Eystrahorn 37. tbl. 33. árgangur
Fimmtudagur 29. október 2015
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Flugslysaæfing haldin á Hornafjarðarflugvelli
Flugslysaæfing fór fram á Hornafjarðarflugvelli síðastliðinn laugardag, 24. október. Á æfingunni voru æfð viðbrögð við ímynduðu flugslysi flugvélar með 20 manns innanborðs. Fjöldi ráðgjafa auk heimamanna tók þátt í æfingunni sem heppnaðist með ágætum. Að æfingu lokinni eru viðbrögð rýnd og að lokum er gerð skýrsla um hvað var vel gert og hvað má betur fara. Flugslysaæfingar eru almannavarnaæfingar og eru jafnan með stærstu hópslysaæfingum sem haldnar eru ár hvert og mikilvægar
heildarviðbragðskerfi Íslands hvort sem um flugslys eða önnur hópslys er að ræða. Isavia heldur utan um skipulag æfinganna en mikill fjöldi annarra viðbragðsaðila kemur að þeim. Frá árinu 1996 hefur Isavia haldið yfir 40 flugslysaæfingar. Æfðar eru björgunar- og slökkviaðgerðir, greining og aðhlynning slasaðra auk umönnunar óslasaðra og aðstandenda. Auk þess er áhersla lögð á samhæfingu vegna flutnings slasaðra, boðunarkerfi, stjórn, fjarskipti, rannsókn á vettvangi og fleira. Um tvær til
fjórar æfingar eru haldnar ár hvert, en stór flugslysaæfing er haldin á hverjum flugvelli á fjögurra ára fresti. Æfingarnar byggja á flugslysaáætlun sem gerð hefur verið fyrir hvern flugvöll. Fjöldi viðbragðsaðila taka þátt í æfingunum, meðal annarra Isavia, almannavarnardeild ríkislögreglustjóra, slökkvilið, lögregla, heilbrigðisstofnanir, sjúkraflutningar, björgunarsveitir, Rauði krossinn, Landhelgisgæslan, Neyðarlínan og prestar.
Guðrún Ásdís ráðin verkefnastjóri SASS á Höfn - vantar íbúð fyrir fjölskylduna Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir hefur verið ráðin ráðgjafi/verkefnastjóri SASS með starfsaðstöðu á Höfn í Hornafirði. Alls sóttu sex um starfið. Guðrún hefur starfað sjálfstætt að sínum eigin fyrirtækjum síðustu ár. Hún hefur sett á laggirnar og rekið nokkur fyrirtæki sem hafa náð góðum árangri. Nú síðast Heilshugar sem selur matvöru sem kallast Millimál og þar á undan Gastu sem selur m.a. roðklædda vasapela sem seldir hafa verið um borð í flugvélum Icelandair. Guðrún Ásdís hefur lokið grunnnámi í byggingatæknifræði og hefur stundað mastersnám í alþjóðaviðskiptum við Bifröst. Guðrún Ásdís er 32 ára, gift Tjörva Óskarssyni saman eiga þau þrjár dætur, Guðrún er uppalin á Hornafirði þau
fjölskyldan munu flytja til Hafnar á næstu vikum. Guðrún Ásdís tekur til starfa hjá SASS 2. nóvember nk. Í samtali við blaðið sagði Guðrún Ásdís þetta; Við hjónin ásamt þremur dætrum okkar munum flytja aftur heim á Höfn nú í byrjun nóvember þegar ég tek við starfi Fanneyjar sem atvinnuráðgjafi hjá SASS með aðsetur í Nýheimum. Við erum að koma heim frá Spáni þar sem Tjörvi stundaði nám við þrívíddarhönnun og tæknibrellur. Við hlökkum til að koma „heim“ og vonum að húsnæðismálin gangi upp en okkur bráðvantar húsnæði í langtímaleigu fyrir okkur fjölskylduna. Við værum þakklát fólki ef það lætur okkur vita um laust húsnæði. Það má hafa samband í síma 867-6604 eða í gegnum Facebook.
Samfélagsvefurinn www.hornafjordur.is