Eystrahorn Fimmtudagur 30. apríl 2015
17. tbl. 33. árgangur
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Jöklabreytingar
Sigurður og Ari Björnssynir frá Kvískerjum nærri jaðri Breiðamerkurjökuls með Breiðamerkurfjall að baki, 3. júlí 1935. Ljósmynd Helgi Arason.
Sigríður Björgvinsdóttir á sama stað , nær 80 árum síðar eða 18. apríl 2015. Ljósmynd Snævarr Guðmundsson.
Þann 3. júlí 1935 tók Helgi Arason (frá Fagurhólsmýri) vinstri myndina, framan við Breiðamerkurjökul, með sjónarhorn á Breiðamerkurfjall. Á þeim tíma var fjallið enn umlukið af Breiðamerkurjökli og Fjallsjökli. Nýverið leitaði Snævarr Guðmundsson hjá Náttúrustofu Suðausturlands uppi hvar myndin var tekin og tók aðra frá sama stað. Þá voru næstum full 80 ár liðin frá því að Helgi tók myndina. Ótrúlegar landbreytingar endurspeglast í þessum myndum. Árið
1935 hafði jökullinn hörfað 680 m á þennan stað frá því að hann var í hámarksstærð ~1880-1890. Frá 1935 hefur jökullinn hopað 3400 m og því samtals rúma 4 km þarna. Myndirnar sýna ekki aðeins jökulrýrnunina, landið framan við hefur líka breyst. Frostupplyfting hefur lyft grettistökum svo sum eru meira áberandi og ís þiðnað úr aurnum.
Landsbankinn sameinar starfsemi á Höfn og Selfossi •
Útibú sem áður heyrðu undir Sparisjóð Vestmannaeyja á Höfn og Selfossi sameinuð útibúum Landsbankans
•
Áfram verða reknar afgreiðslur á Breiðdalsvík og Djúpavogi
•
Landsbankinn endurnýjar útibú sitt í Vestmannaeyjum síðar á árinu
Útibú Landsbankans og þau sem áður heyrðu undir Sparisjóð Vestmannaeyja á Höfn og Selfossi verða sameinuð frá og með mánudeginum 27. apríl. Útibúin verða til að byrja með rekin í húsnæði Landsbankans á þessum stöðum, en að loknum
lagfæringum á Höfn mun bankinn flytja starfsemi sína í húsnæði sparisjóðsins. Húsnæði Landsbankans á Höfn verður þá selt. Þá hefur verið ákveðið að reka áfram afgreiðslur á Breiðdalsvík og á Djúpavogi og hefur sveitastjórnum þessara staða verið tilkynnt um það. Við sameiningu útibúa á Selfossi og Höfn láta 6 starfsmenn af störfum,
en tveir þeirra óskuðu ekki eftir áframhaldandi starfi í sameinuðu útibúi. Þá flyst einn starfsmaður á höfuðborgarsvæðið að eigin ósk og fær starf hjá bankanum þar. Fækkun starfsmanna á Höfn og Selfossi er óhjákvæmileg og endurspeglar þær miklu breytingar sem orðið hafa á bankaviðskiptum á síðustu árum, m.a. færri heimsóknir
í bankaútibú og sívaxandi nýtingu á rafrænum lausnum s.s. netbönkum. Landsbankinn og starfsmenn hans munu leitast við að tryggja að sameining Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja valdi viðskiptavinum sem minnstri röskun. Strax á mánudag geta viðskiptavinir sjóðsins leitað með öll sín mál í sameinuð útibú á Höfn og Selfossi. Netbanki og greiðslukort viðskiptavina Sparisjóðs Vestmannaeyja munu áfram virka eins og þau hafa gert. Sameiningu mun svo ljúka að fullu síðar á árinu með opnun endurnýjaðs útibús Landsbankans í Vestamannaeyjum. Landsbankinn rekur eftir þessar breytingar 35 útibú og afgreiðslur um land allt.
Samfélagsvefurinn www.hornafjordur.is