Bjarna Guðmundssonar
Hvanneyrar-pistlar Bjarna Guðmundssonar III, 2023.
ISBN 978-9935-25-360-6
https://issuu.com/bjgudm
Öll réttindi áskilin.
Bók þessa má ekki afrita með neinum hætti, svo sem ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild án skriflegs leyfis rétthafa efnis hennar.
Forsíðumynd: Hvanneyri sumarið 2022. Ljósm. Magnús Magnússon/Skessuhorn.
Uppsetning: Þórunn Edda Bjarnadóttir.
Formáli
Í vetrarbyrjun 2022 kom út rit sem kallaðist Hvanneyrarpistlar Bjarna Guðmundssonar á vefstaðnum www.issuu.com/bjgudm Pistlaritið var merkt I. Það gaf bendingu um að framhald kynni að verða á ritningunum. Það er staðfest með þessu kveri, merktu III. Vel má vera að fleiri kver kunni að sjá ljós dagsins, og þá að minnsta kosti pistlasafn nr. II. Líklega síðar á þessu ári !
Ég geri ekki tilraun til þess að flokka Hvanneyrarpistla mína eftir efni að svo stöddu. Þeir koma bara hver um annan, næstum því eftir tilefnum og stemningu daganna. Í þeim er fjallað um bú- og sagnfræðilegar greinargerðir en einnig persónulegar minningar.
Ef til vill hefur einhver gaman að því að lesa pistlana. Ef til vill ekki. Ég hef allavega skemmt mér við að skrifa þá.
Hér á eftir koma fjórir pistlar sem hafa yfirbragð persónulegra minninga og eiga því lítið skylt við sagnfræði eða önnur vísindi. Þeir hafa orðið til á ýmsum tímum; mótast af stund og stað skrifanna.
Ég hef stundum dundað við að hripa hjá mér til minnis orð um sumt sem á dagana hefur drifið. Ekki er þó hægt að tala um skráningu æviminninga. Til þess hefur efnið fram að þessu verið of sundurlaust. Mestum hluta þessa efnis hef ég stungið í súrtunnu mína. Eins og í öðrum súrtunnum er innihaldið mis ætilegt. Það getur hins vegar verið gott að eiga það ef harðnar á dalnum.
Hvanneyri, á vorjafndægrum 2023
Bjarni Guðmundsson
I. kafli Í búfræðum og fjöri í Bændaskólanum á Hvanneyri
Líklega er rétt að hafa dálítinn formála til skýringar á eftirfarandi kafla. Vorið 1960 hafði ég lokið landsprófi frá Héraðsskólanum á Núpi. Hugur stóð til frekara náms en ýmsar ástæður þveruðu þann veg. Fór svo að ég var ráðinn til farkennslu í Þingeyrarskólahverfi skólaárið 1960-1961, þá á átjánda ári. Ég kenndi á tveimur stöðum, í Haukadal og á Ketilseyri, tvær vikur í senn á hvorum stað. Veturinn varð mér eftirminnilegur reynslutími. Vonandi hafa blessuð
börnin sluppu skaðlítið frá honum. Og eins og sagt er stundum: „Svona lagað hefði ekki verið gert í dag.“
Frá Hólum að Hvanneyri
Það var laugardag í mars 1961. Snjór var yfir öllu. Himin heiðblár og sólargangur tekinn að lengjast. Við pabbi stóðum úti á Múlaholtunum og biðum eftir því að ærnar drykkju nægju sína við ána hjá Gilósnum. Þær voru útivistinni sýnilega fegnar. Kröfsuðu snjóinn og leituðu sér sinustráa eða mosaklóar. Vetrarsólin mótaði langa skugga þeirra þar sem þær eigruðu aftur og fram. Við vorum hjarðmenn Múlabænda sem höfðu brugðið sér bæjarleið þennan dag. Þarna kom ein af þeim stundum þegar við pabbi ræddum málin tveir saman. Hver einasta setning, já, hvert einasta orð fékk sérstaka þyngd. Stundin öðlaðist líka markaðan tilgang við þær aðstæður. Ég hef að segja pabba af hugmyndum mínum um að sækja um nám að Hólum í Hjaltadal, örvaður af lestri búfræðiritanna hjá honum Sigga á Ketilseyri.1 Líka sagði ég honum að ég hafi lagt lauslegar hugmyndir mínar um kennaranám til hliðar. Af hverju sækir þú ekki um á Hvanneyri? spyr pabbi. Ég man að það kom hik á mig. Þann möguleika hafði ég ekki hugleitt. Umræðulaust féll ég fyrir hugmynd pabba. Og þarna sem við stóðum yfir Múla-ánum í snjóglitrandi síðdegissólinni tók ég ákvörðun um að sækja um búfræðinám á Hvanneyri. Ekki hafði ég þá ríngustu hugmynd um það þá að augnablikið væri ögurstund ævi minnar í skilningi menntunar og starfa.
Móðir mín skrapp suður á Akranes um vorið. Vegna kunningsskapar systur sinnar og mágs við Guðmund Jónsson skólastjóra á Hvanneyri hitti hún Guðmund. Ætli hann hafi ekki verið á Oddfellow-fundi á Skaga með þeim? Móðir mín notaði tækifærið og ræddi hugsanlega skólavist mína. Tók Guðmundur vel í málið og vafningalaust var gengið frá formsatriðum. Ég var þeim mun sáttari við ákvörðun mína sem nær leið skólabyrjun. Ég vann heima á Kirkjubóli um sumarið og hlakkaði öðrum þræði til þess að nema á Hvanneyri, þótt jafngilt afl að venju togaði í mig að vera heima. Þar voru enn á ferð mennirnir tveir sem í mér bjuggu.
Miði barst um að mér bæri að mæta á Hvanneyri einhvern fyrsta daginn í október. Ég tók mér fari með Vestfjarðaleið suður.2
Ekki ætla ég að segja þér hve bílveikur ég var á fyrri hluta leiðarinnar. Með munninn fullan af endurunnum mat stökk ég út úr langferðabifreiðinni um leið og bílstjórinn stöðvaði hana hjá Kaupfélaginu á Skálanesi.
Langferðabifreiðin D 200 og önnur til frá Vestfjarðaleið komnar í Flókalund; bílveikin enn viðráðanleg.
Æ síðan hefur mér verið sérlega hlýtt til þess staðar, að skyldi vera til og verður áningar. Eftir það var ég góður.
1 Sigurður Friðfinnsson bóndi á Ketilseyri var búfræðingur frá Hólaskóla. Hann átti safn búfræðibóka, m.a. tímaritið Búfræðinginn. Á kvöldin las ég þetta efni mér til afþreyingar og skemmtunar.
2 Í vasabók frá þessu hausti sé ég að þetta var þriðjudaginn 3. október 1961. Áætlunarbifreið Vestfjarðaleiðar fór frá Þingeyri kl. 9.55 og kom að Hvanneyri kl. 19.55. Farið kostaði 295 kr. Þar stendur einnig „Mjög skemmtil. ferð“ !!!
Það var farið að skyggja þegar við komum í Suður-Dali og myrkur skollið á í Borgarfirði. Hafði ég áhyggjur af því að bílstjórinn gleymdi að setja mig af hjá Hvanneyri. Pabbi hafði sagt mér að við stóran klett og stóra brú væri skammt eftir að Hvanneyri. Í geisla bílljósanna fannst mér ég alltaf vera að sjá klett og brú. En svo stansaði bílstjórinn þar sem skýrt bæjarskiltið blasti við: Hvanneyri!
. . og á Hvanneyri biðu vinir í varpa
Móðir mín hafði hringt í fermingarbróður sinn og æskukunningja, Harald Sigurjónsson frá Granda í Dýrafirði, staðarsmið á Hvanneyri, og beðið hann að sækja mig í veg fyrir áætlunarbílinn. Við það stóð hann samviskusamlega og átti svo sem eftir að verða mér traustur bakhjarl þar síðar. Haraldur flutti mig á fund Guðmundar skólastjóra, sem bauð mér strax inn til þeirra hjóna. Þau tóku mér af mikilli hlýju. Áður en varði bar Ragnhildur skólastjórafrú Ólafsdóttir mér þetta indæla skyr með rjóma en Guðmundur hóf að spyrja mig um ferðina og fólkið mitt heima. Kvíði minn og feimni hurfu út í veður og vind. Mér fannst að hér hefðu beðið mín vinir í varpa. Ég var strax viss um að hér ætti mér eftir að líða vel.
Við vorum ellefu félagarnir sem komum saman til náms á Hvanneyri. Sammerkt öllum var það að hafa lokið gagnfræða- eða landsprófi. Þannig áttum við að geta lokið búfræðiprófinu
á einum vetri. Þess vegna kallaðist þessi námshópur skólans vetrungar. Byrjað skyldi á námskeiði í landmælingum og kortagerð. Verkleg kennsla smærri hópa var örugg leið til þess að við kynntumst fljótt innbyrðis enda allir með töluverða reynslu úr héraðsskólum víða um land. Ekki spillti það fyrir kynnum að við fengum að fara saman á ein tvö böll áður en hið eiginlega skólastarf hófst. Sætaferðir voru á böllin, sem haldin voru í Brún og í Brautartungu. Þá ferðaðist ég fyrsti sinni með þeim þá þegar þekkta bílstjóra, Sæmundi Sigmundssyni. Honum áttum við Hvanneyringar eftir að kynnast nánar. Nokkur upplifun urðu þessar samkomur mér. Undir lok dansleiksins í Brún gengum við fram á fyrsta áfengisdauða manninn sem ég hafði á ævinni séð og í Brautatungu upplifði ég slagsmál, sögð vera á milli Borgnesinga og Akurnesinga. Á þeim fáu böllum, sem ég hafði verið á fyrir vestan, hafði ég aldrei séð slagsmál, en miðað viðlýsingar sjónarvotta á hinum fræga Kúlubardaga í Arnarfirði3 voru slagsmálin í Brautartungu örugglega bara minniháttar ryskingar einhverra smástráka.
3 Sjá m. a.: http://www.thingeyri.is/frettir/Sextiu_ar_fra_Kulubardaganum_mikla-_Dagbokarbrot_fra_bardaganum_ bidur_birtingar_i_Myrahreppi_-_1grein/ Lesið 24. febrúar 2023.
Viðar Kornerup Hansen kenndi okkur landmælingar og náðum við fljótlega taki á lögmálum þeirra. Helst tafði það fyrir okkur að finna hvergi austurátt á staðnum. Okkur var tjáð að Skessuhorn væri í suðri, Snæfellsjökull í vestri og Baula í norðri. Hornin á milli voru ekki alveg eftir bókinni, svo margir okkar komust í vanda þegar teikna átti kortin og marka höfuðáttir á þeim.
Við landmælingarnar fór ekki hjá því að við sæjum til búreksturs skólans. Þar var allt stórt
í sniðum: kýr margar, dráttarvélar nokkrar að störfum samtímis og starfsmenn stórkarlalegir
í flestum verkum sínum. Ég minnist líka umhverfisins. Ásýnd þess bar vott um minna nostur sem og meiri umferð og þyngri en ég hafði átt að venjast: Hér var ég sýnilega kominn nær framtíðinni en í túninu heima á Bóli. Allt virkaði þetta þó spennandi og forvitnilegt.
Í landmælingakennslunni á Hvanneyri vorum við nokkra stund að átta okkur (í bókstaflegri merkingu) á höfuðáttum þar á skólasetrinu.
Við vetrungarnir vorum orðinn ágætlega samansorfinn hópur þegar eldrideildungar mættu, nemendur sem verið höfðu í skólanum veturinn áður, þekktust og þekktu til allra húsreglna skólans. Ef til vill var það þess vegna sem þeir buðu okkur fljótlega eins konar friðarpípu, þótt hin opinbera skýring þeirra væri sú að þeir hygðust ekki meðhöndla okkur eins og síðasti árgangur átti að hafa gert: Að brjóta þá yngri undir sig með nokkrum hofmóði. Hver sem ástæðan var reyndist veturinn verða hinn friðsamasti með góðri samstöðu og eindrægni nemenda hvar í bekk sem voru.
Kynni tókust fljótt með flestum. Mér þótti sérlega heillandi að kynnast jafnöldrum með svipuð áhugamál víða að úr sveitum. Fóru ófáar stundir smærri og stærri hópa okkar í allt frá saklausum og greinargóðum skýrslum um búskap í framandi sveit yfir í kjarnmiklar raupsögur af búháttum og mannlífi. Mér finnst núna að enginn hafi þar náð lengra frásögum sínum en Óskar Alfreðsson frá Útkoti á Kjalarnesi: Það var alveg sama hvað gerst hafði í öðrum sveitum: Óskar átti alltaf dæmi um eitthvað sem gekk lengra, hraðar, hærra, nú, eða þá neðar ef svo bar undir. Og svei mér ef flest af því sem hann sagði frá var ekki sannleikanum samkvæmt. Við fengum það á tilfinninguna að Kjalarnes væri afar athyglisverð sveit í flestu tilliti. Þá þegar var Skari afar magnaður sagnamaður.
Verkleg kennsla setti afar skemmtilegt mark á tilveruna. Hversu mikið við lærðum má um þrefa, en það var hins vegar hin óformlega samvera kennara og okkar nemendanna í smáhópum: í trésmíði, vélfræði, fjósverkum, skeifnasmíði, auk landmælinganna sem ég áður nefndi. Sumt af þessu rann saman við vinnu stund og stund á skólabúinu ef hjálparmenn skorti þar. Það var ósköp notalegt að hreyfa sig ögn, fá á sig fjósalykt, ellegar olíumak af vélum og ganga svo til heimalesturs búfræðiefnis. Margir skólafélaga minna höfðu þá þegar ýmsa verklega reynslu þannig að hver gat kennt öðrum sitt af hverju. Dagarnir liðu því hratt.
Þið megið sofa áfram, strákar . . .
Umsjónarmaður var skipaður til viku í senn. Hlutverk hans var að vekja liðið á áttunda tímanum og hringja síðan til kennslustunda og út. Reyndist það nokkuð misjafnt hve nákvæmir umsjónarmennirnir voru á tímann. Frænda mínum og herbergisfélaga, Jóni Ragnari Björnssyni frá Ölvaldsstöðum, datt ýmislegt í hug. Á umsjónarmannsvakt hans ákvað hann einn morguninn að vekja hópinn nokkuð fyrir tímann bara til þess eins að segja mönnum að þeir mættu sofa ögn lengur. Mildilega orðað fylgdi vakningarferð umsjónarmannsins töluverður kurr þann morguninn.
Tímar hófust kl. 8 og stundarfjórðung fyrir 9 var morgunverður og síðan tímar til hádegis. Eftir hádegi var gjarnan einn tími og síðan verkleg kennsla fram eftir degi. Á þessum tíma var aðeins ein stúlka í skólanum, Guðrún Bjarnadóttir, og var hún í Framhaldsdeild. Mikil respekt var borin fyrir henni. Annars einkenndust samskipti okkar nemendanna töluvert af mannalátum og karlagrobbi.
Allmargir komu að kennslu við Hvanneyrarskóla þennan vetur og urðu mis eftirminnilegir. Guðmundur skólastjóri kenndi töluvert mikið, og þá einkum jarðræktarfræði. Hann var óhemju eljusamur kennari, hélt mikið upp á tölur og dæmisögur. Ekki snerust þær allar
Í verknámi lærðu nemendur að slá skeifur undir leiðsögn Guðmundar Jóhannessonar ráðsmanns. Þennan gang sló skrifarinn !
um hina stóru heimsmynd. Mér þótti kennsla hans skemmtileg enda hafði ég þá
þegar töluverðan áhuga á jarðrækt. Hann
minnkaði ekki við kennslu Guðmundar.
Einn kennsluhátt Guðmundar hef ég vart skilið enn: Skyndipróf hafði hann reglulega.
