Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 1. mars 2012
9. tbl. 30. árgangur
Gunnlaugur Þröstur Höskuldsson hlaut menningarverðlaunin fyrir árið 2011 Á fimmtudaginn síðasta voru sautjándu Menningarverðlaun Sveitarfélagsins Hornafjarðar veitt í Nýheimum. Verðlaunin eru veitt þeim einstaklingi eða félagasamtökum sem unnið hafa ötullega að lista- og/eða Menningarstarfi í heimabyggð. Hlutverk verðlaunanna er þannig ætlað að vera almenn hvatning til eflingar menningar og listastarfs. Í ár hlutu fimm einstaklingar tilnefningar til Menningarverðlauna en þeir voru: • Gísli Arason fyrir merkilegt starf innan menningarmála gegnum árin og uppbyggingu Byggðarsafns. • Eiríkur Hansson fyrir frábæran árangur í tengslum við Legó keppnina. • Gunnlaugur Þröstur Höskuldsson fyrir fórnfúst starf um áratugaskeið að tónlistarmálum á Hornafirði. • Heiðar Sigurðsson fyrir leiðandi starf innan Hornfirska Skemmtifélagsins. • Elínborg Pálsdóttir fyrir listsköpun sína. Menningarmálanefnd komst að þeirri niðurstöðu að Menningarverðlaunin hlyti verð-
Gunnlaugur Þröstur þakkar fyrir sig. Á innfelldu myndinni eru þeir sem tilnefndir voru ásamt Björgu Erlingsdóttur og Kristjáni Guðnasyni.
skuldað Gunnlaugur Þröstur Höskuldsson. Tónlistarferill hans spannar yfir langan og breiðan feril. Hann byrjaði 16 ára að spila í hljómsveit, söng og kenndi Karlakórnum Jökli til fjölda ára, stofnaði Lúðrasveit Hornafjarðar árið 1974 og stjórnaði og spilaði með henni í 20 ár. Einnig stjórnaði hann skólalúðrasveit Hornafjarðar í
19 ár og hefur stofnað margan annan félagskap á borð við blandaðan kór Heppuskóla, Jazzklúbb Hornafjarðar, Dixieland hljómsveit og Big Band hljómsveit. Gunnlaugur Þröstur söng í Kirkjukór Hafnarkirkju í nokkur ár og stjórnaði Harmonikkufélagi Hornafjarðar frá árinu 1994 til ársins 2010. Hann hefur
starfað sem tónlistarkennari frá árinu 1972 og starfar enn og eru ófáir nemendurnir sem hafa hlotið þeirra forréttinda að vera undir hans leiðsögn. Gunnlaugur Þröstur er vel að þessari viðurkenningu kominn og eru honum hér færðar hamingjuóskir.
Ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur Áhugafólk er hvatt til að taka þátt í starfi Leikfélagsins Eystrahorn hafði samband við Kristínu Gestsdóttur hjá Leikfélagi Hornafjarðar og Guðjón Sigvaldason leikstjóra til að inna frétta af væntanlegri uppfærslu Leikfélagsins; „Leikfélag Hornafjarðar er nú að setja upp aftur eftir nokkurt hlé, leiksýningu í fullri lengd í samstarfi við Framhaldsskólann í Austur Skaftafellssýslu. Verið er að æfa Rómeó og Júlíu eftir William Shakespere. Leikstjóri að þessu sinni er Guðjón Sigvaldason sem áður hefur unnið með okkur. Hann setti um Djöflaeyjuna, Strætið, Jólaflækju og Emil í Kattholti en einnig vann hann með götuleikhúsinu þegar Leikfélagið var með það. Í ár á Leikfélag Hornafjarðar 50 ára afmæli.
Sigrún Eiríksdóttir og Gísli Arason í hlutverkum sínum í Ævintýri á gönguför, fyrstu uppfærslu LH.
Því var ákveðið að halda upp á það með mesta leikritahöfundi allra tíma. Rómeó og Júlía verður sett upp í Nýheimum en það hefur ekki verið gert áður af leikfélaginu. Bærilega hefur gengið að manna, enn vantar karlmenni þegar þetta er skrifað. Einnig vantar búningameistara og leikmynd og leikmunameistara. Því notum við þetta tækifæri til að hverja alla sem hafa áhuga að setja sig í samband við okkur. Aðstaðan í Nýheimum er prýðisgóð, þetta er auðvitað ekki byggt sem leikhús, enda verður þetta ekkert venjuleg leiksýning. Frumsýnt verður um miðjan apríl. Vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta og styðja þannig við bakið á leiklistarstarfi hér í sýslunni.“