þriðjudagur 7. apríl 2020 // 15. tbl. // 41. árg.
48 // VÍKURFRÉTTIR Á SUÐURNESJUM Í 40 ÁR
Páll Ketilsson pket@vf.is
Samúel Kári var í viðtali í Suðurnesjamagasíni Sjónvarps Vikurfrétta í janúar. Þar fer hann yfir ferilinn rétt áður en hann gerði samning við þýska liðið Paderborn.
Smelltu á myndskeiðið til að horfa og hlusta
Þakklátur að hafa kærustuna og fjölskylduna – Keflvíkingurinn Samúel Kári setur upp hanska og passar fjarlægð á veirutímum í Þýskalandi Keflvíkingurinn Samúel Kári Friðjónsson flutti til Þýskalands í upphafi árs þegar knattspyrnuliðið Paderborn, sem er í efstu deild Bundesligunnar, keypti hann. Samúel Kári var búinn að spila nokkra leiki með liðinu þegar COVID-19 stoppaði alla knattspyrnu. Víkurfréttir heyrðu í Samúel og spurðu hann út í stöðuna hjá honum á tímum veiru. Hvernig ert þú að upplifa ástandið í kringum COVID-19? Þetta hefur tekið á eins og hjá öllum öðrum í heiminum og finn ég til með þeim sem hafa greinst. Það erfitt að setja sig í aðstæður fólks sem hafa það allra verst. Hefurðu áhyggjur? Persónulega hef ég engar áhyggjur. Við vitum öll að þetta gengur yfir og við þurfum bara að klára þetta allt saman. Ef við förum rétt að þá fer allt að birta til. Hvaða áhrif hefur faraldurinn á þitt daglega líf? Við æfðum ekki neitt eftir að liðsfélagi minn greindist með veiruna. Þá voru allir sendir í sóttkví í fjórtán daga og tekin sýni um leið. Fyrsta æfingin var síðan í vikunni (7. apríl).
Ég hef reynt að setja daginn í rútínu og byrja alltaf á að fara í jóga með kærustunni minni, bæði á morgnana og seinnipartinn. Við „hittumst“ í „beinni“ á netinu í jógatímum. Inn á milli fer ég að hlaupa og geri styrktaræfingar sem allir fengu frá félaginu ásamt tækjum. En að sjálfsögðu hefur þetta áhrif á mig, sérstaklega þegar ég aleinn án kærustu og fjölskyldu. Þá er mjög erfitt. En ég er óendanlega þakklátur fyrir Hrund Skúladóttur kærastuna mína og fjölskylduna. Þau styðja mig alla daga. Hefur þú þurft að gera miklar breytingar varðandi þína vinnu? Nei og ég er rosalega þakklátur fyrir það. Hvenær fórstu að taka COVID-19 alvarlega?
Ég var á hóteli daginn fyrir leik gegn Dusseldorf og þá fyrst fóru yfirmenn að ræða við okkur að leiknum gæti verið frestað en þrátt fyrir það var ég samt meðvitaður um ástandið. Þá var það ekki komið eins langt og það er í dag. En ég verð að gefa Þjóðverjanum það að þeir hafa staðið sig frábærlega í þessu ástandi. Allir fylgja reglum eins og tölur sýna. Sjö, níu, þrettán. Hvernig ert þú að fara varlega? Ég passa mig mikið þegar ég fer úti búð. Þá er ég ávallt með hanska og reyni að halda fjarlægð. Annars er maður mikið heima og nær þess vegna að passa sig enn fremur. Hvernig finnst þér stjórnvöld standa sig í sóttvörnum? Þetta er allt upp á tíu, sérstaklega þar sem ég er. Gríðarlega góð vinna hjá
stjórnvöldum og hvað þá hjúkrunarfólki og læknum. Ég tek hattinn ofan fyrir þeim. Hvað finnst þér mikilvægast á þessum tímum? Að halda haus og jákvæðni, því einn daginn birtir til og þangað til er það mikilvægast. Er samkomubannið að hafa áhrif á þig? Ég ákvað að hætta lesa fréttir eins mikið og ég gerði og ég tel það vera það besta fyrir alla að gera. En heilt yfir hefur Ísland staðið sig með prýði og mun komast fljótt úr þessu. Hvernig hagar þú innkaupum í dag? Það eru menn frá félaginu sem fóru út í búð fyrir alla leikmenn á meðan sóttkví stóð yfir en núna fer ég sjálfur til þess að brjóta upp daginn minn. Reglan hér er að tveir mega fara út saman og
halda tveim metrum frá næsta þannig að þetta hefur þannig séð ekkert áhrif á mig. Ég væri alveg til í að geta farið út að borða og svona en það kemur vonandi bráðlega. Hvað gerir þú ráð fyrir að ástandið muni vara lengi? Það er góð spurnig en eins og er þá á að aflétta banninu þann 19. apríl hér. Hvort það verður gert eða ekki þá held eg að veiran muni lækka verulega eftir einn til þrjá mánuði. Þegar faraldurinn er yfirstaðinn, gerir þú ráð fyrir að ferðast innanlands eða utan? Ég get alltaf flogið heim og er mjög heppinn með það, það er ekki enn búið að taka ákvörðun með deildina (Bundesliguna) en sagt er að leikið verði 30. apríl. Ef henni verður frestað þá fer ég heim um leið.