Það tók gjarnan eina kennslustund. Verkefnin voru oftast fimm, alltaf leyst í sérstaka prófbók sem hver og einn kom sér
upp. Síðan tóku við alllangar frímínútur.
Að þeim loknum skilaði Guðmundur bókunum með verkefnunum yfirförnum.
Hraði hans við yfirferð og einkunnagjöf var ótrúlegur!
Skólaagi Guðmundar á Hvanneyri var þingmannaleiðum fjarri skólaaganum sem sr. Eiríkur
á Núpi beitti, enda ólíkum aldursstigum nemendanna saman að jafna. Kvöld og kvöld kom Guðmundur að sönnu út á heimavist og rannsakaði hvað á ferð væri. Oft var hann fljótur í förum og kom fráleitt í hverjar dyr. Ég man enn hve undrandi ég varð þegar ég gerði mér ljóst að við sváfum við ólæsta heimvist. Sumum félaga minna varð það freisting, einkum um helgar. Brugðu stöku menn sér þá bæjarleið eða tvær. Í hópnum þótti það nokkur karlmennskubragur er varð sumum tilefni raups og mannaláta. Það rann hins vegar upp fyrir mörgum er frá leið að Guðmundur skólastjóri vissi oftast nákvæmlega hvað klukkan sló. Hann vissi líka að mönnum var það síst minni lærdómspeningur að standa frammi fyrir eigin samvisku en húsreglum skólans.
Guðmundur skólastjóri vann langan vinnudag, oftast á skrifstofu sinni er blasti við úr heimavistarhúsinu. Úr glugga hennar gat hann því beitt sínu þriðja auga. Ljós var þar uppi árla og sjaldan slökkt fyrr en eftir miðnætti.
Viðar Kornerup Hansen kenndi búfjárræktargreinar. Hann var skipulegur og nákvæmur kennari sem fékk alla til að hlusta þótt væri kennsla hans nein flugeldasýning. Í fleiri augum en mínum óx Viðar Kornerup að virðingu fyrir að koma til kennslunnar utan úr fjósi – frá morgunverkum þar, gjarnan með tölur um fóðrun og afurðir. Þótt alla burði og möguleika hefði ílentist hann ekki í kennarastöðu á Hvanneyri heldur hvarf að fyrirtæki fjölskyldu sinnar, Fönix hf í Reykjavík.
Aðrir kenndu minna, flestir eina grein eða aðeins staka tíma. Misjafnir voru þeir eins og gengur. Ég held að bekkurinn okkar hafi verið fremur þægur og umburðarlyndur. Mín eigin en takmarkaða kennslureynsla frá vetrinum áður féll að upplifun minni sem nemanda þennan vetur: Þeir kennarar sem töluðu við okkur sem jafningja og báru það með sér að kunna sitt fag uppskáru vinnufrið og virðingu hópsins. Hinum tókst, sumum á undraskömmum tíma, að espa hópinn til ókyrrðar og strákapara. Að minnsta kosti tvo úr stundakennarahópnum
megnaði hinn kyrrláti bekkur að espa svo að þeir misstu algerlega hið andlega jafnvægi: Fátt gleður óþolinmóða nemendur meira – til skamms tíma. Annar þeirra gekk á dyr. Hinn hvarf frá kennslu um vorið. Eitthvað snupraði Guðmundur okkur fyrir hegðunina en hann vissi sem var að þetta mundi líða hjá.
Vottorð í leikfimi og afreksmenn íþrótta
Í einni grein verð ég, meira en sextíu árum síðar, að gera nokkra iðran: Leikfimi varð aldrei kjörfag mitt. Ég hafði heyrt að menn yrðu sér gjarnan úti um vottorð um heilsubrest sem dygði til þess að komast undan þátttöku í greininni. Dag einn er Þórður héraðslæknir Oddsson á Kleppjárnsreykjum mættur til skólaskoðunar. Og þar sem hann gerir á mér skyldubundna rannsókn styn ég því upp að ég sé afar slæmur í baki, og þurfi að gæta mín sérstaklega í allri vinnu af þeim sökum. Hvössum augum og fimum læknisfingrum rannsakar Þórður bak mitt, kveðst ekkert sjá eða finna þar sem mein kunni að vera. Spyr mig samt hvar ég kenni þess helst. Einhverja leiðarlýsingu gaf ég og Þórður þuklaði áfram . . . jú, ekki frá því að sé
einhver hnúður sé hérna, segir hann og ég tek þegar í stað undir það. Þórður skerpir stútinn á munni sínum og telur að þarna geti orsök bakmeinsins legið og að rétt sé að ég fari varlega, telur hann. Skrifar síðan vottorð um undanþágu frá leikfimi. Hafi eitthvað mein verið í baki mínu hvarf það gersamlega með vottorði Þórðar. Vitanlega skammaðist ég mín helling fyrir hegðun þessa en hvað gerir maður ekki til þess að sleppa við leikfimi – eintrjáningur eins og ég, frábitinn íþróttum á allan máta. Í ljós kom að fleiri en ég höfðu beitt sömu aðferð, ég gætti mín þó vandlega að upplýsa ekki um hegðun mína, og bar við bakþrautum þegar ég mundi eftir þeim.
Mér þótti öðrum þræði illt að bregðast þannig leikfimikennara skólans, honum Ellert Finnbogasyni, miklum heiðursmanni, sem líka kenndi okkur smíðar með sérstökum ágætum. Bæði kunni hann vel til verka en hitt var ekki síðra að hann tamdi okkur til eftirminnilegrar snyrtimennsku og vandvirkni í greininni sem ég hef búið að síðan – og vafalaust margir fleiri. Það gladdi mig hins vegar að íþróttasinnaðir félagar mínir kunnu þeim mun betur að meta íþróttakennslu Ellerts og hlökkuðu til hvers tíma. Við hinir söfnuðumst gjarnan saman, á sama tíma, á einhverju herbergjanna til skvaldurs við pípureyk ellegar við harmoníkumúsík, því í hópnum voru liðtækir dragspilarar.
Og úr því að nefndar eru íþróttir má ég til með að geta tveggja utanstaðarmanna sem mikil áhrif höfðu í skólanum. Við málarastörf á fyrstu skóladögum okkar á Hvanneyri var enginn annar en Ríkharður Jónsson af Skaga, þá fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu. Hann var raunar staðarmálari á Hvanneyri um áratuga skeið. Í augum okkar var hann goðum líkur. Guðmundur skólastjóri fékk hann til þess að hafa nokkrar æfingar með knattspyrnumönnum skólans. Jafnvel mig langaði í fótbolta hjá Rikka en mundi þá eftir leikfimivottorðinu og forsendum þess.
Þennan vetur var Vilhjálmur Einarsson, silfurmaðurinn frá Melbourne, að hefja kennslu á Bifröst, minnir mig. Vegna kunningsskapar við félaga mína, Bjarna Einarsson frá Hæli og Magnús H. Sigurðsson frá Birtingaholti, kom hann nokkur kvöld til þjálfunar í innanhússíþróttum í leikfimisalnum, m.a. atrennulausum stökkum. Þótti þetta aldeilis viðburður í nemendahópnum ekki síst fyrir það að athyglisverðir hæfileikamenn uppgötvuðust í greinunum. Ríkharður og Vilhjálmur voru okkur góð dæmi um jákvæð uppeldisáhrif sem afreksmenn í ýmsum greinum geta haft á ungmenni á viðkvæmu mótunarskeiði.
Veturinn leið við glaðværð og áhyggjuleysi í flestu tilliti. Vitanlega var skólaandinn að marki mótaður af karlhormónum og öðrum vessum aldurskeiðsins: kraftaleg umgengni og raupsögur, bæði af raunverulegri en líka ímyndaðri eigin framgöngu, í bland við stórkarlalegar yfirlýsingar hvert heldur var í vinnuafköstum, slagsmálum, kvennafari eða öðrum starfa, mótuðu dagfarið. Okkur fannst þó að allt það væru barnabrek miðað við þá pilta sem í skólanum voru árið á undan hvað þá fyrr, ef marka mátti sögur sem flökkuðu á milli manna.
Starfsstúlkurnar sem ólu önn fyrir okkur í eldhúsi og þvottahúsi á Hvanneyri: Efri röð f.v.: Ásdís Daníelsdóttir frá Efra-Seli, Hrun., Selma Ólafsdóttir frá Efra-Skarði, Svínadal, Þórunn Pálma Aðalsteinsdóttir frá Holti í Þistilfirði, Erla Ragnarsdóttir og Guðrún Leonardsdóttir, báðar frá Akureyri. Neðri röð f.v.: Rut Konráðsdóttir frá Reykhólum, María K. Ragnarsdóttir og Ólafía Guðnadóttir úr Reykjavík og Guðrún Gestsdóttir ráðskona frá
Syðra-Seli, Hrun..
Eitthvað dufluðu menn með vín en einnig það virtist altarisganga miðað við framgöngu nemenda árin á undan, að því er sömu heimildir hermdu. Vart var hægt að ætlast til þess að rumungs piltar, sumir hverjir komnir á þrítugsaldur og höfðu vígst til manndóms á vertíðum og sopið fjörur suður með sjó ellegar í Eyjum, sætu bara á sínum rúmstokki um helgar og biðu þess eins að hringt yrði í tíma klukkan átta á mánudagsmorgni. Í skjóli myrkurs lágu því leiðir sumra víða um hérað þótt aðrir réru á nálægari mið því föngulegar stúlkur stóðu fyrir þvottahúsi og matseld Matarfélagsins. Þótt menn teldu sig þannig komast um óséðir af skólastjóra skortu hreystisögur af því innihald með öllu, því Guðmundur vissi yfirleitt nokkuð nákvæmlega hvar piltarnir hans héldu sig. Sjálfum var honum það síst móti skapi að þeir bæru sig eftir kvenfólki.
Árshátíð og vænar Varmalandsmeyjar
Og úr því að nefnt er kvenfólk má ég til með að rifja upp það sem hvað mesta tilbreytingu veitti okkur hvað félagslífið snerti. Það hafði alllengi gilt sú hefð að halda árshátíð skólans 30. nóvember eða sem næst þeim degi. Hún var öðrum þræði fullveldishátíð skólans. Það fór ekki hjá því er dagurinn nálgaðist að veruleg tilbreyting væri í vændum. Nemendaráð hafði komið saman og skipað nemendum í hinar ýmsu nefndir vegna hátíðarhaldanna, því margt þurfti að gera: undirbúa mat og frammistöðu, skemmtiatriði, undirbúa Leikfimsalinn og margt annað sem að kallaði. Lítið varð úr námi dagana næst á undan. Það var stússað við hin ýmsu undirbúningsverk á ýmsum tímum og stöðum. Sumt varð að fara mjög leynilega, eins og gengur.
Það fyrsta sem ég man eftir af sýnilegum hátíðarbrigðum var stórt veggspjald sem sett var upp í Forsalnum svonefnda framan við skólastofurnar. Þar var öllum nemendum skipað til verka í hinum ýmsu starfsnefndum vegna hátíðarinnar. Þar að auki hafði kvenpeningurinn, sem þá var í eldhúsi og við þvotta – þjónusturnar, gefið hverjum og einum viðurnefni. Voru þau af ýmsum toga, sýnilega til orðin af margs konar ástæðum. Ég man nú eiginlega bara mitt eigið sem var Prúður. Jú, annað man ég, það var Aftanífari, það fékk félagi minn sem fengist hafði við kúasæðingar áður en hann kom í skólann. Viðurnefni nemenda vöktu kátínu, þó mis mikla. Ég man ekki eftir að mörg þeirra yrðu langlíf. Dóu með dögunum.
Aðalæfing (general-prufa) var haldin kvöldið fyrir aðalsamkomuna. Áþreifanleg spenna var í lofti og eitthvað framandi við það að ganga inn í Leikfimisalinn þar sem útbúið hafði verið svið með tjöldum í austurenda hans. Salurinn hafði verið skreyttur lítillega, m.a. með fáeinum ljósum sem hengd voru upp hér og var. Á aðalæfingunni komu í ljós duldir hæfileikar ýmissa skólafélaga í söng og leik, og ekki minnkaði spennan sem í loftinu lá.
Fljótlega upp úr hádegi hátíðardagsins tóku gestir að koma. Flestir voru það eldri nemendur skólans. Urðu fagnaðarfundir með þeim sem kvatt höfðu skólann vorið áður og nemendum sem þá höfðu verið í yngri deild skólans. Fastur liður var að efnt var til keppni í knattspyrnu á milli eldri nemenda og þeirra sem í skólanum voru. Völlurinn var túnspilda austan við skólann sem gekk lengi undir nafninu Fótboltavöllurinn. Ekki man ég nú hvernig veður var, víst var þó kuldi og einhver snjór á jörðu svo það var ekki fyrir neina veifiskata að keppa í knattspyrnu. En fyrir myrkur luku þeir keppni og komu heim rjóðir og sælir.
Mikið mál var að búa sig sem best til hátíðarinnar. Ös var í sturtuklefa Leikfimisalarins. Þar var eina heita vatnið sem við höfðum aðgang að. Úti í skólahúsinu var aðeins kalt vatn. Ég fékk aðstoð við að hnýta frambærilegan bindishnút, og einn félaga okkar, lífsreyndur úr höfuðborginni, hélt stutt námskeið í því að bóna skó. Lagði hann herslu á að líka væri borið á sólann rétt framan við hælinn. Þótt okkur sveitamönnunum það framandi en hermdum það að sjálfsögðu eftir.
Við vorum þrír á herbergi nr. 3. Sitjandi erum við systkinasynirnir Jón Ragnar Björnsson frá Ölvaldsstöðum, Mýr. (t.h.) en standandi er Sævar Kristinn Jónsson frá Rauðabergi í A.-Skaft.
Hér gætu verið fulltrúar úr hópi Móttökunefndar óboðinna gesta, þeir sem baki í okkur snúa, Guðni Lýðsson t.h. Þórarinn Lárusson, formaður Nemendaráðs þennan vetur, horfir fránum augum til gesta við anddyri Leikfimihússins en með hendur í vösum. Ég býð ekki í „óboðna gestinn“ hefði Þórarinn tekið hendur sínar úr vösum. (Ljósm.: Ólafur B. Óskarsson).
Undir kvöldmatinn var komið að Móttökunefnd boðinna gesta að stilla sér upp á hlaðinu þegar Volvolangferðabifreiðin M 404 frá Sæmundi og Valdimar kom með gesti hátíðarinnar, námsmeyjar Húsmæðraskóla Borgfirðinga að Varmalandi. Nefndin skyldi þar taka virðulega á móti heiðursgestunum. Skólastjórahjónin buðu Steinunni skólastýru Ingimundardóttur og kennurum inn til sín en Móttökunefndin leiddi aðra gesti út í skóla þar sem þeim hafði verið búin aðstaða í yngri deildar stofunni. Þar gátu dömurnar snyrt sig og
haft sig til fyrir kvöldsamkomuna sem hefjast skyldi, muni ég rétt, með borðhaldi í borðstofu skólans.
Mikill fiðringur greip um sig í skólahúsinu þegar Varmalandsmeyjar voru komnar þar í hús. Minnti stemningin ögn á ókyrrð í fjárhúsi um fengitíð. Brá fyrir einkennilegri hegðun sumra, sem sjálfsagt var blanda af feimni og athyglisbresti. En svo dró að því að allir mættu út í borðsal þar sem raðað var til borðs, að mig minnir, þannig að Hvanneyringur sæti til borðs með Varmalandsmey. Guðmundur skólastjóri bauð til borðs og brást ekki bogalistin í ræðuhaldi þá frekar en áður. Gerði unga fólkið góðan róm að máli hans.
