Í Malmö notar maður appið “Malmö by bike” [www.malmobybike. se/en] sem fæst í Google play store eða Apple Appstore. Áskriftarmöguleikar eru þrennskonar, 365 dagar, 72 tímar og 24 tímar og kostar það 250, 165 og 80 sænskar krónur. Eftir að hafa skráð sig er manni ekkert að vanbúnaði að taka hjól í næsta standi með notendanúmeri og pin númeri að vopni en

2

3

10


4

5

heimamaðurinn getur sótt sér sérstakt kort til þess arna. Hægt er að nota hjólið í eina klukkustund í senn. Þegar sá tími er að renna út skilar maður hjólinu í næsta stand og tekur annað hjól í staðinn ef maður ætlar að halda áfram. Hjólin voru ágætlega útbúin með 7 nafgírum, nafrafal sem knýr fram og afturljós og handbremsum. Ég hjólaði frá lestarstöðinni um 14 km hring en náði auðvitað ekki að sjá hana alla á tveimur tímum. Ég fór fyrst í suður í gegnum miðborgina og allt að Rosengård hverfinu sem er blokkahverfi með háu hlutfalli innflytjenda. Þar stóðu yfir framkvæmdir við nýja brautarstöð fyrir pendeltåg eins og úthverfalestir þeirra Svía heita. Þaðan lá leiðin í vestur framhjá lestarsstöðinni Triangeln þar sem m.a. mátti sjá hjólastæði og í gegnum garðinn Slottsparken með Malmö kastala að ströndinni þar sem brúin yfir Eyrarsund blasti við í fjarska. Þar utan við liggur hverfið Västra hamnen sem er frægt þróunarsvæði með íbúða- og athafnahúsnæði sem hefur verið

Myndir 1. Malmö er þróuð borg þar sem bætt hefur verið við borgarlínu til að auka flutningsgetu milli Rosengård og Västra hamnen. 2. Hjólastæði í miðborginni ofan á neðanjarðar bílageymslu. 3. Kort af leiðinni sem ég hjólaði í Malmö. 4. Hjólastigarnir liggja oft milli húsa­þyrpinga fjarri umferð. 5. Tvístefnustígur öðr u megin g ötu í íbúðahverfi. 6. Undirgöng eru vel hönnuð með sýn í gegnum göngin. 7 . T v í s t e f nu s t í g u r þ ve r a r g ö t u m e ð umferðarljósi. Takið eftir stöðvunarlínum og biðskylduþríhyrningum.

6

7

11


8

10

9

12

15

11

13

16 12

14

17


18

19

8. Tvístefnustígur þverar jaðar markaðs­ torgsins Möllevångstorget. Borgar­hjólastandur milli stígs og götu. 9., 10. og 11. Læst hjólageymsla við Triangeln brautar­­stöðina. 12. Vegvísar við hringtorg. Tvístefnustígur liggur hringinn í kringum hringtorgið. 13. Hringtorg vestan við Malmöhus slott. 14. Turning torso. 15. Upplýsingaskilti við borgarhjólin í Malmö. 16. Upplýsingar um Turning torso. 17. Bílageymsla í Västra hamnen. 18. Hjólaumferð í miðborginni. 19. Hjólaljós framan við aðal­brautar­stöðina. 20. Panorama mynd í vestur. Eyrarsund og Turning torso. Eyrarsundsbrúin í fjarska.

að allir stígarnir voru tvístefnu stígar. Það er, þeir liggja öðrum megin götunnar og það er tvístefna hjólandi á þeim og miðĺina sem skilur að umferðarstefnurnar. Það er ólíkt því sem er handan sundsins í Kaupmannahöfn þar sem er langmest af einstefnu stígum sem eru lagðir sitthvoru megin götunnar og á að hjóla í umferðarstefnu bílanna. Almennt er það talið verra að hafa tvístefnu stíga þar sem hættan af slysum er talin meiri fyrir þá stefnu sem er á móti bílaumferð. Í Malmö virðist þetta þó ekki koma að sök. Talsverður hluti stíganna lá líka fjarri götum um garða eða opin svæði eða vel aðskilin frá götum. Einnig sá ég engar eiginlegar hjólareinar í plani með götum enda byggja þær á einstefnu samsíða umferð. Frágangur stíga, merkingar, vegvísarnir, þveranir og umferðarljós voru líka vel af hendi leyst. Það er tvímælalaust hægt að mæla með því að kynnast borgum sem maður heimsækir með því að taka borgarhjól og hjóla um þær. Eins og við þekkjum vel frá Reykjavík sér maður aðra staði en maður er vanur þegar maður er á bíl og maður er fljótur á milli staða og getur séð mikið á stuttum tíma. Gott er að gera sér grein fyrir í stórum dráttum hvað maður vill sjá í borginni en það getur líka verið gaman fyrir ævintýragjarna ferðalanga að hjóla út í buskann og sjá hvert hjólið ber mann. Þar ræður tímaramminn nokkru. Það getur verið stressandi að vera “villtur” í ókunnri borg ef maður á pantað flug eða lest.

byggt upp á s.l. 20 árum á gömlu iðnaðarsvæði við ströndina þar sem m.a. skipasmíðastöðin Kockums stóð áður. Ég fór um þetta hverfi í ljósaskiptunum og leist frekar vel á. Það er byggt þétt með fjölbreyttum húsum og virðist vinalegt við fyrstu sýn. Frægasta byggingin þar er “Turning Torso”, um 190 m há bygging með skrifstofum á fyrstu 12 hæðunum, íbúðum á 13.-52. hæð og ráðstefnu sölum á 53. og 54. hæð. Byggingin hverfist um 90° frá grunni að efstu hæð. Þetta er líka hæsta byggingin en flest húsin eru 3-5 hæðir. Alla þessa leið hjólaði ég nær eingöngu á sérstökum hjólastígum. Það sem einkennir það sem ég sá af stígakerfinu í Malmö var

