Reikningar Nótubækur Eyðublöð Fjölritunar- og útgáfuþjónustan s: 437 2360
ÍBÚINN
frétta- og auglýsingablað
5. tbl. 10. árgangur
5. febrúar 2015
Vel þeginn sigur gegn Haukum í æsispennandi tvíframlengdum leik Það var gríðarlega mikilvægur leikur Skallagríms og Hauka sem fór fram í Fjósinu fimmtudaginn 29. janúar s.l. Skallarnir að berjast fyrir lífi sínu í Dominosdeildinni og Haukar að reyna að snúa við döpru gengi eftir góða byrjun í haust. Leikurinn var jafn framan af og staðan eftir fyrsta leikhluta jöfn 25- 25. Spennan hélt áfram í öðrum leikhluta og var staðan í hálfleik 48- 45 fyrir Skallagrím. Þá kom að þriðja leikhluta sem fyrir áramót reyndist liðinu oft ansi dýr. En strákarnir hafa augljósleg unnið vel í þeim þætti og áttu afbragðs leikhluta sem gaf sjö stiga forskot. Í fjórða leikhluta komu Haukarnir öflugir til leiks og þá sérstaklega þegar líða tók á leikhlutann. Okkar menn náðu mest 10 stiga forskoti þegar um fjórar mínútur voru eftir. En Haukarnir gáfust ekki upp og minnkuðu forskotið jafnt og þétt sem endaði með því að á lokasekúndunum settu þeir niður þriggja stiga körfu sem jafnaði leikinn og framlenging var staðreynd. Þegar hér var komið við sögu voru margir lykilleikmenn Skallagríms í miklum villuvandærðum og útlitið ekki gott. Haukarnir komu sterkir
inn í framlenginguna og náðu undirtökunum. En með öguðum og góðum leik komst Skallagrímsliðið aftur inní leikinn og tók forustuna þegar skammt var eftir. En enn á ný tókst Haukunum að jafna með þriggja stiga körfu og önnur framlenging staðreynd. Aftur fór framlengingin eins af stað. Skallagrímsmenn í miklum villuvandræðum og Haukarnir leiddu leikinn. En enn á ný tókst Skallagrímsliðinu að komast inní leikinn og ná afar
dýrmætum sigri 106- 101. Það var ekki síst fyrir stórleik Sigtryggs Arnars Björnssonar sem þessi sigur vanst, hann skilaði 36 stigum, 7 stoðsendingum og 6 fráköstum. Þá var Tracy Smith drjúgur að vanda og skilaði 23 stigum og 20 fráköstum. Einnig má nefna þátt Magnúsar Þórs Gunnarssonar sem lék flottan leik og setti niður nokkra „rándýra“ þrista og sigldi svo sigrinum heim í Fjósið á vítalínunni í lokin. HMS
Bikardraumurinn úti Það var þétt setið á pöllunum í Fjósinu í Borgarnesi þegar Stjörnumenn komu í heimsókn í stærsta leik Skallagrímsmanna í áraraðir. Sigurlaun leiksins voru þátttaka í úrslitaleik í bikarnum. Stemningin í húsinu var frábær og allt ætlaði um koll að keyra þegar heimamenn voru kynntir til leiks í dúndrandi ljósasýningu. Liðið var augljóslega vel stemmt og ætlaði sér sigur. Stjörnumenn hófu leikinn betur og hittu eins og enginn væri morgundagurinn. Stjarnan komst í 7-15 en okkar menn börðust eins og ljón og voru
aldrei langt undan. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 20-25. Eftir það einkenndist leikurinn af áhlaupum beggja liða. Skallagrímsmenn voru þó alltaf að elta, minnkuðu muninn niður með góðum köflum, en Stjörnumenn stigu ávallt upp og juku forskotið á ný. Það má þó segja að Skallagrímsmenn gáfust aldrei upp og ævintýralegar þriggja stiga körfur frá Páli Axeli og Sigtryggi Arnari undir lokin undirstrikuðu vilja strákanna til að komast í úrslitin. Lokatölur urðu 97- 102. Svekkjandi tap og það mátti vel greina það á svip strákanna að leik loknum. HMS