Kæru félagsmenn! Hjartanlega velkomin til þessa sameiginlega kjara- og samstöðufundar BHM, hvort sem þið takið þátt með nærveru hér í salnum eða gegnum vefstreymið. Kjarasamningar aðildarfélaga BHM á opinberum vinnumarkaði runnu út nú um mánaðamótin. Formlegar samningaviðræður við ríki, sveitarfélög og Reykjavíkurborg hafa nú staðið yfir í mánuð, að þessu sinni ganga öll BHM félögin sameiginlega til móts við alla viðsemjendur með eina einfalda kröfu – um afgerandi launaleiðréttingu. Að baki er langt tímabil stöðnunar í launum háskólamenntaðra, störf okkar fólks hafa verið verðfelld og það þarf að leiðrétta. Undanfarin ár hafa verið tími þolinmæði, ábyrgðar og úthalds. Félagsmenn BHM, millistéttin, sýndu ábyrga afstöðu í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Þeir tóku á sig kjaraskerðingar og hafa sýnt þolgæði og úthald andspænis upplausnarástandi og því síaukna starfsálagi sem fylgt hefur aðhaldsaðgerðum í opinberum rekstri. Þeir hafa tekið á sig auknar byrðar í sköttum og gjöldum og reynt á eigin skinni verðlagshækkanir á tímum tekjumissis og óvissu. Allt var þetta vegna þess að á Íslandi ríkti neyðarástand. Launastefna sú sem rekin hefur verið frá hruni og einkennist af hækkunum lægstu launa en kyrrstöðu millitekjuhópa, hefur alið af sér verðfellingu á störfum félagsmanna BHM, vanmat á þekkingu. BHM leggst gegn því að launastefna áranna eftir hrun verði fest í sessi, BHM vill ekki festa í sessi neyðarástand. BHM vill ábyrga launastefnu sem horfir til framtíðar.
Alþýðusambandið lagði af stað um áramótin með samninga sem sagðir eru kveða á um 2,8% launahækkun. Kostnaður við samningana nemur þó 4,1% þegar á heildina er litið.