Gott fólk eftir Val Grettisson – fyrsti kafli

Page 1



Gott f贸lk



Valur Grettisson

Gott f贸lk

Bjartur 2015


Þessi saga er skáldskapur. Persónur og atburðir eru hugarsmíð höfundar. Finnist samsvörun í raunveruleikanum er það tilviljun.

Gott fólk © Valur Grettisson, 2015 Kápuhönnun: Jón Ásgeir Umbrot: Bjartur & GV Prentvinnsla: Oddi Bók þessa má eigi afrita með neinum hætti, svo sem ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild, án skriflegs leyfis höfundar og útgefanda. ISBN: 978-9935-454-61-4 www.bjartur.is Bjartur | Reykjavík | 2015


Til aรฐ byrja meรฐ



Góðan helvítis daginn Það rignir þegar þeir banka. Ég veit ekki hvenær það gerðist, en rigningin á Íslandi er orðin evrópskari – lóðrétt en ekki lárétt – líkt og hún hafi ekki fengið minnisblaðið um að Ísland vilji ekki lengur ganga inn í Evrópusambandið. Kannski er rigningin heimsvanari í hundrað og einum í Reykjavík. Fágaðri. Það væri eftir öðru. Höggin eru þrjú – og þau eru ákveðin. Ég sit í stofunni með logandi sígarettu, bjórglas og Mynd af ósýnilegum manni eftir Paul Auster. Þetta er í fjórða skiptið sem ég les bókina. Ég hef fundið frið í henni eftir að pabbi dó úr lungnakrabbameini. Faðir minn var kannski ekki jafn ósýnilegur og faðir Austers, en þeir áttu margt sam­ eigin­legt. Faðir minn var alltaf einsamall þrátt fyrir að hafa aldrei verið einn. Líklega er það versta tegund ein­ semdarinnar; að umbera umhverfi sitt af skyldurækni, án þess að efna nokkurn tímann til réttlátrar byltingar í nafni eigin sálarheillar. Aftur dynja þrjú högg á hurðinni. Ég reyni að hunsa þau. Þetta er þannig kvöld. Lóðrétt rigning er fyrir elskendur, lárétt rigning er fyrir óvæntar heimsóknir. Ég er raunar allt of vel undirbúinn fyrir óvænta heim­ sókn. Það liggur heill kaffipoki á eldhúsborðinu og kippa

7


af bjór kólnar í ísskápnum. Ef menn leita vel, má finna viskíflösku í einhverri skúffu inni í stofu. Enn er bankað. Núna látlaust í hálfa mínútu. Innrásar­ herinn verður ekki blekktur í kvöld. Ég drep pirraður í sígarettunni, legg frá mér bókina og geng letilega að til dyra. Ég staðnæmist við spegilinn í forstofunni. Dökkbrúnt liðað hárið er mátulega úfið til þess að gefa til kynna að ég hafi hugsanlega verið sofandi. Gráblá augun eru sindrandi, langleitt órakað andlitið er fölt af sólarleysi og óreglu. Líklega get ég ekki falið það að ég er hálfdrukkinn. Ég ríf upp hurðina. Tveir karlmenn standa hundblautir fyrir framan mig. Þeir heita Hörður og Grímar. Þeir eru alvarlegir á svipinn og virðast litlu ánægðari að sjá mig en ég þá. Ég heilsa þeim þurrlega og mæli þá undrandi út. Þeir svara kveðjunni. Hörður brosir gleðisnautt út í annað og hristir sig kuldalega. Andspyrnan er þegar hafin. Ég býð þeim ekki inn að fyrra bragði þó þeim sé greinilega skítkalt. Þögnin er gullin í taugastríðinu. Ég hef ekki hitt Grímar og Hörð í nokkur ár. Eða síðan í búsáhaldabyltingunni. Þeir eru báðir búnir að missa nokkur kíló. Grímar er að auki kominn með ljósa dredd­ lokka sem hann er búinn að reyra saman í tagl. Hörður er ekki kominn jafn langt inn í menningu Evrópu­hippans, en er nokkuð nálægt staðalímyndinni. Þeir hafa lítið breyst. Þeir eru enn fullkomlega lausir við allan frumleika. Nytsamlegir hermenn í mótmælum, hræði­legir þegar það kemur að því að kryfja hugmyndir og leiða hóp fólks í áttina að einhvers konar merkingu. Ef ég væri illviljaður myndi ég kalla þá vitleysinga. Ef ég væri hreinskilinn myndi ég kalla þá nytsama sakleysingja. – Megum við koma inn? spyr Grímar, sem var alltaf 8