20 13


Annmarkar gagnvart hjólandi í nýjum umferðarlögum Páll Guðjónsson svona lagasetningar. Í þessu máli er mikilvægast að horfa á möguleg heildaráhrif. Alþingi má ekki leiða í lög ákvæði, sem geta haft neikvæð áhrif á hjólreiðar og göngu og þar með neikvæð áhrif á lýðheilsu og umhverfi, sem ekki er sannað að hafi teljandi ávinning í för með sér vegna slysa­varna. Slysahætta hjólandi er ekki meiri en annarra vegfarenda, sem eru ekki undir sama “hjálm” seldir. Mun fleiri einstaklingar í öðrum hópum vegfarenda hafa beðið bana í umferðinni heldur en hjólandi og miðað við banaslys frá aldamótum verða hjólreiðar að teljast öruggasti fararmátinn á Íslandi. Til að auka öryggi hjólandi ber fyrst og fremst að leggja áherslu á að koma í veg fyrir slys fremur en að reyna að minnka tjón þegar slys verða með skyldunotkun á veigalitlum reið­h jóla­h jálmum. Leggja ber áherslu á aukningu í hjólreiðum, vönduð mannvirki fyrir hjólandi, gott viðhald og þjónustu þessara mannvirkja og menntun og fræðslu til að bæta hjólreiða- og umferðarmenningu.

Ýmislegt gott í frumvarpinu Unnið hefur verið að endurskoðun umferðarlaga undanfarinn áratug og er endur­ skoðað frumvarp til umferðarlaga nú fyrir Alþingi og í afgreiðslu hjá Umhverfis- og sam­göngu­nefnd Alþingis. Undirritaður hefur ásamt fleirum í laganefnd Lands­s amtaka hjól­reiða­manna allan þennan áratug sent inn athugasemdir og ábendingar. Fulltrúar hjól­ reiða­manna fengu hinsvegar ekki að koma að borðinu þegar upphafleg endurskoðun fór fram. Við eru ánægð með að tekið hefur verið tillit til margra athugasemda samtakanna í alllöngu ferli frumvarpsins og að mestu leyti eru fulltrúar Landssamtaka hjólreiðamanna ánægðir með frumvarpið og þau atriði sem snúa að hjólandi umferð. Til dæmis hefur verið bætt við ákvæði um að lágmarks hliðarbil þegar farið er framúr reiðhjóli þurfi að vera 1,5 m. En Landssamtök hjólreiðamanna gera þó athugasemdir við nokkrar greinar í frumvarpinu, svo sem innleiðingu ákvæðis um að banna ungmennum að hjóla án reiðhjólahjálma, gildishlöðnum hugtökum eins og „óvarinn vegfarandi“ og að vilja skilgreina allskyns tæki sem reiðhjól þvert á málskilning landsmanna sem hafa notað reiðhjól í yfir 100 ár.

Bannað “af því bara”? Flestar lagasetningar, sem setja hömlur við frelsi einstaklinganna eru settar með lang­ tíma­hagsmuni samfélagsins í huga, með það fyrir augum að koma í veg fyrir samfélagslegt tjón, hvort sem það er af efnahagslegum, umhverfis­­legum eða heilsufarslegum toga. Þetta ákvæði í frumvarpinu uppfyllir ekki þessi skilyrði, þvert á móti, og er að auki ekki rökstutt neinum gögnum. Það eru heldur ekki í samræmi við þau markmið sem sett eru fram í 1. gr. laganna. Engin endurskoðun virtist hafa farið fram á eldri reglu ráðherra sem þó var yfirlýstur til­gangur endurskoðunar umferðarlaganna.

Meta reynsluna og ræða málið Að mati LHM kemur ekki til greina að festa í lög það atriði í 79. gr., að það verði bannað fyrir yngri en 15 ára að hjóla án reiðhjólahjálms, nema árangurinn af nú­ verandi reglu frá ráðherra hafi verið metinn og málið verið rætt efnislega, meðal annars með þátttöku sérfræðinga um lýðheilsuáhrif 14


Samstaða um alla Evrópu Hagsmunasamtök hjólreiðamanna, ekki bara á Íslandi heldur um alla Evrópu hafa lagst gegn lagasetningum sem banna hjólreiðar án reiðhjólahjálma. Landssamtök hjólreiðamanna hafa sent inn ítarlegar athugasemdir á öllum stigum málsins allt frá 2008. Við höfum farið yfir reynslu annarra þjóða sem hafa reynt slíka löggjöf og bent á neikvæðar afleiðingar fyrir öryggi hjólandi, lýðheilsu, umhverfi og loftslagsmál, sem getur orðið afleiðingin ef bann við hjólreiðum án hjálms, leiðir til þess að minna er hjólað, eða að minni aukning verður í hjólreiðum en annars. Reynsla annara þjóða af svona lagasetningu er neikvæð þegar málin eru skoðuð heildstætt. Þegar upp er staðið eru það auknar hjólreiðar sem auka öryggi hjólreiðamanna, notkun reiðhjólahjálma hefur lítil áhrif til eða frá. Hver er þá þörfin á að leiða þessar takmarkanir á frelsi einstaklinga í lög? Að sjálfsögðu höfum við ekkert á mót því að einstaklingar noti hjálma og að stjórnvöld og aðrir hvetji til hjálmanotkunar svo fremi það sé gert án hræðsluáróðurs. Árangur af slíku starfi er sennilega betri en af lagaboði. Í Noregi var farið í umfangsmikla skoðun á kostum og göllum samskonar hjálmaskyldu og má lesa hana á vef norsku Vegagerðarinnar. Niðurstaðan var að mæla gegn slíkri laga­ setningu, þekktir ókostir vógu þyngra en hugsanlegir kostir slíkrar lagasetningar og var fallið frá þeim áformum. Fulltrúar LHM hvöttu Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis að kynna sér þessa úttekt. Það er búið að vinna hana og ætti ekki að taka langan tíma að kynna sér niðurstöðurnar. Í Evrópu eru ekki mörg lönd með viðlíka tálmanir við notkun reiðhjóla og hvergi þar sem þær hafa náð þeirri útbreiðslu sem íslendingar ættu að stefna að. Danir höfnuðu svona lagasetningu nýlega og fylgdu gögn tengd því máli umsögn LHM til Alþingis.