Mig minnir að hangikjöt, grænar baunir og tilheyrandi hafi verið rétturinn þjóðlegi. Þröngt var á þingi og borðstofan pökkuð af fólki, líklega um 100 manns. Að snæðingi loknum var haldið út í Sal þar sem hátíðin beið. Varmalandsmeyjum voru ætluð sæti þar framarlega í röð næst aftan skólastjórnenda og kennara, þeirra er ekki voru að störfum við eftirlit og umsjón.
Móttökunefnd óboðinna gesta naut aðstoðar kennara, að mig minnir. Var talið að kennarar ættu auðveldara með að þekkja hina eldri nemendur, sem ávallt voru velkomnir, auk þess sem kennararnir höfðu „meiri þyngd“ drægi til tíðinda. Hlutverk nefndarinnar var, eins og nafnið benti til, að sjá til þess að ekki kæmu óboðnir gestir til samkomunnar. Gat þar verið um að ræða unga héraðsmenn sem voru að eltast við samkomur og fjör eða þá ef til vill við Varmalandsmeyjar sérstaklega, t.d. þá sem voru fastagestir á Varmalandi á útivistartímum námsmeyjanna þar. Hlutskipti Móttökunefndar óboðinna gesta var ekki öfundsvert.
Síðan hófst hátíðarsamkoman á ræðu formanns Nemendaráðs, sem þá var Þórarinn Lárusson, nemandi í Framhaldsdeild. Hefð var fyrir því að hátíðarræðan væri alvarleg og blandin nokkurri þjóðerniskennd. Man ég ekki betur en Þórarinn héldi sig á þeim nótum. Þá tóku skemmtiatriðin við eitt af öðru, leikþættir og hinn sígildi kennarabragur, þar sem skáld skólans, sem þá var Jón Snæbjörnsson frá Stað á Reykjanesi, tók alla kennarana fyrir með gamansömum hætti. Bjarni Snæbjörnsson frá Snæringsstöðum í Vatnsdal söng vísurnar. Þá er mér í minni einleikur Ketils Larsen, síðar þjóðfrægs leikara er flutti þátt um ungt par og ástfangið á mjóum rúmbálki. Ketill náði nefnilega að halda einhvern veginn utan um sjálfan sig þannig að tveir sýndust vera í innilegum faðmlögum þar á rúmbálkinum. Hlaut Ketill mikið lófatak og verðskuldað lof fyrir.
Að loknum skemmtiatriðum var Salurinn ruddur og hljómsveit af Akranesi, að mig minnir
Eðvarð Friðjónsson og félagar, hóf að leika fyrir dansi. Nokkuð fornleg þótti þeirra músik enda Prestley og Shadows með Cliff Richard það sem þá þótti nýmóðins. Mjög var nú misjafnt hve vel við Hvanneyringar vorum að okkur í dansmennt. Flestir voru feimnir og uppburðarlitlir, en hinir voru líka til sem renndu strax í meyjahópinn og buðu upp dömu. Einhvern veginn komst nú samt allt í gang. Það hjálpaði að lýsingin í Salnum var afskaplega takmörkuð. Heyrðum við seinna að Steinunni skólastýru hefði líkað ljósleysið illa. Á hún að hafa borið því við að í þessum skugga nytu hinir fallegu kjólar námsmeyjanna sín ekki.
Ekki man ég til að hafa verið stórtækur í dansinum. Tók þó einhvern þátt. Man m.a. eftir að hafa dansað við tvær dömur sem síðar urðu virðulegar húsfreyjur í sveit og ágætir kunningjar mínir. Eftir að dansinn hafði staðið um stund var keyrður upp mars, svo allt liðið paraðist. Eftir að hafa marserað nokkra hringi í Salnum var þrammað út og í gegnum trjágöng skólagarðsins út í borðsal þar sem veisluborð beið. Sérstök nefnd hafði aðstoðað við undirbúning þess og sá um að bera á borð, rétt eins og við kvöldmatinn. Heldur voru málbein nú tekin að liðkast þar sem pör sátu prúðbúin í fullskipuðum borðsalnum.
Á vissu augnabliki var gefið merki og til máls tók fulltrúi Hvanneyringa er mælti fyrir minni Varmalandsmeyja. Á eftir sungum við karlpeningurinn lagið Fósturlandsins freyja. Ræðan var endurgoldin með ávarpi Varmalandsmeyjar fyrir minni Hvanneyringa. Á eftir sungu þær lagið Táp og fjör og frískir menn. Mishnípin sátum við undir ræðunum en fundum að stundin var hátíðleg. Einhverjir voru þó með hugann við annað.
Mett af kaffi og kökum héldum við út í Sal að nýju þar sem dansinn hélt áfram. Man ég að það kom þá í minn hlut að standa í „sjoppu“ þeirri sem matarfélag nemenda hafði stofnað til. Afgreitt var yfir lítið borð til hliðar við hljómsveitarpallinn. Ekki var nú vöruúrvalið mikið. Maltöl og appelsín man ég en hvort kók kom við sögu efast ég um. Ég man Ópal þarna og líklega hefur eitthvað af súkkulaði verið falboðið.
Þarna úr afgreiðslustað mínum hafði ég góða aðstöðu til þess að fylgjast með framvindu dansleiksins. Að mér söfnuðust líka þeir félagar mínir sem lítinn sem engan þátt tóku í dansinum, en fylgdust með honum af þeim mun meiri áhuga.
Og kvöldið leið. Hér og hvar sá maður að par og par hafði gerst nánara. Vissulega voru þar einhver sem þekktust fyrir en fleiri voru þó pörin sem kvöldið hafði laðað saman. Það sást enn betur þegar dró að lokum dansleiksins og hljómsveitin lék hin rólegri lögin.
Það kom að kveðjustund og langferðabifreið þeirra Sæmundar og Valdimars var komin á hlaðið og beið þar í gangi. Við Hvanneyringarnir fylgdum dömunum út að rútu. Þar ríkti glaðværðin, með hlátrum og skvaldri. Einhverjir töldu sig hafa efni á glósum til félaga sem feimnir fylgdu sinni dömu út að bláhvítum bílnum. En svo voru það hyggnu pörin sem farið höfðu aðra leið, er fáfarnari. Ein og ein dama kom því hlaupandi utan úr myrkrinu rétt í þann mund sem bifreiðin renndi af stað. Tækifærið var notað til fyndni á hennar kostnað því
grun höfðum við um hverjir herrarnir væru. Bifreiðin hvarf með olíureyk bak við kirkjuna. Við veifuðum og héldum síðan af stað út á heimavist.
Einhver stund fór í rabb þar sem hópar höfðu komið saman til þess að ræða atburði kvöldsins. Var af nógu að taka bæði sönnu og tilgetnu þegar margir miðluðu reynslusögum sínum og upplifunum. Hér og hvar, í miklu pukri þó, gekk glas eða flaska á milli manna. Ætli Guðmundur skólastjóri hafi svo ekki labbað út á vist að hæfilegum tíma liðnum til þess að bjóða góða nótt og róa hópinn.
Brátt held ég að kyrrð hafi færst yfir heimavistina þarna á annarri og þriðju hæð skólahússins. Flestir höfðu um nóg að hugsa þótt lúnir væru eftir störf og skemmtun dagsins. Mér þykir þó líklegt að einhverjir hafi sofnað um síðir út frá hugsun um skemmtilega Varmalandsmey sem þeir höfðu hitt á dansgólfinu í Leikfimisalnum.
Menn risu seint daginn eftir enda frí í skólanum. Upprifjun atburða árshátíðarinnar hélt áfram, tilgátur urðu til og kenningar smíðaðar, mönnum strítt, og gortað af öðru eins og
gengur. En svo rann hvunndagurinn upp fyrir okkur að nýju, þó ekki hversdagslegri en svo að við fundum að nú var stutt til jóla. Það vakti aðra tilhlökkun. . .
Jólin urðu ekki bara jól
Jólafríið varð mér um margt eftirminnilegt. Ég fór mína fyrstu sjóferð með strrandferðaskipi vestur á Dýrafjörð. Tíðindalaus var vesturferðin en um suðurferðina handan áramóta verður ekki það sama sagt: Stórviðri gerði og varð ég svo sjóveikur að mér hefði verið rétt sama þótt dallurinn hefði sokkið til botns: Ég hafði ælt öllu sem í mínum maga var og töluvert meiru. Víst tók það mig sólarhring að jafna mig eftir ósköpun. Bót var að móðir mín beið mín á bryggjunni í Reykjavík. Hún var þar stödd vegna alvarlegra veikinda bróður míns sem komið höfðu upp á aðfangadagskvöld. Varð honum það til bjargar að Björn Pálsson gat brotist á sjúkraflugvél sinni til Þingeyrar á jóladag rétt í þann mund sem norðanáhlaup fyllti fjörðinn. Bróðir minn lá það sem eftir var hátíða og beið bata síns á Landsspítalanum. Þetta urðu því döprustu jól sem ég hef enn lifað. Hve glöð við urðum þegar komist var fyrir mein bróður og kann komst aftur heim – Heill. Allt það er þó önnur saga.
Eftir jólaveturinn leið hratt á Hvanneyri. Hver dagur eignaðist sitt ævintýri eins og gengur en smá atvik heimarvistarlífsins gátu þó í fásinninu orðið að eins konar heimsviðburðum. Fyrr en varð var komið vor. Þess gætti hvað fyrst með vorprófunum sem skullu á með aprílmánuði.
Kennsla var felld niður og upplestur
tók við með prófum annan til þriðja hvern dag. Til próflestrarins dreifðust nemendur víða: Þeir er skemmst áttu heim skruppu gjarnan þangað. Aðrir fundur sér staði til lestrar í skólanum. Einhverjir lásu lítið.
Prófin voru ýmist skrifleg eða munnleg.
Mér sóttust prófin ekki illa, mér líkaði vel við flestar námsgreinarnar, einkum
þær er sneru að jarðræktinni. Í einni
grein fékk ég hraksmánarlega einkunn, það var í lífeðlisfræði hjá Þorsteini á Húsafelli, sem mér líkaði þó afar vel við sem kennara. Mig minnir bara að ég hafi verið lægstur, með 3,8 að mig helst minnir, eða að minnsta kosti í smáum hópi þeirra lægstu. Vakti þetta
þó nokkra athygli. Starfsfélagi minn síðar til margra ára, Magnús B. Jónsson þá nemandi í Framhaldsdeild, kappmaður, taldi þetta með þeim ólíkindum að hann hvatti mig til að rannsaka málið, en fór sjálfur og kannaði það hjá Þorsteini kennara. Taldi Magnús líklegast að númer prófúrlausna nemenda hefðu ruglast. Reyndist svo ekki vera og dómur Þorsteins var: Hann kunni bara ekki meira! Sjálfum varð mér mjög um frammistöðuna og skildi aldrei hvað gerst hafði. Efaði þó ekki að Þorsteinn hefði haft rétt fyrir sér.
Munnlegu prófin urðu mér minnisstæð: Þau voru vel til þess fallin að ala upp góða spennu í hópnum og að ala á kvíða margra. Við „gengum upp“ í öfugri stafrófsröð þennan vetur. Ég var því jafnan þriðji síðasti til prófs. Munnlegu prófin stóru, í jarðræktarfræði og búfjárfræði, stóðu allan daginn. Hver nemandi dró tvenn verkefni og átti helst að halda einræðu um hvort þeirra. Miklar spurningar kennara eða prófdómara boðuðu ekki gott. Ekki minnkaði spennan við það að um miðbik prófs voru lesnar upp einkunnir þeirra sem lokið höfðu prófi. Mikið kapp var með ákveðnum hópi nemenda, man ég, og skal ég viðurkenna að mér var hreint ekki sama um frammistöðu mína.
Frelsi vorsins og máttur menntunarinnar
Svo lauk prófum og þann 30. apríl var skólanum slitið. Varmalandsmeyjar voru boðnar til fagnaðarins sem hófst með ræðu Guðmundar skólastjóra og afhendingu skírteina. Við vetrungarnir áttum enn nokkrum prófum ólokið og fengum því ekki okkar pappíra. Man ég ekki eftir að við tækjum það nærri okkur því meginmál kvöldsins varð hins vegar dansleikurinn sem hófst að hinni stuttu skólaslitaathöfn lokinni. Nokkurn blæ árshátíðarinnar, ´fyrsta des´, bar hún hvað formið snerti en nú þekktust skólahóparnir betur og gengu ákveðnar til verka. Spennufall prófa, auk vorsins sem í loftinu á, kallaði fram ómælda kæti er hjá sumum var vætt guðaveigum sem lífgað höfðu sálarylinn. Piltar, sem í skólann höfðu komið fáráðir, feimnir og hikandi, höfðu nú margir hverjir meira tak á veröldinni – höfðu numið ný lönd í ýmsum skilningi og voru því betur búnir undir framtíðina. Var það ekki enda tilgangurinn með skóladvölinni? Aðrir höfðu enn aukið á virðuleik sinn með hinum sérstæðu búfræðingshúfum, sem flestir er brautskrást skyldu, höfðu útvegað sér –svörtum glansdershúfum, með grænleitu bandi og merki skólans framan í: plógnum góða. Er leið á samkomuna mátti segja að hún bæri nokkurn blæ laugardagskvöldsins á Gili þar sem danslagið dunaði og svall og hér og hvar ískrað og pískrað, og áfengan ilm frá brekkum og grundum og túni og hlöðu lagði fyrir vit meðan hálfgagnsætt húmið féll á
Það kom eiginlega engin nótt. Samt hurfu gestir – þó ekki allir. Blásvalur gróandamorguninn varð ekki umflúinn og á Hvanneyrarhlað var mætt langferðabifreið Sæmundar og Valdimars að flytja útskriftarhóp í skólaferðalag. Vitanlega var búfræðingshúfan mishöll á einhverjum, og ferðarbúnaðurinn á mis vísum stað. Allur þorri hópsins var þó á stöðul bifreiðarinnar
mættur morgunhress í ferðahug. Hvernig átti líka annað að vera með unga og hrausta sveitamenn í blóma lífsins sem með prófpappíra upp á vasann biðu þess albúnir að þjóna þeim Frey og Freyju – að varpa sér á fullu út í ræktun lands og lýðs? Okkur hinum þótti gott að halla okkur á hljóðlegri vistinni og safna kröftun til verknámsins og þeirra fáu prófa er við vetrungar áttum ólokið.
Maívikurnar okkar þrjár á Hvanneyri liðu hratt. Skólareglur voru upp hafnar og við sinntum því sem okkur bar: gengum til prófa og til ýmissa verknámsþátta á verkstæði, túni og í görðum. Einhverjir félaga minna töldu sig þó hafa annað og þarfara við tímann að gera. Sjálfum fannst mér hið svonefnda verknám stórgaman: að fá að grípa í jarðýtu, ganga að jarðræktartilraunum með Magnúsi Óskarssyni eða garðyrkjustörfum í skrúðgarði skólans með honum Benedikt Guðlaugssyni í Víðigerði. Þá var heldur ekki ónýtt að læra til bílprófs hjá Gauja í Bæjarstæði, Guðjóni Bjarnasyni af Skaga. Og svo styrktust hin félagslegu bönd enn frekar. Böll voru sótt hverja helgi, og ungmennaástin lagði leið sína þvert um mína götu og sumra fleiri. Varð hún til þess að ég kvaddi Hvanneyri þarna í gróandanum með söknuði sem þó mildaðist nokkuð af hlökkun til að koma heim í vorið við Dýrafjörð . . .
