græjur ofl.
Um skotlínur, kosti þeirra og galla Skotlínum má í raun skipta gróflega í tvo flokka. Annars vegar línur sem eru samsettar úr skothaus og rennilínu með lykkjum og hins vegar línur þar sem skothausinn er áfastur rennilínunni. Þær fyrrnefndu hafa óneitanlega þann kost að hægt er að skipta um haus á fljótlegan hátt, smella undir sökkhaus þegar svo ber undir og spara með því aukaspólur á fluguhjólin. Samsettu línurnar eru einkum vinsælar á tvíhendur en í seinni tíð eru heilu skotlínurnar orðnar vinsælli á einhendur. Vinsældir skotlína hafa aukist mikið meðal íslenskra fluguveiðimanna síðustu árin. En skyldu skotlínur vera nýjung? Svarið við því er nei. Áratugir eru síðan veiðimenn fóru að skera niður skothausa og hnýta við nælongirni í þeim tilgangi að geta kastað lengra en með hefðbundnum flugulínum. Undirritaður minnist eldri veiðimanna sem stunduðu Sogið í „gamla daga“ og beittu heimatilbúnum skotlínum óspart til að ná vel út þar sem þeir stóru lágu. Gallinn við heimatilbúnu skotlínurnar var helstur sá að nælongirnið sem notað var sem rennilína („running line“) var óþjált, átti til að flækjast og þegar það gerðist var úr vöndu að ráða. Þá er rétt að geta þess að í þá daga voru „línuvísindi“ ekki orðin eins þróuð og í dag. Menn prófuðu sig áfram með línuþyngdir, höfðu hausinn langan í fyrstu en klipptu hann niður, fet fyrir fet þar til passleg þyngd var fundin.
Það má segja að skotlínur hafi fyrst náð almennum vinsældum þegar línuframleiðendur fóru að framleiða rennilínur með mjúkum kjarna og plastkápu. Rennilínurnar eru fáanlegar í nokkrum sverleikum; þær grennstu fyrir léttari línur en sverari rennilínur henta þyngri tvíhendulínum. En hvað gerir skotlínur svona vinsælar? Svarið við því er einfalt. Það er auðveldara að kasta með skotlínum, sér í lagi þegar kasta þarf langt. Skotlínur henta því vel byrjendum og þeim sem ekki teljast góðir kastarar. Hvað gerir skotlínur svo frábrugðnar hefðbundnari línum? Belgur / haus skotlínunnar er styttri og þyngri en belgur / haus hefðbundinna lína. Þyngdin liggur á tiltölulega stuttum kafla línunnar. Þetta gerir það að verkum að auðveldara er að kasta skotlínum ekki síst fyrir byrjendur og óvana kastara. En eru þá einhverjir gallar við skotlínur? Svarið við því er já. Vegna eðlis skotlínunnar, þ.e. hve stuttur og sver belgurinn / hausinn er trufla þær meira og eru því síður heppilegur valkostur þegar veitt er við viðkvæmari aðstæður, t.d. í litlu vatni.
Um langt árabil hefur verið boðið upp á þá þjónustu í Veiðihorninu að vigta skothausa og skera niður í passlegar þyngdir fyrir viðskiptavini. Þetta var þó mikilvægara fyrir nokkrum árum þegar úrval og framboð af skothausum var af skornari skammti. Línuframleiðendur á borð við RIO bjóða nú svo gott úrval af heilum og samsettum skotlínum að þess gerist vart þörf að standa í vigtun lína nema í undantekningartilfellum.
108 VEIÐISLÓÐ • tímarit um sportveiði og tengt efni • júlí 2011
Veiðihornið hefur á boðstólum nokkrar gerðir skotlína. Vinsælustu skotlínurnar fyrir einhendur eru án efa Outbound frá Rio og HMT frá Scierra. Báðar eru þessar línur heilar, þ.e. með áfastri rennilínu („running line“). Línurnar eru þó gjörólíkar þar sem Rio Outbound hefur stuttan, sveran og þungan belg / haus líkt og ýmsar af skandinavískum skotlínum sem hafa verið hér á markaði um lengri og skemmri tíma enda framleiðir Rio þær margar hverjar. Rio framleiðir einnig HMT línuna fyrir Scierra en HMT línan er hönnuð af Íslandsvininum Henrik Mortensen. Hausinn eða belgurinn á Scierra HMT línunni er nokkuð frábrugðinn Outbound að því leitinu til að hann er talsvert lengri og grennri og leggst því betur á vatn. Scierra HMT er því heppilegri til veiða í glæru og litlu vatni, við viðkvæmar aðstæður.
Veiðimönnum skal bent á að vanda val sitt á flugulínum því vel samsettur búnaður stangar, hjóls og línu skipti sköpum til þess að ná góðum árangri. Svo viss erum við um ágæti Scierra HMT og Rio Outbound flugulína að við bjóðum viðskiptavinum okkar að skila þessum línum gegn endurgreiðslu uppfylli þær ekki væntingar þeirra. Úr fróðleikshorni Veiðihornsins Ólafur Vigfússon