Ungmenni mótmæla á Austurvelli Í sömu viku og þetta er skrifað fóru um tvö þúsund ungmenni í skólaverkfall niður á Austurvöll til að krefja stjórnvöld um aðgerðir fyrir umhverfið. Á sama tíma eru stjórnvöld að leiða í lög ákvæði sem er sérstaklega beint gegn frelsi þeirra til að nýta sér umhverfisvænsta farartækið. „Þeir sem hafa alist upp við að nota hjálm sem börn eru þeir sem nota hjálminn minnst þegar þeir eru orðnir eldri.“ kom fram í kynningu á nýrri könnun Samgöngustofu á umferðarhegðun íslendinga. Óvarinn vegfarandi? En það eru fleiri atriði sem við höfum gert athugasemdir við eins og notkun á hugtakinu “óvarinn vegfarandi” sem er gildishlað og gefur í skyn óeðlilegt ástand þótt ekkert sé eðlilegra en að gangandi og hjólandi vegfarendur ferðist um án sérstaks varnarbúnaðar svo sem brynju og hjálma. Með þessu orðalagi er slík hugsun þó normaliseruð og má túlka sem drög að því að reisa frekari skorður við því að ganga eða hjóla og krefjast frekari búnaðar og klæðnaðar fyrir þessa vegfarendur, dæmi eru um slíkt erlendis frá. En jafnframt höfum við séð þróun þar horfið er frá ofverndunarstefnu þessari og hjálmaskylda og skyldunotkun neonvesta hefur verið aflétt. Reiðhjól, hvað er það? Í frumvarpinu er ýmsum tækjum hent undir skilgreininguna á reiðhjóli, tækjum sem alls ekki eru reiðhjól, s.s. vélknúnum hlaupahjólum og hjólabrettum, Segway og fleiri tæki með tvö hjól á einum öxli, já og líklega rafmagnshjólastólar og skutlur fyrir fótafúna. Það er ekki flókið að breyta orðalaginu þannig að hver flokkur tækja sé skilgreindur sér og svo sagt t.d. að notkun þeirra falli undir sömu reglur og notkun reiðhjóla þar sem það á við. Við höfum bent á þetta árum saman en ekki haft erindi sem erfiði. Af hverju vitum við ekki. 15


Heydalur

Hrönn Harðardóttir hjólaferðir fyrir Fjallahjólaklúbbinn. Ég er að vestan og ákvað að slá saman tveimur ferðum, fyrst fór ég að heimsækja fjöl­s kylduna á Ísafirði, svo var planið að koma við í Heydal á leiðinni suður, hjóla tvær dagleiðir upp úr Hjólabók Ómars Smára með félögum úr Fjallahjólaklúbbnum og eiga nota­ lega stund í Heydal. Aðstaðan þar er býsna góð, tjaldsvæði, veitingastaður, heitir pottar, sundlaug og sumarbústaðir.

Hvað ungur nemur, gamall temur. Ég fann Fjallahjólaklúbbinn fyrir tæpum áratug. Ég hef farið óteljandi ferðir með klúbbnum, kynnst urmul af skemmtilegu fólki og átt ófáar gleði- og gæðastundir með hjólafólki á öllum aldri. Þegar ég var beðin um að koma inn í ferðanefnd, þá taldi ég að ég hefði ekkert þangað að gera, ég þekki ekkert af hjólaleiðum eða gististöðum. En smám saman lærir maður af öðrum og nú hef ég skipulagt fjölmargar

16


En við búum á Íslandi og veðrið setti strik í reikninginn. Það spáði brjáluðu veðri seinni daginn og nokkrir aðilar hættu við vegna veðurs. Þar eð ég var hvort eð er fyrir vestan ákvað ég að halda plani, mæta og við gætum þá bara dólað okkur í heita pottinum, legið í sófanum í bústaðnum og sagt hreystisögur af ævintýra­ferðum fyrri ára. Ég átti jafnvel von á að ég yrði ein með syni mínum í ferðinni. Já, börnin munu landið erfa, sonur minn, tvítugur er farinn

að feta í hjólför móður sinnar og ákvað að koma með í ferðina. Ég var búin að prófa þolið hjá honum og vissi að ef dagleiðin væri honum um megn, þá ætti hann í engum erfið­ leikum með að rölta um, skoða fjöru og fjall á meðan hann biði eftir að ég sækti hann á bíl að hjóladegi loknum. Og við vorum búin að fara í 20km prufurúnt á Ísafirði, svo mér þótti líklegt að hann myndi ráða við og klára daginn. Sem hann gerði með prýði og sóma. Veðurguðirnir voru í essinu

17


sínu, það var logn og ágætis hiti. Stuttbuxna­ veður. Fyrri dagleiðin var Mjóifjörður. Ég var búin að mæla dagleiðina á ja.is og hafði smá áhyggjur að við yrðum búin með 30 km hringinn á hádegi. En þetta teygðist upp í 37 með spottanum að Heydal og við vorum öll sammála um að dagleiðin væri bara mjög temmileg og hefði alls ekki mátt vera lengri, þá hefðum við öll legið rotuð uppi í bústað eftir

daginn. Eftir að hafa skolað ferðarykið af okkur í heitu pottunum var farið í sparidressið og út að borða. Í ferðinni voru fjórar konur og svo sonur minn, sem hélt heiðri karlmannanna á lofti. Stella, gestgjafinn í Heydal tók okkur opnum örmum, þar var hlaðborð sem svignaði undan bragðgóðum veisluréttum og kvöldið leið við glaum og gleði.