Og áður en varði var ég síðla dags kominn með allt mitt heim að Kirkjubóli. Ég setti upp búfræðingshúfu mína. Með vissum hætti leit ég nú umhverfið mitt gamalkunna öðrum augum en áður. Kitlandi starfslöngun, sem ég ekki hafði fundið svo fyrir fyrr, fór um mig, hvort sem þú trúir því ekki. Mér fannst túnið, grösin og allur gróðurinn kalla á mig, og
Þessa mynd tók ég á heimleið með strandferðaskipinu líklega 21. maí 1962 þar sem við sigldum fyrir mynni Lokinhamradals. Bærinn Hrafnabjörg er á miðri mynd.
lambærnar líka þar sem þær dreifðust kyrrlátar um túnið í Tröðunum. Að hér væri við nóg að vera. Í huga mínum hafði ég þá þegar tekið ákvörðun um að læra meira um allt þetta.
Lítið atvik frá fyrsta síðkvöldinu hefur sest að í minningu minni: Komin var ný dráttarvél á bæinn; dísel-dráttarvél af gerðinni Farmall B-250, í sparnaðarskyni keypt notuð frá Bretlandi. Í heiðursskyni við þáverandi landbúnaðarráðherra, Ingólf Jónsson frá Hellu, sem taldi bændum hollt að gæta hófs í fjárfestingum, var dráttarvélin æ síðan kölluð Ingólfur Nú hafði hún orðið eldsneytislaus niður við Kirkjubólsá. Fór ekki í gang á ný þótt eldsneyti hefði verið á hana bætt. Var því frá henni gengið þar af þeim sökum. Mig langaði að skoða dráttarvélina og gengum við pabbi saman niður að ánni þar sem vélin stóð. Eftir nokkra umhugsun rifjaðist upp fyrir mér hvað Pétur kennari minn Haraldsson hafði kennt okkur um gangtruflanir díselvéla. Handdælu fann ég á olíuverkinu og með skiptilykli og skrúfum fékkst hráolían til þess að flæða á ný til mótorsins. Dráttarvélin skaust í gang.
Undir búfræðingshúfunni var það drjúgur og sigurglaður ökumaður sem ók dráttarvélinni heim þarna undir nóttina. Mennt var sýnilega máttur. Vorið með þungum gróðurilmi lék um vanga. Á beisli vélarinnar stóð pabbi. Eftir á að hyggja held ég að hann hafi verið enn stoltari. Ef til vill fékk hann það á tilfinninguna að framlag hans til menntunar sonarins hefði skilað sér þó að í litlu væri!
(Skrifað 1. janúar 2012)
II. kafli Námsvetur í „hinum norðlenska skóla“
Hér segir af atburðum vetrarins 1962-1963. Sá kafli lendir með
Hvanneyrarpistlum mínum sakir þess að þann vetur hélt ég áfram námi á vegum Hvanneyrarskóla þótt ekki væri það stundað á Hvanneyrarstað.
Í höfuðstað Norðurlands
Sumarið 1962 leið við glaðværð heima á Kirkjubóli. Engum búnaðarbyltingum hratt ég af stað heima með stoð í búfræðinámi mínu. Þó lagði ég út dálitla áburðarathugun að hvatningu úr verknáminu hjá Magnúsi Óskarssyni á Hvanneyri. Helsti árangur hennar var sú athygli er gestir á Kirkjubóli veittu gulum og rauðum merkihælum í hornum reitanna þar sem þeir lágu á honum Eilífi, ofan við heimreiðina. Í samtölum við gesti var ég drjúgur yfir þessum vísindum mínum. Þau urðu hins vegar sláttuvélinni að mestu að bráð þegar þegar að henni kom. Mig skorti nefnilega flest til eftirfylgninnar. Þá safnaði ég grösum úr túni og úthaga af mikilli elju, þurrkaði og greindi, með stoð í Flóru Íslands, sem ég hafði keypt af skólafélaga mínum á Hvanneyri, Bjarna Snæbjörnssyni frá Snæringsstöðum í Vatnsdal. Hefur mér æ síðan þótt sérstaklega vænt um þessa stórmerku bók Stefáns grasafræðings og skólameistara.
En handan við heyskap og fyrstu göngur er ég allt í einu kominn á tröppur Menntaskólans á Akureyri til þess að heilsa meistara hans, Þórarni Björnssyni. Mér féll strax afar vel við þennan lágvaxna mann. Úr framkomu hans og fasi öllu fann ég að mín hafði verið beðið og að ég væri velkominn. Hann hafði útvegað mér pláss í mötuneyti fullorðinnar konu þar við Eyrarlandsveginn rétt neðan við skólahúsið virðulega. Móðir mín hafði hins vegar leitað á náðir Ólafar kunningjakonu sinnar Guðmundsdóttur frá Hrauni í Keldudal, konu Bjarna úrsmiðs Jónssonar, um herbergi handa mér. Þau bjuggu við Byggðaveg nr. 111. Mér hafði því hvergi verið vísað í kot.
Ég þarf að segja þér nánar af erindum mínum þarna í höfuðstað Norðurlands. Í gleði minni yfir góðu námsgengi á Hvanneyri vorið áður hafði ég leitað eftir inngöngu í Framhaldsdeild Bændaskólans. Og fengið. Til undirbúnings þurfti ég eins og aðrir, sem ekki höfðu stúdentspróf, að taka eins vetrar undirbúningsnám, sem þá var vistað við Menntaskólann á Akureyri. Þar skyldu lesnar greinarnar íslenska, stærðfræði, enska og danska. Stærðfræðin miðaðist við máladeildarkröfur þeirra ára en tungumálin fremur við kröfur stærðfræðideildar. Þeir skólamennirnir Guðmundur á Hvanneyri og Þórarinn höfðu náð samkomulagi um þessa skipan. Svo (mér) eftirminnilega hefur Þórarinn orðað efnið að ég má til með að vitna beint í hann úr skólasögu MA: „Vildi skólinn gjarna verða við þeirri ósk [Guðmundar skólastjóra], svo marga mæta nemendur sem bændastétt landsins hefur sent þessum skóla frá upphafi.“1
Meðal æðri bekkja skólans!
Við vorum níu Hvanneyringarnir, sem þarna hófum nám, og einn Hólamaður. Námið féll óðar í sínar skorður. Við höfðum enga fasta kennslustofu heldur vorum hér og hvar um hið söguríka og notalega skólahús. Fór þá ekki hjá því að hópurinn okkar vekti athygli annarra nemenda þar sem leitaði stofu sinnar hverju sinni. Hópurinn var tolleraður eins og aðrir busar skólans, þótt nokkuð þyrfti fyrir þeim elstu og hraustustu úr hópi okkar að hafa. Náðust þeir raunar ekki.
Meistari sá til þess að vel færi um okkur í skólanum og að hópurinn nyti virðingar. Þannig fengum við t.d. að njóta aðkomufyrirlesara í náttúrufræðitímum fimmta bekkjar hjá Steindóri Steindórssyni, sem og að fljóta með sjöttubekkingum í Kvennaskólaboð að Laugalandi –þangað sem „æðri bekkjum skólans“ var boðið eins og það var orðað í skólablaðinu Muninn, að mig minnir. Undum við því vel okkar hlut við skólann og gengum keikir um ganga hans. Lengi vel.
Það varð mér þægileg uppgötvun hve vel ég bjó að náminu frá Núpi. Ég undanskil þá stærðfræðina, sem Hólmgeir Björnsson kenndi okkur, þá nýútskrifaður kandidat í búfræði frá Svíþjóð og starfsmaður Tilraunastöðvarinnar á Akureyri. Feikna mikill námsmaður og afburða stærðfræðingur Hólmgeir – og mjög virtur vísindamaður síðar á starfsævi sinni. Það dapurlega gerðist að mér þótti sem kennarinn og nemandinn væru ekki staddir í sömu kennslustofu. Það þótti fleirum. Reyndi ég þó, lengi vel, hvað ég gat til þess að eyða veggnum. Tungumálin voru mér léttari. Einkum var það íslenskan hjá Gísla Jónssyni sem varð mér opinberun. Á fjalltraustum grunni sr. Eiríks á Núpi byggði Gísli við kunnáttu mína með frábærri kennslu sinni. Flest lá opið og auðskilið. Mér fannst námið leikur sem ég hlakkaði jafnan til. Skipti þá engu þótt Gísli blessaður þyrfti stundum að stika leiðina frá dyrum að kennarapúlti vandlega út og stíga varlega til gólfs. Þegar hann hafði hagrætt jakka sínum og bindi, tyllt sér við borðið og efnt til stuttrar þagnar var ekkert að vanbúnaði. Þarna liðu einar bestu kennslustundir ævi minnar – og fátt efni hefur nýst mér betur. Mér þótti Gísli goði líkur. Óheppileg kynni utan kennslustofu löngu síðar megnuðu hreint ekki að raska þeirri minningu minni.
Geri ég nú áratugum seinna tilraun til þess að meta námsgildi þessa vetrar verð ég að viðurkenna að hefði ekki komið til íslenskukennsla Gísla Jónssonar teldist það næsta lítið. Eiginlega fannst mér útveturinn hálfgerð tímaeyðsla. Námið í ensku, dönsku og stærðfræði varð mér afar verðlítið, sumpart vegna þess að um sáralitla viðbót við nám mitt á Núpi varð að ræða og sumpart vegna misheppnaðrar kennslu. Vil ég þó síst draga úr þætti áhugaleysis míns og hyskni margar stundir, auk atburða sem gerðust á útmánuðum og ég vík brátt að.
Ég hafði aldrei búið í svo stóru þéttbýli fyrr. Akureyri kom mér notalega fyrir sjónir: Þessi mikli trjágróður í gamla bænum, stórverslanirnar við Hafnarstrætið og Borgarbíó, svo fátt eitt sé nefnt. Einhver stíll yfir öllu. Kannske kallaði einhver það hofmóð og borgaraskap. Skítt með það. Mér leið vel á margan máta. Það spillti ekki að eiga vinkonu frá vorinu áður sem nú var komin til starfa í bænum. Fleiri stöllur hennar frá Hvanneyri voru þar á sömu forsendum. Ballferðir inn í félagsheimilin Freyvang og Laugaborg, og inn Melum voru oft á dagskrá. Líka var skotist á KEA og í Alþýðuhúsið, þar sem Ingimar Eydal lék með hljómsveit sinni.
Margar góðar hljómsveitir voru þarna, m.a. tvær hörkugóðar í Menntaskólanum. Þetta var á tímanum á milli Prestleys og Shadows, og maður hafði á tilfinningunni að einhverjar breytingar lægju í loftinu. Vaxandi áhugi minn á gítarleik nærðist í þessu umhverfi. Stóra stundin varð er ég fyrir heppni náði í miða á eina af fyrstu sýningum kvikmyndarinnar 79 af stöðinni um haustið í Borgarbíói og heyrði lagið Vegir liggja til allra átta. Ég man enn hvernig lagið, gítarleikurinn og söngur Ellýjar snertu mig inn að beini. Enn í dag finnst mér verkið það flottasta sem gert hefur verið í þessu efni – langflottasta. En undir skammdegið tóku dagarnir samt að grána. Ekki megnuðu öll vorblóm lifa af norðlenskan vetur. Læt ég þá sögu liggja á milli hluta.
Uppreisn í Undirbúningsdeild
Lengi vel – skrifaði ég áðan, já. Ætli það hafi ekki verið bak jólum sem eitthvað los fór að koma á hópinn okkar. Umræður um framhaldsnám okkar ágerðust og þær raddir tóku að heyrast í hópnum að námið á Hvanneyri væri ekki alvöru búvísindanám – að við værum að eyða tíma okkar til lítils. Verður að minna á að þá höfðu lengi staðið deilur um framhaldsnámið á Hvanneyri. Stór hópur búvísindamanna, sem höfðu numið erlendis, og flestir störfuðu hjá Búnaðarfélagi Íslands, vildu þetta nám við Háskóla Íslands.2 Gerðu þeir lítið úr framhaldsnáminu á Hvanneyri. Grun hef ég um að einhverjir þeirra hafi haft áhrif
á félaga mína og átt þátt í því losi sem þarna kom á hópinn. Fúslega viðurkenni ég að þessi sjónarmið höfðu áhrif á mig. Los komst á tilveru mína um stund. Framtíðin sem ég hafði séð örugga var það ekki lengur.
Losið ágerðist og gáfu sumir í skyn að þeir mundu hætta námi og eftir hætti sækja erlendis til náms. Aðrir vildu þrauka enn í þeirri von að okkur yrði boðið til náms við Háskóla Íslands ef útfallið yrði að færa framhaldsnámið á Hvanneyri þangað. Námið var að mestu lagt til hliðar og umræður um stöðuna tóku mikinn tíma. Sjálfur átti ég erfitt með að gera upp hug minn. Nám erlendis freistaði mín ekki þá. Helst hallaðist ég að því að víkja af braut búfræðinnar og leita eftir inngöngu í hefðbundið nám við MA. Þar voru fyrir margir bestu skólafélaga minna úr landsprófi á Núpi. Skólaumhverfið í MA fannst mér líka heillandi: Bæði höfðaði saga þess mjög til mín með hefðum sínum og áðurnefnd kynni af íslenskunáminu löðuðu.
Svo kom að ekki var undan því vikist að ræða málin við Guðmund Jónsson skólastjóra á Hvanneyri, sem kallaður var norður. Hann kom ásamt Magnúsi Óskarssyni og kallaði okkur til fundar á Hótel KEA. Ég hafði valist til þess að hafa orð fyrir hópnum í fyrstu. Ég reyndi að viðra helstu sjónarmið sem voru uppi í hópnum. Stressaður var ég í meira lagi. Hins vegar sagði einn félaga minna við mig á eftir að ég hefði verið „harður við karlinn“. Kom mér það óþægilega því Guðmundi skólastjóra átti ég bara gott upp að inna.
Umræður urðu ekki miklar á fundinum, að ég minnist. Ég held að flestir hafi gengið til hans með þegar tekna ákvörðun, nema ef til vill ég. Lauk honum svo að fimm úr hópnum lýstu því yfir að þeir væru horfnir frá undirbúningsnáminu. Aðrir sögðu fátt. Guðmundur skólastjóri gerði, að ég best man, enga tilraun til þess að telja fimm-menningunum hughvarf. Þeir yfirgáfu fundinn sem þar með leystist upp. Við hinir fimm stóðum eftir. Hver með sínum hætti gaf til kynna að hann vildi þrauka. Það staðfesti ég líka við Guðmund og Magnús, þar sem við stóðum þrír eftir á hótelganginum. Fannst mér þá að ég hefði í raun allan tímann verið ráðinn í því að halda óbreyttu striki. Það var þrátt fyrir allt eitthvað við búfræðinámið
á Hvanneyri sem heillaði mig.
2 Sjá t.d. Vísindin efla alla dáð. Háskóli Íslands 1911-1961 (1961). [Ritnefnd Kristján Eldjárn, Ólafur Bjarnason, Sigurður Þórarinsson]. Sjá þar: Halldór Pálsson : Tilrauna- og rannsóknamál landbúnaðarins, bls. 256-290, og Ólafur Stefánsson: Þróun búvísinda og hlutverk háskóla í æðri búnaðarmenntun, bls. 296-306.
Áfram hélt námið en mikið hafði breyst: Eftir stóð fámennur og sundurleitur hópur. Vinabönd
höfðu rofnað. Þótt hópurinn væri samviskusamur og sýndi þokkalegan námsárangur bæði í undirbúningsdeild MA og ekki síður eftir að aftur kom að Hvanneyri skorti hann samstöðu um flest. Einstaklingarnir, sem hann mynduðu, voru of ólíkir. Það einkenni hópsins ágerðist eftir því sem á námið leið. Ég sá á bak góðum skólafélögum, en dreifði huganum með því að reyna að ná aftur fullum tökum á náminu. Það tókst mér þó illa og raunar ekki. Það létti mér ögn tilveruna að fá tímabundna vinnu með náminu í ullarverksmiðju Gefjunar á Gleráreyrum. Í krónum talið slapp ég því betur frá vetrinum en ella hefði orðið. Feginn varð ég þó síðasta vinnudegi mínum þar á eyrunum. Ég hafði þá fundið að ég var afar lélegt efni í iðnverkamann.
