Reikningar Nótubækur Eyðublöð Fjölritunar- og útgáfuþjónustan s: 437 2360
ÍBÚINN
frétta- og auglýsingablað
19. tbl. 9. árgangur
22. maí 2014
Hálfrar aldar hús rifið Hús sem hýst hefur ýmsa atvinnustarfsemi og sett mikinn svip á bæjarmyndina í Borgarnesi í hartnær hálfa öld hefur nú verið rifið. Upphaflega byggði Loftur Einarsson athafnamaður húsið og stefndi að rekstri naglaverksmiðju undir heitinu Galvanótækni. Fjölmörg fyrirtæki hafa verið í húsinu síðan. Bræðurnir Steinar og Jóhann Ingimundarsynir voru þar með vöruafgreiðslu fyrir flutningafyrirtæki sitt. Aðrir bræður, þeir Jón og Stefán Haraldssynir ráku matvöruverslun í húsinu um átján ára skeið og Bónus var þar til húsa fyrstu árin í Borgarnesi. Geirabakarí var um árabil í húsinu ásamt JGR heildverslun og er þá fátt talið.
Síðasta föstudag heimsótti Bjarni Vilmundarson á Mófellsstöðum Hvanneyrardeild Grunnskóla Borgarfjarðar. Hann sagði nemendum frá föðurbróður sínum Þórði á Mófellsstöðum sem var smiður þrátt fyrir að vera blindur, en krakkarnir voru nýbúnir að fræðast um hann í Safnahúsinu. Bjarni náði vel til krakkanna, þeir hlustuðu af athygli og þótti heimsóknin virkilega skemmtileg. Að lokum sungu krakkarnir fyrir Bjarna. Heimsókn sem þessi er hluti af markmiðum skólans fyrir Grænfánann um átthaga. Á myndinni má sjá nokkra nemendur skoða staf sem Þórður smíðaði handa móður sinni. Mynd: Helga Jensína Svavarsdóttir