Eystrahorn 15. tbl. 32. árgangur
Miðvikuudagur 16. apríl 2014
www.eystrahorn.is Gleðilega páska
Ný umhverfissíða opnuð á vef sveitarfélagsins Hugrún Harpa varaformaður umhverfisnefndar opnaði nýja umhverfissíðu á umhverfis- og skipulagsnefndarfundi í gær. Nýja síðan er á heimasíðu sveitarfélagsins. Umhverfissíðan mun gegna þeim tilgangi að veita íbúum upplýsingar um hentug ráð til að vernda umhverfið. Þar eru upplýsingar um sorpflokkun, orkusparnað og hagstæð kaup á orkufrekum tækjum. Einnig má finna umhverfisstefnu sveitarfélagsins og ýmsir gagnlegir umhverfistenglar eru hægra megin á síðunni. Einnig er samantekt um loftlags verkefni við Landvernd og pistlar eftir Jóhann Helga Stefánsson landfræðing. Íbúar eru hvattir til að nýta sér síðuna, fróðleik og upplýsingar sem má lesa þar.
hornafjordur.is/umhverfismal
Skaftfellingar sigruðu átthagafélagakeppnina Lið Skaftfellingafélagsins fór með sigur af hólmi í Spurningakeppni átthagafélaganna sem efnt var til í Breiðfirðingabúð í vetur, annað árið í röð. Liðið skipuðu þau Jóna Benný Kristjánsdóttir, Hornfirðingur, ættuð úr Nesjum og Suðursveit, Salómon Jónsson frá Vík sem var um tíma búsettur á Höfn og Hornfirðingurinn Þórhallur Axelsson. Í úrslitum kepptu þau við lið Húnvetningafélagsins sem var skipað Jóhanni Almari Einarssyni frá Tannstaðabakka, Hugrúnu R. Hólmgeirsdóttur ættaðri frá Bjarghúsum og Þorgrímsstöðum og Einari Loga Vignissyni frá Blönduósi. Liðin voru jöfn 19 -19 eftir hina hefðbundnu keppni svo skellt var á bráðabana sem Skaftfellingar unnu. Þeir hömpuðu veglegum bikar og fengu auk þess hver og einn gistingu fyrir tvo með morgunmat á Hótel KEA, bækurnar Gröfin á fjallinu og Hljóðin í nóttinni frá Bókaútgáfunni Bjartur/Veröld og ostakörfur frá Osta-og smjörsölunni. Einnig hlutu þeir gistingu fyrir tvo með morgunmat í Hótel Skaftafelli frá Skaftfellingafélaginu í þakklætisskyni fyrir þátttökuna og frammistöðuna en það var Anna María Ragnarsdóttir hótelstjóri sem splæsti. Fimmtán lið hófu þátttöku, þau voru: Arnfirðingafélagið, Árnesingafélagið, Átthagafélag Héraðsmanna, Átthagafélag Strandamanna, Barðstrendingafélagið, Dýrfirðingafélagið, Félag Álftfirðinga og Seyðfirðinga vestra, Félag Djúpmanna, Húnvetningafélagið, Norðfirðingafélagið, Siglfirðingafélagið, Súgfirðingafélagið, Skaftfellingafélagið, Vestfirðingafélagið og Vopnfirðingafélagið. Sá sem ber hitann og þungann af keppnunum því hann er spurningahöfundur, stjórnandi og dómari er Barðstrendingurinn Gauti Eiríksson kennari sem er frá Stað í Reykhólahreppi. Gunnþóra Gunnarsdóttir
Næsta tölublað
Vegna páskahelgarinnar framundan og skírdags í næstu viku er lítið svigrúm til útgáfu blaðsins. Samt ætlar útgefandi að stefna á tölublað ef einhver grundvöllur verður fyrir því. Ljúka þarf umbroti blaðsins mánudaginn, annan í páskum, svo það komist í dreifingu miðvikudaginn 16. apríl, sem er dreifingardagur Póstsins á fjölpósti. Af þessum ástæðum þarf að skila auglýsingum og efni núna helst fyrir helgina og í síðasta lagi á annan í páskum 21. apríl.