Borghildur Óskarsdóttir
Skarðssel–UmhverfismatSkarðssel–Umhverfismat
Borghildur hefur unnið viðamikil verk útfrá baráttu forfeðra sinna við óblíða veðráttu og náttúruöfl í ofanverðri Rangárvallasýslu.
Langafi og langamma hennar hröktust með börn sín og búfénað undan sandstormum og landeyðingu í Landsveit, meðal annars af völdum Heklugosa. Þau tóku ítrekað upp bæi sína og endurreistu á skárri stað. Um tíma bjuggu þau í Gamla-Klofa, síðan í Stóra-Klofa. Þaðan fluttu þau og byggðu upp bæjarrústir í Gamla-Skarðsseli en hröktust þaðan þegar vatnsbólin höfðu fyllst af sandi og endurbyggðu þann bæ á bökkum Þjórsár á alveg einstaklega fögrum stað. Þar voru þau í góðu vari undir Skarðsfjalli, höfðu sæmilega haga og nóg af vatni úr ánni.
Verkið, Skarðssel við Þjórsá, er sett saman úr 10 stórum ljósmyndum, keramikskálum og myndbandi. Myndbandið sýnir gjörning Borghildar þar sem hún krýpur undir bökkunum við Þjórsá, nálægt Skarðsseli, og fleytir skálum út í ána. Gjörningur inn minnir á fórnarathöfn.
Landsvirkjun lét grafa upp rústir Skarðssels fyrir nokkrum árum, en til stendur að sökkva svæðinu undir fyrirhugað Hvammslón.







