haust25

Page 1


Hauststefna Hjallastefnunnar 2025

3. október - Við göngum skrefinu lengra

Hauststefna Hjallastefnunnar

3. október 2025 - Við göngum skrefinu lengra

13.00 – 17.00 HJALLASTEFNUSTUNDIR

Við ræktum okkur faglega og félagslega þar sem tveir, til þrír, skólar koma saman og verja deginum í faglegum umræðum og vinnustofum þar sem Hjallastefnan verður í öndvegi.

SYSTUR- OG SAMSTARFSSKÓLAR

Ásar og Eyrarskjól

Litlu Ásar, Hraunborg og Barnaból

Askja og Hólmasól

Hjalli og Bergheimar Akur og Árbær

Hnoðraholt og Sóli

BSK Hafnarfirði, BSK Garðabæ, BSK Reykjavík

17.00 – 22.00 HAUSTSTEFNUFAGNAÐUR Í GULLHÖMRUM

Hjallastefnan býður til haustfagnaðar sem að þessu sinni er sitjandi borðhald með glæsilegum veitingum.

Bóas Hallgrímsson, framkvæmdastjóri fræðslu og fagsviðs og Sigrún Gyða skólastýra eru skemmtanastjórar kvöldsins. Stofnandi og höfundur Hjallastefnunnar, Margrét Pála Ólafsdóttir verður með hugvekju og auk þess verður framlag foreldra sem er fastur og dýrmætur liður á hauststefnudegi.

Lifandi tónlist undir borðhaldi frá Salome Katrínu og Tuma áður en Emmsjé Gauti og DJ Atli Viðar munu keyra gleðina í gang.

Hjallaljósin okkar allra

Við sem störfum hjá Hjallastefnunni höfum öll farið á valfund á einhverjum tímapunkti, valið okkar skólastefnu og þar með okkar leið. Með því að velja Hjallastefnuna skuldbindum við okkur til að vera trú grunngildum hennar og vinna samkvæmt henni, þannig að foreldrar og fjölskyldur geti treyst því, að við sem önnumst börn þeirra, gerum það af heilum huga og hreinu hjarta, eins og Magga Pála kemst að orði.

Kærleikur er eitt af lykilhugtökum Hjallastefnunnar og við stöndum vörð um hann með því að stilla kúrsinn af, í jafnréttisátt, hvern einasta skóladag. Það gerum við meðal annars með því að rækta hjá okkur víðsýni og virðingu fyrir margbreytileikanum.

Lotulyklarnir okkar varða veginn og við sýnum hvort öðru, samferðafólki okkar og umhverfi sjálfsagða virðingu. Börnin, sem okkur hefur verið treyst fyrir, skynja þetta og sjá og temja sér það sama. Þau finna að á þau er hlustað af athygli og áhuga og það auðveldar þeim að koma tilfinningum sínum og viðhorfum í orð.

Einhverju sinni sagði móðir úr okkar góða fjölskylduhópi að við sem störfum hjá

Hjallastefnunni miðlum ljósi, með glaðværri framkomu og kærleiksríku orðfæri. Hún sagði jafnframt að við mættum aldrei missa sjónar á Hjallaljósinu, eins og hún kallaði það, því það birtist í börnunum okkar hvar sem þau koma og þau deila því áfram.

Margfeldisáhrif hundruða Hjallaljósa sem spretta upp úr okkar jarðvegi á hverju ári er dýrmæt framtíðarsýn.

Þessi fallega saga Hjallamóður, minnir okkur á hversu mikilvægt starfið okkar er og hversu mikla þýðingu það hefur, að vera sannlega trú þeirri skuldbindingu sem felst í því að tilheyra Hjallastefnusamfélaginu. Verum minnug þess hversu miklu við getum áorkað þegar við leggjumst öll samstillt á árarnar og finnum saman taktinn okkar. Með samtakamætti náum við árangri. Það vitum við öll og finnum.