ögn framfærnari en Hörður. Hann hefur vit á því að beita hættulegasta vopninu í siðfágaðri innrás heimsóknarinnar; kurteisi. – Auðvitað, svara ég, þvinga fram bros og geng inn í stofu. Ég lofa mér sjálfum að bjóða þeim ekki neitt. Hvorki vott né þurrt. Nema erindið sé ánægjulegt. Sem það getur varla verið klukkan tíu á rigningarkvöldi í nóvember. Ég sest í hægindastólinn, vef aðra sígarettu og fylgist með þeim skoða sig um, þeir eru óstyrkir. – Fáið ykkur endilega sæti, segi ég við þá og kveiki í sígarettunni. Þeir tylla sér í sófann. – Hvað er að frétta? spyr Hörður. – Ekki mikið. – Enn á Blaðinu? spyr Grímar. – Jú, en ég er líka að gagnrýna, svara ég. – Ég hef einmitt séð þig. Þú tekur þig vel út í sjón­ varpinu, segir Hörður. Ég brosi ringlaður til hans og svara því til að maður verði allavega að reyna. Kann ekki við að þakka fyrir hrósið þó ég kunni vel að meta það. Ég átta mig ekki á því hvort hann sé að gagnrýna mig fyrir að hafa gengið hinum illu kapítalísku fjölmiðlum á hönd. Við kynntumst þegar við ætluðum að breyta heiminum. Bylta stjórnkerfinu. Með góðu eða illu. Við stofnuðum byltingarsinnaðan fjölmiðil til þess að mótmæla fjór­ flokkn­ um og meðvirku fjölmiðlaumhverfinu. Nú var ég orðinn hluti af þessari valdablokk sem við töldum að væri meðábyrg fyrir hruni samfélagsins. Jafnvel fulltrúi hennar. Byltingin étur ekki alltaf börnin sín, stundum gefur hún þau til ættleiðingar. Mér leið eins og ég væri enn að boða byltinguna, nú innan úr maga ófreskjunnar. Þannig réttlætti ég veru mína í þessu níhilíska umhverfi. 9


Mig langar til að segja þetta við Hörð. Að stundum þurfi maður að ganga til liðs við óvininn til þess að sigra hann. Jafnvel sofa hjá honum. Svo átta ég mig á því að hann er ekki að gagnrýna mig. Hann er of hrekklaus til þess. – Hvað eruð þið að gera af ykkur? spyr ég. Grímar segir mér að hann starfi við liðveislu. – Svo er ég náttúrulega varaformaður í Dagrenningu. Þannig að það er nóg að gera, bætir hann við. Dagrenning var sameinað klofningsframboð frá flokki sem við stofn­ uðum skömmu eftir hrun. Þá hét framboðið Nýr dagur og áherslurnar voru sósíalískar. Á örskömmum tíma nutum við töluverðrar athygli fjölmiðla og landsmanna, ekki síst vegna mótmælanna og tíðarandans í kjölsogi hrunsins. Ég var formaður og talsmaður þessa reiða hóps í upphafi. Nokkrum mánuðum síðar varð hugmyndafræðilegt upp­ gjör innan hópsins. Annars vegar þeirra sem vildu byggja nýtt Ísland út frá sósíalískum gildum, þar sem stutt var í blóð­ugan refsivöndinn, og hins vegar þeirra sem vildu teknó­kratískari nálgun. Umfram allt friðsamari nálgun. Persónulega var mér sama í hvaða átt við færum. Það skiptir ekki máli hvernig maður breytir samfélaginu, eða heim­inum – svo lengi sem maður breytir honum. En þegar maður á í átökum við fólk velur maður sér þann málstað sem hentar best – sem í þetta skiptið var hinn sósíalíski grunnur. Grímar og Hörður fylgdu mér að málum. Úr varð að teknókratíski hópurinn sagði sig úr Nýjum degi og stofnaði flokkinn Dag. Síðar átti sá flokkur eftir að klofna og hluti hópsins sneri aftur heim. Samkomu­lag samrunans var þá auðvitað að breyta nafninu í Dagrenningu. Á aðalfundi flokksins lagði ég til að nýja framboðið héti Góðan helvítis daginn. Tillagan var felld. 10