18


Næsta dag lá leiðin suður, en vindhraðinn var bara og aðeins 30 metrar á sekúndu. Það var prýðis veður í Heydal og við hefðum átt að hjóla eitthvað í nágrenninu, frekar en reyna við Gilsfjörðinn. Þegar við komum þangað var ekki stætt og ekki hjólafært. Ef maður er í útivistarferð, þá er alltaf hægt að ganga og það er hægt að fara í sund. En ég var því miður ekki göngufær vegna stoðkerfisvandamála, svo

við leystum upp ferðina, til að fólk gæti fengið sér hreyfingu að eigin vali og nýtt sunnudaginn í skemmtilega útiveru. Gilsfjörður fer ekki langt og verður án efa hjólaður einhvern tíma seinna. Myndir: Hrönn Harðardóttir, Elfa Jónsdóttir og Þorgerður Jónsdóttir

19


Vegvísar á stígum Árni Davíðsson, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna Stíg akerfið á höfuðborg arsvæðinu er orðið þétt og samanhangandi. Nú er hægt að komast frá Mosfellsbæ í norðri að Hafnarfirði í suðri og frá Seltjarnarnesi í vestri að Norðlingaholti í austri eingöngu á stígum. Samanhangandi stígakerfi sem gerir hjólandi og gangandi vegfarendum kleift að komast milli staða án þess að deila stofnbrautum með hraðri umferð bíla hefur verið eitt helsta hagsmunamál Landssamtaka hjólreiðamanna frá upphafi. Það gerist líka æ sjaldnar að notendur endi “úti í móa” þar sem stígur endar og ekkert tekur við eins og gerðist oft hér áður fyrr. Íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa líka tekið vel við sér og sýna að þeir kunna vel að meta stígana. Í ferðavenjukönnun 2014 kom fram að um 61% íbúa höfuðborgarsvæðisins höfðu notað reiðhjól síðastliðið ár og væntanlega langflestir á stígum. Það er þó ekki nóg að leg gja stíga. Notendur þurfa líka að geta ratað um þá. Við þekkjum flest okkar nánasta umhverfi t.d. þar sem við gengum í skóla. Þeir sem hafa gengið eða hjólað sinna ferða læra líka á umhverfi sitt

og rata út frá kennileitum og reynslunni. Því miður á þetta ekki við um alla. Margir fara aldrei gangandi eða hjólandi af heimili sínu en þekkja leiðina sem þeir fara akandi. Það er ekki sami hluturinn að aka milli staða og hjóla eða ganga. Kennileitin eru oft ólík og reynsluna vantar til að það verði auðvelt að rata um stígana. Hætt er við að menn verði fyrir vonbrigðum og óþægilegri reynslu og fyrir marga getur það verið næg ástæða til að leggja hjólinu, hætta að ganga eða sleppa því að taka strætó. Landssamtök hjólreiðamanna hafa í mál­ flutningi sínum í gegnum tíðina lagt áherslu á að stígar verði merktir með leiðarmerkjum eða vegvísum eins og vegakerfi landsins. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa síðustu ár unnið að verkefni um gerð leið­beininga um vegvísa fyrir stígakerfið og áætlun um staðsetningu vegvísa á stígakerfinu. Leiðbeiningarnar eru tilbúnar og áætlunin Þjónustumerki sýnd í Elliða­ár­vogi, tjaldstæðið og sundlaugin í Laugardal. Gult og blátt merki sýnir að sami stígur tilheyrir báðum lykilleiðum. Þarna er upphaf fjólu­bláu leiðarinnar.

Kort af lituðum lykilleiðum. Ü Reykjavíkurborg r æ sb r og bæ av ða Kóp ar G

Rey Kóp kjav av ík ur og bo sb rg æ r

Hafnafjarð arbær Garðabær

Seltjarnarn esbær

Mosfells bær Reykjav íkurborg

Mosfellsbær C – Reykjavík C

Strandleið

Hafnarfjörður C – Garðabær C – Kópavogur C – Rvk. Borgartún

Hafnarfjörður C – Garðabær A – Kópavogur A – Rvk. Mjódd

Reykjavík A – Reykjavík C

Lykilleiðir hjólreiða á höfuðborgarsvæðinu

Ýmsar tengileiðir

0

1

2 km

Heimildir: LUKR, IS50v Dags: Apríl 2016

20


Töfluvegvísir, úr leiðbeiningum

Vegvísir sem sýnir á hvaða stíg maður er, úr leiðbeiningum:

sömuleiðis. Og það sem meira er, búið er að merkja stóran hluta stígakerfisins með vegvísum á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavík, Mosfellsbær, Garðabær og Hafnarfjörður hafa merkt stígkerfið að hluta eða öllu leyti. Kópavogur ætlar að hefjast handa núna í vor og Seltjarnarnes er líka að hugsa sér til hreyfings. Núna er víða hægt að rata um stigakerfið með því að fara eftir vegvísunum og er þetta hagsmunamál hjólandi og gangandi vegfarenda því komið vel áleiðis. Á vegvísunum rekast menn á að skilti eru merkt með mismunandi litum. Litirnir afmarka svokallaðar litaðar lykilleiðir, sem eru skil­greindar aðalleiðir sem teygja sig oft enda á milli á höfuðborgarsvæðinu. Lykilleiðirnar eru

í sérstökum forgangi þegar kemur að sópun á sumrin og mokstri og hálkuvörnum að vetri til. Markmiðið með litamerktum lykilleiðum er að bæta þjónustu við hjólreiðafólk, fjölga þeim sem hjóla og hjálpa fólki að velja góða stíga á ferðum sínum, bæði íbúum og gestum. Leiðin meðfram strandlengjunni er blá, græna leiðin fer í gegnum Víðidal, Elliða­ ár­d al, Öskjuhlíðina, Fossvog og endar í miðbæ Reykjavíkur. Rauða leiðin liggur frá Sæbraut, gegnum Garðabæ og Kópavog í miðbæ Hafnafjarðar. Fjólubláa leiðin liggur frá Elliðavogi í gegnum Elliðaárdal, Garðabæ og Kópavog í miðbæ Hafnarfjarðar. Gula leiðin liggur frá miðbæ Mosfellsbæjar í miðbæ Reykja­víkur um Elliðaárósa. Á skiltunum er að finna þjónustumerki, þar sem það á við eins og tjaldstæði eða sundlaug. Vegvísar verða líka settir upp á öðrum stígum líka til viðbótar við lituðu lykilleiðirnar þegar fram í sækir.

