Eystrahorn
www.eystrahorn.is
Fimmtudagurinn 11. maí 2017
17. tbl. 35. árgangur
Boltinn farinn að rúlla
Fótboltasumarið er hafið hjá Sindramönnum sem hefur byrjað með látum. Þeir hafa þegar sigrað tvo bikarleiki, Hött 5-4 og Huginn 4-1 í framlengingu. Eins og flestir vita drógust þeir síðan á móti FH í 32 liða úrslitum í bikarkeppni og verður sá leikur í Kaplakrika 18. maí næstkomandi. Síðastliðinn laugardag hófu þeir leik í deildinni og gerðu þá 2-2 jafntefli við nýliða Tindastóls. Tindastóll komst tvívegis yfir í leiknum. Mate Paponja sá um að jafna fyrir Sindra í bæði skiptin eftir að hafa verið færður framar á völlinn úr vörninni og kom síðara markið líklega á 95. mínútu leiksins en dómarinn bætti við 6 mínútum vegna tafa. Tindastólsmenn fengu dæmda vítaspyrnu í fyrri hálfleik og gerði Róbert Marwin Gunnarsson sér lítið fyrir og varði spyrnuna. Hann var síðan valinn maður leiksins af stuðningsmönnum Sindra. Í þeim leikjum sem þegar hafa farið fram hafa mótherjarnir skorað eitt sjálfsmark, Mate Paponja hefur skorað fjögur mörk, Nedo Eres hefur skorað þrjú mörk, og þeir Seval Zahirovic, Tómas Leó
Ásgeirsson og Mirza Hasecic eitt mark hver. Um næstu helgi eiga báðir meistaraflokkarnir útileiki á Suðurnesjunum.
Strákarnir spila á móti Njarðvík á laugardaginn kl. 14:00 og stelpurnar spila sinn fyrsta leik í 1. deild kvenna á móti Keflavík á sunnudaginn kl. 14:00. FH - Sindri á Kaplakrika 18. maí.
Á sjó - Áhugavert erindi í Nýheimum á föstudag Edward Huijbens prófessor við Háskólann á Akureyri fór haustið 2016, ásamt um 600 nemum, í 18.000 sjómílna ferðalag. Ferðin tók fjóra mánuði í 24.000 tonna fljótandi háskóla. Heimsótt voru 12 lönd og siglt um fimm af heimshöfunum sjö. Edward mun segja frá ferð sinni í sal Nýheima á föstudaginn 12. maí kl.17:00. Í erindinu segir hann ferðasögu sína og þættir saman pælingar um ferðamál, persónulegan lærdóm og hvað háskólasamfélagið getur lært af fljótandi háskóla hafanna. Erindið er í léttum dúr, á íslensku og öllum aðgengilegt. Áhugasamir eru hvattir til að mæta.
Háskólaskipið í Panamaskurðinum á ferð þeirra um höfin. Mynd: Edward Huijbens
Vakin er athygli á að samkvæmt nýjum reglum Póstsins um dreifingu fjölpósts sem tók gildi 1. maí ábyrgist Pósturinn ekki örugga dreifingu á fjölpósti á fimmtudögum og áskilur sér rétt til að nota föstudaginn líka til þess og miðvikudaga þegar það á við.