Mér hefur oft síðan verið hugsað til ´uppreisnarinnar á Akureyri´: Hún varð framhaldsnáminu á Hvanneyri áfall. Hún hefði auðveldlega getað riðið því að fullu andstæðingum þess í búnaðarstofnununum í Reykjavík eflaust til einhverrar gleði. Síðar átti ég eftir að kynnast viðhorfum nokkurra þeirra til Hvanneyrar og Hvanneyrarnámsins nánar. En tíminn vann með Guðmundi á Hvanneyri og þess nutum við. Mér er það hins vegar undrunarefni hve áhyggjulítið og yfirvegað Guðmundur tók upphlaupinu. Þó var Framhaldsdeildin stærsti draumur hans, að ég tel. Í dagbók Guðmundar hef ég séð færslu hans fundardaginn og daga á eftir. Þar stendur aðeins:
22.[febr.] Fór til Akureyrar að tala við væntanl. nem. Framh.d. En þeir[eru] þar alls 10, en 5 þeirra munu hætta við búfræðinám, sumpart af því þeim finnst Hve.menntun ekki nægilega örugg.
23. Kom heim um kvöldið.
24. Kjördæmisráðsf. í Borgarnesi ...3
Með ögun sinni eða afslappaðri einlægni mætti hann þessum degi eins og öðrum. Ef til vill vissi hann að hættan, þótt nokkur sýndist vera þarna á KEA-fundi okkar, mundi líða hjá, að hún mundi ekki raska meginmarkmiðum hans.
Tvennt varð mér líklega meiri styrkur en annað í því að gera upp hug minn, auk fundarins
þar á KEA: Annars vegar voru það fræðandi bréfaskipti mín við Matthías Eggertsson,
m.a. um búnaðarnám við norska landbúnaðarháskólann en Matthías var þá nýkominn til tilraunastjórastarfa á Skriðuklaustri frá háskólanámi að Ási í Noregi. Hins vegar voru það hvassar samræður við Bjarna úrsmið Jónsson, leigusala minn, sem vildi vita af hverju hópurinn kysi að hætta námi. Hvort tveggja krafðist þess að ég hugleiddi og setti fram sjónarmið mín í málinu.
Hér mundi eiga við sú gamalgróna setning: Var nú allt kyrrt um hríð og leið svo af veturinn. Fyrstu dagana í maí gengum við fimmmenningarnir til prófa. Mér gekk allvel í tungumálunum en miður í stærðfræði. Í henni fékk ég að taka munnlegt próf svo ég gæti náð skipsferð heim í Dýrafjörð. Er ég leitaði eftir heimild til þess við Hólmgeir, kennara minn, spurði hann mig í mikilli einlægni um stærðfræðikunnáttu mína þar sem við sátum saman í blöðru-Skoda hans á Eyrarlandsveginum: Kanntu nokkuð? Fyrir spurningu Hólmgeirs voru nefnileg öll tilefni.
Atvik á Akureyri
Veran á Akureyri varð mér minnisstæð um margt. Ég nefni aðeins nokkur atriði er í huga mínum fundu sér varanlegt ból:
Kvöld eitt í febrúar var ég genginn til náða í herbergi mínu. Var rétt í þann mund að festa blund. Ríður þá yfir hark mikið og rúm mitt kastast til. Það brakaði mjög í húsinu og undarlegur dynur fór fyrir harkinu. Mér brá illa en hélt þó kyrru fyrir. Ég heyrði að Ólöf, húsmóðir mín, kallaði nafn mitt. Ég þóttist sofa; var þá ekki búinn að læra þau frumatriði bragða við jarðskjálfta – að koma mér strax út. Stund var ég að sofna þótt kyrrðist yfir. Morguninn eftir fréttist að stór jarðskjálfti hefði orðið á Grímseyjarsundi. Ég hafði aldrei upplifað jarðskjálfta fyrr. Fannst það satt að segja ekki eftirsóknarvert eftir þessa frumreynslu.
Já, hann Bjarni úrsmiður. Ég kynntist honum lítið þótt væri ég undir þaki hans í heilan vetur. Hann reis árla til verka, hélt til úrsmíðaverkstæðis síns í Hafnarstrætinu og stundaði verk sín þar af elju og kostgæfni. Það bar hins vegar þannig til stundum á laugardögum að hann gekk til laugar. Baðkar stóð á hálfinnréttuðu loftinu skammt undan herbergi mínu. Það var afmarkað með þunnu tjaldi. Góðan tíma tók Bjarni úrsmiður til baðferðar sinnar, bæði undirbúnings og framkvæmdar. Ég lærði það fljótt að hluti af undirbúningnum var það að nafni kom sér í sérstaka stemningu. Sitjandi í kerlauginni runnu af munni hans kvæði og vísur í stríðum straumum sem hann flutti hátt og snjallt við hljóðlátt gutl baðvatnsins. Lærði ég brátt að þar fóru bæði eldri kvæði hans og vísur sem hrutu honum af munni þar sem hann naut laugarinnar. Um tíma kunni hann víst vel að meta vín. Eignaðist land handan Eyjafjarðar og ákvað, líklega í iðrunarskyni, að setja þar niður eitt tré fyrir hvert fyllerí. Og nú er þar kominn heill skógur, sagði nafni.
Fundir Bændaklúbbs
Eyjafjarðar voru okkur góð tilbreyting. (Úr blaðinu Íslendingur).
Sólbjartan laugardag í mars tókum við okkur félagarnir fimm til og heimsóttum
Tilraunastöðina, tilraunafjósið að Galtalæk innan við Akureyri og Kynbótastöðina að Lundi. Okkur var tekið afar vinsamlega og við fræddir um starfsemina á þessum stöðum. Að Galtalæk vorum við í hópi með Hólasveinum í sömu erindagerðum með skólastjóra sínum, Árna G. Péturssyni. Hann
hafði tekið við skólanum er örendi Gunnars
Bjarnasonar þraut eftir skamma stjórnartíð. Minnist ég Árna helst þarna fyrir það að leita eftir píputóbaki hjá nemendum sínum
því sjálfur var hann orðinn uppiskroppa af því. Mér fannst kynnisferð þessi verða ákaflega hvetjandi og fróðleg, enda búfræðiumhverfið við Eyjafjörð býsna öflugt og aflögufært um margt á þessum árum.
Og þá má ég ekki gleyma Bændaklúbbsfundunum á Hótel KEA. Á þeim árum voru þeir fastur liður á vetrardagskrá eyfirskra bænda. Fengnir voru fyrirlesarar til vel sóttra kvöldfunda þar sem umræður urðu gjarnan mikla. Við félagarnir flestir sóttum þessa fundi reglulega og höfðum bæði gagn og gaman að. Þetta var eins konar búnaðarakademía, sem ég er sannfærður um að mikil áhrif hafði í héraðinu bæði í faglegu og félagslegu tilliti. Af mönnum sem þarna bar á og minnisstæðir urðu nefni ég Ólaf tilraunastjóra Jónsson, Jónas mjólkurbússtjóra Kristjánsson, Ármann Dalmannsson og bændurna Aðalstein í Flögu og Emil Pedersen í Klauf. Fundir Bændaklúbbsins urðu ekki til þess að minnka áhuga minn á ýmsum búnaðarmálum.
Sumarið sextíuogþrjú
Framundan var síðasta heila sumarið mitt heima á Kirkjubóli. Það leið við heyskap og önnur skemmtileg bústörf. Ég átti orðið nokkrar kindur og taldi mér trú um að ég væri að vinna fyrir þeim. Ekki spillti að kominn var splunkunýr Land-Rover á bæinn og ég svo heppinn að vera sá eini á heimilinu er þar hafði bílpróf. Hvoru tveggja fylgdu hlunnindi, sem ég mat mikils.
Ekkert heyrði lengi sumars ég um árangur prófa við MA. Um göngur hafði ég mig í það að leita eftir því hjá Guðmundi skólastjóra hvort komast mundi í Framhaldsdeild þá um haustið. Kom þá svarskeyti hans er bauð mig velkominn til náms á Hvanneyri. Mér hlýnaði
Haldið suður að Hvanneyri í október-byrjun 1963 með áætlunarbifreið Vestfjarðaleiðar. Fram undan var nám í Framhaldsdeildinni þar. Auk hefðbundins farangurs var Framus-rafgítar með í för. Hann átti eftir að koma mér vel.
um hjartarætur. Löngu seinna frétti ég af tilviljun að í einkunnum hafði ég líka notið hins góða undirbúnings frá Núpi. Félagar mínir höfðu ekki verið jafn heppnir.
Einhvern fyrsta daginn í október 1963 axlaði ég því mín skinn, kvaddi foreldra mína, systkini og frændfólk heima á Kirkjubóli og hélt suður með áætlunarbifreið Vestfjarðaleiðar.
Hvanneyri var mér ekki lengur framandi staður. Svei mér bara ef ég ekki hlakkaði til þess að hefja þar nám að nýju. Bílveikin lét mig að mestu í friði að þessu sinni . . .
(Skrifað 1. janúar 2012 og lagfært 16. mars 2017)
III. kafli
Sumardagar á Hvanneyri fyrir sextíu árum
Eftirfarandi kafla er ekki jafn auðvelt að festa í almanakið og kaflana hér næst á undan. Um er að ræða nokkur minni frá sumrunum 1964, 1965 og 1966. Þá starfaði ég sem aðstoðarmaður við verktæknitilraunir og búvélaprófanir Verkfæranefndar ríkisins. Nefndin hafði aðstöðu á Hvanneyri. Hún var í daglegu stússi hluti af fjölbreyttu starfi Bændaskólans þar þótt sjálfstæð væri hvað fjárhag og rekstur snerti.
Sumarannir
Klukkan er að verða níu að morgni því sólina ber yfir Skorradalinn. Hvanneyrarkýrnar, sjálfsagt einar sextíu, eru að silast út úr fjósinu, koma út í gegnum kálfafjósið upp á hlaðið, og það er nýlega búið að slökkva á mjaltavélamótornum. Varlega stika þær norður veginn, nú eða niður í Kinn, gjarnan áleiðis niður á Engjar, og á eftir þeim rekur einn af kúskunum. Hlutverk hans er að fara með kusurnar á beit, og sækja þær aftur að kvöldi. Sé langt að fara með þær fær hann hest undir sig. Það er Bús-Bleikur, síðasti vinnuhesturinn á búinu. Enga hugmynd hafði ég um aldur hans á þessum árum, vissi aðeins að hann var orðinn mjög gamall. Þetta er hans eina hlutverk núorðið. Mjólkurbíllinn kominn og farinn fyrir stundu, og brúsaglamrið þagnað. Utan úr Skóla [Gamla skóla] tínast strákar á ýmum aldri og ganga til morgunverðar í borðsal mötuneytisins í skólastjórahúsinu, misjafnlega vel vaknaðir. Hafragrautur, mjólk og brauð og að sjálfsögðu kaffi. Staðurinn er hægt og sígandi að lifna.
Það er hlaðið fyrir framan Verkfærahúsið (Hjartarfjós) sem verður miðpunkturinn, eins konar þingstaður morgunsins. Þar koma flestir saman í upphafi vinnudags. Eiginlega eru þar og í næsta nágrenni á ferð nokkrir hópar manna misstórir og með mismunandi hlutverk:
Til fjósverka upp úr kl. sex höfðu gengið tveir þrír menn, þar af kúskurinn er sótti kýrnar. Fjósamenn á Hvanneyri voru vegna eðlis verka sinna í nokkrum sér flokki, unnu út af fyrir sig, þótt fyrir kæmi að þeir gripu í heyverk, lægi mikið við.
Búsmenn kölluðum við þá mörgu sem gengu til almennra útiverka, svo sem jarðyrkju, heyverka og viðhaldsvinnu. Hópinn mynduðu tveir þrír öflugir strákar, gjarnan um tvítugt, fullfærir til flestra verka sem vinna þurfti. Síðan voru það kúskarnir er svo voru kallaðir, unglingsstrákar, fimmtán sextán ára eða svo, er voru í ýmsum aðstoðarverkum en mest þó við að aka minni dráttarvélunum. Vart þarf að taka fram að á þessum tíma voru vinnuhestarnir horfnir fyrir meira en einum og hálfum áratug og einar sjö átta dráttarvélar af ýmsum gerðum og stærðum komnar í þeirra stað. Eins var það með aldur kúskanna, sumir voru við það að geta talist fullgildir kaupamenn en aðrir voru að „keppa upp fyrir sig“ í aldri. Sammerkt var þó flestum að hafa verið eða verða fleiri en eitt sumar að störfum á Hvanneyri. Þessum hópi stjórnaði Guðmundur ráðsmaður Jóhannesson og hafði í mörg horn að líta.
Sýndi hann fádæma snilli í því að finna öllum verkefni við hæfi, hvort heldur þurrkdagur var ellegar væta, og að líta eftir því að verkin væru unnin af sæmilegri samviskusemi.
Sérstaka deild starfsmanna myndaði Halli smiður, Haraldur Sigurjónsson staðarsmiður á járn en þó einkum tré. Starfsheitið lýsir verksviði hans. Með sér hafði Haraldur jafnan aðstoðarmann á þessum árum, sem var Finnbogi Arndal. Þeir unnu einir og sér að ýmsum viðhalds- og nýsmíðaverkum fyrir skólann og bú hans.
Þá voru það tilraunamenn er við nefndum svo. Það var flokkur Magnúsar Óskarssonar tilraunastjóra og kennara. Með honum unnu einn tveir kennarar, gjarnan þeir Óttar Geirsson og Jón Snæbjörnsson. Flesta daga og þá oftast eftir hádegið var Magnús hins vegar sem Arabahöfðingi, því í lið hans höfðu þá bæst stúlkur til aðstoðar við störf að jarðræktartilraununum, slátt tilraunareita, gróðurmælingar o.fl. Gjarnan var þar ein stúlka sem einnig vann á rannsóknastofu skólans á Fjósloftinu, og svo voru það staðarfrúr er gripu í þessi verk sem sumarstörf. Hanna Frímannsdóttir réði ríkjum á rannsóknastofunni. Má ég þá ekki nefna það að tilraunastörfin hjá Magnúsi voru líklega fyrstu launuðu störfin utan heimilis sem kennarakonur og fleiri konur í þessu annars mjög karllæga samfélagi stunduðu svo að einhverju nam. Tilraunamenn áttu töluvert saman að sælda við Guðmund ráðsmann og menn hans. Það gat snúist um lán á dráttarvél eða manni til verka, nú eða ákvörðun um slátt tilrauna sem voru á spildu er þá þurfti að slá og hirða af. . .
Loks var það Ólafur Guðmundsson og menn hans hjá Verkfæranefnd. Þar var unnið að prófunum búvéla og ýmsum verkháttatilraunum. Með Ólafi var á þessum einn aðstoðarmaður, skrifarinn, og kúskur af þroskaðri gerðinni. Mikið samráð og samstarf varð þessi hópur að hafa við Guðmund ráðsmann og lið hans því með vélum, sem í prófun voru, var unnið að almennum störfum á Hvanneyrarbúinu, ekki síst heyskap. Misjafnt var hvort þessar vélar og stússið í kringum þær flýtti verkum eða létti, en ekki man ég eftir æðruorði frá Guðmundi ráðsmanni þar upp á, svo áhugasamur var hann um þessa starfsemi.
En ekki má ég gleyma eldhússliðinu. Til sumarmötuneytis skólans gengu dag hvern margir eins og ráða má af upptalningunni hér að framan. Þá var gestagangur töluverður. Ætli það hafi ekki verið einar fjórar fimm stúlkur sem með ráðskonu skólans gengu til matargerðar, þar með talið baksturs, og þvotta dag hvern. Svo var stúlka á símanum, eins og það hét. Á Hvanneyri var þá og hafði verið lengi, landssímastöð, sem opin var morgna (kl. 9-12) og síðdegis (kl. 16-18).
