Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 9. október 2014
34. tbl. 32. árgangur
Málþing í Þórbergssetri
Haustþing Þórbergsseturs verður haldið laugardaginn 11. október og hefst kl 10:30. Dagskráin ber heitið ,,Stolt okkar er viskan“ og verður að þessu sinni tengd þeim stofnunum sem nú eru starfandi í Sveitarfélaginu Hornafirði. Með málþinginu er verið að vekja athygli á mikilvægi rannsókna er tengjast umhverfi, sögu og náttúrufari og hvernig hægt er að nýta þær sem styrkari bakgrunn
í ferðaþjónustu. Takmark okkar ætti að vera að öll ferðaþjónusta verði fræðandi ferðaþjónusta og því mikilvægt að hafa nú innan sveitarfélagsins vettvang til rannsókna, en jafnframt þarf að huga að samstarfi og miðlun á milli stofnana þannig að þekking og niðurstöður skráninga og rannsókna séu aðgengilegar þeim er starfa við upplýsingagjöf og móttöku. Birna Lárusdóttir og Elín Ósk
Hreiðarsdóttir fornleifafræðingar eru gestir málþingsins. Þær hafa dvalið í fræðaíbúð á Hala og unnið að verkefnum sínum og hafa m.a. starfað við fornleifaskráningu í Skaftafelli og á Kvískerjum. Gaman væri að sjá sem flesta Skaftfellinga koma til að fræðast um nánasta umhverfi og leggja okkur lið við að safna í viskubrunninn. Sjá auglýsingu á bls. 5.
Velheppnað fræðslukvöld Krabbameinsfélag Suðausturlands stóð fyrir fræðslukvöldi í tilefni af bleikum mánuði þann annan október s.l við frábærar undirtektir. Yfir hundrað konur mættu í Pakkhúsið og hlustuðu á fræðslu um kvenheilsu sem Teitur Guðmundsson læknir flutti, ásamt því að Margrét Gauja Magnúsdóttir flutti örræðu og Matthildur Ásmundardóttir kenndi okkur rétta líkamsbeitingu og teygjuæfingar. Færum við þeim öllum sem og Lyfju og eigendum Pakkhússins okkar bestu þakkir fyrir þeirra framlag. Bleiki mánuðurinn er tileinkaður kvenkrabbameinum og þetta árið er áherslan lögð á týndu konurnar þ.e. ungar konur sem ekki mæta í reglubundna krabbameinsskoðun og eru nú sérstaklegar hvattar til að mæta í skoðun þegar þær fá boðunarbréf. Góðgerðafélagið Hirðingjarnir færðu krabbameinsfélaginu höfðinglega peningagjöf þetta kvöld að upphæð 450.000 kr. með vilyrði fyrir e.t.v hærri upphæð þar sem októbersala Hirðingjana er merkt bleikum mánuði og eru þeim færðar sérstakar þakkir fyrir. Krabbameinsfélag Suðausturlands hefur með fjáröflunum sínum getað tekið þátt í að greiða niður gistinætur einstaklinga sem eru í krabbameinsmeðferðum og gista í íbúðum krabbameinsfélagana eða á sjúkrahótelinu jafnframt því að veita styrki til einstaklinga meðan á meðferð stendur. Í stjórn félagsins eru; Eyrún Axelsdóttir, Ester Þorvaldsdóttir, Hjálmar Sigurðsson, Ólöf Óladóttir og Þórhildur Kristjánsdóttir.
www.hornafjordur.is - samfélagsvefurinn okkar