Eystrahorn 40. tbl. 33. árgangur
Fimmtudagur 19. nóvember 2015
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Ískaldar staðreyndir! Þegar veita á gæðaþjónustu er lykilatriði að setja öryggismálin ávallt í öndvegi. Menntun og þjálfun starfsmanna/leiðsögumanna er mjög mikilvæg og í VAKANUM, gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar, eru gerðar miklar kröfur á því sviði. Það á ekki síst við þegar um ræðir afþreyingu sem gæti falið í sér áhættu fyrir þátttakendur. Vatnajökulsþjóðgarður, Sveitarfélagið Hornafjörður og Ríki Vatnajökuls beina þeim tilmælum til þeirra aðila sem eru með ferðir á jökla og í íshella að þeir fylgi viðmiðum VAKANS „203 Gönguferðir um jökla og fjöll“ við skipulagningu slíkra ferða. Á það ekki síst við hvað varðar hlutfall viðskiptavina á leiðsögumann og öryggisþætti almennt. Á heimasíðu VAKANS, http://www.vakinn.is er að finna sértæk viðmið vegna gönguferða á jökla og fjöll. Markmið allra aðila sem vinna við ferðaþjónustu er það sama: að gestir okkar njóti einstakrar upplifunar. Því viljum við minna alla aðila á að sýna hver öðrum tillitsemi og kurteisi sem og ganga vel um umhverfið sem er auðlind okkar allra.
Aflabrögð í haust
Bréf til bjargar lífi Stjórnvöld geta hunsað eitt bréf – þau hunsa ekki milljónir bréfa!
Blaðið hafði samband við Jóa á Fiskmarkaðinum „Haustið hefur verið þokkalegt en mátt vera betra. Bæði tíðarfarið og reyndar fiskleysi á tímabili voru að pirra okkur svolítið“ sagði Jói. Hjá Skinney-Þinganesi fengust þessar upplýsingar; „Humarbátar héldu sig eingöngu á suðvestur miðum í haust, ólíkt undanfarin ár þegar þeir færðu sig á heimamið þegar líða tók á vertíðina. Eins og komið hefur fram í fréttum voru aflabrögð síðri en áður en þegar upp var staðið náðist góður hluti kvótans. Síldveiðar hafa jafnframt verið með öðru sniði en undanfarin ár. Síldin hefur verið treg og meira þurft að hafa fyrir veiðinni. Áætlanir um veiðar á bolfiski í haust hafa gengið eins og lagt var upp með. Núna verða alls fimm bátar ýmist á línu, trolli eða netum fram að áramótum auk þess sem uppsjávarskipin halda áfram á síld. Markaðir fyrir uppsjávarfisk tóku talsverða dýfu á árinu vegna þess að Rússar lokuðu á innflutning frá Íslandi fyrr á árinu. Markaðir bæði fyrir síld og makríl bera þess merki og verð hefur lækkað talsvert. Loðnuvertíð er framundan og alveg óljóst bæði með kvóta og markaðshorfur. Markaðir fyrir aðrar afurðir hafa verið stöðugir og horfur á nýja árinu fyrir bolfisk ágætar. Nýverið voru gerðar skipulagsbreytingar á fyrirtækinu með það að markmiði að annars vegar efla nýsköpun og vöruþróun og hins vegar hámarka nýtingu og afköst í vinnslu félagsins.“
Á hverju ári setja hundruð þúsunda einstaklinga, frá rúmlega 150 löndum og landsvæðum, nafn sitt á milljónir bréfa til stjórnvalda sem brjóta mannréttindi og þrýsta á umbætur. Fjöldinn allur skrifar einnig stuðningskveðjur til þolenda mannréttindabrota og veita þeim þannig styrk og vissu um að umheimurinn hafi ekki gleymt þeim. Það kann að vera auðvelt fyrir stjórnvöld að hunsa eitt bréf en þegar milljónir slíkra bréfa berast er erfitt að líta undan. Bréfin bera árangur. Bréfin bjarga lífi. Í rúm 50 ár hefur Amnesty International barist gegn mannréttindabrotum með pennann að vopni og á hverju ári eru samviskufangar leystir úr haldi, fangar hljóta mannúðlegri meðferð, þolendur pyndinga sjá réttlætinu fullnægt, fangar á dauðadeild eru náðaðir eða ómannúðlegri löggjöf er breytt. Á hverju ári eiga sér stað raunverulegar breytingar á lífi þolenda mannréttindabrota vegna undirskrifta ykkar og aðgerða. Gott dæmi um raunverulega breytingu á lífi þolanda mannréttindabrots er saga Moses Akatugba, ungs manns frá Nígeríu sem var pyndaður grimmilega og dæmdur til dauða með hengingu aðeins 16 ára gamall fyrir það eitt að stela þremur farsímum. Á síðasta ári þrýstu rúmlega 300.000 manns, í bréfamaraþoni samtakanna, á fylkisstjórann á óseyrum Nígerfljóts að náða Moses og í maí 2015 lét fylkisstjórinn undan. Moses er nú frjáls maður. Íslendingar hafa ekki látið sitt eftir liggja í bréfamaraþoninu en á síðasta ári voru rúmlega 75.000 bréf og kort send utan, þar af 16.000 vegna Moses. Þátttaka var mjög góð á Höfn í Hornafirði en alls voru 2.588 bréf og kort send utan til stjórnvalda. Fleiri þurfa nú hjálpar þinnar við á Höfn. Ekki láta þitt eftir liggja á aðventunni í ár í baráttunni fyrir betri heimi. Hjálpaðu til. Taktu þátt í bréfamaraþoni Íslandsdeildar Amnesty International á Höfn í Hornafirði, í Gömlubúð upplýsingastofu ferðamála og gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs, sunnudaginn 30. nóvember frá kl. 13:00 til 17:00. Þar geturðu brugðist við vegna 12 áríðandi mála sem þurfa á athygli þinni að halda. Bréf getur breytt lífi. Taktu þátt.