Góða vinnugleði og hjartans kveðja, Kristín Cardew

Við göngum skrefinu lengra

Við öll, sem störfum innan Hjallastefnunnar, erum jafnréttissinnar, feministar. Öðruvísi myndum við ekki þrífast í hugmyndafræði Hjallastefnunnar. Þegar við tölum um að ganga skrefinu lengra þá eigum við fyrst og fremst við að gera betur en það sem venjulega er gert, við erum róttækari, gagnrýnni og erum tilbúin til þess að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að gera heiminn að betri stað fyrir börn. Við ögrum staðalímyndum og skyndilausnum, við erum reiðubúin til þess að sveigja ramma skólastarfsins til þess að reyna, eftir allra bestu getu, að sinna þörfum hvers barns sem okkur er treyst fyrir. Það er að ganga skrefinu lengra.

Á Hauststefnu okkar, samstarfsfólks í Hjallastefnustarfi árið 2025 ætlum við að leggja sérstaka áherslu á meginreglu tvö, „starfsfólk“. Við ætlum að ræða um barnastarf og okkar þátt í því að mæta hverju barni og að stuðla að því að jákvæðni, gleði og kærleikur séu ráðandi öfl í öllu skólastarfi. Að við séum alltaf besta mögulega útgáfan af okkur í starfi með börnum, því við munum aldrei ná að sinna meginreglu eitt ef við gerum ekki þær kröfur á okkur að vera besta mögulega útgáfan af okkur sjálfum og höldum tryggð við Hjallastefnuna í starfi.

Þegar unnið hefur verið með viðhorfaiðkun og jákvæðni á kerfisbundinn

hátt þá verða samtöl stundum svolítið spaugileg. Vinkona sat við borðið, með hópnum sínum og var ekki sérlega spennt fyrir matnum sem á boðstólnum var og segir keik: „Ég er svo flink í að skilja allt eftir.“

Hreyfing og söngur ýtir best við þeim boðefnum heilans sem valda taugafræðilegri gleði.

Hópatímar

Útfærsla og framkvæmd á hópatímum

• Að skapa vettvang þar sem við gefum okkur að samtali. Hópatímarnir byggja á samráði, þátttöku og samstöðu.

• Þeim er ætlað að virkja allt samstarfsfólk innan Hjallastefnunnar til þátttöku.

• Safna fjölbreyttum sjónarmiðum, efla samstöðu og skerpa áhaldið sem er Hjallastefnan.

Allir hópar fari yfir þau atriði sem hér á eftir koma, ræði og taki niður punkta.

HLUTVERK HÓPSTÝRA/STJÓRA

• Er að beisla samtalið á sínu borði.

• Að sjá til þess að umræður fari fram á uppbyggilegan hátt.

• Hópstýra/Hópstjóri tekur í taumana áður en umræðurnar eru komnar út fyrir efnið eða í farveg sem ekki er efnislegur – um Hjallastefnustarf.

• Hópstýra/Hópstjóri tryggir að allir þátttakendur í hópnum fái jöfn tækifæri til þess að tjá sig og koma sínum sjónarmiðum á framfæri, gætir þess að orðið sé ekki einokað í hópnum og hjálpar þeim sem ekki sýna framfærni að fá orðið. Hér má hafa í huga, að við höfum verið mislengi í starfi og taka skal tillit til þess og ekki þvinga neina til að tjá sig.

HLUTVERK RITARA

Er að taka saman helstu hugmyndir og niðurstöður sem verða til í hópnum. Ritarar sendi svo niðurstöður hópsins á boas@hjalli.is

Ellefu ára vinir voru í fréttatíma að tala um tilfinningar sínar og veltu því fyrir sér hvort hægt væri að stjórna viðbrögðunum við eigin tilfinningum.

