Eystrahorn 5. tbl. 2015

Page 1

Eystrahorn 5. tbl. 33. árgangur

Fimmtudagur 5. febrúar 2015

www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is

Dagur leikskólans Föstudaginn 6. febrúar nk. verður dagur leikskólans haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins í áttunda sinn, en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Leikskólar landsins hafa á undanförnum árum haldið upp á dag leikskólans með margbreytilegum hætti og þannig stuðlað að jákvæðri umræðu um leikskólastarfið. Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra. Leikskólarnir á Hornafirði munu gera sér dagamun af þessu tilefni og eftirfarandi grein er birt hér til að minna á og undirstrika mikilvægi leikskólastarfsins.

Leikskólinn er lífið sjálft Spurt er: Hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðin stór? Mér var falið að svara spurningunni frá sjónarhorni leikskólabarnsins og valdi að svaraþví þannig að ég veit ekki hvað ég ætla að verða en ég veit hvað ég er. Leikskólabarn í góðum leikskóla er virkur þegn í samfélaginu. Tilgangur leikskólalífs þess er ekki að undirbúa sig undir næsta skólastig eða lífið . Skólinn er lífið sjálft þar sem þú lærir með því að vera og gera í samfélagi við aðra. Leikskólabarn í góðum leikskóla fær að svala forvitni sinni og virkja sköpunarkraftinn. Í góðum leikskóla er umhverfi og hvatning til þess að beina skapandi hugsun í farveg gagnrýninnar hugsunar þar sem spurningar og vangaveltur eru gripnar á lofti og leitað svara með rannsókn og tilraunum. Það er komist að niðurstöðu sem kannski hrynur augnabliki seinna en þá má spyrja nýrra spurninga og prófa sig áfram. Afurðir úr leikskóla eru ekki auðmælanlegar til gæða enda eru gæði barns ekki mælanleg í sjálfu sér. En við viljum að börn læri að þekkja ánægjuna af því að leita svara við spurningum, þekkja gleðina yfir því að ná árangri, vita hvernig það er að lenda í árekstrum við félaga sína og læra kúnstina að tapa og standa samt upp aftur og það er ekki lítið mikilvægt að verða læs í samskiptum og reka sig á. Leikskólinn á að vera öruggur staður til að meiða sig á sagði framhaldsskólaneminn, spurður hvernig leikskóli framtíðarinnar ætti að vera. Hann sagði líka að þar ættu ekki að vera tölvur en nóg af verkfærum og íhlutum til þess að smíða tölvur og þar ættu börn að vera í raunverulegri snertingu við náttúruna en ekki bara að heyra um hana og sjá hana af skjám. Ég er honum hjartanlega sammála. Við erum ekki með óskeikula aðferð til þess að mæla hamingju en við vitum að hamingja er eftirsóknarverð og við óskum börnunum okkar hennar. Í góðum leikskóla er börnum búnar aðstæður til þess að læra á lífið í

gegnum leik. Flæði er hugtak sem lýsir því ástandi þegar þú notar hámarkshæfileika þína til að ná hámarksárangri. Kannski er það augnablikið þegar kórinn nær samhljómi eftir þrotlausar æfingar eða Messi þegar hann er búinn að setja upp leikfléttu sem endar með marki. Þessa tilfinningu lærðum við að þekkja sem börn þegar við vorum örugg og niðursokkin í leik og vonandi munið þið eftir henni og munið þess vegna hvernig hamingja er; og hvar og hvernig beri að leita hennar sem fullorðið fólk. Leikskólinn er ekki eyland, Hann er mikilvægur hlekkur í samfélaginu. Leikskólinn er afar mikilvægur atvinnulífinu og er hluti af stóra efnahagsmálinu. Samfélagið færi á hvolf eftir fáa daga verkfalls til dæmis. Hann er mikilvægur í jafnréttisstöðu fullorðinna þar sem leikskóli er forsenda þátttöku foreldra á vinnumarkaðnum. Leikskólinn er líka vinnustaður fullorðinna og mikilvægur sem slíkur. Góður leikskóli er lærdómssamfélag þar sem kennsla, umönnun, umhyggja og nám eru ekki aðgreinanlega heldur ein heild. Kennarinn er nemandi og nemandinn er kennari og þú lærir með því að kenna og þú kennir með því að læra en nærð árangri í hvorugu ef ekki er gagnvirk umhyggja til staðar. Til þess að leikskóli sé góður þarf að vera aðbúnaður sem hæfir aldri barnanna og þroska. Öryggi barnanna þarf að vera tryggt en fyrst og síðast þarf að vera vel menntað starfsfólk. Nýjar

alþjóðlegar rannsóknir sýna betri mælanlegan árangur í læsi hjá börnum sem hafa verið í gæðaleikskólum og það er minna brottfall úr námi síðar á skólagöngunni þegar grunnurinn hefur verið lagður í gæðaleikskóla. Á Íslandi vantar 1.300 leikskólakennara. Þar komum við að samhenginu við lærdómssamfélagið og „life long learning“. Sveitarfélög og rekstraraðilar sem sjá menntun þegnanna sem stærsta efnahagsmálið og vita hvers virði það er að byggja á góðum grunni hafa í gegnum tíðina lagt metnað í að styrkja sitt fólk til mennta samhliða starfi. Ég leyfi mér að nefna sveitarfélag eins og Akranes. Þar eru lög um leikskóla uppfyllt og ríflega það vegna þess að fjármagni og tíma var ráðstafað til þess að starfsfólk gæti aflað sér menntunar og réttinda til leikskólakennslu. Hugsið til leikskólans næst þegar þið ætlið upp stiga eða tröppur. Hafið stigann fyrir menntaveginn og reynið að sleppa fyrstu þremur tröppunum. Þið komist upp en það verður erfiðara, sumir sleppa því að reyna og aðrir verða uppgefnir í miðjum stiga og heita brottfall uppfrá því. Aðalatriðið er að búa ekki til stiga sem vantar fyrstu tröppurnar í og enn síður að búa hann til en láta þær fúna. Hver króna sem er sett í fyrstu þrepin skilar sér sjöfalt til baka. Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður Félags stjórnenda leikskóla.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.