Bók þessa má ekki afrita með neinum hætti, svo sem ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild, án skriflegs leyfis höfundar og útgefanda.
Reykjavík 2025
EFNISYFIRLIT
Gyða Jónsdóttir 8
Í gömlu ferðatöskunni . . . . . . . . . . . . 10
Skólateikningar, eftir fyrirmyndum . . . . . . 13
Skólateikningar, fríhendis 57
Litaæfingar og uppstillingar . . . . . . . . . 75
Form og gróður .
81
Mannamyndir 89
Mynstur 99
Vefnaður, fornmyndir og dúkar . . . . . . . 109
Áklæði og fatnaður . . . . . . . . . . . . . 129
Lokaorð 142
Myndin er frá Vefstofu Ernu Ryel sem þá var á efri hæð hússins að Austurstræti 17 en á neðri hæð var verslun L.H.Müller. Erna var mágkona Gyðu, gift Stefáni bróður hennar. Hún rak vefstofu í eigin nafni á þessum stað frá 1941-1948 en eftir það kenndi hún vefnað m.a. í Handíðaskólanum. Á stofunni unnu að jafnaði 5 stúlkur. Þar voru ofin veggteppi, reflar, púðar, áklæði og gluggatjöld, mest eftir pöntunum. Vefstofan var lokuð yfir sumarmánuðina svo stúlkurnar kæmust í kaupavinnu. Erna hélt einnig námskeið í vefnaði, meðal annars eitt undir leiðsögn finnsku myndlistarkonunnar Evu Anttila sem Gyða kynntist síðar. Fremst á myndinni er Gyða, stúlkan til hægri er Guðrún Sveinsdóttir, nöfn hinna eru ekki þekkt.
Gyða ásamt eiginmanni sínum Ottó A. Michelsen, þá nýgift, á brúðkaupsferðalagi í ágúst 1955.
GYÐA JÓNSDÓTTIR
Gyða Jónsdóttir fæddist á Sauðár króki 4. ágúst árið 1924. Foreldrar hennar voru hjónin Geirlaug Jóhannesdóttir, f. 28. júlí 1892, d. 6. apríl 1932, og Jón Þorbjargarson Björnsson, skólastjóri á Sauðárkróki, f. 15. ágúst 1882, d. 21. ágúst 1964. Seinni kona Jóns var Rósa Stefánsdóttir, f. 10. október 1895, d. 14. júlí 1993. Fósturbarn þeirra er Geirlaug Björnsdóttir, f. 1939. Gyða var sjötta í röð tíu systkina. Þau eru: Stefán, f. 1913 arkitekt og teiknari, Jóhanna Margrét, f. 1915 húsmóðir í Noregi og vann lengi á saumastofu Hjúkrunarskólans í Reykjavík, Þorbjörg, f. 1917 skólastjóri Hjúkrunarskóla Íslands, Sigurgeir, f. 1918 gjaldkeri, Björn, f. 1920 læknir í Kanada, Ragnheiður Lilja, f. 1923 húsmóðir í Bandaríkjunum, Jóhannes Geir, f. 1927 listmálari, Ragnheiður Lilja (Dia Martin), f. 1929 húsmóðir, og Geirlaugur, f. 1932 bókbindari.
Gyða lauk námi við Héraðskólann á Laugar vatni árið 1943. Síðar fór hún utan til náms. Dvaldi hún nokkur ár í Noregi og Finnlandi og lagði þar stund á nám í ýmsum listgreinum með aðaláherslu á listvefnað. Lauk hún prófi sem heimilisiðnaðarkennari árið 1953. Gyða kenndi vefnað við Húsmæðraskólann á Blönduósi.
Heimkomin giftist hún Ottó Alfreð Michelsen 6. ágúst 1955. Eignuðust þau fjögur börn, árið 1956
tvíburana Óttar Ottósson og Kjartan G. Ottósson (d. 2010), Helgu Ragnheiði Ottósdóttur f. 1957 og Geir laugu Ottósdóttur f. 1964.
