Girðingar og handrið Girðingar eru einn þeirra mörgu þátta sem huga þarf að þegar útbúa á góðan garð og í nútíma garði gegna þær stóru hlutverki og geta skipt sköpum um það hvernig garðurinn nýtist.
Af mörgum hlutverkum girðinga eru eftirfar andi algengust:
Að mynda skjól.
Að skilgreina lóðarmörk eða loka garðinum. Að búa til örugg svæði fyrir börn. Að halda gæludýrum inni eða skepnum úti. Að hlífa gróðri fyrir veðrum eða ágangi dýra og manna. Að mynda aflokað svæði (eða „herbergi“) utan dyra. Að minnka áhrif hljóðmengunar. Að varna falli þar sem hæðarmunur er mikill.
Girðingar og garðveggir eru úr ýmsum efnum og má þar helst nefna timbur, grjót, torf, hleðslusteina og steypu. Hér á landi eru tré girðingar einna algengastar enda búa þær yfir mörgum góðum eiginleikum. Þær eru auðveldar í uppsetningu og þægilegt er að flytja efni í þær á milli staða. Slíkt getur skipt miklu máli fyrir þá sem eiga sumarhús eða búa fjarri þéttbýli. Mikið úrval af góðum festingum og sveigjanleiki timbursins gerir kleift að reisa girðingar með fjölbreyttu útliti. Falleg sögun og fræsing setja svip á þennan handriðsstaur.
20
Handbók garðeigandans
Hvernig girðingar má reisa á einkalóð? Garðeigendum eru sett takmörk fyrir því hvaða framkvæmdir eru leyfilegar á lóðum þeirra. Þess vegna er vissara að kynna sér reglur og tak markanir áður en hafist er handa við að hanna garðinn og framkvæma. Í byggingarreglugerð er mjög skýrt kveðið á um hverjar takmarkanirnar eru. Girðingar mega aldrei fara yfir 1,8 m hæð og þær sem eru nálægt lóðarmörkum þurfa að vera jafn langt fyrir innan þau eins og þær eru háar. Þannig þarf girðing sem er 1,2 m á hæð að vera staðsett 1,2 m fyrir innan lóðarmörk. Girðing á lóðarmörkum þarf samþykki allra lóðareigenda. Einnig geta verið takmarkandi skilmálar í deiliskipulagi hverfisins og þá er hægt að nálgast hjá viðkomandi sveitarfélagi. Ef garðeigandinn vill reisa girðingu sem er fyrir utan ákvæði byggingarreglugerðar þarf hann að sækja um leyfi byggingarnefndar í sínu sveitarfélagi. Embættismenn sveitarfélagsins láta í té upplýsingar um hvaða gögn þeir vilja fá en byggingarnefndin veitir síðan leyfi fyrir framkvæmdinni. Algengast er að farið sé fram á breytingu á aðalteikningu hússins og sér þá aðili með leyfi sem aðalhönnuður (t.d. arkitekt hússins) um þær breytingar.