Ótaldir eru þá menn sem í störfum sínum tengdust búi og skóla með einum hætti eða öðrum án þess að þó að heyra undir hann. Þeir unnu til dæmis verk fyrir skólann eða höfðu þar starfsog eða dvalaraðstöðu. Þar nefni ég til dæmis Þórhall rafvirkja Þórarinsson, sr. Guðmund sóknarprest, Þorsteinsson, sæðingamennina Diðrik Jóhannsson og Ófeig Gestsson. Einnig aðrir starfsmenn á vegum Búnaðarsambandsins svo og iðnaðarmenn, sem komu vegna tilfallandi verkefna. Þar var hvað tíðast að störfum Ríkharður Jónsson málarmeistari af Akranesi með mönnum sínum.
Nú má draga nös í frásögninni og fara í dálitla útreikninga að hætti Guðmundar þáverandi skólastjóra Jónssonar. Ég reyni nefnilega að áætla eftir minni mínu fjölda fólks sem að verkum, með einum eða öðrum hætti, kom á Hvanneyrartorfunni einn sumardag um miðbik sjöunda áratugarins:
Þannig gæti það hafa verið vel á þriðja tug manna sem kom við sögu. Var því síst að undra að líflegt væri í kringum Hvanneyrarhlaðið og í borðsal á matmálstímum. Hinir eiginlegu vinnustaðir urðu mismargir eftir verkum hverju sinni. Með tilkomu Nýja verkfærahússins 1963 varð það öflug miðstöð margra starfa þarna við hlaðið. Kynni með mönnum urðu því náin og vissu flestir af hinum og því hvaða verkefni þeir glímdu við. - ooo -
Sú morgunsinfónía er flestir vöknuðu við á skólastaðnum var hávært suðið í mjaltavélarmótornum í fjósinu og koma mjólkurbílsins úr Borgarnesi. Gnýrinn frá súgþurrkunarblásaranum stóra var dimmur og þungur en barst ekki eins vel um hlöðin. Upp úr klukkan níu höfðu flestir búsmenn safnast saman framan við gamla verkfærahúsið, eins og fyrr sagði, þar sem Ráðsi, eins og Guðmundur Jóhannesson ráðsmaður var jafnan kallaður, skipaði mönnum til verka. Skammt undan var þá stundum Haraldur smiður sem skaut gjarnan hvössum athugasemdum inn í samræðuna. Af formlegri kurteisi bar Magnús Óskarsson stundum fram ósk um aðstoð af einhverju slagi. Ráðsi notaði þá gjarnan tækifærið til þess
að stríða honum lítillega en varð síðan að sjálfsögðu möglunarlaust við ósk hans. Stundum bar Ólaf
Guðmundsson að líka. Honum stríddi Ráðsi aldrei, þeir þurftu ekki mörg orð til samskipta. Það bara varð er báðir vildu.
Og svo var farið að starta, snúa eða draga í gang dráttarvélar sem með
mismiklum drunum héldu
til verka úti á túni eða niðri á
Fit og Engjum. Nær daglegt
brauð var það að biluð búvél stæði fyrir verkstæðisdyrum eða þar inni. Oft dugði Ráðsa að segja einhverjum lagtækum kúskinum til verka við viðgerðirnar. Liður í því gat verið skipunin „Farðu suðrí Helvíti og sæktu . . .“ og síðan kom lýsing á grip, er sækja átti, og hvar væri, en Helvíti var haugur með gömlu og aflóga véladóti austanvert í Tungutúnsborginni. Þar var ótæmandi náma varahluta og smíðaaefnis. Líka gat hann sagt „Teininn áðað . . .“ Það merkti að bilunin skyldi lagfærð með rafsuðunni. Það reið á að vera snöggur að gera við því oft var mikið undir. Væri um meiri háttar viðgerðir að ræða voru þær settar í hendur Haraldi smið eða öðrum búsmanni sem vel kunni til viðgerðanna.
Og hægt og sígandi hófst þessi sumarópera staðarins. Það sást víða um Hvanneyrarland til manna og véla. Allt þokaðist áfram einhvern veginn. Stjórnandinn, Ráðsi, ók á milli helstu vinnustaða og leit eftir, á grænhvítum nýlegum Landrover, M-121, en stundum á reiðhjóli sínu, sem hann um tíma datt ofan á að nota. Með kátlegum og stríðniskenndum athugasemdum hvatti hann lið sitt en ef honum mislíkaði sagði hann fátt en meitlað. Kunnugir lásu líka úr svip hans.
En svo voru líka margir smáþættir í þessari óperu: Til dæmis árla dags er sjá mátti hann Diðrik Jóhannsson í gráum sloppi sínum skjótast úr fjósi niður í fjóskjallara með gerfi-skuðina, búinn að tappa sæði af öðru kynbótanautanna nyrst í Hvanneyrarfjósi [Halldórsfjósi]. Í kjallaranum var nefnilega sæðingastöð Búnaðarsambandsins þar sem Diðrik rannsakaði og útbjó sæðisskammta dagsins. Fyrir utan stóðu sæðingabílarnir tilbúnir til aksturs út um sveitir eftir að sæðingapantanirnar höfðu borist um Hvanneyrarsímstöðina. Upp úr klukkan tíu héldu þeir af stað sæðingamennirnir, Diðrik og Ófeigur, annar upp um sveitir, hinn út fyrir Heiði. Þá voru enn kýr á flestum bæjum.
Úti á tilraunalöndunum gekk Magnús Óskarsson til starfa með sínu fólki. Þar skiptu tilraunareitirnir hundruðum auk þeirra er voru í dreifðum tilraunum víða um sveitir. Á þessum árum var verið að stækka Hvanneyrartúnið með nýrækt ár hvert. Nýræktarspildurnar fékk Magnús gjarnan til tilrauna fyrstu ræktunarárin. Fyrstu löndin, sem Magnús nam, voru úti við Ausulæk, mig minnir að þar heiti í Lækjarbotnum. Af vísindalegri nákvæmni nefndi Magnús spildurnar þar A-land, B-land og C-land. Síðan var tekið til á nýræktarspildum úti við Vatnshamravatn. Þá var upp runnið rómantískt skeið í nafngiftum Magnúsar og til urðu Hönnuvellir, Boggubali o.fl. Nöfnin voru sótt í heiti stúlknanna sem aðstoðuðu við tilraunastörfin. Loks var ræktað heimantil við gamla þjóðveginn en það var þegar hörmungar heimsins höfðu tekið að sækja á í heimsfréttum og í huga tilraunastjórans, undir lok sjöunda áratugarins, enda báru spildunöfnin þess skýr merki: Angóla, Biafra, Cúba, Dahomei, Eritrea. Magnús ferðaðist oftast á milli staða með sitt fólk á vinnuvélinni, Agríu, smádráttarvél á tveimur hjólum með kerru. Hún vakti jafnan kátleg viðbrögð hjá gestum sem á staðinn komu, svo sérstæð þótti dráttarvélin.
Ólafur Guðmundsson myndaði hinn hvika þátt staðaróperunnar: Mörg tæki voru jafnan í prófun og því þurfti að skapa þeim viðeigandi aðstöðu svo mæla mætti og meta eigindir þeirra. Það gat verið prófun á áburðardreifara á Melnum norður við hlið, mjaltavél eða annað tæki til hirðingar kúa í fjósi, sláttuvél úti á túni, blásari heima við Hvanneyrarhlöðu ellegar súgþurrkunar- og votheysgerðar-tilraunir norður í „Byggingu“ eins og mannvirkið í Þórulág kallaðist þá. Alltaf gætti hann þess að leita samráðs og samstarfs við Ráðsa, sem oftar en ekki lagði sitt til þess að vel tókst til og hugvitsamlega. Ólafur hafði gráhvítan Landroverjeppa til starfans, M-436.
Sérstakur hátíðleikur fannst mér færast yfir þegar sr. Guðmundur á Staðarhóli kom akandi norðan heimreiðina með ótrúlega hvellum hljóðum litlu Deutz-vélarinnar er hann átti. Var hann þá gjarnan að fá eitthvað lagað á verkstæði skólans. Ráðsi tók honum alltaf með djarflegu spjalli þar sem hann vék stríðnislega að hæfni prestsins í tæknilegum efnum og fleiru í þeim dúr. En góðmennið sr. Guðmundur brosti bara og blessaði nafna sinn fyrir hjálpina, sem hann vissi að meinti fátt með orðum sínum. Þetta var háttur Ráðsa til þess að tjá vináttu sína gagnvart sr. Guðmundi sóknarpresti, sem mikils álits naut á Hvanneyri, og raunar í öllu kalli sínu.
Og einhvern veginn vatt sumardeginum fram. Hádegisverðurinn með sínu hléi, kl. 12-13, var óðar kominn. Var ekki kaffið um kl. 15.30 og síðan unnið til kl. 19 á búinu og líka hjá Verkfæranefnd? Jú, örugglega. Mig minnir að tilraunamenn hafi alltaf lokið verkum kl. 18. Á laugardögum var gjarnan unnið til hádegis, nema ef um heyskap var að ræða, þá var þörfin látin ráða vinnutíma.
Hér má ég geta þess að það mun hafa verið tíð venja að einn virkan dag á sumri bauð Bændaskólinn staðarbúum öllum til hádegisverðar. Þá hafði verið sóttur lax inn í Ferjukot, en bændur þar önnuðust Hvanneyrarlagnirnar í Hvítá. Mig minnir að á eftir hafi verið borðað skyr. Mikið nýnæmi þótti af laxinum sem ekki var á borðum í annan tíma, enda þá í háu verði. Guðmundur skólastjóri stýrði samkvæminu af léttleika og persónubundnum formlegheitum sínum. Man ég hve gott mér þótti þá „að vera með honum í liði.“ Þetta voru hátíðlegar máltíðir og eftirminnilegar. Þær skerptu samkennd staðarmanna.
Guðmundur skólastjóri skipti sér lítt af daglegum verkum flokkanna sem ég nefndi. Iðulega kom hann þó og hitti menn að máli. Meira var um það að hann kallaði til sín þá er hann átti erindi við, einkum Guðmund ráðsmann. Guðmundur skólastjóri leiddi þó oft gesti sína um hús og hlöð þar sem menn voru að störfum. Gerði hann þá sjaldan minna úr hlutverki og mikilvægi viðkomandi starfsmanns en efni stóðu til. Tvisvar man ég eftir að Guðmundur skólastjóri skipaði fyrir um heyverk að morgni í fjarveru ráðsmanns. Í annað skiptið tókst ekki betur til en svo að við fengum hraustlega ofan í mikið af þurrlegu heyi síðdegis. Þau hafa svo sem verið örlög margra stórhuga heyskaparmanna. . .
Gestirnir já. Það voru gjarnan fjölskylduvinir skólastjórahjónanna, en svo komu af og til erlendir gestir. Einkum búnaðarmenn af ýmsum sviðum, því Guðmundur hélt upp miklum tengslum við norræna kollega. Það var styrkur hans. Svo var það líka til að um nokkurn tíma dveldu á Hvanneyri erlendir fræðimenn við sérstakar rannsóknir í bú- og náttúrufræðum. Það var einkum Magnús Óskarsson sem sinnti þeim, enda áhugi hans á rannsóknum og faglegri samræðu sem og þekking í þeim efnum fjölbreytt og mikil.
Umfangsmeiri gestakomur sköpuðu vel þegna tilbreytingu í rás daganna, þótt stundum kostuðu röskleg átök í tiltekt og hlaðpússun. Það gat verið fjölmenn bændaför, starfshópar eða ráðstefnugestir úr Reykjavík, nú ellegar nemendaárgangar að fagna áraáföngum sínum.
Líka má ég geta þess að nokkrir erlendir ungir menn réðust til starfa á Hvanneyrarbúinu sumarlangt. Mun hafa verið fyrir því all löng hefð. Um tíma var t.d. í gildi sérstakur samningur um ráðningu tveggja manna frá þýskum búnaðarskóla (í Husum) hvert sumar. Reyndust þeir afar verkhæfir starfsmenn er féllu flestir vel inn í Íslendingahópinn.
Sjaldan var unnið eftir kvöldmat nema verið væri að bjarga heyjum undan vætu, með hirðingu eða samantekt
í sæti. Engjaheyskapurinn gat líka verið kappverk við flóð ef þannig stóð á sjó. Kvöldin áttu menn því fyrir sig. Tíminn var nýttur til þess að fara í bað og „gufu“
út í Leikfimihús, liggja í leti eða skjótast í fótbolta eða til annarra íþrótta. Sjónvarp var ekki komið til sögu.
Bíla áttu sárafáir, en þeir sem áttu nutu vinsælda. Á þeim var skotist upp í Hreppslaug, til fótboltaæfinga á Flókubökkum eða þess sem var hvað vinsælast, inn í Hvítárvallaskála.
Bíóferðir í Borgarnes komu líka fyrir. Helgarnar voru sérstakur tíma með böllum hvern laugardag í einhverju nálægra félagsheimila. Og hestamannamótin í Faxaborg hvert sumar sköpðu umtalverða tilbreytingu.
Skólahúsið, nú Gamli skólinn, var dvalarstaður flesta sumarstarfsmannanna, yngri sem eldri. Ekki var minnsta tilraun gerð til þess að líta eftir lífi og háttum manna þar, eins og gerðist á skólatíma. Skólinn varð eins konar verbúð og umgengni manna í samræmi við það. Ég man
þó ekki betur en að tilveran þar gengi vandræðalítið fyrir sig þótt sjaldan væru gólf skúruð og umbúnaður rúma að morgni dags færi alla vega.
Samkvæmis- og ástalíf gat orðið fjölbreytt og stöku menn neyttu helgarveiga sinna þar, ýmist einir eða í glaðværum gestahópi, oft í kringum vel heppnaða ballferð. Þannig bar það við á sunnudögum að til hádegisverðar komu ókunnar dömur sem þegið höfðu boð einhverra heimamanna um athvarf er nóttin skall skyndilega á. Athafnirnar settu mis skýr mörk á umhverfi og húsbúnað eins og gengur. Allt var það lagað og leyst þegar kom fram í september. Þá fór Haraldur smiður yfir herbergin með áhöldum sínum og verklagni og á eftir kom Ríkharður málari og þá fótboltastjarna á landsvísu með farva og pensla. Þegar fyrstu nemendur Bændaskólans mættu í öndverðum október gljáði því flest þar úti og angaði af sterkri málningu svo nýnemar fengu þá tilfinningu að koma þeirra hefði verið undirbúin af kostgæfni. Sem hún var.
En svo leið á slátt og það fór að dimma á kvöldin. Slegnum túnum og engjaspildum fjölgaði og hlöður fylltust. Töðuilm síðsumarsins, sem stundum hafði örlítinn ornunarkeim, tók að leggja yfir staðinn og við hlöðuop og vegaslóða lágu gulnandi heydreifar sem orðið höfðu til í hamagangi heimaksturs og hirðingar. Tilraunareitir voru slegnir og alhirtir.
Nýju vélarnar höfðu fengið á sig slit og lúa prófananna. Það tók að slá haustblæ á gróður
og í starfmannahópnum fækkaði. Margir hurfu um mánaðamótin ágúst-september og er á september leið voru aðeins þeir eftir sem töldust fastamenn eða hugðust leggja lið við göngur og réttir.