Þá starfaði Gyða um skeið við listvefnað hjá Stefáni bróður sínum og konu hans Ernu Ryel. Rak Erna Ryel vefstofu í Reykjavík undir nafninu Vefstofa Ernu Ryel. Var aðallega ofið húsgagnafóður, veggteppi, púðayfirborð, gluggatjöld, borðrenningar og ýmiss konar dúkar. Hráefnið var fyrst og fremst íslensk ull.
Gyða var mjög listræn og liggja eftir hana fjölmörg ofin listaverk, m.a. verk sem hún vann eftir íslenskum fyrirmyndum á Þjóðminjasafni Íslands. Skýrt dæmi þess er Kristsmyndin sem tekur eftir Upsakristi sem geymdur er í Þjóðminjasafninu. Er líkneskið fengið úr Upsakirkju í Svarfaðardal.
Lét Gyða sig ýmis samfélagsmál varða og tók virkan þátt í kirkjustarfi í Bústaðasókn á meðan hún bjó í Litlagerði 12. Söng hún meðal annars með kirkjukórnum. Þá söng hún einnig með kór Slysavarnafélags Íslands.
Gyða lést á líknardeild Landakotsspítala 17. janúar 2011.
Í GÖMLU FERÐATÖSKUNNI
Nokkur orð um þessa útgáfu
Í ágúst árið 2024 voru hundrað ár liðin frá fæðingu tengdamóður minnar, Gyðu Jónsdóttur, en hún fæddist á Sauðárkróki þann 4. ágúst árið 1924. Gyða var listfeng enda af listfengu fólki komin. Sjálf fór hún utan í listnám og nam listvefnað þó að hún hafi jafnframt verið mjög drátthög eins og sjá má af nokkrum myndum sem prýða þessa útgáfu.
Gyða var hógvær og var ekki mikið að flíka því sem hún hafði unnið. Það tók mig t.d. langan tíma að átta mig á hversu merkileg þessi vinna Gyðu var í raun og veru. Má í raun segja að ég hafi ekki gert mér almennilega grein fyrir öllu því fyrr en nýlega þegar ég sá ofan í gamla ferðatösku sem var í geymslu hjá dóttur Gyðu.
Gyða nam sína list í Ósló en einnig í Helsinki og e.t.v. hafði dvölin þar mest áhrif á hana. Þar var hún innan um ýmsa sem seinna áttu eftir að marka spor í listaheiminum. Til að mynda stundaði hinn kunni arkitekt Alvar Alto nám við sama skóla og Gyða nokkrum árum áður.
Gyða talaði almennt vel um dvöl sína í Finnlandi og henni líkaði vel við Finnana. „Það er ekki að spyrja að Finnunum,“ var viðkvæðið hjá Gyðu þegar hún sá fallega finnska hönnun eða listaverk. Þetta varð að orðtaki sem síðan hefur verið notað við ýmis tækifæri af niðjum Gyðu.
Skömmu fyrir andlát Gyðu, í janúar 2011, sat ég hjá henni góða stund að kvöldi dags og þá sagði hún mér meira af vefnaði sínum og vinnunni á bak við verkin. Á þeirri stundu varð mér ljóst hversu merkileg þessi vinna hennar var. Ég varð forvitinn og vildi fá að vita meira. Þessa kvöldstund sagði hún mér frá vinnu sinni á vefstofu Ernu Ryel, en Erna var gift Stefáni, bróður Gyðu, og frá kennslunni við Hússtjórnarskóla Blönduóss. Þar starfaði hún undir styrkri stjórn frænku sinnar, Halldóru Bjarnadóttur skólastjóra. Gyða sagði mér að hún hefði litað sitt eigið band úr íslenskum náttúrujurtum og að hún hefði setið löngum stundum á Þjóðminjasafni Íslands og teiknað myndir og mynstur upp eftir verkum á safninu og
síðan hefði hún ofið myndirnar á vefstofunni. Hér í þessari bók má sjá nokkur þessara verka. Sum þeirra verða að teljast mikil listaverk.
Hér er líka að finna nokkrar myndir af húsdýrum og annað myndefni úr íslenskri sveit. Líklegt má telja að þessi verk hafi verið gerð eftir myndum Jóhannesar Geirs, listmálara og bróður Gyðu.