Hópstjóri spurði hvað væri til ráða ef reiðin tæki öll völd. Vinur úr hópnum var með svör á reiðum höndum. „ Bara hughreysta sig og hugsa um eitthvað sem er skemmtilegt. Hugsa um björtu hliðarnar.” Þá kom þetta svar frá öðrum vini „Já, og stundum þarf bara að telja upp að tíu!”

Við styrkjum og eflum vináttu, nálægð og kærleika í skóladeginum, m.a. með snertingu og faðmlögum.

Fyrri hópatími

HJALLASTEFNAN

KJÖRNUN

Ein af grundvallaraðferðum Hjallastefnunnar er kjörnun. Í Hjallastefnustarfi sundurgreinum við hinar stærstu hugmyndir og hugsjónir niður í smæstu aðstæður og atburði í starfinu og kjörnum hvernig nákvæmlega við viljum sjá allt gerast með tilliti til stóru myndarinnar.

Þegar við kjörnum og sundurgreinum er okkar mikilvægasta verkfæri Meginreglur Hjallastefnunnar. Þær notum við sem prófstein á alla starfshætti okkar til að sjá hvort að þeir standist kröfur okkar. Slík skoðun getur skorið úr vafamálum um hvort við erum trú Hjallastefnunni, „hjallísk“. (bls. 87)

Hvernig nýtum við meginreglur Hjallastefnunnar þegar við skoðum starfshætti okkar? Nefnið dæmi og ræðið.

RÆÐUM

Mætir þú hverju barni eins og það er, þ.e. ekki eins og þér finnst það eigi að vera?

Forðast þú að setja barn í aðstæður sem það ræður ekki við?

Og í framhaldinu, æfir þú barnið elskulega í að átta sig og finna taktinn sinn í krefjandi umhverfi? Útskýrið hvernig þið vinnið þetta með barninu?

Eru svæði fokin, eða í orlofi, fyrir sum börn í vali á þínum kjarna?

Sköpun eigin verka styrkir sjálfstraust barnanna í að prófa nýja hluti, og tilraunastarfinu fylgja gjarnan mistök sem eykur kjark og seiglu.

Vinur úr einum af barnaskólunum okkar fluttist tímabundið með fjölskyldu sinni í bæjarfélag þar sem enginn var Hjallastefnuskólinn. Þegar hann kom til baka var honum mikið niðri fyrir og sagði farir sínar ekki sléttar. Í fyrsta fréttatíma á mottu eftir heimkomuna hafði hann þetta um upplifun sína að segja: „Allir sögðu bara fuck you og kennarinn kunni ekki einu sinni að segja kæri vinur.“

NÁKVÆMNI

Í Handbók Hjallastefnunnar segir að nákvæmni sé ófrávíkjanleg regla. Munið að hóparnir ykkar og kjarnarnir endurspegla það.

Einn grundvallarþáttur Hjallastefnunnar er sú einfalda afstaða að skólastefna skuli leggja mesta áherslu á að skipuleggja og stjórna því sem hægt er að hafa áhrif á með formlegum hætti. Því setur hópstýra/hópstjóri mikla orku og tíma í að ígrunda og skipuleggja notkun á öllu húsnæði og lóð skólans, kjarna umhverfi og búnað og sýna mikla nákvæmni við gerð og framkvæmd dagskrár. Mikil vinna er lögð í að skapa og viðhalda kjörnuðu umhverfi og stöðugt endurmat er í gangi til að tryggja að hver lausn sé ávallt sú besta á hverjum tíma. Með þessari skörpu og nákvæmu stýringu á öllum ytri þáttum skapar skólinn þann ramma eða umgjörð sem allt innihaldið mun litast af, þ.e. samskiptin, leikurinn, námið og kennslan mun aldrei verða betra en ramminn gefur tilefni til - en góður rammi eykur til muna líkurnar á góðu starfi. Þannig má nota stýranlega þætti til að styrkja þá óstýranlegu ef svo má að orði komast, auka líkur á jákvæðum viðhorfum, styðja við góðan vilja starfsfólks og auðvelda öllum faglegt starf. (bls.30)