Sumardagar á Hvanneyri um miðjan sjöunda áratuginn einkenndust af margmenni og fjölbreyttu starfi víða um staðinn. Líf var og fjör, enda margt af ungu fólki að störfum. Ef til vill var hin búvísindalega nákvæmni ekki alltaf höfð í heiðri í búrekstrinum ellegar hrífa og sópur ofnotuð á sumum starfstöðvunum. En miklu var komið af á þessu þá einu stærsta búi landsins. Mjög reyndi á allan vélakost, bæði vegna misgóðra ökumanna og erfiðra aðstæða t.d. á engjalöndum staðarins. Á hina hliðina var unnið að rannsókna- og þróunarstörfum, einkum á sviði búvéla, ræktunar og verktækni sem vakti forvitni margra og styrkti skólann og fræðslustarf hans. Mátti heita að skólastaðurinn væri leiðandi á því sviði um þær mundir.
Í ljósi þess hve margar og misjafnar vélar, sumar aflmiklar, komu við sögu, oft í höndum viðvaninga og innan um fjölda fólks, má kalla það guðsþakkarvert að ekki skyldu verða fleiri óhöpp og slys við búreksturinn en raun bar vitni. Ég man aðeins eftir einu alvarlegu vinnuslysi tengdu honum.
En „nú er söngurinn hljóður og horfinn“: Margmenni er ekki lengur á Hvanneyrarhlaði á virkum sumardagsmorgni, mjaltavélarmótorinn í Halldórsfjósi er þagnaður og súgþurrkunarblásarinn stóri einnig. Tilraunareitum hefur stórlega fækkað með breyttum og nútímavæddum verkháttum við jarðræktartilraunir. Nýjar búvélar koma ekki lengur til formlegrar prófunar. Upp er runnin ný og breytt tíð. Þarfir eru breyttar og viðhorfin önnur. Fátt er eilíft nema ef væru fjöllin sem blasa við af Hvanneyrarhlaði, klettabökin sem bera uppi gömlu skólahúsin og hinn þungi straumur Hvítárinnar sem enn leitar sjávar.
(Skrifað 17. ágúst 2014 og lagfært 16. ágúst 2020)
IV. kafli
- af sveitaböllum sjöunda áratugarins í Borgarfirði
Eftir annasama virka daga á Hvanneyri þar sem margt fólk á ungum aldri gekk til starfa kölluðu helgarnar á tilbreytingu. Vissulega var þörfin fyrir hana einstaklingsbundin sem og leiðirnar ýmsar til þess að mæta henni. Á sjöunda áratugnum var ríkulegt framboð öllum sumrum af dansleikjum í félagsheimilum héraðsins. Þeir voru fastur liður allra laugardagkvölda og stundum fleiri kvölda. Unga fólkið á Hvanneyri nýtti sér framboðið. Sumir af elju. Aðrir eftir hætti. Ég tel mig hafa tilheyrt seinni hópnum. Af þeim sökum getur eftirfarandi greinargerð mín ekki orðið tæmandi rannsóknaskýrsla um borgfirsk sveitaböll á sjöunda áratugnum. En hugmynd ætti hún að gefa. . .
„Það var kátt hérna um laugardagskvöldið“...
Af hljómsveitum
Vera mín í Borgarfirði frá haustinu 1961 færði mér nokkur kynni af sveitaballamenningu héraðsins. Ég kom úr framandi umhverfi hvað hana snerti. Hafði lítt sótt dansleiki og síst sveitaböll sem voru raunar fátíð í heimabyggð minni.
Í Borgarfirði höfðu risið félagsheimili svo að segja í hverri sveit. Sum voru gömul að stofni en flest þó frá miðbiki aldarinnar, allvel búin að hætti sinnar tíðar og glæsileg. Dansleikjahald var snar þáttur í starfi þeirra og raunar mikilvægur tekjugjafi til þess að standa undir kostnaði við byggingu heimilanna og rekstur. Til þess að hafa skikk á framboði dansleikjanna var helgum skipt á milli þeirra með skipulegum hætti. Mun skiptingin hafa farið fram á sérstökum samningafundi hjá sýslumanni héraðsins. Þótti afar mikilvægt að fá „góðar“ helgar.
Mér finnst núna að á þessum árum hafi félagsheimilin í héraðinu keppst við að bjóða til dansleika hvert laugardagskvöld yfir hásumarið og stundum á sunnudagkvöldum líka:
Hlaðir, Fannahlíð, Brún, Brautartunga, Logaland, já og Borgarnesi má ég ekki gleyma, né heldur Hreðavatni . . . Ungt fólk var um allar sveitir og jepparnir að koma á flesta bæi í kjölfar þess að Viðreisnarstjórnin lagði af skömmtun og takmarkanir slíkra lífsgæða. Þegar verkum lauk á laugardegi, allt eftir veðri og verkastöðu, hófust aðgerðir til undirbúnings ballferð: Hverjir ætluðu á ball? Hvernig átti að komast? Böllin voru sótt víða að. Ærið oft var boðið upp á sætaferðir úr Borgarnesi og af Akranesi. Samkomurnar urðu því býsna fjölsóttar, þótt vitanlega skipti máli hvaða hljómsveit lék í það og það skiptið.
Á Hvanneyri var margt af ungu fólki að störfum. Þar var spurningin gjarnan hvort ætti að panta Sæmund og Valdimar á rútunni heim á staðinn til þess að sækja liðið, eða höfðu menn og konur bjargað sér með Ófeigi sæðingamanni, Gísla
á Brekku eða einhverjum bílandi gaurum úr Borgarnesi eða af Skaga? Ímugust höfðum við á sumum þeirra síðarnefndu að vísu því oft lá það undir að einhver þeirra hafði þá gert ótímabært strandhögg í kvennablóma skólastaðarins.
(Heimild: https://glatkistan.com/2022/10/19/straumar-1/ )
Urmull hljómsveita kom við sögu en mörgum þeirra er ég þó búinn að gleyma. Sú fyrsta sem ég man var Egon og Eyþór úr Stykkishólmi, snyrtilegir piltar sem léku fallega músík.
Hljómsveitin Gibson varð til í Borgarnesi á þessum árum með Hauki rakara og fleiri góðum
mönnum, og sveitina JJ og Einar man ég úr Reykjavík. Dúmbó og Steini báru náttúrulega höfuð og herðar yfir aðrar hljómsveitir að vinsældum, svo ekki þarf frekar að orða hér. Fjölmenni var jafnan tryggt þar sem þeir léku. Hvað eftirminnilegust hljómsveita þessara ára varð mér þó sveitin Straumar, er var raunar hljómsveit upprunnin í Samvinnuskólanum á Bifröst. Sigurður Halldórsson úr Borgarnesi fór fyrir henni, þar var líka Matthías Garðarsson frá Bíldudal og fleiri ágætir hljóðfæraleikarar. Sveitin bar nokkurn blæ The Shadows, spilaði flotta músík og var eiginlega sveitaballa-hljómsveitin í Borgarfirði um miðbik sjöunda áratugarins.
Einna síðustu eiginlegu sveitaböllin sem ég minnist frá þessum árum voru í Brautartungu í byrjun áttunda áratugarins, líklega 1972, þar sem komu um 800 manns, að ég ætla, til þess að skemmta sér með Steina spil frá Selfossi, sem þá naut mikilla vinsælda. Sé ég enn manngrúann fyrir mér sem þar vafrar um mest utan dyra í kyrrlátri dögginni, sem ýrði úr þokunni er huldi hálsa dalsins.
Undir lok þess áratugar lagði ég hönd að sveitaballaröð UMSB í fjáröflunarskyni, í Brún og í Logalandi. Mig minnir á síðarnefnda staðnum hafi liðlega 1000 manns litið við. Þar lék Upplyftingar-sveitin sem þá naut mikilla vinsælda. Ég var í flokki dyravarða og minnist enn meðal annars hraustlegra taka Pálma á Hálsum þar sem hann stóð fyrir í dyrum sem smali fjárhóps er hrökklast út úr rétt – og hafði betur gegn þungum straumnum. Gaf sér þó tóm til þess að fleygja af sér peysunni í miðjum átökunum. Já, menn lögðu ýmislegt á sig fyrir UMSB, þá sem endranær, enda gáfu dansleikirnir gott í aðra hönd.
Atviks minnist ég frá Logalandsdansleiknum. Við, sem bárum ábyrgð á honum, röltum líka af og til í kringum félagsheimilið til eftirlits. Og upp fyrir mér rifjuðust ljóðlínur Magnúsar frá Reykjum um Laugardagskvöldið á Gili, sem með sínum hætti er frábær lýsing á borgfirsku sveitaballi nokkrum áraugum fyrr. Þar var líka kátt: Inn í döggvotu kjarri var hvíslað og pískrað ...„sértu að hugsa um mig hafðu mig þá!“ Undir björkunum ofan við húsið gekk ég nefnilega fram á par sem elskóvið hafði leitt þar í lund til þess að sinna stundarþörf, já og frumhlutverki mannkyns. Ég hopaði hljóðlega. Vildi ekki trufla. Hafi þar verið lagður kjölur að nýjum Íslendingi væri hann nú orðinn 41 árs gamall – og eflaust þjóðnýtur góðborgari. Sveitaböllin áttu nefnilega marga kanta: Þau efldu kynni, misnáin að sönnu, en voru afar mikilvægur hluti hinnar félagslegu hliðar þjóðlífsins.
Nú, nú. Föstudagsböll voru afar sjaldgæf. Sunnudagsböllin voru heldur algengari en þau stóðu til kl. 01. Laugardagskvöldin voru danskvöldin. Jafnan var byrjað upp úr kl. 22 og kl. 02 skyldi hætt. Eins og gengur fór dansinn gjarnan hægt af stað en þegar vel tókst til var allt komið í fullan gang á 12. tímanum. Töluvert var dansað en alltaf var þó hópur, aðallega slöttungs stráka sem húktu í anddyri eða í útidyrum og tók ekki þátt. Var meir kominn til þess að vakta svæðið og leita að ævintýrum í öðru en dansi. Gjarnan var þá vín nærhendis, sem á þessum árum var af sterkari tegundinni; ætli sjenever hafi ekki verið hinn eðla drykkur þeirrar tíðar, auk vodku. Stundum beint af stút en oftar í einhverju blandi – Kók eða Ginger
ale . . . Ég verð þó að viðurkenna fákunnáttu mína í þeim drykkjarfræðum því engan þátt tók ég í þeim. Lét mér nægja það sem fékkst í sjoppu félagsheimilisins, kók eða appelsínulímonaði, stundum með staur og síðar prinspólói.
Lögreglumenn voru jafnan nærlendis, tveir líklega. Misjafnt var dagfar þeirra: Sumir ráfuðu um og brostu föðurlega til dansgesta eða spjölluðu við þá; höfðu mildandi áhrif samkomuna. Man ég vel yfirvegun og mildi Svans Geirdal af Skaga og Rúnars Péturssonar frá Miðfossum í þessu tilliti. Aðrir voru með ygglibrún að hætti Egils á Borg, sýnilega tilbúnir að grípa tafarlaust inn í framvinduna ef úrskeiðis færi. Lærði ég fljótt sögur af ólíkum lyndiseinkunnum þeirra er þessi erfiðu störf önnuðust. Mér varð sérstaklega minnisstæður lögreglumaður einn er sagður var svo harður í horn að taka að hann hefði bitið eyra af óstýrilátum dansgesti nokkrum árum fyrr.
Jæja, kannski ætti ég að segja þér söguna af fyrsta sveitaballinu sem ég fór á í Borgarfirði. Það var snemma í október haustið 1961. Við Vetrungar og Framhaldsdeildungar vorum komnir til náms á Hvanneyri. Fyrsta laugardagskvöldið rann upp. Mannskapurinn vildi á ball og pöntuð var því rúta frá Sæmundi og Valdimar. Hún kom, M 303, minnir mig. Sæmundur ók: Ungur og glæsilegur, burstaklipptur, eins og hann byggi í kjallara þar sem lágt var undir loft, sat hann hnarreistur undir stýri og ók eitthvað upp í sveit, veg sem ég hafði enga tilfinningu fyrir þar í haustmyrkrinu hvert mundi leiða okkur. Mig minnir þó helst að ballið hafi verið í Brún, frekar en Brautartungu. Stykkishólmssveitin Egon og Eyþór léku.
Segir ekki af ballinu fyrr en undir lokin kemur. Einhverjir félagar mínir höfðu krækt sér í kvenmenn og misstu því með öllu áhuga á öðru í þessu annars líflega umhverfi. Þar sem ég stend frammi við dyr og leita útgöngu verður allt í einu mikill hamagangur þar í anddyrinu: Háreisti, hróp og köll í bland við það sem þá var farið að kalla píkuskræki. Brátt sé ég að þarna hafa flogið saman einhverjir strákar sem veltast um á gólfinu og tuskast þar, hvattir af félögum sínum. Tilþrifin sýndist mér þó engan veginn svara til lýsingarinnar á Kúlubardaganum fræga við Arnarfjörð, sem var helsti ballbardaginn sem ég hafði heyrt glöggar lýsingar af. Samt voru löggæslumennirnir óðar komnir til þess að skilja að áflogaseggina.
„Iss, þetta eru bara einhverjir Skagamenn og Borgnesingar“, sagði skólafélagi minn sem þekkti vel til í héraðinu, „örugglega út af einhverri stelpu.“ Eiginlega varð ég fyrir dálitlum vonbrigðum yfir því hve tilþrifalítill atburðurinn var í samanburði við frásagnir manna af slíkum mannfundum sem ég hafði heyrt og lesið um. Dumbó
Ólíkt átakameiri átti dansleikurinn í Brautartungu nokkrum árum fyrr að hafa verið. Hann varð staðarfrægur á Hvanneyri. Nemendur Framhaldsdeildar höfðu verið þar, ungir fílhraustir menn hýrgaðir af víni og báru sig vel. Áflog höfðu brotist út en ábyrgir sem Framhaldsdeildungarnir töldu sig vera hermir sagan að þeir hafi snarast að og stillt til friðar með laganna vörðum. Hins vegar munu áflogin þá hafa gengið það langt að einn þátttakandinn átti að hafa slasast svo að hann lést einhverjum dögum síðar. Eftir þetta kallaði dr. Halldór Pálsson búnaðarmálastjóri Framhaldsdeildungahópinn aldrei annað en „Deildina sem drap manninn“. . . Sorglegt alvörumál raunar, sem ég hef ekki kannað rætur að, en segir sitt um andrúm þessara ára.
Nú, nú. En ég var staddur á fyrsta sveitaballi mínu í Borgarfirði. Tímann sinn tók að jaga fólki út í langferðabíl Sæmundar og Valdimars með töluverðum fyrirgangi enda voru nú flestir orðnir málvinir og höfðu
margt að ræða og afgreiða. Það fyrsta sem ég sá, er ég kom út í bílinn, var að áfengisdauðum
manni, raunar nemanda frá Hvanneyri, hafði verið plantað kyrfilega ofan í sætið næst aftan við innganginn. Þar lá hann samanbögglaður í keng svo ekki sá ég hvernig hann gat andað. Það gerði hann nú samt en hætti því fyrir fáeinum árum. Prýðisþegn í sínu kjördæmi um áratugi en burt kallaður of snemma.
