Reikningar Nótubækur Eyðublöð Fjölritunar- og útgáfuþjónustan s: 437 2360
ÍBÚINN
frétta- og auglýsingablað
18. tbl. 10. árgangur
21. maí 2015
Einhversstaðar annarsstaðar Haldinn var fjölsóttur íbúafundur í Hjálmakletti í Borgarnesi á þriðjudagskvöldið sem Borgarbyggð boðaði til. Til umræðu var fyrirhuguð breyting á aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 vegna skotæfingasvæðis í landi Hamars og endurnýjunar lagna og gangstétta í Kveldúlfsgötu. Þórður Sigurðsson formaður Skotfélags Vesturlands kynnti hugmyndir Skotfélagsmanna um skotæfingasvæði og lýsti hvernig frágangi yrði háttað til að draga sem mest úr hljóðmengun. Sagði hann frá því að umrædd staðsetning útisvæðis væri sú fjórða sem bæjaryfirvöld væru að skoða í samstarfi við Skotfélagið en nokkur ár eru síðan byrjað var að huga að slíku svæði. Jafnframt sagði hann frá inniaðstöðu félagsins sem félagsmenn hafa byggt upp af metnaði undanfarin ár í sláturhúsinu í Brákarey og fullyrti að hún væri með því besta sem gerðist á landinu. Þá var lýst hljóðmælingum sem gerðar voru á þremur stöðum í nágrenni fyrirhugaðs skotsvæðis með því að skotið var bæði úr stórum riffli og haglabyssu og reyndist hávaði innan marka eins og sagt var. Nokkur andstaða kom fram við þessa staðsetningu
Tveir Skotfélagsmenn við æfingar í aðstöðu félagsins í Sláturhúsinu í Brákarey, þeir Andrés Ólafsson og Þórður Sigurðsson formaður félagsins. Mynd: Olgeir Helgi
á fundinum og komu athugasemdir af tvennu tagi nokkrum sinnum fram: Annars vegar heilshugar stuðningur við fyrirætlanir Skotfélagsmanna um að koma sér upp skotsvæði - bara einhversstaðar annarsstaðar. Og hins vegar ákúrur til bæjaryfirvalda að hafa ekki haldið fund um málefnið. Ábúendur í Lækjarkoti lýstu áhyggjum af neikvæðum áhrifum hávaða frá skotsvæðinu á ferðaþjónustu í Lækjarkoti. Fram kom að landeigendurnir höfðu ekki leyft hljóðmælingar á landi sínu þegar mælt var. Hestamenn gerðu nokkrar athugasemdir, m.a. lýstu hesteigendur sem eru með beitarhólf á landi sveitarfélagsins í nágrenni fyrirhugaðs skotsvæðis áhyggjum sínum. Einnig komu fram áhyggjur
af áhrifum á fólkvanginn í Einkunnum, áhrif á skógrækt, áhrif á skátastarf o.fl. Það er nokkuð ljóst að útisvæði Skotfélagsins er ekki í höfn og útlit fyrir að hvar sem því verði valinn staður verði andstaða við staðsetninguna.
Sumarfjör Í sumar verður boðið upp á Sumarfjör fyrir börn í 1.-7. bekk grunnskóla. Starfsstöðvar verða í Borgarnesi, á Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og Varmalandi. Boðið verður upp á leiki, gönguferðir, listasmiðjur og kynntar verða ýmsar íþróttagreinar. Skráning er á veffanginu: www.umsb.is og nánari upplýsingar fást í netfanginu: siggi@umsb.is.