„Tímasetningar byggja á að að við öll sýnum nákvæmni - en ef ein hópstýra/hópstjóri velur að vera of lengi í samveru, þýðir það einfaldlega að sá næsti fær of stutt hlé eða að álag eykst á frágangstímanum og starfslýsingar ganga ekki upp. Þá náum við ekki þeim gæðum fyrir börnin sem allt starfið snýst um og því er nákvæmni ófrávíkjanleg regla“ (bls. 120)

Texti frá myndlistargalleríi í Reykjavík í kjölfar heimsóknar frá Barnaskóla:

Það var meiriháttar gaman að taka á móti stórum hópi níu ára stúlkna í galleríið og ræða við þær um feril og myndlist Rúrí; náttúruvernd, frelsið til þess að skapa, konseptlist, fossa, regnboga og kanínu úr kúk. Þegar stúlkurnar skoðuðu verk Rúríar frá árinu 2006 sem tileinkað var konum sem drekkt var í Drekkingarhyl sagði ein vinkona: „Ef ég ætti að nota f-orðið þá myndi ég segja fokk feðraveldið“

Við kyrrum hugann í streitulausu umhverfi, kjörnum hendur og fætur, leggjum aftur augun og öndum.

Á skiptitímum er mest hætta á að hópstýra/hópstjóri missi stjórn á hávaðastiginu og börn fái að æfa sig í að gegna ekki fyrirmælum en það má ekki gerast. Eina lausnin er 100% nákvæmni og fagmennska við starfslýsingar skólans (bls.120).

RÆÐUM

Hvað er átt við með nákvæmni í Hjallastefnustarfi?

Hvers vegna er nákvæmni mikilvæg í skólastarfi?

Iðkið þið millimetranákvæmni á þínum kjarna og eru B og C plön virk?

Rúlla dagskipulög og skiptitímar á þínum kjarna án spurnarfornafna?

Er tími barna og samstarfsfólks virtur?

Oft rata góðir hlutir á milli heimils og skóla, þannig var þegar foreldri

Hjallastefnubarns var að ganga í gegnum áskoranir í lífi sínu. Sonur viðkomandi fann fyrir því að eitthvað var að vefjast fyrir föður sínum og

biður því föður sinn um gefa sér stutta stund og setjast niður með sér og

segir svo rólega „pabbi, þegar mér líður illa í skólanum biður hópstjórinn

mig um að setjast niður og telja upp þrjú atriði sem ég er þakklátur fyrir.

Það hjálpar.“

SKIPULAG

Skipulag er alger grundvallarforsenda þess að skólastarf gangi vel. Í Handbók

Hjallastefnunnar er skýr kafli um skipulag (sjá bls. 96-110), þar er skipulag brotið niður í kjörnun.

- Umhverfis

- Búnaðar

- Dagskrár

- Hópatíma

- Valtíma

- Skiptitíma

- Samskipta við foreldra og börn

RÆÐUM

Ganga valfundir hratt og örugglega fyrir sig án mikillar aðkomu fullorðinna?

Er skýrt upphaf og endir á hópatímum? (Með söng, romsu eða öðru sem markar skýr skil?)

Er allur búnaður, s.s. mottur, leikefni og efniviður, merktur samkvæmt Handbók?

Eru börnin sjálfbær þegar kemur að því að sækja sér efnivið á valtíma?

Er áhugavert valtíma ítarefni aðgengilegt börnunum á þínum kjarna?

Eru plastleikföng s.s. dýr og risaeðlur á kjarnanum þínum, þrátt fyrir að slíkt sé andstætt hugmyndafræði okkar um opinn, náttúrulegan efnivið samkvæmt meginreglu 4?

Uppbótarvinnan er jafnmikilvæg og kynjaskiptingin. Dagleg iðkun hennar veitir börnunum tækifæri til að æfa og styrkja eiginleika sem þau eru annars hlunnfarin um, í samfélagi kynjaklisja og staðalmynda.

