Efnisyfirlit
19. júní 2023
72. árgangur
Stjórn Kvenréttindafélagsins
Tatjana Latinovic, formaður
Helga Dögg Björgvinsdóttir, varaformaður
Ellen Calmon, gjaldkeri
María Hjarðar, ritari
Ásbjörg Una Björnsdóttir, stjórn
Hildur Helga Gísladóttir, stjórn
Joanna Marcinkowska, stjórn
Birta Ósk Hönnu, varastjórn
Stefanía Sigurðardóttir, varastjórn
Tanja Teresa Leifsdóttir, varastjórn
Ritstýra
Alda Lóa Leifsdóttir
Ritnefnd
Elín Björk Jóhannsdóttir
Sólveig Jónasdóttir
Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir
Forsíða
Harpa Quynh Vy Hoang
Umbrot Litlaprent
ISSN
Prentuð útgáfa:
ISSN 1021-710X
Rafræn útgáfa:
ISSN 2351-4280

Prentun
Prentað í Litlaprent, umhverfisvottaðri prentsmiðju
Frá formanni | Tatjana Latinovic
Kvennalistinn 40 ára Ofbeldi gegn konum og börnum kemst á dagskrá stjórnmálanna | Kristín Ástgeirsdóttir
Drusluganga heima í héraði | Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir
Píkuverk brjóta ísinn
Viðtal við Rey, Hildi og Emil | Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir
Að sjá sig með augum annarra Um sjálfshlutgervingu stúlkna og kvenna | Herdís Sveinsdóttir
Heilbrigðiskerfi sem þjónar ekki trans fólki | Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir
Nándarhryðjuverk Hvað er það og hvað er til ráða? | Dr. Sigríður Halldórsdóttir
Hættu þessu væli | Margrét Lilja Arnheiðardóttir
Við fáum þessa tvo valmöguleika | Elías Rúni Líkamsvitundin í Darlowo | Aleksandra Leonardsdóttir
Að skrika fótur á sundlaugarbakkanum Votar vangaveltur húðlatrar konu | Snærós Sindradóttir
Þegar femínismi og hryðjuverk eru lögð að jöfnu Réttindi og staða kvenna í Rússlandi á okkar tímum. Viðtal við Natöshu S. | Sara Stef Hildardóttir
Á valdi tilfinninganna | Auður Magndís Auðardóttir
„Hér ertu ósýnileg …í kvennaparadísinni“
Viðtal við Sólveigu Önnu Jónsdóttur
| Steinunn Ólína Hafliðadóttir
Hvítt | Ewa Marcinek
Starf Kvenréttindafélags Íslands 2022
Tatjana

Latinovic Frá formanni
Konur og tækni var þema ársins á fundi kvennanefndar
Sameinuðu þjóðanna í New York. Á fundinum var deilt gögnum, rannsóknarniðurstöðum og reynslusögum sem staðfestu að tækniheimurinn vinnur að miklum hluta gegn konum, en ekki með þeim. Enda er þessi heimur búinn til af körlum fyrir karla. Enn eru karlar í miklum meirihluta þeirra sem fá að starfa við að móta þennan heim. Í tæknibransanum starfa
tvisvar sinnum fleiri karlar en konur. Í gervigreindariðnaðinum eru þeir fimmfalt fleiri. Vörur og þjónusta sem búin er til af fyrirtækjum þar sem konur eru í miklum minnihluta er ekki þjónusta þar sem tekið er tillit til sjónarmiða kvenna. Rótgróið kynjamisrétti er erfðasynd hins stafræna heims og endurspeglar feðraveldið og kynjakerfið í raunheimum.
Antonio Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna komst vel að orði í opnunarávarpi sínu á fundi kvennanefndarinnar, þegar hann sagði að „Kísildalir heimsins ættu ekki að verða dauðadalir kvenréttinda.“
Guterres benti á að samkvæmt síðustu spám taki miðað við
núverandi þróun 300 ár að ná fullu jafnrétti kynjanna. Konu fallast hendur að heyra þetta.
Staða kvenna er váleg á heimsvísu og bakslag hefur orðið í jafnréttismálum um allan heim. Staða kvenna á stríðshrjáðum svæðum er sérstaklega viðkvæm og loftslagsváin hefur mest áhrif á líf kvenna og stúlkna, þær eru útsettari fyrir kynbundnu ofbeldi og eru fátækari. Þó eru konur sjaldnast hafðar með í ráðum þegar loftslagsvandinn, uppbygging eftir stríðsátök og nýsköpun eru rædd.
Lýðræði á undir högg að sækja í mörgum löndum heims. Andlýðræðisleg barátta afturhaldsafla er háð um líkama kvenna. Markvisst og skipulega er grafið undan rétti kvenna að ráða yfir eigin líkama, undan rétti þeirra að taka ákvarðanir um eigið líf og undan trúverðugleika þeirra sem þora að tjá sig.
Þetta bakslag sjáum við í Bandaríkjunum, þar sem dýstopísk þróun á sér nú stað í anda skáldsögu Margaret Atwood, Sögu þernunnar Síðan hæstiréttur landsins felldi úr gildi Roe vs. Wade úrskurðinn, hafa fjórtán ríki hert lög um þungunarrof og í níu þeirra er ekki gert ráð fyrir undantekningum vegna nauðgana.
Sífellt er erfiðara fyrir konur þar í landi að sækja sér læknisþjónustu, stunda vinnu og afla sér viðurværis, sökum kvenfjandsamlegrar stjórnmálastefnu sem bitnar mest á konum og fólki sem tilheyrir hinum ýmsum minnihlutahópum.
Svipaða orðræðu gegn
sjálfsákvörðunarrétti kvenna og
kynsegin fólks yfir eigin líkama
sjáum við í ýmsum löndum Evrópu sem standa okkur nær. Ísland er ekki undanskilið þessu bakslagi gegn kvenréttindum. Við skulum
ekki gleyma því að árið 2019 kaus
29% íslenskra alþingismanna gegn lögum um þungunarrof (33% þegar við teljum þau með sem sátu hjá).
Það þýðir að þriðjungur fólks í
æðstu valdastöðum í því landi sem
í rúmlega áratug hefur trónað efst
á alþjóðlegum listum yfir jafnrétti
kynjanna treystir ekki konum til að
ráða yfir sínum eigin likama og telur
sig þurfa að hafa vit fyrir þeim.
Þessi ógnvænlega afturhalds
þróun er kveikjan af hugmyndinni
að þema blaðsins í ár, en það er líkaminn. Tenging (kven)líkama
við samfélagsstöðu og völd í
samfélaginu eru rannsökuð frá ýmsum
sjónarhornum.
Ég hef búið á Íslandi í næstum því þrjá áratugi og á þessum árum hef ég tekið virkan þátt í kvenna og jafnréttisbaráttunni. Ég hef lært af konunum sem komu á undan mér í baráttunni, upplifað mikið sjálf og deilt reynslu minni til næstu kynslóða. Eitt sem ég tek eftir svo vel eftir er hversu sterk samstaðan er innan kvennahreyfingarnnar hér á landi, í samanburði við önnur lönd þar sem ég þekki til. Vissulega tökumst við í femínísku hreyfingunni á og áherslur eru mismunandi og breytilegar en ég
hef blessunarlega aldrei upplifað að mannréttindabaráttuhópar vinni gegn hver öðrum eða útiloki hver annan hér
á landi. Slík breytni myndi ganga að jafnréttisbaráttunni dauðri og árangur þrotlausrar baráttu aðgerðarsinna yrði enginn ef við sköpum ekki pláss fyrir öll.
Sköpum pláss fyrir fólk með fjölbreyttan bakgrunn og fyrir hópa samfélagsins sem voru fyrr á tímum svo til ósýnilegir af ótta við að láta í sér heyra en eru nú loksins að koma út úr skápnum og óska sér einskis annars en að njóta sjálfsagðra mannréttinda.
Það er þess vegna sem þörf er á femínískri baráttu – femínisma sem afhjúpar og brýtur niður úrelta valdaskiptingu og býr til pláss fyrir okkur öll.
Kvennalistinn 40 ára
Ofbeldi gegn konum og börnum
kemst á dagskrá stjórnmálanna

Vorið 1983 gerðust þau tíðindi að
konur buðu fram sérstakan lista í
kosningum til Alþingis. Slíkt hafði
ekki gerst síðan árið 1926. Þetta
framboð var framhald á framboðum
kvenna á Akureyri og í Reykjavík til bæjar og borgarstjórnar árið
áður með góðum árangri. Á
ferð voru nýjar hugmyndir um kvennamenningu, reynsluheim
kvenna og mikilvægi þess að konur
hefðu áhrif á mótun samfélagsins til jafns við karla. Þrjár kvennalistakonur
voru kjörnar á þing og fjölgaði
konum á þingi úr 5% í 15% eða
úr þremur í níu. Á þessum tíma var Ísland langt á eftir hinum
Norðurlöndunum hvað varðaði stöðu kvenna í stjórnmálum og karlveldið alls ráðandi. Því varð að grípa til kvennaráða. Með kvennaframboðunum hófst nýtt tímabil í kvennabaráttunni á Íslandi. Áratuginn á
undan hafði Rauðsokkahreyfingin hrist rækilega upp í samfélaginu með róttækum aðgerðum og harðri gagnrýni á ríkjandi kvennakúgun. Nú varð að koma hreyfingu á málin með nýjum aðferðum.
Hver var árangurinn 19831999 þegar Kvennalistakonur sátu
á þingi? Í fyrsta lagi fjölgaði konum nokkuð jafnt og þétt sem kjörnum fulltrúum en hlutfall kvenna er auðvitað spurning um lýðræði og stöðu kvenna í samfélaginu. Í öðru
lagi voru málefni kvenna sett á
dagskrá en mörg þeirra höfðu aldrei
áður verið rædd á Alþingi. Í þriðja
lagi voru stjórnvöld undir stöðugu
aðhaldi með umræðum, fyrirspurnum og tillögum. Í fjórða lagi fékk hópur
kvenna tækifæri til að spreyta sig í
stjórnmálum og síðast en ekki síst
hljómuðu femíniskar raddir, gagnrýni og sýn í sölum Alþingis og veitti
ekki af. Hér á eftir verður skoðað
hvernig Kvennalistakonur beittu sér í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi.
Hvað segir sagan okkur?
Samkvæmt tölum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) býr um það bil þriðja hver kona við kynbundið ofbeldi í nánum samböndum. Mun fleiri konur verða fyrir einhvers konar ofbeldi á ævi sinni og fullyrða má að nánast allar konur sæti kynferðislegri áreitni af einhverju tagi. Á stríðshrjáðum svæðum er staðan enn verri enda tíðkast að nota nauðganir og kynlífsþrælkun sem vopn til að niðurlægja „óvininn“. Ofbeldið er eitt af valdatækjum feðraveldisins og það er andlegt, líkamlegt, kynferðislegt og fjárhagslegt.
Því miður er staðan sú sama hér á landi og annars staðar þrátt fyrir að við mælumst efst í hópi þjóða hvað varðar jafnrétti kynjanna. Það er áleitin spurning hvers vegna við höfum ekki náð betri árangri en raun ber vitni. Meira um það síðar.
Hvers kyns ofbeldi gegn konum hefur auðvitað verið þekkt um aldir. Lengi vel leyfðu lög (og leyfa víða enn) að karlar lúskruðu á eiginkonum sínum, þeirra var rétturinn, nema þeir gengju of langt og dræpu þær. Nauðganir voru refsiverðar (enda skemmd á eignum karla ef gerandinn kom utan að) en ekki fór mikið fyrir málaferlum vegna þeirra hér á landi, helst var það ef um börn var að ræða. Allt var meira og minna þaggað niður. Á 19. öldinni varð bindindishreyfingin öflug og þar voru konur mjög áberandi. Ég er viss um að mjög margar þeirra tengdu saman áfengi og ofbeldi auk þess sem karlar voru sakaðir um að drekka fjölskyldur sínar út á guð og gaddinn. Ofbeldi var varla nefnt opinberlega en víða
var komið upp athvörfum fyrir konur á flótta, t.d. í Englandi. Á árunum eftir fyrri heimsstyrjöldina höfðu kvennahreyfingar miklar áhyggjur af „hvítri þrælasölu“ eða með öðrum orðum mansali en mikið var um að konur væru „lokkaðar“ í vændi í upplausn eftirstríðsáranna. Þessi mál voru rædd á alþjóðlegum ráðstefnum kvenna.
Ofbeldi gegn konum verður sýnilegt
Það var ekki fyrr en með „Nýju kvennahreyfingunni“ um 1970 sem ofbeldi gegn konum komst á dagskrá fyrir alvöru. Á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Mexíkó 1975 var ofbeldið ekki komið á hina opinberu dagskrá, helst að minnst væri á það í sambandi við stríðsátök. Bent hafði verið á ofbeldi gegn konum í Víetnamstríðinu en „hlustunarskilyrði“ voru enn ekki til staðar. Það átti eftir að breytast.
Árið 1985 var ofbeldi gegn konum aðalmálið á kvennaráðstefnu SÞ í Nairobi.
Hér á landi beindust sjónir, t.d. innan Rauðsokkahreyfingarinnar, einkum að nauðgunarmálum sem komust í fjölmiðla endrum og sinnum, sérstaklega ef þær áttu sér stað utan dyra og ofbeldismaðurinn var óþekktur. Þögn, þögn, þögn um allt annað. Utan að bárust fregnir af kvennaathvörfum sem sýndu að ofbeldi gegn konum í nánum samböndum var mun útbreiddara en nokkurn óraði fyrir. Því hófust umræður upp úr 1980 um að stofna þyrfti kvennaathvarf hér á landi.
Kynferðisofbeldi gegn börnum var enn ekki komið á dagskrá.
Snemma árs 1981 hófust
umræður meðal kvenna í Rauðsokkahreyfingunni um að finna þyrfti nýjar leiðir í kvennabaráttunni. Það
var ekkert að gerast en framboð Vigdísar Finnbogadóttur til embættis forseta Íslands 1980 hafði heldur betur afhjúpað ríkjandi karlrembu.
Ef eitthvað átti að breytast yrðu konur að grípa til sinna ráða. Hér má minna á skort á leikskólum, sundurslitinn skóladag, launamisrétti og kvenfyrirlitningu í tungumálinu, menningunni og samfélaginu almennt. Upp kom sú hugmynd að storka feðraveldinu ærlega með því að ráðast á valdastofnanir þess, fyrst borgarstjórn Reykjavíkur. Á Akureyri hófst sams konar umræða, þó án þess að hóparnir vissu hvor af öðrum. Til að gera langa sögu stutta var ákveðið að bjóða fram og fengust tveir fulltrúar bæði sunnan og norðan heiða. Ofbeldi gegn konum og stofnun kvennaathvarfs var meðal þeirra mála sem setja átti á dagskrá stjórnmálanna. Við sem stóðum að kvennaframboðinu í Reykjavík komumst fljótt að þeirri niðurstöðu að þarna væri um mál að ræða sem snerti allar konur og því var ákveðið að koma umræðunni í farveg alls konar kvenna. Við áttum frumkvæði að því að boða til fundar en síðan fór baráttan á sameiginlegt flug. Kvennaathvarf var stofnað í Reykjavík haustið 1982 og hefur starfað samfellt síðan enda þörfin mikil.
Verkin tala
Kvennaframboðin og svo Kvennalistinn voru fyrstu pólitísku samtökin sem settu baráttu gegn kynbundnu ofbeldi á stefnuskrá sína. Í fyrstu stefnuskrá Kvennalistans sagði: „Ofbeldi gegn konum verður æ sýnilegra og margslungnara. Við svo búið má ekki standa.“ Verkin voru látin tala. Á fyrsta þinginu 19834 lagði Kristín Halldórsdóttir fram fyrirspurn um nauðganir og afdrif slíkra mála í
kjölfar nauðgunar við Hverfisgötu sem vakti mikla athygli og óhug. Svörin voru ekki uppörvandi. Í kjölfarið
lögðu þingkonur Kvennalistans fram tillögu um „Rannsókn og
meðferð nauðgunarmála“ og var hún samþykkt. Síðar kom ítarleg skýrsla sem enn síðar leiddi til stofnunar
Neyðarmóttöku fyrir þolendur
kynferðisofbeldis 1993. Guðrún
Agnarsdóttir, ein af þremur fyrstu
þingkonum Kvennalistans, stýrði skipulagningu móttökunnar og var

yfirlæknir hennar um árabil. Kristín
Halldórsdóttir lagði einnig fram tillögu um aukna fræðslu um kynferðismál en
hún hlaut ekki brautargengi. Mörgum þingmönnum fannst svona nokkuð algjör óþarfi. Næst var kosið 1987. Í stefnuskrá Kvennalistans frá því ári fengu ofbeldismálin mun meira rými en áður. Í henni er að finna sérstakan kafla um ofbeldi gegn konum og börnum. Þar segir að ofbeldi gegn konum sé vandamál samfélagsins alls og að í því birtist kvennakúgun í sinni grófustu mynd. Bent er á að nú beinist athygli erlendis æ meir að ofbeldi gegn börnum og því þurfi að sinna hér á landi. Kvennalistinn vildi fá rannsókn á umfangi ofbeldis gegn konum og börnum, komið
yrði upp neyðarmóttöku fyrir börn, embætti barnamálsvara yrði stofnað og að sala og útbreiðsla á klámi yrði stöðvuð. Guðrún Agnarsdóttir lagði fram tillögur um könnun á ofbeldi í myndmiðlum. Hún var samþykkt en þannig breytt að draga ætti úr ofbeldi í myndmiðlum. Lítið hefur sést af slíkum aðgerðum.
Málefni samkynhneigðra sett á dagskrá
Í stefnuskránni frá 1991 var enn bætt um betur. Þess var krafist að tillögum nefndar um nauðgunarmál
yrði hrint í framkvæmd þegar í stað, fræðsla um ofbeldi yrði aukin og að öll málsmeðferð kynferðisbrotamála
yrði bætt í dómskerfinu. Þetta síðastnefnda er enn á dagskrá. Í þessari stefnuskrá var sérstakur kafli um barnavernd og í fyrsta sinn í íslenskri stjórnmálasögu var að finna kafla um réttindi samkynhneigðra sem sannarlega sættu margs konar ofbeldi. Þegar hér var komið sögu var búið að stofna Stígamót (1990) sem glímdu við áratuga gamlar sögur kvenna um nauðganir, misnotkun og ofbeldi af ýmsu tagi. Loksins var þögguninni sagt stríð á hendur.
Á kjörtímabilinu 1991–1995 var enn bætt í vef baráttunnar með tillögum um rannsókn á stöðu samkynhneigðra sem Ingibjörg Sólrún
Gísladóttir átti frumkvæði að og var hún samþykkt. Hún flutti einnig tillögu ásamt hópi þingkvenna um aðgerðir til að styrkja stöðu brotaþola
í kynferðisbrotamálum. Málinu var vísað til ríkisstjórnarinnar en það
þýddi allt of oft að ekkert varð úr aðgerðum. Enn var efnt til kosninga
1995 og bauð Kvennalistinn þá fram
í síðasta sinn. Í stefnuskránni það
ár er að finna sérstakan kafla um
ofbeldi gegn börnum enda fengum
við ábendingar um að ofbeldi gegn börnum og ofbeldi gegn konum væri ekki það sama. Staða barna er auðvitað allt önnur en fullorðinna. Nú var orðið ljóst hve kynferðileg misnotkun á börnum var hræðilega algeng og að mikil þörf var fyrir fræðslu og aðgerðir. Krafist var úttektar á ofbeldi gegn börnum, stuðningur við börn í yfirheyrslum yrði aukinn (síðar kom Barnahús), meðferð sett á fót fyrir ofbeldismenn (hún kom líka löngu síðar) og að þeir yrðu fjarlægðir úr umhverfi barna og þannig mætti áfram telja. Samfélagið var vægast sagt óviðbúið þeim ofbeldishryllingi sem afhjúpaður var á tíunda áratug 20. aldar en þetta var bara toppurinn á ísjakanum.
Hver er árangurinn?
Á Alþingi var járnið hamrað áfram. Guðný Guðbjörnsdóttir flutti margsinnis tillögu um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni og bann við slíkri hegðun. Það verður að segjast að þingmenn voru ekki kátir, þeir (karlarnir) höfðu nú eiginlega aldrei heyrt aðra eins vitleysu og töldu þeir sig þó hafa heyrt margt vitlaust, undarlegt og ónauðsynlegt frá Kvennalistakonum.
Sú sem hér hamrar á lyklaborðið lagði fram tillögu um rannsókn á ofbeldi gegn börnum 1998 en hún dagaði uppi. Auk þeirra tillagna sem hér hafa verið nefndar voru oft lagðar fram fyrirspurnir vegna einstakra mála eða til að spyrja hvernig gengi að ýta aðgerðum áfram og veitti ekki af. Hver er svo árangurinn í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi þegar litið er yfir þau 40 ár sem liðin eru frá stofnun Kvennalistans? Lagaumhverfið hefur stórbatnað þótt enn sé margt ógert hvað varðar rannsóknir og meðferð kynferðisbrotamála. Í jafnréttislögum
frá 2008 var ofbeldið skilgreint og fékk Jafnréttisstofa það hlutverk að beita sér í fræðslu og aðgerðum gegn kynbundnu ofbeldi. Stígamót, Kvennaathvörfin (nú er annað athvarf til staðar á Akureyri) og fleiri samtök og hópar á netinu vinna hörðum höndum að afhjúpun ofbeldis, aðstoð við brotaþola og fyrirbyggjandi aðgerðum. Kynferðisofbeldi gegn drengjum og körlum var og er enn mikið tabú en sem betur fer leita æ fleiri sér aðstoðar. Stórar rannsóknir hafa verið gerðar og ný þekking skapast. Enn búum við
þó í ofbeldissamfélagi eins og ótal dæmi sanna. Enn komast lang flestir ofbeldismenn undan refsingu. Nú síðast eru þeir farnir að svara fullum hálsi með árásum á þær konur sem leyfa sér að opna umræðuna og segja sögu sína. Allt of mörg mál eru látin niður falla. Enn er mikið verk að vinna.
#METOO – hvað er til ráða
Árið 2017 riðu leikkonur í Hollywood á vaðið og hófu umræður um einstaka ofbeldis og valdamenn í kvikmyndaheiminum sem níddust endalaust á konum og beittu þannig valdi sínu. Við blasti hyldýpi kynferðisofbeldis sem var ekki aðeins til staðar í listaheiminum, heldur nánast alls staðar. Hópar kvenna um allan heim sögðu frá undir myllumerkinu #metoo og þær skiptu þúsundum. Hér á landi sögðu m.a. stjórnmálakonur, flugfreyjur, listakonur og erlendar konur frá en sögur þeirra síðasttöldu voru enn hræðilegri en hinna vegna veikrar stöðu í samfélaginu. Haldin var samkoma í Borgarleikhúsinu og hópar störfuðu á netinu. Það sem einkenndi fyrstu bylgju #metoo hér á landi var nafnleysi. Ofbeldismenn voru ekki nafngreindir til að byrja með en síðan
breyttist það og þá varð fjandinn laus. Þegar ofbeldið fær andlit, jafnvel fræg andlit, bregður fólki í brún og margir snúast til varnar. Má ekki satt kyrrt liggja? Á að eyðileggja menn o.s.frv. Því miður, það verður að segja sannleikann. Annars komumst við ekkert áfram. Síðan hefur umræðan haldið áfram, gamlar sögur eru dregnar fram í dagsljósið en ekkert lát er á ofbeldinu. Hvað er til ráða?
Það þarf að greina ræturnar. Leita aftur í aldirnar þar sem ofbeldis(ó) menningin óx og dafnaði. Það verður að taka á uppeldi bæði drengja og stúlkna og þar þurfa allir að koma að. Setja virðingu, samkennd, kærleika og vináttu í öndvegi. Það verður að ráðast gegn ofbeldisefninu sem dynur á okkur alla daga í sjónvarpi, kvikmyndum, tölvuleikjum og í símanum okkar. Það þarf að ræða opinskátt um hegðun karla, eitraða karlmennsku og hvað þeir telja sér leyfast. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Fræðsla og meiri fræðsla, umræður og meiri umræður. Við erum að glíma við rætur feðraveldisins, vald yfir konum sem margir karlar telja sig hafa rétt til. Aldagamla kvenfyrirlitningu. Ofbeldið snertir samfélagið allt, það varðar líf okkar allra. Eins og áður er það samstaðan sem skilar árangri. Höldum baráttunni áfram. Þrátt fyrir allt hefur margt áunnist og mörg líf bjargast. En betur má ef duga skal.
Höfundur er sagnfræðingur og var meðal stofnenda Kvennalistans.