Eftir þetta hætti ég öllum afskiptum af hugsjónamönnum sem höguðu sér eins og unglingar í tilvistarkreppu. Bæði framboðin buðu lista fram til þingkosninga. Hvorugt kom manni inn. Sameinað fylgi flokkanna var þó vel yfir fimm prósentum. Líklega hefðu þeir náð fimm til sjö mönnum inn á þing ef flokkurinn hefði ekki margklofnað. Fjórflokkurinn stóð nánast í stað. Kerfið getur alltaf treyst á tilfinningalegt upphlaup vinstrisinnaðra hugsjónamanna til þess að viðhalda óbreyttu ástandi. Þess vegna taldi ég best, sjálfs mín vegna og samfélagsins alls, að hætta öllum pólitískum afskiptum. Verst að hugsjónarmenn eins og Grímar og Hörður voru ekki jafn skynsamir. – Hvernig gengur annars í Morgunroðanum? spyr ég og fæ mér sopa af bjórnum. – Dagrenningu, leiðréttir Hörður mig föðurlega. Grímar gefur honum hornauga. – Hvað sem þetta heitir núna, verður flokkurinn ekki hvort eð er lagður niður innan fjögurra ára? segi ég. Grímar segir að það sé margt enn óunnið. – Svo er stutt í næstu kosningar, bætir hann við. – Jú jú, ekki nema þrjú ár og ellefu mánuðir, svara ég og hlæ með sjálfum mér. Hvorki Herði né Grímari stekkur bros á vör. Grímar opnar hliðartösku sem hann er með og gramsar í henni. Hann dregur upp hvítt umslag og leggur það á stofuborðið. Á umslagið er búið að skrifa nafnið mitt: Sölvi. – Hvað er þetta? spyr ég. – Erindið okkar, svarar Grímar og spyr hvort hann megi vefja sér sígarettu hjá mér. Ég svara engu. Hann teygir sig samt í tóbakið. – Hvert er nákvæmlega erindið? spyr ég. Grímar er 11


snöggur að vefja sígarettuna. Hann kveikir í henni og púar hana nokkru sinni. Hann hefur vafið hana of þétt. – Okkar erindi er að fá þig til þess að lesa þetta bréf. Þegar þú ert búinn að lesa það, þarftu að svara okkur hvort þú gangir að þessum skilmálum eða ekki, svarar Grímar. Þeir eru alvarlegir á svipinn. Ég flissa taugaveiklað og stend upp. Ég reyni að fela það hversu óstyrkur ég er. Ég tek bréfið upp og handleik það óviss um hvað skal gera. Síðan fleygi ég því aftur á borðið þannig að það rennur næstum fram af bríkinni. – Má bjóða ykkur eitthvað að drekka? spyr ég. Allar mínar varnir eru að bresta. Grímar og Hörður svara báðir neitandi. – Ég ætla allavega að fá mér, ef ykkur er sama, segi ég og sæki mér annan bjór. Ég helli í glasið, gríp bréfið og sest aftur. – Ég les þetta í kvöld, segi ég við þá eftir örlitla um­ hugsun. – Þú verður að lesa þetta núna, segir Hörður óvenju ákveðinn. Eða er hann svona taugaóstyrkur? – Ég verð ekki að gera neitt, svara ég pirraður. Hörður ætlar að segja eitthvað en hættir við. – Okkar fyrirmæli eru skýr, segir Grímar þrjóskulega eftir örstutta þögn. – Við förum ekki fyrr en þú ert búinn að lesa bréfið. – Okkar fyrirmæli eru skýr, ét ég upp eftir honum með hæðnislegri röddu. – Hver gaf ykkur þessi skýru fyrirmæli, fótgönguliðar? – Lestu bréfið. Það ætti að svara öllum þínum spurn­ ing­um, segir Grímar. Það fýkur í mig en ég reyni að leyna því. Mig langar til þess að vísa þeim út. Hvílíkt virðingar­ 12


