Eystrahorn 35. tbl. 33. árgangur
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 15. október 2015
Vel heppnað góðgerðarkvöld á Smyrlabjörgum Það er samdóma álit allra sem komu að hátíðinni „Til sjós og lands“ sem haldin var á Hótel Smyrlabjörgum síðastliðinn laugardag að hún hafi tekist mjög vel. Hráefni í matinn og vinna var öll gefin og þeir sem fram komu um kvöldið gáfu sína vinnu. Þarna ríkti mikil gleði og góð stemning. Í lok samkomunnar var síðan upplýst hversu mikið hefði safnast. Enn eru að berast framlög inn á söfnunarreikninginn (0172-26-526 kt. 3010522279). Foreldrar Eydísar Diljár þau Joanna og
Ágúst tóku við gjafabréfi í lok kvöldsins. Eydís Diljá var viðstödd með foreldrum sínum og bróður, en hún hafði heillað veislugesti með fjöri og glaðværð allt kvöldið. Við sem stóðum að þessari samkomu viljum þakka öllum þeim fjölmörgu einstaklingum og fyrirtækjum sem veittu okkur frábæran stuðning og gerðu með því, þessa fjáröflunarsamkomu að veruleika. Laufey Helgadóttir, Halldóra Bergljót Jónsdóttir, Haukur Helgi Þorvaldsson og Ásmundur Friðriksson
Í samtali við foreldra Eydísar Diljár kom fram að hún er með mjög sjaldgæft og alvarlegt heilkenni sem nefnist CFC syndrome og m.a. hefur áhrif á hjartað. Aðeins tvö börn á Íslandi eru greind með þetta heilkenni nú og talið er að aðeins séu 100 – 200 önnur börn í heiminum í sömu aðstæðum. Þessi börn þurfa mikla umönnun og eftirlit. Fjölskyldan er á leið til Englands að hitta aðra foreldra víða að úr heiminum sem eiga börn með sama heilkenni. Joanna og Ágúst vilja koma á framfæri sérstökum þökkum til allra sem stóðu að góðgerðarkvöldinu og tóku þátt í að veita þeim þennan ómetanlega styrk. Á myndinni eru þau Ágúst Már Ágústsson og Joanna Skrzypkowska ásamt börnum sínum þeim Daníel Má, Eydísi Diljá og Lilju Dögg.
Björgunarfélag Hornafjarðar 50 ára
Í tilefni 50 ára afmælis Björgunarfélags Hornafjarðar ætla meðlimir sveitarinnar að bjóða íbúum í heimsókn sunnudaginn 18. október nk. kl. 14:00. Allir Hornfirðingar eru hvattir til að líta við í húsnæði félagsins og kynna sér starfsemina, aðstöðu og tæki sveitarinnar.
Bleikur október Föstudagurinn 16. október er bleikur dagur í tilefni af bleikum október. Því hvetjum við alla til að klæðast eða skreyta sig með einhverju bleiku þennan dag. Þriðjudaginn 27. október verður síðan kvennafræðslukvöld á Hótel Höfn kl 20:00. Elín Freyja Hauksdóttir læknir flytur erindi og Hulda Laxdal jógakennari leiðbeinir um núvitund og slökun. Boðið verður upp á kaffi og með því. Konur eru hvattar til að taka kvöldið frá. Hlökkum til að sjá ykkur. Stjórn Krabbameinsfélags Suðausturlands
Samfélagsvefurinn www.hornafjordur.is