Ég kærði mann fyrir kynferðisofbeldi í lok árs 2014. Málið mitt er eitt af þeim sem meika ekki sens. Ég fór eftir öllu í bókinni. Sendi „hjálp“ sms á vinkonu mína sem varð til þess að hún fann fólk og reyndi að brjótast inn til að bjarga mér út. Þegar það gekk ekki ræsti hún út lögregluna á Húsavík. Vinkona mín blóðgaði alla höndina á sér við að reyna að bjarga mér. Lögreglan mætti á staðinn og fór með mig beint upp á sjúkrahús í algjöru taugaáfalli. Þar fundust áverkar og DNA. Ég kærði nokkrum klukkutímum seinna. Öll sögðu mér að ég væri með sterkt mál, líklegt til sakfellingar, sem gerði niðurfellinguna að stóru sjokki. Ég veit að langflest mál eru felld niður og að sakfellingarhlutfall er einungis 13% en ef mitt mál komst ekki í gegn, hvaða mál komast þá í gegn?
Málið var fellt niður hálfu árið síðar. Í framhaldinu er ég kærð. Það er sturlað að lögreglumaðurinn sem ég kærði fyrir kynferðisofbeldi hafi getað kært mig fyrir rangar sakargiftir, ÁN SANNANA, til að beita mig áframhaldandi meintu ofbeldi. Ég mun aldrei ná utan um það að réttakerfið leyfir gerendum að beita þolendur ofbeldi og aðstoði við það. Ég rankaði við mér uppi á sjúkrahúsi eftir að hafa sturtað öllum lyfjum heimilisins í mig með áfengi. Ég vildi ekki deyja, ég gat bara ekki meira. Heimurinn hrundi.
Meðganga undir auknu eftirliti
Ég kom mér í gang aftur með aðstoð minna nánustu og heimsótti
Sauðárkrók um jólin ári síðar.
Ég var komin 12 vikur á leið og
nýtti tækifærið til að fara í sónar á
sjúkrahúsinu til að kíkja á gullið mitt.
Heimsóknin var lítið gleðileg – rétt
eftir að ég tilkynnti fólkinu mínu að ég væri með barni var ég allt að því handtekin. Hann hafði kært niðurfellingu á sinni fyrri kæru. Þetta var á Þorláksmessu og ég ólétt af mínu fyrsta barni, meðganga „undir auknu eftirliti“. Af hverju? Af því að ég kærði lögreglumann fyrir kynferðisofbeldi. Af því að kerfið gerir honum og öðrum kleift að fara þessa leið. Lögfræðingnum mínum var hótað að ef ég kæmi ekki í skýrslutöku á þeim dögum sem hentaði lögreglunni þá kæmu vinnufélagar mannsins sem ég kærði og myndu handtaka mig og færa á lögreglustöðina þar sem meintur gerandi minn var enn starfandi. Ég gaf kost á mér í skýrslutöku mörgum
sinnum en það hentaði þeim ekki, ég gaf kost á mér í gegnum netið en það hentaði ekki heldur.
Athyglissjúk drusla
Lögreglan hótaði að handtaka barnshafandi brotaþola á Þorláksmessu fyrir að hafa kært lögreglumann fyrir nauðgun. Ekkert benti til þess að ég hefði logið, tölfræðin var mér í hag, vitni mér í hag, skilaboð mér í hag. Hann var 35 árum eldri en ég. Ég var 19 ára. Fjölskylduvinur. Maður sem þekkti sögu mína sem brotið barn alkóhólista. Maður sem hafði mætt móður minni þegar kom að því að borga ökukennsluna. Maður sem ég þekkti og treysti. Það var gengið harðar á eftir mér en honum. Málið gegn mér var fljótt fellt niður en sú niðurfelling var ekki notuð sem sönnun á sakleysi mínu, eins og var gert í hans tilfelli, heldur var ég
ennþá lygari eins og þau sem höfðu tekið afstöðu gegn mér vildu meina. Samkvæmt þeim var ég athyglissjúk drusla sem vildi fara heim með gömlum kalli sem var ökukennarinn
minn. Ég var reyndar nýtrúlofuð
æskuástinni minni og á góðum stað
í lífinu en þau þurftu eitthvað til að sannfæra svo þau gætu staðið með honum.
Þögn Skagafjarðar
Kerfið og nærumhverfið brást mér. Ég hélt að ég myndi fá stuðning. Ég hafði ekki hugmynd um að konur hefðu alltaf þurft að bera harm sinn
í hljóði. Að skömmin væri okkar og að okkur yrði ekki trúað. Málið mitt tengdist báðum heimabæjum mínum, Húsavík og Sauðárkróki, og því varð höfnunin einhvernvegin tvöföld. Það var ekki bara verið að kjamsa á þessu
á Sauðárkróki, þar sem maðurinn sem ég kærði bjó, heldur fékk ég reglulega skilaboð úm að það væri verið að ræða málið á vinnustöðum
á Húsavík þar sem brotið átti sér stað. Bæði þar og á Sauðárkróki voru gamlar sögur um mig dregnar upp
til að gera mig ábyrga fyrir ofbeldinu sem ég kærði eða þær notaðar til að útskýra að ég hefði átt þetta skilið. Það sem særði líka var þögnin. Sérstaklega þögn Skagafjarðar þar sem hann var búsettur. Hvernig fáar manneskjur stóðu upp fyrir mér, hatrinu gegn mér var frekar leyft að grassera og orðrómurinn látinn óáreittur. Mér bárust lágvær stuðningsskilaboð en sjaldan fann ég fyrir því að einhver stæði bara upp og segði stopp. Það var svo mikið sjokk að heyra og sjá viðbjóð um sjálfa sig og hvernig heilt bæjarfélag var tilbúið að líta undan í staðinn fyrir að segja bara nei, þetta er ekki í lagi, þetta er ekki meðferð sem við samþykkjum á þolendum ofbeldis.
Drusluganga á Sauðárkróki
Eftir að ég kærði fóru mér að berast sögur af fleiri kynferðisbrotum í
bænum sem reynt hefði verið að þagga niður. Það ásamt útreiðinni sem ég fékk varð til þess að ég fékk nóg. Ég vissi í raun ekkert hvað ég gæti gert en mér fannst ég þurfa að gera eitthvað. Þá ákvað ég að halda Druslugönguna á Sauðárkróki. Ég
hafði samband við nefndina sem sér um hana í Reykjavík og fékk samþykki og hafði þá strax samband við sveitarfélagið Skagafjörð og henti mér
í djúpu laugina, vitandi ekkert hvernig mér yrði tekið með þessa hugmynd. Þar fékk ég einnig samþykki og styrk til að kaupa það sem þurfti. Erfiðasta skrefið var að hafa samband við lögregluna á Sauðárkróki enda frestaði ég því lengur en ég hefði átt að gera en fékk sem betur fer undanþágu í ljósi alls. Ég þurfti að skora á hólm kvíðann og vanlíðanina sem höfðu síðan 2014 fylgt mér þegar ég mætti á Sauðárkrók. Ég fékk aðstoð frá fullt af fólki og heyrði meira gott en slæmt varðandi hugmyndina. Erla Einarsdóttir, baráttukona á Sauðárkróki, tók á sig verkefni á móti mér og þetta varð að veruleika. Verst fannst mér að heyra af fólkinu sem vildi mæta en þorði ekki því þau vildu ekki verða óvinsæl eða dæmd af öðrum fyrir að mæta. Hef fullan skilning fyrir því en vildi óska að staðan væri ekki svona slæm.
Í þögninni þrífst ofbeldi Málið er að ofbeldi þrífst í þögninni og í Skagafirði ríkir þöggunarmenning. Óþægilegir hlutir eru ekki ræddir, þeim er sópað undir teppið. Fólk sem ræðir hlutina eða skilar skömminni er óþægilegt og á ekki rétt á sér og því allt gert til að þagga niður í því. Með þessu samþykkjum við að hlífa gerendum og hafna þolendum. Við erum líka svo meðvirk af því við þekkjum
gerendurna, þetta eru „góðir“ menn, vinir okkar, feður okkar, synir okkar.

Þetta eru vel séðir menn. Ég hafði orðið fyrir drusluskömmun og verið beitt kynferðislegu einelti, ásamt
því höfðu hlutirnir lítið breyst síðan
2014/2015 þegar ég var útskúfuð og hrakin burt í kjölfar þess að ég
kærði kynferðisbrot. Mér fannst
Druslugangan geta verið fyrsta
skrefið í átt að því að opna á samtalið
um helstu hugtök sem tengjast nauðgunarmenningu. Ég sá fyrir mér að með slíku samtali gæti fylgt aukinn skilningur, stuðningur og vonandi
gæti dregið úr þolendaskömmun og
gerendameðvirkni. Það breytist ekkert
á einni nóttu en það skiptir máli að reyna að gera eitthvað. Það er þörf
á viðhorfsbreytingum á Sauðárkróki
til að þolendur geti fundið að þau séu velkomin í fallega Skagafjörð. Við
þurfum að taka til í hugsunarhætti okkar og beita gagnrýnni hugsun, við getum alltaf gert betur og við ættum að vanda til verka svo þolendur sem hafa verið hrakin burt frá Sauðárkróki finni samstöðu.
Við vorum heppin með veður, sólin skein en það blés aðeins – eins og vanalega á Króknum. Við höfðum
nokkur safnast saman kvöldið áður til að mála skilti og koma okkur í gírinn.
Það var mæting snemma fyrir utan
grunnskólann og við vorum með
sölu á varningi ásamt því að deila
út gosi sem við fengum sem styrk
frá Hlíðarkaup og skiltunum ef fólk
hafði ekki útbúið sín eigin. Það mættu
hátt í 100 manns en ég hefði viljað
sjá fleiri Sauðkrækinga. Við gengum
frá grunnskólanum að Kaffi Krók þar sem við höfðum græjað lítið svæði með míkrafón til að halda ræður
og vera með tónlistaratriði. Gangan
fór því framhjá lögreglustöðinni
þar sem maðurinn sem ég kærði hafði starfað. Þegar við gengum að lögreglustöðinni stoppaði Hulda mín í
Öfgum allt í einu og öskraði hástöfum
„Löggan á að vernda mig. Hún á ekki að nauðga mér!“ og öll gangan tók undir. Ég brotnaði algjörlega niður á þessum tímapunkti, á sama tíma og ég upplifði mig sterkari sem aldrei fyrr. Ég fann fyrir samstöðu. Lögreglan stýrði umferð og beið róleg eftir okkur meðan við stoppuðum þarna fyrir framan. Það veitti styrk að „eiga“ götuna, taka allt þetta pláss. Nokkrir þolendur og aðstandendur þolenda
á Sauðárkróki tóku til máls og
skiluðu skömminni. Illa gekk að finna tónlistaratriði þannig ég ákvað að sjá bara um það líka og söng tvö lög við undirspil Binna Rögnvalds.
Það var ljúfsárt að standa fyrir framan Sauðkrækinga og halda ræðu sem þolandi, í bænum sem tók þátt
í að fæla mig burt, hafna mér, þagga niður í mér eða sitja þegjandi hjá á meðan vegið var að æru minni með ýmsum aðferðum, allt vegna þess að ég stóð með sjálfri mér og skilaði skömminni, glæpurinn var ekki meiri en svo. Af því að mér var nauðgað.
Af því að ég kærði nauðgun. Ég átti þetta ekki skilið. Af hverju þurfti ég að víkja? Af hverju þurfti ég að flýja?
Af hverju sendi fólk í bænum mér hatursfull skilaboð, hringdi í mig og lét viðbjóðsleg orð falla? Af hverju þurftu fjölskyldumeðlimir að sitja undir hatrinu og hlusta á fólk tala um hvað þessi Tanja Ísfjörð sé ógeðsleg? Ég hef fengið að lesa skilaboð þar sem er talað um að það þurfi að drepa mig eða slasa mig alvarlega. Ég hef þurft að lesa í Facebook hópum fyrir Skagfirðinga að ég sé ekki Skagfirðingur eða Sauðkrækingur til að draga meira úr mér og láta mig finna að ég sé ekki velkomin. Ég stóð samt keik og þennan sólríka dag í fallega bænum mínum upplifði ég óútskýranlegan styrk og skilaði skömminni. Mér var haldið uppi af gömlum vinum, konunum mínum í Öfgum og Hildi Lilliendahl sem mættu alla leið á Krókinn til að ganga með mér. Þær og öll sem mættu gerðu daginn fullkominn og fylltu mig og aðra þolendur eldmóði. Dagurinn heppnaðist vel var erfiður en valdeflandi. Ekkert er sterkara en brotin kona sem hefur byggt sig upp aftur.
Höfundur er baráttukona gegn kynferðislegu ofbeldi og búsett í Noregi. Hún hefur aðstoðað þolendur kynferðisofbeldis opinberlega og persónulega jöfnum höndum síðastliðin átta ár.












Píkuverk brjóta ísinn
Viðtal við Rey, Hildi og Emil

Nýverið tóku 8. bekkingar í Hagaskóla þátt í verkefni þar sem textíl- og myndlistarkennararnir Brynja Emilsdóttir og Hjörný Snorradóttir kynntu þeim listsköpun Kristínar Gunnlaugsdóttur myndlistarkonu og þau unnu verk innblásin af verkum hennar í kjölfarið og sýndu þau á Þjóðminjasafninu. Verkefnið var hluti af Viku 6, þemaviku þar sem nemendur stúdera kynvitund í öllum tímum. 19. júní hitti nemendurna Hildi, Rey og Emil og fræddist um verkefnið.
Hvernig taka nemendur í þessa viku 6?
Hildur: Ég held að flestum hafi fundist þetta skemmtilegt. En það eru alltaf einhverjir sem eru bara „af hverju þurfum við að læra um kvenlíkamann?“
Emil: En það eru samt bara þeir sömu og segja aðrar vikur „af hverju erum við að læra dönsku“?
Rey: Ég hefði samt alveg verið til í að fá meiri kynfræðslu í vikunni. Við erum fjórtán ára, við þurfum að fara að læra um þetta.
Hildur: Já, krakkar eru einhvern tímann að fara að byrja að stunda kynlíf og það er svo mikilvægt að vita hvað það er, vita að maður þarf að tala saman til að engum líði ógeðslega illa, læra að virða mörk og setja sín eigin mörk.
Hvað fannst ykkur um verk Kristínar þau sem voru kynnt?
Rey: Mér finnst flott hjá henni að hugsa um að stelpur geti átt sína líkama, við getum alveg sagt orð eins píka, typpi, leggöng, blæðingar og brjóst upphátt
það á ekki að vera neitt skrýtið. Þetta eru allt eðlilegir hlutir.
Hildur: Já, hún er svo flott kona, finnst mér.
Emil: Mér og vinum mínum fannst þetta smá sjokkerandi eða fyndið fyrst, að vera að tala um og sjá svona mikið af myndum af píkum, en svo fattaði maður í kynningunni [á verkum Kristínar] hvað þetta var mikilvægt fyrir okkur. Eftir þetta er þetta miklu minna mál.
Og hvernig verk urðu til hjá ykkur í kjölfarið?
Hildur: Ég endurgerði verk eftir Kristínu, sem sýnir nakinn kvenlíkama. Ég saumaði það út og skrifaði í kringum líkamann nokkur orð sem konur fá oft að heyra um líkama sína, eins og t.d. „tussa“, „tík“ og svoleiðis. Til að minna á að það er ekki í lagi að tala svona um konur.
„Við getum sagt píka og brjóst og sagt upphátt typpi, píka, leggöng, blæðingar og brjóst – það á ekki að vera neitt skrýtið” – Rey, 8. bekkingur í
Hagaskóla
Emil: Ég og vinir mínir gerðum svona grænan og gulan hring í efni, sem við saumuðum svo kynfæri inní, bæði typpi og píku.
Var algengt það væru líka typpi í verkunum?
Emil: Margir strákanna vildu gera typpi og fannst það einhvern
veginn fyndnara – að gera typpi er einhvern veginn ekkert mál, ekkert vandræðalegt. Í smiðjunni vorum við til dæmis að gera 3D prentara verkefni og mjög margir fengu þá hugmynd að gera typpi í 3D prentaranum. En kennarinn bjó þá til þá reglu að ef þú gerir typpi þarftu að gera píku líka, og öllum fannst það svo skrýtið.
Hildur: Það er svo mikið talað um bara typpi, typpi væru svo frábær, það mætti alltaf segja typpi og mætti teikna typpi útum allt, en svo þegar einhver rétt svo minntist á píku var það bara eitthvað Oj!
„Ég held að Kristín Gunnlaugs hafi verið að brjóta ísinn með þessum verkum, með því að sýna þetta. Ef þú sérð bara milljón myndir af stelpum allsberum hættir það að vera eitthvað mál“. – Emil, 8.
bekkingur í Hagaskóla
Emil: En þegar við „þurftum“ eiginlega að teikna píkur jafn mikið eins og við gerðum typpi, þá hætti að vera þessi munur á því – þetta varð bara allt eðlilegt.
Hvaðan haldið þið að þessi ólíku viðhorf til kynfæranna komi?
Hildur: Ég veit það ekki, þetta er mjög skrýtið.
Rey: Það byrjaði bara einhverstaðar, við vitum ekki hvernig þetta gerðist.
Hildur: Það er svo mikilvægt að við getum talað opinskátt um þessi mál til að koma í veg fyrir mismunun.
Emil: Ég held að Kristin Gunnlaugs hafi einmitt verið að gera það – brjóta ísinn með þessum verkum, með því að sýna þetta – ef þú sérð bara milljón myndir af stelpum allsberum hættir það að vera eitthvað stórmál að sjá þessa líkama.
Hildur: Við þurfum að gera það eins eðlilegt og við getum. Þetta er bara líkami, sem er einn af eðlilegustu hlutum í heimi!
Hvernig finnst ykkur líkamsímynd unglinga í dag vera?
Rey: Þegar við sjáum unglinga í þáttum og þannig eru þeir með bólur, röddin í strákunum er að breytast og stelpur að fá stærri brjóst, en í alvöru er þetta ekkert alveg svona dramatískt.
Hildur: Ég held það geti verið smá óþægilegt [að verða unglingur] og margir sem eru óöruggir út af bíómyndunum, sem segja manni hvernig maður á að líta út, segja þér að þú eigir að vera einhvern veginn í laginu eða svona hávaxinn eða eitthvað.
Krakkarnir eru þó sammála um að líkamsímynd unglinga fari batnandi með tímanum.
Rey: Núna vitum við almennt meira, við vitum t.d. alveg hvað fake news er og svoleiðis, getum greint á milli hvað er raunverulegt og hvað ekki.
Hildur: það er svo mikið verið að fræða fólk um að það eru ekki allir eins og það er eðlilegt að vera ólík.
Það er mikið rætt í fjölmiðlum að samfélagsmiðlar séu svo slæmir fyrir unglinga og sjálfsmynd þeirra, eruð þið sammála því?
Hildur: Það fer bara alveg eftir hvað þú ert að skoða. Ég er til dæmis ekki á Instagram, ég nenni ekki veseninu.
Rey: Ég held að krökkum líði frekar illa út af skólanum og því sem fer fram þar.
Sumir eru leiðinlegir við aðra af því að þeir eru öðruvísi – það hefur ekki breyst.
Strákarnir halda að stelpurnar séu verri en þeir í íþróttum og svo eru fullt
af krökkum sem eru á móti trans fólki og vilja ekki kynna sér tilveru þeirra.

Emil: Og Andrew Tate [innsk. blm: samfélagsmiðlastjarna sem er þekktastur fyrir kvenhatur] er stór partur af því.
Hildur: Þó að þetta sé orðið betra en fyrir 10 árum er þetta samt ekki fullkomið. Ég veit að það er fullt af trans krökkum sem líður ennþá illa
af því það er verið að gera grín að þeim eða ekki verið að virða þau eins og þau eru. Þau segja erfitt en ekki ómögulegt að bæta úr því, og til þess þurfi einmitt fræðslu eins og þá sem fer fram í Viku 6 í Hagaskóla.
Rey: Lífið er eins og endalaus spotti eða langur þráður. Það eru aldrei alveg allir að fara að hætta að vera á móti trans fólki, eða svörtu fólki, eða að vera Andrew Tate fan.
Ég meina, það er enn til fólk sem heldur því fram að hnötturinn sé flatur eða að Ástralía sé ekki til!
Hildur: Það verður aldrei hægt að snúa öllum við og gera alla sammála.
Emil: Ég held að á þessum aldri séum við svo mikið að móta skoðanir okkar, hvernig við viljum vera í framtíðinni. Ég held að flestir verði ekkert að gera grín að trans fólki þegar það verður fullorðið. Þegar krakkarnir sem eiga til að vera með fordóma hérna eru orðin 30 ára verða þau búin að læra meira og hafa hitt fleira trans fólk og breyta skoðunum sínum út frá því að hafa fræðst meira. Ég held það að minnsta kosti.

Takk fyrir stuðninginn!




HVALUR ehf.









Að sjá sig með augum annarra:
Um sjálfshlutgervingu stúlkna og
kvenna
Herdís Sveinsdóttir

Án hans er ekkert ég
Líkaminn er grunnurinn að þeirri
aðgreiningu sem gerð hefur verið
á kynjunum í tímans rás. Langt var
seilst hér á öldum áður til að sanna
að karlar væru í eðli sínum konum
fremri og voru hauskúpur og lengd
beina nákvæmlega mæld, heilinn
vigtaður og blóðfrumur taldar og
niðurstaðan að sjálfsögðu körlum
í vil. Þá voru líkamskerfi konunnar
talin háð eggjastokkum og legi og
þar sem öll líffæri mynda eina heild
þá var ýmislegt hættulegt konum
því það raskaði jafnvæginu og tæki
orku frá hinu raunverulega hlutverki
kvenna, æxluninni. Femínistar og
fleiri gagnrýndu þá nálgun og
töldu skýringarnar vera félags
og menningarbundnar en ekki
líffræðilegar. Það er alþekkt nú að
líffræðilegur munur hefur minnst að
segja varðandi kynjamun (e. gender differences) en félagsmótun, félagsleg
staða og völd hafa þeim mun meiri
áhrif. Það er þó þannig að við búum í þessum líkama. Án hans er ekkert ég og ekkert þú. Við og líkaminn
okkar erum mótuð af þeirri menningu og því félagslega umhverfi sem við
búum í og þessi líkami okkar miðlar
jafnframt félags og menningarlegri merkingu okkar tíma og birtist okkur sem slíkur í t.d. bíómyndum og listum.
Líkaminn aðskilinn frá
persónunni
Bandarísku fræðikonurnar Barbara
L. Fredrickson og TomiAnn
Roberts settu fram kenningu um sjálfshlutgervingu árið 1997. Þær vildu skoða hlutverk líkamans og
hvaða áhrif það hefur á reynslu og geðheilsu stúlkna og kvenna að vera kynferðislega hlutgerðar, þ.e. að litið sé á þær sem hlut sem aðrir nota til að fullnægja sínum þörfum
án tillits til þeirra sjálfra. Líkaminn er þannig aðskilinn frá persónunni sjálfri. Kenning þeirra hefur haft mikil áhrif.
Konur sem kynlífsviðföng
Forsendur kenningarinnar um hlutgervingu (e. objectification theory) eru að menningarheimur sem hlutgerir konur sem kynlífsviðföng
móti félagsþroska stúlkna og kvenna
þannig að á einhverju stigi fari þær að meðhöndla sjálfar sig sem viðföng sem séu metin eftir útlitinu. Að sjálfsögðu er reynsla kvenna og viðbrögð við kynferðislegri hlutgervingu ekki sú sama. Fjöldi þátta getur haft áhrif eins og samspil kynþáttar, kynvitundar, félagslegrar stöðu, aldurs og fleira. En, segja þær stöllur, það að hafa þroskaðan líkama getur haft í för þessa sameiginlegu reynslu, þ.e. að vera kynferðislega hlutgerð, sem getur svo leitt til sameiginlegrar sálrænnar upplifunar.
Útlit og velgengni
Kenningunni var ætlað að skýra hvernig það að alast upp og lifa í menningarheimi sem kerfisbundið hlutgerir konur, hefur áhrif á andlega og líkamlega heilsu kvenna og stúlkna. Í kenningunni eru færð rök fyrir því að stúlkur og konur samsami sig sjónarmiði þess sem hlutgerir þær og að þær verði ofuruppteknar af líkamlegu útliti sínu sem þær telja að stjórni því hvernig þeim farnast í lífinu. Þær fara að líta á sjálfar sig sem hlut sem þær líta stöðugt gagnrýnum augum þar sem útlit líkamans fær meira vægi en líðan þeirra og hvað þær geta gert með líkamanum. Þetta ferli kallast sjálfshlutgerving. Náskylt hugtak, sem ég hef kallað hlutgerð líkamsvitund (e. objectified body consciousness) kom fram á svipuðum
tíma. Hugmyndafræðin þar að baki er að í hlutgerðri líkamsvitund felist
þrír þættir: sjálfseftirlit, sem felur í sér að vera stöðugt að fylgjast með sjálfri sér; líkamsskömm, sem vísar til þess að líkaminn uppfylli ekki
menningarbundna fegrunarstaðla sem viðkomandi skammast sín fyrir; og svo trú á eigin stjórn, sem er að trúa því að einstaklingar geti stjórnað
því alfarið hvernig þeir líta út ef þeir leggja sig nógu mikið fram.
Útlitsaðgerðir normalíseraðar
Þessar kenningar koma fram rúmum áratug eftir að markviss
auglýsingaherferð bandarískra
sérfræðinga í lýtalækningum var
unnin og er lýst í bók Susan Faludi um bakslagið sem kom út 1987. Í
bókinni segir hún frá því að markmið auglýsinganna hafi verið að fjölga fegrunaraðgerðum. Lýtalæknar höfðu víst orðið of lítið að gera og launin voru lág. Auglýst var að mótun líkamans væri áhættulaus, örugg og árangursrík, jafnvel mikilvæg heilsu kvenna. Jafnframt að til væru skjalfestar læknisfræðilegar rannsóknir sem sönnuðu að það gæti verið heilsu kvenna hættulegt að vera með lítil brjóst og að flöt bringa hefði slæm áhrif á sjálfsmynd og vellíðan. Allir þekkja stöðuna í dag, fjörutíu árum síðar, þegar segja má að fegrunar og útlitsaðgerðir hafa verið normalíseraðar. Í bókinni kom fram að tekjur læknanna margfölduðust en konurnar fjármögnuðu aðgerðirnar með dýrum lánum.
Afleiðingar
sjálfshlutgervingar
Það er ekki að ástæðulausu að fræðafólk, femínistar og fleiri hafa haft áhyggjur af þessari þróun, en
rannsóknir síðari ára hafa sýnt að neikvæðar afleiðingar sjálfshlutgervingar eru m.a. tilfinning um skömm, kvíði, þunglyndi, minni ánægja af kynlífi, léleg líkamsímynd, átröskunarvandi, neikvæð upplifun af og neikvæð viðhorf til blæðinga og aukin ásókn í fegrunaraðgerðir. Þá er ónefnd tilgátan um að sjálfshlutgerving hafi áhrif á vitræna getu fólks. Tilgátan felst í því að einstaklingurinn beini
öllum sínum vitrænu úrræðum að útlitinu og líkamanum og minna sé því eftir til vitrænnar getu. Þær Barbara, TomiAnn og fleiri komu fyrst fram með þessa tilgátu árið 1998 og sýndu þá fram á með staðlaðri tilraunarannsókn að sjálfshlutgerving hafði áhrif á frammistöðu í stærðfræði hjá konum en ekki körlum. Fleiri hafa skoðað þetta samband og niðurstaða samantektar á rannsóknum frá árinu
2020 bendir til þess að þetta eigi við rök að styðjast.
Sjálfshlutgerving hjá unglingum
En „á skal að ósi stemma“ og ég vil því aðeins greina frá hvernig sjálfshlutgerving birtist hjá unglingum og skoða hvort hún hafi einhver áhrif. Í kerfisbundinni samantekt á rannsóknum á sjálfshlutgervingu og hvernig hún þróast meðal stúlkna 18 ára og yngri voru sterkar vísbendingar um að sjálfshlutgerving aukist eftir því sem unglingsárunum vindur fram. Fjórir þættir sem hafa áhrif á myndun sjálfshlutgervingar eru nefndir í greininni. Fyrst eru það foreldrar og þá frekar mæður, en fremur fáar rannsóknir eru fyrir hendi og lítið hægt að alhæfa út frá þeim. Athyglisvert er þó að á aldrinum
14 til 16 ára eru dætur kvenna sem mælast með sjálfshlutgervingu síðri til að gera það sjálfar á
meðan því er öfugt farið hjá yngri aldurshópum. Þetta er rakið til hinnar alþekktu uppreisnar sem verður á unglingsárum þegar unglingar fara að fjarlægja sig foreldraáhrifum.
Áhrif jafningja virðast hins vegar umtalsverð. Unglingsstúlkur sem hafa reynslu af einhverskonar
kynferðislegri áreitni frá jafningjum (athugasemdum, bröndurum eða einhverjum tilburðum) eru líklegri til að greina frá aukinni líkamsskömm og auknu sjálfseftirliti. Rannsóknir á unglingamenningu og þeim stöðlum sem þar ríkja um útlit sýna líka að allskonar athugasemdir, jákvæðar og neikvæðar, um útlit geti haft þau áhrif
á stelpur en ekki stráka að þær stunda frekar sjálfseftirlit. Annað sem getur haft áhrif eru samfélagsmiðlar og samskiptin sem fara fram meðal vina, fjölmiðlar og hvenær unglingurinn tekur út kynþroska.