Við gatnamót Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar. Rauða leiðin til vinstri í Hafnarfjörð og til hægri að byrjun leiðarinnar við Sæbraut. Hjólamerkið með bláum kassa í kring sýnir að ef beygt er til hægri kemst maður á bláu leiðina við ströndina hjá Sæbraut.

Við ánna Korpu eða Úlfarsá. Til vinstri kemst maður á ólitaða leið inn í Úlfarsárdal.

21


Morten Lange

Hjólreiðar á fleygiferð í Osló Nú hjóla 18% fleiri um vetur í Osló en í fyrra. Borgin reynir að ryðja helstu leiðir það vel að yfirleitt er hjólað á beru malbiki allan veturinn. Fyrirtækið Eco-counter, sem hefur selt bæði Osló og Reykjavík hjólatelja, segir að á milli áranna 2015 og 2016 hafi vöxturinn í Osló verið í topp fimm samkvæmt gögnum fyrirtækisins. Osló var bæði nyrsta borgin á topplistanum og sú mishæðóttasta. Margar ástæður góðs gengis mætti telja til, en núverandi meirihluti í borginni, sem er gjarnan kölluð rauð-græn, hefur lagt enn meiri áherslu á hjólreiðar en fyrri borgar­ stjórnir. Það var samt fyrri borgarstjórn sem setti á laggirnar sérstakt hjólreiðaverkefni (Sykkelprosjektet), mannað áhugasömu fólki sem voru vel að sér. Fyrsti yfirmaður verk­ efnisins var áður framkvæmdastjóri systur­

samtaka Landssamtaka hjólreiðamanna í Noregi og þar áður starfsmaður Vega­ gerðinnar. Aðalskipulagið frá 2015, sem var búið til undir fyrri stjórn var sannarlega með áherslu á almenningssamgöngur, hjólreiðar og göngu. Tollhlið til að bæði draga úr bíla­ umferð inn til miðborgarinnar og til að fjár­ magna samgöngumannvirki, bæði græn og grá, hafa verið við lýði svo áratugum skipti. Svo og í mörgum öðrum borgum í Noregi. En núverandi stjórn hefur spýtt í lófana hvað varðar framkvæmdir og hefur þorað að fjarlægja bílastæði til að koma fyrir hjóla­ reinum. Hér eru nokkrar aðgerðir og dæmi um nýtt vinnulag sem hafa bæst við síðustu árin: ● “Gráðuga aðferðin” við að byggja hjóla­ mann­virki. Að gera það sem hægt er án þess

“Reiðhjólahótel”

22


að fara í gegnum ferli skipulagsbreytinga. Sjá fyrir/eftir myndir. Í mörgum tilfellum var svo farið í skipulagsbreytingu í kjölfarið og til dæmis skipulögð annaðhvort aðgreind tvíátta hjólreiðabraut með gangstétt eða upp­hækkuð hjólarein með einstefnu beggja vegna götu eins og víða er í Kaupmannahöfn sem dæmi. ● Styrkjapottur til að niðurgreiða raf­ magns­­reiðhjól fyrir almenningi í fyrra vetur, hann tæmdist á mjög skömmum tíma ● Styrkjapottur fyrir fyrirtæki og stofnanir til kaupa á vöruhjólum sem settur var á laggirnar í fyrra. Þessi möguleiki er enn opinn fyrir­­tækjum. ● Opnun “reiðhjólahótels”, sem hluti aðal­­ lestarstöðvarinnar í Osló. Þar má geyma hjólið í vaktaðri geymslu þar sem er innan­gengt að sporunum. Vandað var til útfærslu hótelsins. Mánaðargjald er 50 NOK (um 750 ISK).

● Enn meiri kraftur settur í jákvæða umfjöllun um hjólreiðar og lögð áherslu á að ná til 8 og 80 ára með það að markmiði að lækka þröskulda fyrir hjólreiðar fyrir alla aldurshópa. Það er tvímælalaust að í Osló eru hjól­ reiðar að aukast, bæði með tilkomu bætts aðgengis og góðs hjólaleigukerfis og með tilkomu fjöl­breittari hópa notenda, til dæmis foreldrar með ung börn, skyndibitasendlar og iðnaðarmenn. Stundum getur samt fram­ setning á gögnum verið undir áhrifum af óskhyggju um leið og fyrirvörum er lítið haldið á loft. Höfundur: Morten Lange, búsettur í Osló, en varamaður í stjórn LHM. Myndir frá borgaryfirvöldum í Osló, AKB Lighting og oslo.mdg.no

23


Andreas Macrander

Fjölskylduferð á Norðurlandi Áður fyrr hjóluðum við oftast langar leiðir um allt land en nú með tvö börn vildum við heldur fara í fjölskylduferð um svæði þar sem hægt er að hjóla á vegum með minni umferð og þar sem er stutt milli skemmtilegra áfangastaða og tjaldsvæða. Ferðamenn fara gjarnan um óbyggðir landsins, ýmist á hjólum eða í bílum, en okkur þykir vænt um tré og

Rigning, rigning, rigning... Eiginlega vildum við í fjölskyldunni njóta sumarsins úti á hjóli og í tjaldi. En í fyrra voru sunnanáttir ríkjandi og oftast var grátt og blautt í Reykjavík. En sem betur fer er alltaf einhver landshluti á Íslandi þar sem sólin skín og þegar veðurspáin var skoðuð varð ljóst að ferðin lægi á Norðurland.

