Eystrahorn
www.eystrahorn.is www.eystrahorn.is
Fimmtudagur 31. mars 2016
13. tbl. 34. árgangur
„Við erum oft dýrari en við höldum“
„Nemendur eru mjög áhugasamir og hafa gaman af að leysa verkefnin og spá mikið í hvað hlutirnir kosta“ segir S. Guðbjörg Garðarsdóttir starfsmaður Landsbankans á Hornafirði. Guðbjörg er ein af fjölmörgum starfsmönnum íslenskra fjármálafyirrtækja sem hafa heimsótt grunnskóla víðsvegar um land undanfarið ár og kynnt verkefnið Fjármálavit sem er námsefni um fjármál fyrir nemendur í 8. – 10. bekk og Samtök fjármálafyrirtækja hafa þróað til þess að efla fjármálalæsi ungmenna. Guðbjörg og samstarfskona hennar Guðrún Ó. Óskarsdóttir heimsóttu Grunnskóla Hornafjarðar 15. mars síðastliðinn og hittu nemendur í 10.
bekk með fræðslu um fjármál. Þær spjölluðu við krakkana um mikilvægi fyrirhyggju í fjármálum og unnu með þeim verkefni sem tengjast Fjármálaviti en þau miða að því að fá krakkana til þess að hugsa um markmiðasetningu og hvað sparnaður skiptir miklu máli til þess að láta draumana rætast. Aðspurð eftir heimsóknina segir Guðbjörg að nemendur séu fljótir að átta sig á því að það er mun skynsamlegra að safna fyrir því sem maður vill eignast frekar en að taka lán fyrir því. Auk þess séu þeir einnig sammála gamla góða máltakinu að græddur er geymdur eyrir.
Fjármálavit Kristín Lúðvíksdóttir er verkefnisstjóri Fjármálavits. “Í heimsóknum okkar í vetur reynum við að fá nemendur til að hugsa um hvernig gott er að skipuleggja fjármálin og setja sér markmið, en það er aldeilis ekki of snemmt að byrja á því þegar maður er 16 ára og á
allt lífið framundan. Það eru ekki síst kennarar og foreldrar sem eru þakklátir fyrir að krakkarnir fái fræðslu um peninga. Margir segja að þeim hefði nú sjálfum ekki veitt af slíkri kennslu á unglingsárunum. Foreldrarnir eru mjög jákvæðir. “ Fjármálavit er þróunarverkefni með þann tilgang að kennarar og aðrir áhugasamir geti haft auðveldan aðgang að fjölbreyttu námsefni um fjármál á vefsíðu Fjármálavits. Liður
í þeirri þróun er gott samstarf við kennaranema í Háskóla Íslands um frekari þróun á kennsluefni Heimsóknin í Grunnskóla Hornafjarðar er hluti af röð heimsókna í grunnskóla á öllu landinu og frá því Fjármálavit var fyrst kynnt til sögunnar fyrir ári hafa nálægt 4000 nemendur í 10.bekk fengið Fjármálavit í heimsókn og leyst verkefni, en unnið er með hverjum bekk fyrir sig.
Starfastefnumót í Hornafirði Í haust verður haldið Starfastefnumót í Hornafirði. Fyrirmynd stefnumótsins er Starfamessa sem haldin var á Suðurlandi síðastliðið vor. Þangað sótti fjöldi ungmenna, meðal annars frá Hornafirði. Messan þótti takast vel og í framhaldinu var ákveðið að standa fyrir samskonar viðburði hér í Hornafirði. Ætlunin er að standa fyrir persónulegri og lifandi kynningu fyrir íbúa á starfsgreinum og starfsemi fyrirtækja í sveitarfélaginu. Lögð verður áhersla á að gefa ungmennum tækifæri til að fræðast um
starfaheiminn í samfélaginu, þróun hans og hvaða menntunarkröfur fyrirtækin kalla eftir til framtíðar. Jafnframt skapa vettvang fyrir samtal eða stefnumót fyrirtækja sem gæti hugsanlega leitt til samstarfs. Stefnumótið er fyrir alla íbúa sveitarfélagsins, styrkt af Sveitarfélaginu Hornafirði og Vinnumarkaðsráði Austurlands og unnið í samstarfi við Þekkingarsetrið Nýheima. Þá er leitað eftir samstarfi fyrirtækja á svæðinu um þátttöku í stefnumótinu.
Hugrún Harpa Reynisdóttir verkefnastjóri hjá Nýheimum hefur tekið að sér verkefnið og er áhugasömum bent á að fyrirspurnum er svarað á netfanginu hugrunharpa@ nyheimar.is. Einnig er bent á facebook – síðu Starfastefnumótsins: Starfastefnumót á Höfn í Hornafirði. Vonir standa til að viðburðurinn verði upplýsandi og árangursríkur fyrir alla sem að honum koma. Fyrst og fremst er vonast eftir góðri þátttöku og skemmtilegri uppákomu í samfélaginu.
Hugrún Harpa Reynisdóttir
Samfélagsvefurinn www.hornafjordur.is