Sjálfsmildi
Í samantektinni var einnig skoðað hvað gæti verndað stúlkur og þar má nefna að þátttaka í líkamsrækt virðist gera það. Mestu máli skiptir þó að stúlkur sýni sjálfsmildi eða góðvild í eigin garð sem virðist hjálpa til við að varna sjálfshlutgervingu.
Ný rannsókn frá TomiAnn og fleiri (frá 2022) sýnir að það eitt að loka fyrir alla samfélagsmiðla hafði marktæk áhrif á líkamsskömm og líkamseftirlit stúlkna á aldrinum 10 til 19 ára. TomiAnn rakti ástæðuna m.a. til þess að þátttakendur hættu þessum stöðuga sjálfssamanburði sem þær lenda í á samfélagsmiðlum sem í sífellu senda skilaboðin „ég er ekki nógu góð, ég er ekki nógu góð“. Í staðinn sýndu þær sjálfum sér sjálfsmildi, voru umhyggjusamar í eigin garð.
Fáar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi á hlutgervingu og sjálfshlutgervingu. Eitt BSlokaverkefni í sálfræði var unnið af Lenu Lísu Árnadóttur vorið 2022 þar sem skoðuð voru áhrif af notkun stefnumótaforritsins Tinder m.a. á hlutgervingu notenda. Niðurstöður sýndu að kvenkyns notendur hlutgerðu sig frekar en karlkyns notendur.

Hlutverk blæðinga í hlutgervingu
Eitt af mínum rannsóknasviðum hefur verið blæðingaskeið kvenna: fyrirtíðaspenna, breytingaskeið, fyrstu blæðingar, viðhorf til blæðinga, túrverkir og fleira. Jafnframt hef ég talsvert skoðað heilsutengd lífsgæði fólks og ég hafði áhuga á að athuga hvernig þau tengdust
blæðingunum og á einhverju stigi kom hlutgervingin inn. Rannsóknin tók til 319 kvenna á aldrinum 18 til 41 árs sem endurspegluðu vel íslenskt þýði.
Þar skoðaði ég hlutverk blæðinga
í hlutgervingu kvenna. Í stuttu máli benda niðurstöður til að aldur við
fyrstu blæðingar og gamaldags
viðhorf til blæðinga hafi áhrif þar á. Þá skoðaði ég líka hvort hlutgerving og
ýmislegt tengt blæðingum hefði áhrif
á heilsutengd lífsgæði þessa hóps og niðurstaðan var að líkamsskömm
og að fela blæðingar hafði áhrif
á heilsutengd lífsgæði. Í úttekt á rannsóknum á fyrstu blæðingum sem ég gerði fyrir nokkrum árum kom í ljós að engar íslenskar rannsóknir eru til að því hvernig foreldrar takast á við það þegar dóttir þeirra byrjar mjög ung á blæðingum, hvaða orðræða er viðhöfð „þú varðst kona í dag? eða hvað?“. Ekki eru heldur til rannsóknir á því hvernig stúlkur upplifa fyrstu blæðingar og blæðingar almennt. Niðurstaða mín, byggð á rannsóknunum, var að fræðsla eigi að taka mið af tilfinningum og reynslu og hreinskiptum og opnum samræðum. Ég held að það samræmist vel því hvernig takast ber á við sjálfshlutgervingu hjá unglingum. En við foreldrar, afar og ömmur, skólakerfið og nærsamfélag þurfum að vera meðvituð um mikilvægi þess að styrkja sjálfsmynd stúlkna. Jafnframt að þessi umræða sé virk í öllum jafningastuðningi, sem hún
kannski er. Það er hlutverk samfélags, fjölskyldna og kennara að byggja upp einstaklinga með sterka sjálfsmynd og sjálfsvitund sem hvíla öruggir í eigin skinni og geta þá tekist á við allar þær áskoranir sem það felur í sér að lifa í nútímasamfélagi. Mikilvægt er að greina með hvaða hætti kynjakerfið og markaðsöfl sameinast um að stýra og aga konur. Aukin meðvitund um það getur verið valdeflandi fyrir konur og stúlkur.
Sjálfsvera en ekki hlutur
Rannsókna er hins vegar þörf á því hvernig við getum best gert þetta og okkur vantar frekari rannsóknir á hlutgervingu almennt, sjálfshlutgervingu, líkamseftirliti, líkamsskömm og áhrifum alls þessa á manneskjur hvernig svo sem þær skilgreina kyn sitt. Ég fann ekki
nýjar rannsóknir á hlutgervingu og kynhneigð eða kynvitund svo ég hef ekki fjallað um það. Það sem ég fann bendir til þess að ekki sé munur á samkynhneigðum og gagnkynhneigðum konum hvað varðar sjálfshlutgervingu. Þó að rannsóknir vanti á þessu sértæka sviði þá er næg þekking til staðar til að kenna börnum frá fyrsta degi að sjá annað fólk sem „þig“ og sjálfsveru en ekki sem „það“ og hlut og hvað það felur í sér að hlutgera manneskjuna.
Sjúkdómar kvenna séu líka
rannsakaðir
Ég ætla að enda á tilvísun í
sjálfa mig, í grein frá árinu 1998: „Kvenréttindakonur um allan heim, sem hafa áhuga á heilbrigði kvenna, standa nú vörð um að í öllum rannsóknum þar sem kynferði skiptir máli, séu konur rannsakaðar jafnt sem karlar og spurninga spurt út frá sjónarhóli beggja kynjanna“. Í
greininni var ég m.a. að fjalla um þá almennu tilhneigingu að gera lítið úr vandamálum kvenna, jafnvel sjúkdómsgera eða geðgera þau. Frá því hafa verkferlar breyst og vitund aukist, en rannsókn frá 2021 sýnir að Bandaríska heilbrigðisstofnunin (NIH) úthlutar mun meira fé til rannsókna á sjúkdómum sem hrjá karla frekar en konur eða sem valda körlum frekar byrði en konum. Í raun virðist vera að rannsóknir hafi ekki kortlagt nægilega vel byrðar langvinnra sjúkdóma meðal kvenna, en langvinnir sjúkdómar eru eitt af stóru heilsufarsvandamálum nútímans og hrjá konur almennt frekar en karla. Sambærilegar upplýsingar eru ekki til frá Íslandi. Hvernig væri að við nýttum tímann í að krefjast þess að þessir hlutir væru skoðaðir í stað þess að vera með stöðugt eftirlit með okkur sjálfum og útliti okkar ?
Höfundur er prófessor og deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar við HÍ.
Heimildir
• Daniels EA, Zurbriggen EL, Monique Ward L. Becoming an object: A review of selfobjectification in girls. Body Image. 2020 Jun;33:278299. doi: 10.1016/j. bodyim.2020.02.016. Epub 2020 May 26. PMID: 32470822
• Fredrickson BL, Roberts TA, Noll SM, Quinn DM, Twenge JM. That swimsuit becomes you: sex differences in selfobjectification, restrained eating, and math performance. J Pers Soc Psychol. 1998 Jul;75(1):26984. doi: 10.1037//00223514.75.1.269. PMID:
9686464
• Lena Lísa Árnadóttir, 2022. Exploring the relationship between Tinder usage and body image, selfesteem and selfobjectification, Skemman, https:// skemman.is/bitstream/1946/42199/1/
Love%20me%20Tinder%20%20B. Sc..pdf Roberts, TA., Daniels, E.A., Weaver, J.M. & Zanovitch, L.S. (2022). Intermission! A shortterm social media fast reduces selfobjectification among preteen and teen dancers. Body Image, 43, 125133.
• Winn L, Cornelius R. SelfObjectification and Cognitive Performance: A Systematic Review of the Literature. Front Psychol. 2020 Jan 28;11:20. doi: 10.3389/ fpsyg.2020.00020. Erratum in: Front Psychol. 2020 Mar 13;11:477. PMID: 32047457; PMCID: PMC6997128
• Mirin AA. Gender Disparity in the Funding of Diseases by the U.S. National Institutes of Health. J Womens Health (Larchmt). 2021 Jul;30(7):956963. doi: 10.1089/jwh.2020.8682. Epub 2020 Nov 27. PMID: 33232627; PMCID: PMC8290307.
• Temkin SM, Barr E, Moore H, Caviston JP, Regensteiner JG, Clayton JA. Chronic conditions in women: the development of a National Institutes of health framework. BMC Womens Health. 2023 Apr 6;23(1):162. doi: 10.1186/s1290502302319x. PMID: 37024841; PMCID: PMC10077654.
• Herdís Sveinsdóttir (1998). Heilbrigði kvenna. Tímarit hjúkrunarfræðinga, 5, 74, 265 – 270.
Takk fyrir stuðninginn!















Heilbrigðiskerfi sem þjónar ekki trans fólki

Ferli án regluverks
Í lok árs 2009 leitaði ég mér fyrst aðstoðar heilbrigðiskerfisins til að fá aðgang að transtengdri heilbrigðisþjónustu. Ferlið á þeim tíma var í höndum fárra einstaklinga og ekkert raunverulegt regluverk var til staðar – að minnsta kosti ekki nærri því eins og það er nú. Ég var til að mynda spurð að því hvers konar nærbuxum ég klæddist í mínu fyrsta viðtali og ég veit að sú spurning
lifði góðu lífi löngu eftir að ég fór í gegnum mitt ferli.
Ég var að mörgu leyti heppin með
mitt ferli og komst frekar snurðulaust
í gegnum alla helstu þætti þess en rúmum tveimur árum síðar var öllum stærstu þáttum ferli míns lokið. Allt ferlið átti sér stað hérlendis og fékk ég meira að segja einkastofu eftir kynfæraaðgerðina þar sem ég gat glápt á sjónvarpið og spilað Xbox allan liðlangan daginn meðan allt gréri.
Mikilvægt skref í rétta átt
Síðan hefur ýmislegt breyst. Lög um réttindi einstaklinga með kynáttunarvanda tóku gildi árið 2012 en með þeim var heilbrigðisþjónusta fyrir trans fólk fyrst bundin í lög. Þó að lögin hafi að mörgu leyti verið úrelt um leið og þau tóku gildi (eins og til dæmis nafnið sjálft), þá voru þau mikilvægt skref í rétta átt. Samkvæmt lögunum var komið á fót teymi sem átti að halda utan um þessa þjónustu og sjá til þess að fólk fengi aðgengi að þeim meðferðum og aðgerðum sem þau þyrftu.
Árin eftir að lögin tóku gildi fór þjónustan loks að taka á sig heildstæðari mynd, í stað þess að vera eingöngu í höndum mjög fárra einstaklinga. Fyrir ungmenni var hægt að fá stuðning í gegnum Barna og
unglingageðdeild Landspítala, en sú þjónusta var ekki bundin í lög eða neitt raunverulegt regluverk til staðar.
Lög um kynrænt sjálfræði
Árið 2017 lauk ég meistararitgerð minni, sem fjallaði um reynslu trans fólks af heilbrigðiskerfinu. Þar kom í ljós í gegnum viðtöl að trans fólk hafði upplifað og upplifði enn ákveðna pressu að passa inn í kynhlutverk til þess að vera tekið alvarlega og fá þá þjónustu sem þau þurftu. Fólk hafði lært í samtölum við annað trans fólk hvað væri best að segja og hvernig væri best að koma fram til þess að mæta jákvæðu viðmóti hjá heilbrigðisstarfsfólki.
Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar en árið 2019 tóku gildi lög um kynrænt sjálfræði, sem voru stórt skref í réttindabaráttu trans fólks og síðar intersexfólks. Lögin formfestu og skýrðu heilbrigðisþjónustu fyrir fullorðna og ungmenni og byggðu á fremstu verklagsreglum heims í þessum efnum. Í kjölfarið hafa teymi sem veita þessa þjónustu stækkað og að mestu styrkt þjónustu sína , þó að ýmiss vandamál hafi komið upp og séu vissulega enn til staðar.
Trans fólk stendur nú frammi fyrir þeim veruleika í íslensku heilbrigðiskerfi að kynstaðfestandi aðgerðir hafa ekki verið gerðar í 34
ár. Það hefur gert það að verkum að langur biðlisti hefur myndast eftir aðgerðum og haft í för með sér gríðarlega neikvæðar afleiðingar fyrir andlega og líkamlega heilsu þeirra sem eftir þeim bíða.
Fólk situr heima hjá sér í öngum sínum, bíðandi eftir því að geta haldið áfram með lífið. Þetta veldur því að þau einangrast, forðast hversdagslega hluti eins og sund eða líkamsrækt, eiga erfitt með að mynda náin
sambönd og þróa með sér þunglyndi og kvíða.
„Biðlistinn sem styttir sig sjálfur“
Það er því með öllu óásættanlegt að aðgengi að kynstaðfestandi aðgerðum sé verra nú en fyrir rúmum tíu árum, og að ekki ríki meiri skilningur innan Landspítala um mikilvægi þessara lífsnauðsynlegu aðgerða. Fyrir trans fólk eru þetta ekki valkvæðar aðgerðir að neinu öðru leyti en að valið stendur milli þeirra eða engrar framtíðar. Það er ekki að ástæðulausu að trans fólk gekk með skilti í síðustu Gleðigöngu Hinsegin daga sem stóð á „biðlistinn sem styttir sig sjálfur“.
Heilbrigðiskerfið og stjórnvöld þurfa því að axla ábyrgð og setja í forgang að gera þessar aðgerðir og komast í gegnum biðlistann sem hefur myndast. Án þess getur trans fólk á Íslandi ekki lifað mannsæmandi lífi. Stjórnvöld og heilbrigðiskerfið bregst þessu fólki gjörsamlega.
Aðgengi að viðeigandi heilbrigðisþjónustu eru einn af hornsteinum mannréttinda og réttlætis og getum við ekki sagt að við séum velferðarríki eða ríki þar sem mannréttindi eru í hávegum höfð þegar við bregðumst fólki í slíkum grundvallaratriðum.
Hinsegin paradísin Ísland er svo sannarlega hylling, og það er kominn tími til þess að við horfumst í augu við raunveruleikann og krefjumst breytinga.
Höfundur er kynjafræðingur, rithöfundur og talsmanneskja fyrir réttindum trans fólks.
Baráttan heldur áfram!
Launamunur kynjanna
Til lengri tíma litið hefur launamunur kynjanna á vinnumarkaði dregist saman en langt er enn í land að fullu jafnrétti verði náð.

Krafan um jafnrétti á vinnumarkaði er ein af grundvallarkröfum verkalýðshreyfingarinnar.
Jafnrétti er mannréttindi!
Nándarhryðjuverk:

Hvað er það og hvað er til ráða?
Dr. Sigríður Halldórsdóttir
Sú var tíð að ofbeldi í nánum samböndum var talið einkamál og
kæmi ekki öðrum við. Sem betur fer heyrir sá tími fortíðinni til. Það kemur okkur öllum við ef einhver verður fyrir ofbeldi því þetta er samfélagsmein og það er samfélagsins að fyrirbyggja
það með öllum ráðum. Það er einnig samfélagsins að finna leiðir til að hlúa að þeim sem verða fyrir slíku ofbeldi og stuðla að andlegri og líkamlegri
lækningu þeirra því þetta er mikið
áfall og er gífurlega niðurbrjótandi á allan hátt fyrir þolandann enda sýna rannsóknir að þolendur slíks ofbeldis
eru með þykkustu sjúkramöppurnar.
Þeir einstaklingar sem beita ofbeldi
eru einnig samfélagslegt verkefni sem er það stórt að ég hef ekki í hyggju að
fjalla um það í þessari grein en beina augum mínum að þolendum. Þar sem ég hef fyrst og fremst rannsakað
reynslu kvenna af ofbeldi í nánum
samböndum, ýmist ein eða með
öðrum, mun ég ræða um konur sem þolendur en ítreka að ofbeldi í nánum samböndum getur komið fyrir alla.
Hvað eru nándarhryðjuverk og hvernig lýsa þau sér?
Það er til tvenns konar ofbeldi í
nánum samböndum, annars vegar
þar sem ofbeldi á sér í stað en það er ekki markvisst niðurbrot á öðrum aðilanum. Hins vegar er það sem kallað er nándarhryðjuverk
(e. intimate terrorism), en það er kerfisbundið ofbeldi á öðrum
aðilanum, sem fer stöðugt versnandi og er lífshættulegt.
Það var eitt sinn íslensk kona í hjónabandi sem flestir töldu frekar gott. Hún hafði þó orðið þögulli eftir
því sem árin liðu. Engan grunaði neitt og því kom það öllum í opna skjöldu
þegar hún svipti sig lífi. Ættingjar
konunnar tóku að sér að ganga frá
eigum hennar og þá komu dagbækur hennar í ljós sem sýndu að hún hafði lifað við hrottalegt ofbeldi sem fór versnandi eftir því sem árin liðu þar til hún missti alla lífslöngun og stytti sér aldur. Skoðum þetta aðeins. Þarna sjáum við fyrstu hættuna við nándarhryðjuverk, þolandinn getur misst alla lífslöngun og svipt sig lífi. Önnur ástæðan fyrir því að nándarhryðjuverk eru lífshættuleg er að þeim fylgir smám saman mikið niðurbrot á ónæmiskerfinu. Því miður er það ekki almenn þekking en við getum gert margt til að efla eigið ónæmiskerfi. Það er einnig mjög margt sem hefur skaðleg áhrif á ónæmiskerfið. Þar er langvinn streita mesti skaðvaldurinn en það er einmitt kjarninn í upplifun þolenda nándarhryðjuverka. Ein kona sem ég hlustaði á hafði fengið fjóra alvarlega sjúkdóma, þar af tvær tegundir af krabbameini. Hún sagði mér að hún ætti systur sem væru hraustar eins og fílar en hún hefði greinilega fengið einhver „ruslgen“.
Hún hafði búið við nándarhryðjuverk en ofbeldismaðurinn slökkti t.d.
á sígarettu á henni þegar hún var sofandi. Hún hafði ekki tengt ofbeldið við þá sjúkdóma sem hún hafði fengið. Ég sagði henni að hún væri greinilega með verulega góð gen að hafa lifað af það hroðalega ofbeldi sem hún hafði lifað við.
Þetta er þá önnur ástæða þess að nándarhryðjuverk eru lífshættuleg.
Þú getur, m.a.vegna niðurbrots á
ónæmiskerfinu, fengið lífshættulega sjúkdóma sem geta leitt þig til dauða. Rannsóknir hafa leitt í ljós að þolendur nándarhryðjuverka og eru með þykkustu sjúkraskrárnar eru samt aldrei spurð hvort þau búi við ofbeldi.
Hverjar eru afleiðingar nándarhryðjuverka fyrir þolendur?
Allir þolendur nándarhryðjuverka eru hræddir um líf sitt. Nú skrifa ég út frá konum. Þegar kona er tekin kverkataki, sem er algeng ofbeldisaðferð ofbeldismanna í
nándarhryðjuverkum, finnur hún að karlinn þarf ekki að þrýsta mikið fastar á barka hennar til að drepa hana. Mannveran hefur lifað af í árþúsundir vegna óvenjumikillar aðlögunarhæfni og það er vegna þessarar stórkostlegu aðlögunarhæfni sem konan lifir af dag frá degi. Sálræna ofbeldið er þó venjulega verst að mati kvennanna. Marblettir hverfa og bein gróa en sálræna
ofbeldið veldur því sem Evan Stark kallar niðurbroti á persónu konunnar (e. deconstruction of the woman’s personhood). Það er því alvarlegt brot á grundvallarmannréttindum konunnar því hver einstaklingur á rétt til lífs, frelsis og mannhelgi.
Eitt er það sem einkennir
þolendur, það er hugsunin að lengi geti vont versnað. Þetta eykur
áherslu þeirra á að aðlaga sig að kröfum ofbeldismannsins og sitja og
standa eins og hann krefst. Mörgum
þolendum líður eins og föngum á reynslulausn. Konurnar þurfa að gera
grein fyrir sér hverja stund og þær
gera það í þeirri viðleitni að lifa af. Ofbeldismaðurinn kemur fram eins og að hann eigi tíma þeirra. Þær mega ekki tala við vinkonu sína, þá eru þær að eyða tíma hans. Þær eiga
sífellt minna og ein konan sem ég
hlustaði á sagði: „Það síðasta sem ég
átti á heimilinu var ísskápurinn en svo tók hann einnig yfir ísskápinn og þá
átti ég ekkert“. Konurnar þurfa einnig að gera grein fyrir því hverja þær hitta þegar hann er ekki viðstaddur
og jafnvel rekja samtöl sem þær eiga í. Þegar þær eru loksins lausar við ofbeldismanninn eru þær orðnar svo færar í að rekja samtöl sem þær áttu í að þær þurfa markvisst að venja sig af þessu því enginn eðlilegur einstaklingur hefur áhuga á slíkri rakningu.
Eitt af því sem hefur stuðað mig mest við að hlusta á reynslu þolenda sem lent hafa í nándarhryðjuverkum er það þöggunarferli sem einkennir slíkt ofbeldi því málfrelsið er ein helgustu réttindi sem hver einstaklingur hefur. Þetta þverbrýtur ofbeldismaðurinn. Þess vegna þagnar rödd þolenda smám saman og það tekur tíma og þolinmæði að finna aftur sína rödd.
Önnur réttindi sem ofbeldismaðurinn þverbrýtur er að heimilið sé griðastaður. Í
nándarhryðjuverkum er heimilið hættulegasti staðurinn fyrir þolandann. Staðurinn þar sem konan er stöðugt niðurlægð, þar sem
öskrað er á hana af gífurlegri reiði sem „virkar eins og högg í hjartastað og í magann“ eins og ein konan lýsti því; þar sem henni er nauðgað eins og ekkert sé eðlilegra. Þar sem mannréttindi hennar eru ekki aðeins ekki virt heldur fótum troðin. Yfirleitt fær ofbeldismaðurinn ekki aðeins börnin (ef einhver eru) í lið með sér í niðurlægingunni heldur foreldra hennar og aðra ættingja og vini. Niðurlægingin verður því algjör.
Við vitum að það að upplifa ofbeldi á sínu eigin heimili er gífurlegt áfall og við vitum að áföll hafa því miður mjög neikvæð áhrif á ónæmiskerfið. Við vitum einnig að slíku ofbeldi fylgir mikil streita og að langvinn streita er mesti bölvaldurinn fyrir ónæmiskerfið og fátt er eins streituvaldandi og að
vera í ofbeldissambandi, það er stöðug streita eins og við Ástþóra

Kristinsdóttir ljósmóðir fundum
út í rannsókn okkar á ofbeldi á meðgöngu. Bæði í okkar rannsókn og
í fjölmörgum erlendum rannsóknum
kemur skýrt fram að ofbeldi eykst á meðgöngu. Hugsið ykkur áfallið fyrir barnshafandi konuna. Í mæðraeftirliti er því sérstaklega spurt um þetta núna en barnshafandi kona þarf
óvenjumikið á hlýju og stuðningi að halda á meðgöngunni.
Hvað er til ráða?
Ég er ein af þeim sem hef mikla trú á heimilislæknum og finnst góður heimilislæknir vera þyngdar sinnar virði í gulli. Stórauka þarf fjölda heimilislækna því hver landsmaður ætti að hafa sinn heimilislækni þar sem trúnaðarsamband getur myndast. Ég sé ekki aðra heilbrigðisstétt sem gæti gert það sem þarf að gera þegar um nándarhryðjuverk er að ræða.
Hver heimilislæknir þarf að þekkja einkenni nándarhryðjuverka og setja þarf skýra verkferla og fylgja þeim.
Bjarga þarf lífi konunnar áður en það er of seint. Við þurfum einnig sem
þjóð að standa vörð um þolendur og
sjá til þess að viðeigandi meðferð sé
í boði, meðferð sem er heildræn og
byggir á þeirri þekkingu sem þegar er fyrir hendi. Ef rétt er staðið að málum geta þolendur ekki bara jafnað sig, og náð andlegri og líkamlegri heilsu
á ný, heldur einnig náð því sem kallað hefur verið aukinn vöxtur og þroski
í kjölfar áfalla vegna ofbeldis í nánu sambandi (e. Posttraumatic growth following intimate partner violence),
þ.e. orðið sterkari en nokkurn tíma
áður. Þetta ætti að vera markmið okkar sem samfélags.
Dr. Hulda Sædís Bryngeirsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, gerði doktorsverkefni sitt um aukinn þroska og styrk eftir ofbeldi í nánu sambandi og mæli ég með því að þolendur og allir stuðningsmenn þeirra kynni sér skrif hennar.
heimilinu af mannúðarástæðum, heldur þarf að gera það einnig af hreinum heilsufarsástæðum.
Heilbrigðisstarfsmenn sem eru í þeirri aðstöðu að spyrja: „Í hverju hefur þú lent?“ í stað þess að spyrja: „Hvað er að þér?“ geta lagt lóð á vogarskálarnar til að losa þolendur úr lífshættulegum aðstæðum. Lífsógnandi sjúkdómar geta verið afleiðingar nándarhryðjuverka og koma því heilbrigðiskerfinu svo sannarlega við.
Höfundur er prófessor við Framhaldsnámsdeild í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri.
Við þurfum að skera upp herör gegn ofbeldi á heimilum. Nándarhryðjuverk er eitt af því versta sem nokkur getur orðið fyrir og streitan sem því fylgir er eitt mesta álag á ónæmiskerfið sem til er. Þannig að ekki þarf aðeins að fjarlægja ofbeldisaðilann af
„Í hverju hefur þú lent?“
Takk fyrir stuðninginn!





