þriðjudagur 7. apríl 2020 // 15. tbl. // 41. árg.
60 // VÍKURFRÉTTIR Á SUÐURNESJUM Í 40 ÁR
Dagbók Sossu Þriðjudagur 7. apríl klukkan 6:30. Fábrotinn morgunverður, staðlaður morgunverður, AB mjólk, musli og bláber, kaffi, fullt af kaffi. Renni yfir dagblaðið og skauta framhjá neikvæðu fréttunum. Það er víst nóg af þeim. Ágætt að vera meðvitaður um ástandið en ekki að velta sér upp úr því. Loksins þokkalegt veður. Þessi vetur. Já, það er einhvern veginn enn vetur, hefur verið afskaplega, vægast sagt, erfiður. Ég opna kjallaradyrnar fyrir múraranum, þegar iðnaðarmenn mæta, mæta þeir snemma. Gaman af því hvað sumir iðnaðarmenn hafa mikla ánægju af myndlist. Þvottahúsið er í burðarliðnum. Kveð karlinn sem mætir við annan mann í Fisktækniskólann í Grindavík. Engir nemendur þar en fjarkennsla sem og í öðrum skólum. Ég á stefnumót við Svönu, vinkonu mína og göngufélaga, sem endranær rúmlega tíu. Við göngum okkar tíu kílómetra. Veðrið dásamlegt. Síbreyti-
legt útsýnið þó gengið sé sömu leiðir daglega. Birtan, fjöllin og sjórinn. Við virðum mátulega tveggja metra regluna enda næstum því hjón, hún og ég. Við ræðum allt milli himins og jarðar, allt frá bókmenntum í eldamennsku. Ekki margir á ferli, einn og einn. Hlaupari tekur fram úr okkur og aftur mátuleg fjarlægð. Köttur skýst upp úr fjörunni. Æðurinn úar. Já, fallegur dagur. Heima í hádeginu. Tékka á múrara, kaffi og með því. Fréttir og svo á vinnustofuna. Vinnustofan er ekki svipur hjá sjón. Þakið lekur, björgunaraðgerðir ekki alveg að virka. Drip, drip og útvarpið hækkað í botn. Gengur ágætlega með málverkið þó vinnustaðan sé ekki
mér að skapi. Nokkrir strigar grunnaðir, undirbúnir fyrir ódauðleg málverk ... Seinnipartur, meira kaffi. Múrari langt kominn og karlinn rennir í hlað.
Við reynum að fara ekki oft í búðir, kaupum meira í einu. Blómabúðin uppáhaldsbúðin. Dóttirin hringir frá Bandaríkjunum. Þar starfar hún sem bráðalæknir og við foreldrarnir eðlilega með áhyggjur af henni í ástandinu þar. Spjall í myndsíma. Innlit til hennar og barnabarna. Tengdadóttir hefur samband sömuleiðis og við spjöllum við nöfnu mína, hana Sossu í Hafnarfirði Fjarkennsla í litafræði. Amma heldur upp litatúbum og Sossa litla nær í samskonar liti sem hún hefur við hendina. Enn eitt fjarsímtal í mynd. Mbark, vinur okkar í Marrakesh.
Að öllu óbreyttu hefðum við verið þar yfir páskana. „Family good, Inshallah“ (ef guð lofar). Kvöldmatur, fréttir ... sófinn. Sjónvarp, bók, prjónar og tölvan. Já, maður getur gert marga hluti í einu. Hversdagurinn hjá mér hefur svo sem ekki mikið breyst. Rútínan nokkuð svipuð og venjulega á óvenjulegum tímum. Í rúmið fyrir miðnætti með bókina. Er núna að lesa Hvítt haf sem er sjálfstætt framhald af Hinir ósýnilegu. Vel skrifaðar bækur. Á morgun kemur vorið. Sossa Björnsdóttir.