Eystrahorn Fimmtudagur 21. maí 2015
20. tbl. 33. árgangur
Um heilbrigðismál
Þann 6. maí sl. var haldið gott og ganglegt málþing hér á Höfn um heilbrigðis- og öldrunarmál. Því voru gerð góð skil í síðasta Eystrahorni. Málþingið var rætt á Alþingi í síðustu viku og mun verða tekið upp á opnum fundi velferðarnefndar í byrjun þings í haust. Mikið var rætt um mikilvægi hreyfingar og félagslegrar örvunar eldri borgara til að auka og bæta lífsgæði þeirra. Varðandi ytri þætti heilbrigðisþjónustunnar voru það tvö mál sem brunnu heitast, áframhaldandi þjónustusamningur og framkvæmd hans innan sameinaðrar stofnunnar og bygging nýs hjúkrunarheimilis. Fram kom í máli heilbrigðisráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, í pallborði að honum hugnaðist vel áframhaldandi samningur um heilbrigðisþjónustu við sveitarfélagið og hafði hann góðan skilning á þeirri samþættingu innan málaflokksins sem við höfum náð eftir að hafa starfað samkvæmt samningi í nær 20 ár. Það gefur mér von um að endurnýjun sé raunhæfur möguleiki og verður unnið að því í samstarfi við framkvæmdastjórn HSu að sníða nýjan samning þannig að hann þjóni báðum aðilum vel. Varðandi nýbyggingu var það upplifun fundargesta að við værum ekki fremst í röðinni á forgagnslista ráðherra, fjármagn væri takmarkað og forgangsröðunar þörf á landsvísu. Hér væru ekki biðlistar og fólki liði vel. Við höfum sagt það áður og ítrekum það enn að á meðan hjúkrunarrýmin eru 92% tvíbýli og að auki mjög lítil séu í raun allir íbúar hjúkrunarheimilisins á biðlista eftir einkarými sem uppfylli viðmið Velferðarráðuneytis um stærð og aðbúnað. Við búum við það að vera með hæsta hlutfall tvíbýla og ríflega helming allra tvíbýla á Suðurlandi.
Fjarlægð frá sjúkrahúsi, stærð og lögun sveitarfélagsins gerir það að verkum að við þurfum enn frekar að vera sjálf okkur nóg um rými. Án þess að vilja gera lítið úr þörfinni að eyða biðlistum og fjölgun hjúkrunarrýma þar sem þess þarf, þá er þörf okkar brýn og annars eðlis því er ósanngjarnt að etja þessum mismunandi hópum saman í keppni um sama fjármagnið. Einbýli á hjúkrunarheimilum er réttmæt krafa íbúa þar og nauðsyn til að íbúar fái haldið reisn sinni og sjálfstæði á heimili sínu, því hjúkrunarheimili er heimili ekki heimavist. Bæjarstjórn Hornafjarðar mun áfram berjast fyrir því að byggt verði nýtt hjúkrunarheimili, afstaða ráðherra breytir þar engu og hvetur okkur til að leggja enn meiri áherslu á málið svo það komist í framkvæmd.
Skjólgarður Á fundi heilbrigðis- og öldrunarnefndar þann 28. apríl sl. var meðal annars rætt um hvort taka ætti aftur upp nafnið Skjólgarður fyrir hjúkrunarheimilið. Fundarmenn áttu um hugmyndina ágætis umræðu en voru sammála um að best væri að sjónarmið sem flestra kæmu fram áður en ákvörðun yrði tekin. Í mínum huga ætti hjúkrunarheimilið að bera nafn. Við höfum dvalarheimili sem í daglegu tali heitir Mjallhvít og dagvist aldraðra er til húsa í Ekru. Þetta er þó allt starfsemi sem heyrir undir HSu á Hornafirði rétt eins og hjúkrunarheimilið. Skjólgarður finnst mér vera nafn sem lýsir þeirri umhyggju og hlýju sem er innan veggja hjúkrunarheimilis og við tengjum það nú þegar við starfsemina. Lovísa Rósa Bjarnadóttir, formaður Heilbrigðis- og öldrunarnefndar
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Ragna Stefánsdóttir 100 ára
Ragna er fædd á Hlíð í Lóni. Foreldrar hennar voru Stefán Jónsson og Kristín Jónsdóttir. Ragna er elst af fjórum alsystkinum, hin eru Benedikt, Jón og Kristín, en fyrir voru fimm hálfsystkini Guðlaug, Guðrún, Páll, Egill og Skafti. Árið 1935 kom Einar Bjarnason eins árs og ólst á Hlíð. Haustið 1930 fór Ragna til Reykjavíkur að stunda ljósmæðranám og var í eitt ár. Hún starfaði m.a. sem ljósmóðir frá 1942-1955 mest í Lóni og Álftafirði og tók á móti 5060 börnum. Árið 1955 flutti Ragna að Múla í Álftafirði til Rögnvaldar Karlssonar og átti þá eina dóttur Kristínu Stefaníu fædda 1953. Ragna og Rögnvaldur giftu sig 8. september 1956 og eignuðust aðra dóttur Dagnýu 1957. Á Múla bjuggu þau með sauðfé og eina til tvær kýr. Rögnvaldur veiktist árið 1980 og var þá sauðfénu fækkað. Árið 1984 var hann orðinn sjúklingur og dvaldi síðustu árin á sjúkrahúsinu á Neskaupstað. Hann dó 26. september 1986. Ragna hafði mörg áhugamál, spilamennsku, steinasöfnun, söng, bókbandi, prjónaskap og öðru handverki. Árið 1984 flutti Ragna á Silfurbraut 6 á Höfn. Tók Ragna þátt í félagsstarfi og ferðalögum eldriborgara meðan heilsan leyfði. Hún flutti á Skjólgarð árið 2000 síðan á Mallhvít og 2010 á Hjúkrunarheimilið þar sem hún dvelur núna.
Samfélagsvefurinn www.hornafjordur.is
www.hornafjordur.is