Grýtubakkahreppur

















„Hættu þessu væli“

Eftir menntaskólann, í ársbyrjun 2017, fór Margrét sem aupair til Englands. Einn morgun í ágúst vaknaði hún ekki. Þegar hún loks vaknaði á þriðja degi gat hún ekki hreyft sig. Læknir tengdi saman brotin úr sjúkrasögu Margrétar og sagði að hún væri með heilkenni sem kallast Ehlers–Danlos sem veldur skemmdum í bandvef, svo hann brotnar. Þetta erfist, það eru margir með þetta, sumir án þess að vita af því, en hjá sumum veldur þetta miklum skemmdum, verkjum, lömun og allskyns einkennum. Margrét Lilja er ein af þeim.
Þegar talið var óhætt að flytja Margréti var flogið með hana til Íslands og endurhæfing tók við: reyndu að ganga lengra, þú getur þetta. Ekki gefast upp, reyndu að sleppa hækjunum. Ekki setjast í hjólastól. Ef þú sest í hjólastól þá stendurðu aldrei upp aftur. Áfram. Reyndu meira. Gerðu meira. Ekki hætta.
Þú rembist við að hreyfa fæturna, en ekkert gerist. Sendir taugaboðin aftur og aftur og aftur, en ekkert gerist.
Þér er tjáð að þetta sé allt í hausnum á þér og þú getir þetta bara víst. Þannig að þú reynir aftur, en niðurstaðan er sú sama – ekkert gerist. Heilbrigðisstarfsmanneskjan dæsir og gengur í burtu, búin að gefast upp á hversu ósamvinnuþýð þú ert. En þú getur ekkert að þessu gert.
Ein og yfirgefin á gangi sjúkrahússins, í of stórum hjólastól.
Máttlaus og alls laus. Þér hefur aldrei fundist þú jafn einmana eins og á þessari stundu.
Svo er hrifsað í stólinn. „Ha! Fórstu ekki alla leið?“ en svo ertu skilin eftir í miðri sjúkrastofunni og hurðinni lokað.
Engin leið að kalla á hjálp. Skilaboðin eru skýr – þú skiptir engu máli.
Í nýjum líkama sem ekki er hlustað á . Heilbrigðisstarfsfólk fer stöðugt yfir mörk þín , sum gróflega.
Rödd þín skiptir ekki máli lengur. Orðin: „Stopp!“, „Hættu!“, „Nei!“, missa merkingu sína þegar þau eru endurtekin í þúsundasta skipti.
Þú ert látin hrynja niður á göngum sjúkrahússins. „Þú ert ung, þú þolir þetta“.
Blá og marin, líkast því að þú sért nýstigin út úr hringnum með Kolbeini Kristinssyni, en það skiptir engu máli. Það er allt lagt undir svo að þinn afbrigðilegi líkami verði minna afbrigðilegur.
Þú dregur þig áfram á skyldurækninni einni saman. Allt til að þóknast heilbrigðisstarfsfólki og kröfum kerfisins. Þegar verkirnir eru orðnir óbærilegir og þú dirfist að mótmæla er hreytt í þig að hætta þessu væli, það er ekkert að þér. En það er eitthvað mikið að – annars værir þú ekki þarna.
Nýr veruleiki. Veruleiki þar sem lífsgæði þín skipta minna máli en upplifun annarra af að sjá fólk eins og þig.
Veruleiki þar sem rödd þín er einskisverð.
Veruleiki þar sem þú átt að láta allt yfir þig ganga í nafni læknavísindanna.
Margrét Lilja Arnheiðardóttir er formaður Sjálfsbjargar.
Við fáum þessa tvo valmöguleika
Höfundur er
myndasöguhöfundur,
myndlýsir og grafískur
hönnuður með BA í grafískri
hönnun frá Listaháskóla
Íslands og diplómur í
myndasögum frá ÉESI í
Angoulême og teikningu
frá Myndlistaskólanum í
Reykjavík. Hann hefur gefið út
tvær myndasögur, Plöntuna á
ganginum (meðhöfundur: Elín
Edda) og Kvár.
Elías Rúni







Líkamsvitundin í
Darlowo

Aleksandra Leonardsdóttir
Ég ólst upp í Darlowo í Norður
Póllandi litlum bæ við Eystrasalt.
Darlowo bauð þá upp á heldur fábreytta afþreyingu. Jú, vissulega var hægt að liggja í sólinni og sjóböðin veittu mörgum gleði og ánægju. Svo var hægt að fara í skoðunarferðir
um gamla bæinn og kynna sér dæmigerðan arkitektúr fyrir þetta svæði, nokkur gömul hús sjómanna í upprunalegri mynd.
Þarna var líka kastali, sumarbústaður Eiríks af Pommern, konungs Noregs, síðan Danmerkur
og loks Svíþjóðar á 14. og 15. öld sem reyndar bæði fæddist og dó í höllinni. Hann var grafinn í Maríukirkjunni en okkur krökkunum fannst þetta frekar óáhugavert þar sem tvö stríð höfðu að mestu tæmt kirkjuna og kastalann og þeir fáu munir sem varðveist höfðu voru geymdir í læstum geymslum sem aldrei mátti opna og skoða. Þessar gömlu byggingar voru illa farnar, sérstaklega kastalinn sem skapaði lengi hættu fyrir gangandi vegfarendur.
Þetta umhverfi allt varð til þess að við krakkarnir áttum erfitt með að skilja af hverju allar þessar glæsilegu rútur komu reglulega í bæinn, fullar af þýskum túristum sem greinilega voru komnir á eftirlaun. Rúturnar stoppuðu alltaf í miðbænum en aldrei lengi og aldrei keyrðu þær niður að strönd. Það fannst okkur einna furðulegast.
Ég var alin upp við það að það væri dónaskapur að stara á ókunnugt fólk en ég man að ég átti erfitt með að fylgja þessum kurteisisreglum
þegar ég sá hópa fólks sem lét lítið fyrir sér fara en klæddist litríkum og fallegum fatnaði, virða fyrir sér bæinn okkar. Konurnar vöktu sérstaka athygli mína en lengi áttaði ég mig ekki á því hvað var svo öðruvísi við þær miðað við ömmu mína og aðrar konur í Darlowo. Það var einhver sérstök birta í kringum þær og léttleiki. Þrátt fyrir
að þær klæddust ekki kjólum og væru
ekki á háum hælum, eins og flestar konur í bænum mínum, fannst mér þær virkilega fallegar.
Allt öðruvísi líf
Ég man þegar amma mín fór allt í einu að greiða hár sitt eins og þessar þýsku konur. Hún talaði þá líka stundum
þýsku eða söng gömul þýsk lög. Svo
dæsti hún oft í kjölfarið og einstök
nostalgía birtist í andliti hennar. Þá
átti mamma það til að koma með athugasemd sem var eitthvað á þessa leið: „Já, já, þær áttu bara allt öðruvísi líf en við hér.“
Bærinn okkar bar reyndar áður nafnið Rügenvalde og var einn af áningarstöðunum í lengri ferðum
þýskra ellilífeyrisþega á sínar gömlu heimaslóðir eða frá því fyrir síðari heimsstyrjöldina. Þessar ferðir til Darlowo voru fyrir marga eins konar tímaflakk; afturhvarf til barnæskunnar. Þær voru erfiðar og sársaukafullar enda blasti ömurleg eyðilegging
ófriðar og kommúnisma við austan Berlínarmúrsins.
En þessar heimsóknir voru líka erfiðar fyrir okkur. Það tók mig mörg
ár að skilja að það sem einkenndi
þessar þýsku konur var að þær voru ekki jafn þreyttar og uppgefnar á lífinu og konurnar í bænum mínum.
Þeirra líkamsvitund hafði mótast á allt öðruvísi forsendum en okkar.
Amma mín og hinar konurnar
í Darlowo þekktu auðvitað ekki hugtakið „líkamsvitund“ og því síður víssu þær hversu mikilvæg hún er fyrir líðan okkar og sálarheill. Ég velti því stundum fyrir mér hvernig erlendu verkakonunum frá AusturEvrópu, MiðAusturlöndum, Afríku og Asíu, sem ganga hér í erfiðustu störfin og þiggja fyrir þau lægstu launin, gangi að þróa með sér jákvæða og heilbrigða líkamsvitund.
Aleksandra Leonardsdóttir sinnir fræðslu og inngildingu á skrifstofu Alþýðusambands Íslands.
Að skrika fótur
á sundlaugar

bakkanum:
Votar vangaveltur húðlatrar konu
Snærós Sindradóttir
Síðastliðið sumar hlotnaðist mér sú gæfa að eignast vinkonu sem er orþodoxgyðingur. Við vorum samnemendur í listfræði við
Columbia University í New York og ferðuðumst vítt og breitt um borgina til að stúdera gaumgæfilega hin
ýmsu söfn hennar sem flest eru á heimsmælikvarða. Greiningar okkar
á söfnunum sneru að öllu frá því stærsta, arkitektúr bygginga og innri og ytri safnrýmum, og niður í það smæsta veggmiðunum sem
lýsa hverju því listaverki eða listmun sem fyrir augu okkar bar. Langar neðanjarðarlestarferðir okkar fóru
í skraf og fljótlega kom að því að ég byði nýju kunningjakonu minni
að hitta mig í drykk til að tryggja vinskapinn. Það reyndist þrautinni þyngra því vinkonan átti ýmist bókaða fundi með pörunarfulltrúa
(e. matchmaker) síns samfélags eða stefnumót við miskræsilega unga menn sem fulltrúinn hafði fundið henni. Kjálkinn á mér nam við gólf.
Ég reyndi allt hvað ég gat til að virðast kurteis en spurningaflóðið sem brann á vörum mér var yfirdrifið. Vinkona tók undrun minni af æðruleysi og næstu daga útskýrði hún allt sem ég vildi vita; nei, hún þyrfti ekki að giftast neinum ef hún kærði sig ekki um það; nei, á engum tímapunkti yrði hún þvinguð í hjónaband og nei, parafulltrúinn fengi ekki greitt fyrir sína vinnu fyrr en trúlofun væri í höfn. Þá tappaði hún reglulega af yfirspenntri forvitni minni með ýmsum fróðleik um líf hennar og siði. Hún sagði mér til dæmis að gift móðir sín þyrfti að hylja hár sitt á opinberum vettvangi og gerði það ýmist með hárkollum eða húfum. Aðrar sanntrúaðri gyðingakonur kysu að raka af sér hárið eftir hjónaband.
Eina ferðalag vinkonu minnar
út fyrir landsteina Bandaríkjanna hafði verið til Evrópu að túra útrýmingarbúðir nasista og heimsækja söfn um sögu gyðinga. Á einum krossgötum lífs síns hafði hún íhugað að sækja um í Háskóla Íslands en hætt við um leið og það rann upp fyrir henni að hér væru gyðingar sárafáir og hér stæði hún því ein. Áhuginn á Íslandi var þó til staðar og einn daginn, í lest nr. 3 frá Harlem til Brooklyn, kom að því að Leora Goldfeder spyrði í hvers konar kirkju ég og fjölskyldan mín færum í. Ég varð hvumsa, pínulítið vandræðaleg og svo kom svarið eins heiðarlega og ég gat: Ég fer eiginlega ekki í kirkju. Ég fer í sund.
Votir helgisiðir
Það næsta sem ég hef komist syndaaflausn er að mara í heitum potti eftir langa vinnuviku og tryllingsleg helgarátök. Við fjölskyldan förum oftar í sund á sunnudegi en biskupinn í messu og þau listaverk sem orðið hafa til í hinum ýmsu sundlaugum landsins; heimildamyndir, grafíkverk, tónlistarmyndbönd og sundlaugaljóð staðfesta að í hugum margra Íslendinga hafa sundlaugar fyrir löngu náð rítúalískum stalli. Um þessar mundir vinna stjórnvöld hörðum höndum að því að skrá sundmenningu Íslendinga sem óáþreifanlegan menningararf á minjaskrá UNESCO, svo merkileg þykir hún, og verðmæt sjálfsmynd þjóðarinnar.
Allt það sem fengið hefur slíkan sess ber að sjálfsögðu að skoða gagnrýnum augum. Hverjir eru veikleikar íslenskrar sundmenningar og sundstaða? Hafa sundlaugarrýmin verið greind með tilliti til kynjasjónarmiða? Er mögulegt að stjórnendum jafnréttisparadísarinnar
Íslands hafi skrikað fótur á sundlaugarbakkanum?
Í bókinni Ósýnilegar konur:
Afhjúpun gagnahlutdrægni í
heimi hönnuðum fyrir karla, sem
enski femínistinn Caroline Criado
Perez skrifaði árið 2019, er fjallað
á spaugilegan hátt um það þegar
sænskt sveitarfélag ákvað að beita kynjagleraugunum á snjómokstur í
bæjarfélaginu. Bæjarfulltrúar komust
óvænt að því að spara mætti háar
fjárhæðir með því að forgangsraða
verkefnum þannig að hálkuslysum
kvenna mætti fækka með fyrirhyggju
í stað þess að greiða götur karla
á leið til vinnu. Að byrja að moka
göngustíga á leið kvenna með börn í
skóla sparaði sveitarfélagið stórfé og konum alvarlegt líkamstjón af völdum bylta á snjóbunkum.
Í sömu bók er tekið saman
hvernig konur í London voru margfalt
líklegri en karlar til að ferðast á milli margra staða dag hvern í styttri erindum, öfugt við karla sem almennt ferðuðust frá A til B og aftur til baka. Konunum var þar með refsað gróflega fyrir umönnun barna og annarra fjölskyldumeðlima með óhóflegri rukkun í almenningssamgöngur á meðan karlarnir fóru einungis tvær lengri ferðir á dag, til og frá vinnu. Fjárhagur karla naut góðs af minni notkun lesta og strætisvagna en budda kvenna léttist ískyggilega við það eitt að þurfa að koma börnum í skóla, fara sjálfar í vinnu og skreppa
í matvörubúð á leiðinni heim. Seinni vakt kvenna var þar með ekki einungis
ólaunuð, heldur beinlínis greidd dýru verði. Geta má að í kjölfar þessarar
uppgvötunar var greiðslukerfi
strætisvagna í London breytt svo það
líkist nú því sem gerist hér á landi:
Aðeins er greitt einu sinni fyrir hverja
ferð, ekki fyrir skiptingar á milli leiða.
Tveir flokkar jöfnuðar Ákvarðanir sænska sveitarfélagsins og stórborgarinnar í London byggja á kyngreinanlegum gögnum sem lágu þegar fyrir en voru rýnd upp á nýtt. Talnaupplýsingar eru gagnslausar nema horft sé á þær með tilliti til þeirra sem þær taka til. Sjónarhorninu í London og Svíþjóð var breytt og útkoman varð öll önnur og, vel að merkja, betri.
Það er árviss viðburður hjá Reykjavíkurborg að gefa út Kynlegar tölur og þær búa um margt yfir forvitnilegum fróðleik. Þrátt fyrir að borgin sé stærsti rekstraraðili sundlauga á landinu hefur yfirferð mín yfir kynlegar tölur leitt í ljós að þær hafa aldrei, hingað til, gert tilraun til að ná utan um óáþreifanlega menningararfinn okkar; sundmenningu. Það þýðir einfaldlega að sundlaugar hafa fengið afar takmarkaða kynjaða greiningu þrátt fyrir að vera kannski ein kynjuðustu rými borgarinnar. Sundlaugar borgarinnar hafa þannig, alla tíð, skipt gestum sínum niður eftir kyni og á undanförnum árum hafa flestar sundlaugar blessunarlega tekið í gagnið rými fyrir fólk sem stendur utan kynjatvíhyggjunnar. Mikið lengra nær þarfagreining kynjanna ekki.
Jöfnuður, hvaða nafni sem hann nefnist, getur verið af að minnsta kosti tvennum toga; jafnrétti og réttlæti. Að hanna tvo nákvæmlega eins búningsklefa felur sannarlega í sér jafnrétti á einhvern mælikvarða, en það þýðir ekki sjálfkrafa að réttlæti sé haft í heiðri. Þannig geta þarfir kynjanna verið svo ólíkar við þá
einföldu gjörðakeðju að mæta í sund, afklæðast, þvo sér, klæðast baðfötum og staulast út í laug að nákvæmlega eins aðstæður geta hyglt öðru kyninu en um leið grafið undan hinu. Við
vitum einfaldlega ekki hvort svo sé

þar sem gögnin vantar.
Árið 2012 réðst Reykjavíkurborg
í að kynjagreina aðsókn í sex
sundlaugar borgarinnar og komst að
því að hún er tiltölulega jöfn; aðeins
fleiri karlar en konur fara í sund (54% á móti 46%) og eitthvað fleiri stúlkur en drengir mæta í sund (55% á móti
45%). Ítarleg leit á netinu gefur hins
vegar engar upplýsingar um það sem ég tel þó nánast öruggt: að
konur taka börn í ríkari mæli með sér
í búningsklefa sundlauga. Hönnun
kvennaklefa gera lítið sem ekkert ráð fyrir þessum veruleika. Kvennaklefinn
tekur til dæmis ekki mið af því að
tölfræðin segir okkur að ef karlar og konur fari til jafns í sund en konur taki börnin með sér í meiri mæli, sem ég efast ekki um, þá sé kvennaklefinn þéttar setinn en karlaklefinn og sturtur ættu með réttu að vera fleiri. Þetta er tiltölulega einfalt reikningsdæmi. Sjálf fer ég oftar í sund í fylgd dætra minna en án þeirra. Stelpurófurnar eru sjálfstæðar, fyrirferðamiklar, hávaðasamar og stórskemmtilegar – en það þarf ekki að koma á óvart að pabbi þeirra hafi tíma til að skella sér í gufu áður en hann kemur upp úr á eftir okkur, og samt sé hann klæddur, greiddur og kominn fram langt á undan
okkur mæðgum. Það er ekki bara tímafrekara að koma sjálfri mér upp úr og aðstoða tvö börn um leið við eitt og annað á borð við að þvo hár, koma sokkum á rakar tær og snúa heilu setti af fötum af röngunni og yfir á réttuna, heldur er með hnífjöfnum aðbúnaði í klefunum búið að stórauka líkurnar á

því að við mæðgur eigum von á langri bið eftir sturtunni því í klefanum eru fleiri konur með önnur börn. Er það bæði jafnt og réttlátt?
Að gera körlum lífið létt
Leti er einn helsti drifkraftur framfara. Latt fólk finnur léttu leiðina að
óþarflega flóknum viðfangsefnum og uppgvötar tæki og tól til að auðvelda sér hvers konar slítandi vinnu eða leiðinleg verkefni. Latt fólk veit líka hvenær verið er að svína á því. Það er í krafti þess sem ég veit að flestar þær sundlaugar sem ég hef komið í á landinu, nánar tiltekið meirihluti þeirra 66 sundlauga hringinn í kringum landið sem ég hef heimsótt, eru hannaðar þannig að lengra er að ganga í og úr kvennaklefa en karlaklefa. Ég þarf semsagt, ásamt kynsystrum mínum og barnastóðinu, að staulast lengra á blautum og köldum flísum en karlarnir. Þetta er
ósanngjarnt hvort sem ég horfi á stöðuna sem femínisti eða letihaugur.
Þetta er auðvitað ekki algilt.
Í Sundlaug Bolungarvíkur, betur
þekktri sem Musteri vatns og vellíðunnar, þurfa karlar að ganga um það bil tveimur til þremur metrum lengra en konur í klefa sinn. Í Breiðholtslaug, líklega bestu sundlaug höfuðborgarsvæðisins, er inngangurinn í karlaklefann spölkorni lengra frá útganginum út í laug en kvennaklefinn. Dæmin um hitt eru hins vegar miklu fleiri og þau hafa jafnvel orðið tilefni fréttaflutnings.
Dr. Vilborg Auður Ísleifsdóttir
vakti athygli á því, árið 2021, að
við endurbætur á Sundhöllinni
í Reykjavík hefðu konur borið
verulega skarðan hlut frá borði. Fyrir breytingar höfðu konur þurft
að klöngrast niður langan stiga úr afgreiðslu og aftur upp þröngan stiga að sundlaug. Þannig hafði
Guðjón Samúelsson þjóðararkitekt stillt sundlaugarhúsinu upp. En eftir breytingar varð ástandið öllu ójafnara; karlarnir héldu sínum klefa inni og gátu gengið beint úr búningsklefa sínum að sundlauginni innandyra og
þaðan í heita potta á þaki hússins –konur þurftu aftur á móti að ganga
að minnsta kosti 25 metra utandyra til að komast í gömlu sundlaugina og þaðan upp langt stigahús. Vilborg sendi sundhallarstjóranum bréf, borgarstjóra og landlækni einnig, og benti meðal annars á að um mikilvægt
lýðheilsumál væri að ræða. Hún sagði að konum hefði einfaldlega verið sýnd lítilsvirðing með þessum aðbúnaði.
Í Vesturbæjarlaug þekkja allar konur hverfisins, og uppaldar
stúlkur úr skólasundi, hvað stiginn úr kvennaklefanum er mikið skaðræði.
Á meðan karlar ganga af neðri hæð
úr sínum klefa upp fjórar til fimm tröppur, er konum boðið upp á þrefalt lengra labb niður stiga og aftur upp
þegar farið er til baka. Á meðan
þessi grein var skrifuð vatt ókunnug kona sér upp að mér á kaffihúsi til að ræða einmitt þennan stiga þegar hún varð þess áskynja að ég væri að velta kynjuðum halla sundlauga fyrir mér. Hún sagðist hafa æft sund í Vesturbæjarlaug alla barnæskuna og kynni ótal sögur af stelpum sem runnu á rassinn í blautum tröppunum. Sjálf hefði hún margoft húrrað niður blautar tröppurnar.
Og ekki er hægt að kenna eldri sundlaugum um kynjahallann. Þetta er semsagt ekki hönnunargalli fortíðar. Í Lágafellslaug í Mosfellsbæ
þurfa konur að ganga mun lengra inn í búningsklefa sinn en karlar hafa sinn klefa strax sér á vinstri hönd þegar farið er úr skónum. Þegar
út í sjálfa sundlaugina er komið þurfa konur svo að ganga þvert yfir sundlaugasvæðið til að komast að barnalaug og vaðlaug, en karlar koma úr sínum klefa gegnt hvoru tveggja. Þarna munar töluverðu. Hið sama er uppi á teningnum í hinum
glænýju Skógarböðum á Akureyri: Kvennaklefinn er mun lengra inn ganginn frá afgreiðslu en karlaklefinn. Aftur eru körlum spöruð sporin.
Sjaldnast skipta vegalengdirnar einhverjum sköpum og aðeins skeikar örfáum metrum, eins og dæmin sanna í Sundlaug Akureyrar, Laugardalslaug, Sundlauginni á Flúðum og
Seltjarnarneslaug, svo fáein dæmi séu nefnd, en tilhneigingin er þó sannarlega til staðar að hafa
karlaklefann nær sundlaug og/eða afgreiðslu en kvennaklefann. Svo algeng er þessi tilhögun að fráleitt væri að tala um tilviljanir. Þetta er í besta falli kerfisbundið hugsunarleysi,
í versta falli öðrun sem leiðir að því að körlum er jafnan úthlutaður klefi fyrst í hönnunarferlinu og fá þar með klefann nær laug og afgreiðslu.
Jafnrétti og réttlæti
Flestum þykir málið eflaust léttvægt, og að sumu leyti er það svo. Stöðunni má þó velta fyrir sér frá ótal hliðum og þar kemur þarfagreining inn í myndina. Í áðurnefndri bók um
Ósýnilegar konur er sérstaklega tekið fram að karlar séu að meðaltali með 25% meiri vöðvamassa en konur á neðri hluta líkamans. Munurinn er mun meiri í efri hlutanum en fæst göngum við á höndum út í sundlaug. Að meðaltali ættu lengri göngur úr búningsklefa því að vera körlum léttari en konum, ekki satt? Karlar eru að jafnaði ekki 25% þyngri en konur vel að merkja.
Það er sömuleiðis staðreynd að konur hafa styttri þvagrás en karlar og er því hættara við að fá blöðrubólgu. Þær aðstæður sem skapast á langri göngu í bleytu og kulda eru kjörlendi slíkra kvilla. Og þá er ótalið stærsta atriðið þegar kemur að ólíkum þörfum kvenna á sundlaugarbakkanum: þungun. Það er eitthvað verulega skakkt við það að þunguðum konum sé gert að klöngrast upp og niður þrefalt fleiri tröppur í Vesturbæjarlaug en körlum, eða að þeim sé ætlað að ganga þvert yfir sundlaugabakkann í Sundhöllinni á meðan karlarnir geta valið mun skemmri leið innandyra.
Greining á þörfum barnshafandi
kvenna myndi fljótt leiða í ljós að margar þjást þær af sársaukafullri grindargliðnun, er almennt hættara við að misstíga sig vegna þeirra liðslakandi hormóna sem líkaminn
beitir til að greiða fyrir fæðingu og eru oft þreyttar og þungar á sér.
Óttinn við að detta á áttunda mánuði
ætti að vera næg ástæða út af fyrir sig en einnig má nefna þá ótvíræðu heilsubót sem sund og þyngdarleysið sem því fylgir er fyrir þungaðar konur. Þrátt fyrir það hafa ekki verið tekin saman kyngreinanleg gögn um þessar ólíku þarfir eða ráðist í gagngerar breytingar til að snúa dæminu við.
Jákvæð mismunun
Þegar þessi mismunun á sér stað verður manni ljóst að ekki er hjá
því komist að taka eftir samskonar tilhneigingu í öðrum kynjuðum
opinberum rýmum. Leiðin að kvennaklósettum er jafnan lengri en að karlaklósettum, hið sama má segja um búningsklefa líkamsræktarstöðva og áfram mætti lengi telja. Aukasporin sem konur taka í þessu samhengi safnast saman í umtalsverðan fjölda. Aðstöðumunurinn getur verið hrópandi, stundum er hann álitamál.
Í Sundhöll Ísafjarðar hafa konur staðið í áratugalangri baráttu um aðgang að einu gufunni í bænum. Við síðustu aldamót fækkaði gufudögum kvenna í tvo á viku á móti fimm dögum karla. Fimmtán árum síðar fengu konurnar þrjá gufudaga á móti fjórum hjá körlunum en í janúar á þessu ári vænkaðist hagur þeirra mjög þegar ákveðið var að í sléttum vikum hefðu konur aðgang að gufunni á föstudögum en karlar á oddavikum. Þannig var það fyrst tryggt, árið 2023, að konur og karlar á Ísafirði kæmust jafn oft á ári í gufu með tilheyrandi hreinsun og syndaaflausn eftir saltát, áfengisþamb eða hvaðeina annað sem gufan getur létt af manni.
Jafnréttislausnir geta því verið af ýmsu tagi; allt frá því að jafna rétt karla og kvenna eins og gert var á Ísafirði eða með því að beita jákvæðri mismunun. Jákvæð mismunun á
sundstöðum gæti litið þannig út að konum séu spöruð sporin og einföld klefaskipti gerð þar sem karlar hafa notið styttri vegalengda hingað til.
Önnur leið til jákvæðrar mismununar væri að gera karlaklefann svo barnvænan, hálfgert ævintýraland, að nánast útilokað væri annað en að senda börnin með feðrum sínum
í klefann til að létta af mæðrum
vinnuálagið – en þar með myndi
skapast önnur mismunun gegn
hinsegin mæðrum og einstæðum
mæðrum. Ekki mjög vænlegt það.
Gjöfulast væri líklega að rekstraraðilar
sundlauga leggist í einfalda
þarfagreiningu og komist að því að
jafnt sé ekki alltaf réttlátt.
Trúarbrögð heims eru full af reglum sem hygla körlum á kostnað kvenna. Veraldlegri rítúöl, eins og sundferðir, gætu við fyrstu sýn virst laus við slíkar kreddur en séu þau
ekki rýnd í grunninn gæti komið í
ljós dulinn strúktúr sem byggir á nákvæmlega sama kynjaða valdakerfi. Það er þá ekki eðlismunur heldur stigsmunur að vinkonu minni í New York bíði hjónaband og hulið hár, en mín bíði rasssæri eftir enn eina byltuna í stiganum í Vesturbæjarlaug. Hvorugar látum við samt af trúnni í mótmælaskyni.
Höfundur er dagskrágerðarkona hjá RÚV
Þegar femínismi og
hryðjuverk eru lögð að jöfnu
Viðtal við Natöshu S.
eftir Söru Stef Hildardóttur

