Reikningar Nótubækur Eyðublöð Fjölritunar- og útgáfuþjónustan s: 437 2360
ÍBÚINN
frétta- og auglýsingablað
2. tbl. 11. árgangur
14. janúar 2016
Safna heyrúlluplasti nú í janúar Til að bregðast við brýnni þörf hefur Umhverfis- og skipulagssvið Borgarbyggðar ákveðið að fyrsta rúlluplastssöfnun ársins verði farin vikuna 25.-29. janúar nk. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um endanlega útfærslu á söfnun á heyrúlluplasti á árinu. Einhverjir hafa þegar óskað eftir að láta sækja hjá sér plast hið fyrsta en allir þeir sem vilja láta sækja hjá sér plast í þessari ferð eru hvattir til að senda póst á netfangið einarp@igf.is eða hafa samband við ráðhús Borgarbyggðar í síma 433-7100.
Breytt deiliskipulag á Grundartanga Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur auglýst tillögu að breytingu á deiliskipulagi hafnar-, iðnaðarog athafnasvæðis á Grundartanga, austursvæði. Breytingin felur í sér að suðvestur hlið afmörkunar skipulagssvæðisins er hliðrað um 20 m. til suðurvesturs. Skilgreindar eru flæðigryfjur fyrir kerbrot og annan úrgang á athafnarsvæði hafnar og skilgreindur er skjólgarður með viðlegu ásamt þjónustuvegi suðaustan hafnsækinnar iðnaðarstarfsemi.
Sigursteinn Sigurðsson arkitekt sem er lengst til hægri á myndinni annaðist kynningu á breyttu deiliskipulagi fyrir Borgarbraut 55, 57 og 59 í Borgarnesi. Mynd: OHR
Minnkað byggingarmagn Borgarbyggð boðaði til kynningarfundar í Hjálmakletti í vikunni til að kynna tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðanna við Borgarbraut 55, 57 og 59 í Borgarnesi. Sigursteinn Sigurðsson arkitekt annaðist kynninguna. Dregið hefur verið úr byggingarmagni frá fyrri tillögu og byggingarnar lækkaðar og færðar fjær Borgarbraut. Tillagan gerir ráð fyrir verslun og þjónustu á neðstu hæð húsanna. Á lóð nr. 59 verði annað hvort íbúðir eða þjónustustarfsemi á efri hæðum en íbúðir fyrir 60 ára og eldri á lóð nr. 57. Þá nefndi Sigursteinn þá hugmynd að á lóð nr. 55 yrðu byggðir nemendagarðar.
Einn fundarmanna lýsti mikilli andstöðu við hugmyndirnar en nokkrir lögðu fram fyrirspurnir og gerðu athugasemdir, m.a. Bjarni Þorsteinsson slökkviliðsstjóri sem benti á að ekki væri til tækjabúnaður hjá slökkviliðinu til að bjarga fólki úr brennandi húsi af sjöttu hæð ef til þess kæmi.
Núverandi tillaga eins og hún lítur út, séð úr austri. Til samanburðar eru útlínur Hyrnutorgs vinstra megin á uppdrættinum. Uppdrættinum er fyrst og fremst ætlað að sýna byggingarmagn en ekki endanlegt útlit húsanna.