Úrgangsmál í Bláskógabyggð – Stefnumótun – Stöðumatsgreining og framtíðarsýn

Page 3

Samantekt

Yfirborð sjávar hefur hækkað um 17 cm á síðustu öld, hitastig jarðar hefur hækkað síðan 1880 en mesta hækkunin hefur átt sér stað síðustu 35 ár. 15 af 16 heitustu árum síðan mælingar hófust hafa átt sér stað frá 2001. Yfirborð íss í heiminum er að minnka, bæði á landi og sjó, jöklar eru að hopa, sjávarís er að minnka og snjóþekja á norðurhveli jarðar hefur farið minnkandi síðastliðna 5 áratugi. Öfgafull veðurtilfelli sjást víða um heim, hvort sem það eru háir hitar sem ýta undir skógarelda eða öfgafull flóð. Höfin eru að súrna – frá upphafi iðnbyltingarinnar er talið að súrnun hafi aukist um 30% í höfum heimsins. Þetta er vegna aukinnar losunar koltvísýrings í andrúmsloftið sem hafið gleypir í sig (NASA, 2017). Losun á sér stað frá ýmsum geirum samfélagsins og oftar en ekki er stærsti hlutur losunar tengdur iðnaði. Í tilfelli Íslands er úrgangur einungis ábyrgur fyrir um 6% af heildarlosun samfélagsins. Ástæðan fyrir því hversu lágt þetta hlutfall er, er sú að hlutfall iðnaðar er hátt hér á landi. En margt smátt gerir eitt stórt og losun frá úrgangi er oftast stærsti þátturinn sem tengist starfsemi sveitarfélaga. Mikilvægt er að hver og einn beri ábyrgð á þeirri losun sem hann á þátt í að skapa til að hægt sé að standa við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins. Í Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013-2024, úrgangsstjórnun til framtíðar, eru gefin upp markmið til ársins 2020 um að draga saman hlutfall lífræns úrgangs úr sorpi þannig að árið 2020 verði það einungis um 35% af því magni sem var í almennu sorpi árið 1995. Í Sameiginlegri svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2009-2020 kemur fram að stjórnir sorpsamlaganna hafi sett sér það markmið að draga að fullu úr lífrænum og brennanlegum úrgangi sem er urðaður eftir árið 2020. Þegar tekið er tillit til þessara þátta má fastlega ganga út frá því að þeir muni hafa mikil áhrif á núverandi fyrirkomulag í úrgangsstjórnun sveitarfélaga sem felur í sér urðun. Talið er líklegt að löggjöf muni herðast og kostnaður muni aukast. Að breyta úrgangi í auðlind er stórt lykilatriði í hringrásarhagkerfi. Með hringrásarhagkerfinu er átt við að horfið verði frá hefðbundinni leið vörunotkunar sem er línuleg, þ.e. hráefnisupptaka, vöruframleiðsla, sala og dreifing og notkun og urðun, yfir í vörunotkun þar sem mikil áhersla er lögð á að fjarlægja hættuleg efni úr vörunni og það hráefni sem er í vörunni sé endurnýjanlegt og notað sem nýtt hráefni í nýja vöru. Með þessu móti er komið í veg fyrir að hættuleg efni berist í vistkerfi jarðar.

3


Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.