Líkami kvenna er oft vígvöllur þeirrar baráttu sem konur heyja gegn
feðraveldinu og kapítalismanum. Þar sem Metoo byltingar áttu sér stað
fyrir nokkrum árum var þetta augljóst.
En Metoo fór ekki víða og allstaðar í heiminum eru konur enn félagslega og fjárhagslega undirskipaðar körlum. Konum er kerfisbundið nauðgað
í stríðum, þær eru kúgaðar til að gera sig og líkama sinn ósýnilegan.
Í Afganistan og víðar og þar sem kapítalisminn fer hönd í hönd við
feðraveldi er farið með konur eins og hverja aðra neysluvöru. Hvergi í
heiminum fá konur að vera konur á eigin forsendum.
Í Rússlandi Pútíns fór lítið fyrir Metoo, kvenfyrirliting er almenn og kvennabaráttan á undir högg að sækja. Til að taka stöðuna á femínisma og því að vera kona í Rússlandi hitti ég rússneska ljóðskáldið og
þýðandann Natöshu S., en hún hefur verið búsett á Íslandi undanfarin áratug.
Sara: Rússland er mjög flókið land. Er yfirleitt hægt að tala „almennt“ um stöðu kvenna þar?
Natasha: Já, það er alveg rétt. Rússland er mjög flókið land og langt frá því að vera einsleitt. Þegar ég bjó þar fyrir um áratug síðan var enn litið á konur með mjög hefðbundnum hætti. Þær áttu að sjá um heimili og barnauppeldi og ég veit ekki til þess það hafi breyst mikið. Því miður. Börn eru enn alin upp við mjög kynjuð
sjónarmið eins og að strákar eigi ekki
að gráta og að litlar stelpur eigi að vera fallegar og þægar. En talandi um útlit þá er allt öðruvísi menning hér en í Rússlandi varðandi það. Þegar
ég kom hingað fyrst þá vann ég um tíma á frístundaheimili fyrir fötluð
börn. Þar voru margar íslenskar ungar
konur sem ég myndi kalla skvísur. Þær máluðu sig ekki og mættu í vinnuna
í joggingbuxum. Þetta var algjört
kúltúrsjokk fyrir mig því ég var alin
upp við að mæta alltaf vel klædd og
máluð í vinnuna! Annað kom ekki
til greina svo ég bara: Vá, má þetta bara? Þetta var mjög áhugavert
reynsla og frelsandi að þurfa ekki
að hafa sig til. Þetta finnst mér góð
þróun. Að konur fái að vera þær sjálfar og séu ekki bundnar af því að vera
mjóar, fallegar og þægar.
Síðan í seinni heimsstyrjöld, þegar margir rússneskir karlmenn létu lífið, hefur verið skortur á körlum í Rússlandi en það eru um 10 konur á hverja 9 karla í Rússlandi. Það er því pressa á konur í rússneskri menningu
að halda sér vel, vera fínar og fallegar, því annars eiga þær mögulega minni möguleika á að ná sér í karl. Svo núna, eftir að stríðið í Úkraínu hófst, og karlar eru sendir þangað til að berjast þá hafa margar vinkonur mínar sem eiga menn flutt frá Rússlandi. Pör flytja burt til að koma körlunum undan stríðinu. Það sem mér finnst hins vegar áhugavert í þessu er að þetta er oft að frumkvæði og fyrir tilstilli kvennanna. Rússneskar konur leggja sig sem sagt í hættu við að koma körlunum hjá herskyldu. Það eru þær sem skipuleggja og sjá um að koma þeim úr landi. Ójafnvægið sem birtist í þessu að það eru 10 konur á hverja
9 karla, birtist því ekki bara í pressunni
á að vera sæt og fín og að finna sér karl heldur líka – að þær taka ábyrgð
á að flytja karlana burt með sér – ekki bara til að bjarga lífi þeirra heldur líka til að halda í þá. Svo já, ég myndi segja að konur í Rússlandi væru frekar háðar því að hafa karl með sér og rússneskar konur sinna almennt sínu hefðbundna húsfreyjuhlutverki til að
þóknast þeim.
Sara: En umræðan um heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi? Er sú umræða opin eins og hér á landi?
Natasha: Alls ekki. Það er engin opinber umræða um ofbeldi gegn konum og staða kvenna er almennt mjög veik. Undir stjórn Pútíns var lögum breytt fyrir nokkrum árum
þannig að það er ekki lengur ólöglegt að beita konur ofbeldi. Lagabreytingin var mjög óljós og túlkanleg eftir
áverkum – konum í óhag auðvitað.
Ég þekki konur sem voru lamdar og í
öllum tilvikum vissu bæði maðurinn og
konan að þetta væri staðan: karlarnir eru sjaldnast ákærðir. Heimilisofbeldi er mjög útbreitt í Rússlandi. Sem dæmi get ég nefnt vinkonu mína sem gifti sig
18 ára og átti barn 19 ára. Kærastinn
lamdi hana reglulega – jafnvel þótt
þau byggju heima hjá foreldrum hans.
Það breytti engu. Hún lýsti því fyrir
mér einu sinni hvernig hann var að sparka í hana liggjandi á gólfinu og hún öskrandi af sársauka – þá kemur
mamma hans allt í einu inn, snýr sér að henni og skammar hana: Hvaða læti eru þetta í þér eiginlega? Vinkona mín skildi við hann en hann hefur ekki
sýnt barninu sínu neinn áhuga í 17
ár. Foreldar hans sjá þetta ekki sem hans vanda heldur er skömminni velt á barnsmóður hans, vinkonu mína. Í
þeirra augum er það hún sem veldur
því að hann er svona. Rússar eiga langt
í land með jafnrétti eins og þekkist hér á landi. Þetta er ekki óalgengt, því miður, það hefur lengi verið samfélagslega samþykkt að rússneskir pabbar þurfi ekki að vera góðir pabbar eða eiginmenn og þeir eru ekkert að reyna að breyta því.
Sara: Hvernig er líkamlegt sjálfræði kvenna – hafa konur eitthvað yfir eigin líkama að segja?
Natasha: Almennt séð er það ekki þannig held ég. Vinkonur mínar hafa t.d. allar eignast sín börn fyrir 25 ára en það hefur allt verið frekar tilviljanakennt og kannski undir félagslegri pressu þannig – miklu frekar en skipulagðar barneignir. Þegar þær voru að eiga börn, bjuggum við flest enn hjá foreldrum okkar og vorum í háskólanámi, líka þau sem voru með lítil börn. Mörg þeirra eru reyndar skilin núna en ég hef oft hugsað um þennan tíma, bara hvernig gekk þetta allt upp? Í Rússlandi fá konur ekki eins mikinn stuðning og hér á landi og lífið er mjög erfitt fyrir einstæðar mæður í Rússlandi. Samt eru konur hvattar til að eignast börn og það er kerfi sem borgar með barneignum. En kerfið er bundið við að þú mátt bara nýta peningana í menntun barnsins eða til að borga af húsnæði. Það má ekki nota þá í hvað sem er. Konur eiga líka að styðja við karlana frekar en hitt. Þeir eru fyrirvinnan og konan á að passa upp á körlunum líði vel. Vinkonur mínar hafa t.d. oft sagt mér að karlarnir þeirra „hjálpi til“ og þær eru ánægðar með þá „hjálp“. Þetta gefur einhverja mynd – konur líta á framlag eiginmanna sinna sem fórnfúsa hjálp!
Sara: En þungunarrof í Rússlandi, nú er lögum um þungunarrof ógnað á heimsvísu þótt þau séu reyndar mjög léleg víða?
Natasha: Já, þungunarrof er sem betur fer enn löglegt í Rússlandi. En hins vegar stendur víst til að banna hjónum að vera barnlaus.
Kannski vinnur það gegn þeim lögum, ég veit það ekki. Ég kann ekki alveg að segja frá þessum nýju barneignarlögum en þau fjalla um íhaldssemi og að varðveita „klassísk
gildi“ fjölskyldunnar. Hjón eða sambúðarfólk verður sem sagt gert að fjölga sér og þetta á að sjálfsögðu bara við um heterocisfólk. Undir stjórn Pútíns er hjónabandið í
Rússlandi bara á milli kvenna og karla. Samkynhneigð er ekki til í Rússlandi og kynsegin fólk er fullkomlega
réttlaust. Það er ekki einu sinni hægt að gefa út bækur með kynsegin persónum í Rússlandi. Þannig bækur eru fjarlægðar úr bókabúðum og af bókasöfnum.
Sara: Metoo varð aldrei að baráttu eða byltingu í Rússlandi?
Natasha: Nei, það fór mjög lítið fyrir Metoo í Rússlandi. Nýlegar fréttir frá Rússlandi eru reyndar skelfilegar því til stendur að setja ný lög sem eiga að gera femínisma ólöglegan. Samkvæmt þessum lögum má segja til fólks sem styður femíniska hugmyndafræði og það er almennt mikið svoleiðis í gangi, ekki bara í samhengi við femínisma. Það er erfitt að fara ekki að hlæja, þetta er

svo absúrd, þótt þetta sé auðvitað hræðileg þróun. En þótt Metoo hafi átt sér stað sumstaðar þá hefur mjög lítið breyst fyrir konur í Rússlandi.
Sara: Það er greinilega undirliggjandi kvenfyrirlitning innan rússneskrar menningar, myndirðu jafnvel segja að kvenfyrirlitning væri hluti af þjóðarmenningu Rússa?
Natasha: Það er hægt að segja það, já. Hatur er í raun stór hluti af menningunni í Rússlandi. Ekki bara gegn konum heldur sést það í svo mörgu. Það er verið að heilaþvo stóran hluta Rússa með allskonar hatri, ekki bara kvenhatri. Falsfréttir Pútíns í ríkissjónvarpinu eru rosalegar – fólk hérlendis geri sér kannski ekki grein fyrir á hvaða skala þetta er og hvernig daglegt líf fólks er undir áróðrinum um hin „klassísku gildi“ hjónabandsins og hvernig kynsegin fólk er gert ósýnilegt.
Þess vegna er afneitun og ótti líka undirliggjandi í menningunni. Ég held að það sé auðvelt fyrir marga Rússa að fara bara í afneitun yfir því sem er að gerast í nafni Rússlands. Það er of erfitt fyrir fólk að trúa að þetta sé að gerast í raun og veru – að það sé verið að drepa fólk í þeirra nafni.
En já, Rússland er mjög flókið land. Mér dettur t.d. í hug menntun í Rússlandi. Hún er bara hlægileg.
Ég lærði blaðamennsku í fimm
ár, sex daga í viku, í fimm ár fyrir grunnháskólagráðu, BA. Samt lærðum
við í raun ekkert, það var engin gagnrýni, það var ekki talað um neitt í rauninni. Bara ekkert. Allt sem ég veit og skil núna skil ég af því að ég hef lesið bækur sem gagnrýna. Í náminu var aldrei rætt um hversu mikill hryllingurinn er í sögu Rússlands. Og það er ekki heldur gert núna eftir
innrásina í Úkraínu. Börn á skólaaldri þurfa í dag að mæta og taka þátt í skyldukennslustund sem á að fjalla um það mikilvægasta í menningunni og af því að stríðið í Úkraínu er yfirstandandi þá eiga þau að sýna föðurlandsást. Ef barnið mætir ekki í þessa tíma þá geta kennarar eða aðrir foreldrar tilkynnt það og það getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir fjölskyldur. Ég veit af stelpu sem mætti aldrei og mamma hennar var ákærð fyrir föðurlandssvik. Þetta var fyrir nokkrum mánuðum og ég veit því miður ekki hvernig það mál fór. Annað mál komst í heimsfréttirnar eftir að stelpa teiknaði mynd sem var túlkuð sem andóf gegn Úkraínustríðinu. Í kjölfarið var pabbi hennar handtekinn og fékk tveggja ára fangelsisdóm. Stelpan var send á heimili fyrir munaðarlaus börn. Það er verið að stjórna með ótta og það virkar því miður.
Sara: Þú hefur lýst kúgun fólks í Rússlandi en hvernig birtist kúgun kvenna sérstaklega?
Natasha: Fyrir utan hvernig heimilisofbeldi er eins og hluti af rússneskri menningu þá dettur mér í hug öfgahægrihópur sem kallaðist Male State og var stofnaður af hópi karla á rússneska Facebook fyrir örfáum árum. Mörg þúsund manns tóku þátt í stofnfundinum og hópurinn óx mjög hratt. Þarna ræddu karlar hvert hlutverk kvenna er gagnvart körlum en samkvæmt Male State er ein frumskylda kvenna að sofa hjá körlum. Það er einfalt, þegar þeir vilja það þá eiga þær að hlýða. Þetta er talinn mjög hættulegur hópur sem byggir á djúpu kvenhatri, nasisma og rasisma. Þessi hópur ofsótti konur sem þeim þótti ekki nógu kvenlegar og rússneskir femínistar brugðust við
með því að setja upp nokkurskonar kvennaathvörf þar sem konur gátu leitað skjóls í. Ég man þegar þeir ofsóttu konu sem hafði ættleitt svart barn en henni var hótað lífláti og nauðgun. Oftast urðu kynsegin konur og yfirlýstir femínistar fyrir ofsóknum en þeir hótuðu líka fyrirtækjum sem notuðu svart fólk í auglýsingum
sínum. Þessum hópi var lokað á rússneska Facebook fyrir fjórum
árum en þá taldi hann um 150.000 meðlimi. Hópnum sjálfum var svo gert að hætta árið 2020, stofnandinn
var ákærður 2021 en hefur ekki verið dæmdur fyrir neitt. Þetta samfélag kvenhatara, rasista og nasista fékk að þrífast óáreitt í Rússlandi í fimm ár. Þetta segir eitthvað um kúgun kvenna í Rússlandi og hvernig komið er fram við konur þar.
Sara: En femínisk áhrif Pussy Riot á menningu og stjórnvöld í Rússlandi?
Natasha: Pussy Riot voru í rauninni miklu vinsælli hér á Íslandi og annars staðar en í Rússlandi. Ég vissi t.d. bara

af þeim þegar fréttist af gjörningnum
í kirkjunni og þær voru dæmdar í
fangelsi. Annars hefði ég ekki vitað
af þeim. Ég hafði ekkert orðið vör
við neitt frá þeim áður og ég bjó í
Rússlandi á þessum tíma. Ég man
þennan dag mjög vel því það var mikil pólitík í gangi á þessum tíma.
Ekki bara Pussy Riot og réttarhöldin
yfir þeim heldur var Navalny mjög
áberandi líka og svo voru líka fyrstu
risamótmælin skipulögð á þessum
tíma, fyrstu mótmælin frá því að Sovét
féll. Það var mikil von í lofti á þessum tíma. En margir voru íhaldssamir
gagnvart Pussy Riot og fannst að
þær hefðu ekki átt að gera þennan gjörning – kirkjan væri of heilög
– en það var ótrúlegt hugrekki að gera þetta eins og þær gerðu. Ég
fór á mjög áhrifaríka sýningu Pussy
Riot í Marshall húsinu sl. vetur og
rússnesk stjórnvöld myndu ekki hika
við að drepa hana, Mariu Alyokhina, ef einhver hliðhollur Pútín sæi sýninguna, og myndi tilkynna hana, þá væri líf hennar klárlega í hættu. Engin spurning. Svo Maria Alyokhina er mjög hugrökk. En þetta sýnir að fólk er þrátt fyrir allt tilbúið að færa mjög miklar fórnir til að breyta Rússlandi þótt það gangi allt of hægt. Að þessu sögðu er samt hægt að tala um Rússland því í Rússlandi eru blaðamenn, svokallaðir föðurlandssvikarar, með þætti á Youtube sem fá mikið áhorf.
Navalny, þekktur aktivisti, situr inni fyrir sitt pólitíska andóf gegn
Pútín og ólígörkunum og annar
andófsmaður var dæmdur fyrir
stuttu í 25 ára fangelsi fyrir að fara gegn stjórnvöldum. Ekkert af þessu
á að koma á óvart því að þetta hefur gerst áður. Þessi menning er ekki að verða til núna. Við þekkjum það vel í Rússlandi að lífið hefur enga
merkingu, stjórnvöld geta gert það sem þeim sýnist, tekið fólk og látið það hverfa í vinnubúðir eða fangelsi –eða bara hreinlega drepið það.
Sara: Í lokin, staða kvenna og femínisma í Rússlandi?
Natasha: Staðan er dapurleg en það er samt virkur aktivismi af hálfu rússneskra femínista. Nýlega voru skipulögð mótmæli gegn lögunum um að femínismi væri hryðjuverk og ég veit ekki til að þau mótmæli hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir mótmælendur þótt erfitt sé að fullyrða um afdrif þátttakenda og engar fréttir séu af þeim. Mótmælin gætu hafa endað hræðilega þótt það sé ekki í fréttum.
En Rússar, fólk og félög, reka líka fjölmiðla á netinu sem birta femínískt efni. Sum senda út frá Rússlandi en kannski er meira um að þau sendi út utan Rússlands. Engu að síður hefur femínisk hreyfing í Rússlandi farið vaxandi og það er virkur femínískur aktivismi í gangi. Ég held nefnilega að þessi nýju lög um femínisma sé einmitt viðbrögð við því – að stjórnvöld skynja að það er gangur í femíniskum hreyfingum og þau óttast það. Þau skilja að konur og aðrir femínistar munu standa saman og finnst greinilega ástæða til að bregðast við því – en með svona absúrd hætti. Kannski má líta á það sem „gott“ í þeim skilningi, ég veit það ekki. Það kemur alltaf bakslag í kvennabaráttu og þetta er eitt slíkt í Rússlandi.
Ég fylgi hópi á netinu sem kallar sig Feminist AntiWar Resistance. Þær tala mikið um stríð og hvernig hægt sé að hjálpa körlum að yfirgefa Rússland og flýja stríðið. Þessi samtök eru vaxandi og sýna líka að konur eru uppteknar af því að styðja karlana
og hjálpa þeim að komast undan herkvaðningunni. Þessi samtök skipuleggja og þekkja leiðir til að komast burt frá Rússlandi, sumar leiðir eru auðvitað ólöglegar en samt notaðar. Þetta er kannski spurning um að drepa eða vera drepinn, fyrir marga karlana, hugsa ég, svo ástandið er frekar hrikalegt og stjórnvöld eru að reyna að kæfa allskonar andóf í fæðingu. Stjórnvöld gera þetta undir fána ótta og ofbeldis og oft eru refsingar mjög tilviljanakenndar, eins og í máli litlu stelpunnar sem teiknaði myndina í skólanum. Sú stúlka á ekkert annað bakland en pabba sinn.
Af hverju velja stjórnvöld einmitt þessa litlu fjölskyldu til að valda ótta hjá öllum hinum fjölskyldunum? Fólk, og konur þar meðtaldar auðvitað, er almennt mjög óttaslegið og kvíðið því enginn veit hver gæti orðið næstur.
Þær Maria Alyokhina og Liudmila „Lucy“ Shtein, liðskonur rússneska lista og andófshópsins Pussy Riot, fengu íslenskan ríkisborgararétt 10. maí 2023.
Á valdi tilfinninganna