leysi. Að koma inn á mitt heimili og krefjast þess að ég lesi eitthvert helvítis bréf. Ég stari illilega á þá í um hálfa mínútu. Við leyfum þögninni að ríkja. Jafnvel þeir hafa vit á því að rjúfa hana ekki. – Og þegar ég hef svarað, hvað þá? spyr ég loksins og reyni með því að veiða upp úr þeim innihald bréfsins, án þess að svo mikið sem líta á það og láta þannig undan óljósum kröfum þeirra. – Þá munum við fara með svarið til hennar, svarar Hörður. Grímar segir Herði að þegja. – Hennar? – Lestu bara helvítis bréfið, segir Grímar. – Það getur ekki verið svo flókið, bætir hann við. – Lest þú helvítis bréfið ef þér liggur svona mikið á. Haldið þið þöngulhausarnir að þið getið bara birst þegar ykkur hentar og neytt mig til þess að lesa bréf frá einhverri huldukonu? Og það á mínu eigin heimili!? Ég finn hvernig ég er að missa stjórn á skapi mínu. Grímar horfir illúðlega á mig. Honum er fúlasta alvara. – Við förum ekki fyrr en þú ert búinn að lesa bréfið, segir hann ofur rólega í gegnum samanbitnar tennur. Ég teygi mig í bréfið. Nafnið mitt er skrifað með kvenlegri rithönd. Ég opna umslagið og dreg bréfið upp úr því. Það er augljóslega skrifað á ritvél, en ekki tölvu. Ég átta mig strax á því frá hverri það er. Tilgerðin leynir sér ekki. Sæll Sölvi. Sara hér. Ég veit að þú ert ringlaður. Hugmyndin er að senda tvo góða vini ofbeldis­ mannsins til hans, ekki kunningja. Ég reyndi að tala við Tryggva, en hann sagði mér að tala beint 13


við þig. Neitaði að gerast milli­ göngumaður í þessu máli. Þannig að þetta var niðurstaðan. Ég veit að þér líkaði aldrei neitt sérstaklega vel við Hörð og Grímar. Mig minnir samt að þér hafi aldrei líkað illa við þá heldur. Allavega. Erindið. Það er erfitt að skrifa þessi orð. Ég verð samt að segja þér þetta. Ég verð að varpa skömminni frá mér sjálfri, til þess sem á hana, til þín. Þú hefur beitt mig órétti. Ofbeldi. Í fyrstu var ég ekki viss. Ég sökk til botns í djúpu þunglyndi. Skaðaði mig. Bæði með eggvopnum sem og undarlegri hegðun. Ég svaf hjá karlmönnum sem ég hefði aldrei átt að sofa hjá. Ég sagði orð við fólk sem ég hefði aldrei átt að segja. Að lokum leitaði ég mér aðstoðar. Til Stígamóta. Þá áttaði ég mig fyrst á því. Þú beittir mig ofbeldi í þetta rúma ár sem við vorum par. Auðvitað skilgreindir þú aldrei tíma okkar þannig. Þú sást okkur aldrei sem par þrátt fyrir það hversu mikið við vorum saman. Eins og par. Kannski var það hluti af vandanum. Ég var lengi að átta mig á því hvað þú gerðir mér raunverulega. Mér leið nefnilega eins og þú hefðir elskað mig, þó það hefði ekki verið nema innst inni. Líklega gerir þú það. Ég elska þig. Eftir því sem ég hugsa það betur, held ég að áfengi hafi spilað stóra rullu í sambandinu, sem byggðist á misnotkun og ofurvaldi þínu. Þú getur 14


ekki neitað því, áfengisneyslan þín er veruleg, þú ættir að íhuga hvort hún sé vandamál, hvort hún hafi hamlað þér að láta drauma þína rætast, sett líf þitt í slíkan farveg að þú réðir hvorki við eitt né neitt. Hljómar það kunnuglega? Það hjálpaði mér að hætta að drekka. Ég fann sjálfs­virðinguna á ný. Innri ró líka. Treystu mér, það hjálpar. Ég veit. Þetta eru stór orð. Ofbeldi. Mis­notkun. Ofurvald. Mér finnst það líka. Þetta er ekki ásökun. Þetta er staðreynd. Þú braust á mér. Gekkst yfir öll mín mörk þar til ég var orðin viljalaus, niðurbrotin í ofbeldisfullu sambandi með þér. Þú gerir þér líklega ekki einu sinni grein fyrir þessu. Öll samskipti sem þú átt eru ofbeldisfull. Þú ert yfirgangsseggur. Ég er ekki að segja þetta til þess að særa þig. Ég er að segja þér þetta í von um að þú látir af þessari hegðun, og vonandi, einhvern tímann í framtíðinni, getir þú horfst í augu við sjálfan þig, og viðurkennt að þú beittir mig, og hugsanlega aðra, miklu ofbeldi. Í stuttu máli; ég skrifa þetta bréf til þín því mér þykir vænt um þig og ég vil hjálpa þér. Ég get ekki verið í kringum þig. Ég hefði komið sjálf og sagt þér þetta ef ég hefði fundið styrkinn til þess. Vandinn er sá að þegar ég er nálægt þér breytist ég í konu sem ég fyrirlít, konu sem maður les um í blöðunum, þessa sem yfirgefur aldrei 15