SAMSKIPTI

Samskipti í Hjallastefnustarfi

RÆÐUM

Beygir þú þig í hnjánum til að vera í sömu hæð og börnin þegar þú ávarpar þau?

Horfir þú í augun á börnunum og ávarpar þau fallega?

Eru samskipti þín við samstarfsfólk þitt og aðra fullorðna almennt byggð á virðingu og hlýju?

Dettur þú í spjall, með öðru starfsfólki kjarnans, sem verður til þess að athyglin færist af börnunum?

Eru málefni foreldra, barna og/eða starfsfólks rædd í samverum starfsfólks eða á kjörnunum?

“Ég er flott og frábær!” Börnin gera beinar æfingar í jákvæðri tjáningu um sig sjálf.

Á leið heim úr skóla sat barn í bílstól og spjallaði við foreldra sína.

Foreldrarnir upplýsa barnið um að ferðinni sé ekki heitið beint heim, heldur með viðkomu í heimsókn til ættingja. Þetta hugnaðist barninu ekki, svo að það var svolítið grátið í aftursætinu. Eftir þögn í dágóða stund heyrist lítil rödd í aftursætinu segja „nú þarf ég að æfa jákvæðni”.

Kynjanámskrá

Iðkun árið Byggir upp Felur í sér Orðræða Vinnur gegn um kring

Agaiðkun Sjálfstjórn Jafnrétti „Við erum Yfirgangi, prúðust“ reglubrotum

Sjálfæðisiðkun Sjálfsmynd Viður- „Ég er frábær“ Feimni, kenningu bælingu

Samskiptaiðkun Samfélag Eineltis- „Gengur betur Ásökunum, forvörn næst“

Jákvæðniiðkun Menningu Geðvernd „Ekki segja ekki“ Nöldri, klagi, bjargarleysi

Vináttuiðkun Góðvild Tengslagetu „Allir saman nú“ Útundan hegðun, einelti

Áræðniiðkun Sköpunar- Leiðtoga- „Ég þori, Stöðnun, hæfni færni get og vil“ mistakaótta

Seinni hópatími

IÐKUN KYNJANÁMSKRÁR

Lykilkennisetning í Hjallastefnustarfi snýst um það að öll börn þarfnist æfingar og þjálfunar í sínum persónulegu eiginleikum sem og félagslegum. Algengt er að stúlkur þarfnist meiri styrkingar á einstaklings sviðinu en drengir í félagslegu eiginleikum sínum. Auðvitað eru svo börn ólík og öll börn fá styrkingu á öllum sviðum.

Iðkun kynjanámsskrár felst í stöðugri þjálfun og iðkun allra sex þátta kynjanámskrárinnar í athöfnum barna og fullorðinna, í skipulagi umhverfis, vali og hópatímum. Sú iðkun er kölluð uppbótarvinna. Uppbótarvinna er þjálfun og æfingar sem bæta öllum börnum, óháð kyni, upp þá reynslu sem samfélagið mun ekki veita þeim vegna kynferðis þeirra.

„Við ætlum ekki að vera í skugga karla, við erum okkar eigið ljós!

Elstu börn á leikskóla höfðu verið í óðaönn við að efla leiðtogahæfileika

sína í skólanum; æfa sig í að standa fyrir máli sínu og leita lausna áskorana

í umhverfinu og þjálfa sig í að dvelja aldrei í skortinum. Hópurinn ákvað í sameiningu að fara í hópferð í ráðhúsið í sínu sveitarfélagi og óska eftir fundi með bæjarstýru þar sem ekki hafði verið kveikt á loftblæstri til þess að fylla „ærslabelginn“ í nágrenninu, eða loftdýnuna. Bæjarstýran var upptekin en börnin fengu að taka myndsímtal þar sem þau óskuðu eftir fundi. Bæjarstýran varð við bóninni og í kjölfarið var sannarlega lofti hleypt á og börnin lærðu sitthvað um það hvað það þýðir að vera eigin gæfu smiðir.

