Eystrahorn 44. tbl. 2015

Page 1

Jólablað 2015

Eystrahorn 44. tbl. • 33. árg. • fimmtudagur 17. desember

Aðventa

Brátt nálgast sú helgasta hátíð í bæ með heilögum ljósunum björtum. Andi Guðs leggst yfir lönd yfir sæ og leitar að friði í hjörtum.

Þá vill hann oft gleymast sem farveg oss fann sem fæddist í jötunnar beði. Við týnum úr hjartanu trúnni á hann og tilefni jólanna gleði.

Það ljós hefur tindrað um aldir og ár og yljað um dali og voga. Þó kertið sé lítið og kveikurinn smár mun kærleikur fylgja þeim loga.

En nú virðist fegurðin flúin á braut og friðurinn spennu er hlaðinn. Lífsgæðakapphlaup og kauphallarskraut er komið til okkar í staðinn.

Er vökvar þú kærleikans viðkvæmu rós þá veitist þér andlegur styrkur. Kveiktu svo örlítið aðventuljós þá eyðist þitt skammdegismyrkur.

Láttu svo kertið þitt lýsa um geim og loga í sérhverjum glugga. Þá getur þú búið til bjartari heim og bægt frá þér vonleysisskugga. Ljóð: Hákon Aðalsteinsson • Ljósmynd: Þorvarður Árnason

Starf Félags eldri Hornfirðinga á fullri ferð Segja má að starfsemi Félags eldri Hornfirðinga skiptist í tvær annir fyrir og eftir áramót. Haustfundur er haldinn í september þar sem starfið er kynnt og málin rædd. Starfið fer fram í félagsmiðstöðinni Ekru að langmestu leyti, það er aðeins sundleikfimin sem fram fer í sundlauginni. Í haust hefur vikulega verið boðið upp á opið hús í Ekrunni þar sem félagar koma til að spila og grípa í hannyrðir. Snókerinn er líka til staðar svo ekki sé minnst á félagsvistina og bingóið. Tvisvar í mánuði eru samverustundir þar sem briddað er upp á ýmsu efni til skemmtunar og fróðleiks. Einu sinni í mánuði er rjómavöffluball þar sem ýmsir hljóðfæraleikarar spila fyrir dansi. Gleðigjafar kór eldri borgara starfar af krafti undir stjórn Guðlaugar Hestnes. Í haust var keypt nýtt og gott píanó í Ekruna og kemur það sér mjög vel m.a. í kórstarfinu. Eru þeim sem að píanókaupum stóðu færðar bestu þakkir. Leikfimi er í Ekrunni og sundleikfimi í sundlauginni. Gönguferðir eru frá Ekrunni tvisvar í viku Haustönninni lýkur svo með jólasamveru sem var sl. sunnudag og heppnaðist vel. Haukur Ingibergsson formaður Landsambands eldri borgara kom í heimsókn í september og fundaði með félögum í Ekrunni ásamt Bryndísi Bjarnadóttur alþjóðatengils landsambandsins. Var þetta bæði fróðlegur og gagnlegur fundur og vel sóttur. Eftirminnilegt er vel heppnað málþing í maí um heilbrigðisog öldrunarmál á Hornafirði. Meðal gesta var heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson og ýmsir aðrir góðir frummælendur. Aðallega

var rætt um þörfina á viðbyggingu við Skjólgarð sem býr í dag við mikil þrengsli. Vonandi ná menn að fylgja þessu brýna máli eftir. Á sumrin er ekki mikið starf, þó eru farnar tvær ferðir, ein dagsferð og önnur lengri. Þá er félögum árlega boðið upp á að sækja svokallaða Sparidaga á Hótel Örk. Þar er dvalið í viku í senn frá janúar til maí. Allir 60 ára og eldri eru velkomnir í félagið og eins þeir sem yngri eru geta gerst styrktarfélagar. Ég vil hvetja fólk til að koma í starfið í

Ekrunni þar er margt að finna og því fleiri sem koma verður bara skemmtilegra. Þegar vinnudegi okkar á vinnumarkaði er lokið vegna aldurs þá gefst tækifæri á tómstundum m.a. í Ekrunni. Látið sjá ykkur og verið ekki feiminn að koma YKKUR VERÐUR VEL TEKIÐ. Næsta stórverkefni hjá félaginu er þorrablótið á ÞORRANUM. Gleðileg jól og farsælt nýtt ár. Haukur Helgi í stjórn Félags eldri Hornfirðinga tók saman.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.