24


vel gróið land. Því var svæðið við Eyjafjörð, Fnjóskadal og Goðafoss valið. Auðvelt er að komast á Norðurland með Strætó. Leið 57 fer tvisvar á dag frá Reykjavík til Akureyrar og vagnar eru alltaf með hjólagrind á sumrin. Lagt var af stað 9. júlí 2018, Annecke og Johannes (10 ára) á sínum eigin hjólum en Andreas og Christina (6 ára) á tvíhjóli (e. tandem) sem er stillt fyrir krakka að aftan. Þannig er hægt að hjóla lengri leiðir í mótvindi og í umferðinni sé þess þörf, en við tókum Chariot-kerruna með til vara og fyrir farangur. Í gegnum Fossvogsdal náðum við í Mjódd sem er upphafsstöð flestra landsbyggðaleiða Strætó. Við mættum snemma og höfðum því nægan tíma til að koma öllu í vagninn. Ekkert mál var að setja hjólin okkar á hjólagrindina – fyrst stóra tvíhjólið svo tvö venjuleg hjól og enn var pláss fyrir eitt hjól frá erlendum ferðamanni. Barnakerran var brotin saman sem pakki og hjólatöskurnar passa ágætlega í farangurslestina þó hún sé frekar lág í lands­ • •

byggðarvögnum Strætó. Það þarf bara að skipuleggja allt vel. Þetta var reyndar ekki fyrsta Strætóferðin okkar. Bílstjórarnir þekkja okkur vel enda erum við fjölskylda án bíls og ferðumst alltaf með reiðhjól í Strætó. Förum árlega frá Reykjavík og austur á Seyðisfjörð. Þaðan tökum við Norrænu til að ferðast um Evrópu. Vagninn lagði af stað frá Mjóddinni stundvíslega kl. 09:00 og var skemmtileg ferð til norðurs með hið sívinsæla kjötsúpustopp í Staðarskála, spjall við ferðamenn og viðkomu á Akureyri kl. 15:29. Á tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti á Akur­eyri hittum við enn fleira hjólafólk. Við tjölduðum í þyrpingu á einum stað svo að enginn jeppi gæti ekið yfir okkur. Reyndar finnst okkur á mörgum tjaldsvæðum á Íslandi eins og maður sé að tjalda á bílastæði með tilheyrandi hávaða og útblæstri. Skemmtilegri eru græn náttúruleg svæði þar sem krakkar geta leikið hvar sem er. Við Þórunnarstræti

Tvíhjólið með Andreas og Christinu við Ljósavatni. Strætó leið 57 í Borgarnesi. Hjóla-

• •

25

grindin er fullnýtt með fjögur hjól. Lömbunum var klappað á Grýtubakka. Við Fnjóskárbrú á Grenivíkurvegi.


vantar slíkt bíllaust svæði en að öðru leyti er staðsetningin, miðsvæðis á Akureyri, alveg frábær. Daginn eftir skoðuðum við gróður og tré, sáum eikitré í grasagarðinum á Akureyri, fórum á byggðasafnið, fengum okkur pizzu og skelltum okkur í sund. 11. júlí byrjaði með stífri sunnanátt en hálfskýjað og þurrt. Við hjóluðum í norður eftir hringveginum austan megin Eyjafjarðar. Framkvæmdir við Vaðlaheiðargöngin voru enn í gangi og því talsverð umferð á fyrstu 16 km, en með vindinn í bakið kláruðum við kaflann fljótt og á Grenivíkurvegi varð svo allt miklu rólegra. Það var mjög spennandi að skoða gamla bæinn á Laufási og sjá hvernig fólkið lifði í gamla daga, í torfbæ með litlum gluggum, án rafmagns og hitaveitu. Eftir stopp við Fnjóskárbrú þar sem fífa vex alls staðar var næsta tjaldsvæði Ártún. Við vorum nánast ein á svæðinu og krakkarnir léku sér í litlu skýli og um allt í náttúrunni. Þaðan fórum við í dagsferð án farangurs. Á Grýtubakka klöppuðum við sætum

lömbum og hestum og þar var heiðagæs sem hafði fundist vængbrotin og fengið hæli hjá hænsnunum. Svo fórum í fjallgöngu upp á bæjarfjall Grenivíkur, Þengilhöfða. Útsýnið yfir Eyjafjörð var stórfenglegt en um leið var svo margt annað að uppgötva líka - litlu blómin, býflugur og spói efst á fjallinu. Annar spói við veginn fór fyrir okkur kollhnís í lendingu. Eftir þetta ævintýri var sundlaugin á Grenivík besti staðurinn til að slappa af – þar er einnig útsýni yfir Eyjafjörð og að einhverju leyti fannst okkur jafnvel vatnið í lauginni mýkra en annars staðar.

26


• • • •

Spói á Þengilhöfða Á Sigríðarstöðum – svæðið án bíla mitt í náttúrunni. Álftafjölskylda í Fnjóská. Á Vaðlaheiðarveginum gamla, í sveigjunum Fnjóskadalsmegin

og nótt. Og vegna fluganna var hvort sem er best að borða, lesa og svo bara sofa í tjaldinu. Morguninn eftir var Vaglaskógur enn mjög blautur en seinni hluta dags rofaði til og við fórum í dagsferð suður í Fnjóskadal. Veginn var létt að hjóla. Á Brunagerði / Daladýrð er skemmtilegur húsdýragarður með forvitnum geitum, sætum kisum og folaldi. Meðal kindanna var hrútur með fjögur horn. Hann vildi samt fá heyið frá okkur eins og öll hin dýrin. Á Illugastöðum prófuðum við enn eina laugina því sundlaugar eru ómissandi hluti hjóla- og tjaldferða. Daginn eftir lá leiðin um Ljósavatnsskarð. Umferðin á hringveginum var miklu meiri en í Fnjóskadal en við náðum brátt að Goðafossi.