ofbeldisfulla eiginmanninn. Þessa sem lætur allt yfir sig ganga í stað þess að bjarga börnunum sínum út úr ofbeldisfullum aðstæðum. Það er auðveldara en þú heldur að verða þessi kona. Samt fellur maður yfirleitt í þá gryfju að dæma hana miskunnarlaust. Ef ég væri hjá þér – ef ég væri að segja þessi orð við þig – myndir þú eflaust krefja mig um dæmi. Hvenær beitti ég þig ofbeldi? myndir þú spyrja sármóðgaður. Svarið við þessu er ekki einfalt. Þú ert ekki maður sem leggur hendur á annað fólk. Þú býrð yfir lúmskari og hættulegri vopnum. Svarið er hugsanlega þetta; þú beittir mig ofbeldi öllum stundum á meðan við vorum saman. Ef þú vilt skýrt dæmi þá get ég nefnt það sem gerðist í húsasundinu sama kvöld og Tryggvi hélt upp á afmælið sitt á Boston. Hvaða kona leyfir karlmanni að niðurlægja sig með þessum hætti? Hélstu að ég væri að gera þetta af fúsum og frjálsum vilja? Vissir þú ekki innst inni að þetta væri ekki aðeins niðurlægjandi fyrir mig, heldur einnig að ég hefði enga burði til þess að mótmæla þér? Það er nefnilega sérkennilegt hvað þú getur stundum verið næmur á fólk, tilfinningar þess og aðstæður, en öðrum stundum fullkomlega blindur á þitt nánasta umhverfi. Annað dæmi, og kannski óskýrara, var dagleg hegðun þín gagnvart mér. Hvernig þú hunsaðir mig þegar ég þurfti á þér að halda. Hvernig þú 16


rakst mig frá þér. Þegar þú sagðir ítrekað við mig að ég væri engin kærasta, í besta falli vinkona. En ég mætti ekki misskilja, það væri eitthvað gott í gangi á milli okkar. Þú sagðir það að vísu aldrei með berum orðum, en þú áttir auðvitað við kynlífið, þar sem ég lét allt yfir mig ganga. Sárast fannst mér að þegar ég reyndi að mótmæla þér þá fórst þú alltaf að tala um fleka­kenninguna í samskiptum kynjanna. Sem mörkuðust ávallt af einhvers konar ofbeldi og árekstrum með tilheyrandi umbrotum. Ég trúði þér, Sölvi. Ég trúði því raunverulega þá að samskipti kynjanna grundvölluðust á ofbeldi og átökum. Af því þú sagðir það. Djöfull vorum við firrt. Eða trúir þú þessu kannski enn? Ef svo er, þá verður þú að horfa í eigin barm, beita allri þeirri gagnrýnu hugsun sem þú sannarlega býrð yfir, og velta því fyrir þér hvort þessi kenning sé ekki einfaldlega léleg afsökun fyrir því að beita konur ofbeldi. Stundum veit ég ekki hvort ég eigi að hata þig eða vorkenna þér. Stundum veit ég ekki hvort þú ert skrímsli eða grimmur sakleysingi. Sadisti eða óviti. Líklega ertu þetta allt í senn. En hitt veit ég, sem er að ég elska þig og hata í senn. Þú gast aldrei virt mín mörk. Og þegar maður hugsar út í það, þá hefur þú alltaf verið blindur á mörk, hvort sem um er að ræða manneskjur eða hugsjónir. Þú ert tilfinningalegur öfgamaður.