Töfrar kvikna þegar hugur, hjarta og hönd fara saman í kynjablönduðum hópatímum.

Segja má að kynjanámskrá gangi út frá eiginleika frekar en verkefni. Hlutverk hópstýru/ hópstjóra í Hjallastefnustarfi krefur fólk um mikla sjálfsvinnu vegna þess að við getum aldrei gefið börnum það sem við ekki eigum sjálf. Má þannig nefna framkomu okkar, gleði, kærleika og kjark svo dæmi séu tekin.

RÆÐUM

Undirbýrð þú hópatímana þína með lotulyklana að leiðarljósi þannig að uppbótarvinnan sé skýr?

Eru blöndunarhópar/-pör föst í sessi á þínum kjarna?

Skiptið þið blöndunarhópunum í tvennt þannig að hóparnir séu hæfilega stórir og að börnin fái fjölbreyttari hópatímaverkefni í blöndun?

Bleika og bláa slikjan

Kynjaskipting er samkvæmt kenningum Hjallastefunnar nauðsynleg forsenda þess að ná árangri í jafnréttisstarfi og styrkja hlut allra barna. Skiptingin ein og sér er ekki markmið, heldur verkfæri sem við notumst við til þess að stuðla að jafnræði meðal allra barna. Kynjaskipting án þess að beita kynjanámskrá af krafti og skipting án þess að sinna reglubundinni kynjablöndun mun ekki leiða okkur að endanlegum markmiðum. (bls. 88)

Bleika og bláa slikjan eru skuggahliðar á ríkjandi kynjamenningu og hversu vel sem við Hjallastefnufólk vöndum okkur, munu þær gera vart við sig á ákveðnum augnablikum. Ekkert okkar er undanskilið kynjamenningu samfélagsins hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Það sem við getum gert er að viðurkenna tilvist þessarar menningar og bregðast við af krafti þegar þörf knýr um að svo sé gert.

Síminn hringir að morgni dags í skóla. Móðir barns, sem mjög greinilega er lasin, tilkynnir að barnið komi ekki til skóla, þar sem hún ekki treysti sér í til þess að koma með barn sitt. Hópstýra sem tekur við símtali spyr hvort að ekki megi bjóða móður að barnið verði sótt. Það kemur á móðurina vegna

þessa tilboðs og hún veltir því upp að það gæti orðið erfitt að sækja. Ekki stendur á viðbrögðum hópstýru sem segir „nú, er ekki bara best við komum með barnið heim undir lok dags?“

Það er góð æfing fyrir mistakafælin börn að drullumalla og sulla í vatni, verða óhrein og blaut og átta sig á að
það er bara allt í lagi.

Í Handbók er fjallað um „aðvörunarbjöllur“ í starfi með börnum:

Nokkrar aðvörunarbjöllur í starfi með stúlkum:

1. Nöldurtónn og „pikk“

2. Klögur og kvartanir

3. Dulið einelti með plotti tveggja sem skilja aðra útundan

4. Sogskálasamband „bestu vinkvenna“

5. Samkeppni, t.a.m. í klæðnaði

6. Stjórnsemi gagnvart hinum stúlkunum

7. Grátstjórnun og sjálfsvorkunn

8. Hópstýra/Hópstjóri sem taka lífinu of rólega og hópatímaverkefni verða óáhugaverð

9. Hópstýra/Hópstjóri verða metnaðarlitlir vegna þess að það gengur svo vel

10. Freistingar s.s. að sinna símanum eða sækja sér kaffibolla

Nokkrar aðvörunarbjöllur í starfi með drengjum:

1. Hávaði og streita

2. Samanburðarhyggja og sjálfsupphafning

3. Samkeppni s.s. „tapa-vinna“ viðhorf og „elta foringjann“

4. Barsmíðar og slagsmál

5. Slys verða tíðari

6. Sýnilegt einelti

7. Drengir fara í mótþróa við hópstýru/hópstjóra

8. Hópstýra/Hópstjóri gleymir að fara inn í drengjamenninguna, en hér ber að varast að rugla ekki saman drengjamenningu og kynjaðri staðalhegðun.

