Eystrahorn 4. tbl. 2015

Page 1

Eystrahorn 4. tbl. 33. árgangur

Fimmtudagur 29. janúar 2015

www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is

Heilsugæslan efnir til söfnunar fyrir nýju ómtæki Ómtæki nýtist starfsmönnum heilsugæslunnar til ýmissa verka. Læknar í dag eru farnir að líta á ómtæki sem framlengingu á hlustunarpípunni og sem nauðsynlegt tæki til greiningar og við meðferð á ýmsum sjúkdómum. Sem dæmi má nefna snemmsónar, kanna legu fósturs á meðgöngu, greina blæðingu í kviðarholi og gollurshúsi, greina loftbrjóst eða blóð í brjóstholi, finna æðar fyrir æðaleggi og ýmislegt annað sem ekki þarf sérfræðikunnáttu til. Ómtækið sem heilsugæslan á í dag er orðið gamalt og óáreiðanlegt. Lítið hefur verið hægt að nota tækið undanfarin ár. Starfsfólk HSSA hefur því ákveðið að efna til söfnunar fyrir nýju tæki, Mindray M7 sem kostar 5 milljónir. Það

tæki er einfalt í notkun og myndgæðin í því eru mjög góð. Innifalið er búnaður sem getur sent myndir úr tækinu í tölvu og einnig er hægt að senda á sérfræðinga til úrlestrar. Nýtt ómtæki mun því efla öryggi við greiningu og meðferð sjúkdóma og starfsöryggi lækna. Við biðlum því til fyrirtækja, líknarfélaga og íbúa á Hornafirði að styðja Heilbrigðisstofnun Suðausturlands til kaupa á nýju ómtæki fyrir heilsugæsluna. Áhugasamir geta lagt inn á Gjafa- og minningasjóð Skjólgarðs en reikningsnúmerið er 1147-15-200513, kennitalan 430796-2169. Elín Freyja Hauksdóttir, læknir heilsugæslustöðinni Hornafirði

Hreyfiseðill orðinn raunhæfur kostur Hreyfiseðill - ávísun á hreyfingu er orðinn raunhæfur valkostur innan heilbrigðiskerfisins í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Úrræðið byggir á því að læknar heilsugæslunnar skrifi út hreyfiseðil fyrir þá einstaklinga sem þeir telja að ábending sé fyrir slíkri meðferð. Einstaklingnum er síðan vísað til hreyfistjóra til ráðgjafar og eftirfylgni. Með þessu móti er verið að bregðast við þekkingu um gagnsemi hreyfingar sem meðferðarúrræðis innan heilbrigðiskerfisins. Jafnframt er einstaklingum gefið tækifæri til að takast á við sjúkdóma með eigin atorku. Nú í febrúar mun Einar Smári Þorsteinsson sjúkraþjálfari byrja að taka við hreyfiseðlum en hann verður hreyfistjóri hér á Hornafirði. Fyrirkomulag hreyfiseðilsins er unnið út frá uppbyggingu FaR (fysiskt aktivitet på recept) í Svíþjóð og hefur Dr. Ingibjörg Jónsdóttir sem starfar hjá Streiturannsóknarstofnuninni í Gautaborg verið góður bakhjarl verkefnisins hér á Íslandi um nokkurra ára skeið. Reynslan þaðan m.a. varðandi uppbyggingu og skipulag er okkur afar dýrmæt. Fram hefur komið að hreyfistjórarnir gegna veigamiklu hlutverki varðandi kynningu, utanumhald og eftirlit með uppáskrifaðri hreyfingu og nauðsynlegt er að þeir starfi innan heilbrigðiskerfisins og séu kostaðir af því. Reynsla hér á Íslandi styður þetta og ljóst er að talsverð vinna felst í að kynna hreyfiseðilsverkefnið innan heilsugæslunnar og heilbrigðisstofnana svo úrræðið sé vel nýtt. Nú eru starfandi yfir 20 hreyfistjórar í samtals 3,5 stöðugildum um allt land, eða um 100.000 íbúar á hvert stöðugildi. Ef þróunin verður

svipuð hér og í Svíþjóð þá má búast við að innan fimm ára verði hreyfistjórar starfandi í rúmlega 10 stöðugildum eða um 33.000 íbúar á hvert stöðugildi. Skipulögð hreyfing er öflugt meðferðarúrræði til að vinna á sjúkdómum og sjúkdómseinkennum eins og langvarandi verkjum, kvíða, depurð, sykursýki, offitu, kransæðasjúkdómum, hjartabilunareinkennum, afleiðingum lungnaþembu, háum blóðþrýstingi, hækkuðum blóðfitum svo eitthvað sé nefnt.

Ferli hreyfiseðilsins Við komuna til heilsugæslulæknis metur læknir einkenni og ástand einstaklingsins. Læknir kynnir hreyfiseðilsúrræðið ef hann telur að það eigi við, metur hvort viðkomandi einstaklingur sé tilbúinn, tekur viðeigandi mælingar og skrifar síðan hreyfiseðil sem meðferð við þeim sjúkdómi eða sjúkdómseinkennum sem verið er að fást við. Hreyfingin getur nýst sem sértæk meðferð við sjúkdómum/einkennum, eða sem hluti af annarri meðferðar svo sem lyfjagjöf Því næst er einstaklingnum gefinn tími hjá hreyfistjóranum sem staðsettur

er innan heilsugæslustöðvarinnar/ heilbrigðisstofnunarinnar. Við komu til hreyfistjóra skoða skjólstæðingur og hreyfistjóri í sameiningu hvaða úrræði gætu hentað sem reglubundin hreyfing. Þá er framkvæmt 6 mínútna göngupróf til að meta þol og hvernig líkaminn bregst við álagi. Í framhaldinu er einstaklingsmiðuð hreyfiáætlun útbúin, en hún tekur mið af einkennum/sjúkdómi, áhuga skjólstæðings og getu Eftirfylgni hreyfistjórans byggir á því að einstaklingurinn hringir í ákveðið símanúmer eða skráir sig inn á vefsíðuna, hreyfisedill. is í hvert sinn sem hreyfing er stunduð samkvæmt hreyfiáætluninni. Þessi skráning einstaklingsins auðveldar utanumhald hreyfistjórans og gefur möguleika á markvissri eftirfylgd um framvindu og gang mála í formi samtala og hvatningar. Skráningin gefur þátttakendum möguleika á gagnvirkri endurgjöf og auðveldar hún jafnframt árangursmælingar af verkefninu. Læknir fylgir einstaklingnum eftir í hefðbundnu lækniseftirliti. Það er ánægjulegt að sjá þetta verkefni verða að veruleika í heilbrigðisþjónustunni og hlökkum til að taka þátt í því að gera hreyfingu að meðferðarúrræði fyrir íbúa Austur-Skaftafellssýslu. Matthildur Ásmundardóttir, sjúkraþjálfari og framkvæmdastjóri HSU, Hornafirði Einar Smári Þorsteinsson, sjúkraþjálfari HSU, Hornafirði


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.