Reikningar Nótubækur Eyðublöð Fjölritunar- og útgáfuþjónustan s: 437 2360
ÍBÚINN
frétta- og auglýsingablað
30. tbl. 8. árgangur
10. október 2013
Kórar héraðsins eru að hefja vetrarstarfið um þessar mundir. Á myndinni er Jónína Erna Arnardóttir að stjórna fyrstu æfingu Samkórs Mýramanna í haust. Mikið stendur til hjá söngfólki héraðsins því í lok nóvember stendur til að halda tónleika þar sem þátt taka kórar í héraðinu ásamt einsöngvurum og hljóðfæraleikurum. Tilefnið er stórafmæli tónskáldanna Verdis og Wagners og eru tónleikarnir að frumkvæði Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Samkór Mýramanna æfir í Lyngbrekku á þriðjudagskvöldum kl. 20:30, Kvennakórinn Freyjurnar æfir í Félagsbæ í Borgarnesi á miðvikudagskvöldum kl. 18:00 og Karlakórinn Söngbræður æfir á Bifröst á fimmtudagskvöldum. Kórarnir taka vel á móti nýju söngfólki. Mynd: Olgeir Helgi
Fermingarfræðsla utan skólatíma Fræðslu og skólanefnd Hvalfjarðarsveitar ályktaði á síðasta fundi sínum að trúar- og lífsskoðunarfélög skuli leitast við að skipuleggja fermingarfræðslu og -ferðir með þeim hætti að þær fari fram utan skólatíma leikog grunnskóla Hvalfjarðarsveitar og leiði ekki til mismununar nemenda utan tiltekinna trúar- og lífsskoðunarfélaga.
Þetta á við allar heimsóknir í trúarlegum tilgangi, skemmtidagskrár eða aðrar kynningar tengdar starfi þeirra, sem og dreifingu á boðandi efni. Vísað er til þeirrar almennu reglu skólans að ef viðburðir eða ferðir geti ekki átt sér stað utan skólatíma þá skuli foreldrar sækja um leyfi fyrir börn sín til skólans.
Slökkviliðið 90 ára Slökkvilið Borgarbyggðar á stórafmæli um þessar mundir. Mánudaginn 14. október n.k. eru liðin 90 ár frá því að haldin var 78. fundur hreppsnefndar Borgarneshrepps á skrifstofu Sparisjóðs Mýrasýslu. Fyrir fundinum lágu þrjú mál og var eitt þeirra að koma á fót slökkviliði hreppsins. Var Bjarni Guðmundsson járnsmiður kosinn slökkviliðsstjóri og Magnús Jónasson bifreiðarstjóri hans
varamaður. Undir fundargerð rituðu: Stefán Björnsson oddviti, Jón Björnsson, Sveinn Níelsson, Þorkell Guðmundsson og Magnús Jónsson. Af þessu tilefni mun slökkvilið Borgarbyggðar verða með opið hús næsta laugardag, 12. október n.k. í Slökkvistöðinni í Borgarnesi kl 14:00–18:00 en í Slökkvistöðvunum á Hvanneyri og í Reykholti kl. 14:00–17:00.