Í umfjöllun um stétt vill oft, jafnvel oftast, brenna við að fræðafólk fjallar um tölur, um tækifæri og skort á þeim, um hegðun og húsnæði – allt
án þess að fjalla um tilfinningar og hvernig fólk upplifir stéttbundinn
veruleika sinn á eigin skinni og sál.
Það er sjaldnast minnst á sorg, gleði, stolt, skömm, hamingju, óhamingju, ótta eða viðbjóð og hvernig þessar tilfinningar móta samfélagslega umræðu um ólíka þjóðfélagshópa.
Ef svo ólíklega vill til að minnst sé
á tilfinningar þá er sú umfjöllun
einnig þvegin, sett fram í tölum og
skrúbbuð af allri tilfinningasemi
eða raunverulegri umræðu um völd tilfinninga.
Breski félagsfræðingurinn Diane
Reay skrifaði raunar grein um skortinn
á þessari umræðu fyrir hartnær 20 árum. Hún bendir á að stéttavitund sé eina linsan sem við kunnum að
beita á upplifun fólks af stétt en að stéttarvitund segi þó mest lítið um tilfinningalegar hliðar stéttaskiptingar.
Til að nálgast það viðfangsefni
þurfum við að kafa handan einfaldrar hagfræðilegrar flokkunar og umræðum um krónutölur og skoða valdakerfi tilfinninga sem umlykja okkur.
Ég gerði tilraun til þess að skoða hvernig stéttbundin valdatengsl
birtast hjá mæðrum af verkalýðsstétt og upplifun þeirra af foreldrasamstarfi
í grunnskólum hérlendis. Þær eru með stutta formlega menntun og
eiga erfitt með að ná endum saman.
Ég vissi að rannsóknir sýna að þessi hópur mæðra tekur mun síður þátt í formlegu og óformlegu skólasamstarfi og að bæði stefnumótunaraðilar, skólasamfélagið og aðrir foreldrar
líta almennt á það sem framtaksleysi, metnaðarleysi og viljaleysi af hálfu
þessara mæðra. Það er með öðrum
orðum horft á hegðunina og á tölur um mætingu á foreldraviðburði algjörlega einangrað frá tilfinningalífi og valdatengslum. Mig langaði að skilja hvaða tilfinningalegu upplifanir búa að baki því að þessar konur halda sig til hlés í samskiptum við skólann og aðra foreldra í skólanum. Til þess þurfti ég eðlilega að byrja á að spyrja um reynslu þeirra af þessum vettvangi í æsku – þær voru jú allar nemendur í grunnskóla áður en þær urðu foreldrar barna í grunnskóla. Í frásögnum þeirra kom bersýnilega í ljós að líkaminn geymir allt, eins og segir í áfallafræðunum, og líkaminn hefur áhrif á tilfinningar okkar og upplifanir, stjórnar þeim jafnvel. Þær höfðu allar verið jaðarsettar félagslega og námslega í grunnskóla. Þeim hafði verið talin trú um það, leynt og ljóst, af kennurum, samnemendum og samfélaginu öllu að þær væru illa gefnar og félagslega vanhæfar. Skólakerfið okkar er upp til hópa hannað utan um þekkingu og veru efri stétta og það hafa mæðurnar í rannsókn minni fengið að reyna á eigin skinni og súpa seyðið af áratugum saman. Líkami þeirra geymdi þessi skilaboð og brást við þeim þegar þær rötuðu á ný inn í skólakerfið, nú sem mæður skólabarna. Þannig sagði Selma mér frá því hvernig henni liði í félagslegum aðstæðum innan skólans:
Ég oft lít á mig kannski minnimáttar því ég er ekki með einhverja menntun. Þá bara upplifi ég mig sem minnimáttar og finnst það bara, æ það nennir enginn að tala við mig, kannski ég fari bara [burt úr félagslegum aðstæðum þar sem aðrir foreldrar eru].
Selma hefur gleypt skömmina af stéttarstöðu sinni hráa, skömm
sem ætti ekki á neinn hátt að vera hennar, heldur samfélagsins sem beitir stéttaofbeldi í skjóli skólakerfis. Mæðurnar voru einnig meðvitaðar um að skólasamfélagið og foreldrasamfélagið innan þess lítur niður á þær. Þær hafa upplifað að þeirra tilvist og þeirra líkamar vekja tilfinningaleg viðbrögð hjá foreldrum og kennurum sem eru ekki jákvæð eða styðjandi. Slík jaðarsetning hefur tilfinningalegar afleiðingar fyrir þær. Þannig sagði Freyja frá:
Ég hef mikla löngun til að [taka þátt í foreldrafélaginu eða vera bekkjarfulltrúi] en eftir upplifun mína gagnvart hinum foreldrunum þá þori ég ekki að taka þátt. Það er skortur á foreldrum, foreldrar eru hvattir til þess að mæta og taka þátt en ég þori því ekki vegna þess að ég hef fengið svona „ohhh Freyja, við hlustum ekkert á hana“.
Margar þeirra voru meðvitaðar um hversu ósanngjörn staða þeirra væri og hversu mikið stéttaofbeldi væri falið í henni. Þær gátu greint valdatengslin og beitt þeirri greiningu á stöðu sína innan þjóðfélagsins og innan skólasamfélagsins. Þannig sagði Þórhalla:
[Foreldrarnir eru] mjög blandaður hópur, mjög svo, og þetta er svona eins og mér finnst þetta, þá finnst mér eins og foreldrarnir hópi sig svona saman eftir hvernig þau búa. Hvort þau eru millistéttarfólk, láglauna eða hærri. Ég upplifi mig að við skerum okkur úr af því að við erum ekki millistéttar eða hástéttarfólk.
Þórhalla sá einnig kristaltært
á hvaða hátt reynsla hennar af skólakerfinu í æsku og það
stéttaofbeldi sem hún varð fyrir þar, litaði reynslu hennar af skólasamfélaginu í dag. Hún svaraði svo þegar ég spurði hana af hverju hún hefði ekki tekið þátt í foreldrastarfinu í grunnskóla barnanna hennar:
Ég var náttúrulega með mjög brotið sjálfstraust og sjálfsálit, hélt ég gæti ekki gert neitt og ómöguleg í öllu og gæti ekki komið með neinar uppástungur og eitthvað svona, þetta er það sem stoppaði mig. Ég náttúrulega varð mjög brotin eftir grunnskólann.
Þórhalla skilur afleiðingar stéttaofbeldisins sem hún varð fyrir í grunnskóla og með hvaða hætti þær tilfinningar ýfast upp þegar hún kemur á ný inn á grunnskólavettvanginn sem móðir. Líkaminn geymir allt.
Þessi rannsókn mín er bara lítið dæmi um það hvernig það að horfa á tilfinningaleg áhrif valdatengsla getur fært okkur aðrar sögur en tölur á blaði. Tölurnar um stéttaskiptingu hérlendis eru líka mikilvægar en þau áhrif sem hún hefur á líkama og anda heilu þjóðfélagshópanna eru það ekki síður. Mæðurnar sem ég tók viðtal við gáfu mér innsýn inn í lítið brot af þessum áhrifum. Í viðtölunum þeirra var einnig að finna andóf, réttláta reiði og hæðni. Hæðnin birtist í því að mæðurnar skilja að gildismat þjóðfélagsins er þeim ekki hliðhollt og skilja að það er ekki réttlátt og hæðast því að því. Þannig hæðast þær að verðleikamati sem milli og efri stéttir taka sem gefnu.
Í rannsókn minni fór ég þó aðeins hálfa leið að því að skilja og greina þá þekkingu sem tilfinningalíf þjóðfélagshópa getur veitt okkur. Ástralska fræðikonan Sara Ahmed
bendir á að við þurfum að ganga
lengra í að skilja tengslin á milli valdakerfa og tilfinninga, á milli þjóðfélagsgerðar okkar og líkama.
Ahmed heldur því fram að til þess að skilja valdatengsl þjóðfélagsins
þurfum við að spyrja hvaða hlutverki tilfinningar gegna í samfélaginu.
Með hvaða hætti ýta þær undir ráðandi þjóðfélagsskipulag? Með hvaða hætti halda þær ákveðnum hópum á toppi þess meðan öðrum er leynt og ljóst ýtt niður? Þannig bendir Ahmed á að verðleikamat
þjóðfélagsins sjálfs sé byggt upp og knúið áfram af tilfinningum.
Valdatengslum þjóðfélagsins er gjarnan viðhaldið af tilfinningalegum viðbrögðum okkar svo sem ótta eða viðbjóði og andúð okkar á tilteknum
þjóðfélagshópum gjarnan virkjuð í gegnum tilfinningasviðið.
Ahmed rekur völd ýmissa
tilfinninga í bók sinni The Cultural Politics of Emotion, og beinir sjónum

sínum gjarnan að tilfinningalífi þeirra sem völdin hafa í þjóðfélaginu.
Þannig greinir hún til að mynda á
hvaða hátt efri stéttum býður við því sem þær tengja við lægri stéttir, innflytjendur og fólk sem ekki er hvítt (oftast raunar fólk sem tilheyrir öllum þremur þjóðfélagshópunum í senn) eða fólk sem er á einhvern hátt álitið „hinir“. Hún bendir á að oft er viðbjóður tengdur líkamanum á þann hátt til dæmis að okkur býður við mat, lykt eða líkömum sem við álítum tilheyra „hinum“. Sem dæmi um þetta má nefna að í stigagangi í Reykjavík fékk leigusali þá athugasemd að leigja vinsamlegast ekki flóttafólki af því að „lyktin væri öðruvísi“. Þannig er spilað inn á tilfinningasviðið og bein andúð á brúnum, ókunnum, lægra settum líkömum réttlætt með vísan í lykt sem aftur á að vekja upp skilning hjá hvítum, íslenskum leigusala. Það er reynt að höfða til sameiginlegrar viðbjóðstilfinningar þeirra sem völdin hafa í þessu tilviki.
Á sama hátt er nú vegið að trans fólki og þeirra líkömum. Víða um heim er trans fólki meinaður aðgangur að salernum og búningsklefum – en bæði rýmin eru nátengd nekt og líkömum. Andúðin birtist í því að ráðandi orðræður ýta undir viðbjóð sískynja fólks á þessum meintu framandi líkömum og afturhaldssemin
birtist því fyrst og fremst í rýmum þar sem líkaminn spilar stórt hlutverk.
Þriðja dæmið um hversu nátengd
þjóðfélagsleg valdaskipan er líkömum og tilfinningum get ég tekið úr viðtölum mínum við mæður úr efri stéttum. Þær sögðu mér að eitt af því sem skiptir þær miklu máli þegar
þær velja grunnskóla fyrir börnin sín er að börnin sem eru þar fyrir sýni
rétta hegðun, til að mynda að þau kunni að raða skónum sínum, taka
í höndina á fullorðnu fólki og vera róleg. Þessar mæður völdu skóla sem
hafa einkum íslenska nemendur af efri
stéttum innanborðs. Þannig eru börn af verkalýðsstétt og þeirra meinta hegðun jaðarsett, séð sem afbrigðileg og jafnvel hættuleg. Í opinberri umræðu er því gjarnan haldið fram að foreldrar velji skóla einkum út frá akademískum gæðum þeirra en rannsóknir sýna að foreldrar af milliog efri stéttum horfa einkum til, með óbeinum hætti, hvort þeim finnist stéttarstaða barnanna og foreldranna í skólanum þeim samboðin. Þetta er þó ekki sagt berum orðum. Líkt og með nágrannana sem vildu ekki „lykt“ í stigaganginn þá er skólavalið réttlætt með vísan í hegðun og aga sem þær telja aðeins suma líkama færa um að sýna af sér.
Það er þessi stemning sem Þórhalla, Freyja og fleiri viðmælendur í minni rannsókn hér að ofan tala inn í. Þær upplifa sig jaðarsettar innan foreldrahópanna og þar spila ekki einungis þeirra tilfinningar stórt hlutverk heldur ekki síður, og jafnvel enn frekar, tilfinningar hinna foreldranna gagnvart þeim. Hvernig er litið á þeirra líkama, þeirra hegðun, þeirra lykt og hvernig eru þær tilfinningar sem vakna nýttar af ráðandi aðilum til að réttlæta og viðhalda ríkjandi kerfi?
Við þurfum að tala meira um samfélagslegu völdin sem tilfinningar okkar hafa. Við þurfum að yfirheyra viðbjóðinn sem við finnum fyrir vegna meintrar lyktar, líkama og hegðunar. Hvað er það í samfélagsgerðinni sem fær mig til að bjóða við feitum líkama?
Af hverju fæ maður samviskubit yfir því að barnið hennar borði ekki grænmeti en pabbi þess fær engin tilfinningaleg viðbrögð við því?
Hvaða völd er ég að vernda ef ég vil ekki ákveðna, ímyndaða, meinta lykt í stigaganginn minn? Tilfinningalíf okkar á sér stað í samfélagslegu
samhengi og með því að viðurkenna það, tala um það og greina það mun okkur verða betur ágengt í baráttunni fyrir réttlátu samfélagi.
Höfundur er lektor við Háskóla Íslands
Heimildir
• Ahmed, Sara. 2004. The Cultural Politics of Emotion. Önnur útgáfa. Edinborg: Edinburgh University Press.
• Auður Magndís Auðardóttir. 2022. "‘I am the black duck’ affective aspects of workingclass mothers’ involvement in parental communities." British Journal of Sociology of Education 43 (1):2239. doi: 10.1080/01425692.2021.1999791.
• Auður Magndís Auðardóttir og Sonja
Kosunen. 2020. "Choosing Private Compulsory Schools: A Means for Class Distinctions or Responsible Parenting?" Research in Comparative and International Education 15 (2):97115.
• Reay, Diane. 2005. "Beyond Consciousness?:The Psychic Landscape of Social Class." Sociology 39 (5):911928. doi: 10.1177/0038038505058372.
Jónsdóttur

„Hér ertu ósýnileg …í kvennaparadísinni“ Viðtal við Sólveigu ÖnnuLárus Jensson Blöndal
Við þekkjum íslensku verkakonuna. Hún birtist okkur í mórauðum klæðum í grænum dal að raka saman hey, hún ferjar fiskiflök ásamt systrum sínum á meðan höfnin iðar af lífi allt í kring, hún vætir þvottinn sitjandi við lækjarbakka í gráleitu dæmigerðu veðri. Hún saumar, vefar, eldar, tínir, flakar. Ímynd hennar er okkur kunnugleg. Verkakonan vinnur á nóttunni eftir að allir eru farnir heim, hún skúrar, þrífur, þurrkar, tæmir, fyllir á. Hún situr í skiptiklefa og klæðir hvert barnið í á fætur öðru, huggar, seðjar, svarar, passar. Hún afgreiðir á annatíma, gætir þarfa eldri borgara, hreinsar af borðunum, býr um rúmin og stendur við færibandið. Verkakonan sinnir mikilvægri og ómissandi undirstöðuvinnu í íslensku samfélagi — en þess ber þó hvergi merki þegar horft er til tekna hennar og stöðu.
„Konur hafa þurft og þurfa enn að horfast í augu við þá kerfisbundnu kúgun sem þeim hefur verið gert að lifa við…,“ sagði Sólveig Anna
Jónsdóttir, formaður Eflingar, í ræðu sinni á samstöðufundi kvenna á
Arnarhóli á kvennafrídeginum 2018.
Krafan um mannsæmandi laun og virðingu verkakvenna var jafn sterk þá og hún er í dag, en þrátt fyrir baráttu síðustu ára virðast stjórnvöld í kvennaparadísinni á Íslandi enn snúa baki við efnahags og samfélagslegri stöðu verkakvenna á Íslandi.
Í samtali um líkama er þarft að ræða þá sem virðast ítrekað gleymast eða þá sem oft eru álitin sjálfsagðir.
Líkami verkakonunnar, andleg heilsa hennar og samfélagsleg staða var rædd í samtali við Sólveig Önnu
Jónsdóttur.
Er líkami verkakonunnar samfélagslega lítils metinn í dag?
Já ég myndi svo sannarlega segja
það. Þegar við horfum á launakjör fólks sem vinnur í hefðbundnum
kvennastörfum, þessum sögulega vanmetnu kvennastörfum, þá er að
mínu leyti mjög augljóst að virði kvenlíkamans, verkavinnulíkamans, er mjög neðarlega í stigveldinu.
Þegar áhrif þessarar lítilsvirðingar eru skoðuð út frá heilsulegu
sjónarhorni getum við litið á hversu margar verkakonur fara inn í Virk —
það er aukning í örorku hjá konum með lægra menntunarstig og hjá konum yfir fimmtugt. Þeirri mýtu var lengi haldið fram að umtöluð örorkuaukning ætti við um unga stráka fasta í viðjum tölvuleikja og kannabisfíknar, en svo þegar þetta er skoðað kemur í ljós að aukning örorku er miklu frekar hjá þessum hópi. Og svo ef við skoðum ekki bara líkamlegu heilsuna, heldur einnig þá andlegu þá sést sömuleiðis að hún tekur að versna mjög þegar konur fara að eldast.
Ég hef hugsað mikið um þessar niðurstöður og komist að því að þær eru mjög svo skiljanlegar. Þegar þú ert segjum komin á fimmtugsaldurinn, eftir að hafa unnið í láglauna kvennastörfum alla þína ævi, sérðu skýrar að staðan er ekkert að fara að batna. Þú ert búin að strita alla þína ævi og núna er þér farið að verða illt — skrokkurinn er farinn að gefa sig, bæði vegna þess að aldurinn færist yfir, en líka af því að hann hefur þurft að kljást við erfiðisvinnu. Það er erfiðisvinna, líkamlega og andlega erfitt, að sinna umönnunarstarfi.
Þannig að þegar við skoðum þetta allt og horfumst í augu við hinn efnislega raunveruleika sem við búum
í, sjáum hvar störf verkafólksins eru staðsett, hvaða launakjör þessum konum er boðið upp á, hvaða heilsufarslegu áhrif inntak þessarar vinnu hefur yfir langan tíma — þá er hin augljósa niðurstaða sú að líkami verkakonunnar er til lítils metinn í samfélaginu í dag.
Hvernig gagnast það feðraveldinu að halda verkakonum í láglaunaflokki?
Ég vann lengi sem láglaunakona í hefðbundnu kvennastarfi, vann á leikskóla. Eftir að hafa sinnt því starfi í nokkur ár fór ég að hugsa með mér og sjá þessa skýru þversögn í því að vinna í leikskólakerfinu, kerfi sem íslenskir femínistar og íslenskt stjórnmálafólk auglýsa erlendis og stæra sig af, en vera ósýnileg. Fólk sem vinnur á leikskólum er ósýnilegt; við erum á lægstu laununum, það talar enginn við okkur, það sér okkur enginn. Þegar er talað um leikskóla á Íslandi er talað um hann sem stofnun — og við þá inni í stofnuninni sem einhver húsgögn. Af hverju er það ennþá þannig að hefðbundin kvennastörf eru sett í lægri flokk? Og þá þrátt fyrir mikla sigra femínismans á Vesturlöndunum og aukna athygli almennt á stöðu kvenna og svo framvegis — þá er þessi hópur verkakvenna algjörlega skilinn eftir, og það eru auðvitað ýmsar ástæður fyrir því. Það er vegna þess að fyrir hinni menntuðu millistétt og efri stétt skiptir miklu máli að hafa aðgang að þessum stofnunum, hvort sem það er stofnunin sem sér um vistun fyrir börnin þín eða ummönun á eldri foreldrum.
Kapítalisminn og feðraveldið hafa
einhvern veginn náð að sameinast í þessu verkefni, með liðsinni nýfrjálshyggjufemínismans, um
að tryggja að það sé alltaf risastór pottur af ódýru kvenvinnuafli til þess að halda þessari maskínu gangandi. Kerfið reiðir sig á ódýrt kvennafl til að viðhalda sér. Kerfið reiðir sig á það til að hægt sé að halda leikskólagjöldum á Íslandi mjög lágum, sem þau eru í alþjóðlegu samhengi. Auðvitað eru margir sem koma að því að viðhalda kerfinu og hugsa aldrei um þetta á þessum forsendum. Það er náttúrulega líka vegna þess að það er enginn raunverulegur hvati fyrir þá sem koma að kerfinu til að endurhugsa þetta og breyta.
Ef það á að skoða þetta kerfi með gagnrýnum og róttækum augum þá þarf að viðurkenna gallanna og vanvirðinguna sem í því eru fólgin, og þá einnig þann mikla kostnað sem verkakonur, fastar inni í þessu kerfi, þurfa að bera við að félagslega endurframleiða samfélagið okkar. Þær fara svo heim og þurfa að halda áfram þar, reka heimili, passa upp á að allt gangi upp, bera ábyrgð. Þetta er því í rauninni ekki flókin spurning, en af mörgum ástæðum þykir ekki mjög vinsælt að einblína of mikið á hana, því miður.
Það ætti því varla að þurfa að spyrja af hverju verkakonan er lítilsvirt í samfélaginu — því hvað er svarið annað en að um sé að ræða hreina kvenfyrirlitningu?
Þetta er einmitt kvenfyrirlitning og þetta er kvenfyrirlitning sem er viðhaldið í þessu samstarfsverkefni kapítalismans og hinna gömlu gilda feðraveldisins. En það þorir enginn að segja það hreint út — það er engin stjórnmálamanneskja, ekki einu sinni á hægri vængnum, sem myndi segja opinberlega já, konur eru hreinlega bara minna virði, eðli málsins samkvæmt. En það að enginn þori að
segja þetta hreint út breytir engu um að slík er raunin. Og stjórnmálastéttin, alveg sama hvar hún staðsetur sig, er algjörlega meðsek í að viðhalda þessu ástandi — gangast við kvenfyrirlitningunni.
Kerfið hefði aldrei átt að vera byggt svona upp til að byrja með, en vegna þess að raunin er sú þá hefði allavega átt að sporna við þeirri þróun — og þá sérstaklega núna þegar hópar af fólki eru tilbúnir til að leggja
niður störf aftur og aftur, því þetta snýst um efnislegan veruleika þeirra — þá ætti það allavega að duga svo það komi pressa einhvers staðar frá, þá ekki bara frá þessum hópum eða verkalýðsfélögunum þeirra heldur líka frá pólitíkinni, sérstaklega þeirri pólitík sem kennir sig við kvenfrelsi. Pólitíkin þarf líka að stíga fram og segja: hérna er augljós kerfislegur vandi sem hefur verið leyft að grassera og látinn standa óáreittur, en nú er kominn tími

til þess að við tökum höndum saman og upprætum hann — en það hefur ekki orðið til þess enn sem komið er, en kannski fer það að gerast.
Það er krísa í þessum umönnunarog velferðarkerfum alls staðar á Vesturlöndunum, alls staðar þar sem þessi kerfi eru establiseruð. Þessi kerfi þjóna grundvallaratriðum í samfélagsgerðinni okkar — en eru samt alltaf fjársvelt? Og á sama tíma
og það er alltaf fjársvelt er í sífellu verið að setja meiri ábyrgð á öll þau sem vinna innan þess; vinnan er orðin erfiðari og hóparnir sem þú ert að vinna með verða sífellt flóknari og þarfirnar fjölbreyttari. Þannig auðvitað er mikill og ríkjandi pirringur gagnvart þessu vanfjármagnaða kerfi sem þetta fólk vinnur í, ekki bara á Íslandi heldur líka víða um heim.

Þú hefur varpað ljósi á þann áhugaverða punkt hvernig oft er ætlast til þess að verkakonan hreyki sér af velgengni annarra kvenna í valdastöðu, á borð við Áslaugu Örnu eða Katrínu Jakobsdóttur — staða þeirra eigi að valdefla þær.
Akkúrat. Þessi persónulega upphefð einstakrar konu á einhvern veginn að þjóna sem úrbót fyrir þig, fyrir verkakonuna — og hvað gildir það þegar þú átt ekki krónu með gati?
Áttu að sitja stolt og sátt af því að á Íslandi er kona forsætisráðherra? Ég
meina auðvitað má vera stoltur af því, en hvaða andskotans máli skiptir
það þegar það er verið að fórna lífi og heilsu risastórs hóps af konum og þá auðvitað börnunum þeirra, dætra þeirra, á báli einhvers rugl ástands sem væri hægt að laga með fremur einföldum hætti, væri pólitískur vilji til staðar. Hvað getum við lengi montað okkur af þessum þáttum þegar staðan í samfélaginu er síðan svona?
Það voru vissar sögulegar aðstæður sem gerðu Íslandi kleift að koma sér framarlega í þessum efnum — en er ekki kominn tími til þess að fókusera á vandann sem er raunverulega til staðar núna? Og hvað við, sem erum lifandi núna í þessu samfélagi, getum gert til þess að breyta honum. Þá getum við raunverulega verið stolt af einhverju sem við sjálf höfum gert, í stað þess að velta okkur endalaust upp úr þessu og búast við klappi á bakið í hvert sinn.
Jafnréttisparadísin Ísland stenst þannig varla skoðun?
Núna hef ég náttúrulega varið miklum tíma með fólki í Eflingu. Það er þá sérstaklega áhugavert að heyra frásagnir aðfluttra verkakvenna sem
koma hingað til landsins og lýsa því hvernig það er að koma inn sem ódýrt vinnuafl í kvennaparadísina Ísland. Og þær segja að það sé bara kjaftshögg — það er algjört kjaftshögg að koma hingað, til landsins þar sem allt á að vera ótrúlega frábært og
jafnréttið að leiðarljósi. En svo er þér bara sópað inn á vinnustaði og inn í greinar á almennum eða opinberum vinnumarkaði og færð ömurleg laun, vinnudagurinn er langur og þú ferð fljótt að skynja að hér ertu ósýnileg …í kvennaparadísinni. Hvernig ætli standi á því?
Og hvernig er framtíðarsýnin?
Ég skil að vissu leyti að svona hlutir geta tekið langan tíma og að engin barátta sem er raunverulega einhvers virði hefur gengið upp á núll einni. Ég vil að það komi fram einhver samstaða úr femínískum kreðsum
gagnvart baráttu láglaunakvenna, þeirra sem vinna í hefðbundnum kvennastörfum — því það getur ekki beðið lengur. Sú femíniska barátta sem náði að umbreyta miklu í samfélagi Vesturlandabúa var barátta sem byggði á samkennd og samstöðu. Með henni náðist árangur þar sem konur með ólíkan bakgrunn komu saman og gátu fundið sameiginlegan stað til að standa á og lyfta konum upp. Staður þar sem allir eru með en ekki bara nokkrir útvaldir.
Ewa Marcinek Hvítt