9. Hópstýra/Hópstjóri verður stressuð/stressaður og agar af of mikilli hörku

10. Hópstýra/Hópstjóri fer of ákaft inn í drengjamenninguna og notar þeirra eigin leiðir um of sem styrkir bláa slikju í sessi

RÆÐUM

Ertu alltaf vakandi fyrir slikjunum inni á kjarnanum þínum?

Passar þú að gefa aldrei afslátt á slikjunum?

Bregstu við með rauntímaleiðréttingum?

Ertu líka á sama tíma meðvituð/-aður um að bögga ekki fyrir slikjurnar, heldur að styrkja jákvæða hegðun?

Gæta hópstýrur/hópstjórar þess að segja/lesa sögur með „kynjagleraugun“ á nefinu til þess að sporna gegn því að kynjaklisjur festist í sessi?

Skuldbindingin

Meginregla tvö setur öllu starfsfólki skýrar skorður varðandi framkomu og hegðun og er í reynd skuldbinding um að öll æfi sínar bestu hliðar, einsetji sér að verða betri manneskjur. Hér skilur oft á milli þess hvort að starfsfólk finni sig innan Hjallastefnuskóla eða ekki – slík er skuldbindingin. Orsök þessarar meginreglu er einföld: brothættar og óvarðar sálir verðskulda ekkert nema hið besta og ógætileg hegðun hinna fullorðnu getur haft alvarlegar afleiðingar. afleiðingar (bls. 26).

RÆÐUM

Hvernig blasir skuldbindingin við þér?

Finnst þér sumt óþarfi að fylgja eftir og hvað er það helst?

Reynirðu að fylgja hugmyndafræðinni okkar eftir fremsta megni?

Æfðir (eða æfir) þú Hjallastefnuleikinn? Fannst/finnst þér það gagnlegt?

Móðir sækir börnin sín tvö á leikskóla, úti er brunagaddur og ísing á götunum. Hún kemur börnunum fyrir í bílstólum og ekur af stað heim á leið. Þegar komið er að fjölskylduheimilinu og móðir er að leggja bílnum vill ekki betur til en svo að bíllinn rennur af stað og lendir á vegg. Höggið er ekki mikið, en nóg til þess að móður bregður við og hún leggur höfuðið fram á stýrið í bugun. Þá heyrist úr aftursætinu „Þetta er allt í lagi mamma, svona getur gerst á bestu bæjum.“

Morgunsöngur Hjallastefnunnar

- Lag og texti: Kristín Cardew

Faðminn við opnum, mót degi við tökum. Bjartsýn og hugrökk, snúum saman bökum.

Kraftinn frá jörðu með tánum við náum, Birtu frá himni í hjartað við fáum.

Komdu sæl Móa, komdu sæl Áróra, komdu sæl Lýra, komdu sæl Unnur, komdu sæl Úlfrún og komdu sæl Skugga, komdu sæl Vala og komdu sæl Emma

Komdu sæl Æsa, komdu sæl Hallgerður, komdu sæll Lukka, komdu sæl Katrín, komdu sæl Mía og komdu sæl Aría, komdu sæl Una og komdu sæl Ellen

Komdu sæl Silfur, komdu sæl Dimmblá, komdu sæl Nína, komdu sæl Sesselja, komdu sæl Magga, lalalalala, lalalalalalala-la-la.

Kjarnafólk, stórt og smátt, setur sín nöfn inn í morgunkveðjuna og þegar búið er að heilsa öllum á kjarnanum með nafni þá tekur lalalala við til enda lagsins.

Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.