Læknaneminn 2017 (almenningur)

Page 52

50 Ritrýnt efni

Mynd 2. Þar sem ástand drengsins versnaði nokkuð skyndilega var þar til gerður ljósgjafi (e. transilluminator) notaður til að lýsa í brjóstkassa drengsins og lýsti hann upp vinstri brjóstholshelming. Því vaknaði grunur um að drengurinn væri einnig kominn með loftbrjóst þeim megin.

Mynd 3. Röntgenmynd af lungum tekin eftir að settur hafði verið keri í brjóstholið hægra megin og var loftbrjóstið þá ekki lengur til staðar. Grunur um loftbrjóst vinstra megin reyndist vera loft í miðmæti (e. pneumomediastinum).

Tekin var röntgenmynd af lungum sem sýndi loftbrjóst hægra megin og loft í miðmæti (mynd 1). Því var settur brjóstholskeri hægra megin í brjósthol. Drengurinn var fyrst settur á hefðbundna öndunarvél en þar sem hann þurfti töluvert háan innöndunarþrýsting var skipt yfir í hátíðniöndunarvél (e. oscillator). Súrefnisþörfin fór vaxandi og þegar lýst var í brjóstkassa drengsins með þar til gerðum ljósgjafa (e. transilluminator) lýsti hann upp vinstra megin sem gaf til kynna að hann væri kominn með loftbrjóst þeim megin (mynd 2). Ný röntgenmynd sýndi hins vegar mikið loft í miðmæti sem teygði sig yfir til vinstri (mynd 3). Drengurinn var því lagður í vinstri hliðarlegu til að flýta fyrir því að loftið í mið­mætinu hyrfi. Gerð var ómskoðun af hjarta sem sýndi merki um háþrýsting í lungna­slagæðum og skertan samdrátt beggja slegla sem talið var skýra versnandi ástand hans. Því var hafin meðferð með niturildi (e. nitric oxide, NO) og dóbútamíni. Við það batnaði ástand hans og súrefnis­þörf fór á skömmum tíma úr 100% niður fyrir 30%. Blóð­þrýstingur var hins vegar lágur og svaraði ekki vökvagjöf og því var blóðþrýstings­hækkandi meðferð breytt í dópamín með góðum árangri.

Sjúkdómsgangur Öndunarfæri

Við tveggja sólarhringa aldur var drengurinn ekki lengur með loftleka og því var brjóstholskerinn fjarlægður og morfíndreypi sem hafði verið notað til verkjastillingar stöðvað. Hann var þá kominn á tiltölulega lítinn stuðning á hátíðniöndunarvélinni og því skipt aftur yfir á hefðbundna öndunarvél. Áfram var klínískur gangur góður og við fjögurra sólarhringa aldur var drengurinn tekinn úr öndunarvél og settur á síþrýsting með 21% súrefni. Við rúmlega tveggja vikna aldur, það er 30 vikna meðgöngualdur (e. postmenstrual age), fór súrefnisþörf drengsins smám saman vaxandi og við tæplega þriggja vikna aldur (31 viku meðgöngualdur) var hafin meðferð með innúðasterum. Eftir að hafa verið á síþrýstingi í um mánuð var reynt að skipta öndunarstuðningi yfir í háflæði (e. high flow) súrefnisgjöf en þar sem það gekk ekki sem skyldi var ákveðið að gefa stutta meðferð með þvagræsilyfjum til viðbótar við innúðasterana. Drengurinn komst að lokum alfarið af síþrýstingi yfir á háflæði súrefnisgjöf við 36 vikna


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.