Einn dansleikur stendur mér í minni sem nokkur tímamót. Ætli það hafi ekki verið sumarið 1964. Ballið var í Brún, um miðjan júlí, ef mig misminnir ekki. Sakir mannmergðar var með öllu ógerlegt að dansa þar. Jafnvel var svo þétt staðið að þar hefði mátt slá undir fleiri en einn og fleiri en tvo nýja Íslendinga af áhugi hefði verið fyrir, og án þess að nokkrir aðrir en hlutaeigendur hefðu lagt merki til þess. Slík var ná-kvæmnin, eins og Halldór Laxness skrifaði er hann lýsti ævintýrum Jóns Hreggviðssonar í því blauta Hollandi. Áhugi ballgesta var hins vegar bundinn öðru: Hljómsveitin Hljómar frá Keflavík var nefnilega mætt. Heitasta hljómsveitarnafn þeirra mánaða. Bítlið var að hernema byggðir landsins. Við vorum sem makríll í lest. Ég tel mig enn geta merkt með tússi í gólfið í félagsheimilinu Brún hvar við stóðum hjónaleysin, eiginlega allt kvöldið. Gátum okkur varla hreyft. Þarna voru keflvíksku goðin mætt með gítara sína. Voru að byrja að láta sér vaxa passíuhár, hálfhallærislegir mundi dómur nútímans vera; stórir magnarar að baki þeim og tónstyrkurinn mikill. Hvorugt þætti þó tilkomumikið í dag. Í mínum huga breyttist veröldin að marki á þessu Brúnarballi hvað dægurtónlistina snerti, eftir aðdraganda frá því í febrúar veturinn áður að þjóðin kynntist tónlist The Beatles fyrir alvöru. Veröldin varð ekki söm eftir.
Hestamannamót og Húsafell
Böll í Hreðavatnsskála voru víst sérstæð og sögufræg. Mig rak þangað tvisvar. Minnisstætt er ball í skálanum smáa neðan við þjóðveginn snemmsumars, líklega 1966. Góðhljómsveit úr Dölum lék þar; getur verið að hún hafi heitið Röðlar? Skálinn var krílsmár en mannmergð mikil á svæðinu að minnsta kosti í hlutfalli við húsrýmið. Dyr voru tvennar og straumur fólks lá í gegnum húsið. Fráleitt man ég hvernig aðgangur var seldur eða á honum höfð stjórn. En einhvern veginn leið stundin við glaðværð sem fólst í því að líða um og áfram í dæmalausum þrengslum og hitasvækju við hressilega músík, að ekki sé nú minnst á hnausþæfða reykjarsvæluna sem einkenndi andrúm flestra dansleikja á þessum árum. Lítil tök voru á því að dansa. Enn síður á því að njóta næðis á stól eða við borð. Af þeim búnaði var ekkert í húsinu. Sumir komust í misnáin kynni við hitt kynið, aðrir glöddust tímabundið yfir brennivíni og enn aðrir bara yfir innri gleði. Svo voru þeir örugglega til sem þrátt fyrir gleðilætin voru daprir og einmana inni í sér í öllum þessum mannfagnaði. Átti það svo sem við þetta mannamót sem önnur slík bæði fyrr og síðar.
Ég hef nefnt sætaferðirnar og langferðabílana sem fluttu hópa gesta til dansleikjanna, bíla Sæmundar og Valdimars úr Borgarnesi og Manga Gull af Skaga, ég man ekki glöggt hvort Steini á Hvítanesi, ÞÞÞ, átti þar hlut að. Má vera. Bifreiðar voru ekki almannaeign þeirra árganga sem sóttu sveitaböllin. Hver sá sem yfir bifreið réði hafði því sterkari stöðu en hinir.
Sætaferð ein frá haustinu 1965 varð mér minnisstæð sakir atviks er á heimleið gerðist: Sæmundur, hin eini og sanni, hafði ekið okkur á Lyngbrekkuball. Þegar tekist hafði að smala gestum í bílinn til heimferðar að dansi loknum var ekið af stað við nokkrar róstur í öftustu sætaröðunum. Í Borgarnesi var þorra farþeganna hleypt út en síðan skyldi okkur all nokkrum skilað að Hvanneyri. Einn Borgnesingurinn, og sá sem hvað háværastur hafði verið, þvertók hins vegar með öllu að fara úr bílnum. Sæmundur reyndi fortölur sem lítt stoðuðu þannig að hann tók að stugga við hávaðaseggnum, er bæði var hraustur og af þróttmiklum ættum þar neðra. Leikurinn barst fram bílinn og út á götu. Er þangað kom var málið komið á stig tusks og síðan áfloga. Farþegi og ökumaður tókust duglega á og veltust um á gangstéttinni góða stund. Brátt veitti Sæmundi betur og hafði Borgnesinginn undir, stökk inn í bílinn og náði að loka hurðinni. Síðan dustaði hann af sér rykið, lagaði föt sín og ók af stað áleiðis að Hvanneyri eins og ekkert hefði í skorist. Aftur undan bílnum sáum við hins vegar ófriðarsegginn skrönglast á fætur með hnefasteitingum. Nú er hann komin á eftirlaun og sækir sjálfsagt félagsstarf aldraðra í Nesinu. Alltaf koma mér í hug áflogin þarna á götuhorninu á móts við Rakarastofu Hauks þegar ég mæti honum á mannamótum. Sjálfsagt hafa sætaferðir á sveitaböll ekki alltaf verið neinar kirkjuferðir í framvindu sinni.
Á bílastæðum félagsheimilanna mátti sjá bifreiðar af ýmsum gerðum, þó mest jeppa og þá einkum Land Rover sem á árunum eftir 1962 breiddist afar hratt út um sveitir Borgarfjarðar eins og aðrar byggðir landsins. En svo voru það hinir stóru amerísku fólksbílar er hvað
mesta athyglina vöktu. Strákar, sem á þeim komu, áttu vísa aðdáun og öfund jafnaldranna en hagkvæma athygli margra ungkvenna. Ekki kann ég nú að nafngreina marga úr þessum flokki úr Borgarnesi eða af Akranesi. Ég man hins vegar að skjannahvítir og flottir fólksbílar
þeirra Ásgeirs Ingimundarsonar frá Hæli og Sigga Kristjánssonar frá Oddsstöðum drógu að sér mikla athygli og aðdáun á þessum sveitaböllum. Ekki er ég þó viss um að eigendurnir hafi notfært sér hana að því marki sem þeim hefði verið gerlegt.
Ekki er ég heldur í nokkrum færum til þess að greina þá dansmennt sem algengust var á þessum árum. Mér finnst þó að tvist hafi verið það sem flestir beittu eða reyndu að beita.
Ætli það hafi ekki verið fylgifiskur þeirrar tónlistar sem hóf að breiðast út á árunum 1962-63.
Djæf var að vísu klassík þá þegar en til rokks sá ég sjaldan á þessum sveitaböllum enda leyfði rýmið sjaldnast þau dansspor. Gamlir dansar voru fáséðir en vitanlega var skylda að leika nokkur vangalög þegar dró að lokum dansleikjanna.
Þá eins og í annan tíma urðu til ofurvinsæl lög; lög sem urðu hálfgerð einkennismerki viðkomandi sumars, og allar hljómsveitir reyndu að leika eftir gestum sínum til glaðnings: House of the Rising Sun, A Water shade of Pale, Bláu augun þín, I´m gonna knock on your door ofl. Og þá nefni ég lagið The End of the World hennar Skeeter Davis. Utan dagskrár er það að gítarundirleikurinn í því lagi þótti það eftirsóknarverður að það að ná honum sæmilega fannst mörgum mikilvægur áfangi í færni við gítarspil. Gítarar voru nefnilega lykil-hljóðfærið þá og höfðu leyst harmoníkur af hólmi. Örugglega á einhver trausta tölfræði sem sýnir vinsældalista hvers sumars þessara ára.
Fatnað þáverandi dansleikjagesta má greina af samtímamyndum en honum get ég svo sem lýst stuttlega eftir minni mínu: Strákarnir langflestir í dökkum jakkafötum, hvítri skyrtu og með lakkrísbindi og í támjóum skóm. Ætli stelpurnar hafi ekki flestar verið í pilsum og með túperað hár. Eitthvað var þó um að gallabuxur væru komnar til sögu. Framanvert á þessum árum voru þær til sem kallaðar voru rokkbuxur, svartar að lit með hvítum saumum, þröngar, líklega frá Heklu á Akureyri.
Eina tegund Borgarfjarðardansleikja frá árunum 1964-1965 verð ég að nefna: Það voru dansleikir á vegum Æskulýðsnefndar sýslnanna, sem mig grunar að Ásgeir sýslumaður
Pétursson hafi verið frumkvöðull að. Böll þessi voru haldin á sunnudagskvöldum til skiptis í helstu félagsheimilunum. Þarna mátti yngra liðið, allt niður í sextán ára koma, jafnvel fjórtán. Þetta þóttu víst ágætar samkomur ekki síst þegar góð hljómsveit bauðst. Mig minnir að Straumar hafi þar verið oft á ferð, enda var ekki Sigurður höfuðsmaður hennar þá verðandi tengdasonur Ásgeirs sýslumanns? Æskulýðsdansleikirnir voru verulega þarft framtak nefndarinnar sem raunar stóð fyrir ýmsu fleiru er kom ungu fólki héraðsins vel. Ásgeir var framtakssamur og hugmyndríkur sýslumaður. Líklega sá síðasti í þeim flokki . . .
Og svo sem aðra til má nefna en það voru hinar sérstæðu samkomur hestamanna í Faxaborg
þar sem dans kom líka við sögu. Þetta var á árunum rétt fyrir tíma hinna dressuðu hestamanna í stíl prússneskra sirkusreiðmanna. Venjulegir bændur komu úr flekknum, vegagerðarmenn frá tækjum sínum og smiðir úr mótauppslætti út um allar sveitir til þess að leiða saman hesta sína í bókstaflegri merkingu einn sunnudag á hásumri þar á bökkum Hvítár. Byrjað var með tilbeiðslu einhvers nálægs sóknarprests á fámennri helgistund. Síðan hófust kappreiðar. Guðráður í Nesi hvíslaði til „Brekkunnar“ hásri röddu að steinþegja nú á meðan Jón á Brekku, Marinó á Skáney eða karlar úr Borgarnesi reyndu að hemja færingana á ráslínunni. Ekki langt undan var Sigurður Ólafsson á Glettu sem bliknaði þó er auga varð komið á Höskuld
á Hofsstöðum, hinn silfurhærða höfðingja úr Hálsasveit, svífandi á hvítfextum gæðingum sínum um mótssvæðið. Fár varð samur eftir þá sýn. Í Brekkunni gerðu menn margt annað en fylgjast með reiðunum. Þetta var ekki bara hestaþing. Þetta var líka mannþing. Tímaáætlun gekk öll úr skorðum. Einhvern tímann síðdegis hóf hljómsveit að leika fyrir dansi á pallinum, oftast dansmúsík af eldri gerðinni, fannst mér. Stígvélaðir karlar á læravíðum reiðbuxum sveifluðu þar virkjamiklum konum um pallinn og að sjálfsögðu kom venjulega hellirigning. Leitaði þá ytri og innri bleyta margra jöfnuðar. Þessir síðdegisdansleikir í Faxaborg urðu í allri gerð sinni sérstæð andstaða við hin hefðbundnu sveitaböll félagsheimilanna.
Jæja, ætli ég endi ekki þessa upprifjun mína á því að víkja að Húsafellsmótum. Löng hefð var fyrir sumarhátíðum af ýmsu tagi í Borgarfirði. Fóru af þeim sögur, svo sem lesa má um í blöðum frá þessum tíma. Í mínu minni kemur Húsafell fyrst inn í minningabókina um verslunarmannahelgina 1964: Þá rákumst við hjónaleysin þangað á dansleik, ætli það hafi ekki heitið bindindismót? Vettvangurinn var stórt hvítt tjald þar á áreyrunum. Þar lék hljómsveit úr Reykjavík, sem ég man ekki lengur hver var. Slæðingur var þarna af ungu fólki en kyrrð yfir öllu svo ég man fremur veðurblíðuna og fegurð umhverfisins í skógarjaðrinum en dansleikinn. En þarna átti heldur betur eftir að lifna yfir.
Var það ekki um Verslunarmannahelgina 1967 sem UMSB sló fyrst undir hátíðahöld í Húsafellsskógi? Mikið var lagt undir í hvívetna enda hugumstórir ungir menn sem þá fóru fyrir sambandinu. Við Dísa fórum til mótsins og lágum þar við í tjaldi. Meginvettvangurinn hafði verið nefndur Hátíðarlundur, snoturt svæði í skógiluktum hraunbolla er hafði nýreistan samkomupall við suðurhlið. Ég man enn er við komum þarna hjónaleysin og tylltum okkur í gras- og lyngklædda brekkuna fyrst gesta og biðum þess að fjölgaði og að drægi til dagskrártíðinda – dansleiksins. Horfið er úr huga mér hvaða hljómsveit lék þarna, annað hvort Hljómar, þeir landsfrægu, eða sú frábæra sveit er kallaði sig Óðmenn en víst er um það að mannfjöldinn varð um það er lauk gífurlegur þarna í lundinum. Samkoman varð líkari útitónleikum en dansleik. Nóttin féll á og við tvö drógum okkur til tjalds þar sem við sofnuðum við birkiilm og notalegan óm frá dansmúsíkinni í Hátíðarlundi.
Minnast má nokkurra ungmennafélaga sem stóran þátt áttu í Húsafellsmótum. F.v.: Hjörtur Þórarinsson á Kleppjárnsreykjum, Ófeigur J. Gestsson á Hvanneyri, Jón G. Guðbjörnsson á Lindarhvoli og Gísli Halldórsson í Borgarnesi.1
1 https://umsb.is/umsb/husafellsmotin/?fbclid=IwAR0d5yuB3K0HbGX1b7-5h1Q5q97aAJE4aEIcfwIEe2rdj11urdTPIE FSFSU
Nýr dagur reis. Á rölti okkar í súldinni morguninn eftir komum við í lundinn hvar sjá mátti að töluverðar breytingar höfðu orðið á landsháttum og gróðurfari. Þar sem kvöldið áður hafði verið gróinn hraunbollinn var nú gróðurauðnin ein, niðurtroðið svað þarna í rigningunni, viðkvæmur gróðurinn horfinn en hér og hvar stóðu hraunnibbur upp úr moldum svæðisins. Ungmennafélagar hjúkruðu þessu svæði strax að hátíð lokinni, minnir mig.
Í raun eru Húsafellsmótin verð heillar bókar, svo mikil voru umsvif og áhrif bæði til góðs og ills. Ég kýs að hallast að því fyrrnefnda. Þau drógu að sér þúsundir manna sem skemmtu sér í fallegu umhverfi við úrval bestu skemmtikrafta landsins á þeim árum. Borgarfjörður varð nafli skemmtanalífs um Verslunarmannahelgi um árabil. Jafnvel svo að Þjóðhátíð
Eyjamanna varð að fjarlægri innansveitarsamkomu í hugum flestra nærlendis.
Ef til vill settu Húsafellsmótin hin hefðbundnu sveitaböll héraðsins í nokkurn skugga. Víst er um það að mótin urðu þungamiðja félagslegs framtaks ungmenna í Borgarfirði á öllum aldri sem í glaðværð komu saman til þess að vinna eitt verk. Verk er færði þeim starfsgleði og ungmennafélögunum mikla peninga á stundum, peninga sem nýttust til annars starfs í byggðum Borgarfjarðar. En vitanlega áttu þeir peningar líka tvær hliðar en það er önnur saga.
Nú er runnin upp önnur tíð. Sveitaböll síðustu aldar eru nær alveg horfin af heimi, bæði í Borgarfirði og annars staðar á landinu. Félags- og skemmtiþörf ungs fólks hefur leitað sér annarra farvega. Félagsheimilin standa sum nú orðið hljóð og hnípin flestar sumarhelgar gagnstætt því sem á þessum árum var. Þau slitna nú fremur af nagi tímans tannar en dansskóm sveitaballagesta ellegar barsmíðum og fyrirgangi hraustmenna í þeirra hópi.
Veggir borgfirsku félagsheimilanna geyma og gætu sannarlega sagt marga sögu mættu þeir mæla. En svo hverfur heimsins dýrð – hver sem hún nú hefur annars verið.
(Skrifað í mars 2014 og flutt á fundi Félags aldraðra í Borgarfjarðardölum; lagfært 28. febrúar 2023)