Mig langar í hvítan kjól.
Hvítan og hreinan.
Og hvítan.
Mig langar í hvítan eiginmann og hvítt hús.
Mig langar í allt hvítt.
Ég vil búa undir jöklinum.
Með enga krakka og engin vandamál.
Bara við tvö.
Hann veiðir fisk og ég þríf litla snjóhúsið okkar.
Við munum búa svo langt í burtu.
Enginn mun vita hvað við erum að gera.
Eiginmaður minn og ég.
Hvít og nakin.
Hrein.
Hvítir líkamar í hvítum snjónum.
Mig langar að eiga pólskan bílstjóra fyrir eiginmann.
Mig langar að hann taki mig um tunguna og teymi mig um þvældar götur
Breiðholts, Kópavogs og Árbæjar.
Götur með nöfn sem ég get ekki borið fram.
Við spörum peninga og byggjum hús í Póllandi.
Við kaupum mat í Bónus, húsgögn í Góða hirðinum, föt í Kolaportinu.
Við förum í kirkju.
Pólska kirkju á Íslandi.
Mig langar að giftast íslenskum manni.
Hann fer með mig í Kringluna.
Ég þríf hótelgólf, ber fram kaffi allan daginn.
Ég skipti um strætó í Mjóddinni klukkan sjö
til að komast niður í miðbæ á fínt kaffihús
til að útbúa fyrir þig latte.
Allan daginn.
Skipti um rúmfötin undan líkama þínum.
Þríf gólfin hjá þér.
Skeini krökkunum þínum.
Ber í þig morgunmat, bröns, hádegismat, snarl, kvöldmat og drykki.
Keyri þig heim. Örugglega.
Mig langar að vera örugg. Vernduð. Elskuð. Mig langar í nýtt líf og aðeins góðar minningar. Ilm af kirsuberjum.
Garðinn hennar ömmu.
Súrsaðar gúrkur.
Hlýjuna af eldhússtónni.
Kjánalega krakkaleiki.
Einn tveir þrír, nú þú!
Hlýtt ryk. Jarðaberjasaft.
Hendur hennar, svo gamlar, hrukkóttar, brothættar.
Góða ferð, amma.
Bless!
Helga Soffía Einarsdóttir þýddi
Ljóðið "Hvítt" var samið fyrir sýninguna "Ég kem alltaf aftur" (2020) af Reykjavík Ensemble International Theatre Company og birtist í stuttmyndinni "Liminality" (2022) í leikstjórn
Pálínu Jónsdóttur. Ljóðið var birt í "Pólífónía af erlendum uppruna" (2021) gefin út af Unu útgáfuhúsi. Mao Alheimsdóttir aðstoðaði við að ritstýra ljóðinu. Ewa Marcinek er pólsk og hefur búið í Reykjavík frá árinu 2013.
félags Íslands 2022
Kvenréttindafélag Íslands hélt áfram að dafna á árinu 2022. Heimsfaraldur
COVID-19 gerði enn vart við sig í byrjun árs, en reynslan sem félagið aflaði sér 2020 og 2021 kom að góðum notum.
Fundir og viðburðir voru í öllum tilvikum rafrænir, sumir eingöngu haldnir á netinu og aðrir haldnir í blönduðu formi. Stefna
Kvenréttindafélagsins er nú sú að allir fundir skulu einnig vera aðgengilegir rafrænt, enda sýndi heimsfaraldurinn okkur það að það eykur aðgengi þeirra, hvort sem fólk er á landsbyggðinni, eigi erfitt með að mæta í persónu eða vilja
nýta sér að sjá upptöku síðar.
Aðalfundur Kvenréttindafélags
Íslands var haldinn 4. maí 2022.
Fundurinn var blandaður, staðfundur
í Veröld - húsi Vigdísar og rafrænn.
Á fundinum var Tatjana Latinovic
endurkjörin formaður Kvenréttindafélags
Íslands og þrjár nýjar konur kjörnar
í stjórn félagsins: Tanja Teresa
Leifsdóttir, Claudia A. Wilson og Joanna
Marcinkowska. Þakkaði félagið fráfarandi
stjórnarkonum Evu Huld Ívarsdóttur og
Láru Aðalsteinsdóttur fyrir störf sín í þágu félagsins.
Í stjórn Kvenréttindafélags
Íslands sitja nú Tatjana Latinovic
formaður, Ellen Calmon, Helga Dögg
Björgvinsdóttir, Hildur Helga Gísladóttir, María Hjarðar, Sólveig Jónasdóttir og
Stefanía Sigurðardóttir. Tanja Teresa
Leifsdóttir, Claudia A. Wilson og Joanna Marcinkowska eru varafulltrúar í stjórn.
Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund skipti stjórn með sér störfum og gegnir Helga Dögg Björgvinsdóttir áfram stöðu varaformanns Kvenréttindafélags Íslands, Ellen Calmon gegnir stöðu gjaldkera og María Hjarðar stöðu ritara.
Kynjaþing var loks aftur haldið í raunheimum þann 28. maí, í Veröld - húsi Vigdísar, eftir að hafa verið haldið rafrænt 2020 og aflýst 2021 á síðustu stundu vegna hertra samkomutakmarkana. Áætlað er að um 200 manns hafi mætt yfir daginn. Kynjaþing er mikilvægur hluti af starfi Kvenréttindafélags Íslands, tækifæri fyrir félagið til að stuðla að samstarfi milli ólíkra aðila sem starfa að kynjajafnréttismálum og vettvangur sem tryggir það að félagið sé ávallt upplýst um nýjustu hugmyndir innan femínísku hreyfingarinnar. Fjölbreyttir viðburðir fóru fram yfir daginn, en sjá má á þinginu að það sem er helst í brennidepli þessa stundina eru málefni þolenda ofbeldis, kvenna á flótta og margþætt mismunun kvenna af erlendum uppruna.
Erlent samstarf Kvenréttindafélagsins hélt áfram að blómstra á árinu.
Kvenréttindafélagið er sterkur málsvari jafnréttis í víðum skilningi á alþjóðavettvangi. Sterk undiralda hefur verið innan femínísku hreyfingarinnar
í Evrópu að útiloka trans fólk síðustu
ár. Kvenréttindafélagið hefur talað gegn þeim tilburðum við hvert
tækifæri og hefur haft frumkvæði að aðgerðum til að styrkja stöðu trans fólks innan femínísku hreyfingarinnar á alþjóðavísu, sem hefur borið góðan ávöxt. Eins styrkti Kvenréttindafélagið
samstarf sitt á Norðurlöndum og tók þátt í viðburðum um m.a. um fjölþætta mismunun og heimsmarkmiðin. Þá fékk Kvenréttindafélagið styrk frá NIKK til þess að stofna til samstarfsvettvangs
á milli Íslands, Grænlands, Færeyja og Danmerkur, til að efla vestnorræn tengslanet femínista.
Haustið 2021 sótti Slagtog um aðild að Kvenréttindafélagi Íslands og var umsókn þeirra samþykkt af stjórn félagsins. Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands 2022 staðfesti samhljóða aðild Slagtogs að Kvenréttindafélagi Íslands.
Slagtog eru femínísk félagasamtök
sem leggja áherslu á að kenna
konum og hinsegin fólki femíníska sjálfsvörn, og bætist í hóp annarra
aðildarfélaga Kvenréttindafélagsins:
Druslubækur og doðrantar, Femínísk fjármál, Fjöruverðlaunin, Rótin, Samtök um kvennaathvarf, Trans Ísland og
W.O.M.E.N. in Iceland.
Kvenréttindafélagið á og
rekur Hallveigarstaði í samstarfi við Bandalag kvenna í Reykjavík og
Kvenfélagasamband Íslands. Ekki er fullt aðgengi að samkomusal Hallveigarstaða en stólalyfta sem tekur 225 kíló liggur niður í salinn. Kvenréttindafélag Íslands hefur ekki staðið fyrir viðburðum eitt og sér í sal Hallveigarstaða í einhver ár, þar sem skert aðgengi er að salnum. Tala fulltrúar félagsins markvisst fyrir því að fullt aðgengi að Kvennaheimilinu
Hallveigarstöðum sé tryggt.
Á árinu voru breytingar á rekstri skrifstofunnar, þegar Brynhildur Heiðarog Ómarsdóttir lét af störfum sem
framkvæmdastýra eftir rúmlega 10 ár í starfi.
Starfsfólk Kvenréttindafélags Íslands
Rut Einarsdóttir tók við starfi sem framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands 1. mars 2022.
Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, er sérlegur ráðgjafi Kvenréttindafélags Íslands.
Birta Ósk starfaði hjá félaginu sem starfsnemi sumarið 2022, og vann rannsóknina „Að vera kvár á Íslandi: Hvað felst í kynjajafnrétti fyrir kvár?“. Starf hennar var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna.
Nefndir og ráð
Kvenréttindafélag Íslands á fulltrúa í ýmsum nefndum og ráðum. Árið 2022 sat Tatjana Latinovic í stjórn Kvennaheimilisins Hallveigarstaða.
Stjórnin öll er fulltrúi félagsins í International Alliance of Women (IAW) og Feministiskt Nätverk Norden. Hildur Helga Gísladóttir var fulltrúi félagsins í Almannaheill – Regnhlífarsamtökum frjálsra félagasamtaka og séreignastofnana í almannaþágu. Tatjana Latinovic og
Helga Dögg Björgvinsdóttir voru fulltrúar stjórnar Kvenréttindafélagsins í stjórn Menningar- og minningarsjóðs kvenna. Rut Einarsdóttir var fulltrúi félagsins í Mannréttindaskrifstofu Íslands og gegnir hún embætti varamanns í framkvæmdastjórn skrifstofunnar, og var varamaður hennar Tanja Teresa
Leifsdóttir. Ellen Calmon var fulltrúi Kvenréttindafélagsins í stjórn European Women‘s Lobby og varamaður hennar var Brynhildur Heiðarog Ómarsdóttir.
Menningar- og minningarsjóður kvenna
Stjórn sjóðsins var kosin á aðalfundi
Kvenréttindafélagsins 4. maí 2022.
Stjórnina skipa Kristín Ástgeirsdóttir formaður, Sabine Leskopf gjaldkeri, Lára Aðalsteinsdóttir ritari, Kristín Jónsdóttir og Tatjana Latinovic. Varamenn eru Barbara Kristvinsson, Helga Dögg
Björgvinsdóttir, Helga Einarsdóttir, Magnea Ingvarsdóttir og Rakel
Adolphsdóttir.
Aðeins einn stjórnarfundur var haldinn á árinu vegna Covid, og ákvað stjórn ekki að veita styrki á árinu vegna
takmarkaðra fjárráða.
Í desember bárust góð tíðindi þegar
tilkynning barst frá Matvælaráðuneytinu um að MMK fengi styrk að upphæð
7.650.000 kr. Ráðuneytið var að gera upp gamlan sjóð og úthlutaði peningunum til verkefna sem snerta konur sérstaklega.
Þessi höfðinglegi styrkur gerir MMK kleift að veita styrki á árinu 2023.
Innan stjórnarinnar hefur verið rætt um að nauðsynlegt sé að finna leiðir til að afla fjár í sjóðinn og hyggst stjórnin efna til slíkrar umræðu mjög fljótlega.
Viðburðir
Árið 2022 stóð Kvenréttindafélag Íslands að tíu viðburðum, bæði eitt og í samvinnu við önnur félög, og héldu fulltrúar félagsins erindi eða tóku þátt í þrettán viðburðum sem skipulagðir voru af öðrum aðilum.
Kvenréttindafélag Íslands stendur aðeins að viðburðum sem haldnir eru í húsnæði aðgengilegt öllum.
Viðburðir skipulagðir af Kvenréttindafélagi
Íslands
Svipmyndir úr starfi kvenna í mannúðarstörfum. 15. febrúar
Franska sendiráðið, Kvenréttindafélag Íslands og Rauði krossinn héldu fund um konur í mannúðarstörfum, í
tilefni Jafnréttisdaga í Háskólanum í Reykjavík. Tatjana Latinovic formaður Kvenréttindafélagsins og Hólmfríður Garðarsdóttir hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir sem starfað hefur sem sendifulltrúi Rauða krossins sögðu frá reynslu sinni í mannúðarstörfum á alþjóðavettvangi.
Er vinnumarkaðurinn vaknaður? #MeToo og lægri þröskuldur. 8. mars Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna buðu ASÍ, BHM, BSRB, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Kennarasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands til hádegisfundar á Hilton Reykjavík Nordica. Fundinum var deilt í streymi á samfélagsmiðlum.
Breytingar á lögum um útlendingaHvers vegna? Hvenær? Hvernig?
16. mars
Kvenréttindafélag Íslands, No
Borders, Q - félag hinsegin stúdenta, Refugees in Iceland, Samtökin '78, Solaris, Stúdentaráð HÍ, WOMEN in Iceland og Þroskahjálp stóðu að fundi um fyrirhugaðar breytingar á útlendingalöggjöfinni á Íslandi. Á fundinum sögðu sérfræðingar frá því hvaða þýðingu og afleiðingar breytingarnar munu hafa og settu frumvarpið í lagalegt, alþjóðlegt og pólitískt samhengi.
#NordicFeminisms: Pay Equity in Denmark, Finland and Iceland. 17. mars
Fulltrúar femínísku hreyfingarinnar í Danmörku, Finnlandi og Íslandi ræddu saman um helstu áskoranir og árangur í baráttunni fyrir kjarajafnrétti, á rafrænum fundi á NGO-CSW66.
Fundurinn var skipulagður af Kvinderådet í Danmörku, NYTKIS í Finnlandi og
Kvenréttindafélagi Íslands. Erindi héldu
Astrid Elkjær Sørensen, sagnfræðingur í kynja- og kjaramálasögu, Fatim Diarra, formaður NYTKIS í Finnlandi og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður
BSRB. Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélags Íslands, og Lise
Johansen, framkvæmdastýra Kvinderådet í Danmörku, tóku þátt í umræðum.
Johanna Kantola, prófessor í kynjafræði við Tampere háskólann í Finnlandi stýrði umræðum.
Kynjaþing. 28. maí
Kynjaþing Kvenréttindafélags Íslands
fór fram laugardaginn 28. maí í Veröld –Húsi Vigdísar. Var þingið einstaklega vel heppnað, tilefni til að gráta, hlægja, vera reið og vera snortin. Um 200 manns sóttu þingið. Fjölbreyttir viðburðir fóru fram yfir daginn, en sjá má á viðburðunum að það sem er helst í brennidepli þessa stundina eru málefni þolenda ofbeldis, kvenna á flótta og margþætt mismunun kvenna af erlendum uppruna.
Kröfufundur vegna útskúfunar trans kvenna! 6. júlí
Þann 19. júní bárust fréttir af því að Alþjóðasundsambandið (FINA) hefði samþykkt nýjar reglur sem banna trans konum að keppa í kvennaflokki á heimsmeistaramótum í sundgreinum. Sundsamband Íslands (SSÍ) greiddi atkvæði með reglunum þrátt fyrir að þær byggi á mismunun og útilokun á trans fólki, og sérstaklega trans konum.
Í kjölfarið sendi Argafas, nýr hópur hinsegin fólks, frá sér yfirlýsingu sem fordæmdi þessa ákvörðun með stuðningi 19 kvenréttinda- og hinsegin samtaka.
Blásið var til kröfufundar þann 6. júlí klukkan 18 fyrir utan skrifstofur ÍSÍ og SSÍ að Engjavegi 6.
Jafnrétti kynjanna – hvar passa kvár?
4. ágúst
Kvenréttindafélag Íslands stóð að viðburðinum „Jafnrétti kynjanna – hvar passa kvár?“ í samstarfi við Hinsegin daga. Þar kynnti Birta Ósk, starfsnemi
Kvenréttindafélagsins, rannsókn sína um
stöðu kvára á Íslandi sem hún vann með styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna. Einnig stóð hán fyrir vinnustofu þar sem þátttakendum bauðst að taka þátt í rannsókninni og koma sínum spurningum og pælingum til skila.
Konur, kvár og völd. 13. september Kvenréttindafélagið stóð að málþingi þar sem Birta Ósk Hönnudóttir og Birna Stefánsdóttir kynntu skýrslur sem þær unnu fyrir Kvenréttindafélagið með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Sumarið 2021 vann Birna skýrsluna
“Kynlegar kosningar: Hlutur kvenna á framboðslistum stjórnmálaflokka og í umfjöllun fjölmiðla í aðdraganda alþingiskosninga 2021”. Sumarið 2022 vann Birta Ósk skýrslu um félagslega stöðu kvára í íslensku samfélagi.
Fundur með kynjafræðikennurum. 28. september
Kvenréttindafélagið skipulagði fund með kynjafræðikennurum á Íslandi, þar sem þau hittust og ræddu stefnu fyrir starfsárið.
Horft út fyrir kynjatvíhyggjuna: Hver er staða trans fólks og kvára á Íslandi?
21. október
Kvenréttindafélag Íslands, Stjórnmálafræðideild HÍ og Samtökin
‘78 stóðu fyrir viðburðinum „Horft út fyrir kynjatvíhyggjuna: hver er staða trans fólks og kvára á Íslandi?“. Þar kynntu Birta Ósk og Birta B. Kjerúlf niðurstöður verkefna sem þau unnu síðastliðið sumar með styrk frá Nýsköpunarsjóði Námsmanna.
Viðburðir þar sem fulltrúar Kvenréttindafélags Íslands
komu fram
Erindi hjá Rótarýklúbbnum Hofi í Garðabæ. 20. janúar
Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélags Íslands, hélt erindi á Zoom um Kvenréttindafélagið og áherslur í jafnréttismálum.
Alþjóðlegur Rómadagur. 8. apríl
Haldið var upp á Alþjóðadag Rómafólks
í fyrsta á Íslandi þann 8. apríl í Veröld
– húsi Vigdísar. Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélags Íslands, flutti erindi.
Femínismi og kynjafræði sem hreyfiafl samfélagsbreytinga í Síle og á Íslandi.
24. maí
Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir
sérlegur ráðgjafi hélt erindi á
málþingi um femínisma og kynjafræði sem hreyfiafl samfélagsbreytinga
í Síle og á Íslandi sem haldið var í
Háskóla Íslands. Einnig héldu erindi
Amaya Pavez Lizarraga prófessor í
lýðheilsuvísindum við Læknadeild
USACH og umsjónarkona diplómanáms
í kynjasamþættingu og Cecilia Baeza
Correa kennari í diplómanámi um kynjasamþættingu við USACH.
Evrópuráðstefna BPW. 27–29. maí
Kvenréttindafélagið tók þátt í
Evrópuráðstefnu kvennasamtak-
anna BPW (European Business and Professional Women) sem haldin var undir slagorðinu „Jafnrétti“.
Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra
Kvenréttindafélagsins, hélt vinnusmiðju
á „Young BPW Symposium“ þar sem hún fór yfir sögu, markmið og verkefni
Kvenréttindafélagsins, ásamt því að fara yfir stöðu jafnréttis á Íslandi, Tatjana
Latinovic, formaður Kvenréttindafélagsins, hélt erindi á pallborði um framtíð
jafnréttis þar sem hún ræddi mikilvægi
þess að öll fái sæti við borðið og
Joanna Marcinkowska, stjórnarkona
Kvenréttindafélagsins, hélt erindi á pallborði um jafnrétti í framkvæmd, þar sem hún talaði um valdeflingu kvenna, frá Póllandi til Íslands.
Childcare – what needs to change? 31. maí
Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, sérlegur ráðgjafi Kvenréttindafélagsins hélt erindi á pallborði um dagvistun og greindi frá stöðunni á Íslandi, á rafrænu pallborði írsku kvennasamtakanna Southside Partnership Women’s Program, sem eru samstarfsaðilar systursamtaka Kvenréttindafélagsins National Women’s Council of Ireland.
Jafnrétti á tímum COVID-19. 16. júní Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, sérlegur ráðgjafi Kvenréttindafélagsins, hélt erindi á ráðstefnu RIKK um kynbundin áhrif COVID-19 kreppunnar. Ráðstefnan bar yfirskriftina „Gender Perspectives of the Pandemic: Women in Research and Governance“ og fjallaði um konur í vísindum og stjórnsýslunni á tímum heimsfaraldurs.
Gleðigangan. 6. ágúst Stjórnarkonur og starfsfólk Kvenréttindafélagsins gengu í gleðigöngunni á Reykjavík Pride.
Education: Implementation of Gender Equality Principle at Local Level.
11. september
Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélagsins, hélt erindi um jafnréttislausnir á Íslandi á rafrænum viðburði sem skipulagður var af Women’s Network of Croatia.
Vinnustofa um umbreytandi
réttlæti (e. transformative justice) í kynferðisbrotamálum og ofbeldi í nánum samböndum. 29. september
Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands, tók
þátt í vinnustofu um umbreytandi
réttlæti ásamt fulltrúum sjö annarra félagasamtaka á Íslandi, sem skipulögð
var af RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum.
Warsaw Human Dimension Conference 2022. 5.–7. október
Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands, sótti Warsaw Human Dimension Conference 2022, árlega ráðstefnu ÖSE – Öryggisog samvinnustofnunar Evrópu um mannréttindi og lýðræði. Á ráðstefnunni las hún upp yfirlýsingu fyrir hönd félagsins.
Kongres Kobiet, kvennaþing í Póllandi. 8.–9. október
Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands tók þátt í pallborðsumræðum á málstofunni „Is it just ‘due’: equal pay and good practices of countries and companies“ þar sem hún ræddi jafnréttislögin, jafnlaunavottun og stöðu kvenna á Íslandi. Málstofan var haldin á árlega kvennaþinginu Kongres Kobiet í Póllandi.
Women Political Leaders – Reykjavík Forum. 7.–9. nóvember
Kvenréttindafélag Íslands er bakhjarl Reykjavík Forum og fékk 3 miða fyrir stjórnarkonur til þess að mæta. Þar hélt Kvenréttindafélagið svokallaðan “leaders dinner” þar sem 15 konur frá öllum heimshornum komu saman í kvöldmat á Edition veitingastað og framkvæmdastýra Kvenréttindafélagsins ræddi við þær um þróun og stöðu jafnréttismála á Íslandi.
Pallborð franska sendiráðsins.
22. nóvember
Franska sendiráðið á Íslandi hélt viðburð þar sem Aude Vincent kynnti bók sína um heimilisofbeldi og var Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélagsins í pallborði.
Human rights protection in challenging times: The future role of the Council of Europe. 24. nóvember
Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir tók þátt í pallborði Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og utanríkisráðuneytisins um mannréttindi og Evrópuráðið og varpaði ljósi á stöðuna á Íslandi þegar kemur að réttindum kvenna og möguleg merki um bakslag í réttindabaráttunni. Þá minntist hún sérstaklega á mikilvægi grasrótarsamtaka og fjármögnun þeirra.
Útgáfa, skýrslur, greinar og yfirlýsingar
Kvenréttindafélag Íslands hefur á árinu 2022 gefið út eitt ársrit, tvær skýrslur, sent frá sér fimm ályktanir á tveimur tungumálum (íslensku og ensku) og tíu yfirlýsingar á tveimur tungumálum (íslensku og ensku) og hafa fulltrúar félagsins skrifað greinar sem birtust í fjölmiðlum;
• 24. janúar - Stéttarfélög og #MeToo, grein eftir Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur, þáverandi framkvæmdastýru
• 27. janúar - Jafnrétti er allskyns, grein eftir Tatjönu Latinovic, formann
• 24. febrúar - Ísland skal tryggja grundvallamannréttindi fyrir öll, grein eftir Tatjönu Latinovic, formann
• 25. febrúar - Rut ráðin framkvæmdastýra
Kvenréttindafélags Íslands, tilkynning frá stjórn
• 23. maí - Hvenær fá konur bara að vera í friði?, grein eftir Stefaníu Sigurðardóttur, stjórnarkonu
• 14. júní - Af hverju skiptir kvennasáttmálinn máli?, grein eftir Rut Einarsdóttur, framkvæmdastýru
• 24. október - Konur! Hættum að vinna ókeypis!, grein eftir Tatjönu Latinovic, formann
• 10. nóvember - Sannfæringin
eða lífið?, grein eftir Stefaníu Sigurðardóttur, stjórnarkonu
• 10. desember - Feminískur
draumur á jólum, grein eftir Stefaníu Sigurðardóttur, stjórnarkonu
Þá má sjá í Fjölmiðaskýrslu CreditInfo fyrir árið 2022 að 76 greinar birtust á netmiðlum um Kvenréttindafélagið, 17 greinar í prentmiðlum, 12 greinar á sérvefum og 5 umfjallanir voru í sjónvarpi
eða útvarpi:
Einnig má sjá í Fjölmiðaskýrslu
CreditInfo fyrir árið 2022 að fjöldi birtra frétta um Kvenréttindafélagið hjá öllum miðlum jókst á milli ára, frá 97 fréttum árið 2021 til 110 fréttir árið 2022.
Yfirlýsingar
Yfirlýsing: jöfn þátttaka kvenna og fjölbreytileiki í sveitarstjórnarkosningum, 4. janúar
Kvenréttindafélag Íslands skoraði á íslenska stjórnmálaflokka að huga að jafnri þátttöku kvenna og fjölbreytileika í framboðslistum í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga 2022.
Opið bréf: Endurskoðun frumvarps um réttarstöðu brotaþola, 2. febrúar
Opið bréf til dómsmálaráðherra sem skoraði á hann að endurskoða frumvarp um réttarstöðu brotaþola þannig að þolendum verði veitt aðild að eigin kynferðisbrotamálum, ellegar sambærileg réttindi sem sakborningar hafa. Undir bréfið skrifuðu: Aflið – samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, Druslugangan, Femínistafélag Háskóla Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennahreyfing Öryrkjabandalags Íslands, Kvennaráðgjöfin,
Kvenréttindafélag Íslands, NORDREF – Nordic Digital Rights and Equality Foundation, Rótin – félag um konur, áföll og vímugjafa, Samtök um kvennaathvarf, Stígamót, UN Women á Íslandi og Öfgar.
Yfirlýsing: IAW ályktar um stríðið í Úkraínu, 28. febrúar
Kvenréttindafélag Íslands hefur verið aðildarfélag IAW (International Alliance of Women) frá 1907. IAW sendi frá sér yfirlýsingu um stríðið í Úkraínu, þar sem þau lýsa yfir stuðningi með konum og fjölskyldum þeirra í Úkraínu og kalla eftir friði.
Yfirlýsing: EWL ályktar um stríðið í Úkraínu, 3. mars
Kvenréttindafélag Íslands hefur verið aðildarfélag EWL (European Women’s Lobby) frá 2019. EWL sendi frá sér yfirlýsingu um stríðið í Úkraínu þar sem þær kalla eftir friði og hvöttu stofnanir Evrópa til aðgerða til að vernda konur og börn.
Yfirlýsing: Baráttukveðjur til kvenna í Bandaríkjunum, 3. maí Kvenréttindafélag Íslands sendi baráttukveðjur til kvenna í Bandaríkjunum þegar fréttist að hæstiréttur hyggðist ógilda niðurstöðuna í málinu Roe gegn Wade, sem tryggði konum réttinn til þungunarrofs. Sá úrskurður myndi þýða að þungunarrof yrði bannað með lögum í fjölda fylkja Bandaríkjanna. Yfirlýsingin var send út á ensku.
Yfirlýsing: Hvatning til íslenskra stjórnvalda að sýna femíníska og pólitíska forystu á alþjóðavettvangi, 4. maí
Aðalfundur Kvenréttindafélags Íslands hvatti íslensk stjórnvöld að sýna femíníska og pólitíska forystu
á alþjóðavettvangi með því að hafa kvenréttindi ávallt í forgangi í
stefnumótun og starfi ríkisstjórnarinnar og utanríkisráðuneytisins og í þróunarsamvinnu; tala fyrir kvenréttindum, kynfrelsi og kyn- og frjósemisheilbrigði og frjósemisréttindum við hvert tækifæri á alþjóðavettvangi; og hvetja öll aðildarríki Evrópuráðsins til að fullgilda Istanbúlsamninginn tafarlaust og skilyrðislaust.
Yfirlýsing: Skortur á samráði við gerð frumvarps til breytinga á lögum um útlendinga, 19. maí
Kvenréttindafélag Íslands ásamt öðrum samtökum sendi frá sér sameiginlega
yfirlýsingu til að óska eftir víðtækari
samvinnu við breytingar á lögum um útlendinga. Undir yfirlýsinguna
skrifuðu einnig undir Alþýðusamband
Íslands, Barnaheill – Save the Children
á Íslandi, Geðhjálp, Hjálparstarf kirkjunnar, Íslandsdeild Amnesty
International, Landssamtökin Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rauði krossinn á Íslandi, Samtökin ‘78, Siðmennt, WOMEN in Iceland, UN Women á Íslandi, UNICEF á Íslandi og ÖBÍ.
Yfirlýsing: Kröfur til SSÍ og ÍSÍ varðandi afstöðu SSÍ gagnvart trans íþróttakonum,
1. júlí
Kvenréttindafélag Íslands ásamt öðrum