Frá Ártúni lá leiðin inn í Fnjóskadal eftir góðum malarvegi. Dalurinn er fallegur og vel gróinn. Á hjólinu er maður algjörlega í náttúrunni, finnur fyrir vindinum og hlustar á fuglalífið. Jaðrakanar voru á öðrum hverjum metra, við skoðuðum þórshana í polli og álftafjölskyldu í Fnjóská. Um kvöldið vorum við komin í Vaglaskóg. Við tjölduðum á aðeins opnara svæði við ána en fundum samt aðeins of mikið af dýralífinu – milljónir af flugum áttu við okkur erindi. Fnjóskadalurinn telst á meðal úrkomu­ minnstu staði á Íslandi en ekki þetta kvöld

27


Fossinn sjálfur er fjölsóttur ferðamannastaður en aðeins sunnar fundum við fínustu ylströnd við fljótið – sólin skein og yljaði sandinn og krakkarnir byggðu litla sandkastala. Við tjölduðum svo á Fosshóli þar sem er ágætis tjaldsvæði og kvöldmaturinn eldaður á borð og bekk rétt við tjaldið. Það má alveg giska hver er uppáhaldsmaturinn okkar: Pasta með sósu úr tómötum. Til að auka fjölbreytnina; stundum sósa úr tómötum með pasta í. En það er einnig fínt að elda íslenskar kartöflur og annað á meðan birgðir endast. Um kvöldið kom þoka og svo rigning í heilan sólarhring – þá létum við tjaldið og hjólin bara standa á Fosshóli og tókum Strætó í dagsferð til Húsavíkur. Við vorum einu farþegarnir í rútunni, það virðist sem æ fleiri fari með einkabílum í stað þess að ferðast saman með almenningssamgöngum. Við vildum nú ekki verða sjóveik á Skjálf­ anda í norðanáttinni svo hvalasafnið var þá besti staðurinn til að fræðast um þessar stór­ fenglegu skepnur. Sundlaugin á Húsavík er líka góður staður en skemmtilegastar voru reyndar endurnar í skrúðgarðinum. Daginn eftir rofaði til og þá var létt að hjóla um Ljósavatn og til Sigríðarstaða. Þar er lítið og einfalt tjaldsvæði – án rafmagns, eingöngu með kalt vatn og án bíla. Þar upplifðum við besta kvöld ferðarinnar – mitt

í náttúrunni, kvöldsólin baðaði dældina sem svæðið liggur í og krakkarnir fóru í ævin­ týraleiki. Það þarf ekki mikið til að vera alsæl. Nokkrar leiðir liggja frá Fnjóskadal í Eyjafjörð – nyrst um Dalsmynni (þar sem við hjóluðum á útleið), um Víkurskarð (enn umferðarþung í fyrra þar sem ekki var búið að opna göngin) og um Vaðlaheiðargöng (þá í framkvæmdum, nú opin en með mikilli umferð og bönnuð hjólandi umferð). En langbesta hjólaleiðin er gamli Vaðla­ heiðarvegurinn og við fengum leyfi til að fara í gegnum framkvæmdasvæði gangnanna Fnjóskadalsmegin. Vaðlaheiðarvegur er stysta og hæsta leiðin í Eyjafjörð. Yfirborðið er aðeins grófari, sérstaklega austanmegin, en samt ágætt fyrir öll hjól (nema racer hjól). Bílaumferð er hverfandi og finnst okkur Vaðlaheiði reyndar ein besta hjólaleið landsins. Leiðin liggur í stórum sveigjum en er aldrei brött og svo við gátum hjólað hægt og rólega upp á heiðina, 540 m yfir sjávarmáli, sem var sem sagt hápunktur ferðarinnar. Með útsýni yfir Akureyri létum við svo hjólin rúlla nánast endalaust og fórum svo yfir Óshólma á gamla þjóðveginum sem er fín hjólaleið til að komast á Akureyri. Lok ferðarinnar fögnuðum við með gómsætum ís. Heimferðin suður tókst á svipaðan hátt og leiðin norður. Morguninn eftir tókum við 28


Vinstri síða: Á toppinum – Vaðlaheiði, 540 m yfir sjó.

Betra að vera á Strætó: Þung umferð á hringveginum norðan Staðarskála í Hrútafirði.

Fnjóskadalur

Johannes og Christina sannfærðu okkar á hverjum degi að þau vildu koma aftur. Örugglega munum við gera það – það var svo margt að sjá og upplifa. Ferðin okkar stóð í tíu daga. Við fórum ekki marga kílómetra, heimsóttum enga „must see“ ferða­manna­ staði og slógum engin met. En það sem við upplifðum er að við í fjölskyldunni vorum saman í íslenska sumrinu og upplifðum náttúru landsins á hverju einasta augnabliki. Mjúka fífan sem vex eftir veginum, raddir fuglanna, sætu lömbin, yljandi sólin á skjólgóðum stöðum og að komast upp heiðina á eigin orku.

Strætó kl. 10:20 frá Akureyri. Á leiðinni til Reykjavíkur sáum við nokkra ferðamenn á hjóli á hringveginum en við vorum ekki alveg viss um hvort þeir væru ánægðir með ástandið á Íslandi. Vegir uppfylla ekki öryggisstaðla fyrir hjólreiðar sem eru í gildi víða um Evrópu. Það vantar vegaxlir og hjólastíga til að geta hjólað í kringum landið án þess að leggja sig í lífshættu fyrir bílaflóðinu. Þetta verður að bæta. Strætóferðin var samt hin ánægjulegasta og eftir 6 klst. 24 mín. kom vagninn til Reykjavíkur kl. 16:44 og hjóluðum við heim eftir stígakerfi borgarinnar.