17


Áður en lengra er haldið þarf ég að útskýra eitt atriði. Það sem er að gerast hér, er það sem kallast ábyrgðarferli. Ég er að reyna að fá þig til þess að horfast í augu við ofbeldið sem þú beittir mig. Þínar eigin gjörðir. Ég vil ekki trúa því að þú sért ófyrirleitinn hrotti, skrímsli. Þú ert ekki einu sinni vondur maður. Þú gerðir mistök, sem bitnuðu á mér. Ég vil að þú gangist við þeim, betrumbætir þig, svo að við getum bæði haldið áfram. Ég vil ekki lifa með eftirsjá í brjósti, spyrjandi mig sjálfa hvort ég hefði átt að segja þér þetta eða hvernig. Ég vil ekki heldur springa í loft upp í reiðikasti á einhverju kaffihúsinu og ausa úr skálum reiði minnar yfir þig. Þess vegna hef ég skrifað þetta bréf. Þú mátt sýna það þeim sem þú vilt og treystir. Mér er sama. Grímar og Hörður eru báðir búnir að lesa það. Ég er búin að setja þá inn í málið. Þeir verða milliliðir í okkar samskiptum héðan í frá. Nú ætla ég að útlista þær kröfur sem ég vil að þú gangir að. Svarið sem þú gefur Herði og Grímari verður einfaldlega já eða nei. Annaðhvort gengur þú að þessum skilmálum eða ekki. Kröfurnar eru eftirfarandi: – Ekki tala við mig aftur. Ekki hafa beint samband við mig með neinum hætti. – Ef við hittumst fyrir tilviljun, hvar sem það kann að vera, þá vil ég að þú yfirgefir staðinn. 18


– Ég vil að þú leitir þér sérfræðiaðstoðar vegna ofbeldisins sem þú beittir mig. – Ég vil að þú takir ábyrgð á ofbeldinu sem þú beittir mig. Ég vil að þú gangist við því við mig í gegnum millilið. – Ég vil að þú gerir hreint fyrir þínum dyrum, ef þú ætlar yfirhöfuð að skrifa eða vinna á vettvangi mannréttindamála, þar sem barist er gegn ofbeldi. Og upplýsir um það sem þú hefur gert. Ég veit að þetta er erfitt. Ég myndi aldrei láta þig ganga í gegnum þetta að ástæðulausu. En takmarkið er göfugt, Sölvi. Svona get ég hugsan­ lega púslað mér aftur saman, hafið eðlilegt líf á ný – og þú getur orðið betri manneskja. Ef einhverjar spurningar vakna, þá eru Hörður og Grímar með svörin á reiðum höndum. Kveðja, Sara.

Mér líður eins og ég hafi verið skotinn í hjartað. Eins og heilinn í mér hafi verið sprengdur í loft upp af tilfinn­ ingalegum öfgamanni. Ég horfi forviða á þá Grímar og Hörð. Þeir horfa rannsakandi til baka. – Er þetta grín? spyr ég alvarlegur í bragði. Hörður og Grímar og horfa samúðarfullir á mig án þess að svara. – Hvernig veit ég að það var hún sem skrifaði þetta bréf yfirhöfuð? spyr ég. – Hún sagði að þú myndir kannast við ritvélina. Þið keyptuð hana saman, segir Hörður. Það er auðvitað rétt 19


hjá honum. Ég skildi aldrei þessa krúttlegu fortíðarþrá Söru sem vildi eingöngu skrifa á ritvélar en ekki tölvur. Ég gerði mikið grín að henni vegna þessa. Sagði að öll ljóðin hennar myndu líta út eins og skáldskapur eftir Matthías Johannessen. Á kvöldin fylgdist ég með henni, fáklæddri í rökkrinu, þrykkja á stafina með vísifingrunum og tippexa af vandvirkni yfir hverja einustu villu sem slæddist inn í textann. Síðar grátbað hún mig um að endurskrifa textana fyrir sig inn í fartölvuna mína. – Minnsta mál, fyrir smá þóknun, svaraði ég og tók hana í fangið. Minningin vekur mér undarlegar tilfinningar. Getur verið að ég muni þetta vitlaust? Var ég að beita hana ofbeldi með því að heimta kynlíf fyrir vinnu mína? Ég róa mig niður, horfi á þá Grímar og Hörð. – Hvað nú? spyr ég. – Það fer eftir þér, svarar Grímar. – Ætlar þú að ganga að skilmálunum? spyr hann. – Ég held að ég verði að fá smá tíma til þess að melta svarið, segi ég varfærnislega. – Hvenær heldurðu að þú verðir tilbúinn? spyr Hörður. – Eftir mánuð, segi ég út í bláinn. – Þetta er mjög þungbært fyrir Söru. Ég held, hennar vegna, að við ættum að taka stöðuna aftur eftir tvær vikur. Hvað segir þú um það? spyr Grímar. Ásjóna hans hefur mýkst. – Ég get lifað við það, svara ég.

20




Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.