samtökum sendi frá sér sameiginlega yfirlýsingu til að krefja Sundsamband
Íslands að draga atkvæði sitt til baka að banna trans konum að keppa í kvennaflokki á heimsmeistaramótum í sundgreinum, enn fremur að hvetja
öll önnur íþróttabandalög og -félög á
Íslandi að tala opinskátt og opinberlega gegn þeirri stefnu að útiloka trans fólk frá þátttöku í íþróttum, hvort sem það á við um börn eða fullorðna, afreksfólk eða áhugafólk. Undir yfirlýsinguna skrifuðu einnig undir Argafas, Bangsafélagið, Intersex Ísland, Femínistafélag Háskóla Íslands, Hinsegin Vesturland, Hinsegin
Austurland, Kynís – kynfræðifélag Íslands, Q – félag hinsegin stúdenta, Tabú –Femínísk Fötlunarhreyfing, Trans Ísland, Rauða Regnhlífin, Röskva, Samtökin 78, Slagtog – Femínísk sjálfsvörn, Stelpur Rokka, Styrmir Íþróttafélag, WOMEN in Iceland og Öfgar.
Yfirlýsing: Ákall um samráð við gerð frumvarps til breytinga á lögum um útlendinga, 6. september
Kvenréttindafélag Íslands ásamt öðrum samtökum sendi frá sér sameiginlega yfirlýsingu til að óska eftir víðtækari samvinnu við breytingar á lögum um útlendinga. Undir yfirlýsinguna skrifuðu einnig undir Geðhjálp, Hjálparstarf kirkjunnar, Íslandsdeild Amnesty International, Landssamtökin Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rauði krossinn á Íslandi, Samtökin ´78, Siðmennt, Solaris – hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, UNICEF á Íslandi, UN Women á Íslandi, Þjóðkirkjan og Öryrkjabandalag Íslands.
Yfirlýsing: Ákall til íslenskra stjórnvalda um að virða mannréttindi barna á flótta og hætta við endursendingar á þeim til Grikklands, 28. september
Kvenréttindafélag Íslands ásamt öðrum samtökum sendi frá sér sameiginlega yfirlýsingu til að fordæma fyrirhugaðar endursendingar barna og fjölskyldna
þeirra til Grikklands. Undir yfirlýsinguna skrifuðu einnig undir Barnaheill – Save the Children á Íslandi, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rauði krossinn á Íslandi, UNICEF á Íslandi og Öryrkjabandalag Íslands.
Yfirlýsing: Yfirlýsing Kvenréttindafélags Íslands til ÖSE ríkja, 7. október
Kvenréttindafélagið fordæmdi kynbundinn launamun, ofbeldi gegn konum, stríðið í Úkraínu og kallaði eftir betri fjármögnun kvenréttindasamtaka. Ályktanir
Ályktun: Fátækt kvenna og fjölþætt mismunun skammarlegur blettur á íslensku samfélagi, 21. janúar
Kvenréttindafélag Íslands ályktaði um fátækt kvenna á Íslandi og kallaði á aðila vinnumarkaðarins að taka höndum saman til að uppræta landlægt misrétti hér á landi.
Ályktun: Ísland skal tryggja grundvallamannréttindi fyrir öll, 23. febrúar
Kvenréttindafélag Íslands hvatti íslensk stjórnvöld til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sínar að standa vörð um konur og enn fremur til að standa vörð grundvallargildi íslensks samfélags, jafnrétti, lýðræði og frelsi einstaklingsins.
Ályktun: Brúum umönnunarbilið, 12. maí
Kvenréttindafélag Íslands sendi ályktun í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga til að minna frambjóðendur á að dagvistunarmál eru eitt af mikilvægustu verkefnum hvers sveitarfélags.
Ályktun: Baráttukveðjur til kvenna í
Bandaríkjunum, 24. júní
Kvenréttindafélag Íslands sendi ályktun um sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir lífi og
líkama og hvatti íslensku ríkisstjórnina, Norrænu ráðherranefndina og
Evrópuráðið til að fordæma ákvörðun
Hæstaréttar Bandaríkjanna að skerða rétt kvenna þar í landi til þungunarrofs. Ályktunin var send út á ensku.
Ályktun: Kvenréttindafélag Íslands fordæmir aðgerðir stjórnvalda við
brottvísun flóttafólks, 3. nóvember
Kvenréttindafélag Íslands sendi frá sér
ályktun til að fordæma aðgerðir við
brottflutning flóttafólks úr landi og kallaði á tafarlaus viðbrögð frá stjórnvöldum.
Félagið krafðist þess að stjórnvöld skulu hafa kvenréttindi og mannréttindi ávallt í forgrunni í öllum aðgerðum.
Skýrslur og tímarit
Skýrsla: Skuggaskýrsla til CEDAW nefndarinnar
Kvenréttindafélag Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Öfgar, UN Women á Íslandi og Öryrkjabandalag Íslands skiluðu inn sameiginlegri
skuggaskýrslu til nefndar sem starfar á grundvelli samnings Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (Kvennasáttmálans).
Skýrsla: “Kynlegar kosningar: Hlutur kvenna á framboðslistum stjórnmálaflokka og í umfjöllun fjölmiðla í aðdraganda alþingiskosninga 2021”, 13. september
Sumarið 2021 vann Birna Stefánsdóttir rannsókn fyrir Kvenréttindafélagið með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Rannsókninni var ætlað að skoða kynjaða umfjöllun í aðdraganda Alþingiskosninga haustið 2021 og bar skýrslan heitið: „Kynlegar kosningar: Hlutur kvenna á framboðslistum stjórnmálaflokka og í umfjöllun fjölmiðla í aðdraganda alþingiskosninga 2021“. Skýrslan var birt á heimasíðu Kvenréttindafélags Íslands 13. september 2022.
Skýrsla: „Að vera kvár á Íslandi: Hvað felst í kynjajafnrétti fyrir kvár?“, 13. september
Birta Ósk Hönnu vann rannsókn fyrir Kvenréttindafélag Íslands um stöðu kvára í íslensku samfélagi með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Niðurstöður rannsóknarinnar komu út í skýrslunni „Að vera kvár á Íslandi: Hvað felst í kynjajafnrétti fyrir kvár?“.
Ársrit: 19. júní
19. júní er með elstu tímaritum Íslands, en fyrsti árgangurinn kom út árið 1951. Í ár var þema blaðsins er #MeToo 2.0 eða nýjar bylgjur #MeToo. Elín Björk Jóhannsdóttir var ritstýra og í ritnefnd
sátu Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, Birta
Ósk Hönnu, Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, Rut Einarsdóttir og Sólveig
Jónasdóttir. Alda Lilja gerði forsíðu.
Samstarf við stjórnvöld og erlendar eftirlitsstofnanir
Fulltrúar félagsins funduðu á tímabilinu með stjórnvöldum í tveimur skipulagshópum, skipulagshóps Jafnréttisþings og skipulagshóps fyrir verkefnið
„Fleiri konur í sveitarstjórnir“. Brynhildur
starfaði að undirbúningi herferðarinnar
#JÁTAK sem er í umsjón Jafnréttisstofu og fór í loftið í janúar 2022, sem hvetur til aukinnar fjölbreytni í sveitarstjórnum.
Framkvæmdastýra
Kvenréttindafélagins, Rut Einarsdóttir, situr í Sjálfbærniráði stjórnvalda um Sjálfbært Ísland, þar sem unnið er að stefnu stjórnvalda um sjálfbærni Íslands.
31. mars fundaði Rut með
Steinunni Valdísi skrifstofustjóra jafnréttismála í forsætisráðuneytinu, um samstarfssamning milli félagsins og stjórnvalda.
21. september tók Rut Einarsdóttir þátt í undirbúningsfundi fyrir landsamráðsfund gegn ofbeldi fyrir hönd Kvenréttindafélagsins.
25. október sótti Rut Einarsdóttir samráðsfund stjórnvalda um aðgerðir gegn hatursorðræðu og talaði þar sérstaklega um hatursorðræðu gegn konum og stúlkum, bæði í raunheimum og stafrænt.
26. október sóttu stjórnarkonur og framkvæmdastýra Jafnréttisþing stjórnvalda.
9. nóvember sótti Rut Einarsdóttir landsamráðsfund stjórnvalda um aðgerðir gegn ofbeldi tók þar þátt í vinnustofum.
5. desember sótti Rut Einarsdóttir fund Jafnréttisráðs – samráðsvettvang stjórnvalda um jafnréttismál, en málefni fundarins að þessu sinni var stefnumótun í
jafnréttismálum sem endurspeglast í nýrri þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2024–2027. Kvenréttindafélag Íslands sendi árið 2021 frá sér tólf umsagnir um frumvörp og opinber skjöl:
• Umsögn um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál. Þingskjal 20, 20. mál, 152. löggjafarþing.
• Umsögn um hraðari málsmeðferð og bætta réttarstöðu þolenda heimilisofbeldis við hjúskaparslit. Þingskjal 175, 173. mál, 152. Löggjafarþing.
• Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á hjúskaparlögum nr. 31/1993. Þingskjal 165, 163. mál, 152. löggjafarþing.
• Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á hjúskaparlögum nr. 31/1993. Þingskjal 174, 172. mál, 152. löggjafarþing.
• Umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd) og lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002 (atvinnuleyfi). Mál nr. 20/2022, dómsmálaráðuneytið.
• Umsögn Aflsins, Kvennaráðgjafarinnar, Kvenréttindafélags Íslands, NORDREF, Öfga, Rótarinnar, Samtaka um kvennaathvarf, Stígamóta, UN Women á Íslandi og W.O.M.E.N. um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögum um fullnustu refsinga (réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda). Mál nr. 50/2022, dómsmálaráðuneytið.
• Umsögn um grænbók um mannréttindi, mál nr. 74/2022, forsætisráðuneytið.
• Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga (alþjóðleg vernd).
Þingskjal 837 — 595. mál, dómsmálaráðuneytið.
• Umsögn um tillögu til þingsályktunar um sveigjanlega tilhögun á fæðingar- og foreldraorlofi. Þingskjal 215, 214. mál, 153. löggjafarþing.
• Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd). Þingskjal 400, 382. mál, 153. löggjafarþing.
• Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940, með síðari breytingum (bælingarmeðferð). Þingskjal 45, 45. Mál, 153. löggjafarþing
• Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um frumvarp til laga um almenn hegningarlög (afnám banns við klámi). Þingskjal 33, 33. mál, 153. löggjafarþing.
Erlendar eftirlitsstofnanir
CEDAW
9. júní skiluðu Kvenréttindafélag Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Öfgar, UN Women á Íslandi og Öryrkjabandalag Íslands inn sameiginlegri skuggaskýrslu til nefndar sem starfar á grundvelli samnings
Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (Kvennasáttmálans). Nefndin undirbýr nú fund þar sem fulltrúar íslenska ríkisins munu sitja fyrir svörum um framkvæmd Kvennasáttmálans árið 2023.
félagasamtökum á Íslandi og gerðu grein fyrir stöðu mála jafnréttis á Íslandi.
ODIHR
5.–7. október sótti Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands, Warsaw Human Dimension Conference 2022, árlega ráðstefnu ÖSE – Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu um mannréttindi og lýðræði. Á ráðstefnunni las hún upp yfirlýsingu fyrir hönd félagsins um kynbundinn launamun, ofbeldi gegn konum, stríðið í Úkraínu og fjármögnun kvenréttindasamtaka.
Samstarf við femínískar hreyfingar erlendis
Kvenréttindafélagið átti í áframhaldandi góðu samstarfi við erlend félagasamtök um jafnréttismál á árinu 2022 og efldi gömul sem ný kynni.
International Alliance of Women
Kvenréttindafélag Íslands hefur átt
aðild að International Alliance of Women (IAW), Alþjóðasambandi kvenréttindafélaga, síðan 1907. Fulltrúar Kvenréttindafélagsins funduðu nokkuð með þeim á árinu, en vegna fjárskorts félagsins er starfsemin lítil. Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélagsins og Tatjana Latinovic, formaður, sátu aðalfund félagsins í haust 26.–28. október.
European Women‘s Lobby
Kvenréttindafélag Íslands er aðili að
European Women’s Lobby (EWL), hagsmunasamtökum evrópskra kvenna. EWL eru stærstu regnhlífarsamtök
kvennahreyfingarinnar í Evrópu.
GREVIO
28. mars fóru Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir og Rut Einarsdóttir á fund með fulltrúum GREVIO og fleiri
Kvennasamtök í 31 landi eiga aðild að samtökunum, sem og 19 samtök sem starfa á evrópskum vettvangi.
Kvenréttindafélagið er eina íslenska
aðildarfélag í þessum samtökum, skipar fulltrúa í stjórn samtakanna og þjónar sem tengiliður femínísku hreyfingarinnar
á Íslandi við samtökin. Ellen Calmon er aðalfulltrúi Íslands í stjórn samtakanna og Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir er henni til vara.
Aðalfundur EWL fór fram dagana 10.–12. júní og sóttu Ellen Calmon og Rut Einarsdóttir þann fund rafrænt fyrir hönd Kvenréttindafélagsins en Brynhildur
Heiðar- og Ómarsdóttir var þar sem áhorfandi. Fulltrúar félagsins sóttu einnig rafræna stjórnarfundi í febrúar og júní 2022.
Norrænt samstarf
Kvenréttindafélagið hefur átt í
góðum samskiptum við þau norrænu félög sem eru einnig aðildarfélög
að European Women‘s Lobby, NYTKIS í Finnlandi, Kvinderådet í
Danmörku og Sveriges Kvinnolobby
í Svíþjóð. Þá fékk Kvenréttindafélagið styrk frá Jafnréttissjóði Norrænu
ráðherranefndarinnar sem er í umsjón
NIKK til þess að efla vestur-norrænt samstarf á milli Íslands, Færeyja, Grænlands og Danmerkur, en verkefnið mun fara fram árið 2023.
Þá beitti Kvenréttindafélagið sér einnig fyrir auknu jafnrétti í Grænlandi og var í nánum samskiptum við 8. marts gruppen í Grænlandi þegar lykkjumálið svokallaða kom upp þar í landi.
Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra
Kvenréttindafélags Íslands fór til Stokkhólms í Svíþjóð í apríl á ráðstefnu um þróunarmál: “Inner Development
Goals Summit 2022.” og efla norrænt tengslanet.
Einnig fór framkvæmdastýra á ráðstefnuna “Diversify Nordics” í lok ágúst, sem fjallaði um inngildingu, jafnrétti og fjölbreytileika.
Framkvæmdastýra fjallaði um stöðuna
á þessum málum á sveitarstjórnarstigi á
Íslandi í pallborði með öðrum aðilum frá Norðurlöndum. Kvenréttindafélag Íslands var einnig tilnefnt sem trailblazer af Blaze Awards á sömu ráðstefnu.
Annað erlent samstarf Kvenréttindafélag Íslands, í samvinnu við níu félagasamtök í Evrópu, bauð ungmennum að taka þátt í vinnusmiðju í Ítalíu um hvernig við getum lokað launamismuni kynjanna. Vinnusmiðjan fór fram 9.–15. september í Francavilla al Mare á Ítalíu og sendi Kvenréttindafélagið tvær ungar konur frá Íslandi til Ítalíu til að taka þátt, þeim að kostnaðarlausu. Önnur lönd sem tóku þátt voru: Armenía, Hvíta Rússland, Tékkland, Danmörk, Georgía, Ítalía, Lettland, Litháen og Holland.
Einnig funduðu fulltrúar
Kvenréttindafélagsins með konum á stríðssvæðum til þess að sýna þeim stuðning og fræðast um hvernig við á Íslandi getum hjálpað þeim. Má þar helst nefna konur frá Úkraínu, Afghanistan og Íran. Einnig fundaði framkvæmdastýra með konum og frjálsum félagasamtökum í Malaví til þess að kanna grundvöll fyrir samstarfi í þróunarsamvinnu þar í landi. Kvenréttindafélag Íslands skipulagði heimsókn fyrir írskar þingkonur til Íslands 17. - 18. október þar sem þær hittu þingfólk, forseta borgarstjórnar Reykjavíkur, verkalýðshreyfinguna, forsætisráðherra Íslands og fleiri.
We are...STRONG! A women’s rights campaign in Lodzkie Region - Pólland Samstarfsverkefni styrkt af Active Citizens Fund til þess að sporna við heimilisofbeldi í Lodzkie héraðinu í Póllandi. Kvenréttindafélagið hefur veitt þeim ráðgjöf og héldu Rut Einarsdóttir og Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, erindi á viðburði 7. júní um viðbrögð og viðhorf lögreglunnar af heimilisofbeldismálum.
Our Daily Sexism - Króatía
Samstarfsverkefni styrkt af Active Citizens Fund sem fjallar um mismunandi birtingarmyndir kynjamismunar í samfélaginu, þá sérstaklega í fjölmiðlum, auglýsingum og sjónvarpsefni. Verkefnið vinnur að því að styrkja félagasamtök í Króatíu til þess að rannsaka birtingarmyndir kynjamismununar og sporna gegn henni. Rut Einarsdóttir fundaði reglulega með samtökunum Center for Civil Initiatives Poreč, sem standa á bak við verkefnið, bæði til að ráðleggja þeim og skipuleggja, en verkefnið mun halda áfram árið 2023, þar sem framkvæmdastýra heldur vinnustofu um kynjamismunun í fjölmiðlum og aðstoðar við stefnugerð.
Kongres Kobiet - Pólland
Kvenréttindafélagið hefur lengi átt í samstarfi við Kongres Kobiet, sem er pólska Kynjaþingið, en núna í ár var í fyrsta skipti sem við gátum tekið þátt í persónu, eftir 2 ár af rafrænum fundum. Framkvæmdastýra Kvenréttindafélagsins, Rut Einarsdóttir, fór til Wroclaw í Póllandi og talaði í pallborðsumræðum um “Tackling discrimination against women in the labour market” á Kynjaþinginu þann 8.-9. október.
Gender Based Violence - Eistland
Kvenréttindafélagið fékk styrk frá Active Citizenship fund til þess að halda verkefni um kynbundið ofbeldi með Estonian institute for Open Society Research í Eistlandi. Fríða Rós Valdimarsdóttir, fyrrum formaður Kvenréttindafélagsins var fengin til þess að halda þrjá rafræna fyrirlestra um mismunandi birtingarmyndir kynbundins ofbeldis í maí. Þessir fyrirlestrar hafa síðan verið endursýndir fyrir fjölda samtaka og stofnana í Eistlandi.
Building enhanced approaches to end gender-based violence: Mutual learning and networking in Northern EuropeLitháen
Kvenréttindafélagið skrifaði undir umsókn til Active Citizenship Fund með Center for Equality Advancement í Litháen til þess að vinna að gegn kynbundnu ofbeldi, þá sérstaklega gegn konum í jaðarsettum hópum. Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands, fundaði stíft með starfskonum Equality Advancement til þess að undirbúa verkefnið. Fái það styrk munu konur frá Litháen koma til Íslands til þess að kynna sér aðstæður hérlendis, vinnustofur verða haldnar rafrænt og fulltrúi Kvenréttindafélagsins fara til Litháen árið 2023 til þess að halda þar erindi.
Working Woman - Króatía
Kvenréttindafélag Íslands tók á móti konum frá CESI - Center for Education, Counselling and Research í Króatíu þegar þær komu til Íslands í Maí og skipulagði fyrir þær fjölda funda á Íslandi, þar sem þær hittu m.a. fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar, GRÓjafnréttisskólann, Stígamót og fleiri sem vinna að jafnréttismálum á Íslandi.
Free choices - Portúgal
Kvenréttindafélagið hélt pallborðsumræður um staðalímyndir með UMAR í Portúgal þann 20. desember, en verkefnið “Free Choices” er styrkt af Active Citizenship Fund. Tvær aðrar pallborðsumræður munu fara fram rafrænt árið 2023 fyrir verkefnið.
Kvenréttindafélag Íslands svaraði í gegnum tölvupóst fjölda af fyrirspurnum frá erlendum félagssamtökum og aðilum, þ.á.m. um jafnlaunastaðalinn,
Óháð upplýsingagjöf til innlendra og erlenda aðila um jafnréttismál á Íslandi
fæðingarorlof og jafnréttislöggjöfina, og veitti upplýsingar þar að lútandi. Einnig tók Kvenréttindafélagið á móti fjölda af erlendum sérfræðingum sem komu í heimsókn á skrifstofu Kvenréttindafélagsins á Hallveigarstöðum til þess að fræðast um stöðu jafnréttis á Íslandi. Heimsóknir voru m.a. frá Noregi, Slóvakíu, Slóveníu, Rúmeníu, Króatíu, Austurríki, Japan, Spáni, Danmörku, Englandi og Írlandi.
Kvenréttindafélag Íslands skipulagði heimsókn fyrir írskar þingkonur til Íslands 17.–18. október þar sem þær hittu þingfólk, forseta borgarstjórnar Reykjavíkur, verkalýðshreyfinguna, forsætisráðherra Íslands og fleiri.
Fulltrúar félagsins svöruðu ýmsum fyrirspurnum erlendis frá, frá ýmsum aðilum, s.s. stjórnmálafólki, embættisfólki, fræðafólki, nemendum og einkaaðilum.
Meginþorri fyrirspurna kom frá fjölmiðlum. Fulltrúar félagsins fóru í ýmis fjölmiðlaviðtöl um ýmis málefni, má þar m.a. nefna:
• Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, þáverandi framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands, talaði við útvarpsstöð í Slóveníu um jafnréttismál á Íslandi og fór enn fremur í Kastjós og greindi frá #Játak verkefninu sem var ætlað til að auka fjölbreytni í framboðum til sveitarstjórna.
• Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands, fór í viðtal við Mannlega þáttinn á Rás 1 um Kvenréttindafélagið og verkefni þess.
• Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands, fór í viðtal við fréttablaðið um
Kynjaþing
• Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra
Kvenréttindafélags Íslands, fór í viðtal við Fréttablaðið um mikilvægi lögleiðingar Kvennasáttmálans
• Birta Ósk, starfsnemi
Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Rut Einarsdóttir framkvæmdastýra fóru í viðtal við Fréttablaðið um stöðu kvára í íslensku samfélagi
• Birta Ósk, starfsnemi Kvenréttindafélags Íslands fór í viðtal við Sumarmál á Rás 1 um stöðu kvára á Íslandi.
• Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra, fór í viðtal hjá Morgunblaðinu um Kvennafrídaginn
• Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra, fór í viðtöl við tvö japönsk blöð.
• Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra, fór í viðtal við hlaðvarpið “Breaking Glass”
• Rut Einarsdóttir, framkvæmdastýra, fór í viðtal við franska blaðið Causette um stöðu jafnréttis á Íslands
• Formaður Kvenréttindafélags Íslands, Tatjana Latinovic, fór í viðtal við Women Who Change the World, eða Konur sem breyta heiminum, og sagði frá stöðu kvenréttinda og jafnréttis á Íslandi.
Margfeldisáhrif þessara samskipta
Kvenréttindafélagsins við fjölmiðla eru ómæld, en viðtöl sem birtast við fulltrúa félagsins á erlendum vettvangi eru oft tekin upp í umfjöllun annarra fjölmiðla sem ekki hafa haft beint samband við félagið, og eru á sama tíma gjarnan varanleg heimild um jafnréttismál á
Íslandi á þeirri tungu sem viðtalið birtist á.
Ótalin er hér aðstoð sem veitt var erlendum fjölmiðlum við að skipuleggja heimsóknir til Íslands, og aðstoð sem þeim var veitt í gegnum tölvupóst, s.s. að finna fyrir þá tölulegar og sögulegar upplýsingar um stöðu íslenskra jafnréttismála og koma þeim í samband við viðmælendur á Íslandi.
Stafræn jafnréttisbarátta
Fjölbreytni í framboði #JÁTAK.
Játak er framtak Jafnréttisstofu og forsætisráðuneytisins í samstarfi við Kvenréttindafélag Íslands, samgönguog sveitarstjórnarráðuneytið, Fjölmenningarsetur og Samband íslenskra sveitarfélaga.
24. október tók Kvenréttindafélagið þátt í rafrænni herferð, Leiðréttum kjör kvenna, í tilefni af kvennafrídegi. Rafræna myndin var birt á samfélagsmiðlum Kvenréttindafélagsins, sem og heildarsamtaka launafólks og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Heimasíða Kvenréttindafélagsins er vistuð undir léninu kvenrettindafelag. is en lénið krfi.is vísar á ensku útgáfu vefsíðunnar. Síðan er hönnuð af Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur, myndskreytt af Þóreyju Mjallhvíti og hýst hjá 1984. Nokkrar undirsíður eru vistaðar á síðunni, mmk.kvenrettindafelag.is sem varðveitir upplýsingar um Menningarog minningarsjóð kvenna, nam. kvenrettindafelag.is sem hýsir námsefni fyrir framhaldsskólanema í kynjafræði og grunnskoli.kvenrettindafelag.is sem hýsir verkefni ætluð til kennslu í kynjafræði á grunnskólastigi. Kvenréttindafélagið heldur úti vefgátt þar sem erlendir gestir og blaðamenn geta nálgast upplýsingar um stöðu kvenna á Íslandi og jafnrétti
kynjanna: kvenrettindafelag.is/usefulresources.
Félagið heldur einnig utan um lénin kynjathing.is, kvennafri.is, betrafæðingarorlof.is og varðveitir
veffangið feministinn.is og konur.is sem vísa ekki til neinnar síðna. Félagið heldur úti myndbandasíðu á YouTube.
Kvenréttindafélagið tryggði sér á árinu veffangið transfeminism.is og vinnur nú að gerð vefsíðu um trans réttindi og kvenréttindi á ensku.
Kvenréttindafélag Íslands er virkt á samfélagsmiðlum. Á Facebook er félagið með 6.548 vini og 6.623 fylgjendur og post reach uppá 36.400; 980 fylgja félaginu á Twitter; og 1086 fylgja félaginu á Instagram, sem er 30% aukning á milli ára.
Félagar í Kvenréttindafélagi Íslands
Heiðursfélagar í Kvenréttindafélagi Íslands voru Vigdís Finnbogadóttir, Sigríður Th. Erlendsdóttir og Björg Einarsdóttir árið 2022, en Sigríður og Björg féllu frá á árinu. Kvenréttindafélagið skrifaði minningargreinar um þær báðar og þakkar þeim kærlega fyrir allt sem þær hafa gert fyrir jafnrétti kynjanna á Íslandi. Félagar í árslok voru 735. Hér fyrir neðan má sjá þróun félaga síðustu ára: Kvenréttindafélög og önnur félög sem vinna að sambærilegum stefnumálum geta orðið aðildarfélög í Kvenréttindafélagi Íslands. Aðildarfélög Kvenréttindafélags Íslands eru átta; Druslubækur og doðrantar, Femínísk fjármál, Félag um Fjöruverðlaunin –bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi, Rótin og Samtök um Kvennaathvarf, Trans Ísland og W.O.M.E.N. in Iceland –Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi. Slagtog var gert að aðildarfélagi á aðalfundi árið 2022.
Við störfum í sátt við þjóðina og stefnum að sjálfbærum heimi







knúnum endurnýjanlegri orku


kvenréttindadag Gleðilegan

Jöfnum leikinn!
Á þessum degi fögnum við uppskeru þrotlausrar baráttu formæðra okkar fyrir jafnrétti. Með hugrekki sínu, eldmóð og staðfestu hafa íslenskar konur knúið fram breytingar sem hafa verið öðrum þjóðum til fyrirmyndar og fært okkur nær sönnu jafnrétti. Baráttunni er þó ekki lokið enn og er hún á ábyrgð okkar allra.