29


Gölluð umferðarljós Árni Davíðsson, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna Hefur þú upplifað að bíða eftir grænu ljósi í heila eilífð þegar þú hjólar á götunni og kemur að umferðarljósum? Í samstarfi við Reykjavíkurborg og sveitar­ félögin á höfuðborgarsvæðinu hafa Lands­ samtök hjólreiðamanna og Hjólafærni verið með verkefni þar sem hægt er að koma með ábendingar um umferðarljós fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur. Eins og hjólandi þekkja vel eru mörg umferðar­stýrð umferðarljós í götu sem ekki skynja þegar reiðhjól kemur að þeim og fær hinn hjólandi þá ekki grænt ljós eins og önnur umferð. Þá eru mörg gangbrautarljós með ýmsa vankanta. Til dæmis þegar sá sem kemur að þeim hjólandi eða gangandi veit ekki hvort hann eigi að ýta á hnapp til að fá grænan karl. Sum hnappatæki gefa heldur ekki til kynna hvort ýtt hafi verið á takkann og veit notandinn því ekki hvort hann hafi verið numin af tækinu. Í öðrum tilfellum er ljósið sem vegfarandinn fær of stutt til að komast yfir akbrautina jafnvel þótt hann sé hraustur

og hvað þá ef hann á erfitt um hreyfingar eða er í hjólastól. Um 28 ábendingar hafa borist til þessa í verkefninu og hafa allar ábendingar verið skoðaðar og metnar. Búið er að laga þær sem auðvelt var að laga vegna þess að tæki var bilað eða stilling ekki rétt. Þar má nefna t.d. gangbrautarljós fyrir gangandi vestan Álfheima við Langholtsveg þar sem búið er að laga að takki fyrir grænan kall virkaði ekki. 1. mynd. Gönguljósin yfir Langholtsveg, búið að laga takka til að fá grænan kall. Aðrar bíða þess að verða lagaðar í sumar á framkvæmdatíma eins og þar sem þarf að endurnýja segulspólu í götu eða endurnýja gamlan búnað. Þar má nefna að spóla í götu verður endurnýjuð sumarið 2019 þar sem hún skynjar ekki hjól þegar umferð kemur af Kapellutorgi inn á Bústaðaveg. 2. mynd. Umferðarstýrð ljós á gatna­ mótum Kapellutorgs og Bústaðavegar skynja ekki reiðhjól en segulspóla verður endurnýjuð til að laga það.

1

2 30


Enn aðrar eru í áframhaldandi skoðun t.d. þar sem engin lausn er sjáanleg nema með mikilli endurbyggingu gatnamóta eða að niðurstaða er málamiðlun sem erfitt er að hnika. Það á t.d. við um gatnamótin Reykjaveg / Suðurlandsbraut þar sem hægri beygja norður Reykjaveg sker hjólandi og gangandi umferð þegar grænt ljós logar beint áfram fyrir þessa vegfarendur. Einnig gönguljósin yfir Sæbraut við Kirkjusand þar sem biðtími getur verið langur fyrir gangandi yfir daginn og grænn kall logar stutt en þar er þó búið að skipta um snertibúnað fyrir gangbrautarljós. 3. mynd. Gatnamót Reykjavegar/Suður­ lands­brautar. Hjólandi og gangandi í forgangi eru að þvera Reykjaveg meðan beygjuumferð frá Suðurlandsveg í vestur inná Reykjaveg sker leið þeirra. 4. mynd. Gangbraut yfir Sæbraut við Kirkjusand. Búið að laga snertibúnað fyrir gang­brautarljós en biðtími getur verið allt að 70 sek á dagtíma en sjaldnast meir en 22 sek á næturtíma. Búið er að stinga upp á ýmsum búnaði eins og t.d. niðurtalningarbúnaði sem sýnir hvað er langt þar til kemur grænt ljós og upplýsingagjöf um hver er hámarksbiðtími eftir grænu ljósi. Til stendur að setja upp niður­talningarbúnað á einum stað í Reykjavík í tilraunaskyni. Þessum ábendingum er safnað áfram og þeim komið á viðkomandi sveitarfélag til skoðunar og úrbóta. Tengill á insláttarformið: https://bit.ly/2Y1nNCU

Samgöngusamningar Breyttar reglur fyrir 2019 Það er ekki bara gott fyrir heilsuna og umhverfið að hjóla í vinnuna það er líka gott fyrir budduna. Og til að hvetja fólk ennfrekar til að hvíla bílinn er hægt að semja um aukagreiðslur frá vinnuveitanda allt að hámarki samtals 8.000 kr. á mánuði og fá borgað fyrir að hjóla í vinnuna. Af 8.000 kr. launum fara um 3.000 kr. vanalega í skatt en beint í þinn vasa með þessu fyrirkomulagi. Skilyrði er formlegur samningur milli launagreiðanda og launþega um nýtingu á almenningssamgöngum eða vistvænum ferðamáta vegna ferða launþegans til og frá vinnu sinnar og/eða vegna ferða í þágu launagreiðanda. Nýting slíks ferðamáta þarf að vera sem nemur a.m.k. 80% af heildarfjölda ferða fyrir 8.000 kr. hámarkið eða 4.000 kr. á mánuði nemi vistvænar ferðir a.m.k. 40% af heildarfjölda ferða, og er það nýtt ákvæði fyrir 2019. Með vistvænum samgöngumáta er átt við að nýttur sé annar ferðamáti en með vélknúnum ökutækjum samkvæmt skil­ greiningu umferðarlaga, t.d. reiðhjól eða ganga. Vinnuveitandinn hagnast líka á þessu fyrirkomulagi bæði í fækkun veikindadaga starfsmanna og minni þörf á dýrum bíla­ stæðum fyrir starfsfólk. Sjá samantekt á vef Landssamtaka hjól­ reiða­manna: lhm.is/samgongusamningar Páll Guðjónsson

3

4 31


8.-28. maí

NOTUM VIRKAN NOTUM VIRKAN FERÐAMÁTA Hjólum - Göngum FERÐAMÁTA Hjólum - Göngum - Hlaupum - Tökum strætó Hlaupum - Tökum strætó

Vertu með!

Skráning og upplýsingar á hjoladivinnuna.is 32