Fyrsti hluti
HIMINNINN BOÐAR YFIRVOFANDI HÖRMUNGAR.
Gráblika er á lofti og í austri má sjá glitta í rauðan flekk –dögun er í nánd. Þessi rauði flekkur á himninum stækkar sífellt, gleypir í sig skýjahuluna og færist í vesturátt. Ég ligg í hnipri inni í snæviþöktu
kjarri og fylgist með deginum vakna til lífsins og finn um leið hvernig óttinn sker mig djúpt í hjartað. Himinninn er orðinn rauður, eins og blóði hafi verið hellt yfir hann.
Eins og tákn þess að einhver hafi náð fram grimmilegum hefndum.
Ég hef átt von á þessari sýn í nokkra daga. Þetta er nákvæmlega eins og goðsagan segir: fyrst fara könglar að vaxa á gamla grátviðnum á torginu í bænum. Í þrjá áratugi hafa könglar ekki vaxið á trénu og þessi skyndilegi fyrirboði fékk gífurlega á bæjarbúa. Konurnar fylltust ótta og karlmennirnir virtust yfirbugaðir. Fyrst könglarnir, nú blóðug dögun. Þegar hér er komið sögu var ekki margt sem ég get gert. Því ef himinninn hefur rétt fyrir sér líður ekki á löngu þar til óboðinn gestur kemur til Jaðarskógar.
Landið er kyrrt í marandi þögninni, hulið hvítum hjúpi, snjórinn mjúkur og ferskur eftir enn einn bylinn sem hér eru jafn tíðir og kvartilaskipti tunglsins. Ég ætla ekki að hugsa út í það hvað geti beðið mín. Mitt verkefni er hér í þessum óbyggða skógi, fullum af svörtum trjám og rotnandi trjábolum. Hanskaklædd hönd mín er örugg á boganum.
ALEXANDRIA WARWICK
Ég lít rannsakandi augum á umhverfið, með sveran trjábol fyrir framan mig til að skýla mér. Fyrir þremur dögum rakst ég á slóð eftir villibráð, hún var nýleg. Ég fylgdi slóðinni hingað, tæpa tuttugu kílómetra í norðvestur frá heimili mínu en enn hef ég ekki komið auga á hjartardýrið.
„Hvar ertu?“ hvísla ég.
Vægðarlaus vindurinn hristir naktar trjágreinarnar, fíngerðar eins og fingurbein. Þrátt fyrir að ég vefji stagbættum jakkanum þéttar að mér nær ágjarn kuldinn að smeygja sér í gegnum tætt efnið. Í örvæntingu hef ég haldið lengra inn í skóginn, í hjarta hans og burt frá þessum veika vísi að siðmenningu – í norðurátt þar sem fljótið Leþe rennur, þar sem enginn þorir að dvelja.
Skyndilega verð ég vör við hreyfingu. Dýrið birtist, er eitt á ferð, hefur orðið viðskila frá hjörðinni. Vinstri fótleggur þess er snúinn og það á erfitt með gang. Mér verður illt við að sjá þetta. Það ber enga sök á þjáningu sinni. Ábyrgðin liggur hjá hinum myrka guði sem tók sér
bólfestu hinum megin við Skuggann.
Ég þori varla að draga andann um leið og ég næ í ör úr örvamælinum. Með einni hreyfingu dreg ég bogann á loft, hönd mín snertir húðina undir kjálkanum. Strengurinn sem ég nota sem aukalegan viðmiðunarpunkt nemur við nefbroddinn. Hjörturinn rótar í snjónum í leit að einhverju ætilegu, grænu, einhverju sem gefur loforð sem aldrei getur ræst.
En ég er ekki ein.
Ég dreg djúpt andann og örður úr loftinu lenda ofan í lungun á mér: snjókorn, lykt af rotnandi trjám og bruna leggst yfir allt. Þetta er viðvörun úr norðrinu.
Öll skynfæri taka við sér. Eyrun hlusta eftir sérhverju óvenjulegu
hljóði. Þandar taugarnar mynda hnúta í útlimum, engu að síður neyði ég mig til þess að vera yfirveguð – að vinna úr þeirri þekkingu sem ég bý yfir. Lyktin er ekki sterk. Nægileg fjarlægð er milli mín og skuggafarans þannig að ég hef örlítinn tíma en ég verð að hafa hraðan á.
Þegar ég lít aftur á hjörtinn tek ég eftir að hann er kominn það langt í burtu að líkurnar á að örin hæfi hann í hjartastað hafa minnkað mikið.
Ég get ekki tekið áhættuna á að koma nær. Ef dýrið leggur á flótta á ég
aldrei eftir að ná því og þar sem allt nestið er búið get ég ekki haldið þessari ferð áfram. Heima er brauðið skorpnað og þurrkaða kjötið orðið að dufti.
Þú verður að hitta í mark.
Ég breyti aðeins miðinu, halla örinni örlítið hærra. Anda út og –sleppi.
Örin þeytist með hávaða í gegnum ískalt loftið og grefur sig djúpt inn í lifandi holdið, þar sem hjartað slær.
Við systurnar deyjum ekki úr hungri í dag.
Síðasta hjörð hjartardýra hvarf fyrir nokkrum áratugum, en einhvern veginn hefur þetta dýr náð að villast inn í heim okkar. Vesalings dýrið er lítið annað en skinn og snúin beinin og ég velti fyrir mér hvenær það át síðast. Fátt þrífst hér á Grásléttunni.
