Eystrahorn
www.eystrahorn.is
Fimmtudagurinn 28. apríl 2016
17. tbl. 34. árgangur
Sumar-Humar hádegistónleikar.
Lúðrasveit Hornafjarðar og Lúðrasveit Tónskóla A.-Skaft. Hinir árlegu Sumar-Humartónleikar lúðrasveitanna á Hornafirði verða laugardaginn 30. apríl kl. 12.00 – 13.30 í Sindrabæ. Lúðrasveit Tónskólans mun hefja leik en þar eru nemendur á aldrinum 10 – 13 ára. Svo kemur Lúðrasveit Hornafjarðar sem skipuð er spilurum á aldrinum 13 ára og upp úr. Sú sveit er á leið til Calella á Spáni, á mót þar sem lúðrasveitir, þjóðlagasveitir, danshópar og götulistamenn koma saman og skemmta í 2 vikur. Hljómsveitin hefur æft fyrir þessa ferð í allan vetur og víða spilað opinberlega sér til fjáröflunar, en það er töluverður kostnaður sem fellur til þegar ferðast er með svona hljómsveit. Einn af okkar föstu liðum í fjáröflun eru Sumar-Humartónleikarnir þar sem við bjóðum í ár upp á humarsúpu við uppdekkuð borð ásamt klukkutíma tónlistarveislu. Í fyrra buðum við upp á ís frá Árbæ og en hugmyndin er að vera með
humarsúpu annað hvert ár á móti öðru sniðugu sem Hornafjörður býður upp á. Við hvetjum Hornfirðinga til að koma í Sindrabæ og njóta tónleikanna og súpunnar og styrkja hópinn til fararinnar. Á Spáni mun hljómsveitin spila á þrennum tónleikum. Þar sem hljómsveitin verður úti
11.-18. júní mun hún ekki vera til staðar hér á Höfn 17. júní í ár en í staðinn ætlum við að taka góða skrúðgöngu á Spáni þann dag og spila okkar 17. júní lög, Öxar við ána og HÆ, hó og jibbí jei það er kominn 17. júní! Aðgangseyrir á Sumar-Humar tónleikana er 2.000 krónur. 12 ára og yngri fá frítt inn.
Eldri borgarar funda
Aðalfundur Félags eldri Hornfirðinga var haldinn í Ekrunni sl. sunnudag. Í upphafi fundar var sunginn sumarsöngur, Ó blessuð vertu sumarsól. Björn Kristjánsson formaður félagsins setti fund og stýrði fundi. Hann fór yfir starfið frá síðasta aðalfundi sem var fjölbreytt og viðburðir vel sóttir. Hagur félagsins stendur vel. Á fundinum kom fram að farið verður í sumarferð félagsins um
Snæfellsnes í júní. Gróa Ormsdóttir veitir upplýsingar um ferðina í síma 867-8796. Er þetta spennandi ferð og er um að gera að skrá sig sem allra fyrst. Þegar hafa á milli 30 og 40 skráð sig. Við stjórnarkjör báðust Björn Kristjánsson og Valgerður Leifsdóttir undan áframhaldandi setu í stjórninni. Voru þeim þökkuð vel unnin störf fyrir félagið og fengu blóm því til staðfestu. Í stað þeirra tóku Vigdís
Vigfúsdóttir og Örn Arnarson sæti í stjórn. Nýr formaður var kosinn Haukur Helgi Þorvaldsson og aðrir í stjórninni eru: Heiður Vilhjálmsdóttir, Gróa Ormsdóttir, Kristín Gísladóttir og Sigurður Örn Hannesson. Um 150 félagar eru skráðir í félagið. Nýir félagar eru hvattir til að slást í hópinn.
Næsta Eystrahorn kemur út miðvikudaginn 4. maí. Efni og auglýsingar þurfa að berast fyrir kl. 12:00 mánudaginn 2. maí.