Eystrahorn Fimmtudagur 13. ágúst 2015
25. tbl. 33. árgangur
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Flugeldasýning á Jökulsárlóni Flugeldasýningin á Jökulsárlóni verður laugardagskvöldið 15. ágúst klukkan 23:00. Flugeldasýningin er árlegur viðburður og er þetta í fimmtánda sinn sem sýningin er haldin. Fjöldi áhorfenda hefur farið stigvaxandi með ári hverju og undanfarin ár hafa á annað þúsund manns komið ár hvert til að njóta sýningarinnar. Uppruna flugeldasýningarinnar má rekja til uppskeruhátíðar starfsfólks við Jökulsárlón, og smám saman vatt hún upp á sig. Undirbúningur fyrir sýninguna hefst fyrr um daginn þegar menn á gúmmíbáti fara um lónið og raða 150 friðarkertum á ísjaka. Um kvöldið er kveikt á kertunum og síðan skotið upp flugeldum á nokkrum stöðum á lóninu. Sýningin varir í u.þ.b. 40 mínútur. Upplýstir ísjakarnir eru baðaðir í litum og birtu frá stórkostlegri flugeldasýningu í magnaðri umgjörð náttúrunnar sem skapar einstaka upplifun fyrir áhorfendur. Ferðaþjónustan Jökulsárlóni og Björgunarfélag Hornafjarðar standa að sýningunni í samstarfi við Ríki Vatnajökuls. Aðgangseyrir er 1000 krónur og frítt inn fyrir 12 ára og yngri. Allur ágóði rennur til Björgunarfélags Hornafjarðar. Sætaferðir verða frá Höfn í Hornafirði, Kirkjubæjarklaustri, Skaftafelli og Freysnesi.
Kirkjudagur á Brunnhóli
Næsta sunnudag þann 16. ágúst höldum við kirkjudag á Brunnhóli. Hann hefst með messu í Brunnhólskirkju kl. 14:00. Eftir messuna er kirkjugestum boðið að þiggja kaffiveitingar í Holti sem konur í kvenfélaginu Einingu reiða fram af sínum alkunna myndarskap. Við þetta tækifæri munu söngvinnir Mýramenn taka lagið. Enginn aðgangseyrir verður innheimtur en gestum er boðið að leggja í fjárhirslu kirkjunnar eftir efnum og ástæðum. Eins og sést þarf kirkjan á umhyggju að halda og þráir viðhald. Til að mynda eru tímabærar endurbætur á kirkjutröppunum en margt annað mætti nefna. Hér er tækifæri til að krækja í andlega næringu í messunni og síðan líkamlega á eftir auk þess að láta nokkuð af hendi rakna til kirkjunnar sem án efa gefur góða líðan í sálartetrið.
Sýning um 100 ára sögu kvenréttindabaráttu á Ísland
Í tilefni að því að í ár eru liðin 100 ár frá því konur á Íslandi fengu kosningarrétt ákvað Kvenréttindafélag Íslands að setja upp sýningu til heiðurs þeim merka viðburði sem skyldi ferðast um landið milli 12 sveitarfélaga. Sveitarfélagið Hornafjörður fékk þann heiður að hafa sýninguna í ágústmánuði, en þar segir frá kvenréttindabaráttunni allt frá lokum 19 .aldar og til dagsins í dag. Við hvetjum alla til þess að mæta og kynna sér þessa merku sögu. Sýningin verður opin út ágústmánuð hér á Höfn í Ráðhúsi Hornafjarðar og er opin alla virka daga frá klukkan 9-15. Opnun sýningarinnar var 10.ágúst síðastliðinn og var vel mætt enda fróðleg sýning með eindæmum.