Ég dríf mig í að gera að skrokknum með hnífnum sem ég ber alltaf á mér. Ég sker grófa og stóra bita af kjötinu og gufan stígur upp af því í kuldanum. Kjötbitunum sting ég ofan í pokann og raða þeim eins þétt og mögulegt er. Blóðið gegnbleytir dýrshúðina. Af og til lít ég aftur fyrir mig til öryggis. Rauða slikjan á himninum er nú orðin ísblá.
Járnlyktin finnst enn undir óþefnum af koparnum. Ég teygi mig inn í kviðarhol dýrsins í gegnum opinn magann, sker einn bita til og set ofan í pokann. Heitt blóðið þekur mig frá fingurgómum upp að olnboga.
Þegar ég er að skera lifrina heyri ég gól í fjarska. Þetta gól fær hárin til að rísa. Ég sker hraðar. Þegar ég er búin að tæma kviðarholið fer ég að einbeita mér að síðubitunum. Ég er með lítinn saltpoka hangandi
í beltinu en það litla magn af salti getur bara verndað mig frá einum skuggafara, kannski tveimur ef þeir eru smáir. Þegar gólið stökkbreytist
í öskur stífna ég öll upp og púlsinn æðir af stað eins og á tindi svartrar öldu.
Ég hef ekki meiri tíma.
Með einni hreyfingu dreg ég þungan jakkann af svitastorknum líkamanum og tek svo af mér blóðuga hanskana. Ég bít saman tönnunum þegar hræðilegur skjálfti fer um mig alla. Það er alltof kalt. Sannkallaður drápskuldi. Ég tek upp þurra ullarpeysu sem ég hafði vafið utan vínflösku í pokanum og fer í hana á dæmalaust klaufalegan hátt.
ALEXANDRIA WARWICK
Hjálpi mér allar vættir, ég er ekki búin að ferðast um þessa auðn í tvær heilar vikur bara til þess að deyja hér. Ef ég kem ekki til baka með þetta kjöt á Elóra eftir að hljóta sömu örlög.
Þegar ég er búin að klæða mig úr blóðstorknum fötunum set ég þau undir blóði drifið hræið, síðan klifra ég upp í hæsta tréð. Frosinn börkurinn ristir upp húðina í lófunum. Upp, ofar og í hæstu grein, sem veinar undan þunga mínum. Það smellur í hnúunum þegar ég legg hendurnar upp að gaulandi maganum til að hlýja mér.
Skuggafarinn skjögrar inn í hvamminn stuttu síðar, en ég sé hann ekki nægilega vel til þess að átta mig á útliti hans. Slitrur af skugga, slæða af svörtum flekk sem litar hvítan snjóinn. Hann skoðar fellt dýrið um stund áður en hann byrjar að rannsaka umhverfið. Hann er söðulbaka og rytjulegt skottið slæst til. Ég bít aftur saman tönnum til að glamrið í þeim heyrist ekki.
Skugganum – sem er nokkurs konar varnarmúr sem skilur Grásléttu frá Dauðalöndum – er ætlað að halda skuggaförum frá okkur. Engu að síður segja bæjarbúar að holur séu í varnarmúrnum sem opni leið fyrir þessi óargadýr inn í heim hinna lifandi til að fá nauðsynlega næringu frá sálum þeirra.
Þessar skepnur eru ekki lifandi, ekki þannig séð, en skuggafari getur skynjað sál dýrs sem er nýskilið við. Ég vona bara að það sé nóg til þess að hann verði ekki var við mig. Ég hafði vonast til að dýrshúðin myndi duga í kápu fyrir Elóru, þessi viðgerða tuska sem ég var í yrði að duga áfram. Því miður hafði enginn tími gefist til að klára að flá dýrið.
Loks heldur óargadýrið aftur af stað. Ég bíð í tíu mínútur, held niðri í mér andanum þangað til brunalyktin hverfur. Fyrst þá þori ég að klifra niður úr trénu.
Gufan stendur upp af hræi dýrsins. Helmingurinn af kjötinu er enn utan á því – það er að minnsta kosti matur í tvo mánuði. Eins slæmt og mér finnst að þurfa að skilja svona mikið eftir af því get ég ekki tekið áhættuna á því að dvelja þarna lengur, ekki með skuggafara í nágrenninu. Matarbirgðir til eins mánaðar verða að duga og ef við Elóra förum gætilega með er hægt að láta þær duga eitthvað lengur. Ef til vill getur hungrað dýr gert sér hræið að góðu.
Eftir að hafa klætt mig í jakkann og hanskana set ég pokann á bakið og þá hefst tæpra 20 kílómetra ganga til baka til Jaðarskógar. Ég styn undan þungum farangrinum. Eftir um það bil fjórðung leiðarinnar er ég orðin algjörlega dofin í andliti, fótum og höndum. Vindurinn hættir ekki að blása sama hvað ég bið marga guði um miskunn, en þeir vita líklegast að ég trúi ekki á þá.
Ég geng allan daginn. Húmið færist yfir og skógurinn verður
dökkfjólublár að lit og fær á sig blæ listvefnaðar. Þegar um það bil þrír kílómetrar eru í áfangastað heyri ég það. Lágt og gjallandi hljóð úr hrútshornum berst yfir dalinn og púlsinn fer að slá hættulega hratt. Himinninn hafði boðað yfirvofandi hörmungar.
Og nú er Norðanvindurinn mættur.