Reikningar Nótubækur Eyðublöð Fjölritunar- og útgáfuþjónustan s: 437 2360
ÍBÚINN
frétta- og auglýsingablað
35. tbl. 9. árgangur
6. nóvember 2014
Svona var fjallasýn af Borgarfjarðarbrú í gosmóðunni á þriðjudag. Næst, hægra megin, er Brekkufjall, fjær glittir í Hestfjall og með góðum vilja má sjá móta fyrir Varmalækjarmúla. Fjær er fjallahringurinn horfinn í gosmóðu. Engar mælingar úr handvirkum mælum á Vesturlandi voru birtar á vefsíðu Umhverfisstofnunar á þriðjudaginn. Mynd: Olgeir Helgi
Engar sjálfvirkar mælingar frá Grundartanga að Akureyri Töluverð gosmóða var í lofti í Borgarfirði á þriðjudag og samkvæmt dreifingarspá Veðurstofunnar má gera ráð fyrir að nokkra mengun frá eldgosinu í Holuhrauni leggi yfir Vesturland í dag, fimmtudag. Engin nettengdur loftgæðamælir er á svæði frá Grundartanga að Akureyri. Á Vesturlandi eru handmælar í Borgarnesi, Húsafelli og Stykkishólmi. Á vef Umhverfisstofnunar eru skráðir 28 handmælar og stóð „skráningu vantar“ við tíu þeirra á þriðjudaginn og í þeim hópi voru allir handmælar á Vesturlandi. Sveitarfélagið Borgarbyggð hefur óskað eftir
því við Umhverfisstofnun að mælingar verði auknar og upplýsingagjöf bætt. „Við höfum ekki mannskap til að reka svona stórt kerfi en við höfum sett það í hendurnar á yfirvöldum á hverjum stað að vakta mælana og koma upplýsingum um gildin á netið,“ segir Guðfinnur Sigurvinsson upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar í samtali við Íbúann og bendir á að einungis þrír starfsmenn hjá Umhverfisstofnun sinni þessu. Til stendur að fjölga bæði sjálfvirkum mælum og handmælum. „Það væri mjög gott ef menn mundu skrá þetta inn
samviskusamlega, þá getur fólk fylgst með gildunum á hverjum stað,“ segir Guðfinnur.
Myndin er af vef Veðurstofunnar og sýnir spá, síðdegis í dag fimmtudag, um dreifingu brennisteinstvíildis, SO2, sem kemur frá gosstöðinni. Spáin er gerð að morgni miðvikudagsins síðasta. Hún sýnir ekki afdrif SO2 frá fyrri dögum og því kann styrkur þess að vera meiri en myndin gefur til kynna.