Eystrahorn 24. tbl. 2015

Page 1

Eystrahorn 24. tbl. 33. árgangur

Fimmtudagur 18. júní 2015

www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is

Mikið um að vera á Heilbrigðisstofnun Suðurlands Mikið og öflugt starf er unnið á heilbrigðisstofnuninni. Í byrjun sumars hefur verið mikið um að vera, nú nýverið voru haldin námskeið fyrir nýtt starfsfólk en á sumrin bætist töluvert í starfmannahópinn til að manna sumarafleysingar. Mikilvægt er að læra réttu handtökin strax í byrjun en mikil áhersla er lögð á rétta líkamsbeitingu, sagt frá hugmyndafræði sem starfað er eftir ásamt því sem tæpt er á helstu atriðum er varða almenna umönnun aldraðra. Í lok apríl var haldin stórslysaæfing þar sem æfð voru viðbrögð við rútuslysi. Að æfingunni komu heilbrigðisstarfsfólk, björgunarfélagið, slysavarnakonur og slökkviliðið en svo undarlega vildi þó til að sama dag og átti að halda æfinguna varð rútuslys í Suðursveit. Æfingin tókst mjög vel og er alltaf gott að ná að samhæfa björgunaraðila í sveitarfélaginu í aðgerðum. Í byrjun júní voru einnig haldin endurlífgunarnámskeið fyrir sjúkraflutningamenn, lækna og hjúkrunarfræðinga en það eru námskeið sem staðið er fyrir helst á hverju ári. Næsta haust verður haldin flugslysaæfing hér á Hornafjarðarflugvelli, nánar tiltekið þann 24. október. Félagslífið hjá íbúum á hjúkrunar- og dvalarheimilinu ásamt þeim einstaklingum sem sækja dagdvöl aldraðra er ansi líflegt. Lagt var upp í vorferð í byrjun júní en farið var á tveimur rútum inn í Hoffell og Geitafell ásamt því að ekið var eftir garðinum út í Skógey. Einnig var farið í kaffi hjá þeim heiðurshjónum Ingibjörgu og Dúdda þar sem

borðin svignuðu undan kræsingum. Í hópnum voru hæfileikaríkir einstaklingar sem spiluðu á píanó og harmonikku þannig að hægt var að slá upp balli. Fólk dansaði við nokkur lög og söng fjöldasöng. Að lokum fóru allir saddir og afar sælir heim á leið. Ákveðið var að standa fyrir Kvennahlaupi á heilbrigðisstofnuninni í fyrsta sinn fimmtudaginn 11. júní. Íbúum Ekrunnar var einnig boðið með ásamt konum sem sækja dagdvöl aldraðra. Það var afar ánægjulegt að sjá hversu vel var mætt en á þriðja tug kvenna mættu í hlaupið og stóðu sig með mikilli prýði. Við lok hlaupsins fengu allar konur verðlaunapening. Mikil ánægja var meðal þátttakenda líkt og sést á myndinni. Að lokum er ánægjulegt að segja frá skemmtilegu samfélagsverkefni sem

dagdvöl aldraðra í Ekrunni hefur staðið að undanfarið misseri. Í dagdvölinni er mikið af hannyrðakonum sem eru flinkar við að prjóna. Björgunarsveitin tók á dögunum við ullarsokkum, húfum og vettlingum sem nýtast vel við björgunaraðgerðir í erfiðum aðstæðum. Einnig hefur dagdvölin í nokkur ár prjónað fyrir Rauða kross búðina þar sem afraksturinn er seldur og ágóðinn rennur til góðverka. Dagdvölin tekur alltaf á móti gestum og er hægt að kaupa af þeim hinar ýmsu hannyrðavörur svo sem ullarfatnað, kort, lampa og fleira. Matthildur Ásmundardóttir, framkvæmdastjóri HSU Hornafirði

100 ára kosningaafmæli íslenskra kvenna 19. júní

Stofnanir loka eftir hádegi

Föstudaginn 19. júní næstkomandi er 100 ára afmæli kosningaréttar íslenskra kvenna. Af því tilefni verða stofnanir sveitarfélagsins lokaðar frá kl. 12:00. Starfsmönnum gefst þannig kostur á að taka þátt í hátíðarhöldum dagsins. Þjónusta við íbúa er varðar öryggi og neyðarþjónustu verður veitt. Sveitarfélagið Hornafjörður hvetur starfsmenn sína og íbúa til að taka þátt í hátíðarhöldum sem hafa verið skipulögð í tilefni dagsins.


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.