þegar verið alveg eyðilagðar við byggingu íbúðarhúsa og annarra þéttbýlismannvirkja en rétt er að ítreka að varlega skal fara í allt umrót á nesinu, sérstaklega innan heimatúna eldri bæja.
Tún og túngarðar Eins og gefur að skilja, þegar haft er í huga að á Seltjarnarnesi er nú risið þéttbýli, er lítið sem ekkert af ósnortnum túnum á nesinu. Þó má minna á að í túninu innan túngarðs í Nesi hefur ótrúlega lítið verið raskað. Búið var að slétta allt túnið í Nesi árið 1916 þegar túnakort var gert og hefur það verið gert með hand- eða hestaverkfærum. Af þessu gamla túni er nú aðeins um þriðjungur óspilltur og er brýnt að ekki verði hróflað við því frekar. Þetta er svæðið vestan við Nesstofu og í því má enn sjá móta fyrir talsverðum rústum þótt yfir þær hafi verið sléttað. Ljóst er að öðrum túnum á skráningarsvæðinu hafi verið raskað, ýmist vegna sléttunar með stórtækum vinnuvélum eða vegna bygginga. Ekki er ólíklegt að túngarður hafi á einhverjum tíma verið umhverfis heimatún flestra bæja og býla á Seltjarnarnesi, í það minnsta þeirra sem áttu einhverja túnskika umhverfis bæina. Leifar túngarða hafa varðveist á nokkrum stöðum á vestanverðu Seltjarnarnesi þar sem byggðinni sleppir en engar leifar túngarða hafa varðveist austan Þvergarðs. Myndarlegasti túngarðurinn á svæðinu er túngarðurinn í Nesi (224:006). Hann hefur án efa áður legið umhverfis allt heimatúnið en hefur nú horfið í íbúðahúsabyggð að austan og verið sléttaður að norðan. Hann er greinilegastur sunnan túna en hann má þó einnig greina sem hrygg meðfram öllu túninu vestanverðu. Garðurinn er samtals um 480 m langur. Í hann var grafinn skurður árið 1996 til að reyna að aldursgreina hann. Merki um hleðslu reyndust hins vegar ógreinileg og engin gjóskulög voru yfir eða undir garðinum gáfu hugmynd um aldur hans. Þó var talið að hann væri mjög forn sökum þess hve mikil jarðvegsþykknun hafði orðið frá því hann var byggður. Í Riti hins konunglega íslenska lærdómsfélags kemur fram að árið 1781 veitti danska landbústjórnarfélagið Birni Jónssyni apótekara í Nesi „Felagsins minna verdlaunapening (Medaille) af silfri fyri 60 fadma af prydiligum og stekum griotgardi, og 200 fadma torfgards“30 Líklegt er að þetta hafi verið túngarðurinn sem enn sést í Nesi hvort sem Björn vann að endurbótum eða stækkun garðsins. Frá túngarðinum um heimatúnin á Nesi lágu tveir minni túngarðar, annars vegar garður umhverfis túnið á Litlabæ (sjá 224:118) og hins vegar garður umhverfis Knútsborgir (sjá 224:106). Hvorugar þessara garðleifa eru stæðilegar en þær má þó greina að mestum hluta umhverfis tún býlanna. Tún Ráðagerðis hafa einnig verið mörkuð túngarði (224:034).
30
sbr. Rit þess konunglega íslenzka lærdómslistafélags. II, 278
140