Jóhannes mun hafa unnið verkin í tengslum við landbúnaðarsýningu sem haldin var á Selfossi.
Í gömlu ferðatöskunni sem minnst var á hér að framan var að finna fjöldann allan af blýantsteikningum eftir Gyðu en þessar myndir er einnig að finna hér í bókinni. Líklegt er talið að þær hafi verið gerðar á meðan Gyða var í námi erlendis, sennilegast í Helsinki. Einnig var þar að finna skissur og litakort en einnig skissubók hennar sem hún hefur mögulega haft við höndina dag hvern.
Yngsta verkið í bókinni er teikning sem Gyða gerði árið 1989. Myndin er af barnabarni hennar, Ottó, en hana teiknaði hún eftir ljósmynd sonar síns. Þá var hún annars löngu búin að leggja frá sér blýantinn.
Verk Gyðu er flest að finna inni á heimilum af komenda hennar en önnur eru hjá frændfólki.
Nú á þessum tímamótum þótti mér við hæfi að minnast hennar, þeirrar vönduðu og góðu konu sem við þekktum og á svo stóran hlut í hjörtum okkar sem kynntumst henni í lifandi lífi. Það var m.a. þess vegna sem ég ákvað að ráðast í að láta ljósmynda þau verk hennar sem við náðum til. En líka til þess að gefa öllum afkomendum Gyðu Jónsdóttur og Ottós A. Michelsen tækifæri til þess að kynnast verkum hennar og njóta þeirra um ókomna tíð.
Við vinnslu þessarar bókar naut ég aðstoðar ýmissa sem lögðu margt gott til. Að öðrum ólöstuðum ber að nefna Snorra son minn, Stefán Örn Stefánsson sem kom mér á sporið og Spessa ljósmyndara sem skilar hér glæsilegu verki. Auk þess Aðalstein Ingólfsson sem gaf mér góðar ábendingar. Að síðustu ber að nefna Björgu Vilhjálmsdóttur sem sá um umbrot og útlit. Eru þeim færðar miklar þakkir fyrir.
Stefán S. Guðjónsson, útgefandi.
SKÓLATEIKNINGAR
eftir fyrirmyndum
SKÓLATEIKNINGAR
fríhendis
Gyða vann verk að einhverju leyti í samvinnu við bróður sinn Jóhannes Geir, fyrst og fremst vefnað fyrir landbúnaðarsýningu sem haldin var á Selfossi. Þemað var íslensk sveit.
LITAÆFINGAR OG UPPSTILLINGAR
FORM OG GRÓÐUR
MANNAMYNDIR
MYNSTUR
VEFNAÐUR FORNMYNDIR
OG DÚKAR
Gyða vann verk eftir fyrirmyndum frá Þjóðminjasafni Íslands. Hér til vinstri er verk eftir hana. Fyrirmyndin (Krossmark frá 12. öld) er til hægri. Ljósmynd fengin frá Ljósmyndasafni Þjóðminjasafns
Hér er skissa af verki sem Gyða vann á Þjóðminjasafninu. Verkið sem Gyða óf í kjölfarið er í eigu sonar hennar, Óttars Ottóssonar. Ekki reyndist unnt að mynda vefnaðinn fyrir útgáfudag.
ÁKLÆÐI OG FATNAÐUR
Gyða sinnti list sinni í nokkur ár eftir að hún sneri aftur heim til Íslands. Vann m.a annars við kennslu svo og hjá Guðmundi frá
Miðdal. Eftir að Ottó og Gyða gengu í hjónaband og eignuðust þrjú börn með stuttu millibili var minni tími fyrir vefnaðinn. Hennar vilji stóð þó alltaf til þess að taka upp þráðinn að nýju.
Á síðunni hér til hægri er líklega síðasta mynd Gyðu.
Ottó Stefán Michelsen, dóttursonur Gyðu. Teikning gerð eftir ljósmynd Óttars Ottóssonar. Barnið er í sófanum í Litlagerði 12 og horfir út á glingrið í gluggakistunni. Myndina mætti jafnvel kalla: Glímt við freistingar.
In Memoriam Gyða Jónsdóttir f. 4. ágúst 1924 d. 17. janúar 2011